Um liðsheild og eigin samvisku

Meðfylgjandi bréf var sent Eytló Harðardóttur 13. Desember síðastliðinn.

 

Komdu sæl, Eygló,

 

Ég gekk úr Framsóknarflokknum árið 1998 vegna þess að mér blöskraði hvernig Halldór Ásgrímsson lét hafa sig til að gerast taglhnýtingur Sjálfstæðisflokksins til óhæfuverka í sambandi við Öryrkjabandalag Íslands, Írak o.fl. Síðan átti þetta enn eftir að versna þegar Framsóknarþingmenn aðrir en Jón Kristjánsson greiddu atkvæði með Öryrkjadómslögunum á Alþingi í janúar 2001.

Eftir það kaus ég ekki Framsóknarflokkinn fyrr en vorið 2013. Var það fyrst og fremst vegna þess að þú varst í framboði í mínu kjördæmi og ég taldi þig og tel reyndar enn á meðal okkar frambærilegustu stjórnmálamanna. Ég hafði reyndar talað við þig í síma vegna tiltekins máls sem snertir atkvæðagreiðslur á Alþingi og þú varst ásamt Pétri Blöndal eini þingmaðurinn sem ræddi við mig af heilindum.

Þess vegna kom mér það gríðarlega á óvart að þú skyldir taka þátt í aðförinni að Ríkisútvarpinu, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur leitast við aftur og aftur að reita af því fjaðrirnar. Morgunblaðið hamast gegn Ríkisútvarpinu meira en nokkru sinni og skilur ekki mismuninn á því og einkareknum fjölmiðli sem er undir pilsfaldi soðningaríhaldsins, eins og Oddsteinn Friðriksson kallaði sjálfstæðismenn í Vestmannaeyjum.

Flestir sem ráðast nú að ríkisútvarpinu hafa ekki hugmynd eða litlar hugmyndir um hvað útvarp er og hvernig útvarpsefni er útbúið. Einnig virðist skorta mjög skilning á því hvað virkur samfélagsmiðill er.

Þeir vita heldur ekki eða vilja ekki vita hvað hlutlægni er heldur telja allt, sem þeim fellur ekki, bera vott um hlutdrægni. Þar er forsætisráðherra vor einna verstur og hagar sér hreinlega einatt eins og krakki!

Þú hefur tækifæri og þið framsóknarmenn til að sjá að ykkur í ýmsum málum og þar á meðal því máli að láta útvarpsgjaldið renna óskipt til stofnunarinnar. Ég man ekki betur en þið hafið á sínum tíma greitt því götu að stofnunin yrði gerð að opinberu hlutafélagi þótt hægt hefði verið a breyta lögum um útvarpið þannig að stofnunin hefði vissan aðgang að auglýsingamarkaðinum.

Ég held að öryrkjar, aldraðir og aðrir, sem standa höllum fæti í samfélaginu, eigi sér liðsmann þar sem þú ert. Ég vona að svo sé enn og að þú sjáir að þér í Ríkisútvarpsmálinu og farir fram með sjálfstæðar skoðanir. Nú hef ég ekki kannað aldur þinn, en sem Vestmannaeyingur mættirðu muna hvernig Ríkisútvarpið reyndist Vestmannaeyingumárin 1973-74. Hvaða einkarekinn miðill heldurðu að hefði staðið slíka vakt eða myndi gera það með jafnmiklum glæsibrag og Ríkisútvarpið gerði?

Ef þið greiðið götu Sjálfstæðisflokksins og ráðist að Ríkisútvarpinu verður það öðru sinni sem slíkt gerist. Fyrir rúmlega hálfri öld átti Ríkisútvarpið framkvæmdasjóð og stóð til að nota hann til byggingar útvarpshúss. Stjórnvöld fengu sjóðinn að láni og endurgreiddu aldrei.

Gangi þér allt í haginn í störfum þínu og hafðu samviskuna en ekki flokksforystuna að leiðarljósi. „Við spilum í sama liði“, sagði ung þingkona Framsóknarflokksins þegar flokkurinn tók þátt í aðförinni að Öryrkjabandalaginu árið 2001. Hún dansaði eftir höfðinu eins og limirnir. Þú hefur alla burði til að verða ekki eins.

 

Bestu kveðjur,

 Arnþór Helgason


Eru villur í nýrri uppfærslu Google Maps?

Leiðsagnarforrit eru vinsæl í snjallsímum. OVI-forritin frá Nokia voru og eru e.t.v. enn þau áreiðanlegustu á markaðinum, en sagt er að Google Maps fari óðum batnandi.

Notendur Android-síma hafa sjálfsagt orðið varir við að eftir að nýjasta uppfærslan barst í símana virðist Googlemaps ekki finna heimilisfang ef íslenskir stafir eru í götuheitinu. Þannig finnur forritið ekki Þórunnartún 2, Sörlaskjól 78 og Svöluás 21, en sé húsnúmerunum sleppt finnast göturnar. Þetta hefur síðan áhrif á forrit sem nýta sér Google Maps eins og WalkyTalky og Pointfinder sem eru sérstaklega hönnuð handa blindu fólki.

Garmin-forritin eru í sérflokki, en þau eru sennilega ekki aðgengileg fyrir Android-síma þótt því sé haldið fram að þau megi hala niður af Playstore. Hins vegar eru sagnir um að hægt sé að nota snjallsímana í tengslum við GPS-tæki með því að samtengja þau með blátönn.

Fróðlegt væri að fá athugasemdir við þennan pistil frá fróðu hugbúnaðarfólki eða notendum sem kunna skil á þessum efnum.


Óaðgengilegt snjajllsímaforrit Ríkisútvarpsins

Í þessu var nýmiðlastjóra Ríkisútvarpsins sent meðfylgjandi bréf.

 

Sæll, Ingólfur Bjarni,
Ég trúði ekki mínum eigin eyrum og fingrum áðan þegar ég lét vísifingurinn líða um hljóðan símaskjáinn.
Ég geri ráð fyrir að þú sem nýmiðlastjóri Ríkisútvarpsins sért ábyrgðarmaður smáforrits fyrir snjallsíma sem gefur sumu fólki aðgang að sarpinum. Ég segi sumu fólki því að blindir snjallsímanotendur eru undanþegnir.
Þegar smáforritið er ræst (gildir um Android-síma) kemur ekkert fram á skjánum, engir hnappar með heiti, en einhver hnappur með númeri sem setur tónlist í gang. Það gerist þó ekki fyrr en hamast hefur verið í blindni og er ómögulegt að slökkva á því aftur nema með því að endurræsa símann.

Hvernig í ósköpunum stendur á því að þið gleymið sí og æ þeim hópi fólks sem mest allra á undir því að útvarpið sé aðgengilegt?

Ég legg til að þetta smáforrit verði tekið af markaðinum þangað til aðgengið hefur verið lagfært og býðst til að veita þessari fjársveltu stofnun ókeypis ráðgjöf.

Bestu kveðjur,
                   
Arnþór Helgason
arnthor.helgason@gmail.com
Farsími: 8973766


Maðurinn sem stal sjálfum sér - sérstætt meistaraverk

Gísli Pálsson, mannfræðingur og prófessor, hefur ritað ævisöguna Hans Jónatan, maðurinn sem stal sjálfum sér. Fjallar hann þar um ævi þessa manns, sem fæddist árið 1882 á karabískri eyju sem Danir höfðu keypt af Frökkum og notuðu til sykurframleiðslu. Sykurinn framleiddu ánauðugir menn og var Hans Jónatan ambáttarsonur, en faðir hans var ritari húsbónda hans.

Ævi Hans Jónatans er með ólíkindum. Hann barst til Kaupmannahafnar, tók þátt í orrustunni á skipalaginu við Kaupmannahöfn árið 1801, hinum svonefnda skírdagsslag og gat sér gott orð. Þar sem hann hafði strokið frá úsmóður sinni (stolið sjálfum sér eins og verjandi hans orðaði það) var hann dæmdur eign hennar. En hann gaf sig ekki fram heldur fór til Íslands.

Í bókinni eru raktar þær heimildir sem til eru um Hans Jónatan og seilst víða til fanga. Gísli hefur grafið upp ýmislegt með þrautseigju sinni og eljusemi og er með ólíkindum hvernig honum tekst að tengja efnið saman.

Bókin er nokkuð mörkuð af störfum hans sem kennara á sviði mannfræði. Iðulega varpar hann fram spurningum sem hann svarar iðulega fljótt og vel, en sumar hanga í loftinu og birtast svörin síðar. Lengir þetta að vísu frásögnina en gefur bókinni þokkafullan blæ og einkar persónulegan.

Bókin er ádrepa á hið tvöfalda siðferði sem þrælahaldarar allra tíma iðka og jafnvel vér nútímamenn sem skirrumst ekki við að kaupa varning sem vitað er að framleiddur sé af þrælum.

Gísli miðlar óspart af yfirburða þekkingu sinni á efninu, enda hefur honum verið hugleikið efni, sem snertir þrælahald og þróun þess.

Bókin er jöfnum höndum ævisaga, margofin samtímasaga, hugleiðingar um tengsl, þróun, samskipti og örlög, margs konar tilfinningar og hugrenningar sem lesandanum virðist sem beri höfundinn næstum ofurliði á stundum. Gísli skirrist ekki við að taka afstöðu til efnisins um leið og hann leggur hlutlægt mat á ýmislegt sem varðar þá sögu sem greind er í bókinni.

Ævisaga Hans Jónatans er einkar lipurlega skrifuð, málfarið fallegt, en fyrst og fremst eðlilegt. Virðing Gísla fyrir viðfangsefninu er mikil. Hann hefur unnið bókina í samvinnu við fjölda ættingja Hans Jónatans, fræðimenn á ýmsum sviðum og í nokkrum löndum.

Ævisaga Hans Jónatans er verðugur minnisvarði um manninn frá Vestur-Indíum sem Íslendingar tóku vel og báru virðingu fyrir, manninn sem setti mark sitt á heilt þorp og mikinn ættboga, þótt þrælborinn væri, mann sem samtíðarmenn hans á Íslandi lögðu ekki mat kynþáttahyggju á.

Pistilshöfundi er enn minnisstætt þegar ungur piltur frá Bandaríkjunum, dökkur á hörund, gerðist sjálfboðaliði á Blindrabókasafni Íslands. Ég hafði orð á því við hann að mér væri tjáð að hann væri þeldökkur. „Það var leitt,“ sagði hann á sinni góðu íslensku. „Þá finnst þér sjálfsagt lítið til mín koma.“ Mér varð hverft við og vildi vita hvers vegna hann segði þetta. „Vegna þess að Íslendingar amast sumir við mér,“ svaraði hann. Þegar ég innti hann nánar eftir þessu svaraði hann því að flestir tækju sér vel og vildu allt fyrir sig gera. En aðrir sendu sé tóninn á götum úti „og gelta jafnvel á eftir mér“.

Þá sagði ég honum að ástæða þess að ég spyrði væri Hans Jónatan, en mig fýsti að vita hvort hann vissi eitthvað um forfeður sína. Upp frá þessu ræddum við talsvert um þær áskoranir sem bíða þeirra sem eru ekki steyptir í sama mót og hin svokallaða heild.

Gísli Pálsson man ef til vill atburð sem varð á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum einhvern tíma upp úr 1960. Um það leyti var afrískur maður í bænum einhverra erinda. Vestmannaeyingur nokkur, sem ekki skal nefndur hér, sá ástæðu til að veitast að honum og veita honum áverka. Varð sá atburður illa þokkaður í bænum.

 

Gísla Pálssyni og afkomendum Hans Jónatans er óskað til hamingju með þennan merka minnisvarða sem Hans Jónatan hefur verið gerður.

 


Morgunblaðið tekur til varna

Þegar Öryrkjabandalag Íslands átti í sem mestum átökum við ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks skipaði Morgunblaðið sér á bekk með Öryrkjabandalagi Íslands. Því báru vitni nokkrir leiðarar blaðsins.

Enn skrifar ritstjóri Morgunblaðsins leiðara til stuðnings Öryrkjabandalagi Íslands og réttindum fatlaðra.

 

“Íslensk stjórnvöld undirrituðu sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2007. Undirskrift jafngildir skuldbindingu um að virða réttindin, sem kveðið er á um í sáttmálanum og ganga ekki gegn honum. Samningurinn hefur hins vegar ekki verið innleiddur hér á landi fyrr en hann hefur verið fullgiltur eða lögfestur.

Öryrkjabandalag Íslands hélt í fyrradag ráðstefnu undir yfirskriftinni Mannréttindi fyrir alla. Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins, segir mikilvægt að samningurinn verði lögfestur. Stjórnvöld hafi ætlað að festa samninginn í lög í fyrra, síðan á þessu ári, en nú hafi því verið frestað til næsta árs.

Ellen tekur í samtali í Morgunblaðinu í gær túlkaþjónustu sem dæmi um að réttindi fatlaðra séu ekki tryggð. Nánast sé árvisst að heyrnarlausir fái ekki túlkaþjónustu þegar líður á haust vegna þess að opinberar fjárveitingar séu uppurnar. Hún telur að innleiðing myndi breyta þessu.

Barátta fatlaðra fyrir réttindum sínum hefur verið löng og ströng. Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra gegnir lykilhlutverki í að knýja fram viðhorfsbreytingu þannig að hætt verði að líta á fatlaða sem málstað fyrir góðgerðarstofnanir og verkefni fyrir heilbrigðis- og félagsþjónustu og tryggt verði að þeir njóti sannmælis sem fullgildir þjóðfélagsþegnar og búi við þau réttindi sem því fylgja.

Undirritun sáttmála Sameinuðu þjóðanna var mikilvæg og nú er rétt að stíga skrefið til fulls með því að fullgilda hann.”


Það sýður á almenningi

Ástæða er til að hafa áhyggjur af siðferði stjórnmálamanna hér á landi hvar sem þeir eru í flokki. Þyngstan dóm fá þó núverandi og fyrrverandi stjórnarflokkar.

Síðustu atburðir sýna svo að vart verður um villst að menn eru enn við sama heygarðshornið og hafa ekkert lært af hruninu og skýrslu Alþingis. Forstöðumenn ríkisstjórnarinnar hafa virðingu Alþingis að engu í stað þess að fresta áður boðuðum fundi.

Innanríkisráðherra, sem áður fór einnig með dómsmál, hyggst sitja áfram og nýtur til þess stuðnings formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra. Þótt vissulega sé dýrmætt að meintur sökudólgur hafi játað sök, leysir það ráðherrann ekki frá þeirri ábyrgð sem hún ber. Þótt hún telji að hún hefði átt að fara öðruvísi að er ábyrgðin enn hin sama.

Aðdragandi kosninganna árið 2012 var með ólíkindum. Þá lét Hanna Birna gera skoðanakannanir um fylgi sitt og Bjarna Benediktssonar. Þá voru nöfn stuðningsmanna hennar nefnd, sem aðstoðuðu við þetta tiltæki.

Þegar lekamálið hófst brást ráðherra við með ásökunum um pólitískar ofsóknir, dró rannsóknaraðferðir lögreglunnar í efa og veittist að umboðsmanni Alþingis. Ýmislegt bendir jafnvel til að hún hafi ekki sagt allan sannleikann um samskipti sín og fyrrum lögreglustjórans í Reykjavík. Þá fengu blaðamenn DV og annarra fjölmiðla á baukinn og Morgunblaðið tók jafnvel þátt í þeim leik.

Nú slá þeir Bjarni og Sigmundur skjaldborg um ráðherrann og forsætisráðherra lætur jafnvel hafa eftir sér að menn viti við hverju megi búast frá umboðsmanni Alþingis. Þannig er reynt að varpa rýrð á þetta mikilvæga eftirlitsembætti.

Það sýður á almenningi vegna þessa máls. Orð og athafnir ráðherranna gætu orðið til þess að upp úr syði. Þegar fólk hefur málað sig út í horn brestur það einatt dómgreind til að sjá að hverju stefnir. Það hafa flestir reynt á eigin skinni. Ætli innanríkisráðherra sér að eiga pólitíska framtíð síðar á ævinni hlýtur hún að afsala sér ráðherrastöðu og jafnvel þingmennsku. Þá yrði reisn hennar nokkur.

 


mbl.is Sigmundur sakaður um óvirðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr klarinettukonsert Sveins Lúðvíks Björnssonar

Nú er nýlokið frumflutningi Einars Jóhannessonar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands á klarinetukonsert eftir Svein Lúðvík Björnsson. Stjórnandi var Rumon Gamba. Sagt er að tónverkið fjalli um fjötra og frelsi.

Sveinn Lúðvík er prúðmenni með talsvert skap. Þetta kemur einkar vel fram í verkinu.

Konsertinn hefst með mildu klarinettustefi, en hljómsveitin lemur frá sér öðru hverju. Síðan snýst verkið upp í pirringslegan ofsa þar sem reynir mjög á einleikarann. Örvæntingin birtist ef til vill í ómstríðum samhljómum þar sem klarinettur og flauta skarast svo að myndast millitónar sem æpa á hlustandann. Á tímabili mætti halda að ragnarök væru í nánd.

En tónverkið kyrrist, tónskáldið finnur sjálft sig og lærir að lifa við orðinn hlut þar sem það nýtur frelsis til athafna.

 

Ástæða er til að óska Sveini Lúðvík Björnssyni til hamingju með verkið og Einari með glæsilegan flutning.

 

Í morgun barst mér bréf frá Hrafni Baldurssyni þar sem hann telur til frændsemi þeirra Önnu Maríu Sveinsdóttur, eiginkonu sinnar og Sveins Lúðvíks, en hann er kominn af Hans Jónatan í beinan karllegg.

 

"Hans Gram, danskur ritari á st.Croix og seinna tónlistarmaður í Boston.

Hans Jónatan um tíma faktor á Djúpavogi. Viðfang Gísla Pálssonar í nýútkominni bók.

Lúðvík Stefán,

Lúðvík Lúðvíksson bóndi á Karlsstöðum og langafi Maju.

Jón Kristján Lúðvíksson,

Björn Emil Jónsson,

Sveinn Lúðvík Björnsson.

 

Af þessu sést að Sveinn Lúðvík á til tónlistarmanna að telja - tónlistarmanns í Boston og Hans Jónatans sem lék á fiðlu.


Nýi Landsspítalinn á Vífilsstaði og sjúkraflug til Kefvalíkur

Sjálfsagt er hægt að höggva á þennan hnút með augljósum hætti. Nú hefur Bjarni Benediktsson sagt að nýr landsspítali verði reistur. Þar sem miðja höfuðborgarsvæðisins hefur flust suður á bóginn er rétt að nýi Landsspítalinn verði settur niður á Vífilsstöðum. Með því fæst þrennt:

1. Spítalinn flyst nær miðjunni.

2. Keflavíkurflugvöllur verður fýsilegur kostur.

3. Hægt verður að þétta byggðina í Reykjavík með því að byggja íbúðar- og atvinnuhúsnæði í Vatnsmýrinni.


mbl.is Þjóðin ákveði framtíð flugvallarins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannleikurinn er oftast sagna bestur

Það er athyglisvert, þetta viðtal Guðna Einarssonar við Ágúst Þór Árnason, en í lok þess kemur fram að EES hafi í raun stöðvað viðræður við Íslendinga um aðild að bandalaginu og ljóst hafi verið haustið 2012 að þýðingarlítið yrði að halda þeim áfram, þar sem rýniskýrsla um sjávarútvegskaflann var þá ekki komin fram.

Hver sá, sem heldur að hægt sé að kjósa um áframhaldandi viðræður, ætti að lesa þetta viðtal og kafa síðan ögn ofan í gögn málsins.


mbl.is Strandaði á sjávarútvegskafla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stafar vandinn af skammsýni alþingismanna?

Vanda Ríkisútvarpsins má rekja til stefnu stjórnvalda, en undanfarna þrjá áratugi hafa staðið yfir stöðugar árásir á stofnunina, einkum að hálfu Sjálfstæðisflokksins. Morgunblaðið, svo að dæmi sé tekið, skrifar ekki rökstudda leiðara með tillögum um úrbætur hjá Ríkisútvarpinu, heldur hatursfullar áróðursleiðara gegn því og starfsfólki þess.

Það molnar nú stöðugt undan stoðum samfélagsins á Íslandi. Margir spáðu illa fyrir ohf-væðingu Ríkisútvarpsins á sínum tíma, sem átti m.a. Að leiða til þess að stofnunin yrði gjaldgeng á samkeppnismarkaði. En þeim málum hefði auðveldlega mátt koma fyrir með öðru móti. Nú er svo komið að Alþingi verður að láta Ríkisútvarpið njóta tekjustofna sinna að fullu í stað þess að rýra þá með því að ráðstafa þeim til annarra verkefna og lækka útvarpsgjaldið.

Það fer hrollur um marga þega nú heyrast raddir um að skilgreina þurfi að nýju hlutverk stofnunarinnar. Ætlar hin kalda hönd einkavæðingarinnar að hrifsa þessa stofnun til sín eða eyðileggja hana og afhenda einkavættu síbyljustöðvunum hluta kökunnar, sem þær hafa nú þegar fengið?

 


mbl.is Lánagreiðslur RÚV 593 millj. á ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband