Í Morgunblaðinu í dag er frétt um að Öryrkjabandalag Íslands hafi fagnað því í gær að hafa flutt í nýtt húsnæði við Sigtún í Reykjavík. Húsnæðið var keypt fyrir arf sem bandalagið hlaut eftir Ólaf Gísla Björnsson.
Ólafur Gísli lést árið 2002 og arfleiddi Öryrkjabandalagið af nokkrum tugum milljóna króna auk tveggja íbúða. Það kom öllum í opna skjöldu að þessi fatlaði blaðburðarmaður skyldi hafa stefnt að því alla sína starfsævi að styrkja heildarsamtök fatlaðra með þessum hætti.
Ég hlýt að velta fyrir mér hvort fjármunum Ólafs Gísla sé vel varið með þessum húsnæðiskaupum. Sjálfum finnst mér sem stjórn og starfsfólk Öryrkjabandalagsins hafi með þessum ráðstöfunum forðað sér frá nábýli við nokkurn hluta skjólstæðinga bandalagsins. Er þetta kannski einn anginn af þeim meiði að þora ekki að takast á við raunveruleikann? Skyldi næsta skref verða að breyta nafni Öryrkjabandalags Íslands í eitthvað annað? Nú er Styrktarfélag vangefinna ekki til, heitir nú Styrktarfélagið Ás og Hússjóður Öryrkjabandalagsins heitir nú Brynja. Fagfólk hefu þvingað orðinu punktaletri upp á blint fólk sem hafði vanist orðinu blindraletur o.s.frv.
Niðurstaðan hlýtur að vera sú að Öryrkjabandalag Íslands hafi nú fjarlægst umbjóðendur sína.
Stjórnmál og samfélag | 27.9.2014 | 18:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eva Þórarinsdóttir kom, sá, sigraði og heillaði áheyrendur á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands 25. september þar sem hún flutti Fiðlukonsert nr. 1 í g-moll (186468) eftir Max Bruch. Leikurinn var einhvern veginn í fullu samræmi við innihald verksins sem er einkar vel úr garði gert fyrir sinfóníuhljómsveit og einleikara, svo að hljómsveitin kæfir hann aldrei. Hljómsveitarstjóri var Lionel Bringuier.
Ekki fer hjá því að áheyrendur átti sig á skyldleika fiðlukonserta Bruchs og Brahms, en sá síðar nefndi samdi sinn konsert 10 árum síðar. Þeir Brahms og Bruch sömdu konserta sína báðir fyrir ungverska fiðlusnillinginn Joseph Joachim, sem gaf höfundunum góð ráð og hjálpaði Bruch að koma konsertinum í endanlegt form. Hann frumflutti konsertinn í Bremen í janúar 1868 og lét þau orð falla um verkið að það væri mest hrífandi fiðlukonsert sem hann þekkti til segir Árni Heimir Ingólfsson í efnisskrá tónleikanna sem er einkar vel samin.
Eftir hlé var 5. sinfónía Gústavs Mahlers flutt. Sinfónían, sem er í 5 þáttum, hefst á eins konar útfararmarsi, en tónskáldið var haldið mikilli dauðahræðslu um það leyti sem sinfónían var samin. Framvinda verksins er með eindæmum og kemur áheyrandanum stöðugt á óvart. Margs konar stílbrigði flækjast þar hvert innan um annað, valsar, ýmiss konar léttmeti og háalvarleg stef sálarnærandi hrærigrautur. Endirinn er hressandi og glaðlegur, enda lifði Mahler sinfóníuna af.
Undirritaður áttaði sig á því að sinfónían hefur orðið ýmsum innblástur. Þekktastur hér á landi er ástarsöngur Ragnheiðar og Daða í óperu þeirra Gunnars Þórðarsonar og Friðriks Erlingssonar, enda hafði einn gagnrýnandi óperunnar orð á að Gunnar kynni sinn Mahler. Þá má geta þess að í lokaþætti kínversku byltingarsinfóníunnar Shajiabang, sem var samin snemma á 7. áratug síðustu aldar og endurskoðuð 1970, mótar vissulega fyrir mahlerskum áhrifum í lokaþætti verksins. Hún á það reyndar sameiginlegt að vera samin fyrir sinfóníuhljómsveit og kór eins og flestar sinfóníur Mahlers. Einsöngvarar í Shajiabang syngja að hætti Pekingóperusöngvara.
Túlkun hljómsveitar og hljómsveitarstjórans var hrífandi. Stundum óskaði undirritaður þess að strengjasveit hljómsveitarinnar væri ögn fjölmennari, en jafnvægið var samt með ágætum. Ekki spillti dásemdarhljómur Eldborgar fyrir flutningnum.
Tónlist | 26.9.2014 | 17:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég get ekki orða bundist vegna einstæðra tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands fimmtudaginn 11. september.
Hámarki náðu þeir fyrir hlé er hljómsveitin flutti ásamt Víkingi Heiðari Ólafssyni fyrsta píanókonsert Beethovens sem var saminn árið 1801. Ég hef oft heyrt þennan konsert áður en aldrei í slíkum flutningi. Víkingur Heiðar lék þá kadensu sem Beethoven skrifaði fyrir píanóleikarann, þá þriðju við þennan konsert og þá lengstu. Nú er höfundur þessa pistils svo heppinn að sitja á 8. bekk eða 5 bekkjum frá sviðinu og nokkurn veginn fyrir miðju. Píanókonsertinn er ekki með þunga hljóma eins og sum nýrri verk. Ég heyrði hvernig tónarnir þyrluðust um hljóðfærið, fram og aftur, aftur og fram og stundum í einni alls herjar bendu! Hvílík upplifun! Sálin hvarf úr líkamanum og sveimaði um nokkurt skeið frjáls um eldborgina á meðan Víkingur Heiðar þyrlaði hljómunum um hljóðfærið Við upphaf 2. kafla konsertsins lenti hún mjúklega og skreið á sinn stað, en unaðurinn hélt áfram. .
Ég sagði Víkingi Heiðari að ég hefði velt fyrir mér hvort flyglar, smíðaðir um 1800, hefðu þolað þennan rokna flutning og taldi hann það af og frá.
Víkingur Heiðar lék á allar þær tilfinningar sem hrifning getur laðað fram og hljómsveitin og Pieter Inkinen, hljómsveitarstjóri stóðu sig með stakri prýði.
Það var sem hljómurinn í Eldborg væri meiri en oft áður og velti ég fyrir mér hvort breytt hefði verið um stillingu á salnum.
Sem sagt: unaðsleg upplifun!
Stjórnmál og samfélag | 14.9.2014 | 15:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Leikritið Lífshætta eftir Þóreyju Sigþórsdóttur, sem Útvarpsleikhúsið flutti í dag, er á meðal hins besta sem flutt hefur verið af íslensku efni um árabil í raun meistaraverk.
Hljóðumgjörðin í skipsklefanum var mjög áhrifarík niðurinn frá skipsvélinni og yfirtónar sem vitnuðu um hugarástand kvennanna.
Þótt greina mætti að Salóme, sem Jakobína Sigurðardóttir las úr smásögu sinni í útvarp fyrir rúmum 30 árum, væri hluti útvarpslestrar, truflaði það ekki á nokkurn hátt. Þórey spann þetta svo að úr varð ein samfelld heild.
Hið sama má segja um vinkonurnar í einbýlishúsinu. Þar var að vísu nokkuð um klifun, en hún jók aðeins á áhrifamátt frásagnarinnar. Þotuhljóðin voru sum dálítið skrýtin, en ekki verður fettur fingur út í þau.
Dómur undirritaðs er sá að hér sé um meistarasmíð fyrir útvarp að ræða. Til hamingju, Þórey og aðrir aðstandendur.
Íþróttir | 7.9.2014 | 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þá er fullyrt í greininni að orkugeirinn geti skilað mun meiri arði með því að selja orkuna úr landi í stað þess að selja hana álverum.
Nú er ljóst að ekki er of mikið til að virkja sem hagkvæmt getur talist og leiddar voru að því líkur í Morgunblaðinu í grein sem nefnist "Kapallinn gengur ekki upp" að ýmislegt valdi því að jafnlangir sæstrengir og Íslendingar þurfa til útflutnings séu ekki hagkvæmir í rekstri. En Gylfi hefði þurft að styðja þessa fullyrðingu sína um útflutning orku. Hugsar hann sér að álverin verði lögð niður og sú orka, sem runnið hefur þangað, verði seld yfir Atlantsála? Er skýringin þá e.t.v. sú að Íslendingar hefðu þá betri stjórn á verðmynduninni?
Stjórnmál og samfélag | 4.9.2014 | 17:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Að þessu sinni voru flytjendur Bjarni Thor Kristinsson, stjórnandi tónleikanna, Lilja Guðmundsdóttir, sópran og Ástríður Alda Sigurðardóttir, hinn snjalli slaghörppuleikari. Tónleikana sóttu bæði Íslendingar og erlendir gestir. Flytjendum var fagnað innilega enda hreyfði dagskráin við mörgum – lögin fjölbreytt og kynningar afar vandaðar.
Vinsælastur var Sigvaldi Kaldalóns, en eftir hann voru sungin fjögur lög. Selma dóttir hans átti þar einnig snoturt lag við kvæðið Eyrarrósina.
Stjórnmál og samfélag | 30.8.2014 | 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Pistill dagsins fjallar um gagnið af vitleysunni.
Blint fólk með hvítan staf er svo sjaldgæft vestast í Reykjavík að börn reka upp stór augu og horfa á það eins og naut á nývirki (eða kálfar á kengúru).
Í dag var ég á leið frá vinnu. Hélt ég eftir Framnesvegi um Aflagranda og göngustíginn, sem liggur fram með KR-vellinum. Varð þá á vegi mínum heilmikið strákastóð með kennara sínum eða þjálfara.
Sérðu mig alls ekki! spurði einn og játti ég því. Ertu þá ekki með GPS-tæki? spurði annar. Játti ég því einnig.
Ég get ekki að því gert að brosa út undir eyru þegar ég hitti svona skemmtilegt og áhugasamt krakkastóð og það veit svo sannarlega sínu viti. Ég fræddi stóðið hins vegar ekkert um hvað það getur verið varasamt að fylgja leiðbeiningum göngukortsins frá Google sem miðast fyrst og fremst við akstursstefnu, a.m.k. Þegar lagt er af stað. Verður hér nefnt dæmi:
Þegar ég held frá Tjarnarbóli 14 er mér bent á að halda austur Nesveginn yfir Kaplaskjólsveg, fara inn á Gústafsgötu (hvar sem hún er nú), út á Hofsvalla götu og Guð veit hvert þangað til ég ætti að álpast inn á Hringbraut. Þar á ég að halda í vestur, fara kringum eyju og þannig að JL-húsinu.
Taki ég nú ekki mark á þessu, eins og ég geri aldrei, heldur fari um Grænumýri og Frostaskjól yfir á Aflagranda tilkynnir leiðsögnin mér að ég eigi að beygja til hægri á Grandavegi að Meistaravöllum í stað þess að halda beint áfram og síðan til vinstri.
Lokavitleysan er svo eftir. Þegar ég hef gengið 50 metra eftir Hringbrautinni meðfram JL-húsinu er mér bent á að snúa við.
Gagnið er þó það að í allri vitleysunni eru nefnd kennileyti og staðsetning sem kemur sér vel, fari ég villur vegar.
Stjórnmál og samfélag | 25.8.2014 | 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á morgun verður háð hið árlega Reykjavíkurhlaup. Keppt er í ýmsum flokkum, svo sem maraþoni, hálfmaraþoni og ýmiss konar skemmtiskokki. Þetta er mikill atburður sem fjöldi fólks tekur þátt í. Enn fleiri eru þeir sem fylgjast með og hvetja menn til dáða.
Fjölmargir hlaupa til styrktar tilteknu málefni, einstaklingi eða samtökum. Flest félög fatlaðra eiga sér þar stuðningsmenn.
Af einhverjum ástæðum eru hagsmunafélög fatlaðra svo sem Blindrafélagið, Félag heyrnarlausra, Sjálfsbjörg o.s.frv. Flokkuð sem góðgerðarsamtök af skipuleggjendum hlaupsins. Skýringin er sögð sú að það sé vænlegra til árangurs.
Varla verður því trúað að Efling, Alþýðusamband Íslands, BSRB og önnur samtök launafólks verði talin til góðgerðarfélaga.
Í þessari skilgreiningu er fólgin ótrúleg lítilsvirðing í garð fatlaðs fólks sem erfitt er að sætta sig við. Með þessari skilgreiningu eru jafnframt leiddar líkur að því að barátta þessara félaga sé undir góðvild almennings komin að Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp séu heildarsamtök betlara.
Formenn þessara samtaka, sem hvorugur er fatlaður, eiga að grípa til aðgerða til þess að breyta þessum viðhorfum. Hagsmunasamtök fatlaðra eiga ekki að ljá meintri aumingagæsku stuðning sinn með því að bendla þau við góðgerðarsamtök. Þau eru hagsmuna- og baráttusamtök.
Stjórnmál og samfélag | 22.8.2014 | 07:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Árið 1999 var útvarpað þættinum Vinnuslys á sjó. Í lok þáttarins var rætt við Guðmund Hallvarðsson, þingmann og sægarp. Hafði hann stór orð um nauðsyn þess að íslensk skip yrðu skráð hér á landi. Nú er við völd ríkisstjórn sem vill gera sem flest fyrir atvinnuveitendur. Hefur komið til tals að breyta umhverfi hérlendis í þá átt að laða íslensk kaupskip hingað til skráningar?
Er eitthvað sem sjómenn hafa á móti því?
Æ fleiri sjá það nú í hendi sér hversu skaðlegur EES-samningurinn hefur verið að mörgu leyti. Það er afleitt að leið tvíhliða samninga skyldi ekki hafa verið farin á sínum tíma.
Vilja skrá skipin á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 19.8.2014 | 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Samúel Jón Samúelsson og stórsveit hans eiga sér marga aðdáendur. Þar er fjöldi blásara, trumbuslagara auk manna sem leika á gítar og bassa.
Ég hef nokkrum sinnum heyrt sveitina leika á tónleikum af mikilli fimi og lipurð - jafnvel innlifun. Einn galli hefur verið á gjöf Njarðar - ærandi hávaði.
Hvers vegna í ósköpum þarf að magna upp blásturshljóðfærin og slagverkið svo að hljómurinn afskræmist? Við hjónakornin áttum leið í Hörpu í dag að sækja miða á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands og þar lék stórsveitin í anddyrinu. Allt ætlaði um koll að keyra og við forðuðum okkur áður en við ærðumst eða fengjum hljóðverk.
Árið 2011 var efnt til afmælishljómleika í Hörpu að heiðra minningu Oddgeirs Kristjánssonar. Þá fengu menn að heyra hvað húsið bar hljóm órafmagnaðrar lúðrasveitar vel.
Í vetur voru hljómleikar til minningar um Ása í bæ, einnig í hörpu. Í lok þeirra voru útsetningar fyrir hljómsveitarundirleik og lúðrasveit. Þá þótti ástæða til að magna allt saman upp og úr varð hálfgerður óskapnaður.
Í sjötugs afmæli Þóris Baldurssonar var enn hið sama upp á teningnum. Hann lék á Hammondorgelið sitt, ágætir trymblar börðu bumbur og Stórsveit Reykjavíkur lék með. Yfirleitt var tónlistin of hátt stillt og á köflum varð hljóðblöndunin alger óskapnaður.
Ætli Samúel Jón Samúelsson og fleiri geri sér ekki grein fyrir að með þessum hávaða er verið að eyðileggja tónlistarheyrn fólks, eða er hávaðinn hluti listarinnar? Spyr sá sem ekki veit, en úr þessu verður alls herjar tónverkur.
Stjórnmál og samfélag | 15.8.2014 | 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 11
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar