Ómar og Lára stikla um Vopnafjörð - gömul minning

Það er einatt ánægjulegt að fylgjast með stiklum þeirra Ómars Ragnarssonar og láru dóttur hans.
Í kvöld greindi hann frá samskiptum sínum við Stefán Ásbjarnarson á Guðmundarstöðum í Vopnafirði.
Ýmislegt var sagt um Stefán, þar á meðal að hann hefði flutt hey í hlöðu á bróður sínum og sitthvað fleira.

Þann 30. júní 1967, á 59. afmælisdegi móður okkar, sóttum við bræður ásamt mömmu og Magnúsi sigurðssyni, skólastjóra, heim Jón í Möðrudal og spiluðum við Jón hvor fyrir annan á hið sérkennilega falska orgel, sem er í kirkjunni sem Jón byggði til minningar um eiginkonu sína. Þetta hljóðrituðum við og er snældan enn til.
Þegar til Vopnafjarðar kom var farið að undirbúa skemmtun, en við söfnuðum þá fé fyrir Hjálparsjóð æskufólks á vegum Magnúsar.
Að skemmtuninni lokinni hófst dansleikur í félagsheimilinu. Ég kom mér fyrir utan við danssalinn og ræddi þar við ýmsa. Þar kom Stefán Ásbjarnarson og tók mig tali, 15 ára unglinginn. Varð okkur býsna skrafdrjúgt og er mér enn í fersku minni hvað mér þótti maðurinn snjall sagnamaður og lýsingar hans á ýmsu, svo sem skaplyndi Jóns í Möðrudal og lauk hann upp fyrir mér ýmsu úr ævi þessa merka manns.
Fór hann m.a. með kveðskap eftir Jón sem mig minnir að hafi verið í betra lagi og sitthvað fleira sagði hann mér.
Í kvöld rifjaðist þessi stund upp.

Að undanförnu hefur Ríkissjónvarpið sýnt nokkur gömul viðtöl. Þótt myndböndin séu einungis um tveggja áratuga gömul er talið þegar orðið bjagað og svo var um þau fáu brot sem heyrðust úr viðtali Ómars við þau Stefán og konuna sem fóstraði þá bræður megnið af ævi sinni.


Hverjir ógna hverjum?

Nú er talsvert fjaðrafok í fjölmiðlum vegna þess að hin svokallaða 5G-bylting er í nánd, en þessi nýja fjarskiptatækni á eftir að gjörbylta lífi fólks á ýmsum sviðum.
Prófanir á kerfinu hafa staðið yfir víða. Sem dæmi má nefna að Kia Motors létu tilraunabíla aka með 5G leiðsögukerfi um 190 km. leið um það leyti sem vetrarólimtíuleikarnir hófust í fyrra. Reyndist það býsna vel.
Fjaðrafokið stafar að því að kínversk fjarskiptafyrirtæki eins og Huawei hafa nú náð talsverðri forystu í tækninni sem að baki 5Gleynist. Óttast ýmsir að kínversk stjórnvöld geti beitt þessum fjarskiptabúnaði ef til átaka kemur.

Því skal spurt:
Eru bandarísk fjarskiptafyrirtæki eitthvað skárri?
Lét Google ekki bandarískum yfirvöldum í té upplýsingar um kínverska notendur sem notuðu gmail?
Fleiri spurninga mætti spyrja. En niðurstaðan verður ætíð sú að hver og einn hugsar um sinn hag og eigin hagsmuni. Bandaríkin eru þar ekki til neinnar fyrirmyndar.

Fyrst þegar 5G var kynnt til sögunnar sáu menn ýmsar leiðir til að efla margs kyns fjarskipti og horfðu þá m.a. til Afríku. Talið er að kerfið muni m.a. gera ljósleiðaralagnir óþarfar í álfunni og spara þannig mikla fjármuni.
Miklir fjármunir eru í húfi og Bandaríkjamenn ætla sér svo sannarlega að hrifsa sína sneið af kökunni.


Til hvers eru hagfræðingar, spurði Mao formaður árið 1958

Það er eitthvað að í ríkisrekstrinum og enginn virðist vita hvernig á að leysa vandann.
Ýmsir tekjustofnar eru markaðir ákveðnum málaflokkum og hefur svo verið áratugum saman. Nefna má gjöld af eldsneyti bifreiða, flugvéla og skipa, veiðigjöld útgerðarfyrirtækja og áður fyrr lög um framkvæmdasjóð fatlaðra, sem voru numin úr gildi fyrir síðustu aldamót. Er þá fátt eitt talið og mörgu sleppt.
Alþingi notar fjárlögin til að seilast í tekjur ríkisins af áður nefndum málaflokkum og er iðulega minnstum hluta teknanna varið til framkvæmda á þeim sviðum sem gjöldin eru tengd. Afleiðingarnar eru m.a. handónýtt vegakerfi með einbreiðum brúm og fleiri dauðagildrum.
Af þessu hlýst alls konar vandi. Nú á enn að auka á vandann og skerða fé til Hafrannsóknastofnunar um 300 milljónir króna á meðan veiðigjöldin skila nokkrum milljörðum í Ríkissjóð.
Rokið er upp til handa og fóta eftir að fjárlög hafa verið samþykkt og tilkynnt um nauðsynlegan niðurskurð.

Slík hagfræði ber vott um fráleita aðferðafræði sem er engum sæmandi. Hið furðulegasta er að sjávarútvegsráðherra virðist þessi ráðstöfun hafa komið algerlega í opna skjöldu og leitar hann nú logandi ljósi að einhverjum aurum til að draga úr skaðanum sem væntanlega hlýst af fyrirhuguðum samdrætti.

Hvenær skyldu Íslendingar hætta að ráðgast með rekstur ríkisins með því handapati sem oft virðist einkenna hann?
Í lokin skal spurt eins og Mao formaður spurði varaforseta sinn, Wang Chen árið 1958, þegar að honum var þjarmað og hann hvattur til að samþykkja hið skelfilega stóra stökk:
"Ég hef ekkert vit á hagfræði en þið ætlist jafnan til að ég taki lokaákvörðunina. Til hvers eru þessir hagfræðingar?"
Tekið skal fram að Wang Chen greindi undirrituðum ásamt fleiri Íslendingum frá þessu í apríl 1981. Og skal þessari fyrirspurn nú beint að íslenskum stjórnvöldum.
Eru hagfræðingar ef til vill óþarfir?


Fá blindir hljóðsýn?

Ég hef nokkrum sinnum rekist á greinar um rannsóknarfyrirbærið "Blindir fá hljóðsýn". https://www.hi.is/vidburdir/blindir_fa_hljodsyn_nyskopun_i_fremstu_rod
Þar er m.a. greint frá belti með skinjurum sem brugðið er um mitti fólks og titra skinjararnir. Þannig á fólk að geta greint ýmis "áreiti".
Það er sennilega hálfur fimmti áratugur síðan ég heyrði fyrst um slíkar rannsóknir.
Niðurstaðan varð þá sú að áreitið væri gríðarlegt og talsverðan tíma þyrfti til að venjast því.

Í greininni, sem vísað er á hér að ofan kemur fram að búnaðurinn hafi verið prófaður á meðal blinds fólks hér á landi og víðar.

Það er leitt að þátttakendur hafi ekki tjáð sig á vettvangi sem fjallar um málefni blinds fólks.
Sjálfur hef ég ekki hugmynd um hvernig þessi búnaður virkar að öðru leyti en því sem minnst er á í greininni.
Hvað segja þátttakendurnir? Er þetta eitthvað sem ástæða er til að taka mark á?


Erfitt að sleppa stjórnartaumunum

Komið er upp fáheyrt ástand innan Knattspyrnusambands Íslands.
Geir Þorsteinsson, farsæll formaður sambandsins til margra ára lét af embætti í fyrra og var Guðni Bergsson kjörinn í hans stað. Var Geir síðankjörinn heiðursformaður Knattspyrnusambandsins og sýndu menn með því þakklæti sitt vegna starfa hans.
Nú, tæpu ári síðar, vill Geir embættið aftur.

Þegar fólk  er kjörið heiðursfélagar er yfirleitt gert ráð fyrir að stjórnarsetu þess sé lokið. Hið sama gildir um heiðursforseta.
Oddur Ólafsson, læknir og frumkvöðull um margvísleg málefni fatlaðra, var kjörinn heiðursformaður Öryrkjabandalags Íslands þegar hann hætti sem formaður Hússjóðs Öryrkjabandalagsins, en Oddur hafði gegnt störfum formanns og varaformanns í tvígang. Fylgdi titlinum að honum væri heimil stjórnar- og nefndaseta svo lengi sem hann óskaði.

Geir Þorsteinsson getur enn gert Knattspyrnusambandinu heilmikið gagn, en hann veldur bæði sér og sambandinu tjóni með þessari óskiljanlegu ákvörðun sinni.


Þarf að stofna nýtt blindrafélag?

Það sækir nú stöðugt að mér að stofna nýtt blindrafélag, félag fólks með svo litla sjón að hún nýtist engan veginn.
Mér hefur fundist að Blindrafélagið fjarlægist nú æ meira raunverulega hagsmunagæslu þeirra sem eru um eða alveg alblindir.
Þetta yrði væntanlega ekki fjölmennt félag, enda eru alblindir Íslendingar lítill minnihlutahópur sem á stöðugt undir högg að sækja í samfélaginu.
Mér skilst t.d. að nú liggi fyrir Alþingi að staðfesta tilskipun Evrópusambandsins um aðgengi að öllum vefsíðum. En lítið kvað bóla á áhuga stjórnvalda í þeim efnum.
Aðgengi að íslenskum fréttasíðum hefur farið versnandi nema Morgunblaðsins sem heldur enn sínu góða striki.
Tökum Kjarnann sem dæmi.
Ómarkviss notkun hausa "headers" gerir lestur Kjarnans mun erfiðari þeim sem nota talgervil eða blindraletur og ristjórar og eigendur Dagblaðsins hafa lítið gert til þess að áður nefndur hópur geti lesið blaðið án vandræða.
Nýtt blindrafélag, jafnvel þótt lítið væri, gæti orðið harður hagsmunahópur sem þyrði að taka til óspilltra málanna til þess að vekja athygli á margs kyns málum sem til úrbóta horfðu. Kjarnyrt umræða hreyfði e.t.v. við einhverjum.
Íslensk stjórnvöld láta víða reka á reiðanum í mörgum efnum. Lítill skilningur virðist vera á þeirri staðreynd að með aldrinum eykst hlutfall blindra jafnt og þétt og þessi hópur vill fá aðgang að lífsgæðum eins og lestri dagblaða og bóka auk tölvubúnaðar sem hefur verið undirstaða starfs og tómstunda síðustu áratugi.
Þegar Gunnar Thoroddsen tók að missa sjón dreymdi mig um að hann lifði nægilega lengi til þess að verða öflugur talsmaður þessa hóps. En skaparinn bauð honum til sín áður en til þess kom.
Ef einhver les þennan pistil óska ég honum gleði og gæfu á nýju ári. Athugasemdir og tillögur eru vel þegnar.


Enn er ráðist að þeim sem eiga undir högg að sækja - lögbann sýslumannsins í Reykjavík

Mér er skapi næst að halda að sýslumaðurinn í Reykjavík láti stjórnast af öðru hvoru - annarlegum hvötum eða af hræðslu við þá sem hann telur meiri máttar. Síðustu dæmin eru lögbannið á Stundina og Kjarnan vegna birtingar gagna sem hefðu hugsanlega komið sér illa fyrir bjarna Benediktsson og hið síðasta lögbann á vistheimili barna í einu af hverfum Reykjavíkur.
Árið 1990 urðu heiftarlegar deilur á Seltjarnarnesi vegna ofstopa fárra íbúa gegn stofnun vistheimilis einhverfra við Sæbraut og gekk héraðslæknirinn í lið með þessu fólki.
Ég var þá formaður Öryrkjabandalagsins og flæktist í málið. Fékk ég Tómas Helgason, lækni, í lið með mér og hittum við héraðslækninn. Var það afar merkilegt viðtal, þar sem Tómas greindi honum frá stofnun heimilis fyrir geðsjúklinga (orðið geðfatlaður hafði ekki verið fundið upp) í Laugaráshverfinu. Greindi Tómas m.a. frá því hvernig tókst að ná sátt um það heimili, en sagði jafnframt að veita hefði þurft nokkrum fjölskyldum aðstoð við að sætta sig við orðinn hlut.
Hvers vegna reyndir sýslumaðurinn í Reykjavík ekki að leita sátta í þessu máli? Kann han ekki að leita sér aðstoðar fagfólks til að sætta málin eða þarf hann sjálfur á aðstoð að halda? Hugsanlega getur Öryrkjabandalagið orðið karlgarminum að liði.


Í minningu föður míns, Helga Benediktssonar

Í dag er 119. afmælisdagur föður míns, Helga Benediktssonar, athafnamanns, sem bjó mestan hlut ævi sinnar í Vestmannaeyjum, en þangað fluttist hann 1921. Þar stofnaði hann fyrirtæki sitt, sem var starfandi þar til hann lést 8. apríl 1971 og þar hitti hann móður mína, Guðrúnu Stefánsdóttur og gengu þau í hjónaband árið 1928.

Ævi hans var býsna stormasöm á köflum enda sagði hann einatt kost og löst á ýmsum hliðum mannlífsins.
Hann stundaði nám í Samvinnuskólanum hjá Jónasi frá Hriflu og urðu þeir nánir vinir. Miðað við tíðarandann þurfti því ekki að koma á óvart að í odda skærist með honum og "íhaldinu" enda var hann einn af stuðningsmönnum Jónasar innan Framsóknarflokksins.

Þennan dag árið 1949, þegar hann varð fimmtugur, létu stjórnvöld undir forystu Sjálfstæðismanna gera tryggingasjóð Skaftfellings og Helga VE 333 upptækan auk þess sem heimili fjölskyldunnar að Heiðarvegi 20, var sett á uppboð. Honum tókst að leysa húsið út, en tryggingasjóðinn fékk hann ekki. Sá sjóður var stofnaður þegar Helgi var smíðaður, en smíðinni lauk 1939. Hann var 119 tonn, stærsta tréskip sem þá hafði verið smíðað hérlendis, en Bátaábyrgðafélag Vestmannaeyja trygði einungis skip og báta upp að 100 smálestum.

Eftir að sjóðurinn var gerður upptækur  samdi pabbi við Samvinnutryggingar um að tryggja þá Helga og Skaftfelling og skyldi tryggingin taka gildi mánudaginn 9. janúar 1950.
Helgi fórst við Faxasker þann 7. janúar og með honum 10 menn. Kom því skaðinn af fullum þunga á hann.
Foreldrar mínir buguðust þó ekki heldur gerðu það sem þau gátu til þess að létta eftirlifandi ættingjum lífsbaráttuna.

Barátta föður míns lá stundum á mér eins og mara eftir að hann dó og ég hafði fengið í hendur ýmsar heimildir eins og t.d. bæklinginn "Ég ákæri", sem hann gaf út skömmu eftir fæðingu okkar tvíburanna.
Árið 1999 var 100 ára afmælis hans minnst og bað ég þá Matthías Jóhannessen að birta grein um föður minn, sem Sævar Jóhannesson hafði skrifað. Brást Matthías vel við og var greinin birt í Morgunblaðinu.
Við Matthías höfðum nokkrum sinnum talast við í síma vegna ýmissa mála, en ég hitti hann fyrst augliti til auglits nokkru eftir að greinin birtist. Þakkaði ég honum fyrir hversu vel hann hefði brugðist við. Matthías svaraði: "Afstaða Morgunnblaðsins til föður þíns er og verður ævarandi smánarblettur á blaðinu. En Arnþór, við erum menn framtíðarinnar og lifum ekki í fortíðinni."
Þannig lauk Matthías aftur dyrunum að fortíðinni sem einungis er lokið upp endrum og eins til þess að minnast ákveðinna atburða.
Síðar átti ég eftir að starfa sem sumarmaður á blaðinu og er það besti vinnustaður sem ég hef unnið á.

Saga Helga Benediktssonar er þess virði að hún verði einhvern tíma skráð. Nægar heimildir eru fyrir hendi í skjalasafni hans.


Svik Íslandsbanka og blekkingar

Þessi pistill var einnig birtur á vettvangi Blindrafélagsins.

Kæri lesandi.
Ég vona að þú hafir þolinmæði til að lesa þennan pistil.

Ég hef öðru hverju skrifað um sitthvað sem mér þykir hafa farið miður hjá Blindrafélaginu og hefur það fallið í misjafnlega frjóa jörð. Í þessu pistli verður vikið að aðgengismálum frá öðru sjónarhorni.

Fyrir nokkrum árum, sennilega árið 2015, setti Íslandsbanki á markaðinn smáforrit fyrir snjallsíma sem gerði fólki kleift að annast ýmis bankaviðskipti. Þegar forritið var skoðað kom í ljós að ýmsu var ábótavant og forritið í raun ónothæft sjónskertu og blindu fólki.
Ég hafði því samband við Íslandsbanka og var ég boðaður á fund hans. Í kjölfar fundarins var forritið lagfært og mér boðið að halda fyrirlestur um aðgengi á vegum fjármálafyrirtækja. En það gleymdist og var ég aldrei boðaður á fundinn.

Skömmu fyrir jól 2016 var nýtt forrit sett á markaðinn með þeim afleiðingum að aðgengið hvarf.
Eftir talsvert stímabrak fékk ég samband við þá sem önnuðust forritshönnunina og kom þá í ljós að þeir voru alls ókunnandi um aðgengið. Var því heitið að ég fengi að fylgjast með og að lagfæringum yrði lokið eigi síðar en í mars 2017.
Vikurnar liðu og ekkert bólaði á framkvæmdum. Þá var mér tjáð að aðgengistruflunin stafaði af galla í bandarískum hugbúnaði sem hefði verið notaður og yrði ráðin bót á því. Samskiptum var haldið áfram en svo kom að ég áttaði mig á að mér var ævinlega sagt ósatt og hvarf úr viðskiptum við bankann.

Fyrir skömmu hitti ég einn af hönnuðum smáforrits Íslandsbanka árið 2015-16. Sagðist hann nú vinna að endurhönnun vefjar bankans og spurði hvort ég hefði fylgst með gangi smáforritsins.
Ég sagði honum farir mínar ekki sléttar og fékk þá að vita eftirfarandi sannleika:

Í kjölfar atburðanna 2016-17 var hann ásamt öðrum fenginn til að kanna orsakir þess að aðgengið hrundi. Í ljós kom að þar sem ekki hafði verið gert ráð fyrir aðgenginu í upphafi þurfti að kaupa viðbótarhugbúnað frá fyrirtækinu og því tímdi Íslandsbanki ekki.

Í samfæðum okkar kom fram að í raun væri lítil eða engin kennsla í aðgengismálum á vegum Háskóla Íslands og Reykjavíkur, þar sem þessi mæti maður vinnur. Þá er ekkert í íslenskri löggjöf um aðgengi og væntanleg tilskipun Evrópusambandsins segir hann að gildi fyrst og fremst um opinbera vefi.

Sé þetta rétt hlýtur ályktunin að verða sú að knýja verði á Alþingi um setningu löggjafar um aðgengi að upplýsingum og þar á meðal að vefsíðum. Auðvelt er að leita fyrirmyndar, t.d. í Bandaríkjunum, þar sem öllum fyrirtækjum, sem eiga viðskipti við hið opinbera, er skylt að hafa aðgengið í lagi.

Það var slys að ríkisstjórnir Jóhönnu Sigurðardóttur og síðar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, skyldu ekki "druslast" til að láta semja slíka löggjöf. Síðast þegar ég minntist á þetta á fundi í Norræna húsinu sagði fyrrum þingmaður að aðgengislöggjöf yrði að fylgja fjármagn og hlaut hann klapp fyrir.
Þetta er rétt hjá fyrrverandi þingmanninum. Hitt er þó mikilvægara að lög setja ákveðnar leikreglur í samskiptum fólks og á grundvelli laga geta menn leitað réttar síns.
´Ég SKORA á stjórn Blindrafélagsins að taka þesi mál til alvarlegrar athugunar á 80 ára afmæli félagsins. Blindum og sjónskertum tölvunotendum fer stöðugt fjölgandi og þeir eiga rétt á sams konar eða svipuðum aðgangi og þeir höfðu áður.
Hið sama á við á öllum sviðum þjóðfélagsins.
Bestu kveðjur,

Arnþór Helgason


Meiri hraði - meiri orkuþörf

Í þeirri umræðu sem nú er háð um loftslagsbreytingar og útblástur hefur greinilega komið fram að aukinn hraði krefst meiri orku. Ætli menn að ná settu marki hér á landi og víðar þarf að draga úr hraða ökutækja. Í raun ætti að binda hann við 70 km hraða á vegum þar sem akstursstefna er ekki afmörkuð og hámarkshraði ætti hvergi að vera yfir 80 km/klst. Þannig nýtist orkan betur og slysatíðni minnkar.

Með nútímatækni ætti að vera auðvelt að hafa eftirlit með hraðakstri bifreiða. Slíkt þýðir eingöngu dálítinn hugbúnað sem annaðhvort tilkynnir hraðakstur til sérstakrar eftirlitsmiðstöðvar eða kemur í veg fyrir að bíll fari hraðar en leyfilegur hámarkshraði.

Lífshraði nútímamannsins er hans versti óvinur sem býr til óþolinmæði og streitu.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband