Loftslagsmál - aftur til fortíðar?

Styrmir Gunnarsson skrifar skemmtilega en ekki síst athyglisverða grein um loftslagsmál í Morgunblaðinu í dag.

 

Loftslagsmál og lífsstíll
Af innlendum vettvangi...
 

Afturhvarf til lífshátta ömmu og afa – að hluta

Um ekkert er nú meira rætt um heim allan en loftslagsmál. Gera má ráð fyrir að þær umræður eigi eftir að aukast enn og þá ekki sízt vegna þess að fólk er að vakna til vitundar um að loftslagsbreytingar kalla á breytingar á daglegum lífsstíl okkar eins og hann hefur þróast smátt og smátt.
Að vísu eru raddir hér og þar – eins og við mátti búast – sem ganga út á það að þessar umræður séu einhvers konar móðursýki. Slíkar raddir heyrðust m.a. á fundi eldri sjálfstæðismanna í Valhöll sl. miðvikudag í bland við athugasemdir um komur flóttamanna frá öðrum löndum hingað til lands. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra afgreiddi þær með skörungsskap.
Þótt ekki kæmi annað til ber okkur Íslendingum að taka loftslagsmálin alvarlega vegna þess að breytingar á loftslagi hafa áhrif á lífið í sjónum og hafstrauma. Nú þegar má sjá merki þess að þeir fiskistofnar sem skipta okkur mestu máli séu að færa sig norðar sem vekur óhjákvæmilega þá spurningu hvort hugsast geti að þeir syndi einfaldlega út úr lögsögu okkar – og hvar stöndum við þá?
En – það er vaxandi þungi í umræðum um að loftslagsbreytingar kalli á breytingu á lífsstíl fólksins á jörðinni og þá sérstaklega í okkar heimhluta, þar sem velgengnin hefur verið mest.
Getum við dregið úr daglegri „neyzlu“ í víðum skilningi? Auðvitað getum við það en erum við tilbúin til þess?
Erum við tilbúin til að byggja minni hús, fara sjaldnar til útlanda, aka um á rafknúnum smábílum o.s.frv.?
Kannski þurfum við að byggja inn í samfélagsgerð okkar hvata til þess. Að sumu leyti snýst þetta um að hverfa að vissu marki til baka til lífshátta ömmu og afa minnar kynslóðar, þar sem orðið „nýtni“ var í forgrunni.
Nú á dögum dettur fólki varla í hug að setja tölvuprentara sem bilar heima hjá því í viðgerð. Við segjum við sjálf okkur að það sé ódýrara að kaupa nýjan prentara en láta gera við þann gamla. Og sennilega er það rétt. Buxum sem kemur gat á er einfaldlega hent í stað þess að láta gera við þær. Að einhverju marki eru örlög hefðbundinna heimilistækja svipuð.
En er það ekki raunverulega svo, að loftslagsbreytingarnar kalla á lífsstílsbreytingar, sem eru meira í ætt við lífshætti afa og ömmu? Hvernig getum við stuðlað að því? Og þær breytingar geta leitt til þess að gamalt verklag vakni til lífsins á ný. Það á t.d. við um skósmiði sem kunna að sjá fram á nýja og betri tíma.
Vinur minn einn gaukaði að mér upplýsingum um hvernig Svíar hafa brugðizt við.
Þeir hafa lækkað virðisaukaskatt á viðgerðum, t.d. á hjólum, fötum og skóm, svo að dæmi séu nefnd. Þar voru einnig til umræðu fyrir nokkrum árum breytingar á skattalögum sem geri fólki kleift að draga frá tekjuskatti helming viðgerðarkostnaðar á heimilistækjum á borð við ísskápa, þvottavélar og uppþvottavélar.
Það liggur í augum uppi að slíkar ráðstafanir, hvort sem er lækkun virðisaukaskatts á viðgerðarkostnaði eða frádráttur hluta viðgerðarkostnaðar frá skatti hvetur fólk til að láta gera við í stað þess að kaupa nýtt.
Aðgerðir af þessu tagi hafa ekki verið til umræðu hér, alla vega ekki á opinberum vettvangi. En er ekki ástæða til að ræða þessar aðferðir til að ýta undir nýtni?
Vafalaust munu hagsmunasamtök í verzlun og innflutningi taka slíkum hugmyndum illa og telja að sér þrengt. En með sama hætti og bílaumboð reka verkstæði, sem gera við bíla, sem þau selja, opnast ný tækifæri fyrir innflytjendur alls þess tækjabúnaðar, sem fylgir nútíma lífsháttum, þ.e. að setja upp viðgerðarverkstæði.
Sá gamli fjósamaður, sem hér skrifar, hefur líka spurt sjálfan sig að því, hvenær samtök bænda fari að vekja athygli á þeim augljósa veruleika að við getum dregið verulega úr svonefndum kolefnisfótsporum með því að leggja stóraukna áherzlu á að framleiða nánast öll helztu matvæli okkar hér heima í stað þess að flytja þau inn um langan veg.
Það liggur í augum uppi að við getum aukið matvælaframleiðslu verulega hér heima fyrir. Einhverjir munu segja að því fylgi líka kolefnisfótspor en varla jafn mikil og þegar lambahryggir eru fluttir hingað frá Nýja-Sjálandi! Og það fer ekki lengur á milli mála að við getum aukið verulega grænmetisframleiðslu hér heima fyrir. Slíkar hugmyndir eru reyndar ekki nýjar af nálinni. Gamall vinur minn, Eyjólfur Konráð Jónsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins og síðar þingmaður, sá fyrir sér stórframleiðslu á grænmeti í risastórum gróðurhúsum fyrir u.þ.b. hálfri öld.
Loftslagsmálin verða stærstu mál næstu áratuga. Þess vegna er það ánægjuefni að Landssamband sjálfstæðiskvenna hefur efnt til fundaraðar um þau mál, sem bendir til þess að sjálfstæðisfólk átti sig á mikilvægi málsins. Raunar vakti Óli Björn Kárason alþingismaður athygli á því á einum þeirra funda að fyrsti maðurinn, sem setti umhverfismál á hina pólitísku dagskrá hér á Íslandi, var einn af forystumönnum Sjálfstæðisflokksins á þeirri tíð, Birgir Kjaran.
Það væri vit í því fyrir forystusveit þess flokks að rækta betur tengslin við þá pólitísku arfleifð Birgis Kjarans.
En alla vega er ljóst að þeir stjórnmálaflokkar sem þekkja ekki sinn vitjunartíma í þessum málum eiga heima á annarri öld en þeirri tuttugustu og fyrstu.
Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is


Eitthvað orkar tvímælis

Það er eins og vanti í þessa frétt að Alþingi eigi síðasta orðið í þessu verkefni. Að vísu hefur því verið haldið fram að Landsvirkjun sé þessu máli hlynnt og bent hefur verið á að sjálfstæðir orkuframleiðendur telji hag sínum jafnvel betur borgið ef ofkusala úr landi verður að veruleika.

Eins og sakir standa framleiðir Ísland einungis brot af þeirri orku sem Evrópa þarfnast og við erum sennilega betur sett án sæstrengs.

Nú þurfa forkólfar meirihlutans á Alþingi að taka af öll tvímæli í þessu máli. Annað væri svik við þjóðina.

 


Grímulaus birting heimsvaldastefnunnar

Heimsókn varaforseta Bandaríkjanna áréttar betur en orð fá lýst að Bandaríki Norður-ameríku eru grímulaust heimsvaldasinnað stórveldi.
Bandaríkin hugsa ekki um hag annarra en sjálfra sín. Eigingirni, drottnunarárátta, tortryggni í garð annarra þjóða og tortryggni gagnvart öllu því sem forysta þeirra trúir ekki, lýsa af hverju orði sem hrýtur af munni fulltrúa þeirra.

Bandaríkjamenn vara við áleitni rússa á norðurslóðum. Það mætti halda að þeir vissu ekki hversu löng strandlengja Rússlands er á þessu svæði.

Bandaríkin vara við Kínverjum sem hafa áhuga á því sem er að gerast á Norðurslóðum. Trump og félagar virðast ekki vita að kínversk stjórnvöld gera sér nú æ betri grein fyrir áhrifum hlýnunarinnar á veðurfarið í Kína og sjá þess merki að samhengi er á milli ástandsins við norður-heimskautið og aukinnar bráðnunar hálendisjökla Asíu.
Það eru nokkur ár síðan kínverskir vísindamenn settu fram þá kenningu að í raun væru heimskautin þrjú: Suðurskautið, norðurskautið og Himalayjafjallgarðurinn, en þar horfir nú til vandræða vegna bráðnandi jökla.

Varaforseti Bandaríkjanna er varasamur sendiboði. Hann er jafnhættulegur trúarofstækismaður og hryðjuverkamenn sem skipa sér í fylkingar með meintar kenningar spámannsins að vopni. Mörgum þessara hryðjuverkamanna er það sameiginlegt að þeir eru ólæsir á Kóraninn og lepja upp ýmiss konar fullyrðingar sem tuggðar hafa verið ofan í þá.

Hið sama er um fjölda fólks í Bandaríkjunum. Þeir beita trúarbrögðunum til hryðjuverka á heims vísu og fylgja ótrauðir leiðbeiningum trúarleiðtoga sem eiga sér einga stoð í veruleikanum.

Heimsóknin, sem nú er lokið, sýnir betur en flest annað hið raunverulega eðli bandarískra heimsvaldasinna.


Kínverjar vilja fjölga rafbílum

Góðvinur minn, dr. emil Bóasson, háskólakennari, hefur ásamt kínverskri eiginkonu sinni, Wang Chao, ferðast vítt og breitt um Kína. Hann er glöggskyggn og sendi mér þennan pistil um kínversk bifreiðanúmer. Ég vek sérstaklega athygli á því sem sagt er um rafmagnsbíla í lokin -- sem Íslendingar gætu tekið sér til fyrirmyndar.


Margt lærist á ferðalögum.  
Undanfarnar átta vikur höfum við ferðast um víðlendur Kína.  
Þrátt fyrir að hafa ferðast um það landsvæði af og til undanfarna fjóra áratugi er alltaf eitthvað nýtt og forvitnilegt.
Ég tók eftir að bílnúmer höfðu nokkur einkenni.  Flest skráningarnúmer voru á bláum grunni með hvítum stöfum, svipaðir litir og í hvítblá fána UMFÍ.  Þetta hefur verið svo lengi.  
Svo tók ég eftir skráningarnúmerum með hvítan grunn og rauðan fyrsta staf.  Kom þá í ljós að þetta voru skráningarnúmer Frelsishers alþýðu.  
Hið þriðja sem bar fyrir augu voru framsóknargrænn bakgrunnur og hvítir stafir á skráningarspjöldum bifreiða.  Þetta eru bifreiðar sem nota rafmagn eingöngu.  
Í viðbót við þetta var okkur sagt að í Shanghæ kostaði skráningarnúmerið ¥13.000 alþýðudali eða sem nemur 240.000 krónum.
Gjaldið fellur niður ef skráður er rafmagnsbíll. Það hefur haft mikil áhrif og margir rafmagnsbílar í umferðinni þar.  
Dregið hefur úr útblæstri bíla svo eftirtektarvert er í stórborginni.
Sent from my iPhone


Þjónar græðgi Landsvirkjunar hagsmunum almennings?

Íslendingar þurfa að velta því alvarlega fyrir sér til hvers orkan sem við búum yfir, er notuð.
Er siðferðislega rétt að setja upp gagnaver sem þjónar þeim vafasama tilgangi að stunda Bitcoin-gröft, orkuver sem krefst álíka eða meiri orku en öll heimilin í landinu?

Þetta minnir óþægilega á sjúkdóm sem kallast gróðafíkn og er iðulega af hinu illa.
ætli Íslendingar að jafna búsetu fólks á landinu og gera ýmis landsvæði byggilegri en nú er, verður að meta til hvers eigi að nýta rafmagnið hér á landi.
Það er orkuskortur í Eyjafirði, en úr honum á víst að bæta í náinni framtíð.
Það er orkuskortur á Vestfjörðum sem eru að mestu leyti ótengdir orkukerfi landsins.
Orkukerfið á Norðaustur-landi er veikburða og hamlar eðlilegri orkudreifingu.
Svona mætti lengi telja.

Íslenskum stjórnvöldum ber siðferðileg skylda til þess að nýta orkuna í þágu íslensks almennings og láta þess í stað gróðafíkn fyrir róða með því m.a. að hafna gullgrafarafyrirtækjum sem nýta orku almennings til að auka eigin gróða.


Réttmæt ákvörðun

Þegar fyrstu rafbílarnir frá Nissan komu hingað til lands voru þeir algerlega hljóðlausir. Ýmsir blindir einstaklingar kvörtuðu undan þessum bílum og sögðu m.a. að þeir greindu ekki hljóð frá þeim þegar bílunum var bakkað úr bílastæðum.

Víða í Evrópu hefur þessi umræða verið hávær og núverandi reglugerð um að rafbílar gefi frá sér hljóð þegar þeim er ekið innan við 19 km hraða var sett að kröfu Evrópsku blindrasamtakanna.

Óhætt er að fullyrða að flestir ef ekki allir rafbílar, sem fluttir hafa verið til landsins undanfarin ár séu með hljóðgjafa. Einnig er sérstakt hljóð þegar þeim er ekið aftur á bak.

Þetta hægaksturshljóð greinist vel ef umhverfishávaðinn er ekki mikill. Hið sama má segja um flestar bifreiðar aðrar.

Ef blindur eða sjónskertur vegfarandi ætlar yfir götu þar sem ekki er akrein hlustar hann vandlega eftir umferðinni. Hann greinir hjólbarðahljóðið úr talsverðri fjarlægð og iðulega á undan vélarhljóðinu.

Undirritaður hefur gert á þessu nokkrar tilraunir. Vegahljóð virðist berast úr 50-200 m fjarlægð. Það er þó nokkuð misjafnt eftir tegundum hjólbarða.

Sumar tegundir rafbíla eru með búnaði sem slekkur á vélahljóðinu. Kia Soul hins vegar er með slíkan búnað sem ævinlega er í gangi þegar ekið er hægt. Það er því lítil hætta á að slíkur bíll læðist að vegfarendum.

Taka verður mið af heyrn vegfarenda. Aldrað fólk heyrir iðulega ekki í aðvífandi bílum og af því skapast mikil hætta hvort sem um rabíla eða eiturspúandi hreyfla er að ræða.

.

 


mbl.is Rafbílar verði með vélarhljóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rafhjólabyltingin

Rafmagnið sækir stöðugt á í samgöngum hér á landi Rafbílar líða um stræti og þjóðvegi landsins og rafknúnum reiðhjólum fjölgar.

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins í dag er skemmtileg grein um rafreiðhjól eftir Helga Snæ sigurðsson, blaðamann. Rekur hann þar notagildi rafhjóla sem hann telur vera skemmtileg samgöngutæki auk þess sem létt leikfimi fylgir með. Rafmagnið skilar engri orku nema hjólreiðamaðurinn stígi hjólið.
Helgi nefnir m.a. fjóra styrkleika sem hann getur valið eftir því hversu lítið hann vill leggja á sig.
Helgi segist búa í Vesturbænum og séu frá heimili hans 13 km upp í Hádegismóa. Á rafmagnshjóli fer hann þessa vegalengd á um hálftíma.
Það var tvennt sem ég skemmti mér yfir.
1. Ég þekki móður hans og 2. þegar ég var sumarblaðamaður á Morgunblaðinu 2007 og 2008 hjóluðum við Elín nokkrum sinnum vestan af Seltjarnarnesi upp í Hádegismóa. Sýndi hraðamælir hjólsins að það væru um 14 km.
Vorum við u.þ.b. 40-50 mínútur á leiðinni eftir því hvernig vindar blésu. Brekkurnar voru vissulega áskorun og svitnuðum við talsvert. Þá var gott að skella sér í steypibað á jarðhæð Morgunblaðshússins áður en starfið hófst.
Ég reyndi í tvígang að fara með strætisvagni upp í Hádegismóa og tók það um eina klst og 15 mínútur.


Ríki hins illa?

Sumir sjónvarps- og útvarpsþættir eru þannig að fólk lamast af skelfingu - finnur sig máttvana gagnvart því sem hent hefur aðra einstaklinga og fjölskyldur þeirra.

Í upphafi þessarar aldar komst ræðuritari þáverandi Bandaríkjaforseta að því að tvö af ríkjum heims væru ríki hins illa. Forsetinn flutti þessa ræðu, sem vakti bæði andstyggð og reiði og ræðuritarinn var látinn fjúka.

Ef til vill eru fleiri ríki í þessum hópi og  kunna Bandaríki Norður-Ameríku að vera þar á meðal.

Bandarísk stjórnvöld halda hlífiskildi yfir þeim sem framið hafa óhæfuverk á saklausum borgurum í skjóli meintra mannúðarstyrjalda Bandaríkjanna og þeir, sem hafa verið settir til að rannsaka mál þeirra eru sviptir vegabréfsáritun.

Landsréttur leyfði bandarískum ferðamanni að fara úr landi eftir að hann hafði valdið stórslysi. Með það í huga að Bandaríkin hugsa um sína er það fáheyrð einfeldni að halda því fram að maðurinn skyldi ekki sæta farbanni.
Hvernig ætli samviska dómarranna sé?
Hvað ætla íslensk stjórnvöld að hafast að?



Augljós merki sjaldnast virt

Sama sagan gerist aftur og aftur í íslensku samfélagi án þess að brugðist sé við.

Þegar fyrirtæki fara að safna skuldum og hætta jafnvel að greiða framlag í lífeyrissjóði er eitthvað að - já, eitthvað alvarlegt á seyði.

Óþarft er að taka dæmi af þeim fjölda fyrirtækja hér á landi sem hafa verið úrskurðuð gjaldþrota löngu eftir að staðreyndir blöstu við.

Það er dæmi gert að eigendur róa lífróður til þess að bjarga því sem bjargað verður og enda oftast nær með því að horfa á brunarústir þess sem þeir byggðu upp.

Öryrkjabandalag Íslands þurfti að horfast í augu við að staða fyrirtækisins Glits var miklu verri en lýst var yfir af fyrri eigendum og hið sama blasir nú við að verið hafi hjá wow.

Enginn gleðst yfir því hvernig komið er. Væri ekki réttara að hefjast handa fyrr þega séð er hvert stefnir? Nú verður fjöldi einstaklinga fyrir stórtjóni auk ríkisfyrirtækis.

 

 


Hvað gerir Bankasýsla ríkisins?

Orð Katrínar Jakobsdóttur í fréttum Ríkisútvarpsins áðan eru merkileg, en þar lét hún að því liggja að hugsanlega yrði um trúnaðarbrest að ræða milli stjórnvalda og bankaráðanna.
Hvað ætli bankasýslan hafi verið að sýsla um leið og bankastjórnirnar dunduðu sér við að hækka laun bankastjóranna í stað þess að fara að tilmælum Benedikts Jóhannessonar? Hefði ekki mátt ætlast til þess að bankasýslan fylgdi tilmælunum eftir?

á vefsíðu stofnunarinnar er erfitt að sjá að henni hafi borið skylda til að vara við því sem gerðist í bönkunum enda fátt eða ekkert fjallað um eftirlit hennar með rekstri bankanna.
Bankasýslan er í raun eins og tannlaus maður!
Hvað ætli Bankasýsla ríkisins hafi verið að sýsla um leið og bankastjórnirnar dunduðu sér við að hækka laun bankastjóranna í stað þess að fara að tilmælum Benedikts Jóhannessonar? Hefði ekki mátt ætlast til þess að bankasýslan fylgdi tilmælunum eftir?

á vefsíðu stofnunarinnar er erfitt að sjá að henni hafi borið skylda til að vara við því sem gerðist í bönkunum enda fátt eða ekkert fjallað um eftirlit hennar með rekstri bankanna.
Bankasýslan er í raun eins og tannlaus maður!

Svo er um fleiri stofnanir. Iðulega eru lög þannig úr garði gerð að erfitt er að beita þeim til hagsbóta þeim sem brotið er á.
Þannig var það um síðustu aldamót þegar ljóst var að Reykjavíkurborg ætlaði að leggja niður blindradeild Álftamýraskóla.
Skrifstofustjóri Menntamálaráðuneytisins viðurkenndi fyrir mér að ráðuneytið bæri ábyrgð á menntun blindra barna. En þar sem ekkert stæði í lögunum um það væri ekkert hægt að gera ef sveitarfélögin stæðu ekki í stykkinu.

Er Bankasýslan slík stofnun?
Er ekki kominn tími til að menn fari að kanna skilvirkni opinberra stofnana og bæta hana?
Hugsanlega þarf skynsamt alþýðufólk sem er ekki úr hópi lögfræðinga til að skrifa fyrstu drög að breytingum á lögum sem verða þá skilvirk.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband