Til hvers eru hagfræðingar, spurði Mao formaður árið 1958

Það er eitthvað að í ríkisrekstrinum og enginn virðist vita hvernig á að leysa vandann.
Ýmsir tekjustofnar eru markaðir ákveðnum málaflokkum og hefur svo verið áratugum saman. Nefna má gjöld af eldsneyti bifreiða, flugvéla og skipa, veiðigjöld útgerðarfyrirtækja og áður fyrr lög um framkvæmdasjóð fatlaðra, sem voru numin úr gildi fyrir síðustu aldamót. Er þá fátt eitt talið og mörgu sleppt.
Alþingi notar fjárlögin til að seilast í tekjur ríkisins af áður nefndum málaflokkum og er iðulega minnstum hluta teknanna varið til framkvæmda á þeim sviðum sem gjöldin eru tengd. Afleiðingarnar eru m.a. handónýtt vegakerfi með einbreiðum brúm og fleiri dauðagildrum.
Af þessu hlýst alls konar vandi. Nú á enn að auka á vandann og skerða fé til Hafrannsóknastofnunar um 300 milljónir króna á meðan veiðigjöldin skila nokkrum milljörðum í Ríkissjóð.
Rokið er upp til handa og fóta eftir að fjárlög hafa verið samþykkt og tilkynnt um nauðsynlegan niðurskurð.

Slík hagfræði ber vott um fráleita aðferðafræði sem er engum sæmandi. Hið furðulegasta er að sjávarútvegsráðherra virðist þessi ráðstöfun hafa komið algerlega í opna skjöldu og leitar hann nú logandi ljósi að einhverjum aurum til að draga úr skaðanum sem væntanlega hlýst af fyrirhuguðum samdrætti.

Hvenær skyldu Íslendingar hætta að ráðgast með rekstur ríkisins með því handapati sem oft virðist einkenna hann?
Í lokin skal spurt eins og Mao formaður spurði varaforseta sinn, Wang Chen árið 1958, þegar að honum var þjarmað og hann hvattur til að samþykkja hið skelfilega stóra stökk:
"Ég hef ekkert vit á hagfræði en þið ætlist jafnan til að ég taki lokaákvörðunina. Til hvers eru þessir hagfræðingar?"
Tekið skal fram að Wang Chen greindi undirrituðum ásamt fleiri Íslendingum frá þessu í apríl 1981. Og skal þessari fyrirspurn nú beint að íslenskum stjórnvöldum.
Eru hagfræðingar ef til vill óþarfir?


Fá blindir hljóðsýn?

Ég hef nokkrum sinnum rekist á greinar um rannsóknarfyrirbærið "Blindir fá hljóðsýn". https://www.hi.is/vidburdir/blindir_fa_hljodsyn_nyskopun_i_fremstu_rod
Þar er m.a. greint frá belti með skinjurum sem brugðið er um mitti fólks og titra skinjararnir. Þannig á fólk að geta greint ýmis "áreiti".
Það er sennilega hálfur fimmti áratugur síðan ég heyrði fyrst um slíkar rannsóknir.
Niðurstaðan varð þá sú að áreitið væri gríðarlegt og talsverðan tíma þyrfti til að venjast því.

Í greininni, sem vísað er á hér að ofan kemur fram að búnaðurinn hafi verið prófaður á meðal blinds fólks hér á landi og víðar.

Það er leitt að þátttakendur hafi ekki tjáð sig á vettvangi sem fjallar um málefni blinds fólks.
Sjálfur hef ég ekki hugmynd um hvernig þessi búnaður virkar að öðru leyti en því sem minnst er á í greininni.
Hvað segja þátttakendurnir? Er þetta eitthvað sem ástæða er til að taka mark á?


Erfitt að sleppa stjórnartaumunum

Komið er upp fáheyrt ástand innan Knattspyrnusambands Íslands.
Geir Þorsteinsson, farsæll formaður sambandsins til margra ára lét af embætti í fyrra og var Guðni Bergsson kjörinn í hans stað. Var Geir síðankjörinn heiðursformaður Knattspyrnusambandsins og sýndu menn með því þakklæti sitt vegna starfa hans.
Nú, tæpu ári síðar, vill Geir embættið aftur.

Þegar fólk  er kjörið heiðursfélagar er yfirleitt gert ráð fyrir að stjórnarsetu þess sé lokið. Hið sama gildir um heiðursforseta.
Oddur Ólafsson, læknir og frumkvöðull um margvísleg málefni fatlaðra, var kjörinn heiðursformaður Öryrkjabandalags Íslands þegar hann hætti sem formaður Hússjóðs Öryrkjabandalagsins, en Oddur hafði gegnt störfum formanns og varaformanns í tvígang. Fylgdi titlinum að honum væri heimil stjórnar- og nefndaseta svo lengi sem hann óskaði.

Geir Þorsteinsson getur enn gert Knattspyrnusambandinu heilmikið gagn, en hann veldur bæði sér og sambandinu tjóni með þessari óskiljanlegu ákvörðun sinni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband