Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
"
JÁTAÐU, ÁRNI, JÁTAÐU!
Heill og sæll Árni.
Þetta bréf er skrifað í tilefni af dómi sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku. Þar varst þú dæmdur brotlegur fyrir að hafa í desember 2007 skipað Þorstein Davíðsson í embætti héraðsdómara þótt dómnefnd hefði úrskurðað að þrír umsækjendur um stöðuna væru tveimur flokkum hæfari en hann. Málið höfðaði einn þessara þriggja umsækjenda, Guðmundur Kristjánsson, en honum þótti sem þú hefðir gengið freklega framhjá sér við stöðuveitinguna.
Og skal engan undra. Í umsögn dómnefndar um Guðmund sagði: [Hann] hefur langlengstan starfsferil umsækjenda og tengist hann allur dómstólum. Hann hefur fengist við dómarastörf með einum eða öðrum hætti um tólf ára skeið og stundað málflutning fyrir héraðsdómstólum í rúm 20 ár og síðustu tólf árin einnig fyrir Hæstarétti. Hann hefur fengist bæði við einkamál og opinber mál og hefur vegna dómara- og málflutningsstarfa sinna víðtæka þekkingu á réttarfari og iðkun þess. Hann hefur jafnframt haft með höndum stjórnunarstörf í átta ár sem aðalfulltrúi bæjarfógeta og sýslumanns í stóru umdæmi og getið sér góðan orðstír á starfsferli sínum.
UNDIR VENJULEGUM KRINGUMSTÆÐUM KOM ÞORSTEINN EKKI TIL GREINA Þorsteinn Davíðsson, sá maður sem þú tókst fram yfir Guðmund með alla sína fjölbreyttu reynslu, hann hafði aftur á móti útskrifast sem lögfræðingur aðeins 8 árum fyrr. Hann hafði starfað sem aðstoðarmaður dómara í þrjú ár en síðan verið aðstoðarmaður Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra í fjögur ár. Undir venjulegum kringumstæðum hefði Þorsteinn því augljóslega ekki komið einu sinni til álita í þessa dómarastöðu. Ekki aðeins Guðmundur Kristjánsson, heldur einnig Halldór Björnsson og Pétur Dam Leifsson voru metnir miklu hæfari en Þorsteinn, svo munaði tveim flokkum í mati dómnefndar. Þeir þremenningar voru mjög vel hæfir; Þorsteinn aðeins hæfur.
En kringumstæður voru ekki venjulegar. Þorsteinn Davíðsson var og er sonur Davíðs Oddssonar. Og árið 2007 hafði Davíð enn heljartök á Sjálfstæðisflokknum (og hefur kannski enn?). Og við strax og við (íslenska þjóðin) fréttum að þú, sem settur dómsmálaráðherra, hefðir ráðið Þorstein Davíðsson í starfi, þá vissum við hvað klukkan sló.
Enn ein hneykslanlega ráðningin sem Davíð Oddsson stóð fyrir, þó þú, Árni, sæir formlega um málið.
Í þessu sambandi er forvitnilegt að líta til baka til ársins 1995. Þá lét af störfum Guðni Guðmundsson, sá frægi rektor Menntaskólans í Reykjavík. Nokkrir gamalreyndir kennarar við MR sóttu um starfið og þar á meðal var íslenskukennarinn Ólafur Oddsson.
DAVÍÐ TÓK UPP ÞYKKJUNA FYRIR BRÓÐUR SINN Ólafur kenndi mér um tíma þegar ég var í MR fyrir margt löngu og ég get vottað að hann var prýðilegur kennari og ljómandi viðkunnanlegur maður. Hann bar hins vegar ekki endilega með sér að vera mikill stjórnandi í eðli sínu, enda valdi Björn Bjarnason menntamálaráðherra hann ekki sem arftaka Guðna. Þess í stað skipaði hann sem rektor Ragnheiði Torfadóttur, skörulegan latínukennara við MR. Og er ekki vitað til annars en Ólafur Oddsson og aðrir keppinautar Ragnheiðar um stöðuna hafi vel unnt henni framans. En einn var sá maður sem tók upp þykkjuna fyrir Ólaf Oddsson. Það var Davíð, yngri bróðir hans. Hann mun hafa reiðst heiftarlega þegar Björn Bjarnason gekk framhjá bróður hans og hófst þegar handa um að gera Birni það ljóst. Ekki nóg með það, heldur kom hann öllum öðrum í innsta hring sínum líka í skilning um að Björn hefði brugðist honum. Í langan tíma á eftir virti Davíð Björn ekki viðlits, hvorki á ríkisstjórnarfundum né utan þeirra, heldur lét bara eins og menntamálaráðherrann væri ekki til. Hreytti í mestan lagi einhverju geðvonskulega í hann.
Hér er ýmislegt að athuga, Árni Mathiesen.
Í fyrsta lagi kann það að virðast eðlilegt hvöt að fyrtast við ef náið skyldmenni fær ekki að sjá drauma sína rætast. Í þessu tilfelli meina ég draum Ólafs íslenskukennara um að verða rektor Menntaskólans. En ef maður gegnir valdamesta embætti landsins verður maður að geta greint á milli sinnar prívatpersónu og forsætisráðherrans.
Davíð hafði þegar sýnt að hann átti mjög erfitt með einmitt það, þegar Ólafur G. Einarsson þáverandi menntamálaráðherra réði séra Heimi Steinsson útvarpsstjóra RÚV árið 1991 en ekki þann kandídat sem Davíð vildi, Ingu Jónu Þórðardóttur, eiginkonu Geirs Haarde. Þá reiddist Davíð mjög og bætti ekki úr skák þegar séra Heimir rak nokkru síðar fornvin Davíðs, Hrafn Gunnlaugsson, úr starfi dagskrárstjóra Sjónvarpsins. Þá beitti forsætisráðherra landsins sér af hörku gegn útvarpsstjóranum, nokkuð sem hann hefði auðvitað aldrei gert ef hinn burtrekni dagskrárstjóri hefði ekki verið vinur hans.
VILJASTERK LÍTILMENNI BEITA GEÐVONSKU SEM VOPNI Í öðru lagi var mál Hrafns Gunnlaugssonar aðeins það fyrsta af fjölmörgum sem sigldu í kjölfarið, og sýndu að Davíð sá ekkert rangt við og ætlaðist reyndar beinlínis til þess að fólk honum þóknanlegt hefði forgang að opinberum embættum. Björn Bjarnason hafði þó enn ekki áttað sig nógsamlega á því þegar hann slysaðist til að ráða Ragnheiði Torfadóttur rektor MR árið 1995 en hann fékk nú yfir sig sótsvarta reiði foringjans. Sú er oft raunin um viljasterk lítilmenni að þau beita geðvonsku sinni sem vopni, og þegar verst lætur verður það vopn svo máttugt að óttinn við geðvonskukastið verður jafnvel skelfilegri en bræðin sjálf. Björn Bjarnason, svo gáfaður og hæfileikaríkur maður sem hann þó er frá náttúrunnar hendi, hann kunni ekki að höndla augljósa reiði Davíðs og lyppaðist niður í ótta og vanlíðan. Hann gat ekki hugsast sér að þurfa að þola ískalda þögn Davíðs en á bak við brún hans virtist ólga ofsareiðin.
Það er ein af furðum stjórnartíðar Davíðs Oddssonar í Sjálfstæðisflokknum hvernig honum tókst að gera sér jafnvel hina mætustu menn svo fylgisspaka að þeir beinlínis skulfu eins og strá í vindi við tilhugsunina um að gera eitthvað móti vilja hans. Og sannfærðu sig frekar um að vilji hans væri ætíð sá eini rétti, og stóðu síðan fastir á því fram í rauðan dauðann. Það er mín kenning, Árni, að þegar gáfaðir menn neyðast til að játast undir áhrifavald sér minni manna, þá verði þeir ofurtrúir foringja sínum af því þeim sé kappsmál að sanna fyrir sjálfum sér að þeir hafi gert rétt í að beygja vilja sinn undir vilja foringjans. Því sannfæri þeir sig um að foringinn sé vissulega afbragð annarra manna og hljóti alltaf að hafa rétt fyrir sér. Það sé eina skýringin sem þeir geti innra með sér sætt sig við á því að haga sér eins og lúpa andspænis lítilmenninu.
NÝTUR EINHVER UMSÆKJENDA VELVILDAR FORINGJANS? Þessari kenningu kom ég einu sinni á flot varðandi Styrmi Gunnarsson og þjónkun hans á seinni árum við Davíð, en ég hugsa að hún geti allt eins átt við um Björn Bjarnason. Meðferðin á Birni í þetta sinn var það sem endanlega kenndi þeim, sem vildu njóta velvildar Davíðs, að við mannaráðningar væri mönnum hollast að athuga ævinlega fyrst hvort einhver umsækjenda kynni að njóta sérstakrar velvildar leiðtogans mikla; síðan mátti fara að huga að öðrum verðleikum.
Það skal tekið að Björn Bjarnason hefur ávallt neitað því að ofangreind lýsing á viðbrögðum Davíðs við ráðningu Ragnheiðar Torfadóttur eigi við rök að styðjast. Sjálfsagt mun hann enn bera á móti því. En í andmælum er heldur holur hljómur. Um þögula fyrirlitninguna sem Davíð sýndi Birni í kjölfarið hef ég öruggar heimildir.
Um daginn vitnaði svo Hreinn Loftsson um algjöra örvilnan Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar þegar Davíð setti hann í frystikistuna eftir að Hannes hafði leyft sér að mótmæla mannréttindabrotum íslenskra stjórnvalda í garð Falun Gong-hópsins. Sú lýsing hljómaði mjög kunnuglega fyrir þá sem þekktu til viðbragða Davíðs við ráðningu rektors MR, og annarra dæma um hvernig hann beygði að lokum allan Sjálfstæðisflokkinn undir sinn vilja og sína hagsmuni eða hagsmuni vina sinna og ættingja.
Frægustu og afdrifaríkustu dæmin eru auðvitað þau sem lúta að dómstólum landsins. Þegar tök Davíðsklíkunnar á samfélaginu voru orðin nægilega sterk var jafnvel æðsti dómstóll landsins meðhöndlaður sem prívatsandkassi fyrir vini og ættingja foringjans.
ÓÞEKKTUR DÓMSTJÓRI TEKINN FRAM YFIR KUNNA LÖGFRÆÐINGA Árið 2003 losnaði staða dómara við Hæstarétt og meðal umsækjenda voru margir vel kunnir og afar færir lögfræðingar. Það kom hins vegar öllum í opna skjöldu þegar Björn Bjarnason, sem þá var orðinn dómsmálaráðherra, veitti þetta mikilvæga embætti Ólafi Berki Þorvaldssyni, ungum dómstjóra á Selfossi sem hafði hvorki í laganámi né nokkurn tíma síðan látið neitt umtalsvert að sér kveða á sviði lögfræðinnar. Enda höfðu nálega allir umsækjendur um starfið verið metnir mun hæfari en Ólafur Börkur. Þetta þótti mjög dularfullt, þangað til bent var á að Ólafur Börkur var náfrændi Davíðs Oddssonar þeir munu vera systkinasynir. Auðvitað var það ástæðan fyrir því að Björn réði Ólaf Börk. Svo brenndur var Björn eftir reynslu sína af MR-málinu að ég efast um að Davíð hafi einu sinni þurft að nefna það við hann hvort ekki væri kjörið að Ólafur Börkur fengi embættið. Væntanlega hefur Björn skipað hann orðalaust, því hann vissi vilja meistara síns. Fyrir þessa embættisveitingu var Björn dæmdur brotlegur við jafnréttislög með því að taka Ólaf Börk fram yfir Hjördísi Hákonardóttur sem var samkvæmt öllum mælikvörðum mun álitlegri umsækjandi.
Ári seinna losnaði aftur staða dómara við Hæstarétt. Aftur sótti um mikið lið valinkunnra lögfræðinga. Nú vék Björn Bjarnason sæti en Geir Haarde fjármálaráðherra tók að sér að veita embættið. Ótrúlegt nokk ákvað Geir að skipa í starfið Jón Steinar Gunnlaugsson, sérlegan vin og baráttufélaga Davíð Oddssonar, þótt margir lögfræðingar væru metnir hæfari til starfans en hann.
Hæstiréttur á að vera hafinn yfir alla flokkadrætti. Vitaskuld er það svo að gegnum tíðina hafa hinir valhelgu helmingaskiptaflokkar unnvörpum skipað þar inn sína menn en ég held að aldrei í sögu pólitískrar spillingar á Íslandi hafi hún orðið jafn nakin og auðsæ og þessi ár, þegar Ólafur Börkur og Jón Steinar voru skipaðir í Hæstarétt.
ÓLAFUR BÖRKUR OG JÓN STEINAR ÆTTU AÐ SEGJA AF SÉR Í raun og veru finnst mér að í nafni væntanlegrar siðbótar í íslensku samfélagi ættu þeir kumpánar að sjá sóma sinn í að segja af sér embættunum sem þeir hlutu svo greinilega af því einu að vera í frændskap og vináttu við Davíð Oddsson. Mér þykir ekki liggja beint við að við, íslenska þjóðin, þurfum að borga þessum mönnum há laun og síðan eftirlaun til æviloka í þakkarskyni fyrir þátttöku þeirra í spillingunni.
En ekki var allt búið enn. Nú var komið að þér, Árni Mathiesen. Í desember 2007 var komið að því að skipa í embætti héraðsdómara á Norðausturlandi. Þá voru farnir að kortast dagar hins mikla og ástsæla leiðtoga á valdastóli á Íslandi, Davíð sat í Seðlabankanum en fjendur hans í Samfylkingunni voru komnir í ríkisstjórn og óvíst hve lengi enn áhrifavald Davíðs myndi vara. Kannski hefði Þorsteinn Davíðsson á mestu velmektardögum karls föðurs síns óhikað verið skipaður beint upp í Hæstarétt, þrátt fyrir lítið starf að lögum, en nú varð embætti héraðsdómara að duga.
Þar eð Þorsteinn hafði verið aðstoðarmaður Björns dómsmálaráðherra lýsti hann sig vanhæfan til að skipa í starfið og þá varst þú, dýralæknirinn og fjármálaráðherrann, settur til að skipa í stöðuna. Og þú varst ekki að tvínóna við hlutina á einum eftirmiðdegi eða svo gekkstu frá ráðningu Þorsteins, og sjá: einkasonur leiðtogans mikla var kominn í þægilega innivinnu hjá ríkinu en það var svo skrýtið með frjálshyggjumennina í Eimreiðarhópnum gamla hvað þeir sóttu fast í að koma sér og sínum á ríkisjötuna.
ÞORSTEINI DAVÍÐSSYNI FINNST SÉR SÆMA AÐ SITJA ÁFRAM Í ÞESSU STARFI Nú er búið að dæma þig fyrir þetta, Árni, og ég hvet alla til að kynna sér dóminn, en hann er að finna á netinu. Þar kemur skýrt og greinilega fram hve augljósa valdníðslu þú framdir því ég veit svo sem ekki hvað er hægt að kalla það annað. Og þar kemur reyndar líka fram það sem ég vissi ekki, að eftir að Guðmundur Kristjánsson lýsti sig svo sárlega óánægðan með skipan Þorsteins að hann ætlaði í mál við þig og ríkið, þá var honum boðin staða afleysingadómara í tvö ár en hann hafði sómatilfinningu til að hafna því kostaboði. En það sem ég vildi sagt hafa, Árni ég sé að þú hefur ekki viljað láta hafa neitt eftir þér um niðurstöðuna í máli Guðmundar gegn þér. Aftur á móti hefur Karl Axelsson, lögmaður þinn, látið í veðri vaka að dómnum verði áreiðanlega áfrýjað til Hæstaréttar. Og ástæða þess að ég skrifa þér þetta opna bréf, Árni, er sú að ég vil biðja þig að gera það ekki.
Ekki láta etja þér út í frekari lagaflækjur um þetta mál. Við vitum öll að þú skipaðir Þorstein í starf dómara eingöngu af því hann var sonur föður síns. Þú veist að við vitum það, og við vitum að þú veist að við vitum það. Það sem kannski er óviðfelldnast er að Þorsteinn Davíðsson veit það auðvitað líka, en finnst sér samt sæma að sitja áfram í þessu starfi. Það verður sá góði maður að eiga við sjálfan sig.
En af því bæði þú og við vitum þetta allt, Árni, ekki láta þá Karl Axelsson telja þér trú um að ástæða sé til þvæla þetta mál frekar fyrir dómstólum.
Það þarf náttúrlega ekki að segja þér hvar Karl Axelsson er alinn upp sem lögfræðingur. Jú, á lögfræðistofu Jóns Steinars Gunnlaugssonar
VIÐ EIGUM ÞAÐ SKILIÐ AÐ ÞÚ SEGIR OKKUR SANNLEIKANN
Ekki vera í þessu kompaníi til æviloka, Árni. Játaðu sekt þína. Stígðu fram og segðu okkur hreinskilnislega frá vinnubrögðunum og móralnum sem við lýði voru í Sjálfstæðisflokknum á valdaárum Davíðs og litlu ljótu klíkunnar.
Þú hefur nú þegar sýnt ákveðinn manndóm með því að reyna ekki að streitast við að halda áfram í pólitík eftir aðild þína að hruninu, heldur ertu bara kominn út í sveit að sinna því starfi sem þú ert vissulega menntaður til að gegna það væri betur að fleiri færu að dæmi þínu. En stígðu skrefið til fulls. Ekki reyna að telja okkur trú um að eitthvað sé verjandi við það sem þú hefur nú verið dæmdur fyrir. Játaðu sekt þína og segðu okkur allan hinn nakta sannleika um það andrúmsloft í flokknum, sem varð þess valdandi að ágætir menn létu líðast að dómskerfi landsins varð sandkassi lítillar klíku. Við eigum það skilið af þér, Árni, að þú segir okkur sannleikann en reynir ekki að ljúga með lagaflækjum.
Og þú átt það skilið að híma ekki í aftursætinu til eilífðarnóns.=
Stjórnmál og samfélag | 3.5.2010 | 06:52 (breytt kl. 07:38) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Áhrifa enskunnar fór að gæta í kínversku um svipað leyti og Bretar tóku að herja á Kínverja laust fyrir miðja 19. öld og fóru þessi áhrif vaxandi þegar leið fram á 20. öldina. Ýmis orð eins og jakki og rjómaís eiga rætur að rekja til ensku þótt menn átti sig ekki á því við fyrstu heyrn. Í Hong Kong, þar sem Bretar réðu ríkjum í hálfa aðra öld, er mál manna mjög enskuskotið.
Áhrif enskunnar jukust að mun upp úr 1980 þegar samskipti Kínverja við verstrænar þjóðir færðust í aukana. Fyrst ruddu sér til rúms skammstafanir á enskum fræðiheitum og heitum námsgreina sem ekki höfðu verið kenndar við kínverska háskóla. Ástæðan var einkum sú að menn urðu ekki sammála um þýðingu skammstafananna. Þótt leitast hafi verið við að þýða námsgreinaheitin á kínversku er svo komið að í um þriðjungi frétta kínverskra fjölmiðla bregður fyrir enskum skammstöfunum innan um kínverska letrið, sem almenningur skilur ekki. Vandinn hefur orðið enn meiri vegna þess að menn hafa ekki hirt um að þýða ýmsar skammstafanir í tölvukerfum og er nú svo komið að almenningur skilur ekki allt sem stendur á aðgöngumiðum kvikmynda- og tónleikahúsa.
Fram kom í máli nokkurra ræðumanna á ráðstefnunni að þeir óttuðust að nokkur hluti fræði- og vísindamanna ættu orðið í erfiðleikum með að tjá sig á kínversku svo að vel færi og almenningur skildi. Hefur nú verið boðað sérstakt átak til þess að sporna við þessum áhrifum.
Íslendingum er þessi umræða ekki ókunn. Ensk heiti haa nú leyst latnesk fræðaheiti af hólmi. Enginn verður nú magister heldur lýkur hann mastersprófi eða gráðu. Orðið meistaranám heyrist sára sjaldan.
Kínverskir fréttamenn sletta iðulega enskum skammstöfunum þegar um er að ræða hugtök í hagfræði og fleiri greinum. Þó að Íslendingar geri það ekki hlýtur samt að fara hrollur um þá sem vilja veg tungunnar sem mestan þegar spurnir berast af áhyggjum fjölmennustu þjóðar heims af tungu sinni. Íslendingar búa nú við þá sérstöðu í Evrópu að mestur hluti talaðs máls í sjónvarpi er á ensku. Enskan bylur á eyrum sjónvarpsáheyrenda og mótar hugsun og málfar. Íslenskir listamenn leggjast jafnvel svo lágt að þruma yfir áheyrendum enska texta, misjafnlega vel orta, sem einungis nokkur hluti almennings skilur. Hljómsveitin Hjaltalín er dæmi um slíkan hóp, en á frídegi verkalýðsins 1. maí sl. þrumdi úr hátalarkerfi sveitarinnar ensk tunga þegar fólk hélt að um baráttutónlist væri að ræða. Þannig hefur hljómsveitin gengið í lið með þeim sem vega að tungumálum smáþjóða og er það illt afspurnar.
Forstöðumenn kínverskra ráðuneyta, sem tóku til máls á ráðstefnunni, tóku fram að ekki væri rétt að banna notkun slíkra skammstafana en menn yrðu að gæta sín þegar þær væru farnar að menga tungumálið.
http://english.cri.cn/08webcast/index.htm
Stjórnmál og samfélag | 2.5.2010 | 12:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Vorum að horfa á fréttir Kínverska sjónvarpsins. Þar var viðtal við ímyndarstjóra Kínverja vegna Heimssýningarinar í Shanghæ (bænum ofan sjávar). Eftir að hafa rætt nokkuð um sinn þátt í sýningunni og hljómlistina við opnunarverkið þar sem hann spilaði eigin píanókonsert með hefðbundnu kínversku ívafi svo sem tilbrigðum við Gulárkonsertinn fræga var hann spurður hvaða sýningaskála hann myndi heimsækja. Auðvitað skála stórþjóða eins og Frakka og Bandaríkjamanna, en eftirtktarverðastur fyrir einfeldni og hreinleika þar sem allt væri hafblátt og virtist vistvænt væri íslenski skálinn og þangað ætlaði hann einnig.
Stjórnmál og samfélag | 1.5.2010 | 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frásögn Egils Ólafssonar minnir átakanlega á þá staðreynd að ekki er sama hver á í hlut þegar um rekstur fyrirtækja er að ræða. Bankarnir halda hlífiskildi yfir eigendum Baugs en hóta að gera bændur gjaldþrota þótt líkur séu til að þeir geti náð sér ef bankarnir eru reiðubúnir til samstarfs. Þá er með ólíkindum að jarðir séu seldar án samninga og gjaldþrotahótunum beitt til þess að flæma bændur af jörðum sínum. Þá bætist við að allur mjólkurkvói verður fluttur af jörðinni og hún leggst því með einum eða öðrum hætti í eyði. Fróðlegt væri að vita hverkaupandinn er og hvaðan honum koma fjármunirnir.
Eitt sinn hitti faðir minn Herluf Clausen á götu, sennilega var það árið 1962. Herluf sagðist þá hafa samið grafskrift sína: "Hér hvílir Herluf Clausen, drepinn af bankastjórum og lögfræðingum.
Ýmis ráð sölumanna bankanna hafa orðið fjölmörgum næstum banvæn. Við lá að allar eignir móður minnar lentu í bankahruninu, en í janúar 2008, nánar til tekið þann 15., var ítrekað reynt í löngu samtali að fá mig til að festa fé hennar í hlutabréfum eða peningabréfasjóðum. Tók starfsmaður Glitnis fram að hann vildi eingöngu gera fjölskyldunni greiða því að ævinlega hefðu verið góð samskipti millum mín og föður síns.
Þannig er nú það. Hefði ég farið að ráðum þessa góðhjartaða bankamanns hefði móðir mín tæplega átt fyrir útför sinni. Hið sama er upp á teningnum með bóndann sem Egill Ólafsson skrifaði um í Morgunblaðinu í gær. Hann fór að ráðum bankamanna og uppskar upptöku eigna sinna.
Hver er ábyrgur?
Stjórnmál og samfélag | 30.4.2010 | 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Áður hefur verið vikið að því á þessum síðum að Íslendingar skilji fátt annað en ströng viðurlög. Atburðir sem orðið hafa í umferðinni að undanförnu sýna og sanna að til einhverra ráða verður að grípa gagnvart þeim sem stofna lífi og limum í hættu með gálausum akstri vegna neyslu áfengis og eiturlyfja, en hvorugt fer saman ásamt akstri. Ég hef verið fylgjandi háum sektum og jafnvel því að bifreiðar verði gerðar upptækar og fólk svipt ökuréttindum a.m.k. jafnlengi og þeir sem eru dæmdir í ævilangt fangelsi. Þetta kunna að vera hörð sjónarmið en aðrar leiðir eru færar.
Í raun þarf að stofna til endurhæfingar einstaklinga sem hegða sér með svipuðum hætti og maðurinn í Hvalfjarðargöngunum. Yrði þátttakendum í slíkri endurhæfingu gert að greiða allan kostnað sjálfir og kæmi hann til frádráttar sektum sem þarf að stórhækka.
Stjórnmál og samfélag | 27.4.2010 | 08:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Í fréttum BBC í morgun var vitnað í Ólaf Ragnar Grímsson þar sem hann fjallaði um íslenska jarðhitann. Í frétt útvarpsins sagði að hálfum mánuði eftir að gosið í Eyjafjallajökli hófst hafi forsetinn bent á að Íslendingar hefðu notið mikilla gæða vegna hitans í iðrum jarðar. Íslendingar væru fremstir þjóða sem nýttu slíka hreina orku sem skipti mannkynið miklu og fengist á sanngjörnu verði. Þannig væri íslenska eldfjallaorkan þjóðinni til blessunar.
Stjórnmál og samfélag | 27.4.2010 | 08:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í fréttum ríkissjónvarpsins í kvöld hélt Steinunn Valdís því blákalt fram að þessi framlög hefðu engin áhrif haft á störf sín sem stjórnmálamanns. Það er það, eins og Andri Ísaksson sagði. Hvað hefði orðið um þingmanninn, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, hefði hún ekki fengið þessi framlög? Væri hún þá enn í borgarstjórn eða hefði hún fallið út af lista borgarstjórnar þegar vorið 2006 ef hún hefði ekki hlotið ríflega styrki?
Vafalítið þarf Steinunn að svara þessari spurningu og slíkt þurfa fleiri í þessum flokki að gera. Útrásarsmitið hafði skotið djúpum rótum í Samfylkingunni og varðar það sjálfsagt við ærumeiðingar ef ég tæki mig til og ritaði um tilburði þingmanns nokkurs í þeim efnum. Þótt sitthvað sem Samfykingarfulltrárnir í borgarstjórn og jafnvel á Alþingi aðhöfðust hafi verið löglegt var það tæplega siðlegt og enn verra er það orðið eftir að Sturlunga hin nýja kom út.
Steinunn Valdís hlýtur nú að velta fyrir sér hvort hún fari út úr stjórnmálum með reisn eða láti einhverja umbótanefnd hrekja sig þaðan. Svo mættu fleiri Samfylkingarmenn hugsa.
Stjórnmál og samfélag | 25.4.2010 | 19:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Áður léku karlmenn flest hlutverk og skipti þá litlu hvort þeir léku konur eða karla. Nú ríkir jafnrétti á leiksviðinu og því var það hin versta afskræming í eyrum mínum að Ilmur Kristjánsdóttir skyldi leika Jón Grindvíking. Hún gerði það að vísu vel en hlutverkið varð afskræmilegt og í raun háðslegt fyrir vikið. Slík misnotkun leikara er sennilega eina kynvillan sem hægt er að ræða um í nútíma samfélagi.
Á eium stað vottaði fyrir enskupestinni sem nú tröllríður íslenskri tungu eins og hver önnur drepsótt. Orðið "particula" bar einn leikarinn fram sem "partíkjúla". Hið sama er upp á teningnum þegar hringt er í öryggisfyrirtækið Securitas. Þá er svarað: "Sekjúrítas, góðan dag".
Íslandsklukkan tekur á ýmsum sígildum vanda sem Íslendingar hafa strítt við um aldir og þar á meðal spilltu stjórnmála- og embættismannakerfi. Þótt Danir séu vissulega gagnrýndir fyrir nýlendustjórn sína fá þó Íslendingar vissulega sinn skammt.
Í fyrra hléi og eftir sýningu var á vegi mínum og okkar hjóna skemmtileg kona, móðir tveggja listamanna og söngelsk hláturgyðja. Urðum við sammála um að Þjóðleikhúsið ætti að bjóða til sérstakrar heiðurssýningar á Íslandsklukkunni og bjóða m.a. Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Hannesi Smárasyni og Pálma Haraldssyni, og eru þá víst ýmsir ónefndir sem þyrftu að sjá verkið. Lesendum bloggsins er velkomið að birta ábendingar um heiðursgesti.
Stjórnmál og samfélag | 24.4.2010 | 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
"Sá ráðherra, sem mál hefur undirritað, ber það að jafnaði upp fyrir forseta."
Þegar ákvæði stjórnarskrárinnar um ríkisstjórn Íslands og ábyrgð ráðherra eru lesin verður skiljanleg sú túlkun að ríkisstjórnin sé ekki fjölskipað stjórnvald. Í raun má túlka orð stjórnarskrárinnar með þeim hætti að hver ráðherra beri ábyrgð á eigin álaflokki og forsætisráðherra sé eingöngu forseti funda sem ráðherra halda um einstök mál, hafi ráðherrar farið þess á leit.
Forsætisráðherrar hafa þó ráðið mestu undanfarna áratugi um það hverjir hafa verið skipaðir í stjórnir hverju sinni auk formanna og þingflokka viðkomandi stjórnarflokka, en skýr ákvæði hefur vantað í stjórnarskrá lýðveldisins um vald forsætisráðherrans og samábyrgð ríkisstjórnarinnar. Þess vegna er hætt við að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, svo að eitt nafn sé nefnt, verði vart sótt til saka fyrir afglöp Geirs Haarde og erfitt getur orðið að krefjast þess að landsdómur véli þar um.
Forseti vor hefur eftir að skýrslan um bankahruniðkom út, nokkrum sinnum vikið að þeim vanda í viðtölum, sem stafar af þessum skorti á beinum ákvæðum í stjórnarskránni. Virðist nú sem augu flestra stjórnmálamanna séu að opnast fyrir nauðsyn þess að gjörbreyta stjórnarskrárákvæðunum um ríkisstjórnina og ríkisráðið og kveða skýrt á um ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Inn á við er krafist samstöðu en út á við virðist hver ráðherra geta farið sínu fram að einhverju leyti og á eigin ábyrgð.
Eitt sinn á ferli mínum sem formaður Öryrkjabandalags Íslands reyndi mjög á þetta ákvæði. Þá hafði Jóhanna Sigurðardóttir farið fram með talsverðum ofsa gagnvart samtökum fatlaðra og leiddi það til þess að samráðsnefnd félagsmálaráðuneytisins og samtakanna varð um tíma óstarfhæf vegna óbilgirni ráðherrans. Við Ásta Þorsteinsdóttir, sem var formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar, leituðum þá á fund Steingríms Hermannssonar forsætisráðherra og varð málið ekki útkljáð á þeim fundi. Féllst Steingrímur hins vegar á að þiggja hjá okkur málsverð í hádeginu nokkrum dögum síðar og halda áfram umræðum. Var sá málsverður háður í húsakynnum Öryrkjabandalagsins og á borðum voru heilsusamlokur og jógúrt.
Steingrímur varðist okkur Ástu fimlega og dásamaðimjög áhuga félagsmálaráðherrans á málaflokknum. Taldi hann sjaldgæft að ráðherrar sinntu málum sínum af jafnmikilli alúð og samviskusemi sem hún. Taldi hann lengi vel að hann fengi litlu áorkað gagnvart ráðherranum, því að ríkisstjórnnin væri ekki fjölskipað stjórnvald og sig skorti hreinlega valdheimildir. Leikar fóru þó svo að hann féllst á að boða til sáttafundar með félagsmálaráðhera og forystumönnum samtaka fatlaðra. Sættir náðust á fundinum og rifuðu allir seglin nokkuð.
Frásögn þessi sýnir í hnotskurn þann vanda sem glímt hefur verið við í íslenskum stjórnmálum undanfarna áratugi. Það er mjög undir forsætisráðherra hverju sinni komið hvernig málefnum reiðir af og hver samábyrgð ráðherranna er. Geir Haarde virðist ekki hafa ráðið ráðum sínum með ríkisstjórninni fyrr en allt var í óefni komið og í skilningi þröngrar túlkunar 18. gr. stjórnarskrárinnar hafði hann leyfi til þess. Þessi einleikur og sú staðreynd að sumum ráðherrum var haldið utan við leiksviðið, virðist einn drýgsti þátturinn í því hvernig fór. Hægri höndin vissi aldrei hvað sú vinstri hafðist að og ríkisstjórnin flaut sofandi að feigðarósi.
Stjórnmál og samfélag | 22.4.2010 | 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um daginn birti Björgúlfur Thor Björgólfsson grein þar sem hann baðst fyrirgefningar á misgjörðum sínum gagnvart þjóðinni. Í dag birtir svo Jón Ásgeir Jóhannesson hjartnæma grein í Fréttablaðinu sem fjölmiðlafulltrúi hans heur væntanlega samið. Þar er reynt að sýna kappann sem iðrandi syndara. Hann biðst ekki afsökunar því að sumt voru þetta misheppnaðar tilraunir til þess að bjarga stórfyrirtækjasamsteypu sem var að fara í hundana.
Er gluggað er í Sturlungu hina nýju, eins og hrunskýrslan er kölluð, má hverjum manni vera ljóst að Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Pálma Haraldssyni, Björgúlfi Thor Björgólfssyni og Hannesi Smárasyni var ljóst hvað þeir aðhöfðust og þeir hlutu einnig að vita að fyrr eða síðar hlyti fjárhættuspil þeirra að enda með skelfingu. Á meðan fréttir berast af því að Jón Ásgeir Jóhannesson reyni að koma eignum sínum undan til dótturfélaga, sem þjónar vart neinum tilgangi, trúir því enginn að hann iðrist neins.
Ung móðir spurði hvers vegna þjóðin ætti að fyrirgefa þessum mönnum. Þeir hefðu eyðilagt heilbrigðiskerfið, fé væri ekki lengur fyrir hendi til að halda uppi menntakerfi landsins og almenn velferð barna sinna yrði tæplega endurreist án mikilla fórna sem þjóðin yrði að færa. Annar viðmælandi undirritaðs orðaði það svo í gær að nú færi að verða óhætt að kalla vissa menn þjófa því að það væru þeir þar til annað yrði sannað.
Dómstóll götunnar hefur ekki sæmt þá þessum titli heldur gerðir þeirra sjálfra.
Stjórnmál og samfélag | 22.4.2010 | 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
-
alla
-
axelthor
-
arnibirgisson
-
ormurormur
-
astafeb
-
bjarnihardar
-
gattin
-
dora61
-
saxi
-
jaherna
-
jovinsson
-
fjarki
-
gislisigurdur
-
gudni-is
-
gelin
-
gummigisla
-
heidistrand
-
helgigunnars
-
hildurhelgas
-
himmalingur
-
hoskibui
-
isleifur
-
jakobk
-
fun
-
jonhalldor
-
jon-o-vilhjalmsson
-
nonniblogg
-
juliusvalsson
-
kje
-
kristbjorggisla
-
methusalem
-
mortenl
-
moguleikhusid
-
skari60
-
rafng
-
ragnar73
-
fullvalda
-
duddi9
-
siggisig
-
saemi7
-
vefritid
-
thorirj
Sept. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | |
7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 |
14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 |
21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 |
28 | 29 | 30 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar