Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Ég er að ljúka við að lesa síðasta bindi bókaflokksins, Þrautgóðir á raunastund. Þar er m.a. sagt frá því þegar tankskipið Sineta fórst við Skrúð aðfaranótt annars í jólum árið 1986.
Ég var þá austur á Stöðvarfirði hjá vinafólki mínu, Hrafni Baldurssyni og Önnu Maríu Sveinsdóttur.
Að kvöldi jóladags tók ég á mig náðir um kl. 10 og sofnaði fljótt.
Um nóttina vaknaði ég og gáði á klukkuna. Hana vantaði þá 11 mínútur í 4.
Svo undarlega brá við að ég fann að herbergið sem ég svaf í var þétt skipað fólki. Það rann vatn úr fötum þess og fannst mér að ég gæti snert það ef ég rétti hægri höndina út fyrir rúmstokkinn.
Það hvarflaði að mér að þetta væri skylt atviki sem er sagt hafa gerst á prestssetrinu Ofanleiti í Vestmannaeyjum árið 1836. Þegar vinnukonu varð gengið fram í bæjargöngin sá hún þar standa 12 skinnklædda menn og vissi þá að skip staðarins hefði farist (þannig er sagan í minni mínu).
Um svipað leyti heyrði ég að María var komin á stjá. Gekk hún að herbergisdyrum mínum og knúði dyra. Ég hugsaði sem svo að hún hefði fengið einhverja aðsókn og ætlaði að bjóða mér að bergja með sér á kaffibolla.
um leið og hún opnaði dyrnar hvarf mér þessi tilfinning um fólkið í herberginu.
María tjáði mér að skip hefði farist við Skrúð og væri Hrafn kominn niður í bækistöð björgunarsveitarinnar á Stöðvarfirði. Hefði hann hringt og stungið upp á að ég kæmi þangað.
Greindi ég henni undir eins frá því sem borið hafði fyrir mig.
Enga skýringu kann ég á þessu en ýmsa þekki ég sem orðið hafa fyrir svipaðri reynslu.
Fyrir vikið og vegna þess sem ég varð áskynja við að hlusta á samskipti björgunarmanna hefur þessi atburður grópast í minni mér.
Stjórnmál og samfélag | 8.2.2018 | 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudaginn 1. febrúar hélt mbl.is upp á 20 ára afmæli sitt. Óhætt er að segja að þessi miðill hafi lyft grettistaki í fjölmiðlanotkun blindra og sjónskertra.
Frá upphafi var það haft að leiðarljósi að miðillinn væri aðgengilegur og var fljótlega tekið að bjóða svokallaðan auðlesinn mogga sem veitir aðgang að öllu efni blaðsins.
Öryrkjabandalag Íslands veitti Morgunblaðinu aðgengisverðlaun árið 2003. Enn er það svo að mbl.is er einhver aðgengilegasti fjölmiðill landsins.
Í tilefni afmælisins voru nokkrar úrbætur gerðar á miðlinum og hefur aðgengi að ýmsum hlutum hans stórbatnað.
Ástæða er til að óska þeim Morgunblaðsmönnum til hamingju með afmælið. Jafnframt skal sú fróma ósk lögð fram að aðrir fjölmiðlar, ekki síst Fréttablaðið, taki Morgunblaðið sér til fyrirmyndar.
Stjórnmál og samfélag | 3.2.2018 | 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvar voru konurnar í Sjálfstæðisflokki Reykjavíkur í gær?
Þeir sem eru langræknir og langminnugir efuðust flestir um að Eyþór Arnalds hefði það. Ef til vill voru þeir eða þau öll í öðrum flokkum.
Hugsanlet er að Eyþór höggvi eitthvað í raðir kjósenda annarra flokka ef hann skýrir betur stefnu sína í spítalamálinu, en afstaða leiðtoga stjórnarflokkanna og annarra fylgismanna óbreyttrar staðsetningar Landspítalans jaðrar við firringu.
Vilji menn vinna út frá miðju höfuðborgarsvæðisins er hún hvergi nærri Hringbrautinni. Tekið skal undir orð þeirra sem telja að senn verði alvarlegt skipulagsslys sem erfitt verður að vinda ofan af.
Stjórnmál og samfélag | 28.1.2018 | 19:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar eru brimskaflarnir farnir að brotna á forsætisráðherra.
Eftirlitsnefnd Alþingis er með mál dómsmálaráðherra til athugunar og það getur orðið upphaf ferlis sem undir öllum kringumstæðum nema hér á landi getur leitt til afsagnar ráðherrans. Verði hún neydd til að segja af sér getur hugsast að grátkór fari af stað og harmi aðför að konum. En minnumst þess að Albert Guðmundsson og Guðmundur Stefánsson voru knúnir til að segja af sér og reyndar einnig Hanna Birna.
Þá er það kjararáð og dómar þess.
´Vesaldómur Alþingis hefur verið algjör í þessu máli og er tími til kominn að ráðið verði lagt niður.
Í raun réttri er hægt að búa svo um hnútana að forsendur verði til þess að laun hækki miðað við tilteknar forsendur. Þá eiga aldraðir og fatlað fólk að fylgja með í slíkri þróun auk þjóna kirkjunnar ef þeir verða áram á framfæri hins opinbera.
Orð forsætisráðherra um endurskoðun málefna fatlaðra valda nokkrum áhyggjum. Sporin hræða. Síðast þegar alvörutilraun var gerð til þess að koma skikki á málefni fatlaðra svo að nokkru næmi brá Alþýðuflokkurinn fæti fyrir væntanlegt frumvarp og hafði þó fulltrúi hans í nefndinni einungis sótt einn eða tvo fundi það rúma ár sem nefndin starfaði.
Nú verður að fara að hreinsa til eftir óstjórn síðustu ríkisstjórna í þessum málaflokkum.
Stjórnmál og samfélag | 20.12.2017 | 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á mbl.is birtast um þessar mundir ágrip sagna um kynferðisobeldi karlmanna gagnvart konum.
Það hefur sennilega verið sumarið 1974 sem mér varð ljóst fyrir alvöru hvað þetta þýddi.
Ég var sumarstarfsmaður hjá ágætu fyrirtæki. Þar var ung kona, eiginkona og móðir, sem gerði hreint. Kom hún til starfa um kl. hálf fimm á daginn. Settist hún stundum á skrifborðshornið hjá mér og áttum við saman spjall um daginn og veginn.
Um þessar mundir vann maður nokkur á miðjum aldri hjá fyrirtækinu, en hegðan hans var þannig að hann var á eins konar bráðabirgðafresti. Fékk hann ekki að koma inn í söludeildina nema hann ætti við mig sérstakt erindi. Það var yfirleitt fólgið í því að lesa upp vörulista svo að ég gæti skrifað þá hjá mér.
Dag nokkur vorum við að ljúka við vörulistana þegar áður nefnd kona kom í heimsókn. Sá gamli varð hinn glaðasti og spurði hvort ég vissi hvað hún væri brjóstamikil. Konan bað hann að hætta þessu bulli. Í stað þess að hætta tók hann um brjóst hennar og hvað hann gerði meira veit ég ekki en sagði um leið: "Svona á maður að taka á þeim, Arnþór."
Konan veinaði: "Arnþór, hjálpaðu mér!"
Ég varð skelfdur og sagði við manninn að okkar verki væri lokið og hann skyldi hætta þessu."
Ég minnist þess að hafa titrað af skelfingu og andstyggð.
Áttum við konan um þetta stutt spjall og minnir mig að ég hafi stungið upp á að hún ræddi þetta við skrifstofustjórann, sem var kona.
Eitt er víst og frá því hef ég ekki sagt áður.
Skrifstofustýran kom til mín morguninn eftir og krafði mig sagna um það sem gerst hafði. Ég staðfesti það.
Eftir þetta var maðurinn settur í algert samskiptabann og mátti ekki vera annars staðar en í lítilli skrifstofu nærri stjórnendum fyrirtækisins.
Þessi niðurlægingarminning sækir einatt enn á mig eftir rúm 40 ár.
Stjórnmál og samfélag | 8.12.2017 | 11:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Steinunn Valdís Óskarsdóttir sýndi af sér mikið hugrekki í Silfrinu í gær þegar hún lýsti þeim ofsóknum sem hún varð fyrir árið 2010, en þá var m.a. setið um heimili hennar.
Sagt er að ýmsir nafnkunnir einstaklingar í þjóðfélaginu hafi átt hlut að máli, þar á meðal eitthvert fyrirbæri sem er kallað Gillzenegger.
Hvers vegna er þessum nafnkunnu einstaklingum hlít við nanbirtingu?
Er ástæðan sú að þeir eru ekki konur?
Ég man eftir að hafa spurt sjálfan mig hvers vegna fleiri þingmenn sögðu ekki af sér vegna styrkjanna en Steinunn Valdís. Var það einnig vegna þess að þeir eru ekki konur og höfðu skotið djúpum rótum í Sjálfstæðisflokknum?
Stjórnmál og samfélag | 4.12.2017 | 09:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í dag, 8. október, eru 40 ár liðin frá skemmtilegu atviki sem henti mig austur í Beijing.
Kínversku vináttusamtökin höfðu boðið sendinefnd frá Kversk-íslenska menningarfélaginu til Kína í nóvemberbyrjun. Ég hafði verið kjörinn formaður félagsins 7. apríl þá um vorið en félagið var þá einnig að undirbúa fyrstu almennu ferðina sem farin var til Kína. Hélt hópurinn til Kína þann 8. september og kom til Beijing þann 9. Varð hann einna fyrstur erlendra ferðamanna til að heimsækja grafhýsi Maos.
Ég ætlaði með hópnum, en Kínverska sendiráðið neitaði mér um áritun. Skýringin var sú að um svipað leyti var von á kínverskri sendinefnd hingað til lands undir forystu ding Xuesong, merkri konu sem var m.a. fyrsti kvensendiherra Kína. Töldu sendiráðsmenn einboðið að ég yrði heima til að taka á móti sendinefndinni. Móttakan hvíldi að mestu á okkur Magnúsi Karel Hannessyni, Emil Bóassyni, Önnu Einarsdóttur og síðast en ekki síst Kristjáni Jónssyni.
En aftur að 8. nóvember 1977:
Þegar sendiráðsmaðurinn Xie Yngong kvaddi mig í Keflavík sagðist hann telja að allmerkur viðburður yrði í mínu lífi en gaf ekkert uppi um hvað það væri.
Við komum til Beijing um morguninn 7. nóvember. Í hópnum voru auk mín Anna Einarsdóttir, ritari félagsins, Guðrún Ólafsdóttir kristniboða, sem var fædd í Kína, Bjarni Þórarinsson, skólastjóri og kona hans, Svanhildur sigurjónsdóttir, Hjörleifur Sigurðsson, formaður Bandalags íslenskra myndlistarmanna, Kári Sigurbergsson læknir og Zophonías Jónsson, en hann var einn af stofnendum Kím og hafði verið í sendinefnd sem fór til Kína árið 1952 og ruddi brautina að stofnun Kím.
Í hádeginu þann 8. nóv. Var okkur tjáð að einn af varaforsetum Kína, Wang zhen, tæki á móti okkur og skyldum við vera sæmilega til fara.
Ég klæddist auðvitað hátíðar-Maofötunum sem ég hafði keypt árið 1975 og héldum við síðan til fundarins. Með okkur var kínverskur túlkur, sem talaði sæmilega íslensku. Þá var einnig viðstaddur Ragnar Baldursson, og sést á ljósmyndum að hann var í lopapeysu.
Wang zhen tók á móti okkur í anddyri alþýðuhallarinnar miklu, faðmaði mig að sér og kyssti á báða vanga. Ég var svo óvanur kossum karlmanna að við lá að ég færi að brynna músum.
Síðan hófst fundurinn.
Rætt var um ýmis mál og kom þar að gestgjafinn sagðist hafa áhyggjur af þeirri ósk Íslendinga að bandaríski herinn færi héðan. Sagði hann að á kreiki væru alþjóðlegir úlfar sem gætu notað tækifærið þegar tómarúm skapaðist í norðurhöfum og hremmt landið.
Ég fann, þegar mesta feimnin var farin af mér, að ég réð ágætlega við þessar samræður og mundi þá eftir því að Geir Hallgrímsson hafði verið í Moskvu rúmum mánuði áður og fullyrt að Íslendingar færu aldrei með ófriði á hendur annarri þjóð. Ákvað ég að láta til skarar skríða í þessum umræðum.
„Það er eitt sem er alveg ljóst,“ sagði ég, „að Íslendingar verða aldrei fyrri til að kveikja ófriðarbál í Evrópu.“
Það fór sem mig grunaði. Varaforsetinn hló og fann um leið hvernig andrúmslotið varð ískalt. Vissi ég að félagar mínir frá Íslandi sárskömmuðust sín fyrir þetta skammarstrik mitt og varaforsetinn hefur ef til vill undrast heimsku þessa ungmennis frá Íslandi.
Ég naut augnabliksins í 15-20 sekúndur og bætti þá við: „Nema því aðeins að ráðist verði á landið. Þá gæti það orðið neistinn sem kveikti í allri álfunni.“
Wang Zhen klappaði hinn ánægðasti á hné mé og marg-endurtók: „Já, Já, Já“, ég fann að Íslendingarnir hættu við að skammast sín og andrúmsloftið breyttist.
Þessi saga hefur held ég aldrei verið sögð opinberlega, en einn af mínum bestu vinum, Kristján Jónsson færði hana örlítið í stílinn og sagði að ég hefði ábirgst að Íslendingar færu aldrei með her á hendur Kínverjum.
Þess má geta að daginn eftir fórum við til Shanghai. Þar tók á móti okkur kona sem bar og ber enn eftirnafnið Sai. Hún fagnaði mér himinlifandi og sagði: “Ég sá þig í sjónvarpinu í gær og þú varst í fötunum sem ég hjálpaði þér að kaupa fyrir tveimur árum.”
Ég skrifa kannski meira um þessa ferð síðar.
Stjórnmál og samfélag | 8.11.2017 | 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyrir nokkru birti ritstjóri þessarar síðu vangaveltur um næstu ríkisstjórn.
Í dag birtist í Morgunblaðinu aðsend grein eftir Hjörleif Guttormsson, náttúrufræðing, um sama mál með góðum rökstuðningi. Greinin er birt hér með leyfi höfundar..
Nú er að sjá hvort Vinstri grænir bera gæfu til að slíta sig frá Samfylkingunni og vinna að þjóðarheill.
Þriðjudaginn 31. október, 2017 - Aðsent efni
Óskorað fullveldi og náttúruvernd meðal brýnustu verkefna nýs þings og ríkisstjórnar
Eftir Hjörleif Guttormsson
Spenna vegna alþingiskosninga er liðin hjá og nú sitja margir og rýna í niðurstöðuna. Stutt kosningabarátta einkenndist sem fyrr af tíðum skoðanakönnunum, sem lengi vel voru fjarri því sem kom upp úr kössunum. Sjálfstæðisflokkurinn með fjórðung atkvæða má allvel við niðurstöðuna una og eins Framsóknarflokkurinn, en báðir þessir gamalgrónu flokkar áttu í vök að verjast í aðdraganda kosninganna. VG hélt sínu en nuddar nú stírur úr augum eftir velgengni í skoðanakönnunum. Samfylkingin rétti úr kútnum frá því fyrir ári, mest út á hrun Bjartrar framtíðar. Gnarr sem andlegur leiðtogi þess horfna þingflokks flutti sig yfir til krata við upphaf kosningahríðar. Yfir 10% fylgi til Sigmundar Davíðs telst til tíðinda og Flokkur fólksins skilaði sömuleiðis uppskeru út á einsmanns atorku. Píratar mega muna sinn fífil fegri og Viðreisn hangir á bláþræði.
Stjórnarmyndun sem veigur væri í
Tölulega gæti þrenns konar mynstur skilað meirihlutastjórn eftir úrslitin. 1) Hægristjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins með þátttöku Framsóknar, Miðflokks og Viðreisnar og styddist sú við 35 þingmenn. 2) Vinstri stjórn fjögurra flokka undir forystu VG með aðild Samfylkingar, Framsóknar og Pírata hefði aðeins 32 þingmenn til að styðjast við og því þyrfti fimmti flokkur að koma til sem varahjól. 3) Blandað þriggja flokka stjórnarmynstur frá hægri til vinstri með þátttöku VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefði 35 þingmenn við að styðjast og væri á vetur setjandi. Að loknum kosningum fyrir ári taldi ég að mynda ætti slíka stjórn og skoðun mín er óbreytt, enda sýni viðkomandi flokkar sveigjanleika sem dygði til að koma á slíku samstarfi. Vænlegast er að slíkt samstarf væri undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur og félli þá fjármálaráðuneytið í skaut Bjarna Benediktssonar og utanríkismálin yrðu á hendi Lilju Daggar Alfreðsdóttur. Kjör hennar á þing, þrátt fyrir klofningsframboð Sigmundar Davíðs, felur í sér ánægjulegustu tíðindi þessara kosninga. Stjórn af þessum toga sem styddist við flokka með rótfestu í flestum kjördæmum gæti orðið trygging fyrir stöðugleika í stjórn landsins.
Brýnustu framtíðarverkefnin
Málefnaumræðan í aðdraganda kosninganna var óvenjulega einsleit þar sem flestir flokkar töldu heilbrigðis-, mennta- og húsnæðismál vera brýnustu úrlausnarefnin. Ekki skal dregið úr því að slíkir undirstöðuþættir kalla í senn á stefnumörkun og fjármuni og ættu stöðugt að vera á dagskrá stjórnvalda. Að mínu mati lágu hins vegar önnur vegvísandi stefnumál í láginni, þótt vitað sé þar um mikinn ágreining milli flokka eða vinna að þeim hefur verið vanrækt af opinberri hálfu. Þar eru mér efst í huga frambúðarsamskipti Íslands við Evrópusambandið og stefnumörkun í umhverfismálum og náttúruvernd. Ólík sýn stjórnmálaflokka hérlendis á tengsl Íslands við ESB hefur verið kraumandi í stjórnmálaumræðunni í fullan aldarfjórðung og flokkar tekið hamskiptum eða farið kollhnís í afstöðu sinni. Umsókn naums meirihluta á Alþingi um aðild Íslands að ESB sumarið 2009 er stærsta óheillaskref síðari ára og endaði 2013 í útideyfu og ráðleysi upphafsmanna. Meirihluti hefur aldrei reynst vera fyrir slíkri aðild samkvæmt skoðanakönnunum og andstaðan hefur farið vaxandi. Í aðdraganda fullveldisafmælis er eðlilegt að hreinsa burt þessa óværu og taka síðan EES-samninginn til endurskoðunar í ljósi fenginnar reynslu og með hliðsjón af Brexit-útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Nýrri ríkisstjórn ofangreindra þriggja flokka ætti að vera treystandi til að hafa forystu í þessu grundvallarmáli.
Náttúru- og umhverfisvernd í forgang
Undarlega hljótt var fyrir kosningar um stefnu og verkefni í umhverfis- og náttúruverndarmálum. Af einhverjum óútskýrðum ástæðum hafði flokkurinn sem tengir nafn sitt við grænt framboð þau örlagaríku mál nánast í þagnargildi. Ásamt kjarnorkuógninni er þó ekkert jafn skýrt letrað á vegginn varðandi framtíð síðmenningar okkar og afleiðingar óbreyttrar siglingar í umgengni við móður jörð. Parísarsamkomulagið í loftslagsmálum er óskuldbindandi óskalisti og óútfærður af Íslands hálfu. Aðrir þættir sem snúa að meðferð náttúruauðlinda og umgengni við landið eru víða í miklum ólestri. Vatnsaflsvirkjanir 10 MW og meira að afli lúta rammaáætlun, en fjöldi smærri virkjana er í undirbúningi eftirlitslítið í hagnaðarskyni. Menn fagna tekjum af ferðamannastraumi en víða er hætta á örtröð nema við verði brugðist. Hér reynir á skipulag og samþætt tök ríkis og sveitarfélaga. Að vori er kosið til sveitarstjórna og fyrir þann tíma þurfa Alþingi og ríkisstjórn, að gefa leiðsögn og svör um sinn þátt. Fráfarandi umhverfisráðherra sýndi góða viðleitni, en flokkur hennar hljóp frá verkunum. Ný ríkisstjórn þarf að taka umhverfimálin föstum tökum og auka til muna fjármagn til þeirra, m.a. í landvörslu. Þar á hún vísan hugmyndalegan hljómgrunn hjá æskufólki sem í vaxandi mæli setur spurningarmerki við þau óheillavænlegu vistspor sem nútíma neyslusamfélag skilur eftir sig. Þennan hljómbotn þarf að nýta og þar á Alþingi allt að sameinast um að gefa tóninn.
Höfundur er náttúrufræðingur.
Stjórnmál og samfélag | 31.10.2017 | 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig kínverskir fjölmiðlar fjalla um alþingiskosningarnar hér á landi. Vel get ég ímyndað mér að vakin verði athygli á þeim glundroða sem þær hafa skilað. Skyldu menn þar eystra ekki velta því fyrir sér hvort píramídakosningar, eins og stundaðar eru innan Kommúnistaflokksins, skiluðu nokkuð lakari árangri.
Eitt sinn ræddi ung kínversk kona við mig um kínversk og vestræn stjórnmál. Niðurstaðan var á þessa leið: "Það er ótrúlegt hvað Vesturlandabúar reyna að siða okkur Kínverja til. Þið eigið ekki að gera hlutina svona heldur hinseginn. En þótt ýmislegt sé að hjá okkur er líka allt í kaldakoli hjá ykkur - hver höndin á móti annarri og engin samstaða. Hvort kerfið ætli sé betra þegar til lengdar lætur?" Svar mitt varð fremur langt og fór umræðan víða.
Annar kínverskur þegn sagðist stundum horfa og hlusta á útsendingar frá Alþingi Íslendinga.
"Það er ótrúlegt hversu oft þingmenn öskra hver á annan," sagði hann. "Um hvað snýst þetta? Hjá okkur reynum við að ná samkomulagi. Við þvingum ekkert fram en reynum að komast að málamiðlunum ef skoðanir eru skiptar."
Hér skal ekki lagt mat á álit þessara einstaklinga, en þau vekja mann samt til umhugsunar þegar við stöndum frammi fyrir þeim kostum sem í boði eru þar sem málamiðlanir þarf til þess að árangurinn verði ásættanlegur fyrir alla aðila.
Stjórnmál og samfélag | 29.10.2017 | 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Því heyrist nú haldið fram að óskaríkisstjórn eftir kosningar verði þriggja flokka stjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks.
Fullyrt er að Sjálfstæðisflokkurinn hafi að undanförnu nálgast síðar nefndu flokkana með kosningaloforðum sínum sem tengjast ýmsum velferðarmálum svo sem málefnum elli- og örorkulífeyrisþega, heilbrigðismálum o.s.frv. Með slíkri ríkisstjórn verði um leið haldið niðri þeim öflum sem ganga vilja Evrópusambandinu á vald.
Helstu ásteytingarsteinarnir eru sagðir endurskoðun stjórnarskrárinnar og loftslagsmál, en Sjálfstæðisflokkurinn virðist ekki þægur í taumi á þeim slóðum. Sagt er að munurinn sé þó ekki meiri en svo að forysta Sjálfstæðisflokksins vilji fremur gefa eftir en sitja hjá á næsta kjörtímabili.
Stjórnmál og samfélag | 27.10.2017 | 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
-
alla
-
axelthor
-
arnibirgisson
-
ormurormur
-
astafeb
-
bjarnihardar
-
gattin
-
dora61
-
saxi
-
jaherna
-
jovinsson
-
fjarki
-
gislisigurdur
-
gudni-is
-
gelin
-
gummigisla
-
heidistrand
-
helgigunnars
-
hildurhelgas
-
himmalingur
-
hoskibui
-
isleifur
-
jakobk
-
fun
-
jonhalldor
-
jon-o-vilhjalmsson
-
nonniblogg
-
juliusvalsson
-
kje
-
kristbjorggisla
-
methusalem
-
mortenl
-
moguleikhusid
-
skari60
-
rafng
-
ragnar73
-
fullvalda
-
duddi9
-
siggisig
-
saemi7
-
vefritid
-
thorirj
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 2
- Sl. sólarhring: 12
- Sl. viku: 24
- Frá upphafi: 319986
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 17
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar