Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Verðbólga á húsnæðismarkaði

"Í búðarhúsnæði er ætlað til þess að búið sé í því" (Xi Jinping á 19. þingi Kommúnistaflokks Kína 19. október 2017)

Fréttastofa Ríkisútvarpsins greindi frá því áðan að vísitala leiguverðs á Reykjavíkursvæðinu hefði hækkað um 14% síðastliðið ár. Slík þróun hefði verið kölluð okur í mínu ungdæmi.
Þótt ýmsum Íslendingum þyki ekki sitthvað til fyrirmyndar hjá vinum vorum Kínverjum hafa stjórnvöld þar gripið til örþrifaráða til þess að koma í veg fyrir að byggingalóðir hækki upp úr öllu valdi.
Skammt frá Beijing verður á næstu árum byggð ný stórborg. Þegar það féttist ruku fasteignarsalar upp til handa og fóta og þyrptust á svæðið. Leiddi það til þess að stjórnvöld lokuðu flestum skrifstofum þeirra.
Í samtali við fréttamann Ríkisútvarpsins kom fram að sumum þeirra þótti þetta réttmæt ákvörðun og sögðust þurfa að þreyja þorrann og góuna í svo sem þrjú ár.

Verður ekki næsta ríkisstjórn vor að taka til hendinni og skrúfa fyrir þessar einstæðu hækkanir og sjá þannig til þess að íbúðarleiga og húsnæðisverð fari að fylgja eðlilegum lögmálum?
Framboð og eftirspurn geta orðið hin mesta plága einkum ef hún er borin uppi af svo kölluðum húsnæðisfélögum sem kaupa eignir í gróðaskyni.


Hverja verndar bankaleyndin?

Haustið 2007 fór að berast orðrómur úr bönkunum þess efnis að haft væri samband við valda viðskiptavini og þeim bent á að forða fjármunum sínu í öruggara skjól. Fjárfestir nokkur sagði mér fyrst frá þessu. Viðbrögð hans voru reiði og hætti hann viðskiptum við bankann.

Sjálfur fékk ég upphringingu frá sama banka vegna fjárreiðna móður minnar. Hefðum við farið að ráðum drengsins hefði hún misst nær allt sitt.

Það var greinilegt að tvennt var í gangi: aðstoð við vildarvini og græðgi í almennan sparnað viðskiptavina sem bankar vildu flytja í áhættumeiri fyrirtæki.

Það sem nú hefur verið bannað er hætt við að vindi upp á sig og aðgerðir Glitnis heitins verði til að skaða orðstír þeirra sem í hlut áttu enn meira en orðið er.

Opin umræða er skárri en boð og bönn.

Bankaleynd á að heyra sögunni til hvar sem er í heiminum.

Fjárfestingar eiga ekki að flokkast undir myrkraverk.

Stjórnmálaafskipti og fjárgróðastarfsemi eiga ekki saman.

Hvenær ætla sumir a' koma hreint fram í sínum málum?

 

 


Vindhöggið, Bjarni og peningamarkaððsbréfin

Einhvern veginn líst mér sem fréttaflutningur um sölu Bjarna Benediktssonar á sjóðsbréfunum sé eins og hvert annað upphlaup.
Þeir sem fylgdust með  aðdraganda hrunsins haustið 2008 muna að opnað var fyrir viðskipti í peningamarkaðssjóðunum nokkru áður en Glitnir var yfirtekinn að fullu. Mörg okkar vissu að ýmsir seldu bréf með talsverðu tapi og komu fjármunum síðum annars staðar fyrir. Vitneskja er meira að segja fyrir hendi um að sumir viðskiptamenn bankans voru aðvaraðir og þeim bent á að losa sig við bréfin.
Ég þekki einstaklinga sem gerðu þetta ekki og töpuðu talsverðu fé.
Fyrirtæki, sem annaðist hluta af séreignasparnaði, hafði fjárfest í sjóði 9 án þess að ég hefði hugmynd um það fyrr en ári síðar að uppgjör barst. Ég tapaði því nokkrum þúsundum.
Ég held að umræðan hér á landi ætti að komast á hærra stig en stundarupphlaup þetta ber vitni um.
Fjármálabrask er fólgið í því að skara eld að eigin köku. Sumum finnst það siðlaust þótt það sé löglegt.
Fjölmiðlar ættu að forðast vindhögg. Þau eru engum til gagns.


Vegagjöldin og sérgæskan

Umræðan um vegagjöld er gott dæmi um hrepparíg, sérdrægni Íslendinga og skort á heildaryfirsýn.
Nú þegar ljóst er að afla þarf fjár til nauðsynlegra vegaframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu og víðar og lagðar hafa verið fram tillögur um vegatolla næst ekki samstaða. Sunnlendingar þykjast hlunnfarnir. Akurnesingar segjast geta sætt sig við vegagjöld enda séu þeir vanir að hlíta slíkum gjöldum vegna Hvalfjarðargangnanna, en taka þó fram að þeir gleðjist yfir því að hætt verði að innheimta þau innan skamms.
Í raun ættu öll göng á landinu að vera gjaldskyld. Það er t.d. með ólíkindum að menn skuli fara um Héðinsfjarðargöng án þess að greiða gjald fyrir. Og hámark heimskunnar verður að hætta gjaldtöku um Hvalfjarðargöngin þar sem ráðast þarf í gerð annarra gangna innan skamms.
Hvenær skyldu Vestmannaeyingar krefjast þess að fargjöld með Herjólfi heyri sögunni til.


Borðdúkurinn sem breytti lífi mínu

Stundum valda smáhlutir straumhvörfum í lífi fólks. Í dag eru 50 ár síðan alger straumhvörf urðu í lífi mínu.

Frá því um miðjan ágúst og fram í september 1967 vann ég við að skrifa námsefni á blindraletur handa okkur tvíburunum. Lauk því starfi rétt fyrir miðjan septembermánuð.
Föstudaginn fórum við mæðgin að heimsækja þau heiðurshjónin, Andreu Oddsteinsdóttur og Halldór Þorsteinsson, en þau bjuggu þá í virðulegu húsi við Miðstræti í Reykjavík. Á eldhúsborðinu var útsaumaður dúkur sem móðir mín varð mjög hrifin af og vildi vita hvar Andrea hefði fengið hann. Hún vísaði á verslunina Ístorg á Hallveigarstíg.
Ég vissi að þar fengjust hljómplötur frá Asíu en um þetta leyti var ég hugfanginn af arabískri tónlist og héldum við mæðgin þangað.
Þar fengust þá eingöngu hljómplötur frá Kína og olli það mér nokkrum vonbrigðum. En ég keypti tvær.
Annarri plötunni brá ég á plötuspilarann hjá Sigtryggi bróður og Halldóru, konu hans og kom þá í ljós að um kantötu var að ræða fyrir sinfóníuhljómsveit, kór og tenorsöngvara. Í upphafi 3. þáttar hljómaði stef sem ég kannaðist við sem einkennisstef kínverska alþjóðaútvarpsins.
Frómt frá að segja varð ég hugfanginn af tónlistinni og það svo að ég keypti á næstu mánuðum og árum allar þær hljómplötur sem Ístorg átti.
Hvað leiddi af öðru.
Stefán Jónsson, fréttamaður hafði farið í leiðangur til Kína árið áður og sendi hann okkur bræðrum segulbandsspólu með kínverskri byltingartónlist.
Ég hófst handa og hafði bæði samband við kínverska alþjóðaútvarpið sem sendi mér árum saman segulbönd og hljómplötur með kínverskri tónlist og kínverska verslun sem seldi hljómplötur og næsta hálfan annan áratuginn keypti ég tugi titla frá Kína og á sjálfsagt eitthvert mesta safn byltingartónlistar þaðan á Norðurlöndum.
Þá hófst ég handa við dreifingu kínverskra tímarita og bóka hér á landi og hélt því áfram til ársins 1989.
Ég gekk í Kínversk-íslenska menningarfélagið haustið 1969 og hef verið viðloðandi stjórn þess frá árinu 1974, þar af formaður í 30 ár í þremur lotum. Nú verður væntanlega endir á því á næsta aðalfundi félagsins.
Ég hef stundum sagt að Kína sé eilífðarunnusta mín og verður sjálfsagt svo á meðan ég er lífs.
Lagið Austrið er rautt, sem var kynningarstef útvarpsins í Beijing, varð mér svo hjartfólgið að það var leikið sem forspil að brúðarmarsinum í brúðkaupi okkar Elínar og hljómar m.a. sem hringitónn farsímans. Síðar vitnaðist að upphaflega var þetta ástarsöngur sem varð svo að lofsöng um Mao formann.

Ævi mín hefði orðið mun fábreyttari hefðum við mæðginin ekki rekist inn í kaffi til þeirra Andreu og Halldórs.


Er upphlaup réttmæt aðferðafræði?

Stjórnarslitin eru ekki óeðlileg miðað við það sem á undan er gengið og sýna í raun hvert vald almennings getur orðið.
Þó hefði verið eðlilegra að tekist hefði verið á um þessi mál á ríkisstjórnarfundi og Björt framtíð hefði í kjölfarið tekið sína ákvörðun.
Hvernig sem á það er litið og án þess að afsaka nokkurn ráðherra er sem Björt framtíð hafi forðað sér til þess að bjarga eigin skinni. En ætli það dugi til?


Hverjir eru ábyrgir?

Enn hafa fulltrúar Lýðræðislega lýðveldisins Kóreu, eins og það heitir, skotið eldflaug á loft og fór hún yfir Norður-Japan.

Kjarnorkuvopn eru ógnun við tilvist mannkyns. Sjálfskipaður útvörður frjálsra þjóða er sá eini sem beitt hefur kjarnorkuvopnum.

Fjöldi ríkja hefur margsinnis lagt fram tillögur á allsherjarþingi SÞ um algert bann við kjarnorkuvopnum og þar á meðal hið lýðræðislega lýðveldi af öllum löndum. Bandaríkjamenn hafa farið offari gegn slíkum tillögum og Íslendingar fylgt þeim sem hundar í bandi.

Fylgispekt Íslendinga við Bandaríkin hefur einatt verið með ólíkindum. Þannig urðu þeir síðastir Norðurlanda til þess að greiða aðild Kínverska alþýðulýðveldisins að SÞ atkvæði og til þess þurfti vinstri stjórnina árið 1971.

Bandaríkjamenn eru hvarvetna með blóðslóðina á eftir sér og hið sama má segja að nokkru leyti um Rússa. Nú síðast hefur Bandaríkjaforseti ákveðið að fjölga hermönnum í Afganistan.

Bandaríkjamenn bera litla virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti þjóða samanber síðustu hótanir gagnvart Venesúela sem þarf á öllu öðru að halda en slíkri afskiptasemi.

Bandaríkjamenn hafa virt að vettugi ýmsa alþjóðasamninga og ekki staðfest þá.

Syndaregistur þeirra er langt og skal hér látið staðar numið. Því miður má rekja allt of margt sem miður fer í veröldinni um þessar mundir til skefjalausrar fyrirlitningar Bandaríkjanna á öðrum þjóðum. Er það miður vegna þeirra ótvíræðu kosta sem margt í stjórnarfari þessa ríkis ber vott um.

 


Hvað er því til fyrirstöðu að blindir og sjónskertir geti lesið Moggann með snjalltækjum? Opið bréf til ritstjórnar

Ágæta ritstjórn Morgunblaðsins.
Árið 2003 var haldin sérstök ráðstefna á vegum Öryrkjabandalags Íslands um aðgengi að vefmiðlum. Heppnaðist húnmætavel og var tæknifólk í meirihluta þeirra sem sóttu hana.
Á ráðstefnunni var Morgunblaðinu veitt sérstök viðurkenning vegna aðgengis blindraog sjónskertra að blaðinu.

Morgunblaðið heldur enn að flestu leyti þeirri stöðu að vera aðgengilegasti vefmiðill landsins og er það vel. En blaðið hefur ekki að öllu leyti fylgt þróuninni.
Þeim fer nú stöðugt fjölgandi í hópi blindra og sjónskertra sem nota spjaldtölvur og snjallsíma. Sá galli fylgir að vísu gjöf Njarðar að Apple-tæki eru undanþegin því að þau sýna hvorki íslenskt blindraletur né geta boðið íslenskan talgervil. Það gerir hins vegar Android-hugbúnaðurinn.

Um þessar mundir er Morgunblaðið eiginlega algerlega óaðgengilegt í þessum tækjum. Forritið, sem Stokkur hannaði fyrir ykkur, les hvorki texta né sýnir neitt með blindraletri. Að vísu vissu forráðamenn fyrirtækisins ekkert um aðgengi blindra og sjónskertra að snjalltækjum fyrr en undirritaður hafði samband við þá fyrir nokkrum árum. Síðan hafa starfsmenn Stokks smíðað m.a. forrit fyrir Hljóðbókasafn Íslands sem reynist allvel, en agnúa á öðrum forritum sínum hefur það lítt eða ekki lagfært.

Sem kunnugt er fjölgar stöðugt í hópi blindra og sjónskertra þar sem algengt er að sjón dofni með aldrinum. Flestir, sem fæddir eru eftir 1935, nýta sér tölvur og þeir vilja gjarnan halda áfram að geta notað þær - bæði spjaldtölvur, venjulegar heimilistölvur og síma.

Hefur þetta mál verið rætt innan Morgunblaðsins og hvað er í bígerð, ef eitthvað er?

Virðingarfyllst,

Arnþór Helgason
(Bréfritari var svo lánsamur að vera sumarblaðamaður á Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 2007 og 2008 og telur blaðið þann besta vinnustað sem hann hefur starfað á).


Rafbílavæðingin og hraðhleðslustöðvar

Rafbílavæðingin er nú hafin á Íslandi fyrir alvöru. Hraðhleðslustöðvum fjölgar óðum og menn geta nú farið allvíða án þess að eiga á hættu að verða rafmagnslausir.
Stöðvar hafa verið settar upp á suðurnesjum (Keflavík og Garði), í Hafnarfirði og allnokkrar í Reykjavík. Ekki hef ég frétt af neinni í Kópavogi.
Þá eru komnar stöðvar í Þorlákshöfn, Selfossi, Flúðum, við Apavatn og unnið er að uppsetningu víðar á landinu. Virðist sem hringnum verði að mestu eða öllu lokað jafnvel í haust.
Á vesturlandi eru stöðvar á Akranesi, í borgarnesi, Stykkishólmi og Ólafsvík, á Vestfjörðum a.m.k. á Patreksfirði, Ísafirði og Súðavík og fyrir norðan  við Staðarskála, á Hólmavík, Blönduósi, Varmahlíð og Sauðárkróki. Þá er stöð norðar í Skagafirðinum og á Siglufirði.
Við Varmahlíð er stöð og þrjár á akureyri, ef ég man rétt og á Austurlandi er komin stöð á Egilsstöðum. Sagnir herma að innan skamms komi síðan önnur á Reyðarfirði.
Flestir nota smáforritið plugshare til þess að skoða hvar stöðvarnar eru.

Við hjónin höfum farið þrjár ferðir út fyrir höfuðborgarsvæðið á rafurreið okkar - norður á Hvammstanga, vestur eftir endilöngu Snæfellsnesi og austur í Skálholt. Rafhleðsla bifreiðarinnar dugði ágætlega en nokkrum sinnum þurftum við að bíða eftir rafhleðslu.
Það er nokkur ókostur að hraðhleðslustöðvarnar geta eingöngu hlaðið einn bíl í senn, en úr því hlýtur að verða bætt eftir því sem rafbílavæðingunni fleygir fram.
Rafbílar eru einstaklega góður kostur til innanbæjaraksturs. Sem dæmi um dæmi gerða notkun eftirlaunaþega hlöðum við hlaðið einu sinni til tvisvar í viku.
Allmargar tegundir rafbíla eru nú í boði hér á landi og flestar þeirra á viðráðanlegu verði sem henta flestum hópum fólks.
Hægt er að hlaða flestar tegundir þeirra í venjulegri 10 ampera innstungu, en sú aðferð tekur nokkurn tíma ef lítið er á rafhlöðunni. Einnig eru til heimahleðslustöðvar en allmargir nota einungis venjulegar innstungur til að hlaða rafbílinn.
Þegar er farið að hugsa fyrir hleðstustöðvum fyrir fjölbýlishús. Verður fróðlegt að fylgjast með þróuninni á næstu árum.


Opinber skaðvaldur fer sínu fram

Kjararáð er tímaskekkja án sambands við þjóðfélagið.
Alþingi brást í haust þegar vinda þurfti ofan af afturvirkum hækkunum þingmanna og annarra gæludýra hins opinbera.
Samkvæmt skilningi Alþingis um afturvirka framkvæmd laga eru nýjustu hækkanir ráðsins ólöglegar. Ekki mátti hækka bætur öryrkja og aldraðra afturvirkt þótt þáverandi ríkisstjórn hafi ákveðið að rifta gerðu samkomulagi.
Kjararáð virðist vera á sama stalli og fjárlög. Kjararáð skaðar heildarhagsmuni íslensks samfélag og kemur í veg fyrir að samkomulag geti náðst um stöðugleika hér á landi.
Forseti Íslands brást rétt við í haust en alþingismenn allra flokka féllu á prófinu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband