Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Í gær fór ég í könnunarleiðangur um netið og skoðaði nokkrar bifreiðategundir sem ég hef kannast við í nokkur ár.
Mig rak í rogastans þegar ég sá nýtt úrval fólksbifreiða sem er nú í boði á Íslandi og hugsaði sem svo að bifreiðaframleiðendur reyndu að gera hvorum tveggja til geðs - fólki með meðaltekjur og hinum ofurríku.
Þá þótti mér lítið fara fyrir áhuga bifreiðaframleiðenda á loftslagsmálum og uppgefið afl véla sumra meðalstórra bifreiða var ótrúlegt.
Til hvers þurfa menn dísil- eða bensínfólksbifreið með 340 hestafla vél eða 500 hestafla Teslu með einungis 500 hestöflum??
Um daginn ætlaði allt um koll að keyra þegar Reykjavíkurborg hugðist draga úr hraða á vissum svæðum í borginni o hafa hann 50 km í stað 60. Ætlunin var að draga úr mengun.
Því hraðar sem ekið er því meiri verða eldsneytiseyðslan og eitraður útblásturinn. Þess vegna yrði það til hagsbóta Íslendingum að minnka hámarkshraða á vegum úr 90 km hraða í 80 km (Austur-þýska viðmiðið.:) ) og menn hljóta að velta því fyrir sér í umræðunni um að draga úr gróðurhúsaáhrifum.
Í umræðunni um rafbíla reikna menn fram og aftur drægni þeirra. Viðurkennt er að uppgefnar tölur framleiðenda séu blekkjandi fyrir Íslendinga og er fólki fremur ráðlagt að taka mark á bandarískum tölum. Sumir halda því fram að þær dugi ekki heldur því að meðalhraði á vegum hérlendis sé meiri en þar og það hefur áhrif á rafmagnseyðsluna.
Menn ættu að vera sammála um þrennt:
1. Nauðsynlegt er að bæta vegakerfið.
2. Draga þarf úr umferðarhraða af tillitssemi við móður Jörð.
3. Leggja ætti sérstakan þungaskatt á vörubifreiðar sem dragnast með allt að 60 smálestum um vegakerfi landsins og leggja meiri skerf af mörkum til þess að eyðileggja það en samanlagður bílafloti smábifreiða.
Meira um þetta mál síðar.
Stjórnmál og samfélag | 11.5.2017 | 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þjóðfélagsfylkingin er með skelfilegustu fyrirbærum á væng íslenskra stjórnmála.
Ég hef aldrei hitt nokkurn Þjóðfylkingarmann fyrr en í þessari viku. Hann átti erindi við mig og af tilviljun leiddu samræðurnar út á væng íslenskra stjórnmála og sagðist hann vera þjóðfylkingarmaður.
Í samtalinu kom m.a. fram að nú ætlaði Reykjavíkurborg að drita 200 Mmúslímastrákum út um allt og sagðist hann vita hverni ástandið væri á Spáni og víðar. Sem betur fór slitum við þessum samræðum enda stend ég sjálfan mig að því að þola ekki lengur slíkt öfgahjal - heilsa mín leyfir það hreinlega ekki.
Í gærkvöld var athyglisverður þáttur á BBC þar sem fjallað var um samfélag Sómala í einu fylkja Bandaríkjamanna. Þar kom fram að þeim hefði verið afar vel tekið og hefðu að ýmsu leyti aðlagast samfélaginu afar vel. Hefðu þeir m.a. lífgað við hverfi sem voru í niðurníðslu og stuðlað að ýmsum nýjungum.
Þá var rifjað upp að ýmsir af helstu uppfinningamönnum Bandaríkjanna hefðu verið Múslímar.
Nokkrir rithöfundar, þar á meðal Norbert Pressburg (sjálfsagt dulnefni) hafa fjallað um þá staðreynd að fáar uppfinningar hafi borist frá hinum múslímska heimi að undanförnu, en leiða má líkur að því að stjórnmálaástandið eigi þar nokkurn hlut að máli.
Það kom einnig fram í þættinum að hlutur Múslíma í hryðjuverkum og morðum í bandarísku samfélagi væri sára lítill. Undirrótin væri yfirleitt hjá hægrisinnuðum karlmönnum. Sagt var að það væri mörgum sinnum líklegra að bandaríkskir borgarar yrðu fyrir eldingu en að múslími yrði þeim að aldurtila.
Íslenskt samfélag breytist nú ört. Menn þurfa að leggja talsvert á sig til þess að kveða niður hatursumræðuna í þjóðfélaginu. Hún bitnar fyrst og fremst á þeim sem geta síst borið hönd fyrir höfuð sér. Þar er ekki eingöngu um aðflutt fólk að ræða heldur einnig fátækt fólk og öryrkja eins og best sást á nornaveiðunum sem hófust eftir að skýrsla um sviksemi við íslenska tryggingakerfið var birt.
Hugsum okkur vel um áður en við leggjum fæð á fólk vegna útlits þess, efnahags og uppruna. Hugsum jafnframt um það hverjir eru í raun illvirkjarnir í þessu samfélagi - illvirkjar sem blekkja og svíkja út fé á fölskum forsendum og standa allar dyr opnar. Óþarft er að nefna nokkur nöfn eða stjórnmálaflokka og samtök sem þeir (illvirkjarnir) tengjast. Þeir sjúga blóðið úr samlöndum sínum með leigutekjum, skattsvikum og blekkingum.
Stjórnmál og samfélag | 1.4.2017 | 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagskvöldið 24. mars síðastliðinn lifði ég eina mestu sælustund ævi minnar á þriðju svölum fremst fyrir miðju í Eldborg, þegar þjóðargersemi Íslendinga, Víkingur Heiðar Ólafsson lég píanóetíður Philips Glass. Flutningurinn var í einu orð sagt hvort tveggja, unaðslegur og hrífandi. Í raun fá engin orð lýst túlkun Víkings Heiðars á þessum margslungnu píanóverkum sem streyma áfram eins og fljót, sem hegðar sér eftir landslaginu hverju sinni - þessi seiðandi hrynjandi með síbreytilegu ívafi.
Strengjakvartettinn Siggi tók þátt í flutningi nokkurra verkanna. Hljómur hans er fágaður og um leið tær.
Það kom okkur hjónum ánægjulega á óvart hversu góður hljómur var á þessum stað jafnfjærri og við vorum flytjendum.
Etíður Philips Glass eru merkilegt fyrirbrigði þar sem skiptast á tærleiki, glettni, fegurð og flókinn leikur sem veldur því að einatt er sem þrjár hendur séu á lofti í senn - eing og Víkingur Heiðar væri þríhentur! Slík er snilld hans.
Öllum þeim er stóðu að tónleikunum óska ég hjartanlega til hamingju - einkum tónskáldinu og Víkingi Heiðari sem er svo sannarlega einstök þjóðargersemi.
Stjórnmál og samfélag | 26.3.2017 | 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um það leyti sem netbankar voru stofnaðir skömmu eftir aldamótin reið Íslandsbanki eða hvað sem hann hét þá á vaðið og setti sér metnaðarfulla aðgengisstefnu.
Þegar smáforrit fyrir Apple og Android-síma voru kynnt hér á landi fyrir tveimur árum var forrit Íslandsbanka gert að mestu aðgengilegt þeim sem eru blindir og sjónskertir.
Í desember síðastliðnum var appið eða smáforritið endurnýjað og þá hrundi aðgengi blindra snjallsímanotenda.
Eftir að bankanum bárust hörð mótmæli var tekið til óspilltra málanna vegna lagfæringa á aðgenginu. Það virtist snúnara en búist var við.
Valur Þór gunnarsson, þróunarstjóri Íslandsbanka, greindi frá þessu í viðtali við höfund síðunnar.
Sjá krækju hér fyrir neðan.
http://hljod.blog.is/users/df/hljod/files/zoom0014_lr.mp3
Stjórnmál og samfélag | 6.2.2017 | 18:34 (breytt kl. 18:39) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Af hégómaskap einum saman ætla ég að minnast lagsins Fréttaauka sem varð til fyrir 50 árum.
Eins og þeir vita, sem kannast við lagið, er það alger stæling á bítlalagi sem kom út árið 1965. Það sumar var ég í Reykjavík fram á haust að skrifa námsefni handa okkur bræðrum. Það var lesið inn á segulband og ég skrifaði það á blindraletur.
Um nokkurt skeið bjó ég hjá systur minni og mági en flutti síðar til Sigtryggs bróður.
Ég varð iðulega samferða mági mínum á morgnana og gengum við frá Fossvogsbletti niður í Hamrahlíð 17 eða 19 eins og húsið var skráð þá, en þetta var vinnustaður minn.
Einn morguninn datt mér í hug laglínan sem myndar nú A-kafla í laginu.
Eftir áramótin 1967 spurði Helgi Hermannsson í Logum mig hvort ég væri til í að setja saman popplag handa þeim að gefa út á hljómplötu og skilaði ég þeim tveimur lögum. Annað var misheppnað og hefur ekki heyrst, en við tókum til að vinna í Fréttaaukalaginu sem varð til 2. febrúar þegar ég bætti við B-kaflanum.
Ég held að við Gísli höfum ekki spilað þetta opinberlega í Eyjum því að laginu átti að halda leyndu þar til það kæmi út. En fiskisagan flaug um að nýtt lag væri tilbúið.
Ási í Bæ, þjóðskáld Vestmannaeyinga, var fenginn til að semja textann og lauk hann því um vorið. Ekkert bólaði á að Logar flyttu lagið. Eitt sinn er ég hitti Helga spurði ég hann hvað væri að frétta. Sagði hann að textinn væri ónýtur, en kallinn hefði samið texta um "einhvern helvítis draum".
Vonbrigðin urðu mikil - reyndar nálgaðist þetta hálfgert áfall. Við bræður hertum upp hugann og hittum Ása að máli. Sagði hann að lagið væri leikið allt of hratt, en þetta væri í raun sorgþrungin laglína og söng fyrir okkur kvæðið um hana litlu Ló sem átti heima í Dong-Sing-Dó, sem var eins konar hljóðlíking héraðs í Víetnam sem Bandaríkin herjuðu á um þessar mundir. Vildi ég óska að ég ætti hljóðrit með þessum flutningi Ása.
Við Gísli vorum á leið í tónleikaferðalag skömmu síðar, hófumst handa 8. júní austur í Öræfum, lukum ferðinni á Patreksfirði3. ágúst og náðum heim á þjóðhátíð á laugardeginum.
Við fluttum þetta lag því fyrsta sinn austur í Öræfum og kölluðum það stúlkuna frá Víetnam þar sem við sungum ekki heldur lékum á rafmagnsorgel og flautu.
Félagar mínir í menntaskóla höfðu pata af textanum. Einn þeirra vildi koma laginu á framfæri á Hótel Sögu en þar skyldi haldið menntaskólaball. Ragnar Bjarnason sagðist ekki geta sungið textann. "Hvað heldurðu að þetta íhaldslið segi, maður, ef það heyrir þetta? Þá verður allt vitlaust!" En lagið var flutt þar í skemmtilegri djass-útsetningu þar sem laglínan var leikið á þverflautu.
Síðan leið tíminn og árið 1975 stofnuðum við galgopar í íslenskum fræðum hljómsveitina Wulfilins orkestra sem æfði nokkur lög fyrir dansleik. Þar var lagið flutt og síðar um svipað leyti á samkomu herstöðvaandstæðinga. Það sló í gegn!
Lagið kom síðan út á hljómplötunni Í bróðerni árið 1981 og varð á meðal vinsælustu laga þessa árs.
Árið 1984 hélt Ási í Bæ upp á sjötugsafmæli sitt með tónleikum í Norræna húsinu. Vorum við bræður þar ásamt ýmsum tónlistarmönnum og bað Ási sérstaklega um að lagið Fréttaauki yrði flutt. Ég sagði honum að ég vildi breyta útsetningunni í hægan píanóleik og fá söngvar til að flytja það. Varð hann feginn og sagðist ekki vera jög hrifinn af þessari poppútsetningu. Guðrún Hólmgeirsdóttir söng lagið og síðar fluttum við Guðrún það á ýmsum samkomum í Reykjavík og víðar.
Mér þótti lagið heldur ómerkilegt á þessum árum og gleymdi því svo gersamlega að einn morgun sumarið 1991 þegar ég fór með strætisvagni til vinnu minnar heyrði ég að bílstjórinn var að hlusta á útvarpið og þar var sungið lag sem ég kannaðist ekki við.
En mig setti dreir-rauðan þegar ég áttaði mig allt í einu á laginu.
Síðan hefur það komið út á nokkrum hljómplötum í ýmsum útsetningum. Merkastar þykja mér útgáfa Tríós Bliks þar sem Atli Heimir Sveinsson fór höndum um lagið og Hot Eskimós, en þar fer Karl Olgeirsson mjúkum höndum um flygilinn.
Það kom mér algerlega í opna skjöldu þegar ég frétti einhvern tíma á 10. áratugnum að lagið væri vinsælt í Vestmannaeyjum og ég var viðstaddur frumflutning kórútsetningar Báru Grímsdóttur sem hún samdi handa Samkór Vestmanaeyja árið 1999.
Að lokum skal greint frá því að nafn einnar skólasystur minnar í Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja er fólgið í síðustu hendingu lagsins. Hef ég stundum sent henni eintak af því þegar ný útgáfa kemur út og finnst okkur þetta lag okkar hafa elst fremur vel.
Stjórnmál og samfélag | 2.2.2017 | 07:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Breska ríkisútvarpið hefur yfirleitt haft orð á sér fyrir hlutlægni. Öðru hverju bregður þó fyrir gamansömum athugasemdum sem varða við hlutdrægni.
Um þessar mundir greina sérfræðingar einkum gerðir Bandaríkjaforseta og í morgun var það Múrinn mikli - eitthvert mesta mannvirki sem ráðist verður í frá smíði Múrsins mikla í Kína sem stóð yfir í rúm 270 ár.
Það gerir sérfræðingum nokkuð erfitt fyrir að forsetinn núverandi lýsir múrnum á ýmsa vegu og enginn veit hvað upp snýr.
Nýjasta lýsingin er þessi:
Múrinn verður 3.200 km langur.
Hann verður 10 metra hár.
Ekki er vitað hvort hann verður hlaðinn úr tigulsteinum eða gerður úr sementi.
Mexíkóskt fyrirtæki, Semex, sem starfa báðum megin landamæra Mexíkós og Bandaríkjanna hefur veðjað á sement og hafa nú hlutabréf í fyrirtækinu hækkað um 200%.
En ýmis teikn eru á lofti um að múr þessi verði aldrei eða seint að veruleika.
1. Landslagið á landamærunum er margþætt, fjöll og firnindi, ár, mýrlendi og móar.
2. Þá er ekki allt landið í eigu hins opinbera. Ríki, sveitarfélög, frumbyggjaþjóðir, fyrirtæki og einstaklingar skipta með sér landinu. Því er talið að mörg dómsmál spretti vegna fyrirhugaðra framkvæmda við múrinn og geti málaferlin tafið byggingu hans um heilan mannsaldur.
3. Enginn veit með vissu hvað múrinn kostar. Heyrst hefur talan 14 milljarðar Bandaríkjadala og má margfalda þá upphæð með 120 til þess að reikna út krónufjöldann. Talið er að slík útgjöld kunni að standa í fjárveitingavaldinu bandaríska.
Stjórnmál og samfélag | 26.1.2017 | 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Áðan var á Rás eitt þátturinn Fólk og fræði í umsjón háskólanema. Þar sagði maður nokkur frá því er hann tók þátt í að bjarga verðmætum úr húsum á fyrstu dögum gossins.
Frásagnir um þennan atburð eru ótæmandi. Sagt er að gosið hafi gert boð á undan sér með um sólarhrings fyrirvara, en ekki tókst að staðsetja jarðskjálfta sem varð eftir því sem starfsmaður Raunvísindastofnunar tjáði mér, þar sem jarðskjálftamælir (sennilega við Búrfellsvirkjun) var bilaður. Stafaði bilunin af því eftir því sem hann komst næst, að einhver hafði gætt sér á spíranum sem átti að vökva mælinn með. Þessi ágæti maður, Jón Sveinsson, fékk það verkefni að gera við mælinn.
Vinur minn og félagi, Jón Ólafur Eymundsson Jónsson, ævinlega kallaður Jón Ó. E., sagði mér athyglisverða sögu 21. desember 1972. Ég hafði þá komið samdægurs til Eyja og urðu það mín síðustu jól þar.
Jón hafði þá fengið kransæðastíflu og gat ekki lengur sinnt járnsmíðum. Notaði hann tímann til að rölta um Heimaey og skoða ýmis náttúruundur. Ég hafði léð honum Jarðfræði Þorleifs Einarssonar og fleiri menntaskólabækur og las hann þær upp til agna.
Jón sagði að eitthvað stórfurðulegt væri að gerast á austanverðri eyjunni. Skammt austan við syðri hafnargarðinn væri að opnast sprunga sem lægi í norðvestur-suðaustur. Virtist honum sem annaðhvort væri að opnast þar berggangur eða að þetta væri undanfari mikilla atburða - til dæmis eldsumbrota. "Ég hef ekki sagt nokkrum manni frá þessu, enda segja allir að Jón Ó. E. sé orðinn vitlaus og nenni ekki lengur að vinna," sagði hann. Ég lagði fast að honum að greina frá þessu en hann sagði mér að gera það.
Ég hef nokkrum sinnum sagt þessa sögu áður, en hún virðist ekki hafa vakið neina athygli.
Ég læt hér fylgja með hlekk á stuttan minningaþátt frá sumrinu 1969, en þar heyrist m.a. í Jóni Ó. e. og fleira fólki sem gengið er á vit feðra vorra og mæðra.
http://hljod.blog.is/blog/hljod/entry/1033435/
Stjórnmál og samfélag | 22.1.2017 | 20:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Allir góðgjarnir menn óska fólki farsældar í nýju starfi. Í aðdraganda nýrrar ríkisstjórnar læðast þó Nokkrar áhyggjur að ýmsum sem hafa fylgst með gangi mála hér á landi.
Í dag hitti ég vel menntaða konu sem fluttist hingað til lands í lok síðustu aldar. Flúði hún spillingu og erfið lífskjör í heimalandi sínu og hefur öðlast íslenskan ríkisborgararétt.
Fellur henni margt vel hér á landi en er ómyrk í máli um spillinguna sem þrífst.
"Hvernig getur það verið," spurði hún, "að maður leyni skjali sem hann heldur að geti haft áhrif á kosningarnar, ljúgi svo um tilurð þess, sé staðinn að verki og biðjist þá afsökunar? Og samt verður hann forsætisráðherra!" Hún sagði að þetta ásamt verðtryggingunni pirraði sig óskaplega og ylli því að henni liði orðið illa hér á landi.
Hún færði rök fyrir því að verðtryggingarákvæði bankanna væru ógegnsæ og engar viðhlítandi skýringar fengjust frá bönkunum og að hækkun lánanna væri í engu samræmi við verðlagshækkanir að undanförnu. Finnst henni merkilegt að Íslendingar sitji hjá aðgerðalausir og reyni ekki einu sinni að kæra verðtrygginguna til mannréttindastóls Evrópu eða EFTA-dómstólsins.
"Ef landar mínir og Íslendingar tækju sig nú til og samræmdu stjórnkerfi landanna kæmi sjálfsagt eitthvað undarlegt út úr þessari blöndu. Hjá þjóð minni er allt í kaldakoli - mikil spilling og hver stelur sem best hann getur. Hér á landi skila menn ekki sköttum, þeir sem eru auðugir stela undan fjármunum og menn ljúga hver um annan þveran. Samt er efnahagsástandið sæmilegt en þó þannig að níðst er á þeim sem minnst eiga, svo sem barnafjölskyldum, fötluðu fólki og öldruðu. Þetta getum við gert og finnst ekkert athugavert við það því að við búum á eyju og enginn getur skipt sér af því hvernig við högum okkur."
Þetta þótti mér býsna sérstök ræða og athyglisvert. Sitthvað sagði konan fleira og þótti mér sem hún greindi prýðilega ýmsa bresti í íslensku samfélagi.
Stjórnmál og samfélag | 11.1.2017 | 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég mæli með að fólk gefi sér tíma til að lesa þennan tæknipistil.
Fyrir skömmu kom út nýleg útgáfa Íslandsbanka-forritsins fyrir Android-síma.
Í fyrri útgáfu voru ómerktir hnappar sem gerðu að verkum að notagildi þess fyrir þá sem reiða sig á blindraletur eða talgervil var ófullnægjandi. Til dæmis var illmögulegt að millifæra en mjög fljótlegt að greiða reikninga - mun einfaldara en í tölvuviðmóti bankans.
Þann 19. þessa mánaðar fór ég í eitt af útibúum bankans of fékk aðstoð við að setja upp bankaforritið (appið) og þá kom heldur betur babb í bátinn. Verður nú gerð grein fyrir því stórslysi sem orðið hefur í þessari nýju útgáfu.
1. Þegar forritið er ræst í símanum koma upp tölustafir sem menn eiga að nota til að skrifa fjögurra stafa öryggisnúmer. Þegar tölustafirnir eru snertir á síma sem er með skjálesara og talgervli birtir talgervill einungis orðin Pin button winstyle og verða menn því að fikra sig og telja vandlega hnappana til að hitta á réttar tölur. Þarna er notendum talgervla mismunað gróflega.
2. Þegar tekst að opna netbankann koma upp nokkrir möguleikar (nöfn reikninga o.s.frv.)
3. Þegar skoða skal yfirlit reiknings kemur mánuðurinn fram. Þegar fingri er strokið yfir skjáinn titrar hann öðru hverju. Sé stutt á titringssvæðið koma upplýsingar um tiltekna aðgerð s.s. millifærslu. Það er með öðrum orðum engin hljóðsvörun við hnappana.
4. Útilokað virðist vera blindu eða sjónskertu fólki að nýta forritið til millifærslna eða greiðslna þar sem talgervill birtir engar upplýsingar.
5. Þá er ýmis sóðaskapur vaðandi uppi svo sem að stundum eru reikningar kallaðir því nafni en öðru hverju accounts. Því hlýtur að læðast að manni sú hugmynd að þarna sé um fremur lélega þýðingu á erlendu forriti að ræða og alls ekki hafi verið hugað að aðgengi.
Íslandsbanki hafði á sínum tíma forystu um aðgang blindra og sjónskertra að bankanum. Átti þar hlut að máli ungur Seltirningur, Einar Gústafsson, sem hafði lagt stund á tölvunarfræði í Bandaríkjunum með sérstakri áherslu á aðgengi. Nú virðist sú þekking vera næsta takmörkuð hjá Íslandsbanka.
Þeim fer nú fjölgandi sem gerast gamlir og daprast sjón, en hafa fullan hug á að halda áfram að nota tölvur og snjallsíma eins og áður. Með þessari útgáfu bankans á snjallsímaforritinu er þessum hópi gefið hreinlega langt nef.
Svo virðist sem þetta hafi komið þeim starfsmanni bankans, sem hefur umsjón með aðgengismálum, í opna skjöldu og hefur hann lofað bót og betrun. Greinilegt er að þeir, sem hafa tekið hönnun þessa hugbúnaðar að sér hafa litla sem enga þekkingu á því hvað aðgengi að vefviðmóti er. Hvernig skyldi kennslu háttað á þessu sviði hér á landi?
Þeir tölvunarfræðingar sem kunna að lesa þennan pistil ættu að gera sér grein fyrir að snjallsímar og tölvur eru nú hönnuð með notagildi flestra ef ekki allra í huga. Hið sama á að gilda um forritin.
Íslendingar skera sig nú úr vegna óaðgengilegra forrita eða gerðu til skamms tíma. Ein skemmtileg undantekning er smáforritið "Taktu vagninn" sem nýtist bæði blindum og sjáandi. Hver skyldi skýringin vera?
"Ég fylgdi bara viðurkenndum stöðlum," sagði hönnuðurinn við höfund þessa pistils. Hvaða staðla smiðgengu verktakar og starfsmenn Íslandsbanka?
Stjórnmál og samfélag | 21.12.2016 | 17:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þættirnir um reimleika og fleira skylt, sem sýndir eru á fimmtudagskvöldum í Ríkissjónvarpinu, eru um margt vel gerðir. Gallinn er þó sá að reynt er um of að skýra ýmis fyrirbæri og draga í efa skynjun og upplifun fólks.
Skýringar Ármanns Jakobssonar eru fræðandi, en hinu verður ekki mótmælt að ýmis fyrirbrigði verða vart útskýrð eins og t.d. er menn sjá feigð á fólki.
Faðir minn var þessari gáfu gæddur og fyrir kom að hann sagði nánustu fjölskyldu sinni að þessi eða hinn væri feigur. Mér þótti þetta óþægilegt og innti hann eitt sinn eftir því hvernig hann skynjaði þetta. Svarið var athyglisvert:
"Það bregður fyrir eins konar vatnsbláma í augum hans eða hennar."
Ég gleymi aldrei atviki sem gerðist í Vestmannaeyjum 29. desember árið 1965.
Pabbi kom heim í síðdegiskaffi um þrjú-leytið og sagði okkur að hann héldi að Már Frímannsson, bifreiðaeftirlistmaður o.fl. sem við þekktumvel, sé látinn. Ég spurði hvað ylli. "Mér sýndist ég sjá svipinn hans fyrir utan skrifstofudyrnar", svaraði hann.
Síðar þennan sama dag fréttist andlát Más.
Þegar ég var að skrifa þetta þótti mér rétt að fletta upp Má Frímannssyni og dagsetningin er réttilega munuð.
http://www.heimaslod.is/index.php/M%C3%A1r_Fr%C3%ADmannsson
Guðjón Bjarnfreðsson, kvæðamaður, þekkti föður minn vel. Sagði hann mér að bróðir sinn hefði árið 1939 ráðið sig á danskt olíuskip. Pabba varð mikið um þessa frétt og reyndi hvað hann gat að fá hann ofan af þessu og sagðist mundu tryggja honum pláss á Helga VE 333 sem var þá nærri fullsmíðaður. Ræddi hann þetta við Guðjón og reyndi að fá hann í lið með sér. "Það var hreinlega eins og hann teldi hann feigan," sagði Guðjón.
Ég andmælti því ekki að pabbi hefði skynjað feigð fólks og sagði honum frá þessum vatnsbláma eða glampa sem hann sagði að brygði fyrir í augum fólks. Guðjón kvaðst hafa heyrt fleiri manna getið sem lýstu svipaðri reynslu.
Guðjón sagði að skipið, sem bróðir hans réð sig á, hefði verið á meðal þeirra fyrstu sem grandað var í upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar.
Stjórnmál og samfélag | 1.12.2016 | 21:30 (breytt kl. 21:35) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
-
alla
-
axelthor
-
arnibirgisson
-
ormurormur
-
astafeb
-
bjarnihardar
-
gattin
-
dora61
-
saxi
-
jaherna
-
jovinsson
-
fjarki
-
gislisigurdur
-
gudni-is
-
gelin
-
gummigisla
-
heidistrand
-
helgigunnars
-
hildurhelgas
-
himmalingur
-
hoskibui
-
isleifur
-
jakobk
-
fun
-
jonhalldor
-
jon-o-vilhjalmsson
-
nonniblogg
-
juliusvalsson
-
kje
-
kristbjorggisla
-
methusalem
-
mortenl
-
moguleikhusid
-
skari60
-
rafng
-
ragnar73
-
fullvalda
-
duddi9
-
siggisig
-
saemi7
-
vefritid
-
thorirj
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 3
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 25
- Frá upphafi: 319987
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 18
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar