Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Lifun eftir Jón Atla Jónasson - meistaraverk

Útvarpsleikhúsið lauk í dag við að flytja hlustendum leikritið Lifun eftir Jón Atla Jónasson, en það er byggt á heimildum um Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Fléttað er saman leiknum atriðum og frásögnum ýmissa sem að málinu komu.
Sannast sagna er leikrit þetta hreint listaverk, afbragðs vel saman sett og leikurinn frábær. Óhugnaðurinn, skelfingin, óttinn, kvíðinn og undanlátssemin skila sér fyllilega auk örvæntingar vegna aðskilnaðar frá ástvinum og jafnvel misþyrminga.
Ástæða er til að óska aðstandendum verksins til hamingju með vel unnið meistaraverk.


Átti Kastró íslenskan föður?

Nú er Fídel Kastró eður Tryggvi frá Borg, eins og sumir kölluðu hann, fallinn frá. Maður nokkur taldi vafa leika á ætterni hans. Sá hét Jón Grímsson og var ráðsmaður hjá Ásbirni Ólafssyni, stórkaupmanni, en ég var sölumaður hjá honum sumrin 1970-72 og 1974-75. Sagan er þessi:

Ég snæddi gjarnan hádegismat með Ásbirni og gekk Jón um beina. Hann var þá á 79. aldursári, fæddur 1893 og mikill vinur okkar bræðra allra.
Eitt sinn segir hann við mig: "Það eru ýmsir sem halda fram að Kastró sé sonur minn." Ég tók því fálega en hann hélt áfram að impra á þessu næstu daga og fóru leikar svo að ég innti hann eftir atvikum.
Sagðist hann þá árið 1925 hafa hitt unga konu í ónefndum stað í Mið-Ameríku og hefðu tekist með þeim góð kynni. Samfarar þeirra voru góðar en ég hirði ekki um að lýsa þeim fyrir öðrum en Ólafi Gunnarssyni rithöfundi, í tveggja manna spjalli. Jón tjáði mér að hann myndi gangast við Kastró þegar og ef þess yrði óskað.

Mér þóttu þetta allmikil tíðindi og hugðist fá botn í málið. Hringdi ég því til Valdimars Jóhannessonar, ritstjóra Vísis og greindi honum frá málinu.

Síðdegis daginn eftir kom Jón inn í söludeildina, steðjaði beint að borði mínu og segir formálalaust: "Mikinn andskotans grikk gerðirðu mér í dag."
Ég setti upp furðusvip og spurði hvað hann ætti við.
"Þú hringdir og þóttist vera blaðamaður frá Vísi og spurðir formálalaust hvort það væri rétt að ég væri faðir Kastrós."
Ég fór að skellihlæja og spurði í forundran hverju hann hefði eiginlega svarað.
"Ja, eitt er víst, að ekki hefur hann þetta helvítis kommúnistavesen í föðurættina", sagði hann.
Ég innti hann eftir því hver blaðamaðurinn hefði verið og mundi hann ekki nafnið. Ég spurði hvort það gæti verið Valdimar Jóhannesson og svaraði jón: "Hann þóttist heita það."
Ég sór og sárt við lagði að ég hefði ekki hringt, en Jón var sannfærður um að ég hefði átt hlut að máli og tjáði mér að hann hefði neitað að gangast við piltinum.

Jón Grímsson var einstakur öðlingur, barngóður með afbrigðum og traustur vinur þeim sem öðluðust vináttu hans. Hann var sagnamaður mikill og sagði að eigin áliti jafnan satt.


Sætindi, plast, Mjólkursamsalan og önnur matvælafyrirtæki

Ég er alinn upp á mjólk eins og flestir Íslendingar. Faðir minn var með 40-50 kýr í fjósi þegar mest var og fengum við því stundum kýrslátur sem er öllu slátri betra. Einkum þóttu mér nýsoðnar kýrvambir hreinasta lostæti þegar ég var barn.
Enn eru Íslendingar mikil mjólkurneysluþjóð og Mjólkursamsalan sér til þess að afurðirnar séu fjölbreytilegar. Fyrirtækið leggur ríka áherslu á hollustu ýmissa gerla svo sem abt-gerla, enda er abt-mjólk hreinasta lostæti.
Ekki skal því neitað að efasemdir hafa sótt á marga vegna tvenns: Mjólkursamsalan framleiðir einatt of sætar afurðir með því að úða í þær sykri eða öðrum efnum. Síðan eru það neytendaumbúðirnar. Þær eru úr plasti - einhverjum mesta ógnvaldi mannkyns um þessar mundir.
Ég gerði mér grein fyrir því hversu varasamt þetta er þegar ég varð hvað eftir annað fyrir því að mjóir þræðir virtust losna úr plastbauknum sem ég át úr með plastskeið og hefði ég auðveldlega getað kyngt þeim. Ef til vill hefði ekki munað mikið um þessar plastagnir miðað við hvað plastefnin eru algeng. En allur er varinn góður.
Er ekki kominn tími til að Mjólkursamsalan og aðrir framleiðendur matvæla taki á þessum málum - of miklum sætindum í flestum tegundum mjólkurvara og plastumbúðunum?


Úrslit í nánd

Í morgun gagnrýndi Bjarni Benediktsson þau ummæli Katrínar Jakobsdóttur að staða Ríkissjóðs væri þrengri en búast mætti við. Það vakti jafnframt athygli að Benedikt Jóhannesson tók undir þessi ummæli og sagði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins að Alþingi hefði farið óvarlega í lagasetningum undir þinglok (túlkun undirritaðs).
Í umræðuþætti Rásar tvö á sunnudagsmorgun var þeirri skoðun varpað fram að formaður Sjálfstæðisflokksins væri orðinn einangraður og skynjaði ekki þann öldugang sem nú er í þjóðfélaginu. Getur verið að sú einangrun eða firring komi einni í ljós þegar hann hefur lýst stöðu Ríkissjóðs að undanförnu?
Þótt Bjarni segi að skattatekjur aukist um 10 milljarða á næsta ári telur Benedikt að staðan sé jafnvel tugum milljarða verri en menn hafa haldið.
Þetta minnir óþægilega á þá umræðu sem varð á fundi sem Viðreisn boðaði til í aðdraganda kosninganna og fjallaði um hugmyndir um myntráð. Þá var dregin upp mynd af 5 ára fjármálaáætlun Alþingis þar sem framlög til vegamála voru tekin sem dæmi um óraunsæjar hugmyndir og stæðist áætlunin vart skoðun þegar hún væri athuguð nánar.
Því miður hefur ótal margt verið flausturslegt og unnið af lítilli gjörhygli eða mikilli vanþekkingu á valdatíma ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Eitt dæmið er vanrækslan í uppbyggingu innviða samfélagsins, stytting framhaldsskólanáms sem skilar takmörkuðum árangri (lengir jafnvel háskólanámið sem því nemur), innheimta komugjalds eða aðrar aðferðir til þss að byggja upp innviði ferðaþjónustunnar o.s.frv. Þar sýndi Alþingi af sér hversu þingið var lítils megnugt og jafnvel þingmenn, sem hafa talið sig fremur skynsama, fóru á flug vegna furðulegra hugmynda um helgan rétt hér og þar o.s.frv.
Það er nú ljóst að mikið reynir á formenn þeirra flokka sem nú sitja á rökstólum ef skynsamleg niðurstaða á að nást.


Vangaveltur um kjördæmi og kjörmenn

Fréttin um að forsetaframbjóðandi demókrata í Bandaríkjunum hafi fengið fleiri atkvæði en frambjóðandi Repúblikana ætti ekki að koma Íslendingum á óvart. Kjörmannakerfið sá til þess. Það er ekki óskylt kjördæmakerfi Íslendinga þar sem sums staðar eru færri kjósendur að baki hverjum þingmanni en annars staðar.
Þótt því sé haldið fram að nauðsynlegt sé að tryggja hagsmuni fámennra ríkja og kjördæma er þetta með ýmsum hætti skrumskæling lýðræðisins.
Nú stendur yfir undirskriftasöfnun þar sem skorað er á alla kjörmenn Bandaríkjanna að kjósa frambjóðanda demokrata. Stenst það bandarísk lög? Fróðlegt væri að fá svar við þessari spurningu.


Ábending til blindra og sjónskertra sem enn hafa ekki kosið

Kæru félagar,

 

Kjörseðilllinn í ár er nokkuð frábrugðinn því sem verið hefur að því leyti að hann er mjög langur.

Blindraletrið sem greinir bókstaf flokkanna er efst á seðlinum fyrir neðan viðkomandi reit. En það er svo dauft að ég ímynda mér að ýmsir, sem eru með skert skyn í fingrum eigi erfitt með að lesa úr því.

Mig minnir að hið sama hafi verið upp á teningnum við síðustu Alþingiskosningar. Þá var vakin athygli á þessu.

Blindraletrið er í raun svo dauft að ástæða er að staldra við og kanna hvort rétmætt væri að kæra kosningar vegna ófullnægjandi kjörgagna.

Ég geri ráð fyrir að Kassagerðin hafi þrykkt blindraletrinu á spjöldin. Þeir hljóta að hafa yfir betri búnaði að ræða til þess að skerpa punktana ögn.

Fróðlegt væri að fá umræðu um þetta hér á Blindlist. Hvernig fara þeir að sem lesa hvorki blindraletur né sjá listabókstafina?

Bestu kveðjur,

Arnþór Helgason

 

 

-- 
---

Arnþór Helgason, 
Vináttusendiherra/Friendship Ambassador
Formaður/chairman
Kínversk-íslenska menningarfélagsins
Icelandic Chinese Cultural Society
Tjarnarbóli 14,
170 Seltjarnarnesi.
Sími | Phone: +354 5611703
Farsími | Mobile: +354 8973766
arnthor.helgason@simnet.is
arnthor.helgason@gmail.com
kim@kim.is

http://kim.is
http://arnthorhelgason.blog.is
http://hljod.blog.is

I minningu Dóru Pálsdóttur - birt í Morgunblaðinu 30.09.2016

Dóra Pálsdóttir var firna skemmtileg kona, orkurík og alúðleg í fasi. Hún var hvers manns hugljúfi og laðaði fólk að sér.
Dóra hóf kennslu við Starfsþjálfun fatlaðra skömmu eftir stofnun hennar. Árið 1990 hittumst við við erfidrykkju í fjölskyldunni og sagði hún mér þá frá ráðstefnu um þróun hjálpartækja, sem halda skyldi í Baltemore í Bandaríkjunum þá um haustið. Ákváðum við að reyna að komast. Fór svo að Öryrkjabandalagið sendi okkur bæði.
Skemmtilegri ferðafélaga hef ég vart haft. Dóra kynntist held ég öllum rúmlega 600 þátttakendunum og hefur áreiðanlega kysst þá alla oftar en tvisvar. Í lokaathöfninni var hún einhvers staðar á flandri, en ég komst fljótlega að því hvar hún hélt sig. Þegar nafn Íslands var nefnt sem þáttökulands brast á mikið fárviðri gleðihrópa úr einu horninu, en þar var auðvitað Dóra með sinn orkuríka hóp sem hrópaði og klappaði fyrir Íslandi. Fékk engin þjóð viðlíka viðbrögð.
Við komum hlaðin bæklingum til Íslands og haldinn var fjölsóttur kynningarfundur sem fjöldi fagfólks sótti.
Eftir að fundum lauk síðdegis þá viku sem þingið stóð, upphófst mikil skemmtan. Sögur fóru af samkvæmum á efstu hæð hótelsins og töldum við víst að þar væri mikið sumblað. En annað kom á daginn.
Eitt kvöldið var okkur Dóru boðið og kom þá í ljós að léttöl var það sterkasta sem drukkið var. Á meðal þátttakenda voru Rússar sem misst höfðu útlimi í Afganistan og talaði Dóra við þá með alls konar táknmáli og hljóðum. Einn kunningi hennar á ráðstefnunni var fótalaus. Sveiflaði hann sér upp á flygil og greip í hendur Dóru þegar hún átti leið framhjá. Dönsuðu þau af lífi og sál.
Allt í einu heyrðist gríðarlegur dynkur. Dóra kom til mín í öngum sínum og tjáði mér að hún hefði sleppt höndum piltsins þegar dansinum lauk. En flygillinn var svo háll að pilturinn rann út af honum og  steyptist aftur fyrir sig á gólfið. Taldi Dóra víst að hann væri hálsbrotinn.
Héldum við til herbergja okkar miður okkar bæði. En hvern hittum við alhressan kl. 8 morguninn eftir? Þennan pilt fjöðrum fenginn við að hitta Dóru vinkonu sína á ný.
Skömmu síðar var haldin ráðstefna á vegum Öryrkjabandalagsins um þróun tölvutengdra hjálpartækja og sótti Dóra um að hingað yrði boðið Norðmanni nokkrum sem hafði unnið að þróun forrita fyrir fatlað fólk og hún kynntist í Noregi. Varð stjórnin við því, en seinna skömmuðu menn formanninn fyrir að ástir tókust með Dóru og fyrirlesaranum. Hefur hann búið hér síðan. Vegir Guðs eru órannsakanlegir.
Það var ævinlega gott og gaman að hitta Dóru. Þótt eitt sinn skærist í odda með okkur þegar Öryrkjabandalag Íslands bannaði starfsfólki að eiga nokkur samskipti við stjórnvöld, var það aldrei erft, enda "kröfðust aðstæður þess að þú fylgdir eftir samþykkt stjórnarinnar", sagði Dóra."
Nú, þegar að kveðjustund er komið, þakka ég af alhug gjöfult samstarf við þessa frjóu og lífsglöðu konu. Um leið votta ég Jens og fjölskyldum þeirra mína dýpstu samúð.
Arnþór Helgason


Hvernig á að skrifa sannfærandi meirihlutaskýrslu?

Nú hafa Íslendingar loksins lært hvernig einfalda má skýrslugerð.
Tveir þingmenn semja skýrslu sem þeir segja að sé í nafni meirihluta Fjárlaganefndar.
Síðan er skýrslunni vísað úr fjárlaganefnd.
Til þess að einfalda málið enn frekar hverfur annar höfundurinn af skýrslunni og er þá málið orðið einfalt. Úr þessu ætti að verða auðvelt að komast að kjarna málsins.


Ættartengsl og kunningskapur eiga að ráða lista VG í Suðvestur-kjördæmi

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum gengur nú talsvert á hjá Vinstri-grænum í Suðvestur-kjördæmi.
Nú á að skipa listanum þannig að framarlega í flokki verði bæjarfulltrúi flokksins í Hafnarfirði, sem tók sér leyfi frá bæjarstjórnarstörfum, að sögn manna vegna þess að hún gat aflað sér meiri tekna með lögfræðistörfum. Þá er einnig sagt að tengdadóttir Steingríms Sigfússonar þurfi á sæti að halda auk sonar Svavars Gestssonar og í 4. sæti verði Sigursteinn Másson, sem Björn Bjarnason sagði um að hefði gert Öryrkjabandalag Íslands marklaust.
Núverandi bæjarfulltrúa, sem tók við um síðustu áramót, hefur verið boðið sæti aftarlega á listanum, sennilega vegna þess að hann er ætlaus maður innan flokksins.
Lengi hefur verið vitað að ættartengsl hafa skipt talsverðu máli innan Vinstri-grænna sem best sést á þessu að tengsl skipta meira máli en frammistaða fulltrúa flokksins.


Aðgengi hrakar að netútgáfu Morgunblaðsins

Árið 2003 hlaut Morgunblaðið aðgengisverðlaun Öryrkjabandalags Íslands enda höfðu stjórnendur blaðsins lagt metnað sinn í að gera netútgáfu þess aðgengilega.
Enn heldur Morgunblaðið sæti sínu sem einn af aðgengilegustu miðlum landsins, en þó hefur orðið brotalöm þar á.
Atvinnuauglýsingar blaðsins eru iðulega birtar sem myndir og því engin leið fyrir þá sem nota talgervil eða blindraletur að sækja um störfin.
Ekki virðist lengur aðgengilegt að senda greinar til blaðsins gegnum mbl.is og verður því að senda greinarnar í tölvupósti.
Þeir sem eru áskrifendur að tölvuútgáfunni og nota léttlesna Moggann fá ekki sunnudagsblaðið á laugardeginum heldur daginn eftir og spjaldtölvuútgáfan er gersamlega óaðgengileg.
Samt er tölvuáskriftin álíka dýr og venjuleg áskrift.
Þetta var ein ástæða þess að ég taldi mig ekki lengur hafa efni á að vera áskrifandi auk annarra atriða sem ekki verða tíunduð hér.

Ef til vill stafar skert aðgengi af vanþekkingu einhverra sem sjá um tölvukerfi blaðsins. Þessi vandi virðist leynast víða hjá stofnunum og fyrirtækjum.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband