Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Af tveggja manna hjólinu Ormi inum bláa, Stíganda og hnjáskiptaaðgerð

Í dag var mikill gleðidagur hjá okkur Elínu.

Við hjónin höfum gert okkur það til ánægju að hjóla saman á tveggja manna hjóli um 25 ára skeið.
Árið 1994 keyptum við bandarískt Trek tveggja mana hjól, sem til var í Erninum. Stellið var fremur hátt fyrir Elínu en eftir nokkrar breytingar taldist hjólið nothæft.
Þetta hjól áttum við fram til 2002 þegar við létum það af hendi. Höfðum við þá hjólað austur á Stöðvarfjörð og til Akureyrar. Gera þurfti ýmislegt til þess að hjólið teldist almennilega nothæft. Til dæmis var skipt algerlega um hjólabúnað og fengin sérstyrkt afturgjörð. Þessu hjóli hjóluðum við um 11.000 km.
Við létum Orminn langa, eins og það var kallað, til vinar okkar sem afhenti það síðar kunningja mínum. Hann arfleiddi síðan Orminn til endurhæfingarstofnunar á Akureyri þar sem hann dugiar vonandi enn.

Ormur inn langi, Stígandi, Var gjöf Elínar til mín á fimmtugsafmæli mínu. Hann var sérsmíðaður hjá Robin Thorn í Bretlandi, framspöngin aðeins styttri en vant er þar sem Elín stýrimaður er lægri vexti en eiginmaðurinn.
Þessa hjóls höfum við notið í ríkum mæli og hjólað u.þ.b. 12-13.000 km.

Í fyrra haust var Orminum komið fyrir í híði sínu í októberbyrjun þar sem veður tóku að gerast válynd og veikleiki í öðru hné Elínar torveldaði hjólreiðar, þótt henni gengi í raun mun betur að hjóla en ganga. Í híði sínu hýrðist hann þar til í vor að hann var leiddur út til þess að kanna hvort hann léti að stjórn eftir að stýrimaðurinn hafði þraukað þorran og góuna að lokinni hnéskiptum. En hún gat ekki beygt hnéð nægilega mikið.
Fyrir nokkru kom í ljós að hún gat hjólað á einmenningshjóli og við síðustu tilraunir vantaði einungis herslumun að Ormurinn þýddist hana.
Í dag hélt frú Elín á fund starfsmanna bensínstöðvar N1 við Ægisíðu og hækkaði starfsmaður hnakkinn fyrir hana. Og viti menn! Frúin gat hjólað og mætti eiginmanni sínum á gangi meðfram Nesveginum.
Fórum við saman hring á nesinu. Meðalhraðinn var um 11 km en við nutum þess í ríkum mæli að vera saman á blessuðum Orminum inum langa, Stíganda. Verða því aftur teknar upp tvímenningshjólreiðar hjá okkur hjónakornunum.
Til hamingju, EL'ÍN!:)


Heimsókn áhafnarinnar af Sinetu aðfaranótt annars í jólum 1986

Ég er að ljúka við að lesa síðasta bindi bókaflokksins, Þrautgóðir á raunastund. Þar er m.a. sagt frá því þegar tankskipið Sineta fórst við Skrúð aðfaranótt annars í jólum árið 1986.

Ég var þá austur á Stöðvarfirði hjá vinafólki mínu, Hrafni Baldurssyni og Önnu Maríu Sveinsdóttur.
Að kvöldi jóladags tók ég á mig náðir um kl. 10 og sofnaði fljótt.
Um nóttina vaknaði ég og gáði á klukkuna. Hana vantaði þá 11 mínútur í 4.
Svo undarlega brá við að ég fann að herbergið sem ég svaf í var þétt skipað fólki. Það rann vatn úr fötum þess og fannst mér að ég gæti snert það ef ég rétti hægri höndina út fyrir rúmstokkinn.
Það hvarflaði að mér að þetta væri skylt atviki sem er sagt hafa gerst á prestssetrinu Ofanleiti í Vestmannaeyjum árið 1836. Þegar vinnukonu varð gengið fram í bæjargöngin sá hún þar standa 12 skinnklædda menn og vissi þá að skip staðarins hefði farist (þannig er sagan í minni mínu).
Um svipað leyti heyrði ég að María var komin á stjá. Gekk hún að herbergisdyrum mínum og knúði dyra. Ég hugsaði sem svo að hún hefði fengið einhverja aðsókn og ætlaði að bjóða mér að bergja með sér á kaffibolla.
um leið og hún opnaði dyrnar hvarf mér þessi tilfinning um fólkið í herberginu.
María tjáði mér að skip hefði farist við Skrúð og væri Hrafn kominn niður í bækistöð björgunarsveitarinnar á Stöðvarfirði. Hefði hann hringt og stungið upp á að ég kæmi þangað.
Greindi ég henni undir eins frá því sem borið hafði fyrir mig.
Enga skýringu kann ég á þessu en ýmsa þekki ég sem orðið hafa fyrir svipaðri reynslu.
Fyrir vikið og vegna þess sem ég varð áskynja við að hlusta á samskipti björgunarmanna hefur þessi atburður grópast í minni mér.


Um dularfull fyrirbæri og feigð manna

Þættirnir um reimleika og fleira skylt, sem sýndir eru á fimmtudagskvöldum í Ríkissjónvarpinu, eru um margt vel gerðir. Gallinn er þó sá að reynt er um of að skýra ýmis fyrirbæri og draga í efa skynjun og upplifun fólks.
Skýringar Ármanns Jakobssonar eru fræðandi, en hinu verður ekki mótmælt að ýmis fyrirbrigði verða vart útskýrð eins og t.d.  er menn sjá feigð á fólki.

Faðir minn var þessari gáfu gæddur og fyrir kom að hann sagði nánustu fjölskyldu sinni að þessi eða hinn væri feigur. Mér þótti þetta óþægilegt og innti hann eitt sinn eftir því hvernig hann skynjaði þetta. Svarið var athyglisvert:
"Það bregður fyrir eins konar vatnsbláma í augum hans eða hennar."

Ég gleymi aldrei atviki sem gerðist í Vestmannaeyjum 29. desember árið 1965.
Pabbi kom heim í síðdegiskaffi um þrjú-leytið og sagði okkur að hann héldi að Már Frímannsson, bifreiðaeftirlistmaður o.fl. sem við þekktumvel, sé látinn. Ég spurði hvað ylli. "Mér sýndist ég sjá svipinn hans fyrir utan skrifstofudyrnar", svaraði hann.
Síðar þennan sama dag fréttist andlát Más.

Þegar ég var að skrifa þetta þótti mér rétt að fletta upp Má Frímannssyni og dagsetningin er réttilega munuð.
http://www.heimaslod.is/index.php/M%C3%A1r_Fr%C3%ADmannsson

Guðjón Bjarnfreðsson, kvæðamaður, þekkti föður minn vel. Sagði hann mér að bróðir sinn hefði árið 1939 ráðið sig á danskt olíuskip. Pabba varð mikið um þessa frétt og reyndi hvað hann gat að fá hann ofan af þessu og sagðist mundu tryggja honum pláss á Helga VE 333 sem var þá nærri fullsmíðaður. Ræddi hann þetta við Guðjón og reyndi að fá hann í lið með sér. "Það var hreinlega eins og hann teldi hann feigan," sagði Guðjón.
Ég andmælti því ekki að pabbi hefði skynjað feigð fólks og sagði honum frá þessum vatnsbláma eða glampa sem hann sagði að brygði fyrir í augum fólks. Guðjón kvaðst hafa heyrt fleiri manna getið sem lýstu svipaðri reynslu.

Guðjón sagði að skipið, sem bróðir hans réð sig á, hefði verið á meðal þeirra fyrstu sem grandað var í upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar.

 

 


Átti Kastró íslenskan föður?

Nú er Fídel Kastró eður Tryggvi frá Borg, eins og sumir kölluðu hann, fallinn frá. Maður nokkur taldi vafa leika á ætterni hans. Sá hét Jón Grímsson og var ráðsmaður hjá Ásbirni Ólafssyni, stórkaupmanni, en ég var sölumaður hjá honum sumrin 1970-72 og 1974-75. Sagan er þessi:

Ég snæddi gjarnan hádegismat með Ásbirni og gekk Jón um beina. Hann var þá á 79. aldursári, fæddur 1893 og mikill vinur okkar bræðra allra.
Eitt sinn segir hann við mig: "Það eru ýmsir sem halda fram að Kastró sé sonur minn." Ég tók því fálega en hann hélt áfram að impra á þessu næstu daga og fóru leikar svo að ég innti hann eftir atvikum.
Sagðist hann þá árið 1925 hafa hitt unga konu í ónefndum stað í Mið-Ameríku og hefðu tekist með þeim góð kynni. Samfarar þeirra voru góðar en ég hirði ekki um að lýsa þeim fyrir öðrum en Ólafi Gunnarssyni rithöfundi, í tveggja manna spjalli. Jón tjáði mér að hann myndi gangast við Kastró þegar og ef þess yrði óskað.

Mér þóttu þetta allmikil tíðindi og hugðist fá botn í málið. Hringdi ég því til Valdimars Jóhannessonar, ritstjóra Vísis og greindi honum frá málinu.

Síðdegis daginn eftir kom Jón inn í söludeildina, steðjaði beint að borði mínu og segir formálalaust: "Mikinn andskotans grikk gerðirðu mér í dag."
Ég setti upp furðusvip og spurði hvað hann ætti við.
"Þú hringdir og þóttist vera blaðamaður frá Vísi og spurðir formálalaust hvort það væri rétt að ég væri faðir Kastrós."
Ég fór að skellihlæja og spurði í forundran hverju hann hefði eiginlega svarað.
"Ja, eitt er víst, að ekki hefur hann þetta helvítis kommúnistavesen í föðurættina", sagði hann.
Ég innti hann eftir því hver blaðamaðurinn hefði verið og mundi hann ekki nafnið. Ég spurði hvort það gæti verið Valdimar Jóhannesson og svaraði jón: "Hann þóttist heita það."
Ég sór og sárt við lagði að ég hefði ekki hringt, en Jón var sannfærður um að ég hefði átt hlut að máli og tjáði mér að hann hefði neitað að gangast við piltinum.

Jón Grímsson var einstakur öðlingur, barngóður með afbrigðum og traustur vinur þeim sem öðluðust vináttu hans. Hann var sagnamaður mikill og sagði að eigin áliti jafnan satt.


Minningarorð um Sirrý mágkonu mína

Í dag var Sigríður Ingibjörg Bjarnadóttir, eiginkona Stefáns Bróðurmíns, jarðsungin frá Landakirkju, en þessi góða mágkona mín lést á sjúkrahúsi Vestmannaeyja laugardaginn 1. Október á 86. Aldursári. Í dag greindi frænka mínn mér frá því að nokkrum dögum fyrir andlát sitt hefði Sirrý sagt gangastúlku og annarri dóttur sinni að Bryndís mágkona sín kæmi að sækja sig á laugardaginn kemur.

Hugur mannsins er flókið fyrirbæri og kemur stöðugt á óvart og einhverjir hefðu sagt að vegir Guðs væru órannsakanlegir..

Meðfylgjandi minningargrein birtist í Morgunblaðinu í dag, 8. Október.

 

Móðir mín ól tvær kynslóðir í þennan heim á 23 árum. Mágkonur mínar, þær Sirrý, Bryndís og Dóra, voru því stundum ígildi móður minnar þegar foreldrarnir voru af bæ, enda var ég á svipuðum aldri og bræðrabörnin.

Sirrý var glaðlynd kona og góðlynd. Hún hafði gott lag á börnum og lét þau hlýða sér ef þess þurfti. Hún var mannvinur og sáttasemjari, sem einatt var leitað til þegar draga þurfti úr ýfingum milli manna. Stefán sagði móður okkar eitt sinn að þeim hefði aldrei orðið sundurorða í hjónabandi sínu.

Minningarnar hópast að. Um aðventuleytið 1959 sáu þau Sirrý og Denni um heimilið að Heiðarvegi 20 á meðan móðir okkar var með Helga bróður í Reykjavík, þar sem hann barðist við hvítblæðið sem dró hann til dauða árið eftir. Þær Guðrún og Systa voru kærkomnir leikfélagar. Töluðum við ótal margt og reyndum enn fleira.

Þá hafði sá siður komist á að gefa börnum í skóinn og varð það til þess að við sofnuðum stundum seint. Oft var kveikt frammi á gangi og skein ljósgeislinn á sængina hjá okkur. Við komumst að því að englar væru þar á ferð. Stundum reyndum við a ýta þeim á brott, en hvernig sem við kuðluðum sænginni fóru þeir hvergi.

Þeim hjónum var einstök gestrisni í blóð borin og einhvern veginn fór það svo að við kynntum iðulega fyrir þeim gesti sem að garði bar. Móttökurnar voru hlýlegar og alltaf eitthvað gómsætt á borðum. Kvöldið fyrir skírdag 1971 fórum við í heimsókn á Boðaslóðina og fengum firnagóða rjómatertu. Kvöldið eftir spurði pabbi hvort við ættum ekki að heimsækja Sirrý um helgina og hjálpa þeim hjónum með kökuna. Leikar fóru svo að hún var nýtt á föstudaginn langa handa fjölskyldu og vinum sem komu til að votta samúð sína vegna andláts hans.

Sirrý var einkar næm á aðstæður og tilfinningar fólks. Vorið 1987 átti ég erindi til Eyja og bauð með mér konu nokkurri, sem varð síðar eiginkona mín. Við héldum að engan grunaði að um samdrátt væri að ræða, en mamma trúði mér fyrir því að Sirrý hefði sagt sér að greinilega væri þetta ástarsamband, „því að hún horfði á hann með svo mikilli væntumþykju.“ Auðvitað voru þetta góðar fréttir.

Stefán lést árið 2000 og syrgði hún hann mjög. Naut Sirrý þess að tala um hann og segja frá ýmsu sem borið hafði við um ævina. En smám saman fann hún glaðlyndi sitt á ný og hefur umhyggja afkomenda hennar vafalítið stuðlað að því. Á ég þar við Guðrúnu og Systu, afkomendur þeirra og eiginmenn.

Við hjónin heimsóttum Sirrý í síðasta sinn í sumar. Hún var glöð að vanda en hugurinn reikaði víða og athafnaþráin lýsti sér í orðræðum hennar um að hún ætlaði nú að fara að pakka saman og halda heim af sjúkrahúsinu. Margt rifjuðum við upp. „Þú varst nú stundum óttalega óþægur við mig,“ sagði hún. Kannaðist ég vel við það og bað hana fyrirgefningar. „Ef þú kyssir mig á kinnina,“ svaraði hún og hlýddi ég því.

Við Elín biðjum sál hennar allrar blessunar og vottum þeim Guðrúnu, Systu og fjölskyldum þeirra samúð okkar.

 


I minningu Dóru Pálsdóttur - birt í Morgunblaðinu 30.09.2016

Dóra Pálsdóttir var firna skemmtileg kona, orkurík og alúðleg í fasi. Hún var hvers manns hugljúfi og laðaði fólk að sér.
Dóra hóf kennslu við Starfsþjálfun fatlaðra skömmu eftir stofnun hennar. Árið 1990 hittumst við við erfidrykkju í fjölskyldunni og sagði hún mér þá frá ráðstefnu um þróun hjálpartækja, sem halda skyldi í Baltemore í Bandaríkjunum þá um haustið. Ákváðum við að reyna að komast. Fór svo að Öryrkjabandalagið sendi okkur bæði.
Skemmtilegri ferðafélaga hef ég vart haft. Dóra kynntist held ég öllum rúmlega 600 þátttakendunum og hefur áreiðanlega kysst þá alla oftar en tvisvar. Í lokaathöfninni var hún einhvers staðar á flandri, en ég komst fljótlega að því hvar hún hélt sig. Þegar nafn Íslands var nefnt sem þáttökulands brast á mikið fárviðri gleðihrópa úr einu horninu, en þar var auðvitað Dóra með sinn orkuríka hóp sem hrópaði og klappaði fyrir Íslandi. Fékk engin þjóð viðlíka viðbrögð.
Við komum hlaðin bæklingum til Íslands og haldinn var fjölsóttur kynningarfundur sem fjöldi fagfólks sótti.
Eftir að fundum lauk síðdegis þá viku sem þingið stóð, upphófst mikil skemmtan. Sögur fóru af samkvæmum á efstu hæð hótelsins og töldum við víst að þar væri mikið sumblað. En annað kom á daginn.
Eitt kvöldið var okkur Dóru boðið og kom þá í ljós að léttöl var það sterkasta sem drukkið var. Á meðal þátttakenda voru Rússar sem misst höfðu útlimi í Afganistan og talaði Dóra við þá með alls konar táknmáli og hljóðum. Einn kunningi hennar á ráðstefnunni var fótalaus. Sveiflaði hann sér upp á flygil og greip í hendur Dóru þegar hún átti leið framhjá. Dönsuðu þau af lífi og sál.
Allt í einu heyrðist gríðarlegur dynkur. Dóra kom til mín í öngum sínum og tjáði mér að hún hefði sleppt höndum piltsins þegar dansinum lauk. En flygillinn var svo háll að pilturinn rann út af honum og  steyptist aftur fyrir sig á gólfið. Taldi Dóra víst að hann væri hálsbrotinn.
Héldum við til herbergja okkar miður okkar bæði. En hvern hittum við alhressan kl. 8 morguninn eftir? Þennan pilt fjöðrum fenginn við að hitta Dóru vinkonu sína á ný.
Skömmu síðar var haldin ráðstefna á vegum Öryrkjabandalagsins um þróun tölvutengdra hjálpartækja og sótti Dóra um að hingað yrði boðið Norðmanni nokkrum sem hafði unnið að þróun forrita fyrir fatlað fólk og hún kynntist í Noregi. Varð stjórnin við því, en seinna skömmuðu menn formanninn fyrir að ástir tókust með Dóru og fyrirlesaranum. Hefur hann búið hér síðan. Vegir Guðs eru órannsakanlegir.
Það var ævinlega gott og gaman að hitta Dóru. Þótt eitt sinn skærist í odda með okkur þegar Öryrkjabandalag Íslands bannaði starfsfólki að eiga nokkur samskipti við stjórnvöld, var það aldrei erft, enda "kröfðust aðstæður þess að þú fylgdir eftir samþykkt stjórnarinnar", sagði Dóra."
Nú, þegar að kveðjustund er komið, þakka ég af alhug gjöfult samstarf við þessa frjóu og lífsglöðu konu. Um leið votta ég Jens og fjölskyldum þeirra mína dýpstu samúð.
Arnþór Helgason


Ávallt tuttugu og níu ára

Sólveig ásamt Stefáni Pétri, syni sínum.Í dag eru 60 ár síðan elskuleg tengdamóðir mín, Sólveig Eggerz Pétursdóttir, listmálari, varð 29 ára. Fyrir 5 árum tók hún þá ákvörðun að verða ekki eldri, en þá sagði Birgir Þór Árnason, dóttursonarsonur hennar við Elínu ömmu: "Hún er sko gömul, hún er 29 ára!" Þetta var hæsta talan sem hann þekkti þá.

 

Megi þessi 29 ára gamla listakona eiga mörg farsæl ár framundan. Á myndinni er hún ásamt Stefáni Pétri, syni sínum.


Bíðviðrisbrúðkaup í Hafnarfirði

Hamingjustund í Fríkirkjunni í HafnarfirðiVið Elín erum nýkomin úr dýrðlegum brúðkaupsfagnaði heiðurshjónanna doktor frú Svövu Pétursdóttur og Gunnars Halldórs Gunnarssonar, framkvæmdastjóra og stýrimanns. Þar var fjöldi manns í blíðviðri sem best getur orðið í Hafnarfirði. Að gömlum sið var þeim hjónum flutt lítið brúðarvers undir laginu Austrið er rautt. Þar sem föðurbróðir brúðarinnar, Jón Skaptason, var viðstaddur, hneigðist ljóðskáldið til að hafa ljóðið í hefðbundnu fari:

Austrið er rautt,
upp rennur sól.
Austur í Kína fæddist Mao Tsetung.
Ykkur sendum við hjónum hól,
því með sanni þið ákváðuð
að sameinast í dag.

Myndina tók Elín í Fríkirkjunni í Hafnarfirði, en þangað leiddi brúðgaumi gesti í ratleik úr garðveislunni, "veislunni okkar".
 

Góður drengur kvaddur

Í dag verður borinn til grafar Arnór Pétursson, margreyndur og ötull baráttumaður um málefni fatlaðra. Örlögin haga því svo að ég kemst ekki að jarðarför hans og tími vannst ekki til að senda inn minningargrein um hann. Því verða nokkur minningarorð birt á þessum stað.

Þegar hvörf verða í lífi manna bregðast þeir við með ýmsum hætti. Sumir breyta um stefnu, aðrir leggja árar í bát og til eru þeir sem halda óbreyttri stefnu. Sú leið endar einatt með skipbroti. Arnór vissi sem sjómaður að hvort tveggja þurfti að gera - breyta um stefnu og halda á önnur mið.

Arnór einhenti sér í baráttu fatlaðra undir eins að endurhæfingu lokinni. Hann var einn þeirra sem stofnuðu Íþróttasamband fatlaðra og formaður Sjálfsbjargar, landsambands fatlaðra, var hann um skeið. Hann sat í aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands um árabil og var þar ötull liðsmaður.

Arnór kom víðar við ef málefni fatlaðra voru á dagskrá. Þegar reynt var að koma þessum málefnum á framfæri á vettvangi stjórnmálaflokka eða annarra samtaka var hann ódeigur liðsmaður. Sem starfsmaður Tryggingastofnunar ríkisins reyndist hann fjölmörgu fólki vel og var óspar á góð ráð. Hann hvatti fólk iðulega til þess að leita réttar síns og aðstoðaði það í hvívetna.

Með Arnóri Péturssyni er genginn góður drengur á vit hins ókunna. Við, sem eftir sitjum á þessari jarðarkringlu, söknum góðs vinar og þökkum allt hans óeigingjarna starf í þágu þess málstaðar sem við helguðum okkur. Fjölskyldu Arnórs sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Arnþór Helgason


"Ég breyti í frosk:)"

Elfa Hrönn Friðriksdóttir og Árni Birgisson spiluðu um daginn Ólsen við Birgi Þór Árnason, sem er á 6. ári. Kolbeinn Tumi Árnason,yngsti bróðirinn á þriðja ári, sat hjá og hafði fengið alla jókerana.

Ásarnir voru óspart nýttir til þess að breyta um spil og var breytt ótt og títt úr spaða, þá í lauf, því næst í tigul, hjarta o.s.frv. Allt í einu sagði Kolbeinn Tumi: "Ég breyti í frosk."


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband