Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
Þá um haustið hringdi Ásbjörn Ólafsson, stórkaupmaður, til föður míns og falaðist eftir mér til sölumennsku næsta sumar. Ætlaði hann að setja á markað ýmiss konar varning eins og margs konar matvöru og taldi tilvalið að fá mig til þess að kynna vörurnar fyrir kaupmönnum með því að hringja til þeirra. Við feðgar tókum þessu boði fagnandi og brosti framtíðin við mér.
Ég mætti í vinnuna 1. júní árið 1970. Það var mánudagur og þannig stóð á að sveitarstjórnakosningar höfðu verið daginn áður. Flest fyrirtæki landsins ljáðu þá Sjálfstæðisflokknum mannafla og bifreiðar og var Ásbjörn þar engin undantekning á. Eitthvað hafði farist fyrir að greina fóki frá því að ég væri væntanlegur í vinnu þennan dag og varð mér heldur lítið úr verki. Eftir hádegi komumst við að því hvað þyrfti að gera til þess að ég gæti hafist handa. Ég skrifaði upp símaskrá, útbjó vörulista og mér var kennt að fylla út sölueyðublöð. Gat ég því hafist handa á öðrum eða þriðja degi. Yfirmaður min var ágætur sölumaður, Sigurður Sigurðarson, og tók hann mig í eins konar sölupróf á þriðja degi til þess að vita hvort ég gæti yfirleitt unnið sem sölumaður. Benti hannn mér á það sem betur mætti fara og hófst ég svo handa.
Þá var verslunarumhverfið gjörólíkt því sem nú er. Fjöldi smáverslana var um allt höfuðborgarsvæðið og reyndar um allt land. Efnahagsástandið var erfitt og reyndist mér oft á tíðum, ungum piltinum, erfitt að takast á við þann vanda sem kaupmenn áttu við að stríða og bitnaði ótrúlega oft á okkur sölumönnunum - einkum þeim sem yngstir voru. Allt gekk þetta þó slysalaust og ég vann sem sölumaður hjá Ásbirni sumurin 1970-75 að undanteknu sumrinu 1973 þegar við tvíburarnir sáum um Eyjapistil.
Margs er að minnast frá þessum árum og flestar minningarnar góðar. Ég borðaði yfirleitt með Ásbirni í hádeginu, en hann hafði ég þekkt frá barnæsku. Fyrirtæki Ásbjörns Ólafssonar var góður vinnustaður og samvinna manna með ágætum. Margir höfðu unnið árum saman hjá Ásbirni. Þegar ég var um það bil að hætta 1975 var ég beðinn aðhalda áfram einn mánuð í viðbót og síðan boðið framtíðarstarf. Ég hafði meiri áhuga á að afla mér menntunar og hasla mér völl á ýmsum sviðum.
Líf mitt hefur orðið að mörgu leyti litríkt og mér hafa gefist ýmis tækifæri til þess að reyna kraftana. Þótt á stundum hafi blásið um mig fremur naprir vindar er þó niðurstaðan sú að ég hafi verið fremur gæfusamur.
Í haust hófst ég enn handa sem sölumaður og stunda það starf enn sem verktaki. Svo merkilegahefur viljað til að ég hef rekist á nokkra einstaklinga sem voru að hefja verslunarrekstur um það leyti sem ég hófst handa sem sölumaður fyrir 40 árum og hefur verið ánægjulegt að rifja upp gömul kynni.
Fjölbreyttur starfsferill ætti að geta orðið fólki dýrmætt veganesti síðustu starfsár þess. Ég ber enn þá von í brjósti að fá fast starf þau ár sem ég á eftir á almennum vinnumarkaði þar sem reynsla mín og þekking mætti nýtast til góðra verka.
Vinir og fjölskylda | 1.6.2010 | 09:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sólveig er landsþekktur listamaður og hefur haldið fjölda sýninga hérlendis og utanlands, bæði sjálf og með öðrum. Í fyrsta sinn sýndi hún verk sín á samsýningu árið 1949.
Sólveig fékkst framan af einkum við að mála með olíulitum og vatnslitum. Að undanförnu hefur hún lagt olíulitina á hilluna og snúið sér að akríl-litum. Hún varð þekkt víða um lönd fyrir að mála myndir á rekavið, en hún mun hafa orðið fyrst íslenskra listamanna til þess.
Myndirnar á sýningunni eru allar málaðar á síðustu mánuðum. Þótt hendur hennar séu farnar að kreppast og aldurinn segi til sín heldur Sólveig ótrauð áfram og tekst á við nýja tækni og viðfangsefni.
Sólveig verður 85 ára á kosningadaginn, 29. maí nk. Hún hefur það eftir einum dóttursonarsyni sínum að hún sé 29 ára og hyggst halda því áfram.
Á síðunni http://hljod.blog.is er viðtal við Sólveigu þar sem hún greinir frá listsköpun sinni. Eru lesendur þessarar bloggsíðu eindregið hvattir til að kynna sér það.
http://www.hljod.blog.is/blog/hljod/entry/1058919/
Vinir og fjölskylda | 24.5.2010 | 11:21 (breytt kl. 16:07) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eftir að hafa komið við í Fossvogsdalnum og áttað okkur á því að hávaðinn var of mikill frá borginni, sem svaf ekki, var haldið upp í Heiðmörk og staðnæmst við Vígsluflöt. Þar stillti ég upp hljóðnemum og hófst handa.
Fuglasöngurinn var fremur lágvær. Þrestir sungu og hrossagaukur framdi a.m.k. þrenns konar hljóð.Í lok hljóðritsins létu lóa, himbrimi og fleiri fuglar til sín taka. Væri fróðlegt að lesendur þessarar síðu hlustuðu á hljóðritið, nytu söngsins, andardráttar náttúrunnar og ómsins frá næturlátum borgarinnar. Um leið geta þeir reynt að greina þá fugla sem ekki eru nefndir í þessumpistli. Slóðin er
http://hljod.blog.is
Eftir rúmlega 20 mínútna hljóðritun tók Nagra-tækið að láta vita af því að senn væru rafhlöðurnar tómar. Ef til vill hefur það eytt meira rafmagni vegna þess að hitinn var einungis 4 stig á Celsíus samkvæmt hitamæli bifreiðarinnar og rafhlöðurnar tæpra þriggja ára gamlar.
Ég hætti því hljóðritun og ákvað að hafa samband við Elínu sem beið í bílnum nokkur hundruð metra frá. En það var fleira sem hafði orðið kuldanum að bráð. Farsíminn var ekki í lagi. Ég náði engu sambandi með honum og greip því til þess ráðs að anda djúpt og kalla svo á Elínu. Fyrsta svarið var endurómur nærstaddra trjáa og e.t.v. einhverra hæða. Ég kallaði því enn og svaraði þá Elín. Skömmu síðar kom hún og vitjaði mín.
Góð kona er gulli betri.
Vinir og fjölskylda | 15.5.2010 | 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Í boðinu fékk hún þessa vísu:
Silfurbúna silkihlín,
sómi er að þér.
Elsku hjartans Elín mín,
þú ætíð skýlir mér.
Vinir og fjölskylda | 4.4.2010 | 14:03 (breytt kl. 22:21) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Með Helga fórust 10 menn. Tveir þeirra komust upp í Faxasker en létust þar af sárum sínum, vosbúð og kulda. Hvorki fundust lík annarra skipverja né brak úr skipinu við Vestmannaeyjar, en mikið rak úr Helga við Rauðasand hálfum mánuði eftir strandið. Leifarnar af öðrum björgunarbátnum má enn sjá í túnfætinum á Lambavatni.
Ekki varð komist út í Faxasker fyrr en um 40 klst. Eftir að Helgi fórst enda geysaði mikið fárviðri í Vestmannaeyjum.
Til minningar um þessa aturði er hér birt upphaf og endir útvarpsþáttar sem gerður var um Helgaslysið. Þar heyrist rödd móður minnar, Guðrúnar Stefánsdóttur og séra Halldórs E. Johnson.
Sögumaður er Sigrún Björnsdóttir.
Fjölskyldum og ættingjum þeirra, sem fórust með Helga fyrir 60 árum, eru sendar hugheilar kveðjur.
Vinir og fjölskylda | 7.1.2010 | 00:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mér eru efst í huga þakkir til hennar fyrir allt sem hún var mér og þakklæti til þess fólks sem annaðist hana af svo mikilli alúð síðustu 10 ár ævi hennar.
Vinir og fjölskylda | 13.8.2009 | 15:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hinn 5. júní síðastliðinn sótti ég um sölumannsstarfið sem auglýst var á mbl.is og innan við klukustund síðar var haft samband við mig. Samtalið var mjög jákvætt og þótti mér næsta víst að ég fengi starfið. Í gær var síðan gengið frá því að svo yrði.
Ég vænti þess að nú sé þessari þrautagöngu lokið a.m.k. um stundarsakir. Ég hef að mestu verið atvinnulaus frá því í janúar 2006 þegar ég var rekinn fyrirvaralaust frá Öryrkjabandalagi Íslands. Aldrei fékkst á því nein skýring heldur voru hafðar í frammi dylgjur sem ekki verða rifjaðar hér upp. Tvö síðustu sumur vann ég sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu og lærði heilmikið á því. Morgunblaðið er einhver besti vinnustaður sem ég hef verið á og er ég bæði stoltur og þakklátur fyrir að hafa fengið þetta gullna tækifæri til þess að starfa sem blaðamaður og ryðja þannig öðrum brautina. Þá hef ég haft með höndum pistla fyrir ríkisútvarpið einu sinni í viku og held því vonandi áfram enn um sinn.
Sölumennska er mér ekki ný af nálinni. Frá árinu 1970-75 vann ég á sumrin sem sölumaður hjá Ásbirni Ólafssyni að undanteknu sumrinu 1973 þegar við gísli sáum um Eyjapistil. Þá tók ég að mér söluverkefni fyrir lítið fyrirtæki sumarið 1977, en Atvinnumiðlun stúdenta útvegaði mér starfið. Ungur systursonur minn, Birgir Finnsson, var mér til halds og traust þá daga sem verkefnið stóð.
Það verður skemmtilegt að rifja upp sölumannsstarfið. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan ég fékkst við sölumennsku síðast og viðhorfin önnur.
Á þessu atvinnuleysistímabili hefur fjöldi fólks reynst mér afar vel, stappað í mig stálinu og verið mér til halds og trausts. Elín, eiginkona mín, stendur ævinlega við hlið mér sem klettur. Bendir hún mér iðulega á það sem betur megi fara og sér einatt ótrúlegust u lausnir á hlutum sem mér virðast flóknir. Þá hefur fjölskyldan öll reynst mér hið besta og ekki síst Árni, sonur Elínar, en hann hefur einstakt lag á að hefja uppbyggilegar samræður um margvíslegar hliðar tilverunnar. Þótt fleiri verði ekki taldir upp hefur þeim ekki verið gleymt.
Þegar fólk fær jafnjákvæð viðbrögð við umsókn sinni og raun bar vitni 5. júní síðastliðinn hlýtur það að fyllast bjartsýni um leið og því eykst kjarkur.
Starfsfólk Vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins hefur einnig reynst hið traustasta í öllum ráðum sem það hefur gefið. Kærar þakkir, þið öll.
Vinir og fjölskylda | 16.6.2009 | 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hún Dóra var kærleiksrík, vildi hvers manns vanda leysa en skirrðist þó aldrei við að taka afstöðu. Þótt hún væri ósátt við hegðan og framgöngu fólks fann hún því iðulega eitthvað til málsbóta. Varð hún þannig mannasættir og mannvinur.
Samskipti okkar byrjuðu víst ekki björgulega. Sjálfsagt hefur hún vitað af mér frá fæðingu enda fóru þau Dóra og Sigtryggur að dansa saman árið sem ég fæddist. Hún vissi að ég var erfitt barn og kallaði víst ekki allt ömmu mína. Einhverju sinni þegar ég var á 4. ári hugðist hún gera móður minni og tengdamóður sinni greiða og taka mig út með sér, en ég frekjaðist þá sem mest ég mátti. Greip hún mig á handlegg sér. Ég var hinn reiðasti og háorgaði. Skipti þá engum togum að ég læsti tönnunum í upphandlegg hennar og beit fast. Hún fór sjálf að hágráta og skilaði mér háorgandi. Mamma þurfti því að hugga okkur bæði.
Þau Dóra og Sigtryggur bjuggu fyrstu árin í lítilli íbúð í kjallaranum heima og var því samgangur mikill. Eftir að þau fluttu til Reykjavíkur varð heimili þeirra eins konar samgöngu- eða áningarmiðstöð fjölskyldunnar frá Landlist og tengdafólks hennar. Þau hjón voru samhent í gestrisni sinni og greiðvikni. Þegar stórfjölskyldan kom saman á gleðistundum upphófst mikill söngur. Einhver var þá fenginn til að leika undir á píanó eða gítar og var stundum sungið linnulítið svo að klukkustundum skipti.
Dóra varð fjölmenntuð kona. Hún hafði unun af lestri skáldsagna, ljóða og margs kyns fræðibóka. Hún ræddi skoðanir sínar á bókmenntum líðandi stundar, greindi persónur þeirra og stílbrögð og braut efnið til mergjar. Hún sótti námskeið á vegum endurmenntunar H.Í. í jafnólíkum greinum sem trúarbragðafræðum og bókmenntum.
Frá því að ég man eftir mér söng hún í einhverjum kór. Í Kirkjukór Vestmannaeyja var hún árum saman, Pólýfónkórnum og nú síðast söng hún með kór fullorðinna heiðurskvenna. Tónlistin var hennar líf og yndi. Þess vegna sótti hún iðulega tónleika og stundaði nám í píanóleik fram á síðustu stundir.
Dóra var trúuð og treysti skapara sínum. Hún tók því sem að höndum bar af æðruleysi þess er treystir guði sínum og leggur allt sitt í hendur hans. Þegar grannt er skoðað var það ef til vill helsti styrkur hennar. Dóra hafði áhuga á öllu sem snerti ættingja sína og vini. Hún átti það til að spyrja unga menn um kvennamál þeirra og forvitnast um þeirra innstu tilfinningar. Flestir svöruðu þeir spurningum hennar og svöluðu um leið löngun sinni til þess að tjá sína innri þrá, enda eignaðist hún marga vini á meðal ungs fólks.
Helgi Benediktsson, tengdafaðir hennar, sagði eitt sinn við mig að Dóra hefði marga kosti til að bera. Fáa eða enga vissi hann reynast þeim betur sem stríddu við veikindi eða önnur bágindi. Ég er ekki viss um að hann hafi sagt henni þetta nokkru sinni en oft minntist hann á þetta að fyrra bragði.
Söknuður ættmenna hennar og vina er mikill. Eftir lifir minningin um atorkusama og glaðværa eiginkonu, umhyggjusama móður, skemmtilega ömmu, systur, mágkonu og vinkonu sem aldrei brást.
Vinir og fjölskylda | 12.6.2009 | 08:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í morgun komu þeir í hafragraut, Kolbeinn tumi á 14. mánuði og Árni, faðir hans á 40. ári. Þar sem veðrið var gott var Ormurinn blái dregin úr hýði sínu, settur á hann barnastóll og lagt af stað. Varð þá Ormurinn blái að þriggja manna hjóli.
Árni átti erindum að gegna austur í Borgartúni. Var ákveðið að halda þangað og velja leið við hæfi því að farmurinn eða farþeginn er ómetanlegt dýrmæti. Hjóluðum við sem leið lá eftir Ægisíðustígnum, þeim hluta hans sem er einungis ætlaður hjólreiðamönnum. Fórum við fram úr ungri stúlku sem vék fyrir okkur til vinstri handar. Við gáfum í og þeystum áfram þar til komið var að mótum stígsins og Suðurgötu. Var þá slegið af og haldið um háskólahverfið út á Hringbraut og þaðan eftir Snorrabrautinni og endað í Borgartúni.
Þá vorum við komnir svo austarlega að ákveðið var að líta við í Erninum, en við Ragnar Þór Ingólfsson, reiðhjólasérfræðingur og uppreisnarmaður innan VR, hövðum rætt saman um endurnýjun ýmiss búnaðar hjólsins. Er ekki að orðlengja að við fundum Örninn, hittum Ragnar og skildum Orminn eftir. Héldum við síðan til sama lands með leigubíl, útbúnum barnastóli.
Kolbeinn litli Tumi var himinlifandi yfir ferðinni. Átökin voru nokkur og fékk undirritaður hlaupasting.
Greinilegt er að ég þarf að þjálfa mig betur er ég ætla að hjóla austur í Vík í mýrdal á hausti komanda.
Vinir og fjölskylda | 11.6.2009 | 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við Þórhallur kynntumst á 9. áratugnum, en bókasafnarinn mikli, Þórarinn Pálsson á Egilsstöðum, var sameiginlegur kunningi okkar. Þau heiðurshjón, Ólafur Pálsson og Steinunn Ögmundsdóttir höfðu gefið Blindrafélaginu fé til að hefja ritun Sögu blindra á Íslandi. Halldór Rafnar, sem var um þetta leyti formaður og síðar framkvæmdastjóri Blindrafélagsins, þekkti Þórhall Guttormsson og vorum við sammála um að leggja til að hann yrði fenginn til verksins.
Samstarf okkar Þórhalls gekk með ágætum. Við lögðum saman línurnar um kafla bókarinnar og vann hann alla heimildavinnu. Árangurinn varð hið merkasta fræðirit þar sem saman fór saga blindra Íslendinga frá öndverðu og ágæt skilgreining á hugtakinu blindu.
Upp í hugann koma ótalmörg atvik frá samstarfi okkar. Ég minnist áhugans og vandaðrar heimildarýni Þórhalls. Hann var skemmtilegur samstarfsmaður, fróður, einlægur og um leið skarpvitur. Hann mælti á íslensku eins og hún verður fegurst.
Ég þakka honum af alhug allt sem hann kenndi mér.
Vinir og fjölskylda | 20.5.2009 | 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar