Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Eitt kg af kínverskri tónlist og fleira

Vinkona mín frá Hong Kong, Florence Ho Hauching, dvelur nú hjá okkur hjónum um stundarsakir. Við kynntumst í torquay í Bretlandi haustið 1978 og höfum verið vinir síðan. Lagið Vinátta, sem er í tónlistarspilaranum, er tileinkað henni. Þar er vitnað í lagið Austrið er rautt bæði í undirleik og laglínu og sagði hún að ég væri "too communistic" þegar hún heyrði það fyrst.

Florence fyllti húsið af gjöfum og færði mér m.a. eitt kíló af kínverskri tónlist, m.a. sinfónískar útsetningar af aríum úr kínverskum byltingaróperum, hinar mestu gersemar.

Í gær hlýddum við messu í Hallgrímskirkju, fórum í gönguferð og þágum matarboð hjá Sigtryggi og Dóru. Í dag skoðuðum við Kjarvalsstaði, Listasafn Reykjavíkur, Grasgarðinn í Gaugadal og Reykjavík 871 +-2, þá merku fornleifasýningu. Þar fá menní hendurnar prýðilega leiðsögn á litlum tónhlöðum. Er það til mikilla bóta. Eini gallinn er sá að menn geta ekki farið fram og aftur um sýningarskrána. Sjálfsagt verður bætt úr því sem öðru.

Florence hefur ekki komið hingað í 22 ár. Það er gaman að hitta gamla vini og finna óslitinn vináttuþráð millum hennar og okkar hjónanna.


Í nafni laganna

Birgir Þór Árnason, fjögurra ára, hefur verið hjá okkur síðan á mánudagskvöld. Hann er í páskafríi.

Í gærmorgun þótti honum amma eitthvað sein að bregðast við óskum sínum og kallaði: "Amma! Komdu hingað undir eins í nafni laganna!"

Í morgun hlustuðu þau amma ´á Pétur og úlfinn. Þótt úlfurinn sé hræðileg skepna hefur hann samt eitthvert aðdráttarafl.

Á sama hljómdiski eru fleiri ævintýri og eitthvað fjallað þar um gamla konu. Spurði ég Birgi þá hvort amma væri gömul kona. Kvað hann nei við því. Hið sama gilti um Gurru ömmu, Guðrúnu Þórðardóttur, húsfreyju á Höfða á Höfðaströnd. En við Friðrik afi vorum gamlir karlar.

Hann sagði þó að langamma væri gömul - hún væri 29 ára.

Í gær fórum við út í fjöruna við Seltjörn. Þar byggðu þau Birgir Þór og amma kastala. Síðan fylgdumst við með því þegar aðfallið máði hann út.

Á meðan kastalinn var byggður tók afi "viðtal við sjóinn," eins og Birgir Þór orðaði það. Er viðtalið tengt við þessa færslu og vona ég að hlustendur fái notið þess. Mælt er með að notuð séu góð heyrnartól.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Flugur í fjöru

Birgir litli Þór var hjá ömmu og afa í fóstri í nótt. Við ætluðum í fjöru í dag að sýsla ýmislegt skemmtilegt. En sá stutti fór að kasta upp í morgun svo að ekkert varð af fjöruferð og faðir hans sótti hann um nónbil.

Við hjónakornin fórum út í Gróttu áðan og hlustuðum á Atlantshafið spjalla við vitann. Greina mátti þungar drunur brimsins. Stafalogn var og undursamlegt veður. Í svona veðri hefði verið gaman að hljóðrita tónbrigði sjávarins.

Við héldum göngunni áfram meðfram ströndinni og nutum blíðunnar. Ský dró fyrir sólu. Sólin gbraust fram úr skýjum þegar dró að lokum göngunnar og skreytti umhverfið. Í fjörunni voru flugur enda lýkur febrúar í dag og senn vorar. Gísli Halldórsson, leikari, notaði einungis tvær árstíðir. Sumarið hófst 1. mars og veturinn 1. nóvember. Hvorki var haust né vor í hans dagatali.


Birgir Þór Árnason, upprennandi læknir

Á sunnudaginn komu þeir Birgir Þór á fjórða ári og Kolbeinn Tumi á 8. mánuði í heimsókn til ömmu og afa ásamt foreldrum sínum. Birgir Þór sýslaði margt og tók sér m.a. fyrir hendur að lækna þá sem á vegi hans urðu.

Afi sýndi honum meiðsli sem hann kenndi til í. Birgi þótti ástæða til að mæla hann.

"Þú ert með hita," sagði hann. Þegar afi spurði hvað hitinn væri hár svaraði sá stutti: "Hann er 14 kíló. Það er ekki mikið, en þú ert veikur."


Sjötugsafmæli

Á þessum degi leitar hugur minn til tveggja einstaklinga sem mér þótti vænt um og reyndust mér vel.

Þau Helgi, bróðir minn og Renata Kristjánsdóttir voru bæði fædd þennan dag árið 1938. Þau létust bæði langt fyrir aldur fram.

Renata sagðist hafa kynnst Helga í Menntaskólanum á Akureyri. Þar var hann við nám veturinn 1955-56 en varð þá að hverfa frá námi vegna hvítblæðis. Renata stundaði nám í sagnfræði um leið og ég. Ég hef áður getið þess á þessum síðum að hún las fyrir mig allt námsefnið fyrstu tvö ár ín í háskólanámi og var í raun eins og hver önnur himnasending.

Blessuð sé minning þeirra beggja.


Fleyið siglir ei framar

Þau tíðindi hafa borist að Åge Nigardsöy, formaður Norsku blindrasamtakanna, hafi látist í gærkvöld. Á hugann leita ótal minningar um skemmtilegan og framsækinn einstakling, fullan lífsorku og einstaklega glaðsinnaðan mann.

Á 8. áratugnum hófst mikið blómaskeið innan samtaka blindra og sjónskertra á Norðurlöndum. Hópur blinds fólks hafði aflað sér háskólamenntunar og viðhorf hans voru nokkur önnur en tíðkast hafði innan samtakanna. Þetta unga fólk var ákveðið í að verða hluti þeirrar þjóðfélagsheildar sem við eigum öll rétt á að taka þátt í.

Forystumenn blindrasamtakanna, svo sem Svend Jensen í Danmörku, Charles Hedquist í Svíþjóð og Eero Hækkinen frá Finnlandi að ógleymdum Arne Husveg, hinum atorkusama framkvæmdastjóra Norsku blindrasamtakanna, skynjuðu kall hins nýja tíma og stóðu fyrir því að hafin var umfangsmikil samvinna ungs, blinds fólks á Norðurlöndum.

Á Íslandi var sett á stofn æskulýðsnefnd blindra um þetta leyti og var mér falið að fara í kynnisferð til Noregs að kanna hvernig æskulýðsstarfi væri háttað þar. Varð ۏÅge Nigardsöy félagi minn og leiðsögumaður í Ósló. Dáðist ég mjög að víðsýni hans og hæfileika hans til þess að setja hlutina í ótrúlegt samhengi. Á norræna æskulýðsfundinum, sem þá var haldinn, var hann sjálfsagður og ókrýndur leiðtogi.

Við ۏÅge áttum ýmislegt sameiginlegt svo sem áhuga á hljóðritunum. Einnig höfðum við áhuga á bókmenntum og sögu. Hann stóð fyrir útgáfu hljóðtímarits handa ungu, blindu fólki, Ulyd (Óhljóð) og var það gjarnan ótrúlega skemmtilegt, fullt af lífi og margs konar hugmyndum og hljóðum.

Samstarf okkar ۏÅge stóð talsvert frameftir 9. áratugnum. Þegar ég hvarf úr norræna blindrastarfinu dró úr samskiptunum.

Fyrir nokkrum árum var haldin hér norræn blindraráðstefna og þar var Åge. Ég varð var við að sjón hans hafði nokkuð daprast, en hann var enn sami, hlýi og glaðlyndi maðurinn og fyrr.

Åge var mikils metinn innan Norsku blindrasamtakanna og á norrænum vettvangi. Ég minnist hans með hlýju og votta samúð mína fjölskyldu hans og félagsmönnum Norsku blindrasamtakanna.


Yndislegt sakleysi og trúnaðartraust

Hér er slóð á pistilinn um Birgi Þór, Kristu Sól og börnin í Tjarnarási. Njótið þessara yndislegu frásagna og söngsins.

http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4416420/4


Apinn sem keypti alla peningana og líka grænmeti og aura

Birgir Þór Árnason og Krista Sól Guðjónsdóttir eru á fjórða ári og stunda nám í leikskólanum Tjarnarási í Hafnarfirði. Í dag segja þau hlustendum þáttarins Vítt og breitt á Rás eitt söguna um apa sem féll ofan úr tré og litla mús sem renndi sér niður rennibrautina. Útsendingin hefst um kl. 13:45. Þá heyrist einnig söngur barnanna á Tjarnarási og leikhljóð. Missið ekki af þessari útsendingu. Hún hressir sálina í darraðardansi og amstri dagsins.

Ég hef borið gæfu til að halda úti pistlum í þættinum Vítt og breitt einu sinni í viku frá árinu 2006. Þar hefur ýmislegt borið á góma. Í vetur verða pistlar og frásagnir um hitt og þetta og nokkur áhersla lögð á að birta hljóðrit sem ég hef gert undanfarna þrjá áratugi. Þótt hljóðritasafnið sé ekki mjög stórt í sniðum leynist þó þar ýmislegt sem er harla athyglisvert og ber vitni um horfinn hljóðheim.

Um daginn afritaði ég gamla snældu á tölvudisk. Þegar afrituninni var lokið tók ég eftir því að snældan var slitin. Hún verður því ekki notuð framar.

Þeir sem eiga gamlar snældur með efni sem þeir telja dýrmætt ættu hið fyrsta að huga að afritun þeirra. Leynist þar efni sem fólk telur að aðrir geti haft gaman af, væri fróðlegt að fá að hlusta á það og athuga hvort það væri ekki hæft til útsendingar.

Munið svo að hljóðrita börnin ykkar. Til þeirra hluta eru nú til býsnagóð tæki á mörgum heimilum, en yfirleitt eru góðir hljóðnemar á stafrænum kvikmyndavélum.


Að giftast mömmu sinni

Birgir Þórsem er á fjórða ári, trúði afa fyrir því í dag að vinkona hans á leikskólanum ætlaði ekki að giftast honum heldur mömmu sinni. Afi sagði honum að börn gætu nú ekki gifst foreldrum sínum og ætlar snáðinn að segja vinkonunni þetta.

Afi spurði hvort Birgir ætlaði að gifta sig þegar hann yrði stór og játti hann því. Auðvitað ætlar hann að giftast vinkonunni og bjóða afa í brúðkaupið.


Óskir uppfylltar

Birgir Þór hefur gist hjá okkur undanfarnar nætur. Er það í fyrsta sinn sem hann er svo lengi hjá okkur.

Hann velti fyrir sér við foreldra sína hvað hann gæti nú gert með ömmu. Úr varð að þau Elín amma bjuggu til dagatal. Fjöldi daga og nótta var merktur inn á dagatalið og hvað gera skyldi.

Í gær var strætódagur og tókst að uppfylla þá ósk. Í dag var hjólreiðadagur. Þegar barnastóllinn hafði verið settur á Orminn í morgun fór að hellirigna. Féllst snáðinn á að fresta brottför.

Snáðinn vakti athygli ömmu sinnar á því um tvöðleytið að nú væri hætt að rigna og var því búist til ferðar. Var hjólað út að Bakkatjörn og fuglunum gefið brauð. Þá var haldið sem leið lá þvert yfir nesið, meðfram Norðurströndinni og heim. Stynningskaldi var á og fannst snáðanum kalt að sitja í stólnum. Kvartaði hann við okkur undan vindhviðunum.

Heim komumst við heilu og höldnu og ekki mjög vot. Tekist hafði að uppfylla allar óskirnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband