Færsluflokkur: Vefurinn

Vinsælasti vefmiðill landsins

Í dag greinir frá því að mbl.is sé vinsælasti vefmiðill landsins eða að svo má skilja fréttina, sé hún túlkuð á jákvæðan hátt.

Það rýri að vísu gildi staðhæfingar minnar að aðrir vefmiðlar s.s. www.ruv.is, www.visir.is, Pressan, Smugan og hvað þessir miðlar heita allir, taka ekki þátt í samræmdum vefmælingum. Þótt vissulega megi einfalda ýmislegt á forsíðu mbl.is verður því hiklaust haldið fram að vefurinn beri höfuð og herðar yfir aðra vefmiðla. Í raun er hann sá íslenskur miðill sem kemst næst Ríkisútvarpinu að vera almennings eign.

Þrátt fyrir allt hryggir mig að sjá að vegur Morgunblaðsins hefur ekki vaxið að ráði undanfarið og er það að vonum eins og sagt er.

Ég hef áður haldið fram á þessari síðu að útgáfa Fréttablaðsins sem gjafablað sem gjaldþrota kaupsýslumaður á, skekki svo samkeppnisstöðu DV og Morgunblaðsins að furðu sætir að útgefendur Fréttablaðsins hafi ekki verið kærðir fyrir samkeppnisyfirvöldum. Þrátt fyrir miklar auglýsingar er sagt að enn sé dælt í Fréttablaðið fjármagni til þess að halda því á floti.

Nú verða Hagar seldir í sumar að sögn fróðra manna. Hvað verður þá um Fréttablaðið og þá sem þar vinna? Það er vissulega áhyggjuefni.


Að treysta tölvupósti

Að undanförnu hef ég notað jöfnum höndum Outlook Express og Microsoft Outlook 2007. Stundum sendi ég póst beint af vefnum en finnst það að ýmsu leyti meira umhendis.

Á meðan ég notaði Outlook 2003 varð ég var við að nokkrir einstaklingar fengu ekki póst frá mér. Hann virtist annaðhvort lenda í póstsíu eða hreinlega ekki skila sér. Ekki bar á þessu þegar ég notaði Outlook Express.

Nú virðist sama sagan endurtaka sig. Póstur, sem skrifaður er í Outlook 2007 skilar sér ekki til allra. Þannig lenti ég í talsverðum vandræðum vegna samskipta minna við Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og þau leystust ekki fyrr en ég fór að nota Outlook Express. Leikur mér jafnvel grunur á að starfsumsókn, sem ég sendi í tölvupósti, hafi ekki komið fram.

Mér hefur verið bent á thunderbird frá Mosilla sem örugga leið til póstsamskipta. Það póstforrit hefur ekki verið aðgengilegt til þessa en sennilega hefur nú verið ráðin bót á.

Ókosturinn við Outlook Express er sá að það fer yfirleitt fram á að þjappa póstinum saman og tefur þannig fyrir manni. Hins vegar eru allar leitaraðgerðir og sitthvað annað mun einfaldara þar en í Microsoft Outlook.


Eyjapistill á Netinu

Nú hafa þeir Eyjapistlar, sem varðveittust, verið gerðir aðgengilegir á síðunni

http://eyjapistill.blog.is

Auk þeirra er birt ítarefni s.s. óklippt samtöl sem aldrei var útvarpaði í heild og efni sem varðveittist en var útvarpað í þáttunum.

Eyjapistill var á dagskrá Ríkisútvarpsins frá 7. febrúar 1973 til 25. mars 1974. Þáttunum var ætlað að greiða fyrir samskiptum Vestmannaeyinga eftir að þeir urðu að flýja jarðeldana í Vestmannaeyjum sem hófust aðfaranótt þriðjudagsins 23. janúar 1973 og lauk 3. júlí þá um sumarið.

Bloggsíðan verður þróuð eitthvað áfram og væntanlega bætt inn á hana myndum sem eiga við efni pistlanna.

Eyjapistlarnir voru fyrsta tilraun Ríkisútvarpsins til eins konar landsbyggðarútvarp og samfélagslegrar þjónustu. Þeir mörkuðu því djúp spor í sögu stofnunarinnar.

Ritstjóri bloggsíðunnar er Gísli Helgason, annar umsjónarmanna Eyjapistils.


Eldrefurinn

Að undanförnu hef ég gert umfangslmiklar tilraunir með Internet Explorer og Firefox-vafrarann. Hingað til hafa verið nokkur vandamál með skjálesara og bálrebbann, eins og einhver hefur nefnt firefox, en nú virðast þau að mestu fyrir bý. Ég sé ekki betur en bálrebbinn sé mun hraðvirkari en Internet Explorerinn og fram að þessu hafa færri tölvuveirur komið fram á honum. Fróðir menn segja mér að það geti breyst þegar hann verður útbreiddari.

Dolphin Computer Axxess ltd. vinnur stöðugt að því að bæta skjálesara si´na og þurfa starfsmenn fyrirtækisins a hafa sig alla við til þess að halda í við þróunina á netinu og hugbúnað sem tekur sífelldum breytingum. Allt þokast þetta þó í rétta átt.


Nýlegur vefur launagreiðenda á síðu Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda óaðgengilegur

Ég hef sýslað um fjármál mín þessa síðustu og bestu daga. Sagna sannast hefur það gengið allvel. Ég hef flakkað um vef ríkisskattstjóra og Tryggingastofnunar eftir að rafrænu skilríkin tóku að verka og í dag var komið að því að standa skil á lífeyrisgreiðslum.

Adam var ekki lengi í Paradís. Vefurinn reyndist ekki í lagi þótt nýlegur væri. Því var eftirfarandi bréf sent:

Ágæti viðtakandi.

Ég hef að mestu verið atvinnulaus undanfarin 4 ár, en í haust tókst ég á hendur talsverða verktöku.

Ég hugsaði mér að senda inn skilagrein vegna tímabilsins frá 05.01.2009-30.11.2009. Ég komst svo langt að byrja að fylla út skilagreinina á vef launagreiðanda en þá vandaðist málið.Vefurinn er ekki aðgengilegur þeim sem nota skjálesara. Talgervillinn les ekki heiti þeirra reita sem fylla þarf út í. Nöfn þeirra birtast á einu svæði og útilokað er að greina hvaða reitur á við hverju sinni.

Embætti ríkisskattstjóra hefur nýlega breytt sínum vef vegna ábendinga undirritaðs og er nú hægt að sinna erindum á vefnum þótt notandinn sé blindur.

Ég vona að þessu verði kippt í lag hið bráðasta, enda stríðir skortur á aðgengi gegn upplýsingastefnu stjórnvalda.

Að flestu leyti er heimasíðan nothæf. Ég mæli þó eindregið með því að sérfræðingur um aðgengi frá Sjá ehf berði beðinn að taka út síðuna og koma með ábendingar. En á meðan mælist ég til að aðgengiskröfur veðri uppfylltar á vef launagreiðenda.

Með von um skjót svör,

virðingarfyllst,

Arnþór Helgason


Hæstiréttur á villigötum og óaðgengileg heimasíða

Eftir því sem fjölmiðlar hafa greint frá er augljóst að dómarar þeir, sem dæmdi gegn öryrkjum í gær, eru á villigötum. Þeir virðast vart þekkja forsendur kerfis almannatrygginga.

Þegar lífeyrissjóðakerfinu varkomið á fót var hugsunin m.a. sú að efla hag lífeyrisþega og skapa þeim viðunandi lífskjör. Þar með voru almannatryggingar viðurkenndar sem sá grunnþáttur sem bæta mætti við með eigin framlagi.

Eðli málsins samkvæmt skerðast bætur almannatrygginga vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum. Þetta getur ekki verkað á hinn veginn þannig að tryggingar almannakerfisins skerði greiðslur úr lífeyrissjóðum. Þannig er Hæstiréttur farinn að snúa lögum við í landinu.

Þegar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson kúguðu Alþingi til þess að samþykkja hefndarráðstafanir gegn öryrkjum í kjölfar dóms Hæstaréttar árið 2000 var öllum ljóst að tvennt hafði gerst: ríkisstjórnin ætlaði ekki að fara að dómi réttarins og hugðist ganga þannig frá málum að sigur Öryrkjabandalagsins yrði einungis hálfur en ekki allur. Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks afnam þessi ólög.

Forsætisráðherra á nú þegar að sýna af sér þann skörungsskap að láta breyta lögum um almannatryggingar þannig að annað eins og þetta - vanþekking hæstaréttardómaranna - geti ekki haft áhrif á framkvæmd laganna.

Ég hugðist kynna mér hvaða dómarar hefðu dæmt í þessu máli, en mér bauð í grun að sumir þeirra hefðu e.t.v. átt að víkja sæti í málinu vegna pólitískra tengsla sinna við Sjálfstæðisflokkinn, en dómsmálaráðherrar þess flokks hafa séð um að skipa flesta dómara Hæstaréttar frá því að lýðvedi var stofnað hér á landi. Mér lánaðist ekki að leita að viðeigandi upplýsingum á síðu réttarins. Hvorki gekk að fylla út leitarskilyrðin né skrifa einhverjar tölur sem birtust á skjánum. Síða Hæstaréttar er óaðgengileg sjónskertu og blindu fólki.

Ef núverandi ríkisstjórn eða sú fyrri hefðu nú haft manndóm í sér til þess að setja lög um aðgengi heimasíðna svipuð þeim sem gilda í Bandaríkjunum hefði mér við unnt að höfða mál á hendur Hæstarétti fyrir óaðgengilega heimasíðu. Hver veit nema ég leiti styrks hjá Öryrkjabandalaginu til slíkrar málshöfðunar. Mér hefur jafnan verið meinilla við að láta leyna mig upplýsingum og tel Hæstarétt brjóta öll siðferðislögmál með því hvernig gengið er frá heimasíðu réttarins. Hvað skyldi sjónskertum þingmanni Samfylkingarinnar finnast?


Jákvæð viðbrögð ríkisskattstjóra - aðgengilegt vefsvæði

Fyrir skömmu birti ég bréf til Skúla Eggerts Þórðarsonar, ríkisskattstjóra, þar sem ég amaðist við því að ekki væri hægt að nota skjálesara til þess að standa skil á staðgreiðslu skatta.

Hinn 10. þessa mánaðar fékk ég bréf frá Einari Val Kristinssyni, starfsmanni embættisins, þar sem greint var frá því að tilteknar breytingar hefðu verið gerðar á vefsvæðinu og væru þær ekki endanlegar.

Í kvöld gengum við hjónin úr skugga um að vefsvæðið sé aðgengilegt og reynist nú engum vandkvæmum bundið að standa skil á opinberum gjöldum. Er sem fargi af mér létt og mér ekki boðlegt framar að vanrækja að greiða opinber gjöld mín.

Ég hef þegar svarað bréfi Einars Vals og beðist afsökunar á að ef til vill hafi ég farið fram úr sjálfum mér, en af einhverjum ástæðum áttaði ég mig ekki á þeim breytingum sem gerðar höfðu verið.

Ríkisskattstjóra ber lof fyrir allskjót viðbrögð í þesu máli.


Hindranir sem auðvelt er að ryðja úr vegi þrátt fyrir alla kreppuna

Á ver ríkisskattstjóra kemur fram að embættið sé fyrirmyndarstofnun. Þar er þó ekki allt sem sýnist. Á þessum síðum hefur verið vakin athygli á því að ókleift er þeim, sem nota skjálesara, að inna af hendi staðgreiðslu skatta. Kemur það sjónskertu og blindu fólki illa, en það reiðir sig á svokallaða sjálesara.

Síðsumars átti ég vinsamlegt samtal við Skúla Eggert Þórðarson, sem kvartaði undan fjárskorti sem væri væntanlega vaxandi innan embættisins. Hann hét þó að taka málið föstum tökum.

enn hefur ekkert gerst. Það munu nú sennilega tvö ár síðan ég vakti athygli umsjónarmanna rsk.is á þessu ófremdarástandi og það hafa fleiri gert. Ég hef því skrifað ríkisskattstjóra eftirfarandi tölvuskeyti.

Sennilega er kominn tími til að stofna ný samtök fatlaðra, Aðgengisfélagið og sækja um aðild að Öryrkjabandalagi Íslands.

Ágæti Skúli Eggert.

Ég þakka þér ánægjulegt samtal og fróðlegt sem við áttum um aðgengi að vef embættis þíns nú síðsumars.

Málum mínum er enn þannig komið að ég hef ekki fengið starf sem launamaður. Ég sótti því um sölu áskrifta hjá viðskiptablaðinu og er þar nú sem verktaki. Að vísu finnst mér ég kasta sérþekkingu minni á glæ með því að vinna með algerum byrjendum á vinnumarkaði, en hvað gera menn ekki þegar engra annarra kosta er völ. Viðmótið á þessum vinnustað er gott og mér líður þar prýðilega innan um það unga fólk sem leggur sig allt fram við sölumennskuna.

Nú þarf ég að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda og enn hefur ekkert gerst í bættu aðgengi þess hluta vefsins sem ætlaður er til þessara nota.

Ég sé mér ekki annað fært úr þessu en vekja athygli umboðsmanns Alþingis á því hvernig ríkisskattstjóri leggur í raun stein í götu þeirra sjónskertu einstaklinga sem vilja og þurfa að bjarga sér sjálfir. Ég vildi mjög gjarnan láta reyna á það, jafn vel fyrir dómstólum, hvor okkar yrði ábyrgur ef ég stæði ekki skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna þess að vefurinn er ekki aðgengilegur.

Ég vænti skjótra svara og aðgerða frá þér og embætti þínu.

Með vinsemd og virðingu,

Arnþór Helgason ***************************************************** Arnþór Helgason, Tjarnarbóli 14, 170 Seltjarnarnesi. Símar: 5611703, 8973766 Netfang: arnthor.helgason@simnet.is Pistlar: http://arnthor.helgason.blog.is


Eyjan virðist í sókn

Senn verða 4 ár frá því að ég missti vinnuna og enn er ekkert fast í hendi.

Á Eyjunni er nú auglýst eftir blaðamönnum og sótti ég um. Vafalaust verða margir um hituna enda er nú fjöldi blaðamanna atvinnulaus.

Það er ánægjulegt og jafnframt tímanna tákn að íslenskur netmiðill sé nú í sókn og treysti sér til að ráða blaðamenn til starfa.


Vefsafnið uppfyllir ekki lágmarkskröfur um aðgengi

Fyrir skömmu opnaði Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, nýjan vef, www.vefsafn.is þar sem hægt er að finna allar vefsíður sem hafa verið skráðar á lén sem endar á .is frá árinu 2004.

Ég hugði mér gott til glóðarinnar og ákvað að forvitnast um vissa hluti. En viti menn. Vefsafnið uppfyllir ekki lágmarkskröfur um aðgengi. Hægt er að leita að vefsíðum. Þegar listi yfir færslurnar birtist kemur í ljós að skjálesarar lesa ekki tenglana í töflunni sem sýnir hinar ýmsu færslur.

Það virðist mikill misbrestur á að gætt sé að aðgengi þegar opinberar síður eru endurnýjaðar. Ég hef því sent ýmsum yfirmönnum Landsbókasafnsins meðfylgjandi bréf:

Ágæti viðtakandi.

Viðleitni Landsbókasafns Háskólabókasafns til að veita almenningi sem mestar og besta upplýsingar er til mikillar fyrirmyndar.

Við hönnun hins nýja vefsafns hefur ekki verið gætt að aðgengi þeirra sem nota skjálesara. Hægt er að fletta upp á vefsíðum. Listinn sem þá birtist er óaðgengilegur. Tenglarnir virka alls ekki og því er þessi þjónusta gagnslaus þeim sem eru blindir eða sjónskertir.

Þetta stríðir gegn upplýsingastefnu stjórnvalda og verður þess því vænst að úr verði bætt hið fyrsta.

Virðingarfyllst,

Arnþór Helgason


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband