Færsluflokkur: Vefurinn

Baráttan um frelsi eða helsi

Á Rás tvö var athyglisvert viðtal í dag við Ólaf Sigurvinsson, stofnanda íslensk-svissneska tölvufyrirtækisins Datacell. Lýsti hann þeim þrýstingi og hótunum sem fyrirtæki hans er beitt til þess að úthýsa Wikileaks-síðunni. Vakti hann athygli á þeirri staðreynd að gögnunum, sem Wikilinks hefur birt, hefur verið komið fyrir hér og þar í veröldinni og því þurfi að ráðast að fleiri fyrirtækjum en Datacell.

Fyrir hlustendum laukst upp sú óþægilega staðreynd ao ýmis stórfyrirtæki, sem telja hagsmunum sínum ógnað, væntanlega vegna ógnana stjórnvalda, telja sig hafa aðstöðu til þess að kúga viðskiptavini sína til hlýðni og bandarísk yfirvöld ráða miklu um stöðu þessara fyrirtækja. Á Ólafi mátti þó skilja að hann hygðist ekki láta undan þrýsgingnum, enda gæti kúgunin snúist gegn stórfyrirtækjunum og svipt þau viðskiptum.

Um það leyti sem Stefán Jónsson, fyrrum fréttamaður og þingmaður, faðir Kára Stefánssonar, hóf að rita sína síðustu bók, "Að breyta fjalli", átti ég við hann eitthvert erindi. Eins og gerðist og gekk fórum við um víðan völl og sagði Stefán mér að nú heði sér verið fengin tölva til afnota. "Þetta er nú meira dýrðartækið," sagðihann. "Ef eitthvað verður til þess að hrinda ofríki auðvaldsins og bandarískra heimsvaldasinna (hann talaði sem sannur kommúnisti) þá verður það þessi tækni, þegar alþýðan fær beislað hana."

Skyldu þessi orð Stefáns vera í þann mund að rætast um þessar mundir? Hugsanlega á eftir að hrikta í innviðum ýmissa samfélaga vegna tölvutækninnar og þess að hún getur rofið svo gríðarlega einangrun um leið og hún getur einangrað þá sem ánetjast henni. Þá skiptir miklu hvernig tæknin verður nýtt.


Vanþekking vefsíðuhönnuða

 

Ég hef aldrei skilið þá meinbægni hönnuða spjallsíðna að krefjast þess að menn staðfesti athugasemdir sínar eða hvað eina með því að skrá tiltekna stafi sem birtast á skjánum. Morgunblaðið biður menn að leggja saman tvær tölur. Þess vegna valdi ég Moggabloggið og vegna þess að ég treysti þá blaðinu eða réttar sagt mbl.is sem menningarstofnun sem það er að vísu enn þótt blaðið hafi villst nokkuð af pólitískri leið sinni. Þá ber þess að geta að Morgunblaðið hreppti aðgengisverðlaun Öryrkjabandalagsins fyrir nokkrum árum enda varð það fyrst allra íslenskra fjölmiðla til þess að veita blindu og sjónskertu fólki aðgang að efni sínu. Ekki veit ég til að aðrir fjölmiðlar hafi gengið jafnötullega fram í þeim efnum og Morgunblaðið.

Skjálesarar lesa ekki tölur sem birtast sem myndir á skjá. Engum hefur tekist að skýra fyrir mér hvaða öryggi þessi heimskulega ráðstöfun þjónar, en ýmsir íslenskir vefir hafa apað þetta eftir hönnuðum síðna eins og Google. Google gefur mönnum hins vegar kost á að hlusta á upplesnar tölur sem birtast á skjánum. Upplesturinn er hins vegar svo ógreinilegur að menn þurfa að hafa sig alla við til þess að skilja það sem lesið er enda er muldur og skvaldur á bak við tölurnar.

 


"Horft í kringum sig"

Ég hefði ef til vill átt að skýra þessa færslu "Hlustað í kringum sig".

Veðrið var svo gott í dag að ég ákvað að gera frekari tilraunir með GPS-símann og Loadstone-forritið og hélt því út á Seltjarnarnes. Gekk ég sem leið lá í áttina að golfvellinum og voru eftirtaldir punktar merktir: Ljósin v. Suðurströnd, gangbraut á móts við Íþróttamiðstöðuna, göturnar sem liggja að sjónum frá Suðurströnd, höfnin, tvær gönguleiðir niður að sjó og einn bekkur. Bætti ég þessum áfangstöðum við aðra sem fyrir voru í gagnagrunni símans.

Því næst var haldið áfram og snúið við þar sem beygt er þvert yfir nesið.

Í stuttu máli sagt þá fann síminn kennileitin aftur og áttaði ég mig þá á því að ég gat farið mun hraðar þegar ég þurfti ekki stöðugt að hafa auga eða eyra með því hvar kennileitin voru. Hvíti stafurinn er framlenging handleggjanna og leitarsvæði hans er takmarkað. Hannn varar samt við nálægum hindrunum en ekki þarf stöðugt að þreifa eftir tilteknum kenniletum fyrr en komið er að þeim. Þó er ætí dálítil ónákvæmni eins og þeir, sem nota GPS-tæki vita.

Ég lærði einnig að ég þurfti að leita uppi þann áfangastað sem ég ætlaði til og gat valið hvaða kennileiti voru birt á leiðinni. Ég valdi þau öll og fylgdist með því hvernig ég nálgaðist hvert og eitt þeirra.

Við gönguljósin sem eru skammt austan við eiðistorg var dálítið kraðak. Loadstone-forritið birtir upplýsingar um þann leiðarpunkt sem næstur er og komu því til skiptis upplýsingar um ljósin og torgið. Þegar ég sneri mér birti tækið heiti þeirra staða sem ég sneri að hverju sinni svo að þetta var dálítið eins og að horfa í kringum sig.:)

Þótt þetta sé hálfgerður leikur er þetta samt ótrúleg lífsreynsla.


GPs-leiðsögnin í Nokia 6710 Navigator gerði sitt gagn

Veðrið er yndislegt. Í morgun hélt ég út á Seltjarnarnes að hlusta eftir kríum. Á leiðinni hitti ég fyrrum vinnufélaga hjá Ásbirni Ólafssyni ásamt konuhans og töfðum við hvert annað drykklanga stund.

Upphaflega ætlaði ég að ganga umhverfis nesið en stytti leiðina og sneri aftur áleiðis heim þegar ég var kominn út undir golfvöll. Þá ákvað ég að setja GPS-leiðsögnina á í símanum og valdið leiðina "Tjarnarból 14 v. Nesveg". Mér var sagt að ganga u.þ.b. 1 km og beygja þá til hægri. Ég hélt að þetta væri lengra, enhvað um það, ég lagði af stað. Leiðsögutækið þagði og ákvað ég því að athuga þegar ég kom að vegamótum Suðurstrandar og Nesvegar hvort staðsetningin væri ekki rétt. Svo reyndist vera.

Það tók mig dálítinn tíma að átta mig á hvaða fjallabaksleiðir ég ætti að nota til þess að fá leiðsögnina í gang aftur, en dálítið vantar á að talgervillinn í símanum lesi allt. En það tókst. Ég lagði því af stað aftur og ákvað að hefjast handa skammt frá Skerjabrautinni. Þá sagði forritið mér að taka U-beygju eftir 100 m og gerði ég það, sneri við þar sem ég var staddur og sneri svo aftur við þegar forritið sagði mér að beygja. Auðvitað tekur forritið mið af gatnakerfinu. Skömmu eftir að ég hafði snúið við tilkynnti forritið að verið væri að endurreikna leiðina.

Nú gekk ég í áttina að Tjarnarbóli 14 v. Nesveg og beið spenntur. Ég kom að bakinnganginum og hélt áfram. Þá tilkynnti forritið að ég væri kominn á áfangastað. Einungis munaði einum metra og getur svo sem verið að ég hafi staðið þar þegar ég skráði þennan leiðarpunkt.

Niðurstaðan er sú að tækið geti komið að notum við að finna tiltekna staði þrátt fyrir að akstursleiðsögnin sé notuð. Sýnist mér að ég geti t.d. merkt inn hliðarreynar frá göngustígnum yfir Norðurströndina, en það hefur valdið mér nokkrum vandræðum að hitta á þær.

Vafalaust gæti ég haft enn frekari not af þessu GPS-tæki ef hugbúnaðurinn frá MobileSpeak læsi valmyndirnar betur. Ekkert á að vera því til fyrirstöðu að bæta þar úr. Mér er tjáð að kortið af Íslandi, sem Nokia notar, sé frá fyrirtækinu Navtech, en Navtech hefur átt í samvinnu við hugbúnaðarframleiðendur sem hafa unnið að leiðarlausnum fyrir blinda.

Nú þarf ég einungis að hitta á einhvern tæknifróðan GPS-notanda til þess að skrá ítarlega hvað talgervillinn les og hvað ekki.


Tölvupóstur í farsímum

Tækni- og leikfangadeildin á Tjarnarbóli 14, hefur verið iðin við konann undanfarna daga og gengið í skrokk á farsíma þeim sem aflað var fyrir um mánuði. Eins og lesendum er kunnugt er forritið Mobile Speak, sem framleitt er á Spáni, notað til samskipta við símann. Komið hefur í ljós að allt of margt, sem tengist Nokia, er ekki aðgengilegt til fulls. Má þar nefna GPS, tölvupóst, útvarpið í símanum sem forritið truflar o.s.frv.

Í gær fór ég inn á heimasíðu Codefactory til þess að forvitnast nánar um farsímann og komst þá að því að þjónusta sem finna má á síðunni http://emoze.com e mjög aðgengileg og Mobile Speak les þar allt sem máli skiptir.

Þegar emoze-forritið er halað niður tilkynnir síminn að það hafi vrið vistað í skráasafninu My downloads og býður mönnum að opna möppuna. Rétt er að þekkjast þetta boð og síðan gengur uppsetningin eðlilega fyrir sig. Eindregið er mælt með að notendur setji síðan upp forritið handvirkt en ekki með sjálfvirkum hætti.

Áður en emoze-forritið er sett upp verða menn að hafa tiltækar upplýsingar um póstþjóninn eins og þegar póstur er settur upp á tölvu. En þessi uppsetning er þó mun einfaldari.


Enn um GPS og aðgengi blindra

Adam var ekki lengi í Paradís.

Þegar ég kveikti á GPS-tækinu í Nokia 6710 í gærkvöld var fátt eins og það átti að vera. Ég gat fundið með tilfæringum uppáhaldsleiðir, farnar slóðir og leit, en annað eins og staðir, sem silgreindir eru eftir flokkum, fannst ekki nema með höppum og glöppum.

Því renndi ég mér á foraðið í dag og skráði hjá mér allar tilraunir mínar til þess að nálgast hina ýmsu kosti GPS-tækninnar. Þær báru lítinn árangur.

Það virðist skorta nokkuð á að ég hafi grætt á þessari uppfærslu kortsins. Þá virðist einnig sem aðgangur að GPS-búnaðinum sé fremur takmarkaður hjá framleiðanda talgervils-forritsins. Hef ég því gert vopnahlé í bili þar til ég fæ einhvern sem er sólginn í tæknifikt til þss að skoða með mér hvort ekki sé hægt að finna aðgengilega leið að tækniundrum símans. Þó komst ég að því að ég get skráð inn einstaka staði með lítilli fyrirhöfn og er það nokkur bót í máli.

Í eigingirni minni þykir mér sem öll tæki, farsímar, tölvur og önnur tæki sem létta fólki lífið, jafnvel bifreiðar, ættu að vera aðgengileg öllum. Ef til vill upplifi ég það fyrir nírætt að geta lagt af stað á hjóli að heiman með sjáfstýringu á og farið þangað sem ég vil. Sérstakir skynjarar þyrftu þá að vera á hjólinu til þess að vara við gangstéttum og öðrum hindrunum, holum og öðrum hættum. Þegar slíkt hjól verður fundið upp og flutt til landsins býð ég mig fram þótt búast megi við að ég sleppi vart frá slíkri tilraun í tölu lifenda. Þá geng ég aftur og sýni mig svífandi yfir umferðinni á hjóli, helst á háannatíma. Það verður skemmtilegt að verða reiðhjólsdraugur.


Enn um aðgengi blindraað GPS

Fyrir nokkru skrifaði ég dálítið um aðgengi að GPS-staðsetningartæki Nokia 6710, en slík tæki eru í mörgum Nokiasímum.

Í dag var mér boðið að uppfæra hugbúnað símans og gerði ég það í tveimur áföngum. Þá vildi svo til að ég hlóð niður nýjum GPS-hugbúnaði og virðist hann nú vera aðgengilegur. Talgervillinn les nú lista yfir þau atriði sem leitað er að, uppáhaldsstaði, veitingastaði, verslanir, gistihús o.s.frv og gerir þeim glögg skil.

Í fikti mínu í sumarleyfinu setti ég auðvitað upp tölvupósthólf í símanum. Virðist ég hafa skilgreint það sem imap-hólf og skiptir það í sjálfu sér ekki máli. Hængurinn er hins vegar sá að talgervillinn les ekki tölvupóstinn nema með herkjum, en ég get skrifað póst eins og ekkert sé. Ég he reynt að eyða uppsetningu pósthólfsins í símanum en ekki tekist það.


Nokia 6710 Navigator og notagildi hans fyrir blint fólk

Á ferð okkar Elínar umhverfis landið um daginn gerði ég nokkrar tilraunir með Nokia 6710 farsíma og GPS-kerfið sem fylgir símanum. Síminn er með spænskum hugbúnaði sem kallast Mobilespeak (Farsímatal) og birtir hann upplýsingar um flest sem birtist á skjá símans og unnt er að þýða með texta. Röddin er Snorri sem Felix Bergsson léði framleiðanda talgervilsins.

Síminn virtist leiðbeina okkur ágætlega þegar við vorum akandi og skipaði okkur skilmerkilega að beygja á réttum stöðum. Hins vegar virtist mér hann ekki staðfesta að við værum komin á áfangastað - á þó eftir að gera fleiri tilraunir.

Þegar merkt er inn leið getur maður valið hvort hún er ekin eða gengin. Þegar akstur er valinn leiðbeinir enskumælandi rödd notandanum, en síminn þegir þunnu hljóði ef síminn er beðinn að velja gönguleið. Hann gefur þó hljóðmerki með vissu millibili, sennilega við gatnamót og á 200 m fresti.

Í tilraun sem ég gerði í kvöld kom í ljós óhagræði þess að hlusta á skilaboð símans í heyrnartólum. Þótt þau séu freur lítil trufla þau umhverfisheyrnina. Augljóst er því að aðrar aðferðir verur að velja, t.d. hátalara símans

Það vekur jafnan athygli hér á Seltjarnarnesi þegar ég fæst við ýmiss konar tæknibrölt, einkum ef ég er einn míns liðs. Þannig var mér boðin aðstoð áðan því að vegfaranda þótti augljóst að ég væri að villast.

Þótt síminn hafi ýmsa annmarka og enn eigi eftir að vinna talsvert aðgengisstarf segir hann þó nöfn þeirra gatna sem gengið er meðfram, ef stutt er á staðfestingarhnappinn og getur það í sjálfu sér komið sér vel. Hins vegar gabbaði ég símann með eftirfarandi tilraun:

Ég gekk frá suðurströnd 3 og skráði inn Tjarnarból 14. Eftir að ég hafði valið að aka þangað tilkynnti röddin mér að ég ætti eftir u.þ.b. 400 metra. Síðan komu einhverjar furðuleiðbeiningar sem ég tók ekki mark á og endurreiknaði þá síminn stefnuna. Þá var mér sagt að 200 metrar væru eftir og var þá sagt að beytja til hægri og síðan enn til hægri. Ég ákvað hins vegar að stytta mér leið af Nesveginum inn á Tjarnarból og fór á milli húsanna Tjarnarbóls 12 og 14. Símaskrattinn sagði ekki eitt einata orð og heldur ekki þegar ég kom í hlaðið.

Ég á eftir að gera nokkrar tilraunir með símann áður en endanleg niðurstaða verður fengin. Þetta liggur þó fyrir:

GPS-leiðsögn er tæplega nógu nákvæm til þess að blint fólk geti nýtt sér hana til fullnustu. Hugsanlega getur hún þó orðið að liði. Þá er skylt að geta þess að síminn gleypir í sig straum á meðan þessi búnaður er notaður.

Ýmis atriði í símanum á eftir að gera aðgengileg. T.d. þarf að gera lista yfir ýmis atriði s.s. veitinga- skemmti- og gististaði aðgengilegri. Nú þarf að kalla á upplýsingar um hvern stað, hlusta á þær, færa sig síðan aftur í meginlistann, færa bendilinn um eitt skref, stiðjá á staðfestingarhnappinn, velja upplýsingar o.s.frv.


Bætt aðgengi að lesefni

Að undanförnu hafa verið gerðar talsverðar tilraunir til þess að gera Pdf skjöl aðgengileg blindu og sjónskertu fólki. Er nú svo komið að þetta skjalasnið er orðið harla ákjósanlegt til aflestrar.

Gallinn við Pdf-skjölin hefur hingað til verið sá að erfitt hefur verið fyrir þá, sem nota skjálesara, að hitta á fyrirsagnir, millifyrirsagnir o.s.frv. Adobe forritin og önnur forrit sem breyta skjölum í pdf-skjöl, gefa færi á að setja inn fyrirsagnir og ýmislegt sem getur auðveldað lesendum að blaða í skjölunum. Íslensku prentmiðlarnir, Morgunblaðið, Fréttablaðið, DV og Viðskiptablaðið, gefa lesendum sínum kost á Pdf-útgáfum blaðanna. Sá hængur er á að ekki eru settar fyrirsagnir eða aðrar slíkar tilvísanir í skjölin. Nú eru væntanlega allir þessir fjölmiðlar með fullkomin ritvinnslukerfi eða blaðavinnslukerfi. Ég velti því nú fyrir mér hvort ekki sé hægt að smíða hugbúnað sem auðveldi útgefendum að ganga þannig frá Pdf-skjölunum að þau verði auðlæsilegri. Morgunblaðið er þegar með slíkt kerfi fyrir textaútgáfu blaðsins og er það til mikillar fyrirmyndar. Þó ber nokkuð á því að sumar greinar skili sér ekki þangað.

Vissulega er einfaldast að fletta dagblöðunum á netinu með kerfi Morgunblaðsins enda er það með aðgengilegustu blaðalestrarkerfum heims. En Pdf-lausnin hentar ýmsum og eykur notagildi tölvuútgáfunnar að mun.

Hvernig væri að Þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, Blindrafélagið og Öryrkjabandalag Íslands beittu sér fyrir úrbótum í þessum efnum? Kæmi ekki til greina að styrkja gerð hugbúnaðar sem auðveldaði blaða- og bókaútgefendum að ganga þannig frá Pdf-skjölum að þau yrðu auðlæsilegri? Það er fleira aðgengi en aðgengi hreyfihamlaðra.


Skemmtilegar tækniframfarir

Um daginn fékk ég tölvupóst frá fyrirtækinu Nuance Solutions sem selur m.a. talgervla, þar á meðal hinn misheppnaða talgervil Röggu sem íslenskt fyrirtæki bjó til án samráðs við notendur. Í tölvupóstinum er m.a. greint frá Dragon hugbúnaðinum sem hefur verið á markaðinum í nokkur ár og gerir fólki kleift að tala texta inn á tölvur. Unnið hefur verið að því að gera búnaðinn nákvæmari og er sagt að villum, sem búnaðurinn gerði í ensku, hafi nú fækkað. Menn geta því skráð inn á tölvur hugsanir sínar með allt að 120 orða hraða á mínútu.

Fyrir 20 árum eða svo gerði lítið tölvufyrirtæki hér á landi tilraunir með íslenskt tal sem hægt væri að skrá beint inn á tölvur. Ekki er vitað til að þær tilraunir hafi verið styrkta með einum eða öðrum hætti. Það gefur auga leið að tölvunotkun yrði fjölda fólks mun einfaldari ef það gæti hreinlega talað inn það efni sem það langar til að skrifa. Ýmsir eiga óhægt um vik með að skrifa á lyklaborð tölvunnar og er þetta því kjörin lausn.

Blindrabókasafn Íslands hefur nú heimilað notendum í einhverjum mæli að hala niður hljóðbækur af heimasíðu safnsins. Geta notendur nú sótt sér hljóðbækur á einfaldan hátt. Þetta hlýtur að spara stórfé þar sem ekki þarf lengur að fjölfalda geisladiska með efni bókanna.

Þá gladdi það mig að lesa á heimasíðu Þekkingar- og þjónustumiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga að íslenskt blindraletur sé nú komið inn í danska RoboBraille-kerfið. Hugmyndin að baki þessu kerfi er að einfalda framleiðslu skjala með blindraletri. Kennarar blinds fólks og samstarfsmenn geta nú framleitt skjöl með blindraletri svo fremi sem blindraletursprentari er á staðnum. Sá, sem ætlar að þýða texta á blindraletur, sendir tölvupóst á tiltekið netfang og setur í efnislínuna ákveðnar skipanir um blaðsíðustærð o.fl. Að vörmu spori kemur skjal til baka sem er sérsniðið að þörfum þeim sem skilgreindar voru. Ekki áttaði ég mig á hvort textinn yrði að vera hreinn texti eða sniðinn í word eða öðrum forritum. Í fljótu bragði fann ég ekki upplýsingar um þetta á heimasíðu fyrirtækisins sem stendur á bak við þessa þjónustu, www.robobraille.org. Ég geri þó ráð fyrir að setja þurfi í textann einhverjar pretskipanir svo sem um fyrirsagnir, breytt letur o.s.frv., nema þetta sé allt saman þýtt beint úr ritvinnslukerfi sem væri auðvitað það besta. Þessi þjónusta léttir vonandi ýmsum að færa skjöl á blindraletur og eykur vonandi lestur efnis á þessu lífsnauðsynlega letri.

Ég hef oft velt fyrir mér þeirri sorglegu staðreynd að lesendur blindraleturs á Íslandi eru helmingi eða þrisvar sinnum færri en gengur og gerist í Vestur-Evrópu. Þetta á sér ýmsar skýringar sem ekkiverða raktar hér.

RoboBraille-forritið gerir einnig ráð fyrir að hægt sé að senda tölvutækan texta sem viðhengi og fá hann lesinn á því tungumáli sem beðið er um. Þessi þjónusta er enn ekki fyrir hendi á íslensku enda talgervlarnir íslensku vart færir um slíkt með ´goðu móti.

Þótt tölvutalið sé vissulega til mikils hagræðis eru þó ýmis störf í upplýsingasamfélaginu þar sem vart verður hjá því komist að lesa annaðhvort með augum eða fingrum. Þá verður aðgengi að tölvuforritum mun fjölþættara sé jöfnum höndum notað tal og blindraletur. Þetta fékk ég að reyna í störfum mínum sem blaðamaður á Morgunblaðinu og í núverandi verkefnum á vegum Viðskiptablaðsins. Þá hefði ég vart getað innt af hendi ýmis félagsmálastörf án blessaðs blindraletursins.

Það er ánægjulegt þegar starfsmenn opinberra stofnana eins og blindrabókasafnsins og Þekkingarmiðstöðvarinnar hafa metnað til þess að hrinda í framkvæmd jafnsjálfsögðum úrbótum og niðurhali bóka og sjálfvirkri prentun með blindraletri. Nú þyrftu þessar stofnanir og fleiri aðilar að sameinast um að endurbæta þá talgervla sem fyrir eru á íslensku eða búa til nyjan talgervil. Þá tel ég ekki úr vegi að reynt verði til hlítar að fá afnot af elsta talgervlinum sem sennilega hefur verið einna best heppnaður þeirra þriggja sem gerðir hafa verið fyrir íslenska tungu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband