Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
Apple sniðgengur íslenska tungu.
Verum ekki ferköntuð og kaupum ekki tæki frá Apple!
Viðskipti og fjármál | 5.7.2016 | 13:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nefnd frá Vináttusamtökum kínversku þjóðarinnar við erlend ríki var hér í þriggja daga heimsókn. Á milli funda gáfu nenfdarmenn sér tíma til þess að skoða sig um í íslenskum verslunum og keytptu sitthvað. Þeir voru einkar hrifnir af íslenskri hönnun á mörgum sviðum, en brá í brún þegar þeir sáu að varningurinn væri framleiddur í Kína.
Ég get alls ekki hugsað mér að koma heim með eitthvað sem er sagt vera íslenskt og eiga kannski eftir að rekast á það úti í búð, sagði einn nefndarmanna.
Vafalaust væri hægt að framleiða sitthvað af þessum varningi hér á landi og selja með nokkrum hagnaði því að verð í verslunum, sem leggja áherslu á þjónustu við ferðamenn, er oft uppsprengt. Þannig er það víðar í veröldinni.
Viðskipti og fjármál | 4.2.2015 | 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í morgun var vakin athygli mín á færslu Egils Helgasonar á Silfri Egils, þar sem hann fjallar um viðræður Íslendinga og Kínverja um gerð fríverslunarsamnings og sitthvað fleira. Þar sem nokkrar rangfærslur er um að ræða í pistli Egils var honum sendur pistillinn, sem hér fer á eftir.
--
Heill og sæll, Egill.
Eins og þú ert ágætur upplýsingamaður, þykir mér með eindæmum hvernig þú fjallar um samskipti Kínverja og Íslendinga, í þessu tilviki samning um fríverslun og viðskipti milli ríkjanna. Ég hafði hugsað mér að rita athugasemd við pistil þinn, en skjálesarinn hjá mér leyfir það ekki. Vona ég að þú birtir það sem hér fer á eftir:
Afstaða Kínverja til Íslendinga
Kínverjar hafa að mörgu leyti verið Íslendingum jákvæðir á erlendum vettvangi. Stafar það m.a. af því að Ísland hefur staðið utan Evrópusambandsins og hafa kínversk stjórnvöld því haft hug á að efla samskiptin. Minnt skal á að Kínverjar studdu útfærslu landhelginnar í 50 og 200 mílur og heimildir benda til að einn af samningamönnum Kínverja á hafréttarráðstefnunni í Genf árið 1958, Chen Tung, sem síðar varð sendiherra hér á landi, hafi átt nokkur samskipti og samstarf við sendinefnd Íslendinga.
Þegar Vestmannaeyjagosið varð árið 1973 urðu Kínverjar fyrsta þjóðin utan Norðurlanda til að rétta Íslendingum hjálparhönd. Þá má minna á afstöðu Kínverja innan alþjóða gjaldeyrissjóðsins, þegar Hollendingar og Bretar hugðust kreista Íslendinga eins og mús lí lófa sér.
Fríverslunarsamningarnir og Huang Nubo
En komum nú að fríverslunarsamningunum:
Samningaumræðum varð sjálfhætt þegar ríkisstjórnin, sem Samfylkingin leiðir, hóf umsóknarferlið að Evrópusambandinu. Ástæðan er einföld: þegar ríki gengur í Evrópusambandið fer slíkt samningsferli úr höndum aðildarríkjanna. Samningar sem einstök ríki hafa náð í milliríkjaviðskiptum, verða sjálfkrrafa teknir upp af Evrópusambandinu. Á þetta töldu Kínverjar ekki hættandi enda hafa þeir haldið því fram að þeir séu tilbúnir að veita Íslendingum ýmsar ívilnanir í viðskiptum umfram Evrópusambandið.
Vegna þess, sem þú segir um viðskipti Huang Nubo, verður því hiklaust haldið fram á þessum vettvangi, að hann hafi verið hafður að ginningarfífli. Ég átti erindi til Beijing og fleiri borga í Kína í haust og þar bar þetta mál iðulega á góma. Þegar við Íslendingarnir greindum kínverskum viðmælendum frá því að 300 ferkílómetrar lands á Íslandi væri álíka mikið hlutfalll af Íslandi og 27.000 ferkílómetrar af kínversku landi, sem samsvarar hainan-eyju, fór um áheyrendur. Við vöktum athygli á að mun heilladrýgra hefði verið að sækjast eftir leigu á landi en kaupum á svo stórri landspildu. Hver einasti viðmælandi okkar tók undir þessa skoðun og sumir, sem hafa mikla reynslu í samskiptum við erlendar þjóðir, undruðust að ekki skyldi hafa verið lögð áhersla á slíkt.
Bág réttindi farandverkafólks
Það er rétt hjá þér að aðbúnaður verkafólks í kínverskum verksmiðjum er víða slæmur og þetta vita kínversk stjórnvöld. Ýmislegt hefur verið gert til þess að ráða bót á þessu ófremdarástandi, sem ríkir sums staðar, en ekki alls staðar. Líkja Kínverjar sjálfir þessu við það, sem tíðkaðist í upphafi iðnbyltingarinnar í Evrópu og reyndar fram undir aldamótin 1900. Þá er einnig vitnað til Bandaríkja Norður-Ameríku, en þar var aðbúnaður verkafólks víða ekki upp á marga fiska á fyrri hluta síðustu aldar. Þá virðist því miður sem mannlegt eðli sé svipað hvar sem borið er niður. Í skjóli einkaframtaks þrífst ýmislegt misjafnt, eins og hefur komið fram í kínverskum verksmiðjum. Jafnvel á Íslandi höfum við orðið vitni að andstyggilegu þrælahaldi erlends verkafólks. Kjarasamningar eru ekki virtir og fólkið býr jafnvel við svo frumstæðar aðstæður að enginn Íslendingur léti bjóða sér slíkt. En þær virtust nógu góðar handa Pólverjum, a.m.k. á meðan góðærið á Íslandi var sem mest. Slíkt dæmi höfðum við fyrir augunum veturinn 2007-2008.
Samsæriskenningar og svartagallsraus af því tagi, sem þú hefur stundum látið þig hafa, sæmir ekki jafnágætum fjölmiðlamanni og þér. Við þurfum ekki á hleypidómum að halda, heldur upplýstri umræðu og sannleikanum í hverju máli.
Vegni þér vel.
Arnþór Helgason
---
Arnþór Helgason, vináttusendiherra,
Tjarnarbóli 14,
170 Seltjarnarnesi.
Sími: 5611703
Farsími: 8973766
Netföng: arnthor.helgason@simnet.is
http://arnthorhelgason.blog.is/
Viðskipti og fjármál | 18.4.2012 | 09:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Íslenskt viðskiptaumhverfi og hugsunarháttur virðist vanþróað og hér á landi er sem engin þekking sé á því hvernig megi komast hjá því að búa til nær óleysanlega hnúta, sem upp koma í samskiptum Íslendinga og annarra þjóða. Það vekur athygli að ekki hafi verið reynt að beina fjárfestingu Huangs Nubo í aðra farvegi og vekur það óneitanlega spurningar um ráðgjafa hans. Það virðist ljóst að Samfylkingin beri nokkra ábyrgð í þessu máli, þegar skoðað er hverjir voru í fylgd með Huang Nubo, þegar hann kom fyrst að Grímsstöðum.
Þá vekur athygli sá eintrjáningsháttur, sem innanríkisráðherra virðist hafa haft í þessu máli. Algert sambandsleysi virðist hafa verið millum hans og iðnaðar- og viðskiptaráðherra og engin tilraun gerð til samráðs. Undirrituðum var bent á fyrir nokkru, að hugsanlega hefði mátt beina þessum umræðum í þá átt að Huang Nubo hefði fengið land Grímsstaða til leigu í nokkra áratugi. Slíkt hefur tíðkast hér á landi og ætti að falla mönnum betur í geð en kaup á jafnstórri landspildu og um er að ræða. Íslendingar þurfa á erlendu fjármagni að halda til þess að byggja upp atvinnuvegi með öðrum hætti en álver og annan meingandi iðnað. Því er nauðsynlegt að slíta ekki alla strengi, sem tengja Huang Nubo við Ísland. Þessi fjárfestir hefur sýnt með óyggjandi hætti, að hann standi við orð sín, samanber Kínversk-íslenska menningarsjóðinn, sem hann hefur fjármagnað.
Það er rétt hjá Huang Nubo að rétt sé að kínverskir fjárfestar kynni sér pólitískt umhverfi í þeim löndum sem þeir hyggjast eiga samskipti við. Þetta umhverfi hefðu ráðgjafar hans á Íslandi átt að kynna honum, en þeir virðast hafa brugðist honum.
Innanríkisráðherrann hefur einnig brugðist. Nú er að vita hvort ekki verði hægt að finna annan flöt á þessu máli þegar menn hafa dregið djúpt andann. Til þess þarf samráð en ekki einstrengingslegan hugsunarhátt manna sem skortir þor. Verkefni eins og samstarfið við Huang Nubo, væri skólabókardæmi um það hvers innviðir íslenska stjórnkerfisins séu megnugir, báðum aðilum til hagsbóta.
Viðskipti og fjármál | 26.11.2011 | 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Þegar ég hafði samband við bankann var mér tjáð að eitthvað væri að í gagnagrunni hans og væru rafræn skilríki óvirk. Nú held ég að þessi debet-kort séu með einum eða öðrum hætti tengd kortafyrirtækjunum og þau hafa skorið upp herör gegn Wikileaks. Kortafyrirtækin eru þannig orðin handbendi Bandaríkjamanna og annarra sem telja sig eiga um sárt að binda vegna "skjalalekans".
Í heimsvæðingunni, sem fáir hafa farið varhluta af, verður hver öðrum háður og almenningur verður ofurseldur valdi stórfyrirtækja. Rafræn skilríki þóttu talsverð framför og ímyndaði ég mér að þau gætu opnað ýmsum hópum aðgang að þjónustuveitum sem annars voru lokaðar. Skjátlaðist mér? Verð ég ef til vill enn háðari duttlungum kortafyrirtækjanna með því að nota rafræn skilríki?
Viðskipti og fjármál | 9.12.2010 | 08:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldi á hvítum matfiski gæti orðið að veruleika á Íslandi næstu árin og eru t.d. Flúðir taldar ákjósanlegur staður fyrir slíkt. Fiskar með framandi nöfn eins og tilapia, baramundi og seabass yrðu fóðraðir og aldir í sláturstærð. Ekki skemmir fyrir að fiskarnir eru grænmetisætur að hluta til og eldið því vel í sveit sett í þessu mikla landbúnaðarhéraði. Fiskurinn yrði síðan fluttur út til Evrópu og hugsanlega Bandaríkjanna.
Ferskvatnið í nágrenni flúða er sagt vera lykillinn að þessu væntanlega eldi, en þar er að finna talsvert af u.þ.b. 30 stiga heitu vatni, en það er kjpörhiti fyrrnefndra fisktegunda.
Talið er að fullbúin fiskeldisstöð kosti nokkur hundruð milljóna en bundnar eru vonir við að allmörg störf skapist við hlývatnseldið sjálft og annað sem fylgir slíkri starfsemi. Gert er ráð fyrir að framleiðslan geti numið allt að 3.000 tonnum á ári.
http://mbl.is/mm/greinilegur/mogginn/bladid/bl_grein.html?grein_id=1336329
Viðskipti og fjármál | 7.6.2010 | 08:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þá um haustið hringdi Ásbjörn Ólafsson, stórkaupmaður, til föður míns og falaðist eftir mér til sölumennsku næsta sumar. Ætlaði hann að setja á markað ýmiss konar varning eins og margs konar matvöru og taldi tilvalið að fá mig til þess að kynna vörurnar fyrir kaupmönnum með því að hringja til þeirra. Við feðgar tókum þessu boði fagnandi og brosti framtíðin við mér.
Ég mætti í vinnuna 1. júní árið 1970. Það var mánudagur og þannig stóð á að sveitarstjórnakosningar höfðu verið daginn áður. Flest fyrirtæki landsins ljáðu þá Sjálfstæðisflokknum mannafla og bifreiðar og var Ásbjörn þar engin undantekning á. Eitthvað hafði farist fyrir að greina fóki frá því að ég væri væntanlegur í vinnu þennan dag og varð mér heldur lítið úr verki. Eftir hádegi komumst við að því hvað þyrfti að gera til þess að ég gæti hafist handa. Ég skrifaði upp símaskrá, útbjó vörulista og mér var kennt að fylla út sölueyðublöð. Gat ég því hafist handa á öðrum eða þriðja degi. Yfirmaður min var ágætur sölumaður, Sigurður Sigurðarson, og tók hann mig í eins konar sölupróf á þriðja degi til þess að vita hvort ég gæti yfirleitt unnið sem sölumaður. Benti hannn mér á það sem betur mætti fara og hófst ég svo handa.
Þá var verslunarumhverfið gjörólíkt því sem nú er. Fjöldi smáverslana var um allt höfuðborgarsvæðið og reyndar um allt land. Efnahagsástandið var erfitt og reyndist mér oft á tíðum, ungum piltinum, erfitt að takast á við þann vanda sem kaupmenn áttu við að stríða og bitnaði ótrúlega oft á okkur sölumönnunum - einkum þeim sem yngstir voru. Allt gekk þetta þó slysalaust og ég vann sem sölumaður hjá Ásbirni sumurin 1970-75 að undanteknu sumrinu 1973 þegar við tvíburarnir sáum um Eyjapistil.
Margs er að minnast frá þessum árum og flestar minningarnar góðar. Ég borðaði yfirleitt með Ásbirni í hádeginu, en hann hafði ég þekkt frá barnæsku. Fyrirtæki Ásbjörns Ólafssonar var góður vinnustaður og samvinna manna með ágætum. Margir höfðu unnið árum saman hjá Ásbirni. Þegar ég var um það bil að hætta 1975 var ég beðinn aðhalda áfram einn mánuð í viðbót og síðan boðið framtíðarstarf. Ég hafði meiri áhuga á að afla mér menntunar og hasla mér völl á ýmsum sviðum.
Líf mitt hefur orðið að mörgu leyti litríkt og mér hafa gefist ýmis tækifæri til þess að reyna kraftana. Þótt á stundum hafi blásið um mig fremur naprir vindar er þó niðurstaðan sú að ég hafi verið fremur gæfusamur.
Í haust hófst ég enn handa sem sölumaður og stunda það starf enn sem verktaki. Svo merkilegahefur viljað til að ég hef rekist á nokkra einstaklinga sem voru að hefja verslunarrekstur um það leyti sem ég hófst handa sem sölumaður fyrir 40 árum og hefur verið ánægjulegt að rifja upp gömul kynni.
Fjölbreyttur starfsferill ætti að geta orðið fólki dýrmætt veganesti síðustu starfsár þess. Ég ber enn þá von í brjósti að fá fast starf þau ár sem ég á eftir á almennum vinnumarkaði þar sem reynsla mín og þekking mætti nýtast til góðra verka.
Viðskipti og fjármál | 1.6.2010 | 09:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Síðan segir: Nú hefur Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, lagt fram á Alþingi nýtt lagafrumvarp um fjármálafyrirtæki. Fyrsta umræða um það fór fram á Alþingi hinn 29. janúar sl. Áður hafði ráðherrann kynnt efni þess á opnum fundi sem almenningur átti aðgang að og er það til fyrirmyndar.
Frumvarp þetta er gott innlegg í umræður um endurreisn bankanna. Styrkleiki þess er sá að þar er tekið á ýmiss konar innri vandamálum í rekstri bankanna sem hrun þeirra afhjúpaði. Rík viðleitni er til þess að efla lagaheimildir Fjármálaeftirlitsins og er það af hinu góða.
Styrmir segir að frumvarpinu sé ætlað að fylgja eftir ýmsum ábendingum Finnans Kaarlo Jännäri sem ríkisstjórn Geirs H. Haarde fékk til þess að taka saman skýrslu um íslensku bankana og gera tillögur um úrbætur. Veikleiki frumvarps Gylfa Magnússonar sé hins vegar sá að þar sé ekki tekið á grundvallaratriði þessa máls. Þar er ekki lagt til að skilja að starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.
Eini þingmaðurinn sem vakti athygli á þessu við fyrstu umræðu var Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingar, sem spurði ráðherrann hvort hann telji ástæðu til að löggjöfin kveði skýrar á um aðskilnað viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi.
Svar ráðherrans var þetta: Að mörgu leyti eru þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu mjög í þessum anda þótt ekki sé formlega gengið svo langt að skilja þar á milli.
Styrmir bendir á að víða um heim hafi geisað miklar umræður frá haustinu 2008 um starfsemi banka og nauðsyn þess að koma upp nýju regluverki í kringum þá. Lykilatriði í þeim umræðum hafi verið hvort setja eigi á ný löggjöf um aðskilnað á þessum tveimur tegundum bankastarfsemi.
Hvers vegna? Vegna þess að mönnum er orðið ljóst að sú starfsemi að taka við sparifé almennings og ávaxta það með sem minnstri áhættu fer ekki saman við þá gífurlegu áhættu sem er samfara svonefndri fjárfestingarbankastarfsemi. Engum ætti að vera þetta betur ljóst en okkur Íslendingum vegna þess að hrun hefðbundinnar bankastarfsemi á Íslandi byggðist á því að bankarnir voru fyrst og fremst orðnir fjárfestingarbankar.
Þrátt fyrir það hafa engar umræður orðið um þetta grundvallaratriði á Alþingi frá bankahruni sem er umhugsunarvert í ljósi þess að Alþingi ræddi nánast ekkert stöðu íslenzku bankanna veturinn 2006, haustið 2007 eða árið 2008.
Það er ekki hægt að skilja þetta á annan veg en þann að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hafi komizt að þeirri niðurstöðu í umræðum innan flokkanna að ekki bæri að skilja á milli viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi.
Áður en ráðherra í ríkisstjórn leggur fram frumvarp í hennar nafni er frumvarpið kynnt í þingflokkum stjórnarflokkanna. Þar hljóta að hafa farið fram umræður um þetta grundvallaratriði málsins. Það er sjálfsögð krafa að báðir stjórnarflokkarnir geri grein fyrir því með hvaða rökum þeir hafa komizt að þessari niðurstöðu.
Þá minnir Styrmir á að efnahagsmálaráðherra hafi lagt fram annað frumvarp á Alþingi um innistæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta. Í athugasemdum við það segir:
Rétt er að nefna að ekki er gerð sérstök tillaga um að lántökur tryggingasjóðs njóti ríkisábyrgðar eða að ríkissjóði sé skylt að veita sjóðnum lán þótt gera megi ráð fyrir því að lántaka sjóðsins verði erfiðleikum bundin án bakábyrgðar ríkissjóðs eða annarar aðkomu hans að lántöku.
Greinilegt er að greinarhöfundi er ekki skemmt. Hvað eru ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir að gefa í skyn? skrifar hann. Að hefji Arionbanki og Íslandsbanki, sem báðir eru í eigu erlendra banka og vogunarsjóða, nýja útþenslu í krafti EES-samninganna í öðrum löndum verði til staðar bakábyrgð íslenzka ríkisins á slíku nýju ævintýri?!
Styrmir bendir á að þetta frumvarp hljóti líka að hafa verið kynnt í þingflokkum stjórnarflokkanna.
Þessi stefnumörkun snýst um grundvallaratriði, skrifar hann. Þar hljóta að hafa farið fram umræður um þetta mál og þingflokkarnir hljóta að hafa lagt blessun sína yfir þessa stefnumörkun. Er þingmönnum stjórnarflokkanna ekki sjálfrátt?
Í athugasemdum við frumvarp Gylfa Magnússonar um fjármálafyrirtækin segir: Mikilvægt er t.d. að móðurfélag sem á dótturfélög, annars vegar vátryggingafélag og hins vegar fjármálafyrirtæki, gæti þess að sömu stjórnarmenn séu ekki tilnefndir til stjórnarsetu í fjármálafyrirtækinu og vátryggingafélaginu.
Getur það verið að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hafi ekki komið til hugar að banna að sömu aðilar eigi bæði banka og tryggingafélag? Og koma þar með í veg fyrir að nýjar fjármálasamsteypur rísi upp á borð við þær sem féllu í október 2008?
Hvers konar umræður fara fram í þessum flokkum um meginmál?
Ég skora á fólk með heilbrigða skynsemi í báðum stjórnarflokkunum að taka þessi málefni og önnur til umræðu og rétta af þessa alvarlegu veikleika sem við blasa í frumvörpum ríkisstjórnarinnar. Og ekki skaðar að stjórnarandstöðuflokkarnir hafi skoðun á málinu sem þeir hafa ekki lýst til þessa dags.
Viðskipti og fjármál | 15.2.2010 | 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hinn 5. júní síðastliðinn sótti ég um sölumannsstarfið sem auglýst var á mbl.is og innan við klukustund síðar var haft samband við mig. Samtalið var mjög jákvætt og þótti mér næsta víst að ég fengi starfið. Í gær var síðan gengið frá því að svo yrði.
Ég vænti þess að nú sé þessari þrautagöngu lokið a.m.k. um stundarsakir. Ég hef að mestu verið atvinnulaus frá því í janúar 2006 þegar ég var rekinn fyrirvaralaust frá Öryrkjabandalagi Íslands. Aldrei fékkst á því nein skýring heldur voru hafðar í frammi dylgjur sem ekki verða rifjaðar hér upp. Tvö síðustu sumur vann ég sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu og lærði heilmikið á því. Morgunblaðið er einhver besti vinnustaður sem ég hef verið á og er ég bæði stoltur og þakklátur fyrir að hafa fengið þetta gullna tækifæri til þess að starfa sem blaðamaður og ryðja þannig öðrum brautina. Þá hef ég haft með höndum pistla fyrir ríkisútvarpið einu sinni í viku og held því vonandi áfram enn um sinn.
Sölumennska er mér ekki ný af nálinni. Frá árinu 1970-75 vann ég á sumrin sem sölumaður hjá Ásbirni Ólafssyni að undanteknu sumrinu 1973 þegar við gísli sáum um Eyjapistil. Þá tók ég að mér söluverkefni fyrir lítið fyrirtæki sumarið 1977, en Atvinnumiðlun stúdenta útvegaði mér starfið. Ungur systursonur minn, Birgir Finnsson, var mér til halds og traust þá daga sem verkefnið stóð.
Það verður skemmtilegt að rifja upp sölumannsstarfið. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan ég fékkst við sölumennsku síðast og viðhorfin önnur.
Á þessu atvinnuleysistímabili hefur fjöldi fólks reynst mér afar vel, stappað í mig stálinu og verið mér til halds og trausts. Elín, eiginkona mín, stendur ævinlega við hlið mér sem klettur. Bendir hún mér iðulega á það sem betur megi fara og sér einatt ótrúlegust u lausnir á hlutum sem mér virðast flóknir. Þá hefur fjölskyldan öll reynst mér hið besta og ekki síst Árni, sonur Elínar, en hann hefur einstakt lag á að hefja uppbyggilegar samræður um margvíslegar hliðar tilverunnar. Þótt fleiri verði ekki taldir upp hefur þeim ekki verið gleymt.
Þegar fólk fær jafnjákvæð viðbrögð við umsókn sinni og raun bar vitni 5. júní síðastliðinn hlýtur það að fyllast bjartsýni um leið og því eykst kjarkur.
Starfsfólk Vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins hefur einnig reynst hið traustasta í öllum ráðum sem það hefur gefið. Kærar þakkir, þið öll.
Viðskipti og fjármál | 16.6.2009 | 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Einhliða upptaka evru, samanburður við núverandi ástand
Kostir:
* Innlendur gjaldmiðill öðlast sama stöðugleika og evra gagnvart öðrum erlendum gjaldmiðlum
*Vextir munu væntanlega lækka í átt til vaxta á evrusvæðinu, en verulegt áhættuálag verður áfram á vöxtum hér á landi vegna vantrausts á íslenskan efnahag
*Viðskiptakostnaður minnkar
Gallar:
* Sjálfstæði peningastefnu glatast án þess að öryggi fjármálakerfisins sé tryggt
*Myntsláttuhagnaður tapast (áætl. 2-5 ma.kr. á ári)
*Upphaflegur aukakostnaður vegna kaupa á evrum til að setja í umferð (125 ma.kr.)
*Íslenskir bankar hafa ekki seðlabanka til stuðnings í lausafjárvanda
*Fjármagnsflótti getur sett ríkið í alvarlegan greiðsluvanda
Hvaða vandamál leysast ekki:
* Verðbólga færist ekki sjálfkrafa að verðbólgu í Evrópu
*Aukið seðlamagn í kjölfar þrýstings t.d. vegna lausafjárskorts bankanna gæti leitt til aukinnar verðbólgu
*Útganga erlendra fjárfesta af innlendum peningamarkaði og skuldabréfamarkaði kallar áfram á nýtt erlent lánsfé
*Fjármagnsflótti Íslendinga kallar áfram á nýtt erlent lánsfé
*Fjármagnsflótti getur sett bankakerfið í lausafjárvanda (og þar með á endanum í eiginfjárvanda). Ríkið getur þurft að koma til aðstoðar
*Einhliða upptaka evrunnar auðveldar ekki íslenskum einkaaðilum eða opinberum aðilum aðgang að erlendu lánsfé a.m.k. ekki litið til nokkurra næstu ára.
Viðskipti og fjármál | 7.1.2009 | 09:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Des. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 |
8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 |
15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 |
22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 |
29 | 30 | 31 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 319741
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar