Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Blinda konan og þjónninn - vel heppnað útvarpsleikverk

Útvarpsleikritið Blinda konan og þjónninn eftir Sigurð Pálsson, í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur, er um margt snilldar vel gert verk. Tónlist Hildar Ingveldar Guðnadóttur og hljóðstjórn Einars Sigurðssonar spilltu ekki fyrir því.
Hljóðmyndin var yfirleitt sannfærandi og leikur höfundarins, Ólafíu Hrannar Jónsdóttur og Vals Freys Einarssonnar nær lýtalaus. Sennilega hefði mátt beita ákveðinni hljóðnemabrellu til þess að láta það heppnast betur þegar drukkna blinda konan hrundi í gólfið. Ýmsir hlusta á útvarpsleikritin með heyrnartólum og þar hefði þetta notið sín einkar vel.
Sigurður Pálsson leikur sér einkar vel að þeirri hugmynd að skapa persónur í leikriti og gera hlustendur óþyrmilega vara við endurskoðun og breytingar á handritinu. Að lokum fer svo að hann gefst hreinlega upp og allt er þurrkað út.
Útvarpsleikhússtjórinn hefur iðulega kynnt leikrit og ferst það vel úr hendi. Til nokkurra lýta finnst mér þegar sagt er: "Útvarpsleikhúsið flytur Blinda konan og þjónninn". Hvers vegna er ekki sagt "Útvarpsleikhúsið flytur Blindu konuna og þjóninn?" Þeir sem kunna íslensku vita að hér er þolfall á ferðinni og hvert nefnifallið og þar með heiti verksins er. Útvarpsleikhúsið ætti að hafa þetta í huga við framleiðslu næstu verka.
Öllum aðstandendum leikverksins er óskað til hamingju með þessa skemmtilegu leikfléttu sem gladdi eyru hlustenda í dag. Árið 2015 byrjar svo sannarlega vel hjá Útvarpsleikhúsinu.


Lífshætta - meistaraverk

Leikritið Lífshætta eftir Þóreyju Sigþórsdóttur, sem Útvarpsleikhúsið flutti í dag, er á meðal hins besta sem flutt hefur verið af íslensku efni um árabil – í raun meistaraverk.

Hljóðumgjörðin í skipsklefanum var mjög áhrifarík – niðurinn frá skipsvélinni og yfirtónar sem vitnuðu um hugarástand kvennanna.

Þótt greina mætti að Salóme, sem Jakobína Sigurðardóttir las úr smásögu sinni í útvarp fyrir rúmum 30 árum, væri hluti útvarpslestrar, truflaði það ekki á nokkurn hátt. Þórey spann þetta svo að úr varð ein samfelld heild.


Hið sama má segja um vinkonurnar í einbýlishúsinu. Þar var að vísu nokkuð um klifun, en hún jók aðeins á áhrifamátt frásagnarinnar. Þotuhljóðin voru sum dálítið skrýtin, en ekki verður fettur fingur út í þau.

Dómur undirritaðs er sá að hér sé um meistarasmíð fyrir útvarp að ræða. Til hamingju, Þórey og aðrir aðstandendur.



Glaðsheimur - vel heppnað tónverk

Á efnisskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands í kvöld var verkið Glaðsheimr eftir Oliver Kentish, einkar áheyrilegt og glaðvært hátíðarverk, samið árið 2010 Hörpu til heiðurs. Verkið var með íslensku ívafi og vel heppnað. Oliver Kentish eru færðar einlægar hamingjuóskir með vel heppnaða tónsmíð.

 

Útsendingin á netinu er hins vegar afleit hjá Ríkisútvarpinu og skilar alls ekki þeim hljómgæðum sem til er ætlast.

Öllu verri var þó hroðvirknisleg kynning verksins á vefsíðu Sinfóníuhljómsveitar Íslands:

 

Kynning á heimasíðu Sinfóníuhljómsveitarinnar

„Í Gylfaginningu er sagt frá Glaðsheimr sem var samkomuhöll á Iðravöllum í Ásgarði og mun þar gleði jafnan hafa ríkt. Konsertforleikurinn Glaðsheimr eftir Oliver Kentish vísar í þessa frásögn en eiginleg tilurð verksins er þó nýja tónlistarhúsið okkar, Harpa. Verkið er samið með Sinfóníuhljómsveit Íslands og frábæran hljómburð Eldborgar í huga og bera blæbrigðarík skrif tónskáldsins þess glöggt merki.“

 

Strikað er undir tvær villur.

Orðið Glaðsheimr er ekki í þágufalli og aldrei hef ég heyrt Iðavelli kennda fyrr við magakveisu.

 


Aðgengileg blöð og tímarit í snjallsímum og spjaldtölvum

Morgunblaðið er aðgengilegt á vefvarpi Blindrafélagsins eitt íslenskra dagblaða, enda hefur Mogginn verði í forystu íslenskra fjölmiðla í aðgengismálum.
Einatt hefur komið til umræðu að önnur blöð væru aðgengileg. Fyrir nokkrum mánuðum var aðgengi smáforrita fyrir Fréttablaðið og Morgunblaðið athugað og reyndust blöðin ekki aðgengileg til lestrar með talgervli.
Í gær tók ég til í farsímanum og ákvað þá að skoða eintak Morgunblaðsins, sem var á símanum frá því í sumar. Þá kom í ljós að blaðið var vel læsileg í Adobe reader og það sem meira var, að fyrirsagnir voru ágætlega skilgreindar. Að óathuguðu máli ættu því Fréttablaðið, Morgunblaðið, Kjarninn, Fréttatímin og e.t.v. fleir blöð og tímarit að vera aðgengileg á Android-símum og spjaldtölvum. Gallinn er hins vegar sá að smáforritin, sem notuð eru til lestrar, gera ekki ráð fyrir slíku. Hugsanlega er hægt að fara í kringum þetta með því að nota forrit eins og Moonreader, en það ersérstaklega hannað forrit sem gerir blindu fólki kleift að lesa pdf-skjöl. Þetta verður eitt af næstu málum, sem aðkallandi er að kanna.


Staksteinar Moggans, Evrópusambandið og Kína

Ritstjórar Morgunblaðsins hafa verið haldnir eins konar ofsóknaræði á hendur Ríkisútvarpsins. Birtist það í ýmsum myndum, einkum þegar spurt er ákaft um málefni sem þeim eru ekki þóknanleg.

Þó hitta þeir stundum naglann á höfuðið eins og Staksteinapistillinn í dag vottar.

"Helgi Seljan fékk Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra til sín í Kastljós Ríkisútvarpsins og hóf viðtalið með þessum orðum: „Byrjum bara aðeins á Evrópusambandinu.“ Svo gekk auðvitað allt viðtalið út á Evrópusambandið enda eitt helsta áhugamál Samfylkingarinnar og Ríkisútvarpsins. Þar með gafst ekki færi á að ræða önnur utanríkismál þó að af mörgu sé að taka.

Gunnar Bragi var augljóslega fenginn í viðtalið til að reyna að sanna að núverandi stjórnarflokkar væru margsaga í aðildarumsóknarmálinu og sérstaklega að þeir væru að svíkja landsmenn um þjóðaratkvæðagreiðsluviðræðurnar.

Utanríkisráðherra svaraði þessu margoft og útskýrði að Helgi væri á villigötum en allt kom fyrir ekki, spyrillinn spurði sömu spurninganna aftur og aftur og aftur svo ekkert annað komst að.

Af mörgum vitlausum spurningum var þó sennilega slegið met í lok þáttarins þegar Gunnar Bragi var spurður að því hvort ekki væri „svolítið sérstakt“ að gera fríverslunarsamning við Kína þegar lýðræðishalli væri í ESB.

Fyrir utan að spurningin var sérkennilega borin fram væri ekki úr vegi að spyrlar Ríkisútvarpsins, þó að þeir séu ákafir stuðningsmenn aðildar að ESB, átti sig á því að með fríverslunarsamningi við Kína væri Ísland ekki að gerast aðili að Kína. Og til viðbótar að Ísland er nú þegar með samning við ESB."


Agalítil orðræða

Orðræðan á Íslandi er með ólíkindum og hún virðist lítið skána.

Í umræðuþætti Gísla Marteins Baldurssonar í morgun var rætt við framsóknarráðherran Sigurð Inga Jóhannsson, sem gegnir stöðu umhverfisráðherra. Sitthvað var fróðlegt í viðtalinu. En þegar kom að umfjöllun um rammaáætlun og stækkun eða breytingar á friðlandinu í Þjórsárverum þyrmdi yfir suma hlustendur.

Ráðherra fullyrti í viðtalinu að hann hygðist fara að ráðum fagfólks. En þegar þáttarstjórnandi þjarmaði að honum kom í ljós að með því að tjá sig á opinberum vettvangi um hugmyndir ráðherrans um svokallaða stækkun á friðlandinu væru fagmenn farnir að taka þátt í stjórnmálum og á honum mátti skilja að þar með væru fagmenn orðnir ómarktækir. Með öðrum orðum: þeir sem hafa grundvallað álit sitt á staðreyndum mega ekki verja skoðanir sínar og útskýra hvers vegna þær eru eins og þær eru. Þetta er hin frjálsa umræða á Íslandi árið 2014!

Mönnum er misjafnlega lagið að tjá skoðanir sínar og þeir sem hafa vafasaman málstað að verja, hrekjast einatt undan spyrlum án þess að svara nokkru. Þannig fór fyrir ráðherranum. Þetta er því miður einkenni margra Íslendinga og í hópi Framsóknar- og Sjálfstæðismanna þykir höfundi þessa pistils hafa borið of oft á þessu heilkenni. Vera má að þar sé um fordóma að ræða, en dæmin eru því miður of mörg.

Fyrr í þættinum var rætt við nokkra einstaklinga um hugmyndir umhverfisráðherra og einn viðmælenda Gísla Marteins, Róbert Marshall, benti m.a. á hvaða afleiðingar breytingar á friðlandi Þjórsárvera gætu haft - ósnortnar víðáttur hálendisins yrðu truflaðar af svokallaðri sjónmeingun.

Ég get rétt ímyndað mér hvernig sjónmeingun verki á þá sem vilja njóta ósnortins landslags með sama hætti og hljóðmeingun nútímans truflar einatt þá sem vilja hlusta á hjartslátt náttúrunnar. Annar viðmælandinn minntist á að nú þyrftu menn að huga fremur að því til hvers ætti að nota rafurmagnið, en ekki að breyta vegna breytinganna.

Flest á þetta rætur að rekja til þess agaleysis sem ríkir í umræðum og við ákvarðanir. Hér á landi er einum of algengt að rifið sé niður það sem aðrir telja sig hafa byggt upp og þegar völdum þeirra sleppit slæst kólfurinn í hina áttina. Ef ekki verður horfið af þessari braut og jafnan lamið í gagnstæðar áttir, fer fyrir Íslendingum eins og Líkaböng á Hólum sem sprakk þegar lík Jóns Arasonar og sona hans voru flutt að Hólum árið 1551. Hún sprakk og einnig önnur klukkan í Landakirkju fjórum og hálfri öld síðar, vegna þess að jafnan hefur verið lamið kólfinum á sömu svæði. Þannig monar samfélagið undan Íslendingum vegna sundurlyndis misviturra stjórnmálamanna.


Fyrsta tölublað Skástriks komið út

Í dag kom fyrsta tölublað Skástriks út, en það er eingöngu gefið út sem tölvublað, skjáblað eða rafblað, allt eftir því hvað menn vilja nefna það.

Vissulega ber blaðið nokkur einkenni byrjandans, en þó er greinilegt að þeir sem rita í blaðið, hafa vandað vel til verka. Fréttaskýringar eru bæði fróðlegar og skemmtilega skrifaðar. Þó er hætt við að sumt af því, sem skrifað er um erlend málefni, sé næstum orðið úrelt. Kosturinn er þó sá að umfjöllunin er vönduð svo langt sem hún nær og skrifuð á íslensku. Þá hefur mikil vinna verið lögð í innlendar stjórnmálaskýringar og þar ýmislegt tínt til sem fengur er að.

Höfundur þessa pistils getur ekki leynt því að hann hlakkaði jafnmikið til útkomu fyrsta tölublaðsins og hann hlakkaði áður til jólanna. Blaðið er skemmtilegt og fróðlegt og afar auðvelt aflestrar. Gildir það jafnt um hvort lesið er í tölvu eða í snjallsíma. Notalegt er að halda á símanum í lófanum og láta talgervil lesa fyrir sig.


Tímamótafjölmiðill í burðarliðnum

Á föstudaginn kemur, 6. september, kemur út fyrsta hefti tímaritsins Skástriks. Það væri vart í frásögur færandi nema vegna þess að tímaritið verður eingöngu gefið út á vefnum og allir, sem skilja íslensku, geta lesið það.

Tímaritið birtist sem rafbók á EPUB- og Kindle-sniði eða sem hljóðbók. Menn geta því halað það niður á snjallsíma, spjaldtölvur eða borðtölvur, sem eru með búnað til lestrar á rafbókum. Þá geta menn einnig náð í hljóðskrár með efni tímaritsins.

Höfundi þessa pistils virðist það í fyrsta sinn sem þess er gætt að hafa aðgengi í fyrirrúmi og er það aðstandendum Skástriks til mikils sóma. Eykur það möguleika allra á að fylgjast með þjóðfélagsumræðunni.

Aðstandendum er óskað til hamingju með framtakið um leið og þeim er árnað allra heilla.

Upplýsingar um tímaritið er að finna á slóðinni http://skastrik.is

Aðstandendum er óskað til hamingju með framtakið um leið og þeim er árnað allra heilla.

Upplýsingar um tímaritið er að finna á slóðinni http://skastrik.is


Spjaldtölvutímarit - einangrun eða umbylting?

Í Morgunblaðinu í dag var frétt um nýtt tímarit, Skástrik, sem hefur göngu sína í næsta mánuði. Verður það með fréttaskýringum af erlendum og innlendum vettvangi. Markhópur tímaritsins verða eigendur spjaldtölva og lesbretta. Áður hefur útgáfa Kjarnans verið boðuð, , sem einnig er ætlaður sama markhópi. verði
Verði Kindils- og EPUB-viðmótið valið ættu tímaritið að verða aðgengileg öllum.
Fréttablaðið hefur að undanförnu auglýst smáforrit fyrir spjaldtölvur og farsíma og á mbl.is er slíkt forrit einnig auglýst.
Aðgengi þessara forrita var athugað í dag. Fréttablaðsforritið reyndist óaðgengilegt og hið sama var að mestu leyti upp á teningnum með Morgunblaðsforritið. Unnt reyntist að hala niður blaðinu í dag, en undirritaður fékk lánaða áskrift að Android-hlutanum á meðan á prófunum stóð. Morgunblaðsforritið halar niður pdf-útgáfu blaðsins að sögn Snorra Guðjónssonar, tölvumanns hjá blaðinu og gera má ráð fyrir hinu sama hjá Fréttablaðinu. Gallinn er sá að blindir eða sjónskertir lesendur geta ekki valið hvaða skjálesari er nýttur.
Þau smáforrit, sem gefin hafa verið út fyrir íslenskan markað að undanförnu, valda nokkrum áhyggjum. Svo virðist sem aðgengisþátturinn hafi gleymst. Áður hefur verið minnst á Strætó-forritið á þessum síðum sem er algerlega óaðgengilegt.
Morgunblaðið hefur verið í forystu fjölmiðla um aðgengi í rúman áratug og er vefsíða þess á meðal aðgengilegustu fjölmiðlasíðna heims. Hið sama verður vart sagt um Fréttablaðið. Það er með ólíkindum að þeir 365-miðla menn setji ekki fyrirsagnir eða krækjur á einstaka hluta og greinar blaðsins eins og Morgunblaðið gerir á auðlesna hluta blaðsins, samanber http://www.mbl.is/mm/greinilegur/mogginn/bladid/?dagur=0.
Í þeirri byltingu, sem nú er framundan í fjölmiðlun hér á landi, ríður á að Blindrafélagið og Öryrkjabandalag Íslands haldi vöku sinni. Hið sama á við um útgáfu rafbóka og námsefnis. Verði ekki vakin athygli á þörfum blindra og sjónskertra fyrir aðgengileg smáforrit, getur farið illa og einangrunin aukist að mun.
Íslenskir forritarar eru hugmyndaríkir og snjallir. Hafi þeir aðgengi í huga frá upphafi er betur af stað farið en heima setið.

Vanþekking auglýsingafólks á íslenskri tungu

Á morgun leggur Húni annar í hringferð um Ísland og er það vel. Safnað verður fé til þarfra mála og leggja listamenn söfnuninni lið.

Auglýsing þessarar ferðar er illa gerð og dapurlegt til þess að hugsa að starfsfólk auglýsingastofunnar, sem gaf e.t.v. vinnu sína, skyldi kasta til hennar höndunum. Sem dæmi má nefna að staðarnöfn eru í nefnifalli og dagsetningarnar einnig. Þennig verða tónleikarnir á eftirtöldum stöðum (ekki bein tilvitnun): "Seyðisfjörður fimmti júlí, Vestmannaeyjar sjöundi júlí o.s. frv., þótt lesa hefði átt Vestmannaeyjum sjöunda júlí o.s.frv.

Eitt sinn vann Þórhallur Guttormsson við að fara yfir auglýsingar í sjónvarpi. Nú virðist sem Ríkisútvarpið hirði ekki lengur um orðfæri auglýsenda. Auglýsingalestur er hluti menningarstarfsemi stofnunarinnar og málfar þeirra hefur mikil áhrif á málskynjun fólks.

Húni annar er varðveittur til þess að bjarga menningarverðmætum og sýna þeim virðingu. Leitt er til þess að hugsa að þeir sem orðuðu auglýsingarnar stuðli með vanþekkingu sinni eða kæruleysi að eyðileggingu annarra verðmæta. Hvers á íslensk tunga að gjalda?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband