Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Þögnin eftir Andrés Indriðason - vel heppnað leikrit



Útvarpsleikhúsið 20. jan 2013 | 13:00



Þögnin eftir Andrés Indriðason. Leikendur: Esther Talía
Casey og Ólafur Egill Egilsson. Leikstjóri: Erling Jóhannesson. Hljóðvinnsla:
Einar Sigurðsson.



Andrés Indriðason hefur verið iðinn við kolann í útvarpi undanfarna
5 áratugi. Leikrit hans eru orðin mörg, ærið misjöfn að gæðum eins og gengur.



Frumflutningur Þagnarinnar var vel heppnaður. Ekki var
auðheyrt hvernig leikurinn endaði. Þó var byggð upp ákveðin spenna sem leystist
loks úr læðingi, eins konar sprenging. Leikararnir skiluðu sínum hluta með
aðdáanlegum hætti - blekkingin, hefndarþorsti, auðmýking og heift skinu í gen
þar sem við átti.





Hljóðmynd og leikstjórn



Á þessum síðum hefur nokkrum sinnum verið fjallað um
hljóðmyndirnar í útvarpsleikritum. Yfirleitt eru þær allvel heppnaðar og svo
var að mestu um hljóðmyndina í Þögninni.



Í öðru atriði leiksins var brugðið upp mynd af persónunum
þar sem þær voru á leið yfir fjalllendi í bifreið. Vegurinn ósléttur og
glamraði í bílnum. Greinilegt var að glamrinu var bætt ofaná hljóðmyndina því
að í því var bergmál, sem átti ekki heima þar. Þá var ökumaðurinn til hægri í
myndinni.



Þegar ég hef rætt slík atriði við tæknimenn og áhugamenn um
útvarpshlustun hafa flestir haldið því fram að þeim finnist þeir sjá inn í bifreiðina
inn um framrúðuna. Mér finnst ævinlega að ég sitji í bílnum með sögupersónunum
og þá sé eðlilegt að bílstjórinn sé vinstra megin.



Í 3. Atriði leiksins urðu tæknimanni eða leikstjóra á
afdrifarík mistök. Þá heyrðist bíllinn koma í hlað og ekki var ljóst hvort um
sömu tegund hafi verið að ræða. Út steig bílstjórinn vinstra megin og farþeginn
hægra megin.



Að öðru leyti var hljóðmyndin fremur sannfærandi. Á
veröndinni var hljóðumhverfið næsta eðlilegt. Timburgólf og eins og húsveggur í
nánd.



Atriðin inni í sumarhúsinu voru vel heppnuð og skondið var
að hlusta á aðra sögupersónuna hrapa niður snarbrattan stiga.





Tímaskekkja



Í öðru atriði leiksins hafði bílstjórinn orð á að nú væri
veiðitíminn hafinn, enda var hann eins búinn og haldið skyldi til rjúpna. Því
skaut skökku við að heyra í hrossagauk, lómi og lóu þegar út úr bílnum var
komið.





Veðrið



Í leikritinu var þoka, niðdimm þoka. Ég hafði á
tilfinningunni að í þessari þykku þoku bærðist vart hár á höfði. En viti menn.
Stundum strauk gola blíðlega um hljóðnemann, einkum þann vinstri. Þá hefði
þokan ekki átt að vera svona dimm.





Niðurstaða



Leikritið er vel saminn og söguþráðurinn sannfærandi. Við
framsetningu efnis í útvarpi þurfa tæknimaður og leikstjóri að vera vel á verði
til þess að halda trúverðugleika hljóðmyndarinnar.



Höfundi verksins og Útvarpsleikhúsinu er óskað til hamingju
með afraksturinn.




Skemmtilegur þáttur um Vestmannaeyjar sem yljaði hjartarótunum



Að undanförnu hefur verið útvarpað þáttum um íslenska
dægurlagatónlist áranna 1930-1990, en þessa þætti gerði Svavar Gests í tilefni
sextugsafmælis Ríkisútvarpsins árið 1990.



Í kvöld, 29. Desember, var 13. Þættinum útvarpað og fjallaði
hann um Vestmannaeyjar. Oddgeir Kristjánsson og þjóðhátíðarlög hans voru
meginefni þáttarins auk textahöfundanna. Ýmislegt bar þó fleira á góma og mátti
m.a. heyra tvíbura ú Vestmannaeyjum í mútum.



Hægt er að hlusta á þáttinn hér:



http://www.ruv.is/sarpurinn/laugardagskvold-med-svavari-gests/29122012-0



Svavar var margfróður um dægurlagatónlist fyrri ára, en gáði
ekki ævinlega að heimildum. Þannig heldur hann því fram að einungis tvö lög
eftir Oddgeir Kristjánsson hafi verið gefin út á hljómplötum áður en Svavar gaf
út fjögurra laga plötu með lögum eftir Oddgeir árið 1964. Þetta er ekki alls
kostar rétt hjá Svavari. Árið 1962 eða 1963 söng Ragnar Bjarnason Ship ohoj inn
á hljómplötu og áður hafði lagið Gamla gatan verið gefið út ásamt laginu Heima.
Gömlu götuna söng Helena Eyjólfsdóttir og Haukur Morthens Heima. Lögin voru því
a.m.k. fjögur eftir Oddgeir, sem áður höfðu komið út. Þá hafa menn löngum velt
vöngum yfir tilefni þess að Ási í bæ orti ljóðið „Ég veit þú kemur". Í þessum
þætti var birtur viðtalsbútur Árna Johnsen við Ása þar sem hann greindi frá því
að textinn við lagið hefði staðið á sér og hefði orðið til daginn áður en
Hljómsveit Svavars Gests kom til Vestmannaeyja. Þetta stenst ekki hjá Ása.
Fyrir því eru eftirtalin rök:



Svavar Gests kom með hljómsveit sína á þjóðhátíð árin 1961,
63 og 65. Árið 1961 var þjóðhátíðarlagið „Sólbrúnir vangar, sem Ragnar
Bjarnason söng, 1962 Ég veit þú kemur, sem Lúdó og Stefán flutti í skelfilegri
útsetningu, sem Oddgeiri sárnaði mjög, 1963 lag sem nú heitir Þá var ég ungur,
en var þá flutt við bráðabirgðatexta Ása sem kallaður var Steini og Stína og
árið 1965 „Ég vildi geta sungið þér", sem var síðasta þjóðhátíðarlagið sem
Oddgeir samdi. „Þar sem fyrrum" var þjóðhátíðarlag ársins 1964 og flutti
hljómsveitin Logar það með prýði.




Afbragðs útvarpsleikrit

Ásdís Thoroddsen er snjöll. Hún hefur margsinnis sýnt það sem kvikmynda- og útvarpsleikstjóri. Mörgum er vafalítið í fersku minni leikrit hennar sem flutt var í útvarpi fyrir nokkrum vetrum og fjallaði um ævi Jóns lærða Guðmundssonar, einkum Spánverjavígin á Vestfjörðum árið 1612.

 

Sunnudaginn 2. desember og í dag flutti Útvarpsleikhúsið leikrit hennar, Ástand, sem fjallar um unga stúlku, Guðrúnu, sem varð hrifin af breskum hermanni í upphafi hernáms Breta hér á landi og afskipti yfirvalda af henni. Þessi átakanlega saga snertir strengi í hjörtum þeirra sem á hlýða. Hljóðvinnslan er afbragðs góð, en Einar Sigurðsson hélt þar um taumana væntanlega undir styrkri leikstjórn leikstjóra og höfundar leikverksins.

 

Auðheyrt er að Ásdís hefur nýtt sér reynslu sína af gerð kvikmynda í þessu verki. Skiptingar voru snöggar og sviptu hlustendum úr einni hljóðmynd í aðra. Samhengið var hins vegar svo mikið og vel tengt að alls ekki varð til skaða.

 

Hljóðmyndin var yfirleitt sannfærandi. Hljóðmyndin í upphafi var allvel sviðsett, þegar blaðasöludrengur heyrðist kalla. Þeir hefðu reyndar mátt vera fleiri. Þarna sannaðist að vísu hið fornkveðna, að tímarnir breytist og mennirnir með. Hljóðumhverfið var ekki nægilega sannfærandi. Þar er hvorki við leikstjorann né hljóðritara að sakast heldur hitt, að hverju tímabili fylgir ákveðinn hljóðheimur sem erfitt er að endurskapa. Sem dæmi má nefna að of oft virtust bifreiðar þjóta hjá á malbiki, en þó er eins og leikstjórinn hafi stundum munað eftir þessu og bætt þar úr. Einnig voru bifreiðatengundir meira sannfærandi í seinni þættinum en þeim fyrri.

 

Ástand er á meðal hins besta sem gert hefur verið í íslensku útvarpsleikhúsi á þessari öld. Aðstendum þess er óskað til hamingju með árangurinn og lesendur þessarar færslu eindregið hvattir til að fara inn á vef Ríkisútvarpsins að leita verkið uppi.

 

 


Hágæða útvarpsefni á Rás eitt

Sunnudaginn 21. þessa mánaðar var fluttur í Útvarpsleikhúsinu fyrsti þátturinn af þremur, sem bera heitið Heimkoma. Þar kannar Jón Hallur Stefánsson eyðibýli ásamt Danskri útvarpskonu, sænskri konu og Argentínumanni. Þau leika sér að hljóðumhverfi eyðibýlanna og flétta sama við eigin vangaveltum og skynjun auk sagna, sem þau verða áskynja um og snerta sögu eyðibýlanna.

Þeir, sem hafa unun af vel gerðum útvarpsþáttum, ættu ekki að láta þá framhjá sér fara og tilvalið er að leita í sarpi Ríkisútvarpsins að fyrsta þættinum. Jón Hallur stóð um síðustu aldamót að athyglisverðum þáttum í ríkisútvarpinu sem gengu undir nafninu Vinkill. Þar leitaði hann ásamt samverkafólki sínu nýrra leiða og margt frumlegt höfðust menn þar að. Greinlegt er að Jóni Halli hefur ekkert farið aftur.

Þá var hlutur dönsku útvarpskonunnar skemmtilegur. Greinilegt er að hún hefur kynnt sér fléttuþáttatækni danska útvarpsins, sem er fyrir margra hluta sakir mjög sérstök og hefur orðið mörgum að fyrirmynd.

Ástæða er til að fagna þessu vandaða efni og mættu menn fá meira af heyra f slíku efni.


Harmsaga - nýtt útvarpsleikrit

Dagskrá Rásar eitt var fjölbreytt í dag. Hér verður fjallað um tvennt:

Það er jafnan með nokkurri tilhlökkun að ég sest niður og hlusta á ný útvarpsleikrit. Í dag var Harmsaga eftir Mikael Torfason frumflutt. Leiknum stýrði Sveinbjörn Birgisson, Hallvarður Ásgeirsson samdi tónlist og Ragnar gunnarsson hljóðritaði.

Söguþráðurinn var togstreita milli hjóna, sem vissu vart hvað hitt vildi og voru tvístígandi um þá ákvörðun að slíta hjónabandinu. Í leikritinu komu við sögu börn, en þau voru túlkuð með leikhljóðum með sama hætti og ýmiss konar búnaður er nýttur á leiksviði til þess að túlka margs konar fyrirbæri mannlífsins.

Flest var vel gert í þessu leikriti. Stundum var hljóðmyndin svo þröng, þegar samband hjónanna var náið, að víðómið nýttist ekki. Þarna hefði þurft að skapa umhverfi með einhvers konar þruski svo að menn fengju á tilfinninguna að fólkið væri statt í íbúð.

Í leikritinu koma fyrir samfarir og voru þær leiknar á sannfærandi hátt. Maðurinn svalaði sér á skömmum tíma og konan virtist einnig fá fullnægingu. Þó kann að vera að hún hafi látið sem svo væri. Leikmyndin (hljóðmyndin) var ekki sannfærandi. Ekkert rúmfatahljóð heyrðist og afstaða hjónanna skilaði sér illa.

Það er með ólíkindum hvað íslenskum rithöfundum þykir skemmtilegt að skrifa sóðalegan, enskuskotinn og illa saminn texta, en því miður bar mjög á því í leiknum. Ef til vill er það svo að gömul og gild blótsyrði séu að fara forgörðum í málinu og flest eða allt meiki sens eða sé andskotans fokking ..... Hitt er þó verra að ekki sé lengur hægt að skrifa á kjarnyrtu máli án þess að allt vaði í sóðaskap. Fyrir það fær Mikael Torfason falleinkun og leikritið í heild aðeins þrjár stjörnur.

Kl. 16:05 var þáttur Arndísar Bjarkar Ásgeirsdóttur, Úr tónlistarlífinu, á dagskrá. Birt var hljóðrit af tónleikum Víkings Heiðars Ólafssonar til minningar um kanadíska slaghörpuleikarann Glenn Gould. Efnisskráin var einstaklega vel saman sett og viðtöl við Glenn Gould, sem skotið var inn á milli ásamt hljóðritum af leik hans, gerðu dagskrána stórmerka. Auk þess er jafnan unun að hlusta á kynningar Arndísar, en þær eru fluttar á fága-an hátt og fögru máli.

Víkingur Heiðar túlkar það sem hann leikur einatt með afar sérstæðum hætti. Þannig endaði fyrsta verkið á stuttum samhljómi og var eins og hann hefði rokið frá hljóðfærinu. Auðvitað var ekki svo. Víkingur veldur ekki vonbrigðum.


Uppdráttarsýki morgunútarps Rásar eitt

Að því hefur verið vikið á þessum síðum að ekki sé allt með felldu í morgunútvarpi Rásar eitt.

Nú annast morgunútvarpið þrír umsjónarmenn: Sigurlaug Margrét Jónasdóttir, Jónatan Garðarsson og K.K.

Þau Sigurlaug Margrét og Jónatan eru margreyndir dagskrárgerðarmenn og hafa staðið sig að flestu leyti vel. Tónlistarvalið er þó fremur einhæft og of mikið ber á bandarískri tónlist. Þá eru hin löngu símtöl, sem þau inna af hendi, væbast sagt hvimleið. Símtækin virðast fremur léleg og viðmælendur beita ekki ævinlega röddinni.

Víða er farið að nota Skæpið til slíkra samtala á erlendum útvarpsstöðvum og virðist það gefast vel svo fremi sem ekki sé notuð þráðlaus tenging. Við það batna tóngæðin og málflutningur verður skýrari.

Morgunstundin er orðin "hreinasti hryllingur," eins og Skagfirðingur nokkur orðaði það. Hann hsagðist hafa tekið saman lista yfir tónlistina sem leikin væri í þættinum og væri hún endurtekin á tveggja vikna fresti nær óbreytt. Taldi hann hljómplötuúrvalið mjög takmarkað. Þátturinn er í svo föstum skorðum að þeim, sem aka til vinnu á morgnana á milli kl. hálf níu og níu, er meinað að hlusta á íslenska tónlist. Þá hljómar mestmegnis bandarísk tónlist á rás eitt. Á eftir fréttum kl. 8:05 er hafist handa við Morgunstundina. Sama upphafsstefið er leikið, síðan hefjast kórar handa, kvartettar eða einsöngvarar og sama úrvalið dag eftir ag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð. Þegar kórarnir, kvartettarnir og einsöngvararnir hafa lokið sér af, taka við hljómsveitir og söngvarar, sem voru upp á sitt besta á 6. og 7. áratugnum. Það gefur auga leið að tónlistarúrvalið er takmarkað, enda var hljómplötuútgáfa lítil og safn Ríkisútvarpsins fremur bágborið, enda mörgu hent. Einstaka lag frá 8. 9. og 10. áratugnum slæðist inn og örsjaldan ný tónlist.

Umsjónarmaður Morgunstundarinnar er þekktur fyrir vönduð vinnubrögð að sögn. Undir það skal tekið að hann hefur vandað valið, en ekki gætt þess að endurnýja tónlistarforðann. Það kom hins vegar í ljós á hlaupársdaginn síðasta að hann gat gert býsna vel, en þá lék hann lausum hala á Rás tvö á meðan Hallgrímur Thorsteinson kryddaði Morgunstund Rásar eitt með fjölbreyttu lagavali.

Það ber brýna nauðsyn til að endurskoða frá grunni morgunútarp Ríkisútvarpsins. Yfirstjórn stofnunarinnar virðist hafa þjarmað svo að dagskrárgerð að hún er vart svipur hjá sjón. Það eru allir burðir til þess að búa til gott morgunútvarp allra landsmanna með meiri samtengingum en hingað til hefur tíðkast. Morgunvaktin, sem hleypt var af stokkunum í mars 2003, var góð tilraun, en hún fékk ekki að þróast. Í staðinn er nú morgunútvarp Rásar eitt látið veslast upp. Hver ætli tilgangurinn sé?


Kona hverfur - nýtt listaverk í Útvarpsleikhúsinu

Hugurinn fyllist jafnan sælu, þegar stjórnendur Útvarpsleikhússins bera á borð nýtt, íslenskt leikrit, sem telst vera listaverk.

Í dag var fyrsta útvarpsleikrit Sigríðar Jónsdóttur, „Kona hverfur“ flutt á rás eitt. Leikritið fjallar um gamalt leyndarmál, sem flyst á milli kynslóða með óvæntum hætti.

Það vakti athygli að samtölin, sem voru milli tveggja kvenna, voru yfirleitt án víðóms. Hljóðmyndin var hins vegar öðru hverju í víðómi. Á einum stað í verkinu örlaði á því að hljóðmyndin yrði ofhlaðin, en þá þurfti hlustandinn að greina á milli þriggja radda. Tvær voru í miðjunni, en sú þriðja á vinstri rás.

Þegar upp var staðið frá því að hlusta á flutninginn, varð undirrituðum ljóst að þarna hafði orðið til lítið og áhrifamikið listaverk, sem telja verður á meðal hins besta sem íslenskt útvarpsleikhús hefur skapað á þessari öld. Eru höfundi og aðstandendum verksins fluttar einlægar hamingjuóskir.


Gesar konungur, borgarmúrarnir í Xi'an og stutt viðtal

 

Tíbetska sagnaljóðið um Gesar konung, sem er rúmlega þúsund ára gamalt, er talið lengsta sagnaljóð, sem varðveist hefur.

Í þættinum Hlustendagarðinum, The Listeners Garden, sem útvarpað er á vegum kínverska alþjóðaútvarpsins, china Radio International, er fjallað um þetta merka kvæði eða sagnabálk auk borgarmúranna umhverfis Xi‘an, sem draga að sér milljónir ferðamanna á hverju ári.

Á undan þessu er lesið úr bréfum hlustenda og birt stutt viðtal við ritstjóra þessarar bloggsíðu, sem brá sér í heimsókn til kínverska alþjóðaútvarpsins 5. apríl síðastliðinn. Með því hélt ritstjórinn upp á að 45 ár eru um þetta leyti liðin frá því að hann hóf að fylgjast með kínverska alþjóðaútvarpinu, sem áður nefndist Radio Peking.

 

IN ENGLISH

 

The Tibetan epic poem of King Cesar is over 1.000 years old and is believed to be the longest epic poem in the world.

On the radio Show, The Listeners Garden, which is broadcast by China Radio International this poem is introduced as well as the city walls araound Xi‘an. Before that the letters from some listeners are read and an interview with the editor of this page can be heard, but he visited China Radio International on April 5 to celebrate among other things that he has been a regular to the station‘s broadcast for 45 years.

 


Jón Arason á leikritakvöldi Ríkisútvarpsins

Í vetur hafa verið haldin sérstök leikritakvöld á Rás eitt, þar sem útvarpað hefur verið gersemum úr safni útvarpsins. Í kvöld var það Jón Arason eftir Matthías Jochumsson í leikgerð gunnars Róbertssonar Hansens frá árinu 1960.

Gunnar var merkur listamaður sem setti mark sitt á íslenskt leiklistarlíf um nokkurt skeið. Hann var fjölhæfur, sem heyrðist í kvöld á því, að hann stjórnaði flutningi verksins og samdi tónlistina. Hún var skemmtileg suða úr dönskum þjóðlögum og leikhústónlist, sem mátti rekja til 19. aldar og hefði sjálfsagt Mattías verið hinn ánægðasti með hana, enda líktist hún dönsku lögunum sem voru og eru janvel enn notuð þegar Skugga-Sveinn er sýndur.

Árið 1959 urðu miklar breytingar á högum Ríkisútvarpsins, þegar það flutti á 5. og 6. hæð húss Fiskifélagsins við Skúlagötu 4. Tækjakosturinn var þá endurnýjaður og innréttað sérstakt hljóðver fyrir leiklist. Á 5. hæðinni var tónlistarsalur sem einnig var notaður til hljóðritunar skemmtiþátta.

Það heyrist greinilega hvað hljóðgæði leikritanna og annars efnis jukust við þessar breytingar. Þótt margt þyki með nokkrum frumbýlingshætti, þegar hlýtt er á þessi gömlu hljóðrit, er ánægjulegt að rifja upp leikritin. Ekki er með neinum hætti hægt að bera þau saman við hljóðritin, sem gerð eru nú á dögum. Það er auðvitað hálfhjákátlegt að heyra menn tala með herbergishljómi úti í náttúrunni og sitthvað kann að orka á nútúmafólk sem heldur frumstæð framleiðsla. En margt var þó firnavel gert á þessum árum.

Ég man enn eftir ýmsum setningum úr leikritinu, en ég var barn, þegar það var flutt á jólum 1960. Mér hafði verið tjáð að Jón Arason væri forfaðir minn og örlög hans voru mér hugstæð, þessarar miklu sjálfstæðishetju, sem unni svo frelsi landsins og kirkjunnar, að hann skirrðist jafnvel ekki við að biðja Þýskalandskeisara aðstoðar - Evrópusambandssinni.:)

Í kvöld þótti mér annkannalegt leikaravalið, ímyndaði mér að Valur Gíslason, sem vær tæplega sextugur, þegar leikritið var hljóðritað, hæfði vart í hlutverk Daða Guðmundssonar í Snóksdal, né Brynjólfur Jóhannesson, sem lék Martein Biskup Einarsson. En Gunnar Róbertsson Hansen vissi hvað hann söng. Marteinn var fæddur árið 1503 og því 47 ára, þegar atburðirnir, sem greint er frá í leikritinu, áttu sér stað, eða 17 árum yngri en Brynjólfur, þegar hann lék þetta hlutverk 410 árum síðar. Dagði var fæddur árið 1495 og því 55 ára, eða þremur árum yngri en Valur Gíslason. Þetta gjörbreytti myndinni af valdataflinu í leikritinu og gerði það allt mun sennilegra, þegar þetta laukst upp fyrir mér eftir nokkra yfirlegu.

Leikritasafn Ríkisútvarpsins er fjársjóður. Þar varðveitist túlkun fyrstu kynslóðar íslenskra leikara, sem voru í mun betra sambandi við fortíðina en leikarar nútímans, sem reyna stundum af veikum mætti að túlka löngu liðna atburði og þjóðhætti. Framsögn þeirra var agaðri, málfarið og framburðurinn betri og persónusköpunin að mörgu leyti dýpri en borið hefur á að undanförnu. Ýmsir leikaranna voru fjölmenntaðir í sígildum fræðum vestur-Evrópskrar heimsmenningar og bar allt fas þeirra því vitni.

Ástæða er til að hvetja alla unnendur íslenskrar leiklistar til að hlusta á þau leikrit, sem eru á vef Ríkisútvarpsins, bæði gömul og ný. Þar leynist mörg perlan.


Snorrafárið og dómstóll götunnar

 

Snorri Óskarsson, sem oft er kallaður Snorri í Betel, fer mikinn á bloggsíðu sinni, http://snorribetel.blog.is/. Þar tekur hann evangelíska afstöðu gegn samkynhneigð, sem hann kallar reyndar kynvillu.<P>

<P>Þótt Snorri virðist hvorki viðurkenna né kannast við að aukin þekking manna á mannslíkamanum hljóti að leiða til endurskoðunar á ýmsum fordómum, svo sem andúð sumra á kynhneigð, sem samræmist ekki skoðunum þeirra, getur enginn bannað honum að tjá sig í ræðu og riti um hugðarefni sín. Ég efast um að hann boði þessar skoðanir sínar nemendum sínum á Akureyri. Mál Snorra ber því vott um ofsóknir á hendur þeim, sem róa á móti straumnum.<P>

<P>Garðar Sigurðsson, sem kenndi í Vestmannaeyjum um árabil og þar á meðal okkur Snorra, sagði nemendum sínum eitt sinn frá pólskum einstaklingum sem voru tvíkynja. Í sama skipti fjallaði hann um samkynhneigð, sem mig minnir að hann hafi kallað hómósesúalisma og rekja mætti til líffræðilegra fyrirbæra eins og t.d. ákveðinnar hormónastarfsemi í líkamanum. Sagði hann að um væri að ræða eins konar brenglun, sem mætti líkja við fötlun, sem enginn ætti að skammast sín fyrir.<P>

<P>Í Vestmannaeyjum voru iðulega hrópaðar á eftir okkur tvíburabræðrum ýmsar glósur, sem vísuðu til þess að við værum samkynhneigðir og jafnvel ýjað að blóðskömm. Stafaði þetta vafalítið af því, að ég tók upp þann hátt að fylgjast með samferðamönnum mínum með því að halda við olnboga þeirra, eftir að mér dapraðist sýn. Vissulega tók ég þetta nærri mér og það ásamt ýmsu öðru og valfalítið eigin skapbrestum, leiddi til þess að ég fer helst ekki til Vestmannaeyja, nema ég eigi þangað brýnt erindi.  Þetta þýðir þó ekki að ég setji alla íbúa undir sama hatt, heldur veldur umhverfið því að minningarnar hrannast upp.<P>

<P><P>

<P>Pólitískar ofsóknir eru engin ný bóla gegn kennurum hér á landi, en trúarlegar ofsóknir sæta nokkurri nýlundu. Ætlist menn til umburðarlyndis af hálfu kennara, þarf einnig að virða skoðanir þeirra og umbera þær. Morgunblaðsbloggið er ekki næg ástæða til að segja fólki upp störfum. Þeir sem hamast gegn samkynheingð með þeim hætti, sem verið hefur til umfjöllunar að undanförnu, dæma sig sjálfir og geta ekki siglt undir fölskum fána kristilegs kærleika. Jesús reðst gegn fordómum Gyningasamfélagsins og ofsóknum á hendur ýmsum, sem áttu undir högg að sækja, svo sem holdsveiku og blindu fólki og svokölluðum bersyndugum konum. Ýmsir geta vel ímyndað sér, að Jesús líti með velþóknun á þær framfarir sem orðið hafa í málefnum samkynhneigðra á Íslandi. Jafnframt held ég að hann hljóti að harma hvernig fáfræði fólks og fordómar hafa valdið því að hvorki er nú blindur maður framkvæmdastjóri Blindrafélagsins og ófatlaður maður er nú framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands. Sams konar fordómar í garð fatlaðra og áður ríktu og ríkja jafnvel enn í garð samkynhneigðra, eru undirrót þess að enn eru lagðir steinar í götu þeirra til þess að hindra eðlilegan aðgang þeirra að samfélaginu.<P>

<P>Snorra er óskað velfarnaðar í störfum sínum og þess vænst, að skólayfirvöld og almenningur á Akureyri dæmi hann fyrst og fremst af góðum verkum en ekki skrifum, sem hann iðkar utan vinnutíma.<P>

<P><P>

<P><P>

<P><P>

<P>


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband