Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Egils saga Skalla-Gríms sonar í Ríkisútvarpinu

Um þessar mundir er flutt á vegum Útvarpsleikhússins norsk leikgerð Egils sögu í þýðingu Ingunnar Ásdísardóttur. Vísur Egils og brot úr kvæðum hefur Þórarinn Eldjárn endurort.

Tæknivinnsla er öll hin besta og hljóðmyndin yfirleitt til fyrirmyndar. Leikurinn er góður. Þó hefði mátt nota yngri leikara í fyrsta þættinum, en þá var fjallað um æsku Egils. En allt sleppur þetta þó fyrir horn.

Eins og við mátti búast er þýðing Ingunnar vel gerð. Þó sakna ég þess að ekki skuli notuð orðatiltæki úr sjómannamáli, sem voru lifandi í málinu til skamms tíma. Hér áður fyrr undu menn upp segl, en hífðu þau ekki upp og felldu seglið.

Vísur Þórarins Eldjárns bera af. Hann hefur endurort þær flestar undir dróttkvæðum hætti og tekst listavel að koma efni þeirra til skila. Sýnir Þórarinn hvað dróttkvæður háttur getur í raun verið lipur bragarháttur, ef vel er með farið. Vísurnar eru sumar reyndar svo vel gerðar, að sá grunur læðist að mér, að vísurnar hljóti jafnvel að hafa verið umortar eftir því er tímar liðu fram og lengra varð frá því að Egill var á dögum. Reyndar voru vísur Egils torráðnar fyrri tíðar mönnum, eða orti annálaritarinn Björn á Skarðsá ekki þannig á 17. öld?

Mín er ekki menntin slyng

mætri að skemmta dróttu.

Eg var að ráða ár um kring

það Egill kvað á nóttu.

Þarna vitnar Björn til Höfuðlausnar. Gaman verður að heyra Höfuðlausn Þórarins á sunnudaginn kemur.

Þórarni eru fluttar einlægar hamingjuóskir og þakklæti fyrir þessa mætu skemmtan.


Jonas Kaufmann án víðóms í sjónvarpi

Þegar vel tekst til getur sjónvarp sameinað hið besta, sem myndmiðill hefur fram að færa og hið svokallaða hljóðvarp. Það var því með nokkurri eftirvæntngu sem við hjónin og gestir okkar settumst til að hlýða á Jonas Kaufmann, sem kom fram í Hörpu á listahátíð í vor. Ég hafði að vísu heyrt hljóðrit Ríkisútvarpsins, en gat vel hugsað mér að njóta listar Kaufmanns enn á ný.

Hvílík vonbrigði. Útsendingin var án víðóms, einóma útsending (mono) eins og gerðist í útvarpi landsmanna allt fram á árið 1980.

Fyrir um tveimur áratugum var því lýst yfir að nú tæki Ríkissjónvarpið að varpa hljóðinu í víðómi (stereo). Eitthvað virtist bera á þessu fyrst í stað, en síðan heyrði það til undantekninga. Nú býður sjónvarpið landsmönnum útsendingar í mónó. Hljómdreifinguna vantar og ánægjan verður einungis hálf. Hvernig stendur á þessu? Er enginn hljóðmetnaður ríkjandi innan Ríkissjónvarpsins?

Útsendingin í kvöld er í raun þess eðlis að hún bætir gráu ofan á svart, ef miðað er við áramótaannál sjónverpsins sem fluttur var í gærkvöld. Eins ágæt samantekt og hann var, þótti ýmsum torkennilegt að flest innskotin voru með einhvers konar dósahljóði. Forvitnilegt væri að fá svör við þeirri spurningu, hvað hafi valdið. Það var hreinlega eins og hljóðnema hefði verið stillt fyrir framan fremur lélegan hátalara og hljóðið fengið þannig við myndirnar.


Skálholt eftir Guðmund Kamban kvikmyndað?

Í kvöld flutti Útvarpsleikhúsið Skálholt eftir Guðmund Kamban í þýðingu Vilhjálms Þ. Gíslasonar. Hljóðritið var frumflutt á jólum árið 1955. Helstu leikendur voru Herdís Þorvaldsdóttir, Róbert Arnfinnsson, Þorsteinn Ö. Stephensen og Arndís Björnsdóttir. Fleiri kunnir leikarar komu við sögu.

Þessi átakanlegi harmleikur Guðmundar Kambans í frábærri leikstjórn Lárusar Pálssonar, snerti óneitanlega viðkvæma strengi í huga hlustandans. Túlkun þeirra fjögurra leikara, sem nafngreindir voru í upphafi þessa pistils, var með þeim ágætum að vart getur betri leik í útvarpi fyrr eða síðar.

Hljóðrit þetta, sem er farið að nálgast sextugt, er fyrir margra hluta sakir merkilegt. Það gefur góða mynd af þeirri aðstöðu sem fyrir hendi var til hljóðritana og jafnframt þeim tónlistarsmekk og því úrvali sem menn höfðu úr að moða.

Sem millistef var notuð orgelútsetning Páls Ísólfssonar á stefi úr Þorlákstíðum. Í lok leikritsins heyrðist brot úr sálmi Hallgríms Péturssonar, sem almennt gengur undir nafninu "Allt eins og blómstrið eina". Var það við orgelundirleik, en ekki er vitað til þess að Brynjólfur biskup hafi látið setja orgel í dómkirkju þá sem hann lét reisa og rifin var skömmu eftir að Skálholtsstaður laskaðist í jarðskjálftunum árið 1784, enda var þá kirkjan orðin fúin af viðhaldsleysi og gestum og gangandi lífshættuleg.

Þessi harmsaga Ragnheiðar og Daða hefur orðið ýmsum til íhugunar. Skrifaðar hafa verið skáldsögur, ort ljóð og jafnvel hafa miðlar orðið til þess að "sannleikur máls þeirra Daða og Ragnheiðar" hefur litið dagsins ljós svo að vart velkjast menn í vafa um það hvað gerðist. Miðað við hljóðrit, sem birt voru af miðilsfundum á 8. áratugnum, var túlkun Þorsteins Ö. Stephensen á Brynjólfi biskupi fremur sannferðug, en þó hafði hann ekki heyrt þessi hljóðrit. Guðmundur Kamban hefur væntanlega með leikriti sínu hagað orðum persónu biskups þannig að vart varð komist hjá því að beita öllum þeim hroka og yfirlæti sem leikarinn gat látið í té.

Við endurflutning þessa hljóðrit leitar ýmislegt á hugan og skal nú varpað fam þremur tillögum:

Handritshöfundar íslenskir ættu að íhuga hvort ekki væri rétt að endurgera Skálholt. Fara mætti þá leið að hljóðrita leikritið að nýju fyrir útvarp og haga þá tónlistarfvali með öðrum hætti en gert var árið 1955. Nú vita menn gerr um tónlist 17. aldar á Íslandi en menn vissu þá og þara að auki vita menn nú hvernig íslenska þjóðlagið við áður nefndan sálm Hallgríms var afskræmt með þvíað breyta einni nótu laglínunnar, þegar það var undirbúið til útgáfu sálmabókar á sinni tíð. Það hefur Smári Ólafsson sannað, svo að óyggjandi má telja.

Einnig mætti hugsa sér að gera um þessa atburði röð sjónvarpsþátta. Þá fengju handritshöfundar að spreyta sig á sígildu viðfangsefni, sem á rætur að rekja til fortíðar þjóðarinnar. Úr því gæti orðið sígilt meistaraverk, ef vel tækist til.

Þriðja tillagan er sú að saga þeirra Ragnheiðar og Daða yrði kveikjan að nýju leikverki sem samið yrði handa þeim Herdísi Þorvaldsdóttur og Róbert Arnfinnssyni. Söguþráðurinn gæti orðið einhvers onar ævisaga aldraðra einstaklinga sem fengu ekki að njótast fyrr en hausta tók. Þau Róbert og Herdís væru vís til að túlka vel samið handrit með þeim hætti að hverjum manni yrði ógleymanlegt, hvort sem um yrði að ræða flutning í sjónvarpi, útvarpi eða á leiksviði.

Íslendingar hafa um hríð verið of uppteknir af því að endurgera nýlega útgefnar skáldsögur sem sjónvarpsþættii. Mál er að linni.


Jónas Jónasson, útvarpsmaður

Jónas Jónasson er horfinn á braut inn í Sumarlandið. Þangað hafði hann brugðið sér sem ungur maður, en fékk að hverfa aftur til Jarðarinnar.

Jónasi hlotnaðist sú gæfa að starfa sem útvarpsmaður í rúma 6 áratugi, lengur en nokkur annar Íslendingur - þjóðin naut þeirrar gæfu að eignast hlutdeild í honum. Á ferli sínum mótaði hann fjölmargar hugmyndir, sem hann hrinti í framkvæmd, og hann skorti aldrei hugmyndir.

Jónas var þannig útvarpsmaður að viðmælendur hans gleymdu því yfirleitt að þeir væru í viðtali og þjóðin hlustaði. Honum tókst með einlægni sinni að laða fram ýmislegt sem sumir höfðu jafnvel ekki sagt sínum nánustu.

Jónas þroskaðist með árunum, jafnt og þétt birtist aukinn þroski hans í viðtölum þeim sem útvarpað var á föstudagskvöldum um þriggja áratuga skeið á öldum ljósvakans.

Nú er þessi rödd þögnuð. Eftir situr þakklát þjóð.


Morgunútvarp Rásar eitt á undanhaldi

Morgunútvarp Rásar 1 virðist á undanhaldi fyrir Rás 2.

Haustið 2009 var ákveðið að eyðileggja þáttinn Vítt og breitt, sem hafði verið á dagskrá Ríkisútvarpsins eftir hádegi alla virka daga um nokkurt skeið. Í þættinum ríkti ákveðið frjálsræði og bryddað var upp á ýmsum nýjungum. Þátturinn átti sér dyggan hlustendahóp.

Þegar þátturinn var gerður að morgunþætti hvarf fjölbreytnin og hlustendum fækkaði að mun. Síðan hefur flest hallast á ógæfuhliðina með morgunútvarp Rásar 1. Þættirnir eru fastmótaðir, rætt við sömu viðmælendurna aftur og aftur í löngum símtölum, þar sem tóngæði eru yfirleitt slæm og erfitt að greina orðaskil.

Á eftir fréttunum kl. 8:05 hefst síðan Morgunstundin. Hún byrjaði þokkalega fyrir nokkrum árum og umsjónarmanni fór heldur fram. En síðan brast á stöðnunarskeið. Umsjónarmaðurinn skiptir Morgunstundinni í tvo hluta. Í fyrri hlutanum eru leikin gömul dægurlög, kórlög, eitthvað af einsöngslögum og stemmur af silfurplötum Iðunnar. Umsjónarmaðurinn virðist hafa ákveðið að moða úr ákveðnum plötubunka og fer sárasjaldan út fyrir hann. Þannig fá hlustendur sjaldan eða aldrei að heyra eitthvað nýtt og nútíminn virðist víðs fjærri.

Hið sama á við um seinni hluta þáttarins. Þar er eingöngu leikin öldruð, erlend dægurtónlist – aldrei nýtt efni, heldur moðað úr ákveðnum plötubunka sem sjaldan er endurnýjaður.

Víðsjá hefur einnig orðið fyrir barðinu á vissri vanþekkingu í útvarpsmennsku. Nú hafa umsjónarmenn tekið upp á að hljóðskreyta sum viðtölin, sem veldur því að athygli hlustenda beinist iðulega frá efni umræðnanna að tónlistinni sem leikin er undir. Ítrekað hefur verið bent á að tónlist, sem leikin er undir viðtölum, valdi heyrnarskertu fólki erfiðleikum.

Þegar Morgunvaktin hóf göngu sína með eftirminnilegum hætti í mars 2003 virtist dagskrárstjórn Ríkisútvarpsins hafa hitt á heppilegt snið sem hentaði fjölmörgum hlustendum. Tónlistin var fjölbreytileg og viðfangsefnin eftir því. En Morgunvaktin fékk ekki að vera í friði og þróast fremur en ýmislegt, sem vel hefur verið gert hjá Ríkisútvarpinu.

Rás eitt hins hugsandi manns, eins og Páll Heiðar Jónsson orðaði það, virðist í algerri tilvistarkreppu þar sem metnaðarleysið ræður ríkjum á of mörgum sviðum. Það er miður, því að hjá ríkisútvarpinu vinnur margt hæfileikaríkt fólk, sem gerir úrvals þætti. Þeir eru þá yfirleitt helgaðir ákveðnum sviðum svo sem bókmenntum og tónlist. En almennir þættir eins og morgunútvarpið og Víðsjá þurfa svo sannarlega andlitslyftingar við.


Fréttastofa Ríkisútvarpsins - málpípa andófsafla

Fréttastofu Ríkisútvarpsins hefur iðulega verið ábótavant þegar um erlendar fréttir er að ræða. Þýðingar eru ómarkvissar og fáfræði fréttamanna almenn um ýmislegt sem varðar stjórnkerfi og landshagi fjölmennra ríkja austan hafs og vestan.

Þá ber einatt á því að andstyggð fréttamanna hlaupi með þá í gönur. Þannig var Dagblað alþýðunnar í morgun kallað "málpípa kínverskra stjórnvalda.

sá, sem það gerði, er margreyndur fréttamaður, en hefur iðulega orðið á að láta andstyggð sína á kínverskum stjórnvöldum hlaupa með sig í gönur. Jafngildishlaðið orðalag og þetta sæmir ekki fréttastofu Ríkisútvarpsins. Verður e.t.v næst upp á teningnum að nefna Morgunblaðið málpípu soðningaríhaldsins?


Breytingar á Viðskiptablaðinu

Nokkrar sviptingar virðast hafa orðið á Viðskiptablaðinu að undanförnu. Söludeild blaðsins hefur verið lögð niður og verkefnin færð til annars fyrirtækis úti í bæ. Í fyrrahaust var söluþóknun sölumanna lækkuð um þriðjung þrátt fyrir góðan árangur deildarinnar.

Þá berast einnig þau tíðindi að Þórður Snær Júlíusson og Magnús Halldórsson, sem komu til viðskiptablaðsins um svipað leyti og Björgvin Guðmundsson, sem síðar varð ritstjóri, hafi nú báðir ráðið sig til 365 miðla. Þar með hverfa þeir blaðamenn af vettvangi sem voru helsta fjöðurin sem sölumenn blaðsins skreyttu sig með og drógu að kaupendur.


Afbragðs hljómleikaútsending og unaðslegt viðtal

 

Í kvöld var útvarpað frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu. Á dagskrá var rússnesk tónlist. http://sinfonia.is/

Hvorki verður gerð grein fyrir stjórnanda, einleikara né tónskáldum, enda er ítarleg umfjöllun á vefsíðu sinfóníuhljómsveitarinnar.

 

Flutningur annars píanókonserts Tsjaikovskís var með eindæmum stórkostlegur og ótrúlegur styrkur sem einleikarinn býr yfir.

Það var fróðlegt að fylgjast með útsendingu Ríkisútvarpsins. Hljómurinn úr Hörpu skilar sérmeð öðrum hætti en tónninn úr Háskólabíói. Að vísu höfðu tónmeistarar Ríkisútvarpsins náð góðum tökum á kvikmyndasalnum og var útsending þaðan einatt hreinasta afbragð.

Í kvöld fannst mér hljómsveitin einhvern veginn of nálæg og tónninn fyrir vikið dálítið þurr. Dýpt hljómsveitin skilaði sér með ágætum. Vafalaust eiga tónmeistarar útvarpsins eftir að læra á þetta eins og annað.

 

Þar sem ég sat heima í stofu gat ég ekki betur heyrt en stjórnandinn hefði dreift hljómsveitinni öðruvísi um sviðið en vant er. Fiðlurnar voru aðallega hægra megin en sellóin og bassar vinstra megin. Hélt ég fyrst að um væri að kenna einhverjum ráðstöfunum vegna píanókonsertsins, en í sinfónísku dönsunum, sem tónleikunum lauk á, var þetta einnig svo.

 

Sérstakt lof fær Arndís Björk Ásgeirsdóttir fyrir viðtal við Valdimar Pálsson, sem útvarpað var í hléinu. Það hafði allt til að bera sem prýða má gott viðtal. Það var skemmtilegt, fróðlegt og einlægt. Arndís skreytti það með tónlistarbrotum. Hún gætti þess jafnan að tónlistin kaffærði ekki viðmælandann og mættu Víðsjármenn Ríkisútvarpsins fara í læri hjá Arndísi.

 

Í heildina var útsendingin með ágætum og ástæða til að óska aðstandendum til hamingju.

Næsta hálfa mánuðinn verður hægt að hlusta á tónleikana á vefsíðu Ríkisútvarpsins,

http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/live/

 


Blaðrið á Rás tvö

Frá kl. 7-9 árdegis og 16-18 er iðulega athyglisvert efi á Rást tvö. Umsjónarmenn leggja sig fram um að fjalla um ýmis mál sem efst eru á baugi.

Dagskrárgerð virka daga frá kl. 9-12 ber því vitni að lítið sé lagt upp úr dagskrárgerð. Oft heyrast umsjónarmenn fara með þvílíkar staðleysur að undrum sætir.

Í morgun var stillt á Rás tvö þegar klukkan varð 9 og eftir fréttirnar hófst einhver þáttur. Mikil umræða varð með umsjónarmönnum að rétt væri að endurvekja morgunleikfimina og fimbulfömbuðu þeir um það hverjir hefðu verið með hana hér á árum áður. Hvorki heyrðist þar minnst á Valdimar Örnólfsson né Jóninu Benediktsdóttur, svo að tveir umsjónarmenn séu nefndir, hvað þá heldur Halldóru Björnsdóttur, sem enn heldur úti morgunleikfimi á Rás eitt. Þess í stað voru ýmsir nefndir sem aldrei hafa komið nálægt morgunleikfiminni.


Spillt hugarfar

Í hinu svo kallaða góðæri, sem sumir Íslendingar nutu í upphafi aldarinnar og var í raun aðdragandi hrunsins, loddi sá orðrómur við suma fjölmiðla að fyrirtæki greiddu fyrir umfjöllun þeirra um sig. Óþarft er að nefna nöfn þeirra blaða sem í hlut eiga, sum þeirra voru dagblöð og önnur vikublöðð.

Í almennri blaðamennsku er gerður skýr greinamunur á auglýsingum og greinaskrifum. Sú viðleitni eins fjömiðils að selja umfjöllun um einstök fyrirtæki, dregur úr gildi fjölmiðilsins og veldur því að fólk efast um sannleiksgildi þess sem sagt er og skrifað um. Hið sama á einnig við um kostun einstakra liða sem eru á dagskrá fjölmiðlanna. Þegar dagskrárliðirnir eru orðnir að auglýsingu fyrir stórfyrirtæki landsins dregur mjög úr trúverðugleika þess sem fjallað er um, enda eru dæmi þess að stjórnendur fyrirtækjanna hafi kippt í vissa spotta og komið annig í veg fyrir að sitthvað yrði sagt.

Stjórnendur fjölmiðlanna verða einnig að fara með gát. Nú dynur á eyrum hlustenda Rásar tvö auglýsing um þáttinn Bergsson og Blöndal þar sem Páll Magnússon, útvarpsstjóri, lýsir einföldum smekk sínum, en hann velji það besta og hlusti því á Bergsson og Blöndal. Hvað um aðra dagskrárliði Ríkisútvarpsins? Eru þeir ekki þess virði að útvarpsstjórinn ljái þeim lið?

Hvaða skyldur hefur útvarpsstjóri við stofnun sína og starfsfólk hennar?


mbl.is Boðið „að auglýsa á óhefðbundinn hátt“ í Fréttablaðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband