Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Eftirvæntingin vex

Að undanförnu hafa Ríkisútvarpið, Morgunblaðið og aðrir fjömiðlar byggt upp mikla eftirvæntingu hjá tónlistarunnendum vegna Hörpu, en þar verða fyrstu tónleikarnir haldnir í kvöld. Þeim sem hafa verið áskrifendur árum saman að tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, gefst kostur á að vera viðstaddir tónleikana.

Lísa Pálsdóttir gerði ýmsu skemmtileg skil í þætti sínum Flakki á rás eitt síðastliðinn laugardag. Í gær var skemmtileg grein eftir gísla Baldur Gíslason í Morgunblaðinu og enn kveður við sama tón hjá Karli Blöndal í blaðinu í dag. Það hríslast sælukennd um allan líkamann við lestur viðtalanna og þau orð sem viðmælendur láta falla.

Eftirvæntingin er mikil. Því meira sem ég heyri og les verður tilhlökkunin meiri. Það er unaðsleg tilfinning að geta hlakkað til eins og barn sem hlakkar til jólanna eða afmælis síns.


Talar treimur tungum

Flest illmenni eiga það sameiginlegt að þau eru lygarar. Moammar Gadaffi leikur nú tveimur skjöldum. Erlendum fréttamönnum og stjórnvöldum telur hann trú um að líbísk stjornvöld fylgist með því að vopnahléð sé virt, en því miður skilja sumir fréttamenn arabisku og vita því betur. Líbískir fjölmiðlar minnast vart á vopnahléð en lýsa árásum skæruliðasveita og glæpamanna á hersveitir landsins. Á meðan bíða uppreisnarmenn þess að þeim berist liðsinni.

Það er dapurlegt til þess að hugsa að fréttir íslenska ríkisútvarpsins af gangi mála í Líbíu og öðrum stöðum eru að sumu leyti verr sagðar en þegar Axel Thorsteinsson sagði fréttirnar í gamla daga sem hann þýddi upp úr breska útvarpinu. Ef til vill væri affarasælast fyrir íslenska ríkisútvarpið að taka upp starfsaðferðir Axels.


Farsímavefur mbl.is fær verðskulduð verðlaun

 

Um helgina var Farsímavefur Morgunblaðsins,http://m.mbl.is/ verðlaunaður á vefsýningu sem haldin var í Smáralind. Er mbl.is óskað til hamingju með verðlaunin.

Morgunblaðið hefur lengi verið í fararboddi þeirra fjölmiðla sem gert hafa aðgengilega vefi á Íslandi. Öryrkjabandalag Íslands veitti Morgunblaðinu aðgengisverðlaun árið 2003, en blaðið hóf þegar á 10. áratug síðustu aldar að gera efni þess aðgengilegt blindum tölvunotendum. Til gamans má þess geta að fyrstu þreifingar um aðgang blindra að Morgunblaðinu fóru fram sumarið 1984, en þá veltu starfsmenn Blindrabókasafns Íslands því fyrir sér hvort festa ætti kaup á blindraletursprentvél af tegundinni Braillo 270. Í samræðum mínum við Jan Christophersen, forstjóra Braillo, kom fram  að norskt textavinnslukerfi, sem Morgunblaðið notaði, hentaði ágætlega til þess að framleiða efni með blindraletri. Morgunblaðið sá  sér ekki fært að taka þátt í slíkri tilraun, enda notendahópurinn örfámennur um þær mundir. Hugsanlega hefði lestur efnis á blindraletri tekið nokkurn kipp ef farið hefði verið að prenta valið efni úr Morgunblaðinu um þetta leyti. En Blndrafélagið hafði þá þegar hafið útgáfu hljóðtímarits og hafa vafalaust ýmsir félagsmenn þess talið að eftirspurn eftir blaðaefni væri þannig fullnægt.

Fréttina um verðlaunin er á þessari vefslóð

 

 http://mbl.is/frettir/taekni/2011/03/15/farsimavefur_mbl_is_verdlaunadur/

 


Listsigur Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Ríkisútvarpsins

Í kvöld var svo sannarlega boðið til tónlistarveislu hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands í Háskólabíói. Hljómsveitin lék kvikmyndatónlist eftir Erich Korngold, Nino Rota, Bernard Herrmann, Jonny Greenwood og fleiri, m.a. úr Guðföðurnum, Cinema Paradiso, Psycho og Planet of the Apes, ásamt syrpu með vinsælustu James Bond-lögunum.

Hljómsveitarstjóri var Benjamin Shwartz. Hljómsveitarstjóra og hljóðfæraleikurum var innilega fagnað að tónleikum loknum og lék hljómsveitin eitt aukalag.

Útsending Ríkisútvarpsins, sem þeir stjórnuðu, Bjarni Rúnar Bjarnason og Georg Magnússon, var með þeirri prýði að vart getur betra hand- eða á ég að segja hljóðbragð. Hafi leikur hljómsveitarinnar verið óaðfinnanlegur var útsendingin og hljóðdreifing á heims mælikvarða.

Efnisvalið á tónleikunum var afar fjölbreytt og gaf ágæta mynd af því besta sem samið hefur verið fyrir kvikmyndir.

Tónleikarnir hófust á tveimur verkum eftir austurríska tónskáldið Erich Wolfgang Korngold (29. maí 1897 -29 nóvember 1957), en hann helgaði kvikmyndatónlist ævistarf sitt að mestu leyti. Er merkilegt að hugsa til þess að áhrifa hans gætir enn á meðal kvikmyndatónskálda ríflega hálfri öld eftir andlát hans, samanber verk Veigars Margeirssonar.

Ekki verður hér fjallað um einstök verk tónleikanna. Þau voru hvert með sínu sniði og spegluðu vel það sem margir vita að kvikmyndatónlist er ekki óæðra listform eins og sumir hafa haldið fram. Margt af því, sem flutt var í kvöld, verður að teljast á meðal hins besta sem samið hefur verið síðasliðna öld.

Hljómsveitarstjórinn kynnti flest verk tónleikanna sjálfur og komst Arndís Björk Ásgeirsdóttir því sjaldan að. Þess ber að geta að kynningar hennar á sinfóníutónleikum eru einstaklega fágaðar og vel unnar svo að unun er á að hlýða. Undirritaður gat ekki varist hlátri þegar hljómsveitarstjórinn tilkynnti eftir að svítunni um Hróa hött lauk, að Íslendingar hefðu unnið Norðmenn í handbolta.

Tónlistarunnendur eru eindregið hvattir til þess að fara inn á vef Ríkisútvarpsins, www.ruv.is og hlusta á þessa einstæðu tónleika.

Aðstandendum öllum er óskað til hamingju með kvöldið.

Úr því að hljómsveitin nær að hljóma svona vel úr Háskólabíói fyrir tilstilli meistara Ríkisútvarpsins, hvernig skyldi hún þá hljóma úr Hörpu? Væntanlega betur í salnum, en vart verður lengra komist í útvarpi.


Davíð konungur, hryðjuverkamaður og sálmaskáld

Ég hlusta á rás eitt á morgnana. Um það leyti sem morgunbænin hefst byrjum við hjónin morgunverð.

Um þessar mundir fer prestur nokkur með bænina. Byggir hann textann á sálmum Davíðs konungs og vangaveltum um speki hans.

Þegar Biblían er lesin og sett í samhengi við þá tíma sem lýst er, lýkst ýmislegt upp fyrir mönnum. Þannig er augljóst að Davíð konungur hefði verið flokkaður með hryðjuverkamönnum á vorum dögum. Hann átti það sameiginlegt mð Ísraelsmönnum nútímans að hann var landtökumaður. Hann beitti öllum brögðum til að sölsa undir sig lönd annarra og hlífði þá engum, enda skákaði hann í skjóli meints vilja Guðs.

Í raun var Davíð samviskulaus óþokki sem iðraðist sjaldan. Það er umhugsunarvert að velta því fyrir sér á hvaða grunni kristin trú er talin standa. Í raun væri boðskapur Krists nægur lærdómur sannkristnum sálum þótt ekki sé bætt við frásögnum og vangaveltum um þann óþjóðalýð sem stýrði Ísraelsmönnum, meintri útvalinni þjóð Guðs.

Kemur þá að merg málsins. Voru spádómarnir um fæðingu Messíasar þess eðlis að kristnir menn geti ímyndað sér að Jesús hafi verið Messías? Voru ekki spádómarnir settir fram þegar Ísraelsmenn voru í mikilli neyð og þurftu á hughreystingu að halda? Var þeim ekki lífsnauðsyn að eignast friðarhöfðingja og mann sem allar þjóðir lytu?

Því betur sem ég kynni mér sögu þeirra feðga, Davíðs og Salómons kviknar meiri andúð á þeim og frændgarðinum öllum. Það er víst þekkt í mannkynssögunni að ýmsir hrottar hafi ort fögur kvæði sem hafa haldið nafni þeirra á lofti. Ætli Davíð konungur sé ekki einn þeirra, sjálfselskur og eigingjarn hrotti sem afsakaði gerðir sínar með orði Guðs

Ætli sé þá ekki best að enda þennan pistil á þeirri bæn að guð verði sálu hans náðugur. Einnig bið ég þess að íslenskir prestar vandi betur val sitt á orðum þeim er þeir veita yfir landslýð á morgnana.


Gamalt fólk fer ekki út á kvöldin - útvarpsleikrit

Jólaleikrit Ríkisútvarpsins, Gamalt fólk fer ekki út á kvöldin, var flutt í dag, annan dag jóla árið 2010. Leikurinn fjallar um öldruð hjón sem fá til sín tvo sölumenn. Þeir eru svo ágengir að það veldur óþoli þees er á hlýðir. Þótt hegðun sölumennanna sé e.t.v. yfir siðferðismörkum er greinilegt að höfundurinn hefur vandlega velt fyrir sér hveri setningu og leikstjórnin var til hreinnar fyrirmyndar.

Hljóðmynd leikritsins var einföld og í sjálfu sér óaðfinnanleg. Það hefði þó aukið gildi hennar að hafa dauf umhverfishljóð í bakgrunni, t.d. þegar farið var inn í svefnherbergi hjónanna sem vissi að bílastæðinu við blokkina.

Þorsteinn D. Marelsson (1941-2007) hófst handa við að rita útvarpsleikrit á 8. áratug síðustu aldar. Nokkur viðvaningsbragur var á fyrstu leikritum hans, en honum óx ásmegin og fór stöðugt fram. Innan skamms varð hann einn okkar fremstu höfunda útvarpsleikritahöfunda eins og verkið, sem útvarpað var í dag, ber svo ljóst vitni um.

Ekki verður lagt mat á frammistöðu leikaranna, enda óþarft því að hún var gallalaus. Leikstjórinn, sem þekkir útvarpið jafnvel og Þorsteinn Marelsson gerði, hefði þó mátt gera´kossaatriðið ögn ástríðufyllra, því að ástir gamals fólks eru einatt ástríðuþrungnar, þótt um annars konar nautnir og ástríður sé að ræða en hjá ungum elskendum eða nýgiftum hjónum.

Skilyrðislaust er mælt með þessu leikriti sem er á meðal þess besta sem flutt hefur verið í Ríkisútvarpið á þessu ári.


Fjölmiðlar þegja um málefni Gildis

Jóhann Páll Símonarson, sem á aðild að lífeyrissjóðnum Gildi, hefur kært stjórnendur sjóðsins til ríkissaksóknara. Í bréfi sínu, sem dagsett var 22. september síðastliðinn, telur hann að tap sjóðsins árið 2008 og 2009 sé langt umfram það sem telja megi eðlilegt. Ríkissaksóknari sendi bréfið áfram til ríkislögreglustjóra, en 30. sept. sl. hafði verið ákveðið að taka skyldi málið til rannsóknar.

Hinn 11. nóvember skrifaði lögfræðingur gildis, Þórarinn V. Þórarinsson, embætti ríkislögreglustjóra bréf þar sem hann krafðist þess að rannsókn málsins yrði hætt og hinn 17. nóvember barst ríkislögreglustjóra bréf frá Fjármálaeftirlitinu þar sem því varr lýst að ekki sé ástæða til þess að hefja rannsóknir á málefnum Gildis. Taldi því ríkislögreglustjóri hvorki tilefni né grundvöll til að aðhafast frekar í málinu. Undir bréfið ritaði Alda Hrönn Jóhannsdóttir, settur saksóknari efnahagsbrotadeildar.

„Hugsaðu þér. Settur saksóknari spyr fjármálaeftirlitið hvort ekki sé allt í lagi með Gildi,“ sagði Jóhann Páll í samtali við undirritaðan. „Ég spyr því hvernig efnahagsbrotadeildin ætli að verja sjálfstæði sitt eftir þetta.“

Jóhann hefur ákveðið að kæra þá ákvörðun setts saksóknara efnahagsbrota að hætta rannsókn á háttsemi stjórnar og starfsmanna Gildis, „en sjóðurinn hefur tapað gríðarlegum fjármunum undanfarið og kemur við sögu í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Það var reyndar helsta ástæða kærunnar.

Sérstök athygli er vakin á því að Fjármálaeftirlitið, sem lögum

samkvæmt á að hafa eftirlit með lífeyrissjóðum landsmanna, virðist líka hafa ráðið mestu um að settur saksóknari efnahagsbrota ákvað að hætta þeirri rannsókn, sem stóð til að gera,“ sagði Jóhann Páll.

Jóhann Páll segir að fjölmiðlar hafi ekkert fjallað um rannsókn þessa máls, en þeim hafi verið send öll málsgögn. Telur hann að þeir þjóni hagsmunum atvinnuveitenda og verkalýðsforystunnar, en hinn almenni sjóðsfélagi hafi lítið að segja um málið.

Á síðu Jóhanns Páls, http://jp.blog.is, kemur fram að lífeyrissjóðurinn Gildi hafi tapað 59,6 milljörðum kr árið og árið 2009 hafi tapið numið um 52 milljörðum kr. Samtals nemi því tapið um 110 milljörðum. Jóhann segir að 52 milljarða skorti til þess að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.

Nokkur málsskjöl eru birt sem fylgigögn þessarar færslu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hvert útvarpslistaverkið öðru betra

Um þessar mundir er hvert listaverkið öðru betra á dagskrá ríkisfjölmiðlanna.

Í dag verður útvarpað seinni þremur leikritum Hrafnhildar Hagalín Guðmundsdóttur um einfarana. Leikritin eru stutt, gæðin misjöfn, en öll eru þau góð og sum á meðal þess besta sem ritað hefur verið fyrir útvarp. Hlustendur geta notið þeirra á vef Ríkisútvarpsins í nokkurn tíma eftir að þeim hefur verið útvarpað.

Þá verður á dagskrá sjónvarpsins í kvöld heimildamyndin Álfahöllin, sem Jón Karl Helgason gerði í tilefni 60 ára afmælis Þjóðleikhússins. Íslandsklukkan í leikstjórn Benedikts Erlingssonar er meginþráðurinn sem myndin er ofin um og var einróma álit áheyrenda, sem sáu frumsýningu hennar í Þjóðleikhúsinu í gær, að vel hefði til tekist um gerð myndarinnar. Það hríslaðist um suma sælukennd þegar gamlar ljósmyndir eða kvikmyndir birtust. Um undirritaðan fór skjálfti þegar hann heyrði brot úr lokaþætti Þrymskviðu sem sýnd var árið 1974 og þyrfti að taka á ný til sýningar.

Áberandi var hvað hljóðsetningin var góð og aldrei komu högg mili atriða eins og svo títt er um kvikmyndir, enda er Jón Karl gjörkunnugur útvarpi sem dagskrárgerðarmaður. Jón Karl Helgason fékk í fyrsta sinn birt eftir sig efni í Ríkisútvarpinu árið 1973, þegar hann var 6 vetra. Hann sendi okkur vísu í eyjapistil og minnir mig að fyrstu tvær hendingarnar hafi verið þannig:

Nú er gos í Heimaey, gufan er þar yfir.

Þá er og rétt að vekja athygli á Víðsjárþættinum um Matthías Jochumsson sem frumfluttur var á föstudaginn var. Þátturinn var að flestu leyti listavel gerður. Það spillti þó nokkru að tólist var látin hljóma undir frásögnum og kvæði. Þá var alls ekki nægilega vel vandað til kvæðalestrarins og til að mynda var lestur kvæðisins um móður skáldsins afleitur.

Að lokum eru menn hvattir til að hlýða á tónleika með sönglögum eftir Árna Thorsteinsson, en þeir voru ritdæmdir á þessum síðum fyrir skömmu.


Árinni kennir illur ræðari

Ellert B. Schram, fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins og síðar Samfylkingarinnar, ritar grein í Fréttablaðið í fyrradag, 10. nóvember, til varnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Telur hann þar upp ýmislegt henni og Steingrími Sigfússyni til varnaðar. Greinin er rituð að þekkingu og sanngirni sem er sjaldgæft nú á dögum.

Ellert gerir m.a. að umræðuefni hvernig flestir fjölmiðlar landsins hamast á ríkisstjórninni, hverju nafni sem þeir nefnast og gera hvað þeir geta til þess að hampa því sem miður fer.. Ellert bendir á að núverandi stjórnarflokkar hafi ekki borið ábyrgð á hruninu (Samfylkingin ekki nema að litlu leyti) heldur fáist þeir nú við það erfiða verkefni að rétta við þjóðarskútuna.

Í grein sinni minnist Ellert sérstaklega á einn ónefndan miðil sem fer hamförum í andstöðu sinni við ríkisstjórnina. Nefnir hann m.a. háðsglósur ritstjóra miðilsins í garð Jóhönnu Sigurðardóttur.

Þessi skrif miðilsins hafa að undanförnu verið til umræðu á meðal hóps sem ég umgengst. Ég hef ekki kannað stjórnmálaskoðanir þeirra sem hafa rætt málið, en veit þó að einhverjir styðja Sjálfstæðisflokkin, aðrir Vinstri græna og enn aðrir Samfylkinguna. Virðist það einróma álit þeirra sem tjá sig um málið að þessi tiltekni miðill sé kominn niður á götustrákastig í leiðaraskrifum sínum og að minnsta kosti sumir innan ritstjórnarinnar höndli vart annað en menntaskólakími.

Dr. Jakob Benediktsson sagði einu sinni frá samskiptum sínum við tvo vini, sem báðir eru rithöfundar, þekktir fjölmiðlamenn og hefur annar þeirra jafnvel fengist við stjórnmál. Hann sagði: "Þetta eru ekkert annað en götustrákar. Þeir tala og skrifa eins og götustrákar og allur málflutningur þeirra ber þeþví vitni að þeir séu götustrákar."

Það er sorglegt þegar menn vaxa ekki upp úr slíkum stráksskap. Það er dapurlegt til þess að vita að skrifum slíkra manna fylgir fátt uppbygglegt. Hæðnin, þótt hún geti verið beitt úr penna þeirra, verður marklaus því að sama síbyljan er endurtekin með ýmlsum tilbrigðum - síbylja sem ber vitni um þráhyggju og afturför.


Skemmdarverk á Ríkisútvarpinu

Ríkisútvarpið er nú verulega laskað eftir breytingar sem gerðar hafa verið til þess að draga úr kostnaði við rekstur stofnunarinnar. Líkur benda til að þar sé ekki allt sem sýnist. Sagt er að nýir stjórnendur hafi ekki næga þekkingu á starfsemi stofnunarinnar og er sem dæmi tekið að útvarpsstjóri heilsaði víst ekki upp á starfsmenn rásar 1 fyrr en ári eftir að hann var ráðinn.

Dregið hefur verið úr rekstri svæðisstöðvanna. Nú er enginn fastur starfsmaður á Ísafirði og einungis einn fréttamaður á Egilsstöðum.

Ríkisútvarpið átti 600 fermetra hús á Akureyri sem selt var árið 2002 þegar starfsemin var flutt í leiguhúsnæði. Flutningarnir kostuðu um 100 milljónir króna en aðeins fengust tæpar 30 milljónir fyrir húsið sem selt var. Nú hefur verið gerður samningur við Háskólann á Akureyri sem sagður er mjög hagstæður fyrir Ríkisútvarpið. Húsnæðið nær ekki 100 fermetrum. Þar á að vera eitt lítið og þröngt hljóðver og þröng aðstaða fyrir 8 skrifborð. Ekki er pláss fyrir fatahengi, nánast engin kaffistofa og ein lítil snyrting. Á móti fær Ríkisútvarpið aðgang að mötuneyti Háskólans, fundarherbergjum og hátíðarsal. Þykir samningur þessi tilmarks um metnaðarleysi og skort á áhuga yfirmanna stofnunarinnar á því að hún geti rækt hlutverk sitt á landsbyggðinni. Þá hefur verið á það bent að Ríkisútvarpið geti ekki lengur fjallað með hlutlægum hætti um málefni Háskólans á Akureyri þar sem hagsmunatengsl séu of náin.

Dagskrá Ríkisútvarpsins hefur verið mótuð til margra ára af lausráðnu dagskrárgerðarfólki sem hefur ekki fengið há laun fyrir vinnu sína. Fólkið hefur unnið sem verktakar og ekki öðlast nein réttindi þrátt fyrir áralangt starf fyrir stofnunina. Nú hefur flestum lausráðnum dagskrárgerðarmönnum verið vísað á dyr. Birtist það m.a. í því að fátt er um nýja og frumlega þætti en endurtekið efni er í staðinn mikill hluti dagskrárinnar.

Fjölmiðlar hér á landi hafa hvorki fjallað um málefni Ríkisútvarpsins á málefnalegan hátt né af neinni þekkingu. Leiðaraskrif Morgunblaðsins hafa mótast mjög af óvild í garð stofnunarinnar og litlum skilningi á því hlutverki sem henni er ætlað samkvæmt lögum. Fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur heldur ekki fjallað um þessi mál með hlutlægum hætti og jafnvel haldið upplýsingum frá hlustendum og áhorfendum sjónvarps. Því hefur verið haldið fram að fréttastjóri Ríkisútvarpsins hafi skipað fréttamönnum að matreiða fréttirnar af niðurskurðinum með tilteknum hætti og alls ekki hafi mátt spyrja um sparnað eða kostnað við ákveðnar aðgerðir. Sem dæmi hefur verið tekin frétt Ríkisútvarpsins sjónvarps um fyrirhugaða flutninga í húsnæði Háskólans á Akureyri. Fréttastjóri mun hafa bannað fréttamanni að spyrja um kostnaðinn og ekki mátti heldur upplýsa um þann kostnað sem hlaust af sölu húsnæðis Ríkisútvarpsins árið 2002 og vegna flutninganna.

Það vakti athygli fyrir skömmu að ekki var greint frá tapi Ríkisútvarpsins af því að missa útsendingarréttinn af tilteknum íþróttaviðburðum. Hvorki voru birtar tölur um kostnað vegna viðburðanna né þær tekjur sem auglýsingar skiluðu. Þá gengur fjöllunum hærra að fréttastjórinn hafi ráðið og rekið fólk að eigin geðþótta og sjaldan spurt um reynslu eða hæfni.

Vakið hefur athygli að ýmsir sumarstarfsmenn fréttastofunnar virðast hafa afar takmarkaða þekkingu og íslenskukunnátta þeirra sumra er í lágmarki. Viðmælandi bloggsíðunnar, sem var starfsmaður fréttastofu Rúv um árabil orðaði þetta svo: „Fréttastjórinn heldur um sig hirð jábræðra- og systra og stór hópur fréttamanna er eins og hrædd dýr sem þora hvorki að æmta né skræmta. Á hinum endanum eru nokkrir óánægðir fréttamenn sem hugsa sinn gang.“

Málsmetandi menn í hópi fjölmiðlafólks telja jafnvel að nú sé svo fyrir fréttastofu Ríkisútvarpsins komið að hún geti ekki fjallað um ýmis mál með hlutlægum hætti. Fátt sé orðið eftir af reyndum fréttamönnum og ekki vinnist lengur tími til að vinna fréttir og afla gagna með sama hætti og áður. Þá virðist sem fréttaskýringar heyri sögunni til og fréttastofunni hafi ekki tekist að framreiða jafnvandaðar fréttir og heitið var þegar síðustu breytingar voru kynntar. Því er hætt við a fari að molna undan fréttastjóranum ef heldur fram sem horfir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband