Færsluflokkur: Menning og listir
Í gamla daga, þegar ég var barn, hófst vetrardagskrá ríkisútvarpsins á fyrsta vetrardag og þá var yfirleitt eitthvað gert fólki til hátíðarbrigða enda gerðist ýmislegt fleira þann dag. Klukkunni var til að mynda seinkað.
Nú hefst vetrardagskrá ríkisútvarpsins upp úr mánaðmótunum ágúst-september. Í þetta skipti fer hún tiltölulega vel af stað, a.m.k. á rás 1.
Nokkrir þættir, sem voru á dagskrá í fyrra, hefja nú aftur göngu sína. Má þar nefna Flakk Lísu Pálsdóttur, en Lísu tekst oft vel upp í vali viðfangsefna. Þá gladdi mig mjög að heyra að Ársól Njarðar P. Njarðvíkur er enn á dagskrá. Umfjöllun Njarðar og sú umgerð, sem hann býr ljóðnum, ber vott um yfirburðaþekkingu og fágun í framsetningu. Þá er Kvika einnig fróðlegur þáttur um kvikmyndir. Þótt ýmsir þættir séu hér ekki nefndir er enginn hörgull á góðu dagskrárefni rásarinnar. Nefndir skulu Stef Bergþóru Jónsdóttur, þættir Unu Margrétar Jónsdóttur, Hlaupanótan, Stjörnukíkir o.fl.
Í gær hófst nýtt spennuleikrit hjá Ríkissjónvarpinu, sem gert er eftir sögu Ævars Arnar Jósefssonar. Mér varð að vísu á að sofna undir því og sskreiddist fram í eldhús þegar ég vaknaði að fá mér kaffi þegar ég áttaði mig á að ég átti lítið erindi við höfundinn og persónur hans. Með ólíkindum er að nokkur, sem er jafnósvífinn og kjaftfor og einn sóðakjafturinn, sem er leynilögreglu- eða rannsóknarlögreglumaður í þættinum, fengi vinnu hjá nokkru lögregluembætti landsins. Sú persóna er afar ósannfærandi og ýmislegt í umgerð þáttanna olli vonbrigðum. Samtölin voru þar að auki illa skrifuð og málfarið hreinlega ljótt. Tónlistin var ofnotuð og stundum spurði ég mig til hvers hún væri ætluð.
Minn betri helmingur sagðist samt ætla að fylgjast með þáttunum og gefa þeim tækifæri.
Vissu lega er það gleðiefni þegar Ríkissjónvarpið mannar sig upp og framleiðir eða kaupir eitthvað af íslensku sjónvarpsefni. Síðasta laugardagskvöld minnti helst á kvikmyndaleigu þar sem ekkert var sýnt nema bandarískar kvikmyndir. Án þess að nefna einstakar kvikmyndir verð ég að segja sem er að mér ofbýður að ríkissjónvarpið skuli bjóða fólki þrjár kvikmyndir í röð sem lýsa bandarískum viðhorfum og hella um leið yfir hlustir manna bandarískri ensku.
Ánauð enskunnar er orðin svo yfirþyrmandi í öllu okkar umhverfi að ástæða er til að spyrna á móti. Menn hafa reynt að þýða tölvuumhverfið og tókst það að mörgu leyti vel. Um leið og kafað er í hugbúnað tölvunnar verður enskann á vegi tölvunotendanna. Íslenskan er einungis á yfirborðinu.
Ríkisútvarpið vegur nú að íslenskri tungu með því að ausa yfir landslýð stanslausri ensku. Flest menningarsamfélög, sem vilja standa undir nafni, talsetja erlendar kvikmyndir. Hér er það nær eingöngu gert með barnaefnið.
Að lokum: Ástæða er til að vekja athygli á að tækni er fyrir hendi sem gerir kleift að útvarpa á sérstökum rásum lýsingum á því sem gerist í sjónvarpskvikmyndum. Jafnvel er hægt að koma slíkum lýsingum við íkvikmyndahúsum og fá þeir, sem þess þurfa, sérstök heyrnartól. Með þessum hætti getur blint fólk notið kvikmynda og sjónvarpsefnis.
Menning og listir | 22.9.2008 | 09:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Elísabet fylgdist með nokkrum börnum sem leituðuðu á vit ævintýra úti í Gróttu undir leiðsögn þeira Óskar Vilhjálmsdottur og Margrétar H. Blöndal. Efnistök hennar voru skemmtileg og hljóðumhverfið sannfærandi. Hreyfing barnanna naut sín vel enda voru þau á sífelldu iði eins og börnum er einum lagið.
Það lá við að hljóðhimnurnar dyttu úr mér þegar ég heyrði blessuð börhnin syngja lagið Fréttaauka við ljóð Ása í Bæ. Af frásögninni mátti skilja að einhvern tíma hefði verið sýndur við lagið leikþáttur eða dans þar sem efni ljóðsins var leikið. Það væri gaman að heyra meira um þetta. Þá sagði lítil hnáta, Vaka að nafni, frá því að lagi hefði einu sinni verið bannað vegna þess að það væri svo sorglegt. Þetta er einhver þjóðsaga. Það hefur aldrei verið bannað.
Lagið Fréttaauki hefur ekki komið út á hljómplötu árum saman í poppútsetningu. Árni Johnsen söng það síðast, en eitthvað mistókst honum millikaflinn. Popphljómsveit hefur hins vegar ekki flutt það í bráðum 30 ár.
Af söng barnanna að dæma virðist A-kafli lagsins vera tekinn að breytast, en hálftónana í lok hans ræður fólk yfirleitt ekki við. Merkir það víst að lagið sé orðið almenningseign.
Vilji einhver popptónlistarmaður gefa það út er honum það velkomið. Mælist ég þó til þess að farið verði rétt með laglínuna.
Menning og listir | 13.9.2008 | 18:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við hjónin héldum á Óðinstorg og vorum viðstödd ávarp nýja borgarstjórans sem boðaði frið og óvænt bandalög um hvers kyns hluti enda voru fyrrverandi borgarstjórar nærri.
Þá flutti Þórarinn Eldjárn, skáld, kvæði sitt um menningarnótt þar sem hann henti gaman að nafninu. Næturnar væru nafnlausar en dagarnir ekki. Hvers vegna ætli menn ríghaldi í þetta heimskulega nafn? Ég veit ekki betur en menningarnóttin hafi byrjað þegar löngu fyrir hádegi.
Við leituðum að leiktækjum handa Birgi litla Þór og fundum róluvöll á Lindargötunni. Þar vorum við í friði og ró og heyrðum vart í nokkru nema regninu.
Þaðan héldum við í Hallgrímskirkju og vorum viðstödd þegar biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, afhenti Liljuna, tónlistarverðlaun þjóðkirkjunnar í fyrsta sinn. Þau hlutu Haukur Guðlaugsson, Marteinn Hunger Friðriksson og Jón Stefánsson. Eru þeim fluttar alúðar hamingjuóskir.
Þessu bloggi fylgir gleðiklappið í kirkjunni þegar ljóst var hverjir hlytu verðlaunin.
Menning og listir | 23.8.2008 | 17:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við hófum yfirreiðina í Byggðasafni Hafnarfjarðar og skoðuðum það í krók og kring. Nokkuð þótti okkur skorta á að hlutir væru skilmerkilega merktir.
Meginhluti byggðasafnsins í Hafnarfirði er varðveittur í gömlu pakkhúsi á þremur hæðum. Varð mér hugsað til þess siðar Íslendinga að koma slíkum sýningum ævinlega fyrir í jafnóaðgengilegu húsnæði og þetta hús er. Ekki veit ég til þess að gerð hafi verið nein tilraun til þess að bæta úr aðgengi í þessu húsi. Hús eru eins og skip. Þau breytast með breyttum tíðaranda og eitt af því sem ætti að vera sjálfsagt er að bæta aðgengi hreyfihamlaðra að því húsnæði sem notað er undir slíka starfsemi.
Sunnan úr Hafnarfirði stormuðum við norður í Reykjavík eða inneftir eins og sumir orða það. Námum við staðar á Sjóminjasafninu þar sem Sigrún Magnúsdóttir, framsóknarkona, ræður ríkjum. Við afgreiðslu sat maður hennar, Páll Pétursson, fyrrum félagsmálaráðherra, og heilsuðumst við. Þetta sjóminjasafn er um margt vel heppnað og þar hefur verið gerð nokkur tilraun til þess að gera vissa hluti þess aðgengilega hreyfihömluðu fólki. Sumt af því hefði mátt hugsa betur og hefur e.t.v. verið gert. Páll sagði mér að fyrstu hugmyndir um sjóminjasafn í Reykjavík væru 100 ára gamlar. Íslendingar höfðu aldrei á því rænu að varðveita eitthvað sem markvert væri og gæti orðið grundvöllur ríkisrekins sjóminjasafns. Allir muna hvernig fór fyrir bátaflota þjóðminjasafnsins sem brann suður í Kópavogi fyrir nokkrum árum. Það er eitt af vorum vondu menningarslysum.
Það er til dæmis merkilegt að enginn kútter skuli lengur vera til, sjófær hér á landi, enginn gufutogari eða nýsköpunartogari og lítið af íslenskri skipasmíði. Þó verður að geta þess sem vel er, en Ísfirðingar og Siglfirðingar hafa verið þar til einnar mestrar fyrirmyndar. Þá á Þorvaldur Skaftason heiður skilinn fyrir að hafa bjargað Húna II frá glötun. Vestmannaeyingar eiga ekkert sjóminjasafn og fátt sem minnir á hina glæstu skipasmíða- og útgerðarsögu byggðalagsins.
Við héldum um borð í Óðin, en þangað hef ég ekki komið í 47 ár, minnir að ég hafi einhvern tíma farið með Magga vini mínum í Skuld þangað á árum áður. Eða var það kannski Þór árið 1959? Um borð í Óðni hittum við Ólaf Sigurðsson, skipherra, en hann fór með Eiríki Kristóferssyni að sækja skipið til Danmerkur árið 1960. Var Ólafur þar til sýnis í embættisskrúða sínum og skiptumst við á vinsamlegum athugasemdum eins og við erum vanir þegar við hittumst.
Óðinn er gott dæmi um það sem hægt er að gera til þess að varðveita gamlar minjar ef vilji er fyrir hendi. Vonandi fær hann að fljóta sem lengst við hafnarbakkann í Reykjavík og minna ókomnar kynslóðir á þá baráttu sem heyja varð til þess að ná þeim árangri sem löngu er kunnur orðinn.
Eftir að heim kom las ég á mbl.is frétt um hugleiðingar Björns Bjarnasonar um að kanna hvort hægt væri að taka upp myntsamband við Evrópubandalagið. Fór ég inn á heimasíðu Björns til þess að lesa það sem hann hafði skrifað í dag. Ég lít öðru hverju inn á síðuna því að oft er bæði fróðlegt og skemmtilegt að lesa það sem Björn hefur að segja. Hann setur mál sitt fram með afar hnitmiðuðum hætti enda gamall blaðamaður og veit hvernig á að fjalla um málefnin.
Tvennt vakti athygli mína í skrifum Björns í dag: tilvitnun hans í fréttamenn sem greinilega létu skoðanir sínar á ljós á tilteknum mótmælaaðgerðum. Þvi miður er þetta slæmur siður sem margir blaða- og fréttamenn hafa tileinkað sér að geta ekki fjallað með huglægum hætti um málefni. Björn gætti þess hins vegar að leggja ekki dóm á þessi vinnubrögð.
Hitt voru vangaveltur hans um myntsamband okkar við Evrópubandalagið. Ég hélt í einfeldni minni að yfirvöld í Brussel hefðu endanlega blásið þessar hugmyndir af fyrir nokkrum mánuðum, enda verður að segja að umfjöllun áhugamanna um Evruna voru næsta einfeldingslegar í ljósi þess að ströng skilyrði eru sett fyrir upptöku Evrunnar og þar á meðal aðild að Evrópusambandinu. En Björn kemur þarna með ákveðið sjónarhorn sem vert er að skoða fremur en aðild að Evrópusambandinu.
Fyrir skömmu birtist í Morgunblaðinu úttekt á aðstöðu Íra innan Evrópusambandsins, en þeim hefur hækkandi gengi Evrunnar skapað ákveðið vandamál. Það er hin hliðin á því sem við Íslendingar höfum fengið að kynnast um þessar mundir.
Þess vegna er raunalegt til þess að hugsa að hagsmunasamtök hér á landi skuli ekki bindast samtökum um að efna til umræðu um þá kosti sem fyrir hendi eru í gjaldeyrismálum okkar. Ef til vill bera stjórnvöld nú gæfu til þess að koma þessum hugleiðingum í réttan farveg landi og lýð til heilla. Hæðið er að bankarnir geri það.
Menning og listir | 13.7.2008 | 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við Jón áttum nokkur samskipti á undanförnum árum og öll voru þau góð. Við kynntumst innan Kvæðamannafélagsins Iðunnar, en hann gekk í félagið fyrir nokkrum árum. Jón hét eftir afa sínum, Jóni Lárussyni, kvæðamanni frá Hlíð í Vatnsnesi, sem hafði erft listina að kveða af Bólu-Hjálmari, afa sínum.
Jón Ólafsson var hagleiksmaður til orðs og handa eins og hofið á Kirkjulæk ber glöggt vitni um. Hann unni fósturjörð sinni og mögnum alheimsins og æskti þess að hofið yrði griðastaður allra sem hlýddu kallinu um frið á jörð og kærleik í garð náungans.
Margir minnas Jóns með þakklæti og virðingu. Ég votta fjölskyldunni allri okkar Elínar dýpstu samúð vegna ótímabærs andláts hans.
Í virðingarskyni við þennan góða vin okkar allra birti ég með skjali þessu útvarpsviðtal sem hljóðritað var í Rangæingahofi skömmu áður en vígslan hófst.
Menning og listir | 26.6.2008 | 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við gripum í tómt. Eftir nokkra eftirgrennslan hittum við Hörð og tjáði hann okkur að ákveðið hefði verið að flýta þessum sunnudagstónleikum og hinum næstu til kl. 17 vegna fótboltans í sjónvarpinu. Hann sagði að fyrir nokkrum árum hefðu komið næstum engir ferðamenn á tónleika sem kepptu við sjónvarpsfótboltann en í dag hefðu komið nokkrir. Kvaðst hann ekki viss um hvort þetta hefði verið rétt ákvörðun.
Við gátum svo sem sjálfum okkur um kennt vegna þess að við höfðum ekki lesið bæklinginn nægilega vel og vanin ræður miklu.
Nágrannakona okkar sagði áðan: Andskotans fótboltinn! Hún hefur greinilega fengið nóg af íþróttadekrinu eins og fleiri.
Menning og listir | 22.6.2008 | 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þá hlýddi ég á Útvarpsleikhúsið flytja fyrsta þátt þríleiksins Besti vinur Hundsins eftir Bjarna Jónsson og nefndist hann lykillinn. Hljóðritunin var mjög góð og yfirleitt býsna sannfærandi. Hið sama á við um persónusköpunina.
Bjarni er þaulreyndur höfundur útvarpsleikrita og leikgerða og hefur nýlega verið tilnefndur til norrænu leiklistarverðalunanna, að vísu fyrir leikritið Óhappið sem hefur greinilega fallið dómnefdinni betur í geð en mér. Hann er hugmyndaríkur og fái hann verðlauninn verður Bjarni vel að þeim kominn.
Eitt af því sem mér þótti fara úrskeiðis í hljóðrituninni voru atriðin sem gerast í bílum. Þar var bílstjóri ævinlega í hægri rás en farþeginn til vinstri. Það er eins og hlustandinn horfi inn í bílinn að framan en sé ekki staddur inni í hljóðmyndinni. Þetta truflar migdálítið og finnst mér eins og ég sé í bíl sem ætlaður er fyrir vinstri umferð. Í slíkum bílum hef ég ekki setið lengi í öðrum löndum en Bretlandi.
Mér finnst Bjarni Jónsson yfirleitt skrifa fremur lipurlegan texta. Ég harma þó virðingarleysi hans fyrir viðtengingarhættinum. Vonandi bætir þetta góða leikskáld úr þessu. Þótt kunnátta almennings í notkun viðtengingarháttarins fari þverrandi er ástæðulaust fyrir leikskáld að láta undan síga.
Ég hlakka til næstu þátta þríleiks Bjarna.
Menning og listir | 20.3.2008 | 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Svo undarlega vill til að lesarinn virðist ekki hafa vald á viðtengingarhætti íslenskrar tungu. Dæmi:
Það var eins og hann hafði náð sér eftir langvinnan sjúkdóm.
Þá er nafn landsins Úkraínu ævinlega borið fram sem Úkranía. Stendur það e.t.v. í prentuðu útgáfunni? Ég trúi því tæplega.
Ég hef að undanförnu velt því fyrir mér vegna ýmissa dæma hvort eitthvað skorti á málfarslegt uppeldi nemenda í leiklistardeild Listaháskóla Íslands. Það er svo margt sem bendir til þess að fákunnátta um einföldustu atriði og almenn atriði evrópskrar menningar fari þverrandi og bitni á framsögn og lestri leikaranna. Stutt er síðan ágæt ævisaga var hreinlega eyðilögð með lestri ágæts leikara og útvarpsmanns af slíkum sökum.
Nú greiðir Ríkisútvarpið sæmilega vel fyrir upplestur útvarpssagna. Það ætti því að sjá til þess að betur væri vandað til verka.
Ég minntist um daginn á lestur Þórunnar Erlu- og Valdimarsdóttur á sögu sinni hér á þessum síðum. Sá lestur bar af eins og gull af eiri þegar hann er borinn saman við annað efni sem lesið hefur verið í útvarp að undanförnu.
Menning og listir | 4.3.2008 | 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þjóðleikhúsið var þétt setið í gærkvöld og hlógu menn dátt að sumum samtölunum. Efnisþráðurinn var þó nær enginn og persónusköpunin í meira lagi rýr.
Í lokin varð einhvers konar uppgjör á milli aðalpersónanna um framhjáhald en því fékkst í raun aldre lokið og ekkert brotið til mergjar.
Er ekkert boðlegra en þetta til að rifja upp úr íslenskri leikhússögu?
Menning og listir | 24.2.2008 | 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við hófum æfingar að morgni föstudagsins 11. janúar og héldum áfram eitthvað fram yfir hádegi. Ekki höfðum við fyrr lokið okkur af en formaður Öryrkjabandalagsins og framkvæmdastjórinn sögðu af sér.
Í gær var lokaæfing. Að henni lokinni sprakk borgarstjórnarmeirihlutinn. Við Vífill erum því sennilega liðtækir ef einhvers staðar þarf að hreinsa til.
Ég benti Guðrúnu Ásmundsdóttur á að í raun bæri hún ábyrgð á því hvernig fór fyrir fyrrum meirihluta. Hefðum við Vífill ekki staðið í að undirbúa þennan tónleik í dag gæti hafa farið svo að borgarstjórnarmeirihlutinn hefði haldið.
Guðrún tók þessu líklega en fékkst samt ekki til að styðja núverandi meirihluta.
Menning og listir | 22.1.2008 | 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
-
alla
-
axelthor
-
arnibirgisson
-
ormurormur
-
astafeb
-
bjarnihardar
-
gattin
-
dora61
-
saxi
-
jaherna
-
jovinsson
-
fjarki
-
gislisigurdur
-
gudni-is
-
gelin
-
gummigisla
-
heidistrand
-
helgigunnars
-
hildurhelgas
-
himmalingur
-
hoskibui
-
isleifur
-
jakobk
-
fun
-
jonhalldor
-
jon-o-vilhjalmsson
-
nonniblogg
-
juliusvalsson
-
kje
-
kristbjorggisla
-
methusalem
-
mortenl
-
moguleikhusid
-
skari60
-
rafng
-
ragnar73
-
fullvalda
-
duddi9
-
siggisig
-
saemi7
-
vefritid
-
thorirj
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 1
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 29
- Frá upphafi: 319991
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 21
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar