Færsluflokkur: Menning og listir

Þögnin eftir Andrés Indriðason - vel heppnað leikrit



Útvarpsleikhúsið 20. jan 2013 | 13:00



Þögnin eftir Andrés Indriðason. Leikendur: Esther Talía
Casey og Ólafur Egill Egilsson. Leikstjóri: Erling Jóhannesson. Hljóðvinnsla:
Einar Sigurðsson.



Andrés Indriðason hefur verið iðinn við kolann í útvarpi undanfarna
5 áratugi. Leikrit hans eru orðin mörg, ærið misjöfn að gæðum eins og gengur.



Frumflutningur Þagnarinnar var vel heppnaður. Ekki var
auðheyrt hvernig leikurinn endaði. Þó var byggð upp ákveðin spenna sem leystist
loks úr læðingi, eins konar sprenging. Leikararnir skiluðu sínum hluta með
aðdáanlegum hætti - blekkingin, hefndarþorsti, auðmýking og heift skinu í gen
þar sem við átti.





Hljóðmynd og leikstjórn



Á þessum síðum hefur nokkrum sinnum verið fjallað um
hljóðmyndirnar í útvarpsleikritum. Yfirleitt eru þær allvel heppnaðar og svo
var að mestu um hljóðmyndina í Þögninni.



Í öðru atriði leiksins var brugðið upp mynd af persónunum
þar sem þær voru á leið yfir fjalllendi í bifreið. Vegurinn ósléttur og
glamraði í bílnum. Greinilegt var að glamrinu var bætt ofaná hljóðmyndina því
að í því var bergmál, sem átti ekki heima þar. Þá var ökumaðurinn til hægri í
myndinni.



Þegar ég hef rætt slík atriði við tæknimenn og áhugamenn um
útvarpshlustun hafa flestir haldið því fram að þeim finnist þeir sjá inn í bifreiðina
inn um framrúðuna. Mér finnst ævinlega að ég sitji í bílnum með sögupersónunum
og þá sé eðlilegt að bílstjórinn sé vinstra megin.



Í 3. Atriði leiksins urðu tæknimanni eða leikstjóra á
afdrifarík mistök. Þá heyrðist bíllinn koma í hlað og ekki var ljóst hvort um
sömu tegund hafi verið að ræða. Út steig bílstjórinn vinstra megin og farþeginn
hægra megin.



Að öðru leyti var hljóðmyndin fremur sannfærandi. Á
veröndinni var hljóðumhverfið næsta eðlilegt. Timburgólf og eins og húsveggur í
nánd.



Atriðin inni í sumarhúsinu voru vel heppnuð og skondið var
að hlusta á aðra sögupersónuna hrapa niður snarbrattan stiga.





Tímaskekkja



Í öðru atriði leiksins hafði bílstjórinn orð á að nú væri
veiðitíminn hafinn, enda var hann eins búinn og haldið skyldi til rjúpna. Því
skaut skökku við að heyra í hrossagauk, lómi og lóu þegar út úr bílnum var
komið.





Veðrið



Í leikritinu var þoka, niðdimm þoka. Ég hafði á
tilfinningunni að í þessari þykku þoku bærðist vart hár á höfði. En viti menn.
Stundum strauk gola blíðlega um hljóðnemann, einkum þann vinstri. Þá hefði
þokan ekki átt að vera svona dimm.





Niðurstaða



Leikritið er vel saminn og söguþráðurinn sannfærandi. Við
framsetningu efnis í útvarpi þurfa tæknimaður og leikstjóri að vera vel á verði
til þess að halda trúverðugleika hljóðmyndarinnar.



Höfundi verksins og Útvarpsleikhúsinu er óskað til hamingju
með afraksturinn.




Skemmtilegur þáttur um Vestmannaeyjar sem yljaði hjartarótunum



Að undanförnu hefur verið útvarpað þáttum um íslenska
dægurlagatónlist áranna 1930-1990, en þessa þætti gerði Svavar Gests í tilefni
sextugsafmælis Ríkisútvarpsins árið 1990.



Í kvöld, 29. Desember, var 13. Þættinum útvarpað og fjallaði
hann um Vestmannaeyjar. Oddgeir Kristjánsson og þjóðhátíðarlög hans voru
meginefni þáttarins auk textahöfundanna. Ýmislegt bar þó fleira á góma og mátti
m.a. heyra tvíbura ú Vestmannaeyjum í mútum.



Hægt er að hlusta á þáttinn hér:



http://www.ruv.is/sarpurinn/laugardagskvold-med-svavari-gests/29122012-0



Svavar var margfróður um dægurlagatónlist fyrri ára, en gáði
ekki ævinlega að heimildum. Þannig heldur hann því fram að einungis tvö lög
eftir Oddgeir Kristjánsson hafi verið gefin út á hljómplötum áður en Svavar gaf
út fjögurra laga plötu með lögum eftir Oddgeir árið 1964. Þetta er ekki alls
kostar rétt hjá Svavari. Árið 1962 eða 1963 söng Ragnar Bjarnason Ship ohoj inn
á hljómplötu og áður hafði lagið Gamla gatan verið gefið út ásamt laginu Heima.
Gömlu götuna söng Helena Eyjólfsdóttir og Haukur Morthens Heima. Lögin voru því
a.m.k. fjögur eftir Oddgeir, sem áður höfðu komið út. Þá hafa menn löngum velt
vöngum yfir tilefni þess að Ási í bæ orti ljóðið „Ég veit þú kemur". Í þessum
þætti var birtur viðtalsbútur Árna Johnsen við Ása þar sem hann greindi frá því
að textinn við lagið hefði staðið á sér og hefði orðið til daginn áður en
Hljómsveit Svavars Gests kom til Vestmannaeyja. Þetta stenst ekki hjá Ása.
Fyrir því eru eftirtalin rök:



Svavar Gests kom með hljómsveit sína á þjóðhátíð árin 1961,
63 og 65. Árið 1961 var þjóðhátíðarlagið „Sólbrúnir vangar, sem Ragnar
Bjarnason söng, 1962 Ég veit þú kemur, sem Lúdó og Stefán flutti í skelfilegri
útsetningu, sem Oddgeiri sárnaði mjög, 1963 lag sem nú heitir Þá var ég ungur,
en var þá flutt við bráðabirgðatexta Ása sem kallaður var Steini og Stína og
árið 1965 „Ég vildi geta sungið þér", sem var síðasta þjóðhátíðarlagið sem
Oddgeir samdi. „Þar sem fyrrum" var þjóðhátíðarlag ársins 1964 og flutti
hljómsveitin Logar það með prýði.




Afbragðs útvarpsleikrit

Ásdís Thoroddsen er snjöll. Hún hefur margsinnis sýnt það sem kvikmynda- og útvarpsleikstjóri. Mörgum er vafalítið í fersku minni leikrit hennar sem flutt var í útvarpi fyrir nokkrum vetrum og fjallaði um ævi Jóns lærða Guðmundssonar, einkum Spánverjavígin á Vestfjörðum árið 1612.

 

Sunnudaginn 2. desember og í dag flutti Útvarpsleikhúsið leikrit hennar, Ástand, sem fjallar um unga stúlku, Guðrúnu, sem varð hrifin af breskum hermanni í upphafi hernáms Breta hér á landi og afskipti yfirvalda af henni. Þessi átakanlega saga snertir strengi í hjörtum þeirra sem á hlýða. Hljóðvinnslan er afbragðs góð, en Einar Sigurðsson hélt þar um taumana væntanlega undir styrkri leikstjórn leikstjóra og höfundar leikverksins.

 

Auðheyrt er að Ásdís hefur nýtt sér reynslu sína af gerð kvikmynda í þessu verki. Skiptingar voru snöggar og sviptu hlustendum úr einni hljóðmynd í aðra. Samhengið var hins vegar svo mikið og vel tengt að alls ekki varð til skaða.

 

Hljóðmyndin var yfirleitt sannfærandi. Hljóðmyndin í upphafi var allvel sviðsett, þegar blaðasöludrengur heyrðist kalla. Þeir hefðu reyndar mátt vera fleiri. Þarna sannaðist að vísu hið fornkveðna, að tímarnir breytist og mennirnir með. Hljóðumhverfið var ekki nægilega sannfærandi. Þar er hvorki við leikstjorann né hljóðritara að sakast heldur hitt, að hverju tímabili fylgir ákveðinn hljóðheimur sem erfitt er að endurskapa. Sem dæmi má nefna að of oft virtust bifreiðar þjóta hjá á malbiki, en þó er eins og leikstjórinn hafi stundum munað eftir þessu og bætt þar úr. Einnig voru bifreiðatengundir meira sannfærandi í seinni þættinum en þeim fyrri.

 

Ástand er á meðal hins besta sem gert hefur verið í íslensku útvarpsleikhúsi á þessari öld. Aðstendum þess er óskað til hamingju með árangurinn og lesendur þessarar færslu eindregið hvattir til að fara inn á vef Ríkisútvarpsins að leita verkið uppi.

 

 


Hágæða útvarpsefni á Rás eitt

Sunnudaginn 21. þessa mánaðar var fluttur í Útvarpsleikhúsinu fyrsti þátturinn af þremur, sem bera heitið Heimkoma. Þar kannar Jón Hallur Stefánsson eyðibýli ásamt Danskri útvarpskonu, sænskri konu og Argentínumanni. Þau leika sér að hljóðumhverfi eyðibýlanna og flétta sama við eigin vangaveltum og skynjun auk sagna, sem þau verða áskynja um og snerta sögu eyðibýlanna.

Þeir, sem hafa unun af vel gerðum útvarpsþáttum, ættu ekki að láta þá framhjá sér fara og tilvalið er að leita í sarpi Ríkisútvarpsins að fyrsta þættinum. Jón Hallur stóð um síðustu aldamót að athyglisverðum þáttum í ríkisútvarpinu sem gengu undir nafninu Vinkill. Þar leitaði hann ásamt samverkafólki sínu nýrra leiða og margt frumlegt höfðust menn þar að. Greinlegt er að Jóni Halli hefur ekkert farið aftur.

Þá var hlutur dönsku útvarpskonunnar skemmtilegur. Greinilegt er að hún hefur kynnt sér fléttuþáttatækni danska útvarpsins, sem er fyrir margra hluta sakir mjög sérstök og hefur orðið mörgum að fyrirmynd.

Ástæða er til að fagna þessu vandaða efni og mættu menn fá meira af heyra f slíku efni.


Harmsaga - nýtt útvarpsleikrit

Dagskrá Rásar eitt var fjölbreytt í dag. Hér verður fjallað um tvennt:

Það er jafnan með nokkurri tilhlökkun að ég sest niður og hlusta á ný útvarpsleikrit. Í dag var Harmsaga eftir Mikael Torfason frumflutt. Leiknum stýrði Sveinbjörn Birgisson, Hallvarður Ásgeirsson samdi tónlist og Ragnar gunnarsson hljóðritaði.

Söguþráðurinn var togstreita milli hjóna, sem vissu vart hvað hitt vildi og voru tvístígandi um þá ákvörðun að slíta hjónabandinu. Í leikritinu komu við sögu börn, en þau voru túlkuð með leikhljóðum með sama hætti og ýmiss konar búnaður er nýttur á leiksviði til þess að túlka margs konar fyrirbæri mannlífsins.

Flest var vel gert í þessu leikriti. Stundum var hljóðmyndin svo þröng, þegar samband hjónanna var náið, að víðómið nýttist ekki. Þarna hefði þurft að skapa umhverfi með einhvers konar þruski svo að menn fengju á tilfinninguna að fólkið væri statt í íbúð.

Í leikritinu koma fyrir samfarir og voru þær leiknar á sannfærandi hátt. Maðurinn svalaði sér á skömmum tíma og konan virtist einnig fá fullnægingu. Þó kann að vera að hún hafi látið sem svo væri. Leikmyndin (hljóðmyndin) var ekki sannfærandi. Ekkert rúmfatahljóð heyrðist og afstaða hjónanna skilaði sér illa.

Það er með ólíkindum hvað íslenskum rithöfundum þykir skemmtilegt að skrifa sóðalegan, enskuskotinn og illa saminn texta, en því miður bar mjög á því í leiknum. Ef til vill er það svo að gömul og gild blótsyrði séu að fara forgörðum í málinu og flest eða allt meiki sens eða sé andskotans fokking ..... Hitt er þó verra að ekki sé lengur hægt að skrifa á kjarnyrtu máli án þess að allt vaði í sóðaskap. Fyrir það fær Mikael Torfason falleinkun og leikritið í heild aðeins þrjár stjörnur.

Kl. 16:05 var þáttur Arndísar Bjarkar Ásgeirsdóttur, Úr tónlistarlífinu, á dagskrá. Birt var hljóðrit af tónleikum Víkings Heiðars Ólafssonar til minningar um kanadíska slaghörpuleikarann Glenn Gould. Efnisskráin var einstaklega vel saman sett og viðtöl við Glenn Gould, sem skotið var inn á milli ásamt hljóðritum af leik hans, gerðu dagskrána stórmerka. Auk þess er jafnan unun að hlusta á kynningar Arndísar, en þær eru fluttar á fága-an hátt og fögru máli.

Víkingur Heiðar túlkar það sem hann leikur einatt með afar sérstæðum hætti. Þannig endaði fyrsta verkið á stuttum samhljómi og var eins og hann hefði rokið frá hljóðfærinu. Auðvitað var ekki svo. Víkingur veldur ekki vonbrigðum.


Elsa á Bítlatónleikum

Um þessar mundir er þess minnst að þekkt Bítlalag kom út í Bretlandi. Á Rás tvö í morgun voru taldir upp nokkrir einstaklingar sem vitað var að sótt hefðu Bítlatónleika.
Elsa Guðmundsdóttir, kennari,  er ein þeirra sem nutu þess að fara á tónleika Bítlanna árið 1964. Hún sagði mér sögu sína fyrir nokkrum árum:
http://hljod.blog.is/blog/hljod/entry/1100086/

 


Hákarlaljóð - nýtt ljóðskáld kveður sér hljóðs

Staksteinar Morgunblaðsins eru stundum skemmtilegir. Í dag birtist þar þetta nútímaljóð. Höfundurinn er ókunnur. Ljóðið er birt á þessum síðum í heimildarleysi.

Hákarlaljóð


Menn muna eftir forsætisráðherranum sem sagði að
á Íslandi brysti á efnahagslegt öngþveiti ef þjóðin
segði ekki já við Icesave.
Hún sagði nei og aftur nei.
Menn muna eftir vitringnum sem stóð fyrir birtingu
hræðsluáróðurs sem sýndi ógnvænlegan hákarl
sem éta myndi hina heimsku þjóð ef hún segði ekki
já við Icesave.
Hún sagði nei og aftur nei.
O g menn muna eftir öllum fyrrverandi ráðherrunum
úr öllum flokkum sem látnir voru fylgja
hákarlaauglýsingunni eftir með þunglyndislegum
áhyggjum og dómsdagsspám ef þjóðin segði ekki já
við Icesave.
Hún sagði nei og aftur nei.
Fullyrt er að hákarlahópurinn hafi komið saman á
dögunum og enn þóst eiga meira erindi við þjóðina
en aðrir.
Augljóst virðist að áróðursherferð sem staðið hefur
í rúman áratug um að nei skuli þýða nei mun seint
og illa ná eyrum hóps, sem hlustar ekki á neitt sem
sagt er utan hans.


Sýning auglýsingamyndar stöðvuð um borð í Herjólfi

Nokkuð hefur verið fjallað um brot á sæmdarrétti vegna ógeðfelldrar endurvinnslu lagsins Þú og ég. Kvikmyndagerðarmenn hefur hent nokkrum sínum að gleyma að leita heimildar höfunda til þess að nota tónlist þeirra í kvikmyndum.

Fyrir um aldarfjórðungi varð sá atburður að farið var að sýna kynningarmynd um Vestmannaeyjar um borð í Herjólfi. Lag nokkurt, Vestmannaeyjar, sem ég er höfundur að, var notað sem undirstaða hljómgrunnsins.

Eftir því sem mér var tjáð var ætlunin að sýna þessa mynd í nokkra mánuði og átti að fjármagna hana með auglýsingum. Þar sem ekki hafði verið leitað heimildar höfundar til þess að nýta lagið var STEF fengið til að stöðva sýningu myndarinnar og var það gert bæði fljótt og vel. Framleiðandi myndarinnar hafði að engu bréfaskriftir þar til hótað var málsókn.

Heimildir herma að einungis hafi einn auglýsandi greitt auglýsingu sína og varð því tap af framleiðslu myndarinnar. Þegar upp var staðið nam greiðslan einungis 5.000 krónum. Þannig tapaði kvikmyndagerðarmaðurinn bæði fjármunum og ærunni.


Söngblæstri útvarpað úr Hörpu

 

Í dag var útvarpað hljóðriti frá tónleikum, sem haldnir voru í Hörpu á vordögum undir heitinu „Ég veit þú kemur". Var þar vitnað til hins ágæta lags Oddgeirs Kristjánssonar við texta Ása í Bæ.

Á tónleikunum fluttu þau Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðmundsson, tveir af okkar fremstu dægurlagasöngvurum,  ýmsar söngperlur frá 6. og 7. áratugnum. Útsetningarnar voru eftir Hrafnkel Orra Egilsson, sem hefur getið sér gott orð fyrir útsetningar sínar á íslenskum dægurlögum, sem sinfóníuhljómsveit Íslands hefur flutt ásamt einsöngvurum við góðan orðstír.

 

Hrafnkell Orri Hitti ekki ævinlega í mark

 

Nú brá hins vegar svo við að Hrafnkatli brást nokkuð bogalistin í Oddgeirsútsetningunum. Svo virðist sem hann hafi ekki leitað í útgáfu sönglaga Oddgeirs, heldur tekið mið af útsetningum og breytingum, sem kunnur útsetjari gerði á síðustu öld. Þar með voru lögin að hluta til afskræmd eins og lagið „Heima", sem mörgum Eyjamönnum þykir vænt um.

Undirritaður ákvað að fara ekki á þessa tónleika í vor. Ástæðan var sú að hann hefur nokkrum sinnum hlýtt á tónleika í Eldborg þar sem farið hefur saman rafmögnuð tónlist og leikur órafmagnaðra hljóðfæra. Hefur áður verið fjallað um það á þessum síðum. Þar sem greinarhöfundur telur að mikið vanti á að hljóðstjórnendur Hörpu þekki hvernig eigi að vefa saman órafmagnaða tónlist og háspinnutónlist, ákvað hann að láta ekki ofbjóða dvínandi heyrn sinni heldur vænti hann þess að tónleikunum yrði útvarpað.

 

Blásið í hljóðnemann

 

auðvitað bar ekki á þessu í útsendingu ríkisútvarpsins, enda kunna hljóðmenn Ríkisútvarpsins vel sitt fag. Hitt var verra að Sigurður andaði um of í hljóðnemann svo að veruleg lýti voru að. Virðist augljóst að hann kunni ekki að beita hljóðnemanum og hafi hann of nærri sér.

Á Netinu er hægt að finna fjölda greina sem fjalla um notkun stefnuvirkra hljóðnema eins og þeirra, sem söngvarar og ræðumenn nota. Meðal annarra atriða er mönnum bent á að hafa hljóðnemann til hliðar við munninn og láta hann vísa að munnvikunum. Þannig er hægt að komast nærri hljóðnemanum en forðast um leið þennan blástur, sem lýtir svo mjög flutning margra söngvara og ræðumanna.

 


Þegar komið var aftan að áheyrendum

 

Eins og undanfarin sumur stendur nú yfir orgelsumar í Hallgrímskirkju. Að  þessu sinni markast það af því að safnað er fé til viðgerða og endurbóta á hinu mikla clais-orgeli kirkjunnar, en 20 ár eru liðin frá því að hljóðfærið var tekið í notkun. Auk nauðsynlegs viðhalds verður að sögn Harðar Áskelssonar endurnýjaður ýmis hugbúnaður hljóðfærisins, en það liggur í hlutarins eðli að hugbúnað þarf að endurnýja eftir því sem tækninni fleygir fram. Nú verður m.a. hægt að varðveita stillingar orgbleikara á USB-kubbum og jafnvel verður hægt að hljóðrita leik þeirra.

 

Hörður Áskelsson og Inga Rós Ingólfsdóttir léku á orgel og selló

 

Okkur hjónunum hefur gefist tækifæri til að hlusta á nokkra þeirra frábæru listamanna sem komið hafa fram í sumar. Eru tónleikar þeirra hjóna, Harðar Áskelssonar og Ingu Rósar Ingólfsdóttur, sem haldnir voru 17. júní síðastliðinn, ógleymanlegir. Þau léku verk eftir Saint-Saëns og Rachmaninoff auk verka eftir Höller, Jón Leifs, Jón Hlöðver Áskelsson og Kjell Mörk Karlsen. Þrátt fyrir hinn gríðarlega stærðarmun á sellói og orgelinu gat Hörður hamið hljóðfæri sitt svo að hvort þeirra naut sín til fulls. Samleikur þeirra hjóna var eins og gott hjónaband, samvinna og virðing í fyrirrúmi. Inga rós hefur áferðarfagran tón og naut „þetta pínulitla selló", eins og Hörður orðaði það í samtali við höfund þessarar færslu, sín til hins ítrasta.

 

Komið aftan að áheyrendum

 

Í dag voru enn haldnir tónleikar í Hallgrímskirkju, þar sem leiddu saman list sína strengjaleikari og orgaleikari. Þau Eyþór Ingi Jónsson og Lára Sóley Jóhannsdóttir, fiðluleikari, léku verk eftir Svendsen,

Prokofiev, Barber, Lindberg og íslensku tónskáldin Magnús Blöndal Jóhannsson, Sveinbjörn Sveinbjörnsson og Oliver Kentish auk þess sem Eyþór Ingi og Lára Sóley

léku af fingrum fram.

Í raun hófu þau tónleikana með því að koma aftan að áheyrendum. Hófust þau handa við hið minna orgel kirkjunnar, sem er skammt frá altarinu og léku tilbrigði við lag Inga T. Lárussonar, „Ég bið að heilsa", eins og það er oftast nefnt. Samleikurinn var hægur og flæddi um alla kirkjuna. Þegar honum lauk var lokatóni orgelsins haldið þar til þau Eyþór Ingi og Lára Sóley hófust handa við stórhljóðfærið og varð úr þessu ein unaðsheild.

Lára Sóley hefur fallegan tón. Þótt stundum örlaði á því að hún hefði vart í fullu tré við meðleikara sinn verður að segja sem var, að samleikur þeirra var einstæður, túlkunin nærfærin og einatt blíð, þegar við átti.

 

Þessir tónleikar eu einungis teknir hér sem dæmi um hið ágæta efnisval og úrval listamanna, sem komið hefur fram í sumar. Enn er þessari tónlistarveislu ekki lokið og margt í boði.

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband