Færsluflokkur: Menning og listir

Verðskuldaður listsigur í Eldborg

Eldborgarsalur Hörpu var fullsetinn að kvöldi fyrsta mars þegar ópera þeirra Gunnars Þórðarsonar og Friðriks Erlingssonar, Ragnheiður,  var frumsýnd. Flutningurinn var einstaklega vel heppnaður og öllum aðstandendum til mikils sóma.

Þeir félagar, Friðrik og Gunnar, hafa skapað einstætt listaverk á heims mælikvarða. Salurinn fylltist af sorg þegar Ragnheiður var látinn sverja eiðinn og undir lokin, þegar hún háði dauðastríð sitt og síðar, þegar sonur hennar og yndi afa síns hafði verið jarðsunginnn, var andrúmsloftið sorgþrungið. Víða heyrðist fólk snökta og undirrituðum leið eins og í jarðarför góðs vinar eða ættingja.

Mikill og verðskuldaður fögnuður braust út að sýningu lokinni og voru listamenn og höfundar hylltir óspart.

Petri Sakari stjórnaði kór, hljómsveit og einsöngvurum að alkunnri snilld og lauk fólk jafnframt lofsorði á einfalda en áhrifaríka leikmynd Grétars Reynissonar.

Höfundum og öðrum aðstandendum er óskað af fyllstu einlægni til hamingju með þennan verðskuldaða listsigur.

 


Tímakistan - góður efniviður til kvikmyndagerðar

Andri Snær Magnason hlaut fyrir skömmu íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barnabókmennta fyrir bók sína, Tímakistuna. Hún er afar áhugavert ævintýri sem höfðar engu síður til fullorðins fólks, jafnvel enn fremur, sé tekið mið af boðskap bókarinnar. Atburðarásin er spennandi og ýtir örugglega við ímyndunarafli lesandans. Þrátt fyrir fáeina hnökra í málfari, sem hæglega hefði mátt leiðrétta, er Tímakistan á meðal hins besta sem skrifað hefur verið handa börnum og fullorðnum. Eindregið er mælt með bókinni, sem fangaði hug höfundar þessa pistils. Bókin er merkilega vel fallin til þess að gerð verði eftir henni kvikmynd. Þá yrði heldur betur reynt á ímyndunarafl kvikmyndagerðarfólks og andleg þolrif áhorfenda.

Sæmd - heilsteypt listaverk

Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson hefur verið mér hugstæður síðan Lárus Pálsson las söguna af Heljarslóðarorrustu í útvarp árið 1965 eða 66 og af frásögnum föður míns úr Dægradvöl, sjálfsævisögu Benedikts. Um þessar mundir er Heljarslóðarorrusta í farsímanum og glugga ég ævinlega í hana þegar mig langar að skemmta mér.

Í haust las ég Dægradvöl, en Skólavefurinn hefur gefið hana út sem rafbók og síðan kom Sæmd Guðmundar Andra Thorssonar.

Í Dægradvöl gerir Benedikt upp líf sitt og horfist í augu við sjálfan sig, kosti sína og galla. Hann gerir m.a. stuttlega grein fyrir söguefni því sem Guðmundur Andri fjallar um í Sæmd. Benedikt virðist álíta sig hafa goldið föður síns, en Vilhjálmur Þ. Gíslason sagði okkur Þorvaldi Friðrikssyni eftir Steingrími Thorsteinssyni, að Sveinbjörn hefði ekki haft embættismannastéttina í Reykjavík með sér, þegar "pereatið" reið yfir. Því fór sem fór. Er það meðal annars rakið til samskipta tengdaföður hans við Jörund hundadagakonung. Um þetta fjallar Benedikt á sinn sérstæða hátt í Dægradvöl.

Guðmundur Andri hefur skapað ódauðlegt listaverk með Sæmd. Þótt ævinlega megi eitthvað að öllu finna er bókin í heild sinni forkunnar vel skrifuð, persónusköpunin heilsteypt og atburðarásin samfelld. Því er full ástæða til að óska Guðmundi Andra hjartanlega til hamingju með þær viðtökur sem bókin hefur fengið og þann heiður sem honum hefur verið sýndur.


Augnstungið útvarp - alvarlegur áburður

Rás eitt er sem augnstungið hús. Það er eins og einhver hafi vaðið um með sleggju eða grjót og brotið og bramlað.

Þær sögur fóru fjöllunum hærra, þegar núverandi útvarpsstjóri var ráðinn, að hlutverk hans yrði að draga saman stofnunina og sjá til þess að hún yrði eyðilögð. Þetta er þungur áburður en ekki úr lausu lofti gripinn. Með aðgerðum sínum hefur útvarpsstjóri rofið ákveðið samhengi í sögu stofnunarinnar. Slíkt rof er eins og flóð sem enginn ræður við og sópar burtu með sér ómetanlegum verðmætum. Þótt hann haldi því fram að tillögurnar hafi komið frá millistjórnendum er deginum ljósara að hann hafði hvorki þekkingu né reynslu til þess að meta afleiðingarnar.

Þegar litið er yfir þann hóp sem hefur verið látinn hætta hjá Ríkisútvarpinu vekur athygli að engar faglegar ástæður virðast liggja að baki uppsögnunum. Engin stefnumarkandi umræða virðist hafa farið fram um afleiðingarnar. Það er eins og blindur þurs, skini skroppinn, hafi vaðið um, brotið og bramlað það sem fyrir varð.

Stjórnvöld bera einnig sína ábyrgð. Nú virðist Sjálfstæðisflokkurinn loksins hafa komist í þá aðstöðu að ná tangarhaldi á öllum stærstu fjölmiðlum landsins og Framsóknarflokkurinn fylgir með. Fjármagnið skal ráða en ekki þjóðarheill.

Margir Íslendingar hneykslast mjög á þeim ríkjum sem búa við stjórn eins flokks. Sumir þegnar eins flokks ríkja undrast hins vegar óstöðugleikann sem fylgir lýðræðinu. Hér á landi tekst sjaldan að móta framtíðarstefnu í nokkru máli. Ástæðan er sú að algjör kúvending verður með nýrri ríkisstjórn, hafi fyrri stjórn beðið ósigur. Þrátt fyrir kosti lýðræðisins eru annarkarnir þeir að agaleysi og skammsýni, sem byggja á þröngum hagsmunum, hamla nauðsynlegum breytingum til batnaðar.

Umræðuhefðin á Alþingi ber þessu glöggt vitni. Þar eru sjaldan stundaðar umræður heldur átök. Nú ræður fjármagnið mestu og tveir stærstu fjölmiðlar landsins, Morgunblaðið og 365 miðlar eru í eigu þess. Í þessu umhverfi er öflugt ríkisútvarp nauðsyn, öflugt útvarp sem getur veitt samfélaginu samtímis öflugt aðhald og góða þjónustu.


Menningaráfall!

mikil eftirsjá er að ýmsum dagskrárgerðarmönnum rásar eitt, sem misst hafa vinnuna. Hugurinn fyllist söknuði og hjá þeim, sem hafa orðið fyrir brottrekstri úr starfi, er hætt við að rifni ofan af gömlum sárum. Þá er greinilegt að ekki hafa einungis faglegar ástæður ráðið um uppsagnir manna heldur staða þeirra. Má sjá þess merki í ónefndum þætti á Rás eitt.
Nú er ljóst hvert stefnir í starfsemi Ríkisútvarpsins. Stofnunin verður sjálfsagt rekin að nokkru með því að ráða verktaka til þess að sjá um einstaka þætti eða þáttaraðir. Margir þaulreyndir dagskrárgerðarmenn hafa aldrei komist svo hátt að verða starfsmenn Ríkisútvarpsins heldur hefur þeim verið ahaldið sem verktökum, jafnvel áratugum saman. Þannig sparar stofnunin stórfé. Hvorki greiðir hún í lífeyrissjóði verktakanna né kostnað, sem hlýst af starfi þeirra.

mbl.is Uppsagna farið að gæta í dagskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiksigur í Möguleikhúsinu

Sýningu Möguleikhússins á einleiknum Eldklerkinum hefur
nokkuð borið á góma að undanförnu á síðum dagblaðanna tveggja auk netheima.
Undrun margra vakti leikdómur Hlínar Agnarsdóttur sem fór ómildum orðum um
sitthvað í sýningunni.

Suðursalur Hallgrímskirkju var fullsetinn á sýningu
Möguleikhússins sunnudaginn 17. Þessa mánaðar. Pétur Eggerz var alla tíð einn á
sviðinu. Leikmyndin var einföld og menn urðu að láta ímyndunaraflið um að skoða
sitthvað sem gerðist á sviðinu. Dauf hljóðmynd studdi sum atriðin og leikræn
tjáning leikarans, sem ef til vill er ekki lengur á „léttasta skeiði", skilaði
áhorfendum ýmsu sem sagan bjó yfir.

Undirrituðum þótti saga Jóns Steingrímssonar einkar vel
sögð. Jafnvægið var gott á milli tímabila frásagnarinnar, en einleiknum má
skipta í fjögur tímaskeið: Árin fram að 1755, búskaparár Jóns í Mýrdalnum,
búsetuna að Prestbakka og eldinn og að lokum afleiðingar eldsumbrotanna. Fáu
var ofaukið og enn færra skorti til þess að sýningin yrði heilsteypt, enda var
greinilegt að Pétur lagði alla sína orku og anda í leikinn, sem er heilsteypt
listaverk.

Framsögnin var yfirleitt prýðileg. Þó hefði mátt betur
hyggja að flutningi þeirra kvæðabrota, sem farið var með á sviðinu. Leikurum
hættir um of til að flytja kvæði eins og samtal og skortir þá talsvert á
hrynjandi kveðskaparins. En þetta eru smávægileg lýti sem auðvelt er að laga.

Pétri er óskað til hamingju með þennan leiksigur. Hann er nú
með þann þroska reynds leikara að honum lætur vel að túlka ýmis aldurskeið,
enda fór honum það vel úr hendi. Því verður hiklaust haldið fram að
eldklerkurin sé með bestu einleikjum, sem sést hafa á sviði hér á landi að
undanförnu.



 


Yndisstund í Kaldalóni

Í kvöld nutum við hjónin þess að hlusta á söngkonurnar
Hallveigu Rúnarsdóttur og Sigríði Ósk Kristjánsdóttur flytja ýmsar söngperlur
íslenskra tónmenntar í Kaldalóni Hörpu. Með þeim lék Hrönn Þráinsdóttir á
flygil og reyndist einnig góður liðsmaður í þríraddaðri útsetningu Jóns
Ásgeirssonar í síðasta erindi vögguvísunnar, Sofðu unga ástin mín. Á dagskrá
voru auk þess lög eftir Atla Heimi Sveinsson, Tryggva M. Baldvinsson, Sigvalda
Kaldalóns, Emil Thoroddsen, Karl Ó. Runólfsson og Jórunni Viðar auk stórkarlalegrar
útsetningar Jóns Leifs á laginu Ísland farsældarfrón.

Flutningur þessara þriggja kvenna var jöfnum höndum -
fágaður, fagur og skemmtilegur. Þær hrifu áheyrendur með sér. Skýringarnar, sem
voru ætlaðar erlendum áheyrendum. Voru vel samdar og juku áhrif lags og ljóðs.

Bjarni Thor Kristinsson, hinn mikilhæfi bassasöngvari, hefur
staðið fyrir tónleikahaldi handa ferðamönnum í Hörpu undanfarin sumur og er svo
víðsýnn, að hann fær með sér aðra söngvara og veitir þeim tækifæri til að tjá
list sína. Þegar við hugðumst þakka honum fyrir var hann horfinn af vettvangi.

Þessi kvöldstund verður ógleymanleg. Eindregið er mælt með
því að Íslendingar bendi erlendum kunningjum og vinum á fjársjóð íslenskra
sönglaga og njóti sjálfir hins fágaða flutnings. Ekki spillir að brugðið er upp
myndum og hljóðritum. Sem dæmi má nefna að þær stöllur fluttu bæði lag Jóns
Ásgeirssonar við Maístjörnu Halldórs Laxness og finnska tangóinn, sem ljóðið
var upphaflega samið við. Síðasta erindið söng Halldór sjálfur við undirleik
Hrannar, hló síðan og sagði að sennilega hefði maður nú ekki verið lengi að
yrkja þetta.

Söngdagskráin er breytileg frá einu kvöldi til annars og er
því víst að enn verður haldið í Hörpu við tækifæri að njóta íslenskra
söngperlna.


Vanþekking auglýsingafólks á íslenskri tungu

Á morgun leggur Húni annar í hringferð um Ísland og er það vel. Safnað verður fé til þarfra mála og leggja listamenn söfnuninni lið.

Auglýsing þessarar ferðar er illa gerð og dapurlegt til þess að hugsa að starfsfólk auglýsingastofunnar, sem gaf e.t.v. vinnu sína, skyldi kasta til hennar höndunum. Sem dæmi má nefna að staðarnöfn eru í nefnifalli og dagsetningarnar einnig. Þennig verða tónleikarnir á eftirtöldum stöðum (ekki bein tilvitnun): "Seyðisfjörður fimmti júlí, Vestmannaeyjar sjöundi júlí o.s. frv., þótt lesa hefði átt Vestmannaeyjum sjöunda júlí o.s.frv.

Eitt sinn vann Þórhallur Guttormsson við að fara yfir auglýsingar í sjónvarpi. Nú virðist sem Ríkisútvarpið hirði ekki lengur um orðfæri auglýsenda. Auglýsingalestur er hluti menningarstarfsemi stofnunarinnar og málfar þeirra hefur mikil áhrif á málskynjun fólks.

Húni annar er varðveittur til þess að bjarga menningarverðmætum og sýna þeim virðingu. Leitt er til þess að hugsa að þeir sem orðuðu auglýsingarnar stuðli með vanþekkingu sinni eða kæruleysi að eyðileggingu annarra verðmæta. Hvers á íslensk tunga að gjalda?


Glæsir eftir Ármann Jakobsson - grípandi skáldsaga

Skáldsagan Glæsir eftir Ármann Jakobsson vakti athygli mína þegar hún kom út hjá Forlaginu haustið 2011. Þó varð ekkert úr því að ég læsi hana fyrr en í þessari viku, en þá keypti ég hana sem rafbók.
Sagan byggir á atburðum sem sagt er frá í Eyrbyggju. Þórólfur, sem uppnefndur var bægifótur eftir meini sem hann hlaut í einvígi, gerist illvígur með aldrinum og eftir dauðan marg-gengur hann aftur.
Skáldsagan lýsir hugrenningum draugsins á síðasta skeiði hans og hvernig eðli hans mótaðist af aðstæðum. Ármann, sem er gagnkunnugur íslenskum fornbókmenntum, greinir einnig goðaveldið og miskunnarleysi þess gagnvart þeim, sem þóttu ekki standa jafnfætis ættstórum mönnum.
Sagan er áleitin og einstaklega vel sögð. Orðfærið er auðugt og sagan hrífur lesandann með sér.
Margir höfundar hafa leitað í fornbókmenntirnar og hefur tekist það misvel. Glæsir hlýtur að teljast eitt af meistaraverkum íslenskra bókmennta á þessari öld, jafnvel þótt Íslendingar hætti að skilja tungu sína og Glæsi verði að þýða á ensku.
Til hamingju, Ármann.


Yndislega eyjan mín 40 árum síðar

Tónleikarnir, Yndislega eyjan mín 40 árum síðar, sem haldnir voru í Eldborgarsal Hörpu í kvöld, voru vel heppnaðir. Flestir söngvararnir komu ánægjulega á óvart. Nefni ég einkum Sigríði Beinteinsdóttur, Margréti Eir, Magna Ásgeirsson og Þór Breiðfjörð. Enginn vissi hvað kynnirinn hét því að hann var hvorki kynntur í efnisskrá né kynnti hann sig sjálfur. Hann stóð sig þó með prýði.

Margar útsetningar Þorvalds Bjarna Þorvaldssonar voru ágætar og hljóðblöndunin yfirleitt góð. Þó fór styrkurinn nokkrum sinnum yfir þolmörk vinstra eyra á sjötugsaldri.

Það var áberandi hvað textar laganna voru vel ortir. Af yngri textunum skáru sig úr Kvöldsigling, tvö lög Stuðmanna og Þjóðhátíðarlagið 1997. Verstu textar kvöldsins voru Vestmannaeyjar, lag og ljóð eftir Jóhann G. Jóhannsson. Þar er nafnið Vestmannaeyjar haft í eintölu og þótti mér, þegar lagið kom út á hljómplötu 1977 með ólíkindum að Logar skyldu syngja þetta. >Þá hafði verið efnt til ljóðasamkeppni í tilefni tónleikanna og var ljóð valið, sem ort var árið 1977. Þar var ekki fylgt hefðbundnum reglum ríms og ljóðstafa. Auk þess voru ambögur í ljóðinu, sem hefði átt að lagfæra, einkum í ljósi þess að sú sem setti saman ljóðið, var 19 ára árið 1977 og hefur væntanlega farið fram síðan. Ljóðið sýndi í hnotskurn þær hrakfarir sem íslensk textagerð hefur orðið að sæta að undanförnu.

Í lok tónleikanna var sungið lag Brynjúlfs Sigfússonar við kvæði Sigurbjörns Sveinssonar, Yndislega eyjan mín. Lagið var upphaflega ætlað Samkór Vestmannaeyja, en um tíma voru í kórnum miklar sópranraddir. Í kvöld var lagið sungið í B-dúr. Betur hefði farið á að færa það niður í G-dúr. Þá hefðu fleiri getað tekið undir.

Aðstandendum tónleikanna er þökkuð góð skemmtun og flytjendum afbragðs flutningur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband