Færsluflokkur: Menning og listir
Það er ekki heiglum hent að semja einleik fyrir útvarp. Þótt "Og svo hætti hún að dansa" eftir Guðmund Ólafsson sé ekki að öllu leyti einleikur byggir verkið á hugsunum eins manns sem rifjar upp fortíð sína. Hugrenningatengslin, elliglöpin og samviska mynda þvílíka heild að hlustandinn getur vart hreyft legg eða lið - verður að fylgjast með framvindu verksins.
Leikstjórn og leikur voru til fyrirmyndar. Þó hefði "Gamli" stundum mátt vera nær hljóðnemanum. Vafalaust hefur leikstjórinn viljað að hlustendur gleymdu því ekki að þeir væru staddir í íbúðarhúsi þar sem gamall maður reikaði um með hugrenningar sínar, sem íþyngdu honum.
Það orkaði tvímælis, þegar brugðið var upp hljóðmynd úr strætisvagni, að það skyldi heyrast í leiðsögn vagnsins, nema gamli maðurinn hafi farið á eftirlaun frá Strætó um árið 2012. Ef til vill á leikurinn að gerast nær okkur í tíma en við héldum.
Full ástæða er til að óska höfundi, leikstjóra, leikurum og ekki síst Útvarpsleikhúsinu til hamingju með þetta prýðilega listaverk.
Menning og listir | 3.5.2015 | 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Útvarpsleikhúsið hóf í dag að flytja leikgerð bókarinnar Elsku Míó minn eftir Astrid Lindgren í nýrri þýðingu Þórarins Eldjárns.
Það er skemmst frá því að segja að útvarpsgerðin er frábær. Einar Sigurðsson sá um tækni og Kolbrún Halldórsdóttir leikstýrði. Hljóðheimurinn var að mestu sannfærandi. Þó hefði mátt breyta öðru hverju hófataki hestsins sem Míó reið, t.d. þegar hann þaut yfir brúna. Rafhljóð, sem mynduðu dulúð verksins, voru hæfileg og náttúruhljóðin vel af hendi leyst.
Þá er ástæða til að hrósa börnunum sem taka þátt í flutningnum og Þórhalli Sigurðssyni sem lék brunninn af stakri snilld.
Í lokakynningunni varð leikstjóra á. "Útvarpsleikhúsið flutti Elsku Míó minn eftir Astrid Lindgren, fyrsti hluti". Þarna hefði betur farið á að nota þolfall, fyrsta hluta. Svona fer íslenska fallakerfið smám saman halloka fyrir enskum áhrifum og útvarpsfólk er ekki lengur fært um að veita mótspyrnu.
Þulir fyrri tíðar hefðu væntanlega orðað þetta þannig: "Útvarpsleikhúsið flutti fyrsta hluta .... o.s.frv.
Leikverkið og flutningur þess fær fullt hús stiga, en þulurinn féll á prófinu í lokin.
Menning og listir | 3.4.2015 | 17:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Útvarpsleikritið Blinda konan og þjónninn eftir Sigurð Pálsson, í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur, er um margt snilldar vel gert verk. Tónlist Hildar Ingveldar Guðnadóttur og hljóðstjórn Einars Sigurðssonar spilltu ekki fyrir því.
Hljóðmyndin var yfirleitt sannfærandi og leikur höfundarins, Ólafíu Hrannar Jónsdóttur og Vals Freys Einarssonnar nær lýtalaus. Sennilega hefði mátt beita ákveðinni hljóðnemabrellu til þess að láta það heppnast betur þegar drukkna blinda konan hrundi í gólfið. Ýmsir hlusta á útvarpsleikritin með heyrnartólum og þar hefði þetta notið sín einkar vel.
Sigurður Pálsson leikur sér einkar vel að þeirri hugmynd að skapa persónur í leikriti og gera hlustendur óþyrmilega vara við endurskoðun og breytingar á handritinu. Að lokum fer svo að hann gefst hreinlega upp og allt er þurrkað út.
Útvarpsleikhússtjórinn hefur iðulega kynnt leikrit og ferst það vel úr hendi. Til nokkurra lýta finnst mér þegar sagt er: "Útvarpsleikhúsið flytur Blinda konan og þjónninn". Hvers vegna er ekki sagt "Útvarpsleikhúsið flytur Blindu konuna og þjóninn?" Þeir sem kunna íslensku vita að hér er þolfall á ferðinni og hvert nefnifallið og þar með heiti verksins er. Útvarpsleikhúsið ætti að hafa þetta í huga við framleiðslu næstu verka.
Öllum aðstandendum leikverksins er óskað til hamingju með þessa skemmtilegu leikfléttu sem gladdi eyru hlustenda í dag. Árið 2015 byrjar svo sannarlega vel hjá Útvarpsleikhúsinu.
Menning og listir | 4.1.2015 | 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eva Þórarinsdóttir kom, sá, sigraði og heillaði áheyrendur á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands 25. september þar sem hún flutti Fiðlukonsert nr. 1 í g-moll (186468) eftir Max Bruch. Leikurinn var einhvern veginn í fullu samræmi við innihald verksins sem er einkar vel úr garði gert fyrir sinfóníuhljómsveit og einleikara, svo að hljómsveitin kæfir hann aldrei. Hljómsveitarstjóri var Lionel Bringuier.
Ekki fer hjá því að áheyrendur átti sig á skyldleika fiðlukonserta Bruchs og Brahms, en sá síðar nefndi samdi sinn konsert 10 árum síðar. Þeir Brahms og Bruch sömdu konserta sína báðir fyrir ungverska fiðlusnillinginn Joseph Joachim, sem gaf höfundunum góð ráð og hjálpaði Bruch að koma konsertinum í endanlegt form. Hann frumflutti konsertinn í Bremen í janúar 1868 og lét þau orð falla um verkið að það væri mest hrífandi fiðlukonsert sem hann þekkti til segir Árni Heimir Ingólfsson í efnisskrá tónleikanna sem er einkar vel samin.
Eftir hlé var 5. sinfónía Gústavs Mahlers flutt. Sinfónían, sem er í 5 þáttum, hefst á eins konar útfararmarsi, en tónskáldið var haldið mikilli dauðahræðslu um það leyti sem sinfónían var samin. Framvinda verksins er með eindæmum og kemur áheyrandanum stöðugt á óvart. Margs konar stílbrigði flækjast þar hvert innan um annað, valsar, ýmiss konar léttmeti og háalvarleg stef sálarnærandi hrærigrautur. Endirinn er hressandi og glaðlegur, enda lifði Mahler sinfóníuna af.
Undirritaður áttaði sig á því að sinfónían hefur orðið ýmsum innblástur. Þekktastur hér á landi er ástarsöngur Ragnheiðar og Daða í óperu þeirra Gunnars Þórðarsonar og Friðriks Erlingssonar, enda hafði einn gagnrýnandi óperunnar orð á að Gunnar kynni sinn Mahler. Þá má geta þess að í lokaþætti kínversku byltingarsinfóníunnar Shajiabang, sem var samin snemma á 7. áratug síðustu aldar og endurskoðuð 1970, mótar vissulega fyrir mahlerskum áhrifum í lokaþætti verksins. Hún á það reyndar sameiginlegt að vera samin fyrir sinfóníuhljómsveit og kór eins og flestar sinfóníur Mahlers. Einsöngvarar í Shajiabang syngja að hætti Pekingóperusöngvara.
Túlkun hljómsveitar og hljómsveitarstjórans var hrífandi. Stundum óskaði undirritaður þess að strengjasveit hljómsveitarinnar væri ögn fjölmennari, en jafnvægið var samt með ágætum. Ekki spillti dásemdarhljómur Eldborgar fyrir flutningnum.
Menning og listir | 26.9.2014 | 17:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég get ekki orða bundist vegna einstæðra tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands fimmtudaginn 11. september.
Hámarki náðu þeir fyrir hlé er hljómsveitin flutti ásamt Víkingi Heiðari Ólafssyni fyrsta píanókonsert Beethovens sem var saminn árið 1801. Ég hef oft heyrt þennan konsert áður en aldrei í slíkum flutningi. Víkingur Heiðar lék þá kadensu sem Beethoven skrifaði fyrir píanóleikarann, þá þriðju við þennan konsert og þá lengstu. Nú er höfundur þessa pistils svo heppinn að sitja á 8. bekk eða 5 bekkjum frá sviðinu og nokkurn veginn fyrir miðju. Píanókonsertinn er ekki með þunga hljóma eins og sum nýrri verk. Ég heyrði hvernig tónarnir þyrluðust um hljóðfærið, fram og aftur, aftur og fram og stundum í einni alls herjar bendu! Hvílík upplifun! Sálin hvarf úr líkamanum og sveimaði um nokkurt skeið frjáls um eldborgina á meðan Víkingur Heiðar þyrlaði hljómunum um hljóðfærið Við upphaf 2. kafla konsertsins lenti hún mjúklega og skreið á sinn stað, en unaðurinn hélt áfram. .
Ég sagði Víkingi Heiðari að ég hefði velt fyrir mér hvort flyglar, smíðaðir um 1800, hefðu þolað þennan rokna flutning og taldi hann það af og frá.
Víkingur Heiðar lék á allar þær tilfinningar sem hrifning getur laðað fram og hljómsveitin og Pieter Inkinen, hljómsveitarstjóri stóðu sig með stakri prýði.
Það var sem hljómurinn í Eldborg væri meiri en oft áður og velti ég fyrir mér hvort breytt hefði verið um stillingu á salnum.
Sem sagt: unaðsleg upplifun!
Menning og listir | 14.9.2014 | 15:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Að þessu sinni voru flytjendur Bjarni Thor Kristinsson, stjórnandi tónleikanna, Lilja Guðmundsdóttir, sópran og Ástríður Alda Sigurðardóttir, hinn snjalli slaghörppuleikari. Tónleikana sóttu bæði Íslendingar og erlendir gestir. Flytjendum var fagnað innilega enda hreyfði dagskráin við mörgum – lögin fjölbreytt og kynningar afar vandaðar.
Vinsælastur var Sigvaldi Kaldalóns, en eftir hann voru sungin fjögur lög. Selma dóttir hans átti þar einnig snoturt lag við kvæðið Eyrarrósina.
Menning og listir | 30.8.2014 | 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Samúel Jón Samúelsson og stórsveit hans eiga sér marga aðdáendur. Þar er fjöldi blásara, trumbuslagara auk manna sem leika á gítar og bassa.
Ég hef nokkrum sinnum heyrt sveitina leika á tónleikum af mikilli fimi og lipurð - jafnvel innlifun. Einn galli hefur verið á gjöf Njarðar - ærandi hávaði.
Hvers vegna í ósköpum þarf að magna upp blásturshljóðfærin og slagverkið svo að hljómurinn afskræmist? Við hjónakornin áttum leið í Hörpu í dag að sækja miða á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands og þar lék stórsveitin í anddyrinu. Allt ætlaði um koll að keyra og við forðuðum okkur áður en við ærðumst eða fengjum hljóðverk.
Árið 2011 var efnt til afmælishljómleika í Hörpu að heiðra minningu Oddgeirs Kristjánssonar. Þá fengu menn að heyra hvað húsið bar hljóm órafmagnaðrar lúðrasveitar vel.
Í vetur voru hljómleikar til minningar um Ása í bæ, einnig í hörpu. Í lok þeirra voru útsetningar fyrir hljómsveitarundirleik og lúðrasveit. Þá þótti ástæða til að magna allt saman upp og úr varð hálfgerður óskapnaður.
Í sjötugs afmæli Þóris Baldurssonar var enn hið sama upp á teningnum. Hann lék á Hammondorgelið sitt, ágætir trymblar börðu bumbur og Stórsveit Reykjavíkur lék með. Yfirleitt var tónlistin of hátt stillt og á köflum varð hljóðblöndunin alger óskapnaður.
Ætli Samúel Jón Samúelsson og fleiri geri sér ekki grein fyrir að með þessum hávaða er verið að eyðileggja tónlistarheyrn fólks, eða er hávaðinn hluti listarinnar? Spyr sá sem ekki veit, en úr þessu verður alls herjar tónverkur.
Menning og listir | 15.8.2014 | 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Menning og listir | 3.5.2014 | 20:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á efnisskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands í kvöld var verkið Glaðsheimr eftir Oliver Kentish, einkar áheyrilegt og glaðvært hátíðarverk, samið árið 2010 Hörpu til heiðurs. Verkið var með íslensku ívafi og vel heppnað. Oliver Kentish eru færðar einlægar hamingjuóskir með vel heppnaða tónsmíð.
Útsendingin á netinu er hins vegar afleit hjá Ríkisútvarpinu og skilar alls ekki þeim hljómgæðum sem til er ætlast.
Öllu verri var þó hroðvirknisleg kynning verksins á vefsíðu Sinfóníuhljómsveitar Íslands:
Kynning á heimasíðu Sinfóníuhljómsveitarinnar
Í Gylfaginningu er sagt frá Glaðsheimr sem var samkomuhöll á Iðravöllum í Ásgarði og mun þar gleði jafnan hafa ríkt. Konsertforleikurinn Glaðsheimr eftir Oliver Kentish vísar í þessa frásögn en eiginleg tilurð verksins er þó nýja tónlistarhúsið okkar, Harpa. Verkið er samið með Sinfóníuhljómsveit Íslands og frábæran hljómburð Eldborgar í huga og bera blæbrigðarík skrif tónskáldsins þess glöggt merki.
Strikað er undir tvær villur.
Orðið Glaðsheimr er ekki í þágufalli og aldrei hef ég heyrt Iðavelli kennda fyrr við magakveisu.
Menning og listir | 6.3.2014 | 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kínaklúbbur Unnar veitir félagsmönnum Kím 20.000 kr afslátt á 19 daga ferð til Kína í sumar, en ferðin stendur frá 5.-23. júní. Meðal annars veður farið til Shanghai, Suzhou, Chengdu, Tíbets og Beijing og er þá fátt eitt talið.
Viðtal við Unni ásamt upplýsingum um ferðina eru á menningarmiðlinum Hljóðblogg.
Menning og listir | 5.3.2014 | 07:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 319697
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar