Færsluflokkur: Menning og listir
Í fyrrakvöld var gamanópera Jóns Ásgeirssonar, Þrymskviða, flutt í Norðurljósal Hörpu við mikinn fögnuð áheyrenda. Var hún svo - öðru sinni flutt í gærkvöld og ætlaði allt um koll að keyra í lok sýningar, slík var hrifning áheyrenda.
Í föstudagsblaði Morgunblaðsins 26. október, fjallaði Guðrún Erlingsdóttir um sýninguna.
Brot úr umfjöllun Guðrúnar
Ég skil ekki af hverju Þrymskviða hefur ekki verið sett oftar upp. Það eru ekki til margar íslenskar óperur og gamanóperan Þrymskviða var sú fyrsta sem sett var á svið. Þetta er alveg frábær ópera sem sýnd var í fyrsta og eina skiptið á sviði 1974, segir Bjarni Thor Kristinsson, bassi sem leikstýrir Þrymskviðu sem flutt verður í Norðurljósasal Hörpu í kvöld og annað kvöld kl. 20.
Bjarni segir að höfundur Þrymskviðu, tónskáldið, Jón Ásgeirsson, hafi fagnað 90 ára afmæli nýverið og það hefði þótt tilhlýðilegt í tilefni þess og 100 ára fullveldis Íslands að setja óperuna á svið aftur.
Það er mikið lagt í sýninguna sem skartar átta góðum einsöngvurum auk Háskólakórsins sem fer með hlutverk ása og þursa. Í kórnum syngja 70 manns og 40 manna Sinfóníuhljómsveit unga fólksins sér um tónlistina, segir Bjarni Thor og bætir við að mikil áhersla hafi verið lögð á að breyta Norðurljósum Hörpu í framúrstefnulegt leikhús og það verði spennandi að sjá hvernig áhorfendur taki þeim breytingum.
Stjórnandi Þrymskviðu er Gunnsteinn Ólafsson, stjórnandi Háskólakórsins. Einsöngvarar í óperunni eru þau Guðmundur Karl Eiríksson baritónn í hlutverki Þórs, Keith Reed bassa-baritónn í hlutverki Þryms, Margrét Hrafnsdóttir sópran í hlutverki Freyju og Agnes Þorsteinsdóttir mezzósópran í hlutverki Grímu. Þorsteinn Freyr Sigurðsson tenór syngur hlutverk Heimdallar, Eyjólfur Eyjólfsson tenór hlutverk Loka, Gunnar Björn Jónsson hlutverk 1. áss og Björn Þór Guðmundsson hlutverki 2. áss.
Óperan Þrymskviða fjallar á gamansaman hátt um það þegar þrumuguðinn Þór uppgötvar að hamar hans, Mjölnir, er horfinn. Þrymur þursadrottinn hefur rænt Mjölni og heimtar Freyju í lausnargjald en hún er ófáanleg til þess að fórna sér fyrir hamarinn. Þór bregður þá á það ráð að fara til Jötunheima í kvenmannsgervi í því skyni að endurheimta vopn sitt í fylgd Loka Laufeyjarsonar.
Upplifun undirritaðs
Undirritaður fór á Þrymskviðu árið 1974 og hreifst svo að hann hefur verið haldinn Þrymskviðuheilkenninu síðan. Þegar óperunni var útvarpað á sumardaginn fyrsta (sennilega 1977) hljóðritaði ég flutninginn og hef hlustað -öðru hverju síðan á valda kafla.
Þegar ljóst varð að óperan yrði sýnd rifjaði ég upp gömul kynni og urðu þau enn kærari. Hver laglínan og arían rifjaðist upp fyrir mér og úr varð nær skefjalaus tilhlökkun.
Hvernig tókst svo til?
Ég fór í gærkvöld ásamt sonarsyni og vinkonu okkar að njóta óperunnar sennilega í 7. skipti, en mér telst til að ég hafi farið 6 sinnum á hana árið 1974. Elín, kona mín, hafði farið kvöldið áður ásamt sonarsyni og naut sýningarinnar heillaðist af óperunni.
Flutningurinn stóð fyllilega undir væntingum. Ljóst var að tónskáldið hafði gert ýmsar breytingar á verkinu og þóttu mér þær flestar til bóta.
Það var mikill munur á flutningi Þrymskviðu frá því að Jón Ásgeirsson stjórnaði flutningnum í Þjóðleikhúsinu fyrir 44 árum. Þá var gangur verksins nokkru hægari en undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar og kór Þjóðleikhússins hljómaði með allt öðrum hætti en Háskólakórinn, þar sem ungar raddir setja svip sinn á flutninginn. Segja verður hverja sögu eins og er að flutningurinn var á stundum unaðslegur.
Áhrifin
Undir eins í hinu magnaða upphafi óperunnar fór hugurinn á flug og undirritaðan langaði mest að syngja með. En þar sem nokkuð skorti á fegurð raddar hans hélt hann aftur af sér til að spilla ekki ánægju sessunauta sinna.
En iðulega sló hann taktinn og bærði varirnar söng innra með sér.
Hámarki náði sönggleði mín þegar kom að lokaaríunni. Þá gat ég ekki hamið mig en söng áttund lægra en kórinn sjálfur og ekki af miklum raddstyrk, enda hefur hann dvínað nokkuð með aldrinum.
Frammistaðan og umgjörðin
Ungviðið í kórnum og hljómsveitinni, sem hafði einnig á að skipa nokkrum atvinnumönnum, stóð sig að flestu leyti frábærlega. Gunnsteinn stýrði óperunni af mikilli röggsemi svo að efni hennar komst vel til skila.
Einsöngvarar áttu góða spretti. Eins og venjulega var fremur erfitt að greina textann á stundum eins og gengur og gerist þegar óperur eru fluttar á íslensku.
Leikstjórn og sviðssetning var til mikillar fyrirmyndar. Ýmislegt var fært til nútímahorfs. Þannig virtust Jötunheimar vera allsherjar eiturlyfjabæli og greinilegt var að Þór og fleiri áttu í talsverðum viðskiptum. Allt jók þetta á ánægju áhorfenda.
Gunnsteinn á miklar þakkir skyldar fyrir þetta einstaka framtak sitt. Um hitt má síðan spyrja hvers vegna í ósköpunum Íslenska óperan skyldi ekki taka Þrymskviðu upp að nýju í tilefni af níræðis afmæli Jóns Ásgeirssonar. Í staðinn hljótum við að vænta þess að einhver þeirra ópera, sem eftir hann liggja og hafa ekki verið fluttar, verði tekin til sýningar.
Að lokum:
Aðstandendum öllum eru færðar einlægar þakkir fyrir gott menningarafrek og tónskáldinu þakka ég af heilum hug fyrir að hafa gefið þjóðinni menningarverðmætið, óperuna ÞrymskviðuheilkenninuEf nokkuð getur aukið áhuga Íslendinga á menningarsögu sinni eru það verk eins og Þrymskviða.
Menning og listir | 28.10.2018 | 15:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stundum valda smáhlutir straumhvörfum í lífi fólks. Í dag eru 50 ár síðan alger straumhvörf urðu í lífi mínu.
Frá því um miðjan ágúst og fram í september 1967 vann ég við að skrifa námsefni á blindraletur handa okkur tvíburunum. Lauk því starfi rétt fyrir miðjan septembermánuð.
Föstudaginn fórum við mæðgin að heimsækja þau heiðurshjónin, Andreu Oddsteinsdóttur og Halldór Þorsteinsson, en þau bjuggu þá í virðulegu húsi við Miðstræti í Reykjavík. Á eldhúsborðinu var útsaumaður dúkur sem móðir mín varð mjög hrifin af og vildi vita hvar Andrea hefði fengið hann. Hún vísaði á verslunina Ístorg á Hallveigarstíg.
Ég vissi að þar fengjust hljómplötur frá Asíu en um þetta leyti var ég hugfanginn af arabískri tónlist og héldum við mæðgin þangað.
Þar fengust þá eingöngu hljómplötur frá Kína og olli það mér nokkrum vonbrigðum. En ég keypti tvær.
Annarri plötunni brá ég á plötuspilarann hjá Sigtryggi bróður og Halldóru, konu hans og kom þá í ljós að um kantötu var að ræða fyrir sinfóníuhljómsveit, kór og tenorsöngvara. Í upphafi 3. þáttar hljómaði stef sem ég kannaðist við sem einkennisstef kínverska alþjóðaútvarpsins.
Frómt frá að segja varð ég hugfanginn af tónlistinni og það svo að ég keypti á næstu mánuðum og árum allar þær hljómplötur sem Ístorg átti.
Hvað leiddi af öðru.
Stefán Jónsson, fréttamaður hafði farið í leiðangur til Kína árið áður og sendi hann okkur bræðrum segulbandsspólu með kínverskri byltingartónlist.
Ég hófst handa og hafði bæði samband við kínverska alþjóðaútvarpið sem sendi mér árum saman segulbönd og hljómplötur með kínverskri tónlist og kínverska verslun sem seldi hljómplötur og næsta hálfan annan áratuginn keypti ég tugi titla frá Kína og á sjálfsagt eitthvert mesta safn byltingartónlistar þaðan á Norðurlöndum.
Þá hófst ég handa við dreifingu kínverskra tímarita og bóka hér á landi og hélt því áfram til ársins 1989.
Ég gekk í Kínversk-íslenska menningarfélagið haustið 1969 og hef verið viðloðandi stjórn þess frá árinu 1974, þar af formaður í 30 ár í þremur lotum. Nú verður væntanlega endir á því á næsta aðalfundi félagsins.
Ég hef stundum sagt að Kína sé eilífðarunnusta mín og verður sjálfsagt svo á meðan ég er lífs.
Lagið Austrið er rautt, sem var kynningarstef útvarpsins í Beijing, varð mér svo hjartfólgið að það var leikið sem forspil að brúðarmarsinum í brúðkaupi okkar Elínar og hljómar m.a. sem hringitónn farsímans. Síðar vitnaðist að upphaflega var þetta ástarsöngur sem varð svo að lofsöng um Mao formann.
Ævi mín hefði orðið mun fábreyttari hefðum við mæðginin ekki rekist inn í kaffi til þeirra Andreu og Halldórs.
Menning og listir | 15.9.2017 | 17:29 | Slóð | Facebook
Föstudagskvöldið 24. mars síðastliðinn lifði ég eina mestu sælustund ævi minnar á þriðju svölum fremst fyrir miðju í Eldborg, þegar þjóðargersemi Íslendinga, Víkingur Heiðar Ólafsson lég píanóetíður Philips Glass. Flutningurinn var í einu orð sagt hvort tveggja, unaðslegur og hrífandi. Í raun fá engin orð lýst túlkun Víkings Heiðars á þessum margslungnu píanóverkum sem streyma áfram eins og fljót, sem hegðar sér eftir landslaginu hverju sinni - þessi seiðandi hrynjandi með síbreytilegu ívafi.
Strengjakvartettinn Siggi tók þátt í flutningi nokkurra verkanna. Hljómur hans er fágaður og um leið tær.
Það kom okkur hjónum ánægjulega á óvart hversu góður hljómur var á þessum stað jafnfjærri og við vorum flytjendum.
Etíður Philips Glass eru merkilegt fyrirbrigði þar sem skiptast á tærleiki, glettni, fegurð og flókinn leikur sem veldur því að einatt er sem þrjár hendur séu á lofti í senn - eing og Víkingur Heiðar væri þríhentur! Slík er snilld hans.
Öllum þeim er stóðu að tónleikunum óska ég hjartanlega til hamingju - einkum tónskáldinu og Víkingi Heiðari sem er svo sannarlega einstök þjóðargersemi.
Menning og listir | 26.3.2017 | 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Útvarpsleikhúsið lauk í dag við að flytja hlustendum leikritið Lifun eftir Jón Atla Jónasson, en það er byggt á heimildum um Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Fléttað er saman leiknum atriðum og frásögnum ýmissa sem að málinu komu.
Sannast sagna er leikrit þetta hreint listaverk, afbragðs vel saman sett og leikurinn frábær. Óhugnaðurinn, skelfingin, óttinn, kvíðinn og undanlátssemin skila sér fyllilega auk örvæntingar vegna aðskilnaðar frá ástvinum og jafnvel misþyrminga.
Ástæða er til að óska aðstandendum verksins til hamingju með vel unnið meistaraverk.
Menning og listir | 27.11.2016 | 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hljómleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands í kvöld undir stjórn Daníels Raiiskin, þar sem fjórir ungir einleikarar léku með hljómsveitinni, voru í einu orði sagt vel heppnaðir. Einleikararnir voru
Heiðdís Hanna Sigurðardóttir, sópran, Sigríður Hjördís Indriðadóttir, flautuleikari, Jónas Á. Ásgeirsson, harmonikuleikari og Ragnar Jónsson, sellóleikari.
Rödd Heiðdísar Hönnu hefur náð undraverðum þroska. Hún er áferðarfögur og er því spáð að hún eigi eftir að heyrast oft hér á landi og hérlendis. Túlkun hennar var með ágætum.
Flutningur Sigríðar Hjördísar Indriðadóttur á flautukonserti Karls Nielsen var einstaklega vel heppnaður, túlkunin bæði fáguð og skemmtileg. Tónninn var lýtalaus.
Þá var undur skemmtilegt að heyra Jónas Á. Ásgeirsson flytja konsert fyrir harmoniku og strengjasveit. Lipurð piltsins er einstök og túlkunin fram úr skarandi.
Í lokin flutti Ragnar Jónsson sellókonsert Elgars með stakri prýði. Seinasti hluti fyrsta þáttar var hreinlega leikinn af unaðslegri snilld. Tónn Ragnars er fágaður og hann leggur greinilega metnað í mikla fágun flutnings síns. Hið sama má segja um hin ungmennin þrjú.
Við hjónin fórum heim hamingjusöm og stolt af starfi því sem unnið er hér á landi á sviði tónlistar.
Ekki þarf að taka fram að Eldborg var þétt setin og fögnuðu áheyrendum flytjendum innilega.
Nánar um dagskrána hér:
http://www.sinfonia.is/tonleikar/2016/1/14/nr/2870
Þessu unga fólki er óskað alls hins besta og færðar einlægar þakkir fyrir heillandi flutning.
Menning og listir | 14.1.2016 | 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Útvarpsleikhúsið flytur nú leikritið "Leifur óheppni" eftir þær Maríu Reindal og Ragnheiði Guðmundsdóttur með tónlist Einars Sigurðssonar, sem einnig annast hljóðvinnslu. María leikstýrir. Leikritið er á dagskrá Rásar eitt kl. 15:00 næstu daga.
Eftir jólakvöldið í gær var hlustað á 1. þáttinn og á annan þátt áðan. Óhætt er að mæla með þessu leikverki handa allri fjölskyldunni og ekki síst börnum.
Leikritið fjallar um styttuna af Leifi heppna skammt frá Hallgrímskirkju og ótrúlega hluti sem þar gerast.
Foreldrar eru eindregið hvattir til að benda börnum sínum á þessa frábæru skemmtan. Leikritið er að finna í Sarpi Ríkisútvarpsins en ætti einnig að vera á Krakkarúv.
Hér á eftir kemur örstuttur dómur um tæknihlið leiksins.
Margt er þar firnavel gert. Það kemur á óvart að fjarlæg bifreiðahljóð virðast koma fyrir aftan hlustandann ef notuð eru heyrnartól og er það skemmtileg tilviljun.
Hins vegar er útihljóðmyndin að sumu leyti misheppnuð. Þannig er sjávarhljóðið áberandi í nágrenni Hörpu, en þar heyrist sárasjaldan neitt öldugjálfur. Hið sama er að segja um hljóðið frá Skólavörðuholtinu og garðinum við Listasafn Einars Jónssonar. Þar er sjávarniður of áberandi. Ef til vill á þetta að vera vindurinn. Til þess benda örlitlar gælur golunnar við hljóðnemann og er þýðlegt á það að hlýða með vinstra eyranu.
Á móti kemur að hljóðmyndin, sem lýsir örtröð ferðamanna og setningu ráðstefnu um norðurljósin er stórskemmtileg. Þá er þess vandlega gætt að skilja á milli hljóðrýis skólaganga og kennslustofa. Þrátt fyrir það sem áður var sagt er ástæða til að óska Einari Sigurðssyni til hamingju mel hljóðmyndina.
Leikstjórnin er að flestu leyti til fyrirmyndar og ætlar undirritaður að halda áfram að ganga í barndóm, enda vill hann ekki missa af því sem eftir er.
Menning og listir | 25.12.2015 | 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Síðustu dagar Kjarvals, sem Útvarpsleikhúsið flutti í dag, eftir Mikael Torfason er meistaraverk á allan hátt. Leikur, leik- og hljóðstjórn voru með miklum ágætum og nálgunin sannfærandi.
Um leið og hlustað var rifjuðust ýmsar sögur upp af Kjarval, svo sem sú að Jónas frá Hriflu vildi sæma hann riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu á afmæli hans 1935, en aðrir mótmæltu og sögðu að hann gæti átt það til að hengja hana aftan á sig og ganga með hana um Austurvöll - og svo vandræðagangurinn þegar hann var loksins sæmdur fálkaorðunni og neitaði að taka við henni. Tekinn var af öllum viðstöddum þagnareiður nema Hjálmtý Péturssyni sem sagði söguna. Jóhannes Kjarval var sjálfstætt ólíkindatól sem lét þjóðarandann aldrei segja sér fyrir verkum.
Þau ár sem Kjarval dvaldi á Landakoti og síðar Borgarspítalanum fóru einnig af honum sögur. Og þegar hann lést var eins og hluti þjóðarsálarinnar hefði dáið með honum. Til hamingju með þetta góða höfundarverk, Mikael Torfason og aðrir aðstandendur.
Menning og listir | 15.11.2015 | 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Leikritið Sek eftir Hrafnhildi Hagalín Guðmundsdóttur er áhrifamikið verk. Ástríðum er vel lýst án mikilla átaka. Verkið líður fram í sérstakri hrynjandi. Nokkuð er um klifanir sem eiga væntanlega að leggja áherslu á andrúmsloftið og þann viðbjóð sem viðgekkst.
Einangrunin og þögnin eru yfirþyrmandi og einsemdin þrungin örvæntingu.
Allir aðstandendur leiksins eiga lof skilið fyrir frammistöðu sína og túlkun: Höfundurinn, leikstjórinn, hljóðfæraleikarar, tónskáld og ekki síðst hljóðmaðurinn.
Tvisvar í verkinu þótti mér þó örla á smávægilegum mistökum. Barn biður föður sinn að kenna sér að rota og gera að sel. Undir eru hljóð úr fjörunni, kríugarg og brimalda. Í tali barns og föður er of mikill herbergishljómur.
Ég hlustaði á netinu til að forðast fm-bylgjusuðið og verður að hrósa Ríkisútvarpinu fyrir að hafa lagfært útsendinguna.
Sjálfsagt er að gefa þessu verki 5 stjörnur.
Menning og listir | 13.9.2015 | 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mótettukór Hallgrímskirkju ásamt einsöngvurum og Den Haag barroksveitinni frumfluttu stórvirki Händels, Salómon undir stjórn Harðar Áskelssonar.
Ekki er of sterkt til orða tekið þótt sagt sé að um stórfelldan listsigur hafi verið að ræða. Flutningurinn var bæði áhrifamikill og einkar fágaður. Þýskur sendifulltrúi fullyrti að tónleikarnir væru á heimsmælikvarða og höfundur þessa pistils heldur því fram að þetta séu bestu tónleikar sem hann hefur sótt það sem af er þessari öld.
Enginn tónlistarunnandi ætti að láta þennan einstæða viðburð framhjá sér fara. Á morgun, sunnudaginn 16. ágúst, verður óratórían flutt öðru sinni.
Öllum aðstandendum eru fluttar einlægar heillaóskir.
Menning og listir | 15.8.2015 | 23:39 (breytt 16.8.2015 kl. 09:54) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í gærkvöld lauk miðsumarshátíðinni sem Víkingur Heiðar Ólafsson, slaghörpuleikari, stóð fyrir í fjórða skipti. Hátíðin var fjölbreytt og með ólíkindum hvað fólki gafst kostur að velja um.
Ég átti þess kost að hlýða á upphafstónleikana í útvarpi austur á Stöðvarfirði og við Elín sóttum lokatónleikana í gær. Hvílík snilld sem borin var á borð!
Umbúnaður var allur hinn vandaðasti og kynningar Oddnýjar Höllu Magnúsdóttur til fyrirmyndar.
Ekki skulu lofaðir einstakir listamenn. En Víkingur Heiðar, sem ber höfuð og herðar yfir aðra íslenska slaghörpuleikara að þeim ólöstuðum, sýndi á hátíðinni hversu fjölhæfur hann er.
Öllum aðstandendum, hljóðfæraleikörum sem hönnuðum og skipuleggjendum eru fluttar einlægar hamingjuóskir með hátíðina með von um að þjóðin fái meira að heyra á næstu árum.
Menning og listir | 22.6.2015 | 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 319697
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar