Færsluflokkur: Menning og listir

Orkuríkur fiðluleikur

fimmtudagskvöldið 10. maí síðastliðinn flutti Sinfóníuhljómsveit Íslands 1. fiðlukonsert Sjostakovitsjs og hljómkviðu Síbelíusar nr. 2. finnski hljómsveitarstjórinn Pietari Inkinen hélt á tónsprotanum og Sigrún Eðvaldsdóttir lék einleik.

Eins og hljómkviða Síbelíusar var leiðinleg áheyrnar og á köflum allt að svæfandi, þegar hún varð einna rómantískust, var leikur Sigrúnar hrífandi. Tónninn var þéttur og túlkunin bæði orkurík og mild, þegar það átti við. Að vísu gerðist eitthvað í 2. þætti, sem undirritaður kann ekki skýringu á.

Mér hefur ævinlega þótt 2. sinfónía Síbelíusar ósamstæður ruglingur með ómstríðum köflum, sem tónskáldið virtist ekki ráða við, en þess á milli mildum tónum sem gæla við eyrað. Ég gæti ímyndað mér að líkja mætti tónverkinu við vatn, þar sem skiptust á vakir og ískrapi, sem fólk þyrfti að sullast gegnum á árabáti. Annað veifið gengur róðurinn vel, en svom þyngist hann og veldur ræðurunum næstum því uppgjöf. Ræðararnir eru áheyrendur, en hljómsveitin vatnið og stjórnandinn vindurinn, sem hreyfir til íshroðann.

Ýmsir hafa fjallað um þessa tónleika og fær sigrún Eðvaldsdóttir sums staðar slæma dóma - óverðskuldaða dóma. Fróðlegt væri að vita hvers vegna gera þurfti hlé á flutningi verksins í öðrum þætti. Ég ræddi við eiginkonu mína um að annaðhvort hljómsveitin eða Sigrún hefðu farið fram úr sér og virðist ríkarður Örn Pálsson komast að svipaðri niðurstöðu í Morgunblaðinu í dag.

Íslenskir einleikarar fá of sjaldan tækifæri til að leika með sinfóníuhljómsveit Íslands. Við eigum marga tónlistarmenn sem geta mætavel státað af álíka snilld og ýmsir, sem sækja landsmenn heim og gæða þeim á list sinni. Sú staðreynd, að söngvarar og einleikarar fá hér fá tækifæri, getur sett mark sitt á leik þeirra.

Öllum getur orðið á í messunni og er það vandi allra listamanna á öllum tímum. Ástæðurnar geta verið jafnmismargar og tónleikarnir eða listamennirner eru margir. Ekki verður velt frekar vöngum yfir því, sem gerðist, en samleikur hljómsveitar og Sigrúnar var yfirleitt frábær. Af 8. bakk fyrir miðju virtist fiðlan vera í góðu jafnvægi við hljómsveitina, svo að fátítt er að heyra á tónleikum hérlendis.


Kona hverfur - nýtt listaverk í Útvarpsleikhúsinu

Hugurinn fyllist jafnan sælu, þegar stjórnendur Útvarpsleikhússins bera á borð nýtt, íslenskt leikrit, sem telst vera listaverk.

Í dag var fyrsta útvarpsleikrit Sigríðar Jónsdóttur, „Kona hverfur“ flutt á rás eitt. Leikritið fjallar um gamalt leyndarmál, sem flyst á milli kynslóða með óvæntum hætti.

Það vakti athygli að samtölin, sem voru milli tveggja kvenna, voru yfirleitt án víðóms. Hljóðmyndin var hins vegar öðru hverju í víðómi. Á einum stað í verkinu örlaði á því að hljóðmyndin yrði ofhlaðin, en þá þurfti hlustandinn að greina á milli þriggja radda. Tvær voru í miðjunni, en sú þriðja á vinstri rás.

Þegar upp var staðið frá því að hlusta á flutninginn, varð undirrituðum ljóst að þarna hafði orðið til lítið og áhrifamikið listaverk, sem telja verður á meðal hins besta sem íslenskt útvarpsleikhús hefur skapað á þessari öld. Eru höfundi og aðstandendum verksins fluttar einlægar hamingjuóskir.


Athyglisverður fyrirlestur um menningu smáþjóðar

Miðvikudaginn 25. þessa mánaðar hélt kínverskur fræðimaður, zhang Boy, prófessor við Tónlistarháskóla ríkisins í Beijing, fyrirlestur um tónlistararfleifð AWA-þjóðarinnar, sem býr í Yunnan-fylki í suðvestur-Kína. Zhang var hér á ferð ásamt nemanda sínu, ungri stúlku, sem vinnur að meistararitgerð um þjóðlega, íslenska tónlist.

Awa-menn eru um 350.000 og búa flestir þeirra innan kínversku landamæranna, en fámennur hópur býr í Burma.

Skrifað er um fyrirlesturinn á bloggi Kínversk-íslenska menningarfélagsins.


Gesar konungur, borgarmúrarnir í Xi'an og stutt viðtal

 

Tíbetska sagnaljóðið um Gesar konung, sem er rúmlega þúsund ára gamalt, er talið lengsta sagnaljóð, sem varðveist hefur.

Í þættinum Hlustendagarðinum, The Listeners Garden, sem útvarpað er á vegum kínverska alþjóðaútvarpsins, china Radio International, er fjallað um þetta merka kvæði eða sagnabálk auk borgarmúranna umhverfis Xi‘an, sem draga að sér milljónir ferðamanna á hverju ári.

Á undan þessu er lesið úr bréfum hlustenda og birt stutt viðtal við ritstjóra þessarar bloggsíðu, sem brá sér í heimsókn til kínverska alþjóðaútvarpsins 5. apríl síðastliðinn. Með því hélt ritstjórinn upp á að 45 ár eru um þetta leyti liðin frá því að hann hóf að fylgjast með kínverska alþjóðaútvarpinu, sem áður nefndist Radio Peking.

 

IN ENGLISH

 

The Tibetan epic poem of King Cesar is over 1.000 years old and is believed to be the longest epic poem in the world.

On the radio Show, The Listeners Garden, which is broadcast by China Radio International this poem is introduced as well as the city walls araound Xi‘an. Before that the letters from some listeners are read and an interview with the editor of this page can be heard, but he visited China Radio International on April 5 to celebrate among other things that he has been a regular to the station‘s broadcast for 45 years.

 


Athyglisverðir tónleikar í Beijing

 

Laugardaginn 7. apríl hófst 3. tónleikaröð starfsársins hjá Þjóðarsinfóníuhljómsveitinni í Beijing. Að þessu sinni verða haldnir 11 tónleikar, þar sem fram koma ýmsar af þekktustu sinfóníuhljómsveitum Kínverska alþýðulýðveldisins. Okkur hjónum var boðið á tónleikanna og nutum þeirra í ríkum mæli. Ég hef ekki verið á sinfóníuhljómleikum í Beijing í 26 ár og var ánægjulegt að verða vitni að hinni miklu og öru þróun sem hefur orðið á sviði sígildrar, vestrænnar tónlistar í Kína.

Í ávarpi, sem embættismaður kínverska menningarmálaráðuneytisins flutti við upphaf tónleikanna, kom fram að stjórnvöld hefðu ákveðið að niðurgreiða aðgöngumiða, sem þættu orðnir of dýrir til þess að almenningur fengi notið sinfónískrar tónlistar. Eftir því sem okkur virtist, kostuðu miðarnir á þessa tónleika álíka mikið og miðar á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu. Hljómsveitarstjóri var Lin Tao, sem hefur getið sér gott orð sem hljómsveitarstjóri víða í Evrópu.

 

Kínversk og vestræn tónlist

 

Á tónleikunum voru leiknir þættir úr evrópskum og kínverskum verkum. Tónleikarnir hófust með forleiknum að Ruslan og Ljudmílu eftir glinka. Þar næst var Dans Yaomanna, kínverskt verk frá miðjum 6. áratugnum, þá þrír þættir úr ballettsvítunni Rauðu kvennaherdeildinni og fyrsti þáttur píanókonsertsins, Stofnendurnir, en Guan Xia lauk við að semja hann á síðasta ári. Einleikari var Wu Makino.

Eftir hlé voru þættir úr Svanavatninu og Carmen á dagskrá auk fyrsta þáttar 9. sinfóníu Dvoraks úr nýja heiminum.

 

Þjóðarleikhúsið mikla

 

Tónleikarnir voru haldnir í Þjóðarleikhúsinu mikla, sem stendur nærri Torgi hins himneska friðar í Beijing. Bygging þess hófst árið 2001og var það tekið í notkun árið 2007. Auk tónleikasalar, sem rúmar um 2.000 áheyrendur, er sérstakur salur til óperuflutnings auk annarra smærri sala fyrir ýmsar tegundir tónlistar. Húsið, sem gengur undir nafninu Eggið, mótast mjög af egglaga formum. Þessi mikla listamiðstöð er mikilfenglegt listaverk og svo stór í snium, að Harpa verður hálfgerð smásmíði. Byggingin er sögð hafa kostað 50 milljarða og 400 milljónir íslenskra króna á gengi því sem Seðlabankinn gaf upp þriðjudaginn 10. apríl 2012.

Nokkurrar tilhlökkunar gætti hjá okkur hjónum að bera saman hljómburðinn í Egginu og Eldborgarsal Hörpu. Hljómurinn virtist nokkuð jafn og dreifingin góð. Þar sem við sátum á næstfremsta bekk á öðrum svölum þótti mér djúpir tónar bassans ekki skila sér nægilega vel. Kann þar að hafa valdið hljóðstilling salarins.

 

Um kínversku verkin

 

Flestir lesendur þessa pistils þekkja þau vestrænu verk, sem nefnd hafa verið hér að framan. Dans Yaomanna var upphaflega saminn fyrir hljómsveit með kínverskum hljóðfærum. Verkið er rómantískt og á að endurspegla þjóðleg einkenni Yao-þjóðflokksins. Hefur það notið mikilla vinsælda. Dansinn var saminn árið 1952 og voru höfundarnir tveir: Liu Tieshan og Mao Yuan. Hljómsveitin lék þetta verk ágætlega og naut viðkvæmni þess sín auk fjörugra kafla, þar sem slagverkið naut sín.

 

Ég hafði hlakkað mikið til að heyra þættina úr Rauðu kvennaherdeildinni, en það verk hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér frá því að ballettinn var gefinn út á hljómplötum árið 1972. Við hlið mér sat kínversk vinkona okkar hjóna, Lu Yanxia, sem var barnastjarna í Jinan og dansaði þá hlutverk aðalpersónunnar, wu Qinghua. Nutum við verksins í ríkum mæli. Elín þekkir þetta verk einnig mætavel, enda eru kaflar úr því fluttir hér á heimilinu við og við. Hljómsveitin lék forleikinn, Dans rauðu herkvennanna og hluta annars þáttar.

Eins og mörg verk, sem samin voru í menningarbyltingunni, var tónlistin við Rauðu kvennaherdeildina samvinnuverkefni þeirra Du Mingxin, Wu Zuqiang, Wang Yanqiao, Shi Wanchun og Dai Hongcheng.

 

Leikur hljómsveitarinnar var yfirleitt áheyrilegur. Þó var áberandi misræmi milli strengjasveitar og blásara. Einkum virtust básúnurnar óhamdar.

 

Í fyrsta þætti píanókonsertsins Stofnendanna, sem var síðastur á dagskrá fyrir hlé, drukknaði hljómur slaghörpunnar í ofurþunga hljómsveitarinnar. Verkið virðist, eftir því sem dæma má af fyrsta þætti, líkast amerískri kvikmyndatónlist úr bandarískri ástarkvikmynd. Meginstefið er knappt og endar í svo tilfinningalegum hljómi, að hver sá, sem er viðkvæmur í lund, hlýtur að tárast. Vart verður þetta verk talið merkasta framlag Kínverja til píanóbókmenntanna. Svo að öllu sé þó haldið til skila er það lagrænt og fellur sjálfsagt ýmsum, sem eru að byrja að feta sig um vegi vestrænnar tónlistar, vel í geð.

 

Íslendingar, sem eiga leið um Beijing, eru eindregið hvattir til að veita athygli því mikla framboði tónlistar af ýmsu tagi sem er á boðstólnum í borginni. Óhætt er að fullyrða að Beijing verður innan skamms ein þeirra stórborga, sem skartar miklu úrvali alls kyns tónlistar við flestra hæfi.

 


Jón Arason á leikritakvöldi Ríkisútvarpsins

Í vetur hafa verið haldin sérstök leikritakvöld á Rás eitt, þar sem útvarpað hefur verið gersemum úr safni útvarpsins. Í kvöld var það Jón Arason eftir Matthías Jochumsson í leikgerð gunnars Róbertssonar Hansens frá árinu 1960.

Gunnar var merkur listamaður sem setti mark sitt á íslenskt leiklistarlíf um nokkurt skeið. Hann var fjölhæfur, sem heyrðist í kvöld á því, að hann stjórnaði flutningi verksins og samdi tónlistina. Hún var skemmtileg suða úr dönskum þjóðlögum og leikhústónlist, sem mátti rekja til 19. aldar og hefði sjálfsagt Mattías verið hinn ánægðasti með hana, enda líktist hún dönsku lögunum sem voru og eru janvel enn notuð þegar Skugga-Sveinn er sýndur.

Árið 1959 urðu miklar breytingar á högum Ríkisútvarpsins, þegar það flutti á 5. og 6. hæð húss Fiskifélagsins við Skúlagötu 4. Tækjakosturinn var þá endurnýjaður og innréttað sérstakt hljóðver fyrir leiklist. Á 5. hæðinni var tónlistarsalur sem einnig var notaður til hljóðritunar skemmtiþátta.

Það heyrist greinilega hvað hljóðgæði leikritanna og annars efnis jukust við þessar breytingar. Þótt margt þyki með nokkrum frumbýlingshætti, þegar hlýtt er á þessi gömlu hljóðrit, er ánægjulegt að rifja upp leikritin. Ekki er með neinum hætti hægt að bera þau saman við hljóðritin, sem gerð eru nú á dögum. Það er auðvitað hálfhjákátlegt að heyra menn tala með herbergishljómi úti í náttúrunni og sitthvað kann að orka á nútúmafólk sem heldur frumstæð framleiðsla. En margt var þó firnavel gert á þessum árum.

Ég man enn eftir ýmsum setningum úr leikritinu, en ég var barn, þegar það var flutt á jólum 1960. Mér hafði verið tjáð að Jón Arason væri forfaðir minn og örlög hans voru mér hugstæð, þessarar miklu sjálfstæðishetju, sem unni svo frelsi landsins og kirkjunnar, að hann skirrðist jafnvel ekki við að biðja Þýskalandskeisara aðstoðar - Evrópusambandssinni.:)

Í kvöld þótti mér annkannalegt leikaravalið, ímyndaði mér að Valur Gíslason, sem vær tæplega sextugur, þegar leikritið var hljóðritað, hæfði vart í hlutverk Daða Guðmundssonar í Snóksdal, né Brynjólfur Jóhannesson, sem lék Martein Biskup Einarsson. En Gunnar Róbertsson Hansen vissi hvað hann söng. Marteinn var fæddur árið 1503 og því 47 ára, þegar atburðirnir, sem greint er frá í leikritinu, áttu sér stað, eða 17 árum yngri en Brynjólfur, þegar hann lék þetta hlutverk 410 árum síðar. Dagði var fæddur árið 1495 og því 55 ára, eða þremur árum yngri en Valur Gíslason. Þetta gjörbreytti myndinni af valdataflinu í leikritinu og gerði það allt mun sennilegra, þegar þetta laukst upp fyrir mér eftir nokkra yfirlegu.

Leikritasafn Ríkisútvarpsins er fjársjóður. Þar varðveitist túlkun fyrstu kynslóðar íslenskra leikara, sem voru í mun betra sambandi við fortíðina en leikarar nútímans, sem reyna stundum af veikum mætti að túlka löngu liðna atburði og þjóðhætti. Framsögn þeirra var agaðri, málfarið og framburðurinn betri og persónusköpunin að mörgu leyti dýpri en borið hefur á að undanförnu. Ýmsir leikaranna voru fjölmenntaðir í sígildum fræðum vestur-Evrópskrar heimsmenningar og bar allt fas þeirra því vitni.

Ástæða er til að hvetja alla unnendur íslenskrar leiklistar til að hlusta á þau leikrit, sem eru á vef Ríkisútvarpsins, bæði gömul og ný. Þar leynist mörg perlan.


Harmonikusnillingar frá Norður-Kóreu

 

Emil Bóasson, góðvinur minn, er fundvís á sitthvað merkilegt, sem leynist á vefnum:

 

 

Miklum sögum fer af færni norðurkóreskra í harmoníku leik. Vísir segir svo frá í dag:

 

Norski tónlistarmaðurinn Morten Traavik gerði skemmtilega menningarlega  uppgötvun þegar hann birti myndband af Norður-kóreskum harmonikkuleikurum spila slagarann Take me on með norsku hljómsveitinni A-ha. Milljónir hafa horft á harmonikkuspilarana spila lagið sem þau lærðu á tveimur dögum.

„Þetta eru bestu tónlistarmenn sem ég hef kynnst," sagði Traavik í samtali við fréttastofu BBC og bætti við að hæfileikar þeirra væru slíkir að þeir gætu slegið í gegn hvar sem er í heiminum.

Traavik kynntist tónlistarmönnunum í Kum Song tónlistarskólanum í Norður-Kóreu þar sem hann kynnti fyrir þeim vestræna popptónlist sem og klassík. Traavik hefur ferðast um alla Austur-Asíu og kynnt íbúum fyrir tónlist á norðurlöndum og um leið fræðst um tónlist viðkomandi landa. Svo er tilgangurinn að halda menningarhátíð í Norðaustur Noregi, nærri landamærum Rússlands, þar sem meðal annars harmonikkuspilararnir munu koma fram.

Hægt er að horfa á flutning harmonikkuleikaranna hér fyrir ofan.

YouToube upptakan er hér

http://youtu.be/rBgMeunuviE

Frá þessu var greint á BBC með krækju í þessa frétt

http://azstarnet.com/entertainment/music/norwegians-seek-a-ha-moment-in-north-korean-

music/article_89e3e45f-124f-5274-aa5d-ed12de64bd1a.html

 


Egils saga Skalla-Gríms sonar í Ríkisútvarpinu

Um þessar mundir er flutt á vegum Útvarpsleikhússins norsk leikgerð Egils sögu í þýðingu Ingunnar Ásdísardóttur. Vísur Egils og brot úr kvæðum hefur Þórarinn Eldjárn endurort.

Tæknivinnsla er öll hin besta og hljóðmyndin yfirleitt til fyrirmyndar. Leikurinn er góður. Þó hefði mátt nota yngri leikara í fyrsta þættinum, en þá var fjallað um æsku Egils. En allt sleppur þetta þó fyrir horn.

Eins og við mátti búast er þýðing Ingunnar vel gerð. Þó sakna ég þess að ekki skuli notuð orðatiltæki úr sjómannamáli, sem voru lifandi í málinu til skamms tíma. Hér áður fyrr undu menn upp segl, en hífðu þau ekki upp og felldu seglið.

Vísur Þórarins Eldjárns bera af. Hann hefur endurort þær flestar undir dróttkvæðum hætti og tekst listavel að koma efni þeirra til skila. Sýnir Þórarinn hvað dróttkvæður háttur getur í raun verið lipur bragarháttur, ef vel er með farið. Vísurnar eru sumar reyndar svo vel gerðar, að sá grunur læðist að mér, að vísurnar hljóti jafnvel að hafa verið umortar eftir því er tímar liðu fram og lengra varð frá því að Egill var á dögum. Reyndar voru vísur Egils torráðnar fyrri tíðar mönnum, eða orti annálaritarinn Björn á Skarðsá ekki þannig á 17. öld?

Mín er ekki menntin slyng

mætri að skemmta dróttu.

Eg var að ráða ár um kring

það Egill kvað á nóttu.

Þarna vitnar Björn til Höfuðlausnar. Gaman verður að heyra Höfuðlausn Þórarins á sunnudaginn kemur.

Þórarni eru fluttar einlægar hamingjuóskir og þakklæti fyrir þessa mætu skemmtan.


Skálholt eftir Guðmund Kamban kvikmyndað?

Í kvöld flutti Útvarpsleikhúsið Skálholt eftir Guðmund Kamban í þýðingu Vilhjálms Þ. Gíslasonar. Hljóðritið var frumflutt á jólum árið 1955. Helstu leikendur voru Herdís Þorvaldsdóttir, Róbert Arnfinnsson, Þorsteinn Ö. Stephensen og Arndís Björnsdóttir. Fleiri kunnir leikarar komu við sögu.

Þessi átakanlegi harmleikur Guðmundar Kambans í frábærri leikstjórn Lárusar Pálssonar, snerti óneitanlega viðkvæma strengi í huga hlustandans. Túlkun þeirra fjögurra leikara, sem nafngreindir voru í upphafi þessa pistils, var með þeim ágætum að vart getur betri leik í útvarpi fyrr eða síðar.

Hljóðrit þetta, sem er farið að nálgast sextugt, er fyrir margra hluta sakir merkilegt. Það gefur góða mynd af þeirri aðstöðu sem fyrir hendi var til hljóðritana og jafnframt þeim tónlistarsmekk og því úrvali sem menn höfðu úr að moða.

Sem millistef var notuð orgelútsetning Páls Ísólfssonar á stefi úr Þorlákstíðum. Í lok leikritsins heyrðist brot úr sálmi Hallgríms Péturssonar, sem almennt gengur undir nafninu "Allt eins og blómstrið eina". Var það við orgelundirleik, en ekki er vitað til þess að Brynjólfur biskup hafi látið setja orgel í dómkirkju þá sem hann lét reisa og rifin var skömmu eftir að Skálholtsstaður laskaðist í jarðskjálftunum árið 1784, enda var þá kirkjan orðin fúin af viðhaldsleysi og gestum og gangandi lífshættuleg.

Þessi harmsaga Ragnheiðar og Daða hefur orðið ýmsum til íhugunar. Skrifaðar hafa verið skáldsögur, ort ljóð og jafnvel hafa miðlar orðið til þess að "sannleikur máls þeirra Daða og Ragnheiðar" hefur litið dagsins ljós svo að vart velkjast menn í vafa um það hvað gerðist. Miðað við hljóðrit, sem birt voru af miðilsfundum á 8. áratugnum, var túlkun Þorsteins Ö. Stephensen á Brynjólfi biskupi fremur sannferðug, en þó hafði hann ekki heyrt þessi hljóðrit. Guðmundur Kamban hefur væntanlega með leikriti sínu hagað orðum persónu biskups þannig að vart varð komist hjá því að beita öllum þeim hroka og yfirlæti sem leikarinn gat látið í té.

Við endurflutning þessa hljóðrit leitar ýmislegt á hugan og skal nú varpað fam þremur tillögum:

Handritshöfundar íslenskir ættu að íhuga hvort ekki væri rétt að endurgera Skálholt. Fara mætti þá leið að hljóðrita leikritið að nýju fyrir útvarp og haga þá tónlistarfvali með öðrum hætti en gert var árið 1955. Nú vita menn gerr um tónlist 17. aldar á Íslandi en menn vissu þá og þara að auki vita menn nú hvernig íslenska þjóðlagið við áður nefndan sálm Hallgríms var afskræmt með þvíað breyta einni nótu laglínunnar, þegar það var undirbúið til útgáfu sálmabókar á sinni tíð. Það hefur Smári Ólafsson sannað, svo að óyggjandi má telja.

Einnig mætti hugsa sér að gera um þessa atburði röð sjónvarpsþátta. Þá fengju handritshöfundar að spreyta sig á sígildu viðfangsefni, sem á rætur að rekja til fortíðar þjóðarinnar. Úr því gæti orðið sígilt meistaraverk, ef vel tækist til.

Þriðja tillagan er sú að saga þeirra Ragnheiðar og Daða yrði kveikjan að nýju leikverki sem samið yrði handa þeim Herdísi Þorvaldsdóttur og Róbert Arnfinnssyni. Söguþráðurinn gæti orðið einhvers onar ævisaga aldraðra einstaklinga sem fengu ekki að njótast fyrr en hausta tók. Þau Róbert og Herdís væru vís til að túlka vel samið handrit með þeim hætti að hverjum manni yrði ógleymanlegt, hvort sem um yrði að ræða flutning í sjónvarpi, útvarpi eða á leiksviði.

Íslendingar hafa um hríð verið of uppteknir af því að endurgera nýlega útgefnar skáldsögur sem sjónvarpsþættii. Mál er að linni.


Andstæðir hljómar í Hörpu

Í gær var efnt til veglegrar tónlistarveislu í Eldborgarsal Hörpu til að minnast 100 ára afmælis Oddgeirs Kristjánssonar, tónskálds frá Vestmannaeyjum. Var salurinn nær fullsetinn og hrifning áheyrenda mikil, enda vandað til flutningsins.

Áður en tónleikarnir hófust lék Lúðrasveit Vestmannaeyja lög eftir Oddgeir. Var byggt á útsetningum hans. Hefur aldrei fyrr, svo að vitað sé, heyrst lúðrasveit hljóma jafnvel hér á landi. Hljómurinn var hreinasti unaður, eins og búast mátti við. Blikuðu tár á hvarmi margra sem þekktu Oddgeir og unnað hafa lögunum hans.

Hinir eiginlegu tónleikar hófust síðan. Voru þar á sviði þekktir, íslenskir söngvarar, valinn maður í hverju rúmi. Óneitanlega varð Ragnar Bjarnason hetja kvöldsins og er þá á engan hallað.

Eðli málsins samkvæmt voru bæði hljóðfæri og söngvarar mögnuð upp, eins og það er orðað. Höfundi þessa pistils til mikilla vonbrigða var hljóðið í hljóðkerfinu afleitt. Illa tókst að blanda saman hljóðfærunum svo að vel færi og hljómurinn einhvern veginn dósarkenndur. Hann minnti sannast sagna á hljóminn, þegar farið var að gera tilraunir með að láta Sinfóníuhljómsveit Íslands leika popptónlist á 8. áratugnum. Síðan hafa menn náð betri tökum á tækninni, enda betri tól og tæki komið til sögunnar.

Í sumar var ég viðstaddur sýningu á Hárinu, sem haldin var í Silfurbergs- eða Norðurljósasal Hörpu. Þar var hljóðkerfi notað, sem var hreint afleitt. Um sama leyti bárust fréttir af því að íslenskir popphljómsveitarmenn sættu sig ekki við að þurfa að nota hljóðkerfi Hörpu og gæfist ekki kostur á öðru.

Það er hægt að flytja rafmagnaða hljómlist svo að vel fari, jafnvel þótt setja þurfi hljóðnema við strokhljóðfæri og blásturshljóðfæri. Því var með ólíkindum að stundum varð úr tónlistinni ærandi hávaði, nokkuð sem hentar illa eyrum miðaldra fólks og aldraðs og stuðlar að heyrnarskemmdum hjá þeim sem eru yngri.

Fróðlegt væri að vita hverju þetta sætir. Hvers vegna er ekki hægt að magna upp hljóðið í Hörrpu án þess að eiga á hættu að hluti tónlistarinnar verði að óskapnaði?

Að þessu sögðu verður að hrósa aðstandendum tónleikanna fyrir frábært starf og góðan undirbúning. Útsetningarnar, sem heyrðust í gær, voru á meðal þess besta sem heyrst hefur, þegar lög Oddgeirs hafa verið flutt. að vísu þótti mér illa farið með ljúft sönglag, Báruna við ljóð Tómasar Guðmundssonar. Lagið fór að nokkru forgörðum vegna hávaða, slæmrar hljóðblöndunar og söngtilbrigða Egils Ólafssonar, sem áttu alls ekki heima í lagi, sem ætlað er sem einsöngslag við slaghörpuundirleik.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband