Færsluflokkur: Menning og listir

Afbragðs hljómleikaútsending og unaðslegt viðtal

 

Í kvöld var útvarpað frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu. Á dagskrá var rússnesk tónlist. http://sinfonia.is/

Hvorki verður gerð grein fyrir stjórnanda, einleikara né tónskáldum, enda er ítarleg umfjöllun á vefsíðu sinfóníuhljómsveitarinnar.

 

Flutningur annars píanókonserts Tsjaikovskís var með eindæmum stórkostlegur og ótrúlegur styrkur sem einleikarinn býr yfir.

Það var fróðlegt að fylgjast með útsendingu Ríkisútvarpsins. Hljómurinn úr Hörpu skilar sérmeð öðrum hætti en tónninn úr Háskólabíói. Að vísu höfðu tónmeistarar Ríkisútvarpsins náð góðum tökum á kvikmyndasalnum og var útsending þaðan einatt hreinasta afbragð.

Í kvöld fannst mér hljómsveitin einhvern veginn of nálæg og tónninn fyrir vikið dálítið þurr. Dýpt hljómsveitin skilaði sér með ágætum. Vafalaust eiga tónmeistarar útvarpsins eftir að læra á þetta eins og annað.

 

Þar sem ég sat heima í stofu gat ég ekki betur heyrt en stjórnandinn hefði dreift hljómsveitinni öðruvísi um sviðið en vant er. Fiðlurnar voru aðallega hægra megin en sellóin og bassar vinstra megin. Hélt ég fyrst að um væri að kenna einhverjum ráðstöfunum vegna píanókonsertsins, en í sinfónísku dönsunum, sem tónleikunum lauk á, var þetta einnig svo.

 

Sérstakt lof fær Arndís Björk Ásgeirsdóttir fyrir viðtal við Valdimar Pálsson, sem útvarpað var í hléinu. Það hafði allt til að bera sem prýða má gott viðtal. Það var skemmtilegt, fróðlegt og einlægt. Arndís skreytti það með tónlistarbrotum. Hún gætti þess jafnan að tónlistin kaffærði ekki viðmælandann og mættu Víðsjármenn Ríkisútvarpsins fara í læri hjá Arndísi.

 

Í heildina var útsendingin með ágætum og ástæða til að óska aðstandendum til hamingju.

Næsta hálfa mánuðinn verður hægt að hlusta á tónleikana á vefsíðu Ríkisútvarpsins,

http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/live/

 


Hörpuljósin stjörnubliki líkust

Eitt af því, sem okkur Elínu, eiginkonu mína og sjónarfulltrúa bloggsíðunnar, langaði til að fylgjast með á menningarnótt, var "afhjúpun" Hörpu og hrifumst við af ræðu Sigrúnar Hjálmtýsdóttur. Þaðan, sem við stóðum úti í Örfirisey, sást ljósaskreyting hjúpsins ekki.

Í gærkvöld, eftir að myrkt var orðið, héldum við út í náttmyrkrið og nutum góðviðrisins. Haldið var að Hörpu. Þar gaf á að líta. Framhlið hússins var upplýst, ekki allur hjúpurinn. Ljósin voru mild en ekki ágeng - stjörnubliki líkust, eins og Elín orðaði það. Var það samdóma álit okkar að Ólafur Elíasson vissi mætavel hvað hann gerði. Ágeng skrautlýsing hefði verið í æpandi ósamræmi við flest sem tíðkast hér á landi og jafnvel spillt miðborgarmyndinni.

Þótt Harpa sé ekki yfir gagnrýni hafin nær ekki nokkurri átt að lýsa áhrifum hússins á þá sem hafa einungis séð það á sjónvarpsskjá eða hlýtt á útsendingarnar í sjónvarpi. Þegar vígslutónleikunum var sjónvarpað 13. maí síðastliðinn var þeim einnig útvarpað. Við völdum þann kost að hlýða á útsendingu útvarpsins, en þá varð ekki samræmi millum varahreyfinga þeirra sem töluðu í útvarpið og sáust á skjánum því að nokkur tímamismunur var á útsendingunni. Hljóðgæði sjónvarpsútsendingar voru hins vegar í lakara lagi og hafa vafalítið spillt ánægju margra sem hlökkuðu til að njóta tóngæðanna. Þekktur söngvari orðaði það svo, þegar við ræddum málið, að hann hefði orðið fyrir vonbrigðum með húsið. Þau lágu í því, þegar eftir var spurt, að hljómburðurinn hefði ekki skilað sér í sjónvarpinu.

Þannig var það með afhjúpn glerhjúpsins. Auglýsingaskrumið bar fegurðarskynið ofurliði.


Bubbi Morthens - stórsöngvari á heimsmælikvarða

Ég heyrði Bubba Morthens fyrst flytja tónlist árið 1977, ef mig rekur rétt minni til. Flutningur hans hreif mig ekki þá.

Ég fylgdist einnig með textagerð hans. Þegar Bubbi tók að yrkja samkvæmt hefðbundnum bragreglum og beitti ljóðstöfum, áttaði ég mig á því að hann réð ágætlega við að yrkja og var í raun og veru gott ljóðskáld.

Á tónleikum með Selkórnum og á tónlistarhátíð, sem þau stóðu fyrir, Guðný Guðmundsdóttir og Gunnar Kvaran, fylgdist ég með raddbeitingu Bubba og dáðist að raddsviði hans.

Laugardagskvöldið 20. ágúst síðastliðinn þóttumst við Elín vita að tilgangslaust væri að koma sér að í mannfjöldanum við Arnarhól og leituðum því út í Örfirisey. Þar var nokkur hópur fólks til þess að njóta flugeldasýningarinnar. Á meðan við biðum eftir að ljósadýrðin hæfist hlustuðum við á beina útsendingu Rásar tvö. Hún var hluti stemmningarinnar og þar söng Bubbi Morthens af öllum kröftum um færibandið í Ísbirninum við undirleik góðrar hljómsveitar.

Raddsvið Bubba nær a.m.k. yfir tvær og hálfa áttund og þrátt fyrir að hann sé kominn á miðjan aldur virðist söngröddin ekki hafa gefið sig. Því miður er það svo, að sumir, sem aðhyllast tilteknar stjórnmálaskoðanir eða listastefnu, eru haldnir fordómum í garð þess sem þeim hugnast lítt. Ég er einn þeirra. Úti í Örfyrirsey laukust hlustir mínar upp fyrir þeirri staðreynd að fleira er list en sönglist hálærðra söngvara. Þetta hef ég svo sem vitað lengi en ekki flutt þessa vitneskju á ýmsa sem eiga það skilið. Því réðu skoðanir mínar og fordómar og gera sjálfsagt enn.

Bubbi Morthens er tvímælalaust stórsöngvari á heims mælikvarða og Íslendingar eru og eiga að vera stoltir af honum. Flutningur hans er einlægur og um leið gríðarlega orkumikill. Hann hefur einstakt lag á að hrífa áheyrendur með sér og fylla þá orku.


Ísland nær óþekkjanlegt frá árinu 1865

 

Þingvellir eru gjörbreyttir frá árinu 1865, segir Hörður Geirsson, sem nú fer um landið og tekur ljósmyndir af stöðum sem ljósmyndaðir voru hér á landi eftir árið 1865. Hann segist hvergi hafa rekist á óbreytt umhverfi á ferðum sínum. Versta telur hann þó „eyðilegginguna" á Djúpavogi þar sem hann segir að gamla hafnarstæðið hafi verið eyðilagt.

Hörður beitir sams konar ljósmyndatækni og notuð var í árdaga ljósmyndanna. Hann tekur myndir á glerplötur, framkallar þær sjálfur og lakkar. Ljósmyndavélin er frá 1880, bandarísk, en linsan er frönsk frá árinu 1864.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Hörð á slóðinni

http://www.hljod.blog.is/blog/hljod/entry/1179112/

 


"Bjart með köflum"

Það hefur víða verið drepið niður fæti á sviði íslenskrar menningar. Þann 4. maí var það Harpa með öllum sínum unaði og magnþrungnu tilfinningum, daginn eftir matarboð og rökræður ásamt fróðleik gestgjafanna um villur í þýðingum guðspjallanna úr hebresku á grísku, í gærkvöld Iðunnarfundur með tvísöng og í kvöld Bjart með köflum.

Þótt þráður leiksins sé fremur lauslega fléttaður tekst höfundi að krafla sig út úr vandræðum í lokin og telst sleppa vel frá verkinu í heils. Einn áheyrandi orðaði það svo að þetta væri fremur leikrit til að sýna í félagsheimilum en Þjóðleikhúsinu. Honum var vinsamlegast bent á að Mao formaður hefði sagt að menningin ætti að þjóna alþýðunni og í ljósi þess væri réttmætt að Þjóðleikhúsið legði sitt af mörkum.

Við, sem teljumst Íslendingar og hluti alþýðu heimsins, hljótum að hafa gott af því að gleyma stund og stað, njóta gamalla dægurlaga og texta, velta því fyrir okkur hvort við hefðum sett þau í samband við hitt kynið fyrir 40 árum og hver sú eða sá hefði átt hughrifin sem fylgdu hverju lagi.

Bjart með köflum er gamanleikur með alvöruþrungnu ívafi og endirinn er með ólíkindum. Leikararnir stóðu sig með stakri prýði.


Harpa - húsið okkar allra

Ég starfa ekki sem blaðamaður og því er ég stundum lengi að ákveða hvað skrifa skuli um.

Þegar hugurinn reikar til fyrstu tónleikanna, sem haldnir voru í Hörpu miðvikudaginn 4. maí, þakka þég fyrir að allt fór saman: frábær stjórnandi, undurgóð hljómsveit og einleikari, áhrifamikill kór og einsöngvarar, áheyrendur sem frá streymdu gleðibylgjur og unaðslegur salur, salurinn sem margir höfðu þráð en fæstir búist við því sem mætti eyrum þeirra.

Í fyrsta sinn skynjaði ég til fulls dýpt og hreinleika strengjanna og hljóðfærin greindu sig hvert frá öðru betur en aldrei fyrr, en mynduðu þó eina órofaheild. Stjórnandinn hafði tvö hljóðfæri í höndum sér: hljómlistarmennina og Hörpu. Hann lék á hvort tveggja af einstakri fágun og kunnáttu. Ég hef oft heyrt 9. sinfóníu Beethovens flutta á tónleikum og píanókonsert Griegs. Aldrei heryði ég fyrr jafnmiklar styrkandstæður sem á þessum tónleikum. Salurinn skilaði þeim öllum. Vladimir Ashkenazy þekkti hann þrátt fyrir stutt kynni og vissi hvað mætti bjóða honum og áheyrendum. Afraksturinn varð ólýsanlegur.

Verk Þorkels Sigurbjörnssonar, Velkomin Harpa, var látlaust og íburðarlítið eins og hæfir auðmjúkri sál sem fyllist þakklæti þegar æðsti draumurinn rætist.


Eftirvæntingin vex

Að undanförnu hafa Ríkisútvarpið, Morgunblaðið og aðrir fjömiðlar byggt upp mikla eftirvæntingu hjá tónlistarunnendum vegna Hörpu, en þar verða fyrstu tónleikarnir haldnir í kvöld. Þeim sem hafa verið áskrifendur árum saman að tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, gefst kostur á að vera viðstaddir tónleikana.

Lísa Pálsdóttir gerði ýmsu skemmtileg skil í þætti sínum Flakki á rás eitt síðastliðinn laugardag. Í gær var skemmtileg grein eftir gísla Baldur Gíslason í Morgunblaðinu og enn kveður við sama tón hjá Karli Blöndal í blaðinu í dag. Það hríslast sælukennd um allan líkamann við lestur viðtalanna og þau orð sem viðmælendur láta falla.

Eftirvæntingin er mikil. Því meira sem ég heyri og les verður tilhlökkunin meiri. Það er unaðsleg tilfinning að geta hlakkað til eins og barn sem hlakkar til jólanna eða afmælis síns.


Djákninn á Myrká á Hesteyri

Þegar menn verða lumpnir getur verið gott að stytta sér stundir með því að leggjast í lestur spennusagna.

Yrsa Sigurðardóttir, byggingaverkfræðingur, er snjall rithöfundur. Sögur hennar eru ekki formúlukenndar eins og sumt sem Dan Brown hefur ritað og leggur Yrsa sig fram um að kynna sér aðstæður á þeim stöðum sem hún ritar um.

Sagan "Ég man þig" fjallar um dularfulla atburði sem gerast á Hesteyri og óvænt tengsl millum nútíðar og þátíðar. Þar er magnaðri draugagangur á ferð en þegar sjálfur djákninn á Myrká gekk aftur og tekur því fram sem Miklabæjar-Solveig hefur verið sökuð um.

Persónusköpun Yrsu í sögunni er prýðileg og atburðarásin grípur lesandann jafnföstum tökum sem ímyndaðir, ískaldir draugsfigur þegar þeir kreppastað hálsi fórnarlambsins sem má sér enga björg veita. Reyndar neyðist höfundur til þess að skjóta örítið yfir markið undir lok bókarinnar til þess að losna úr eins konar ógöngum, en það er smávægilegt miðað við það sem vel hefur tekist í bókinni.

Yfirleitt skrifar Yrsa allgott mál. Þó hefur hún látið undan vissum tilhneigingum og virðist forðast ýmislegt sem talið hefur verið gott og gilt um aldaraðir hér á landi.

"Gerðu það?" virðist vera að hverfa úr málinu og í bók Yrsu segir fólkið "Plís?"

Þá eru menn hættir að fást við hitt og þetta eða taka á hinu og þessu heldur tækla menn allt millum himins og jarðar. Það eru ekki mörg ár síðan undirritaður vissi ekki hvað þessi sögn þýðir. Ef til vill hefur farið eins fyrir Íslendingum hinum fornu þegar þeir þurftu að kyngja tökuorðum úr ensku sem bárust hingað með kristninni og svo hefur víst verið á öllum tímum.

Draugasaga Yrsu Sigurðardóttur er skemmtileg bók og hleypir huganum á heilmikið flug. Vafalaust á eftir að gera eftir sögunni magnaða draugakvikmuynd sem fer sigurför um allan heim og sópar að sér verðlaunum. Þar til að því kemur eru lesendur þessa bloggs eindregið hvattir til að kynna sér þessa mögnuðu draugasögu sem er verðugur arftaki hefðbundinna, íslenskra draugasagna.


Listsigur Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Ríkisútvarpsins

Í kvöld var svo sannarlega boðið til tónlistarveislu hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands í Háskólabíói. Hljómsveitin lék kvikmyndatónlist eftir Erich Korngold, Nino Rota, Bernard Herrmann, Jonny Greenwood og fleiri, m.a. úr Guðföðurnum, Cinema Paradiso, Psycho og Planet of the Apes, ásamt syrpu með vinsælustu James Bond-lögunum.

Hljómsveitarstjóri var Benjamin Shwartz. Hljómsveitarstjóra og hljóðfæraleikurum var innilega fagnað að tónleikum loknum og lék hljómsveitin eitt aukalag.

Útsending Ríkisútvarpsins, sem þeir stjórnuðu, Bjarni Rúnar Bjarnason og Georg Magnússon, var með þeirri prýði að vart getur betra hand- eða á ég að segja hljóðbragð. Hafi leikur hljómsveitarinnar verið óaðfinnanlegur var útsendingin og hljóðdreifing á heims mælikvarða.

Efnisvalið á tónleikunum var afar fjölbreytt og gaf ágæta mynd af því besta sem samið hefur verið fyrir kvikmyndir.

Tónleikarnir hófust á tveimur verkum eftir austurríska tónskáldið Erich Wolfgang Korngold (29. maí 1897 -29 nóvember 1957), en hann helgaði kvikmyndatónlist ævistarf sitt að mestu leyti. Er merkilegt að hugsa til þess að áhrifa hans gætir enn á meðal kvikmyndatónskálda ríflega hálfri öld eftir andlát hans, samanber verk Veigars Margeirssonar.

Ekki verður hér fjallað um einstök verk tónleikanna. Þau voru hvert með sínu sniði og spegluðu vel það sem margir vita að kvikmyndatónlist er ekki óæðra listform eins og sumir hafa haldið fram. Margt af því, sem flutt var í kvöld, verður að teljast á meðal hins besta sem samið hefur verið síðasliðna öld.

Hljómsveitarstjórinn kynnti flest verk tónleikanna sjálfur og komst Arndís Björk Ásgeirsdóttir því sjaldan að. Þess ber að geta að kynningar hennar á sinfóníutónleikum eru einstaklega fágaðar og vel unnar svo að unun er á að hlýða. Undirritaður gat ekki varist hlátri þegar hljómsveitarstjórinn tilkynnti eftir að svítunni um Hróa hött lauk, að Íslendingar hefðu unnið Norðmenn í handbolta.

Tónlistarunnendur eru eindregið hvattir til þess að fara inn á vef Ríkisútvarpsins, www.ruv.is og hlusta á þessa einstæðu tónleika.

Aðstandendum öllum er óskað til hamingju með kvöldið.

Úr því að hljómsveitin nær að hljóma svona vel úr Háskólabíói fyrir tilstilli meistara Ríkisútvarpsins, hvernig skyldi hún þá hljóma úr Hörpu? Væntanlega betur í salnum, en vart verður lengra komist í útvarpi.


Gamalt fólk fer ekki út á kvöldin - útvarpsleikrit

Jólaleikrit Ríkisútvarpsins, Gamalt fólk fer ekki út á kvöldin, var flutt í dag, annan dag jóla árið 2010. Leikurinn fjallar um öldruð hjón sem fá til sín tvo sölumenn. Þeir eru svo ágengir að það veldur óþoli þees er á hlýðir. Þótt hegðun sölumennanna sé e.t.v. yfir siðferðismörkum er greinilegt að höfundurinn hefur vandlega velt fyrir sér hveri setningu og leikstjórnin var til hreinnar fyrirmyndar.

Hljóðmynd leikritsins var einföld og í sjálfu sér óaðfinnanleg. Það hefði þó aukið gildi hennar að hafa dauf umhverfishljóð í bakgrunni, t.d. þegar farið var inn í svefnherbergi hjónanna sem vissi að bílastæðinu við blokkina.

Þorsteinn D. Marelsson (1941-2007) hófst handa við að rita útvarpsleikrit á 8. áratug síðustu aldar. Nokkur viðvaningsbragur var á fyrstu leikritum hans, en honum óx ásmegin og fór stöðugt fram. Innan skamms varð hann einn okkar fremstu höfunda útvarpsleikritahöfunda eins og verkið, sem útvarpað var í dag, ber svo ljóst vitni um.

Ekki verður lagt mat á frammistöðu leikaranna, enda óþarft því að hún var gallalaus. Leikstjórinn, sem þekkir útvarpið jafnvel og Þorsteinn Marelsson gerði, hefði þó mátt gera´kossaatriðið ögn ástríðufyllra, því að ástir gamals fólks eru einatt ástríðuþrungnar, þótt um annars konar nautnir og ástríður sé að ræða en hjá ungum elskendum eða nýgiftum hjónum.

Skilyrðislaust er mælt með þessu leikriti sem er á meðal þess besta sem flutt hefur verið í Ríkisútvarpið á þessu ári.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband