Færsluflokkur: Menning og listir

Kór Menntaskólans í Hamrahlíð - vænlegur árgangur

Í gær, sunnudaginn 21. nóvember á síðasta degi kirkjuársins, efndi Kór Menntaskólans í Hamrahlíð til tónleika í Aðventkirkjunni við Ingólfsstræti í Reykjavík. Vart þarf að nefna að Þorgerður Ingólfsdóttir stjórnaði kórnum af stakri snilld. Á dagskrá voru íslensk og erlend kórlög, gömul og ný.

Flutningurinn var nær hnökralaus. Þegar Þorgerður sagði frá einu verkanna sem flutt var hafði hún orð á því að kórar Menntaskólans v. Hamrahlíð hefðu verið beðnir að flytja það fyrst hér á landi, en þá hefði verið mjög góður árgangur. Talaði hún eins og víngerðarmaður. Í gær voru á tónleikunum byrjendur í kórnum og reyndir félagar. Auðheyrt var að Þorgerður var með efni í einstaklega góðan árgang í höndunum.

Ef við hugsum okkur þá alúð sem góður vínbóndi leggur við yrkju sína og vitum að árangurinn fer eftir ástundun hans, vitum við einnig að hið sama gildir um ýmislegt fleira, þar á meðal skólastarf. Þorgerður er ein þeirra fjölmörgu Íslendinga sem lagt hafa alúð við að rækta garðinn sinn. Garður Þorgerðar er fjölskrúðugur tónlistargarður. Þar er sáð ungum viðarteinungum sem vaxa og dafna. Sumir ná miklum þroska og breiða laufskrúð sitt um víðan völl - yfir höf og lönd og heilar álfur.

Ef Íslendingum væri jafnlagið að leggja sömu rækt við íslenska menningu og tungu og Þorgerður hefur gert með list sinni væri íslensk menning betur á vegi stödd í stað þess að hrekjast nú á undanhaldi vegna ásælni erlendrar lágmenningar og orðfæris. Ingólfur Guðbrandsson, faðir Þorgerðar og fyrirmynd í listinni, var bæði snillingur orðsins og hljómsins. Sama marki er Þorgerður brennd.

Megi þjóðin njóta krafta hennar og atorku sem lengst.


Skaftfellingur - heimildamynd um fortíðina í Vík

Í gær var frumsýnd myndin Skaftrellingur eftir Helga Felixson. Framleiðandi myndarinnar er Tröllakirkja. Fjölmargir komu að gerð myndarinnar og styrkir fengust víða að.

Flestir, sem fóru að sjá myndina, væntu þess að um væri að ræða heimildamynd um vélskipið Skaftfelling VE 33, sem kom til landsins í maí 1918, en skipið var smíðað að tilhlutan Skaftfellinga. Annaðist skipið flutninga á milli Reykjavíkur, Vestmannaeyja og nokkura hafna í Vestur- og Austur-Skaftafellssýslum, þó aðallega Víkur frá því í apríl ár hvert fram í október, um 20 ára skeið. Áhugasömum lesendum skal bent á bækling um Skaftfelling og útvarps þátt á síðunni http://hljod.blog.is undir flokknum "Sögur af sjó".

Flestum sýningargestum bar saman um að myndin væri vel gerð og falleg. Skaftfellingur er umgjörð ferðalags Helga Felixsonar inn í fortíðina þar sem hann leitast við að sýna þýðingu Skaftfellings fyrir samfélagið í Vík og ást Sigrúnar Jónsdóttur á skipinu. Þannig er myndin og slík er nálgun höfundarins. Helgi leitaði víða fanga og hafði úr miklum efnivið að moða. Myndin er því ávöxtur og hugarsmíð hans fyrst og fremst.

Dálítillar ónákvæmni gætti í myndinni og skorti nokkuð á að höfundur nýtti sér þær heimildir sem honum voru fengnar. Til að mynda virtist sem Skaftfellingur hefði fyrst og fremst þjónað víkurbúum og verið eign þeirra, en svo var ekki. Að vísu er vikið að því í einni frásögn myndarinnar að kaupstaðarferðir Skaftfellinga vestur á Eyrabakka hefðu lagst af eftir að "báturinn" eins og hann var kallaður manna á meðal hóf siglingar austur í Vík. En Skaftfellingur kom víðar við. Má nefna Hvalsýki og Öræfin, en skipið fór ævinlega tær-þrjár ferðir þangað á hverju sumri. Hlutafjár til smíði skipsins var aflað um Skaftafellssýslurnar báðar. Þá var Skaftfellingur hluti samgöngukerfis Vestmannaeyinga um fjögurra áratuga skeið og efast ég um að nokkurt skip hafi þjónað Vestmannaeyingum svo lengi.

Auk þess að vera óður til þessa aldna skips er myndinn óður til genginna forfeðra og háaldraðs fólks sem segir frá. Helgi virðist hafa gott lag á að laða fram eðlilega frásögn og samtölin eru dýrmæt. Í myndinni er seilst nokkuð langt þegar fjallað er um áætlanir um vegargerð meðfram suðurströndinni til Víkur og vakin athygli á þeim gríðarlegu náttúruspjöllum sem af henni myndu hljótast. Varð mér ósjálfrátt hugsað til þess hvernig menn hafa tilhneigingu til þess að fórna öllu á altari tæknivæðingar og þæginda. Segja má að þetta hliðarspor höfundar myndarinnar sé afsakanlegt því að um samgöngumál er að ræða og Skaftfellingi var ætlað að verða samgöngubót sem hann og varð.

Óvíst er hvernig farið hefði fyrir Skaftfellingi hefði hann ekki verið tekinn til flutninga milli Vestmannaeyja og Fleetwood veturinn 1940, er Helgi Benediktsson tók hann á leigu og keypti síðan. Hlutverki hans var þá lokið enda var þá orðið bílfært astur í Vík fyrir nokkru. Kaup Helga Benediktssonar á skipinu urðu einnig til þess að Skaftfellingar fengu mestallt hlutafé sitt endurgoldið, sem þeir höfðu lagt til smíðanna á Skaftfellingi rúmum tveimur áratugum áður og Skaftfellingur var um áratugaskeið og er reyndar enn einn af fjölskyldunni.

Nú verður Skaftfellingur eign Kötluseturs sem nýlega hefur verið stofnað. Hver, sem hefur áhuga á verndun menningarminja hér á landi, má vera þakklátur hverjum þeim sem tekur að sér umsjón þeirra og varðveislu.

Mynd Helga Felixsonar er hugljúf en þörf áminnig þess að Íslendingar hugi betur að sögu sinni og náttúru en verið hefur.


Óskabarn þjóðarinnar á tónleikum

.

Mikið var um dýrðir á upphafstónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í gær, 10. september. Uppselt var á tónleikana, enda Víkingur Heiðar Ólafsson einleikari, en einn tónleikagesta orðaði það svo að hann væri svo sannarlega „óskabarn þjóðarinnar“. Stjórnandi var Ivan Volkov. Hann hlaut Gramophone-verðlaunin árin 2008 og 2009 og fékk frábærar viðtökur á Proms-tónlistarhátíðinni 2009, enda má með sanni segja að hann sé á

hátindi ferils síns um þessar mundir. Hlustendum BBC World Servic og Ríkisútvarpsins gafst tækifæri til að hlýða á útsendingar þar sem Volkov hélt á sprotanum og í gær var hann í Háskólabíói og Ríkisútvarpinu.

 

Víkingur Heiðar var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2009 fyrir listsköpun sína og hefur á undanförnum árum komið fram með nokkrum fremstu tónlistarmönnum heims, meðal annars Martin Fröst og flautuleikaranum Denis Bouriakov, en þeir munu halda tónleika í Carnegie Hall í desember næstkomandi, eins og lesa má um í efnisskrá tónleikanna.

 

Á dagskrá voru verk eftir ungverska tónskáldið György Ligeti, Franz Liszt, Sergei  Rakmaninoff og Ígor Stravinskíj.

 

Fyrstu tvö verkin   voru fremur hefðbundin, en þó verður að hafa orð á nútímalegri tónsköpun Lizts sem kemur ævinlega á óvart.

 

Samleikur hljómsveitarinnar og Víkings Heiðars var með fádæmum góður. Stjórn Volkovs var þannig að Víkingur virtist hafa í fullu tré við hljómsveitina og ég hef áður vart heyrt betri samhljóm milli flygils og hljómsveitar hér á landi. Jafnvel bryddaði á því að leikur hljómsveitarinnar væri of daufur. Það er hrífandi að fylgjast með því hvað Víkingur Heiðar leikur að því er virðist áreynslulaust og er stundum sem þrjár eða jafnvel fjórar hendur séu á lofti í senn, eins og ég orðaði umsögn mína um Ástríði Öldu sigurðardóttur.

 

Þegar píanóveislunni lauk lék Víkingur Heiðar útsetningu sína á lagi Páls Ísólfssonar „Í dag skein sól“. Þetta var eiginlega hálfgerður sorgarmars hjá Víkingi og ég get vel ímyndað mér að einhverjir vildu láta leika þessa útsetningu sem útgöngulag í jarðarförinni sinni. Það er þó vart á allra færi. Víkingur Heiðar útsetur íslensk sönglög þannig að miklu þarf að kosta til að leika þau. Það spillti dálítið fyrir að sá G-tónn á efra tónsviði flygilsins, sem mest er notaður í laginu, hljómaði örlítið falskur. Hugsanlega er eitthvað farið að gefa sig eða Víkingur er of mikil hamhleypa þessum flygli. Hætti ég mér ekki nánar út í þá sálma en vænti þess að einhver píanóleikari eða stillingarmeistari útskýri þetta.

 

Tónleikunum lauk svo með Eldfuglinum eftir Igor Stravinskíj. Verkið er afar áhrifamikið en sveiflukennt eins og margt sem Stravinskíj samdi. Flutningur hljómsveitarinnar var óaðfinnanlegur og kraftmikill.

 

Þetta voru einstæðir og spennandi tónleikar, svo æsandi á köflum að tónleikagestur nokkur hafði orð á að hann væri þvalur af svita eftir átökin við að hlusta. Urðum við sammála um að nautnin sem fylgdi slíkum tónleikum væri slík að talsverða orku þyrfti til að njóta þeirra. Væri sennilega hverjum manni hollt að sækja slíka tónleika engu síður en að stunda gönguferðir, leikfimi og hljólreiðar.

 

 


Vefur Menningarnætur Reykjavíkur

Í fyrra ritaði ég á þessum síðum um aðgengi að vef Menningarnætur Reykjavíkurborgar og ég held að ég hafi gert það einnig fyrir tveiur árum.

Enn á ný er fólk hvatt í fjölmiðlum til að kynna sér vefinn. Ég hugðist vera snemma á ferðinni og opnaði hann áðan. Viti menn! Ennþá sama óaðgengilega kerfið og í fyrra.

Því var viðburðastjóra Reykjavíkur, talsmanni Gagarins, Blindrafélaginu, Öryrkjabandalaginu o.fl. sent bréf þar sem vakin var athygli á því að vefurinn væri einungis aðgengilegur sumum en ekki öllum. Sérstök athygli var vakin á vanda þeirra sem nota skjálesara og ef til vill lenda fleiri í vandræðum með vefinn.


Íslensk söfn og aðgengi hreyfihamlaðra að þeim

Um dagin lögðum við hjónin land undir fót og fórum hringinn. Nýttum við þá tækifærið og litum við á ýmsum stöðum sem við höfðum ekki skoðað áður. Þar á meðal var Selasafnið á Hvammstanga.

Þetta safn eða setur er hin merkasta stofnun og þar ber margt fyrir augu og eyru. Þó er þannig til þess stofnað að ámælisvert verður að telja. Tekið var til notkunar íbúðar- og verslunarhús hins merka kaupmanns, sigurðar Pálmasonar, en húsið var byggt ef ég man rétt árið 1926. Aðgengi hreyfihamlaðra er ekkert og ýmislegt stórvarasamt við húsið. Þar má nefna stiga sem liggur niður á jarðhæð hússins. Þar eru flest öryggisatriði vanvirt.

Í gær áttum við leið framhjá Draugasetrinu á Stokkseyri. Gamalt hús hefur verið dubbað upp fyrir starfsemina og upp að safninu liggja brött þrep. Öldruð kona, sem með okkur var, hætti sér upp þrepin og inn á safnið. Á eftir lýsti hún kvíða sínum fyrir því að þurfa að paufast niður þessi bröttu þrep.

Á árum áður voru stundum veitt norræn aðgengisverðlaun. Ef til vill eru þau veitt enn. Sumarið 2002 var ákveðið að veita norrænum söfnum aðgengisverðlaun. Var rætt um að hafa ein aðalverðlaun og síðan 4 eða 5 aukaverðlaun sem deildust á milli safna á öðrum Norðurlöndum en því sem hlyti aðalverðlaunin. Undirritaður, sem var fulltrúi Íslands í verðlaunanefndinni, fékk því til leiðar komið að einungis yrðu veitt ein verðlaun. Rökstuðningurinn var sá að ekkert safn á Íslandi uppfyllti skilyrði aukaverðlauna.

Í tengslum við þessa vinnu var haft samband við forráðamenn nokkurra safna. Einn þeirra brást ævareiður við ábendingum um skort á aðgengi og taldi að athugasemdirnar yrðu hugsanlega til þess að draga úr áhuga manna á úrbótum. Þjóðminjavörður brást hins vegar þannig við að Öryrkjabandalag Íslands var kallað til samráðs. Leiddi það til þess að aðgengisnefnd bandalagsins var stofnuð. Ef til vill starfar hún enn og átti nefndin hlut að máli þegar unnið var að aðgengismálum safnsins.

Þegar hugað er að varðveislu gamalla húsa þarf að finna þeim annað hlutverk en að gera þau að söfnum. Verði ákveðið að gera húsin hæf til notkunar sem almenningssöfn verður að veita fé til þess að gera þau aðgengileg. Það er hægt með ýmsum hætti og eru fjölmörg dæmi um slíkar breytingar á Norðurlöndum og víðs vegar um Evrópu.

Ég hef áður minnst á Galdrasafnið á Ströndum og háan þröskuld sem þar er á milli húshluta. Þegar spurt var um ástæðuna fyrir þröskuldinum var undirrituðum tjáð að brotinn hefði verið niður veggur milli tveggja sambyggðra húsa og þröskuldurinn væri til minja um að þarna hefði eitt sinn verið heill og órofinn veggur.

Íslendingar eru eftirbátar flestra menningarþjóða í Erópu á þessum sviðum og í Bandaríkjunum er vafasamt að söfn eins og Selasafnið, Galdrasafnið og Draugasetrið fengju starfsleyfi. Því væri rétt að hyggja að úrbótum áður en stofnuð verða fleiri söfn. Jafnframt þarf að herða mjög skilyrði þess að héraðs- eða einkasöfn fái styrki og eitt þeirra skilyrða ætti að vera afdráttarlaus krafa um aðgengi allra en ekki einungis sumra.


Hátíðartónleikar í Skálholtsdómkirkju, hrífandi flutningur

Í dag, sunnudaginn 4. júlí 2010, voru haldnir hátíðartónleikar í Skálholtsdómkirkju í tilefni þess að 35 ár voru liðin frá því að sumartónleikar hófu göngu sína. Það var sembalsnilingurinn Helga Ingólfsdóttir sem átti hugmyndina að tónleikahaldi þar á staðnum og veitti tónleikunum forstöðu árum saman ásamt eiginmanni sínum, Þorkatli Helgasyni.

Í dag var flutt eitt af stórvirkjum tónbókmenntanna, Vespro della Beata Vergine frá árinu 1610 eftir Claudio Monteverdi. Flytjendur voru Kammerkórinn Collegium Cantorum frá Uppsölum, Stúlknakór Reykjavíkur – Vox junior, Marta G. Halldórsdóttir og Rannveig Sif Sigurðardóttir, sópranar, Eyjólfur Eyjólfsson og Nils Högman, tenórar, Peter Johnsson og Tryggve Nevéus, bassar. Undirleikur var í höndum Instrumenta Musica. Stjórnandi: Olle Johansson.

Eins og vænta mátti var kirkjan fullsetin og var andrúmsloftið magnað hrifningu og þakklæti fyrir þennan einstæða flutning.

Æði oft, þegar tónlist endurreisnar- eða barokk-tímans er leikin eru hljóðfærin stillt lægra en nú tíðkast og nemur það um hálftóni . Í dag var það ekki gert. Rannveig Sif Sigurðardóttir staðfesti þetta við mig en mér heyrðist ekki betur en hún segði að a.m.k. hluti verksins hefði verið lækkaður um hálfa tóntegund. Truflaði þetta ekki tóneyrað en ég hef þá áráttu að fylgjast gjarnan með þeim tóntegundum sem leikið er í og þurfti ég ekki að stilla eyrað í dag á barokk-stillingu.

Hljóðfæraleikurinn var sérstaklega fágaður og vel heppnaður og á það einnig við um hlut einsöngvara og kóra, en frammistaða þeirra var óaðfinnanleg. Samræmið millum kórs, hljómsveitar og einsöngvara var til fyrirmyndar og áferðin öll hin fegursta. Það var fróðlegt að velta fyrir sér þeim áhrifum sem Claudio Monteverdi hlýtur að hafa haft á þau tónskáld sem á eftir komu. Vissulega ber verkið þess merki að vera undanfari þess að Barokk-stíllinn næði hæðum sínum í pólífónískri snilli J.S. Bachs. Eigi að síður hlýtur þetta verk að teljast eitt af snilldarverkum tónbókmenntanna og fór afar vel á að flytja það á þessum hátíðartónleikum sem verða að teljast meðal hins besta sem flutt hefur verið í Skálholti.

Sem leikmaður og áhugamaður um tónlist flyt ég aðstandendum einlægar hamingjuóskir og þakka hrífandi flutning og ógleymanlega stund.


Lágstéttirnar sviptar hagnaði og leikur ljóssins í Hörpu

Tvær greinar vöktu athygli míkna í Sunnudagsmogganum í dag. Aðra skrifaði Styrmir Gunnarsson og veltir hann þar fyrir sér tilgangi þess að ríkisstjórnin gangi nú í lið með bönkunum í baráttunni við almenning. Eru það athyglisverðar hugleiðingar og innlegg í þá umræðu að með einum eða öðrum hætti virði menn ekki dóm Hæstaréttar. Gerir Styrmir m.a. því skóna að íslenska fjármálakerfið se en of stórt og kostnaðinn við það greiði neytendur eins og hefur gerst með of margar bensínstöðvar olíufélaganna. Það er gömul saga að menn hamist hér gegn of stóru fjármálakerfi og ekki nema rétt að á það sé bent nú eftir að allt fór hér á hliðina. Ég les ævinlega pistla Styrmis því að um margt hefur hann reynst réttsýnn og sanngjarn þeim sem eiga hendur sínar að verja fyrir ofríki þeirra sem meira mega sín.

Þá vakti athygli mína prýðilegt viðtal Einars Fals Ingólfssonar, ljósmyndara og blaðamanns, við Ólaf Elíasson, myndlistarmann, þar sem þeir félagar fjalla um glerhjúpinn utan um Hörpu og sjónarleik þann sem framinn verður allt árið um kring. Var ævintýralegt að lesa lýsingarnar og gera sér í hugarlund hvernig byggingin njóti sín í framtíðinni og setji svip á umhverfi Reykjavíkur. Ólafur er frumkvöðull en apar ekki eftir öðrum. Fleiri frumkvöðlar hefðu þurft að koma að sköpujn Reykjavíkur. Þá væri hún e.t.v. skárri yfirferðar en nú.

Nú vænti ég þess að Sunnudagsmogginn fjalli næst um hljóðfræðina sem tónleikasalurinn í Hörpu byggir á. Til þess var nú leikurinn gerður að við eignuðumst gott tónleikahús. Ljósadýrðin verður síðan kærkomin viðbót sem lýsir upp skammdegið í Reykjavík og ljær því ævintýrablæ.


Því miður, skakkt númer - útvarpsleikrit í 5 þáttum

Miklu er nú útvarpað af gömlu og misgóðu efni á Rás eitt í Ríkisútvarpinu. Þar á meðal er framhaldsleikritið, „Því miður, skakkt númer“ sem Flosi Ólafsson leikstýrði og bjó til flutings í útvarp árið 1958.

Helga Valtýsdóttir leikur forríka, fársjúka, gerspillta og taugaveiklaða konu sem á mann af fátæku foreldri. Hún verður áskynja um að fremja eigi morð en veit ekki hvar og reynir árangurslaust að hafa uppi á manninum sínum í síma.

Þótt persónusköpunin sé nauðaómerkileg og söguþráðurinn enn verri er þó eitthvað skemmtilegt við að heyra þetta gamla leikrit, sem útvarpað þegar ég var 6 ára. Það er athyglisvert að hlusta eftir gömlu brellunum og þeim aðföngum sem Flosi þurfti að notast við. Sem dæmi má nefna atriðið þegar aðalpersónan, sem þá var 10 árum yngri en þegar leikurinn gerist, hitti í fyrsta sinn tilvonandi eiginmanninn. Hún vélaði hann frá vinkonu sinni með því að sýna honum nýja sportbílinn. Útvarpið er blindur miðill og á ekki annarra kosta völ en sýna hlustendum bílinn með hljóðum. Já, stór og fokdýr, amerískur sportbíll. Ætli hann hafi ekki verið 8, 12 eða 16 gata tryllitæki? En í hljóðritinu er þetta afgam all, ískrandi og skröltandi skrjóður. Leikritinu var útvarpað 1958 og Guð má vita hvaða árgerð var á hljómplötunni sem Flosi notaði.

Ég hvet alla málsmetandi útvarpshlustendur til þess að setjast við útvarpstækin á fimmtudagskvöldum kl. 22:25 í sumar og hlusta á þetta fáránlega skemmtilega leikrit þar sem persónurnar eru svo víðsfjarri því sem okkur dreymir um en þó svo nærri því sem ýmsa hefur langað að verða, þ.e. ríkir en ekki ríkir og sjúkir.

Flosi Ólafsson var skemmtilegur og Íslendingar urðu fátækari en þeir voru þegar hann féll frá. Vonandi sér Ríkisútvarpið ástæðu til að útvarpa fleiri leikritum sem hann stýrði. Sum þeirra voru meistaralega vel gerð miðað við þær aðstæður sem honum og leikurum ásamt tæknimönnum voru búnar og enginn gerði betri áramótaskaup en hann.


Skemmtilegur orgelleikur í Dómkirkjunni

við hjónin brugðum okur í messu í Dómkirkjunni í Reykjavík á sautjándanum eins og stundum áður. Nú er svo komið að oss óæðri gestum er boðið upp á loft og þar þarf að klöngrast yfir palla og þrep áður en fundin verði sæti. Við létum okkur hafa það að venju og settumst við hlið Mörtu Guðrúnar Halldórsdóttur, söngkonu, sem söng alla sálmana með sinni prýðilegu rödd. Ekki lagði ég í sálmasöng enda kann ég fáa sálma og Lofsöngur Matthíasar, sem getið er í bók Helga Ingólfssonar, Þegar kóngur kom, reyndist of erfiður til söngs nú eins og fyrir 136 árum.

Örn Magnússon, eiginmaður Mörtu Guðrúnar, lék á orgel Dómkirkjunnar og stjórnaði Dómkórnum. Sem forspil notaði hann "Gefðu Guð faðir, faðir minn" eftir Jón Leifs og átti það vel við. Sem eftirspil lék hann úr Rímnadönsum eftir Jón Leifs og fór þá allt á ið innra með mér og ýmsum kirkjugestum öðrum. Ég klappaði tvisvar en Dómkórinn klappaði á táknmáli. Mikið var það vel viðeigandi og skemmtilegt að nota rímnadansana sem eftirspil.

Síðar um daginn sóttum við heim Árbæjarsafn ásamt móður Elínar og vinkonu hennar. Um kvöldið röltum við um í miðborginni að hlusta á ýmsar hljómsveitir. Þótti mér þar Varsjárbandalagið skemmtilegt. Gleðin og kímnin smitaði svo út frá sér að allir, jafnt hægri- sem vinstrisinnaðir - urðu glaðir. Þar var m.a. leikin Þjóðrembusyrpa sem hófst á balkneskri stælingu lagsins Ísland Farsældarfrón. Þá heyrðust vel fjölmenningarleg áhrif sem orðið hafa hér á landi og eiga fátt skylt við þá ensku eða amerísku menningu sem tröllríður þjóðtungunni og öðrum þáttum þjóðlífsins um þessar mundir svo að Sautjándinn hefði vel getað verið amerísk útihátíð í Texas.


Þegar kóngur kom

Helgi Ingólfsson, sagnfræðingur og kennari við Menntaskólann í Reykjavík, hefur á undanförnum árum sent frá sér nokkrar skáldsögur. Þar á meðal eru gamankenndar spennusögur sem hafa vakið gleði og áhuga margra. Má þar nefna bókina Lúin bein, en þar gerir Helgi að gamni sínu og fjallar um meintan fund helgs dóms hins sæla Þorláks Skálholtsbiskups. Ýmislegt fer úrskeiðis hjá fornleifafræðingum. Hundur þjóðminjavarðarins gleypir hinn helga dóm og sitthvað fer öðruvísi en ætlað er.

Um síðustu jól sendi Helgi frá sér nýja bók, „Kóngur kemur“. Sögusviðið er Reykjavík sumarið 1874 þegar Kristján konungur IX kom hingað til lands að heilsa upp á þegna sína í tilefni 1000 ára afmælis Íslandsbyggðar. Stúlka finnst myrt og síðar kemur í ljós að nýfæddu barni hennar hefur einnig verið fyrirkomið. Stúlkan reynist hafa veriðsýkt af sárasótt og hverfist talsverður hluti frásagnarinnar um þann þátt.

Fljótlega finnst morðingi feðginanna, en faðerni barnsins er haldið leyndu þar til 15 árum síðar að sögumaður, sem höfundur lætur segja söguna frá upphafi til enda, fær að vita hið sanna í málinu.

Helgi virðist hafa rannsakað ítarlega heimildir um bæjarbraginn í Reykjavík á þessum árum og fléttar lýsingum á atburðum, sem urðu við konungskomuna, listilega saman við skáldskap sinn. Ýmsar persónur úr bæjarlífinu birtast mönnum ljóslifandi og ýjað er að ýmsum orðrómi sem gekk manna á milli um sitthvað sem ekki var haft hátt um.

Höfundur hefur jafna leyfi til þess að skálda í eyðurnar og búa jafnvel til nýjan raunveruleika fjarri því sem hefur sennilega nokkru sinni gerst þótt nafnkenndir einstaklingar eigi í hlut. Í lokin bólar þó á því að höfundur skjóti yfir markið og skáldfákurinn hlaupi með hann í gönur. Þannig ýjar heimildarmaður sögumannsins að því að aðrar ástæður hafi legið að baki því að Jón Sigurðsson lét ekki sjá sig hér á landi árið 1874 og gengur sá söguburður þvert á kenningar flestra fræðimanna um þetta atriði.

Það skal ítrekað að bók þessi er skemmtileg og vel samin. Málfarið er blendingur nútíma íslensku og þess máls sem talað var á meðal almúga og menntafólks í Reykjavík. Lærðir menn sletta þýsku, dönsku, frönsku og latínu og Jón Sigurðsson jafnvel grísku. Höfundur gætir þess þó að þýða sletturnar því að íslenskur almúgi skilur ekki latínu nú á dögum fremur en árið 1874. Einna helst skortir á að Helgi láti lærða menn gera mun á tvítölu og fleirtölu, en það mætti endurskoða, verði bókin gefin út öðru sinni.

Endir bókarinnar þykir mér þó í ógeðfelldara lagi. Að vísu reynir Helgi að draga úr broddinum með því að gera þann, sem þá er fjallað um, mannlegri með því að láta lesendur skynja samúð hans og sorg vegna þess sem varð.

Engin ástæða er til að ýta undir persónudýrkun og sennilega eru Íslendingar flestir yfir það hafnir að líta á Jón Sigurðsson og Fjölnismenn gagnrýnislaust. Höfundi til afsökunar verður sjálfsagt að telja fram þær staðreyndir að fjöldi gagna styður sumt af því sem hefði getað gerst þótt raunveruleikinn hafi sjálfsagt verið annar.

Niðurstaða mín er sú að þrátt fyrir fremur ógeðfelldan endi hvet ég fólk til að lesa bókina og njóta hennar. Dæmi svo hver og einn. Skáldskapurinn lýtur sínum eigin lögmálum.

Gagnrýni um bókina „Kóngur kemur“ birtist fyrst á þessari síðu 14. þessa mánaðar. Ég kaus að endurskoða pistilinn eftir ábendingar sem ég fékk í tölvupósti. Þá hafa höfundar þeirra tveggja athugasemda, sem birtust um þessa færslu, orðið sammála um að þær verði einnig fjarlægðar.

arnthor.helgason@simnet.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband