Færsluflokkur: Menning og listir
Eftir hlé voru á dagskrá tónleikanna ljóð eftir Ása í Bæ við eigin lög og Oddgeirs Kristjánssonar. Atli Heimir útsetti þau sérstaklega vegna útgáfu geisladisks sem brátt lítur dagsins ljós. Freyja er barnabarn Ása og setti sér það markmið að gefa út öll ljóð afa síns ásamt lögum hans og annarra er samið hafa lög við þau. Atli Heimir samdi nýtt lag við minningarljóð Ása um vin sinn, Odgeir Kristjánsson og verður það á geisladiskinum.
Flutningur þeirra kvennanna var skemmtilegur, afar lipur og fágaður. Atli Heimir hefur gert skemmtilegar útsetningar fyrir píanó og klarínettu. Undirleikurinn er ekki ofhlaðin of mikilli fingrafimi en hljópípuleikarinn fær að fara á kostum sem Freyja gerði svo sannarlega. Einnig var athyglisvert hversu næm túlkun Hönnu Dóru var á efninu. Henni skeikaði hvergi.
Það hríslaðist um ig sælukennd þegar ég heyrði sum lögin. Sólbrúnir vangar og Ég veit þú kemur auk annarra laga runnu inn í sálina og ollu nokkrum tilfinningaglundroða. Þessi lög og ljóð þeirra félaga eru órjúfanlegur hluti æsku- og unglingsáranna sem er á meðal hins ljúfasta sem hugurinn varðveitir.
Þessi glaðværu en um leið angurværu lög sköpuðu skemmtilega heild. Hún var þó rofin á einum stað. Freyja tilkynnti að skotið yrði inn laginu Fréttaauka sem Ási gerði ljóð við, en tónskáldið væri á staðnum. Flutningurinn var áhrifamikill. Lagið hafði verið útsett í hægum takti og Atli Heimir lét efni ljóðsins njóta sín, en það er sorgarljóð og ádeila á styrjaldir. Hálftónarnir skiluðu sér allir og þetta lag, sem er annars vinsælt í glaðværri útsetningu, var orðið að angurværum tregasöng. Það rifjaðist upp fyrir mér þegar Ási söng kvæðið fyrir okkur tvíburana í júníbyrjun 1967 og sagði að þetta væri enginn gleðisöngur heldur harmþrungið lag. Því miður voru engin tök á að flytja ljóðið á tónleikum sem við Gísli héldum þá um sumarið, en lagið fluttum við undir heitinu Stúlkan frá Víetnam.
Fréttaaukanum ásamt öðrum lögum var vel fagnað. Á eftir spurði einn tónleikagesturinn mig hvort ég vissi hver höfundur Fréttaaukans væri og greindi ég honum frá því. Var það vel að menn vissu það ekki svo gjörla því að höfundurinn þolir orðið illa of mikla athygli.
Væntanlegur geisladiskur með Eyjalögunum verður einhver mesta perla sem gefin hefur verið út með slíku efni og má vænta þess að Vestmannaeyingar ásamt öðrum Íslendingum taki honum fagnandi.
Menning og listir | 28.5.2010 | 09:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sólveig er landsþekktur listamaður og hefur haldið fjölda sýninga hérlendis og utanlands, bæði sjálf og með öðrum. Í fyrsta sinn sýndi hún verk sín á samsýningu árið 1949.
Sólveig fékkst framan af einkum við að mála með olíulitum og vatnslitum. Að undanförnu hefur hún lagt olíulitina á hilluna og snúið sér að akríl-litum. Hún varð þekkt víða um lönd fyrir að mála myndir á rekavið, en hún mun hafa orðið fyrst íslenskra listamanna til þess.
Myndirnar á sýningunni eru allar málaðar á síðustu mánuðum. Þótt hendur hennar séu farnar að kreppast og aldurinn segi til sín heldur Sólveig ótrauð áfram og tekst á við nýja tækni og viðfangsefni.
Sólveig verður 85 ára á kosningadaginn, 29. maí nk. Hún hefur það eftir einum dóttursonarsyni sínum að hún sé 29 ára og hyggst halda því áfram.
Á síðunni http://hljod.blog.is er viðtal við Sólveigu þar sem hún greinir frá listsköpun sinni. Eru lesendur þessarar bloggsíðu eindregið hvattir til að kynna sér það.
http://www.hljod.blog.is/blog/hljod/entry/1058919/
Menning og listir | 24.5.2010 | 11:21 (breytt kl. 16:07) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þátturinn er einn hinna vel gerðu útvarpsþátta sem hafa verið fluttir að undanförnu undir nafninu Útvarpsperlur.
Lítið hefur borið á því að undanförnu að vandaðir þættir hafi verið gerðir fyrir Ríkisútvarpið. Þó eru þar nokkrar undantekningar á og hefur Víðsjárliðið staðið að nokkrum slíkum. Eftir að lausráðnir dagskrárgerðarmenn voru slegnir af í niðurskurðinum hefur dagskrárgerð hrakað. Það er eins og allur neisti sé horfinn úr dagskrárgerðinni og fastir þættir orðnir steingeldir. Það er sagt stafa af því að fastráðnir dagskrárgerðarmenn séu þrautpíndir til hins ítrasta og hafi lítinn tíma til að sinna öðru en daglegum störfum.
Ég hef einatt velt fyrir mér hlutverki Ríkisútvarpsins og hvernig megi spara þar á bæ. Þegar litið er á sjónvarpið kemur í ljós að það er í raun stærsta kvikmyndaleiga landsins. Munurinn á sjónvarpinu og öðrum kvikmyndaleigum er sá að menn leigja sér myndir á öðrum leigum en sjónvarpið treður upp á áhorfendur því efni sem stjórnendum þóknast.
Í öllum niðurskurðinum væri ráð að stytta dagskrá sjónvarpsins og skera við trog kvikmyndirnar sem boðnar eru áhorfendum. Í staðinn mætti talsetja meira efni eða hreinlega verja fénu til vandaðri útvarps- og sjónvarpsþáttagerðar. Þá drægi úr áreiti enskunnar sem virðist á góðri leið að ganga frá íslenskri tungu.
Með sjónvarpinu varð eitthvert mesta menningarrof í íslensku samfélagi sem um getur, jafnvel verra rof en varð með innrás erlendra herja árið 1940. Hin myndræna framsetning hefur nú tekið við í æ ríkara mæli af munnlegri frásögn og mest efni er á ensku. Enskan bylur á hlustum fólks og skaðar málvitund barna og fullorðinna. Að vísu skal viðurkennt að flest efni barnatíma sjónvarpsins er með íslensku tali.
Flestar menningarþjóðir setja tal við erlendar kvikmyndir sem sýndar eru í sjónvarpi og Íslendingar þyrftu að hafa metnað til þess að haga sér eins. Telji þeir sig ekki hafa efni á því er eins gott að viðurkenna það, stytta dagskrá sjónvarpsins og veita fjármunum í annað.
Menning og listir | 21.5.2010 | 09:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mér varð til þess hugsað hvílíkri arfleifð Ingólfur Guðbrandsson skilaði Íslendingum. Dætur hans eru lista hljóðfæraleikarar og Þorgerður og Árni Heimir frábærir kórstjórar.
Tónninn í kórnum var eftirtektarverður. Samræmi millum raddanna var slíkt að ég hef sennilega aldrei áður heyrt annað eins hér á landi og sennilega hvergi þar sem ég hef verið á tónleikum.
Menning og listir | 16.5.2010 | 18:30 (breytt kl. 18:54) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Áhrifa enskunnar fór að gæta í kínversku um svipað leyti og Bretar tóku að herja á Kínverja laust fyrir miðja 19. öld og fóru þessi áhrif vaxandi þegar leið fram á 20. öldina. Ýmis orð eins og jakki og rjómaís eiga rætur að rekja til ensku þótt menn átti sig ekki á því við fyrstu heyrn. Í Hong Kong, þar sem Bretar réðu ríkjum í hálfa aðra öld, er mál manna mjög enskuskotið.
Áhrif enskunnar jukust að mun upp úr 1980 þegar samskipti Kínverja við verstrænar þjóðir færðust í aukana. Fyrst ruddu sér til rúms skammstafanir á enskum fræðiheitum og heitum námsgreina sem ekki höfðu verið kenndar við kínverska háskóla. Ástæðan var einkum sú að menn urðu ekki sammála um þýðingu skammstafananna. Þótt leitast hafi verið við að þýða námsgreinaheitin á kínversku er svo komið að í um þriðjungi frétta kínverskra fjölmiðla bregður fyrir enskum skammstöfunum innan um kínverska letrið, sem almenningur skilur ekki. Vandinn hefur orðið enn meiri vegna þess að menn hafa ekki hirt um að þýða ýmsar skammstafanir í tölvukerfum og er nú svo komið að almenningur skilur ekki allt sem stendur á aðgöngumiðum kvikmynda- og tónleikahúsa.
Fram kom í máli nokkurra ræðumanna á ráðstefnunni að þeir óttuðust að nokkur hluti fræði- og vísindamanna ættu orðið í erfiðleikum með að tjá sig á kínversku svo að vel færi og almenningur skildi. Hefur nú verið boðað sérstakt átak til þess að sporna við þessum áhrifum.
Íslendingum er þessi umræða ekki ókunn. Ensk heiti haa nú leyst latnesk fræðaheiti af hólmi. Enginn verður nú magister heldur lýkur hann mastersprófi eða gráðu. Orðið meistaranám heyrist sára sjaldan.
Kínverskir fréttamenn sletta iðulega enskum skammstöfunum þegar um er að ræða hugtök í hagfræði og fleiri greinum. Þó að Íslendingar geri það ekki hlýtur samt að fara hrollur um þá sem vilja veg tungunnar sem mestan þegar spurnir berast af áhyggjum fjölmennustu þjóðar heims af tungu sinni. Íslendingar búa nú við þá sérstöðu í Evrópu að mestur hluti talaðs máls í sjónvarpi er á ensku. Enskan bylur á eyrum sjónvarpsáheyrenda og mótar hugsun og málfar. Íslenskir listamenn leggjast jafnvel svo lágt að þruma yfir áheyrendum enska texta, misjafnlega vel orta, sem einungis nokkur hluti almennings skilur. Hljómsveitin Hjaltalín er dæmi um slíkan hóp, en á frídegi verkalýðsins 1. maí sl. þrumdi úr hátalarkerfi sveitarinnar ensk tunga þegar fólk hélt að um baráttutónlist væri að ræða. Þannig hefur hljómsveitin gengið í lið með þeim sem vega að tungumálum smáþjóða og er það illt afspurnar.
Forstöðumenn kínverskra ráðuneyta, sem tóku til máls á ráðstefnunni, tóku fram að ekki væri rétt að banna notkun slíkra skammstafana en menn yrðu að gæta sín þegar þær væru farnar að menga tungumálið.
http://english.cri.cn/08webcast/index.htm
Menning og listir | 2.5.2010 | 12:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
http://www.gemueseorchester.org/
Límið þessa slóð í vafrann ykkar og njótið þess sem er á síðunni. Öll hljóðfærin eru úr grænmeti. Kokkur er meira að segja hluti hljómsveitarinnar enda er soðin súpa úr hljóðfærunum eftir tónleika og gestum gefið að bragða á góðgætinu. Halda menn svo syngjandi sælir og glaðir heim til sín.
Ég heyrði fyrst um þessa hljómsveit austur í Beijing fyrir 6 árm. Hún hélt þar tónleika og vakti fádæma athygli. Ég trúði vart eigin eyrum þegar ég heyrði fjálglegar lýsingar kínverska fréttamannsins á tónleikunum.
Ef leitað er að orðunum grænmeti, hljómseit og Austurríki (vitanlega á ensku) á netinu kemur í ljós að hljómsveitin, sem var stofnuð árið 1998, hefur orðið ýmsum fyrirmynd slíkra hljómsveita.
Nú ættu íslenskir grænmetisbændur að bjóða þessari hljómsveit hingað til lands og efna til stórtónleika. Í kjölfarið væri hægt að fara í stórátak í sölu grænmetis og kenna Íslendingum að búa til hljóðfæri úr gúrkum og gulrótum. Gulrófur hljóta að hljóma vel séu þær rétt meðhöndlaðar og á sumrin má framleiða hin unaðslegustu hljóð úr hundasúrum, hvönn og njóla. Þar sem notaðir eru hljóðnemar þegar tónlistin er flutt má hafa alls kyns skemmtan í frammi eins og að bryðja gulrófur, smjatta á sölvum, tyggja epli og hvítkál með ýmsum tónbrigðum, smjatta á hreðkum o.s.frv. Hubmyndirnar eru með öðrum orðum óþrjotandi.
Menning og listir | 28.4.2010 | 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Áður léku karlmenn flest hlutverk og skipti þá litlu hvort þeir léku konur eða karla. Nú ríkir jafnrétti á leiksviðinu og því var það hin versta afskræming í eyrum mínum að Ilmur Kristjánsdóttir skyldi leika Jón Grindvíking. Hún gerði það að vísu vel en hlutverkið varð afskræmilegt og í raun háðslegt fyrir vikið. Slík misnotkun leikara er sennilega eina kynvillan sem hægt er að ræða um í nútíma samfélagi.
Á eium stað vottaði fyrir enskupestinni sem nú tröllríður íslenskri tungu eins og hver önnur drepsótt. Orðið "particula" bar einn leikarinn fram sem "partíkjúla". Hið sama er upp á teningnum þegar hringt er í öryggisfyrirtækið Securitas. Þá er svarað: "Sekjúrítas, góðan dag".
Íslandsklukkan tekur á ýmsum sígildum vanda sem Íslendingar hafa strítt við um aldir og þar á meðal spilltu stjórnmála- og embættismannakerfi. Þótt Danir séu vissulega gagnrýndir fyrir nýlendustjórn sína fá þó Íslendingar vissulega sinn skammt.
Í fyrra hléi og eftir sýningu var á vegi mínum og okkar hjóna skemmtileg kona, móðir tveggja listamanna og söngelsk hláturgyðja. Urðum við sammála um að Þjóðleikhúsið ætti að bjóða til sérstakrar heiðurssýningar á Íslandsklukkunni og bjóða m.a. Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Hannesi Smárasyni og Pálma Haraldssyni, og eru þá víst ýmsir ónefndir sem þyrftu að sjá verkið. Lesendum bloggsins er velkomið að birta ábendingar um heiðursgesti.
Menning og listir | 24.4.2010 | 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ævisagan er hlutlæg úttekt á ævi og athöfnum Jóns, skaphöfn hans, samskiptum við ættingja sína, samstarfsmenn og yfiröld á Íslandi, Þýskalandi, Norðurlöndum og jafnvel víðar. Fátt virðist dregið undan og Jóni lítt hlíft.
Þótt Árni Heimir dragi upp allóvægna mynd af tónskáldinu leitast hann við að kynna hinar mýkri hliðar hans. Niðurstaðan er margbreytileg og flókin persóna sem hefur sennilega átt við geðræn vandamál að stríða. Vitnar Árni þar til umsagnar Helga Tómassonar, geðlæknis, en getur þess um leið að dómar Helga hafi stundum þótt orka tvímælis. Jón virðist sjálfur hafa tekið mark á niðurstöðum geðlæknisins og fer Jón ofan í saumana á skilgreiningu hans, en hann hafði haft áhyggjur af geðheilsu sinni á ungaaldri.
Þótt ævisagan sé harmræn stendur Jón þó uppi sem sigurvegari í lokin, sigurvegari er sá aldrei drauma sína rætast, mikils metið tónskáld víða um lönd.
Tvær ævisögur þykist ég hafa lesið að undanförnu sem skara fram úr - ævisögu Lárusar Pálssonar og Jóns Leifs. Bækurnar eru ólíkar enda mennirnir gjörólíkir. Árna Heimi hefur tekist svo vel ritun þessarar ævisögu að hún hlýtur um langan aldur að teljast á meðal hins besta sem ritað hefur verið á íslenska tungu á þessu sviði. Málfarið er vandað, stíllinn ljós og þekking höfundarins með ágætum. Samfélagssýnin er skörp og gagnrýnin á stundum hárbeitt.
Árni Heimir hefur orðið þekktur fyrir skrif sín um tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en hann ritstýrir tónleikaskrá hennar. Lýsingar hans á uppbyggingu tónverkanna er markviss og bætir ævinlega skilning fólks á viðfangsefni hljómsveitarinnar. Hið sama er upp á teningnum í ævisögu Jóns. Hann brýtur tónverkin til mergjar svo að fáir hafa gert það betur.
Ég þekki mörg verka Jóns og sum þeirra finnast mér á meðal hins besta sem samið hefur verið hérá landi. Kantatan Þjóðhvöt, Minni Íslands og hlutar Sögusinfóníunnar eru þar á meðal auk orgelkonsertsins se er magnaður. Ég hlustaði á Minni Íslands eftir að hafa lesið ríflega helming ævisögunnar. Þótt ég nyti tónverksins gat ég ekki annað en varist hlátri þegar ég gerði mér grein fyrir þjóðrembu Jóns og skyldleika hennar við ýmislegt sem aðhafst hefur verið á þessu sviði víða um lönd. Jón tróð alls staðar lögunum Ísland farsældarfrón og Hani, krummi, hundur svín, inn í verk sín þar sem hann kom því við og stíllin leyfði Urðu því sum tónverkin dálítið sérvitringsleg. Þetta gerðu kínversk tónskáld fyrst eftir byltingunna og allt til þess að menningarbyltingunni lauk. Austrið er rautt var hvarvetna ásamt nokkrum byltingarsöngvum öðrum. Lék ég mér stundum að því að leita að stefinu Austrið er rautt í einstökum tónverkum frá þessum tíma og oftast leyndist stefið einhvers staðar.
Þá er með ólíkindum að Jóni skyldi láta sér fljúga í hug að lag sitt við Rís þú unga Íslands merki gæti orðið þjóðsöngur Íslendinga. Hann virðist ekki hafa skynjað að tilranir hans til þess að skapa þjóðlegan stíl voru að mörgu leyti víðs fjærri íslenskum þjóðlögum og þeirri tónlist sem var í hávegum höfð framan af 20. öldinni. Þetta kom gleggst fram í viðtali Þorkels Sigurbjörnssonar, sem útvarpað var í febrúar 1968. Ég minnist þess enn hversu hissa ég varð þegar ég heyrði viðtalið og skynjaði um leið að Ríkisútvarpið væri svo víðsýn stofnun að menn gætu látið skömmunum rigna yfir andstæðinga sína ef þeim byði svo við að horfa.
Ævisaga Jóns Leifs hefði væntanlega orðið öðruvísi hefði hún verð rituð á meðan hann lifði. Ekki verður annað séð en dómur Árna Heimis sé sanngjarn, bæði um Jón sjálfan, tónlistina og samferðamenn hans. fáir hafa fetað í fótspor Jóns og ekkert íslenskt tónskáld hefur samið jafnsérviskuleg tónverk. Jón Ásgeirsson nýtir sér ýmislegt úr stefnu nafna síns en fer allt aðrar brautir. Honum og Jóni Leifs er þó sameiginleg að sömu stefjabrotin birtast í fleira en einu tónverki.
Til hamingju með vel unnið verk, Árni Heimir.
Menning og listir | 18.4.2010 | 10:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Menning og listir | 19.3.2010 | 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er merkilegt hvað ýmsar fyllibyttur marka djúp spor í menningarsöguna og hlutur þeirra verður einna mestur eftir dauðann, en þá verður líf þeirra og list að einni órofaheild. Aðalsteini og Guðrúnu tókst einkar vel að flétta saman söguþráðinn og textanna og hlustendur fylgdust með lífshlaupi vísnaskáldsins sem endaði þannig að eyðingarhvötin sigraði.
Óhætt er að mæla með þessari ljúfu skemmtun. Þeir, sem voru hrifnir af söng og túlkun Corneliusar heyra allt aðra túlkun laganna og ekki síðri. Í flutningi þeirra fjórmenninganna kemur greinilega fram snilld Corneliusar Vreeswijk, en lög hans og textar þola mætavel að aðrir flytji þau en hann. Sjálfum þótti mér hann afleitur söngvari í flestum lögum sínum en viðurkenni fúslega að lögin stóðu fyrir sínu. Það er reyndar svo að ýmsir vísna- og lagahöfundar hafa sungið lög sín og ljóð illa og jafnvel leikið enn verr undir á gítar. Samt heilluðu þeir áheyrendur og lög þeirra og textar heilla fólk jafnvel enn meir þegar aðrir faraum þau höndum.
Ekki er með neinu móti hægt að segja að þau fjórmenningarnir feti slóð Corneliusar Vreesvijkur í túlkun sinni. Það er reyndar best. Annars hefði orðið um stælingu að ræða.
Menning og listir | 27.2.2010 | 00:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 3
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 319701
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 12
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar