Velferðarvinstristjórnin hefur brugðist í málefnum fatlaðs fólks

Þetta kann að hljóma sem alhæfing. Því lengur sem ég velti þessu fyrir mér hefur mér orðið ljóst hve ótalmargt hefur farið úrskeiðis í málefnum fatlaðra vegna skeytingarleysis stjórnvalda og eru þá þingmenn ekki undanskildir.

Veturinn 2009 var útrúlegu púðri eytt í undirbúning breytingar á kosningalögum vegna fyrirhugaðs persóhukjörs. Þá gleymdi Alþingi gersamlega hagsmunum blindra og sjónskertra. Vakin var athygli á því og hefði sú athugasemd mátt vera höfundum frumvarpsins um kosningar til stjórnlagaþings kunn. Að minnsta kosti hefur einn höfundanna boðið sig fram til væntanlegs þings og hann viðst gersamlega hafa gleymt skyldum sínum í þessum efnum.

Fatlað fólk hefur axlað meiri byrðar vegna hrunsins en flestir þjóðfélagsþegnar aðrir. Að vísu minnist Stefán Ólafsson, prófessor, á það að kjaraskerðing lífeyrisþega hafi orðið minni en flestra þjóðfélagsþegna. Það er vegna þess að fatlað fólk átti ekki úr háum söðli að detta en munaði þó um það sem klipið var af því.

Nú ætla stjórnvöld að færa málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna um áramótin. Margt orkar tvímælis í þeim efnum. Til dæmis hefur ekki verið gengið frá því hvernig eigi að tryggja jafnan rétt fatlaðs fólks til þjónustu innan sveitarfélaganna og má því ætla, eins og greint hefur verið frá á þessum síðum, að fólk flykkist til þeirra sveitarfélaga sem veita besta þjónustu. Það rifjast upp fyrir undirrituðum að vorið 1981 var haldinn fundur í félagsmiðstöðinni Árseli um þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk, en árið 1981 helguðu Sameinuðu þjóðirnar málefnum fatlaðra. Þá hrósaði einn sveitarstjórnarmaður sveitarfélags, sem var í mikilli sókn, sér af því að félagsmálastjórinn hefði einstakt lag á að koma fötluðu fólki af sér á önnur sveitarfélög og gott ef félagsmálastjórinn tók ekki undir þetta.

Það vantar fatlað fólk á Alþingi. Einkum á þetta við um hreyfihamlað fólk, blint fólk og þroskaheft. Enginn þingmaður hefur sinnt þessum málaflokkum öðrum fremur, ekki einu sinni þeir sem eru fatlaðir.

Vegna smæðar sinnar hafa hópar fatlaðra ekki afl til öflugrar hagsmunagæslu og heildarsamtök fatlaðra virðast liðónýt í þeim efnum um þessar mundir. Engin stjórnmálaflokkur sinnir þessum málaflokki öðrum betur, ekki einu sinni Vinstri grænir sem þjást þó afð miklum mannréttindahroka gagnvart öðrum en sjálfum sér. Helst má þó nefna Sjálfstæðisflokkinn sem gekk hvað harðast fram við að eyðileggja íslenska velferðarkerfið á 10. áratugnum og beitti til þess skósveinum sínum í Framsóknar- og Alþýðuflokki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband