Loftslagsmál - aftur til fortíðar?

Styrmir Gunnarsson skrifar skemmtilega en ekki síst athyglisverða grein um loftslagsmál í Morgunblaðinu í dag.

 

Loftslagsmál og lífsstíll
Af innlendum vettvangi...
 

Afturhvarf til lífshátta ömmu og afa – að hluta

Um ekkert er nú meira rætt um heim allan en loftslagsmál. Gera má ráð fyrir að þær umræður eigi eftir að aukast enn og þá ekki sízt vegna þess að fólk er að vakna til vitundar um að loftslagsbreytingar kalla á breytingar á daglegum lífsstíl okkar eins og hann hefur þróast smátt og smátt.
Að vísu eru raddir hér og þar – eins og við mátti búast – sem ganga út á það að þessar umræður séu einhvers konar móðursýki. Slíkar raddir heyrðust m.a. á fundi eldri sjálfstæðismanna í Valhöll sl. miðvikudag í bland við athugasemdir um komur flóttamanna frá öðrum löndum hingað til lands. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra afgreiddi þær með skörungsskap.
Þótt ekki kæmi annað til ber okkur Íslendingum að taka loftslagsmálin alvarlega vegna þess að breytingar á loftslagi hafa áhrif á lífið í sjónum og hafstrauma. Nú þegar má sjá merki þess að þeir fiskistofnar sem skipta okkur mestu máli séu að færa sig norðar sem vekur óhjákvæmilega þá spurningu hvort hugsast geti að þeir syndi einfaldlega út úr lögsögu okkar – og hvar stöndum við þá?
En – það er vaxandi þungi í umræðum um að loftslagsbreytingar kalli á breytingu á lífsstíl fólksins á jörðinni og þá sérstaklega í okkar heimhluta, þar sem velgengnin hefur verið mest.
Getum við dregið úr daglegri „neyzlu“ í víðum skilningi? Auðvitað getum við það en erum við tilbúin til þess?
Erum við tilbúin til að byggja minni hús, fara sjaldnar til útlanda, aka um á rafknúnum smábílum o.s.frv.?
Kannski þurfum við að byggja inn í samfélagsgerð okkar hvata til þess. Að sumu leyti snýst þetta um að hverfa að vissu marki til baka til lífshátta ömmu og afa minnar kynslóðar, þar sem orðið „nýtni“ var í forgrunni.
Nú á dögum dettur fólki varla í hug að setja tölvuprentara sem bilar heima hjá því í viðgerð. Við segjum við sjálf okkur að það sé ódýrara að kaupa nýjan prentara en láta gera við þann gamla. Og sennilega er það rétt. Buxum sem kemur gat á er einfaldlega hent í stað þess að láta gera við þær. Að einhverju marki eru örlög hefðbundinna heimilistækja svipuð.
En er það ekki raunverulega svo, að loftslagsbreytingarnar kalla á lífsstílsbreytingar, sem eru meira í ætt við lífshætti afa og ömmu? Hvernig getum við stuðlað að því? Og þær breytingar geta leitt til þess að gamalt verklag vakni til lífsins á ný. Það á t.d. við um skósmiði sem kunna að sjá fram á nýja og betri tíma.
Vinur minn einn gaukaði að mér upplýsingum um hvernig Svíar hafa brugðizt við.
Þeir hafa lækkað virðisaukaskatt á viðgerðum, t.d. á hjólum, fötum og skóm, svo að dæmi séu nefnd. Þar voru einnig til umræðu fyrir nokkrum árum breytingar á skattalögum sem geri fólki kleift að draga frá tekjuskatti helming viðgerðarkostnaðar á heimilistækjum á borð við ísskápa, þvottavélar og uppþvottavélar.
Það liggur í augum uppi að slíkar ráðstafanir, hvort sem er lækkun virðisaukaskatts á viðgerðarkostnaði eða frádráttur hluta viðgerðarkostnaðar frá skatti hvetur fólk til að láta gera við í stað þess að kaupa nýtt.
Aðgerðir af þessu tagi hafa ekki verið til umræðu hér, alla vega ekki á opinberum vettvangi. En er ekki ástæða til að ræða þessar aðferðir til að ýta undir nýtni?
Vafalaust munu hagsmunasamtök í verzlun og innflutningi taka slíkum hugmyndum illa og telja að sér þrengt. En með sama hætti og bílaumboð reka verkstæði, sem gera við bíla, sem þau selja, opnast ný tækifæri fyrir innflytjendur alls þess tækjabúnaðar, sem fylgir nútíma lífsháttum, þ.e. að setja upp viðgerðarverkstæði.
Sá gamli fjósamaður, sem hér skrifar, hefur líka spurt sjálfan sig að því, hvenær samtök bænda fari að vekja athygli á þeim augljósa veruleika að við getum dregið verulega úr svonefndum kolefnisfótsporum með því að leggja stóraukna áherzlu á að framleiða nánast öll helztu matvæli okkar hér heima í stað þess að flytja þau inn um langan veg.
Það liggur í augum uppi að við getum aukið matvælaframleiðslu verulega hér heima fyrir. Einhverjir munu segja að því fylgi líka kolefnisfótspor en varla jafn mikil og þegar lambahryggir eru fluttir hingað frá Nýja-Sjálandi! Og það fer ekki lengur á milli mála að við getum aukið verulega grænmetisframleiðslu hér heima fyrir. Slíkar hugmyndir eru reyndar ekki nýjar af nálinni. Gamall vinur minn, Eyjólfur Konráð Jónsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins og síðar þingmaður, sá fyrir sér stórframleiðslu á grænmeti í risastórum gróðurhúsum fyrir u.þ.b. hálfri öld.
Loftslagsmálin verða stærstu mál næstu áratuga. Þess vegna er það ánægjuefni að Landssamband sjálfstæðiskvenna hefur efnt til fundaraðar um þau mál, sem bendir til þess að sjálfstæðisfólk átti sig á mikilvægi málsins. Raunar vakti Óli Björn Kárason alþingismaður athygli á því á einum þeirra funda að fyrsti maðurinn, sem setti umhverfismál á hina pólitísku dagskrá hér á Íslandi, var einn af forystumönnum Sjálfstæðisflokksins á þeirri tíð, Birgir Kjaran.
Það væri vit í því fyrir forystusveit þess flokks að rækta betur tengslin við þá pólitísku arfleifð Birgis Kjarans.
En alla vega er ljóst að þeir stjórnmálaflokkar sem þekkja ekki sinn vitjunartíma í þessum málum eiga heima á annarri öld en þeirri tuttugustu og fyrstu.
Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband