Heilsurækt - http://heilsuraekt.is

Þegar ég hætti störfum hjá Morgunblaðinu í haust og alvara atvinnuleysisins tók við fór ég að rækta líkamann að nýju hjá Hreyfingu. Það gefur mér tækifæri til að hitta fólk og taka ærlega á. Líður mér ævinlega betur í sálinni eftir vistina í Hreyfingu.

Ég er svo heppinn að hafa afbragðs þjálfara, Jóhann Sveinbjörnsson, íþróttafræðing. Reyndar er það svo að þeir þjálfarar, sem ég hef fengið hjá Hreyfingu, virðast úrvalsfólk.

Jóhann er hugmyndaríkur og hefur nú stofnað heimasíðuna http://heilsuraekt.is. Var síðunni hleypt af stokkunum í gær. Hugsar Jóhann sér m.a. að kynna fyrirtæki vikunnar. Fyrst var riðið á vaðið með ítarlegu myndbandi um Boot Camp.

Myndbandið hófst á fremur ruddalegri graðfolatónlist sem átti vel við vegna þessa kerfis sem byggir á því að ofbjóða líkamanum, ef ég skildi ensku skotna íslensku leiðbeinandans rétt. Í sporum Jóhanns hefði ég sleppt tónlistinni undir viðtalinu sem var að mörgu leyti prýðilega unnið. Hljóðmyndin var skemmtileg og gaf góða mynd af umhverfinu.

Nú veit ég svo lítið um herþjálfun að ég ætla ekki að reyna að leggja til íslenskt heiti á þessa íslensku þjálfunaraðferð, Boot Camp. En miklu væri nú skemmtilegra að finna aðferðinni íslenskt nafn.

Ég fór inn á heimasíðu Boot Camp og þar gaf svo sannarlega á að líta. Svo virðist sem þessi aðferð sé í raun lausnin á þeim vanda nútímamannsins að þurfa að taka ærlega á án þess að nota til þess rándýr tæki. Kynningin mætti þó vera betur samin og ögn snyrtilegar orðuð.

Í pistli mínum í gærmorgun ræddi ég að Íslendingar væru bestir og Boot Camp þjálfunarkerfið er íslenskt eins og kemur fram á heimasíðu fyrirtækisins. Það getur vel verið að Boot Camp sé besta þjálfunaraðferð heims. En kynningin er ekki sú besta.

Ég þykist viss um að kynningarmyndband Jóhanns Sveinbjörnssonar veki talsverða athygli og skili meiri árangri en það sem ritað er á heimasíðu Boot Camp.

Á heilsuraekt.is eru upplýsingar um ýmislegt sem tengist heilsurækt og hollum lifnaðarháttum. Er ástæða til að óska Jóhanni Sveinbjörnssyni til hamingju með heimasíðuna. Hér með er honum óskað góðs gengis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband