Snilldarvel gerður útvarpsþáttur

Um þessar mundir stendur yfir sýning á verkum Svavars Guðnasonar í Listasafni Íslands. Með sýningu sinni, sem haldin var í Listamannaskálanum síðsumars árið 1945 olli hann straumhvörfum í íslenskri myndlist og hafði djúp áhrif á ýmsa sem nutu sýningarinnar. Er Guðmunda Andrésdóttir, listmálari, eitt gleggsta dæmi þess.

Þátturinn víðsjá, sem er á dagskrá rásar eitt síðdegis virka daga, var helgaður Svavari og sýningunni. Er greinilegt að umsjónarmennirnir kunna vel til verka og voru vinnubrögðin hreint út sagt einstæð. Er hér um einhverja bestu kynningu á myndlist að ræða sem útvarpað hefur verið hér á landi fyrr og síðar.

Það er mjög undir hælinn lagt hvort hægt sé að lýsa myndlist í útvarp svo að vel fari. Yfirleitt enda slíkar lýsingar með ósköpum. En umsjónarmenn og viðmælendur þeirra unnu þannig úr efniviðnum að hlustendur hlýtur að hafa langað að skoða þessa sýningu. Ekki var reynt að lýsa myndunum að neinu marki heldur var fjallað um litbrigðin, aðferðirnar við gerð þeirra, tilefni, stærð og viðbrögð við þeim. Skotið var inn stuttum brotum úr viðtölum við Svavar sem voru dásamlegar hljóðskreytingar. Fleiri komu þar að eins og Halldór Laxness og Björn Th. Björnsson sem báðir þekktu Svavar vel og voru hvor öðrum meiri snillingar íslenskrar tungu.

Þessi víðsjárþáttur er dæmi um það besta sem unnið hefur verið í útvarpi á undanförnum árum og sennilega besta myndlistarlýsing sem útvarpað hefur verið á þessari öld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband