Múrinn mikli í Bandaríkjunum - mesta mannvirki heims?

Breska ríkisútvarpið hefur yfirleitt haft orð á sér fyrir hlutlægni. Öðru hverju bregður þó fyrir gamansömum athugasemdum sem varða við hlutdrægni.
Um þessar mundir greina sérfræðingar einkum gerðir Bandaríkjaforseta og í morgun var það Múrinn mikli - eitthvert mesta mannvirki sem ráðist verður í frá smíði Múrsins mikla í Kína sem stóð yfir í rúm 270 ár.
Það gerir sérfræðingum nokkuð erfitt fyrir að forsetinn núverandi lýsir múrnum á ýmsa vegu og enginn veit hvað upp snýr.
Nýjasta lýsingin er þessi:
Múrinn verður 3.200 km langur.
Hann verður 10 metra hár.
Ekki er vitað hvort hann verður hlaðinn úr tigulsteinum eða gerður úr sementi.
Mexíkóskt fyrirtæki, Semex, sem starfa báðum megin landamæra Mexíkós og Bandaríkjanna hefur veðjað á sement og hafa nú hlutabréf í fyrirtækinu hækkað um 200%.
En ýmis teikn eru á lofti um að múr þessi verði aldrei eða seint að veruleika.

1. Landslagið á landamærunum er margþætt, fjöll og firnindi, ár, mýrlendi og móar.

2. Þá er ekki allt landið í eigu hins opinbera. Ríki, sveitarfélög, frumbyggjaþjóðir, fyrirtæki og einstaklingar skipta með sér landinu. Því er talið að mörg dómsmál spretti vegna fyrirhugaðra framkvæmda við múrinn og geti málaferlin tafið byggingu hans um heilan mannsaldur.

3. Enginn veit með vissu hvað múrinn kostar. Heyrst hefur talan 14 milljarðar Bandaríkjadala og má margfalda þá upphæð með 120 til þess að reikna út krónufjöldann. Talið er að slík útgjöld kunni að standa í fjárveitingavaldinu bandaríska.


Átti eldgosið á Heimaey 1973 sér lengri aðdraganda? Frásögn Jóns Ó. E. Jonssonar

Áðan var á Rás eitt þátturinn Fólk og fræði í umsjón háskólanema. Þar sagði maður nokkur frá því er hann tók þátt í að bjarga verðmætum úr húsum á fyrstu dögum gossins.

Frásagnir um þennan atburð eru ótæmandi. Sagt er að gosið hafi gert boð á undan sér með um sólarhrings fyrirvara, en ekki tókst að staðsetja jarðskjálfta sem varð eftir því sem starfsmaður Raunvísindastofnunar tjáði mér, þar sem jarðskjálftamælir (sennilega við Búrfellsvirkjun) var bilaður. Stafaði bilunin af því eftir því sem hann komst næst, að einhver hafði gætt sér á spíranum sem átti að vökva mælinn með. Þessi ágæti maður, Jón Sveinsson, fékk það verkefni að gera við mælinn.

Vinur minn og félagi, Jón Ólafur Eymundsson Jónsson, ævinlega kallaður Jón Ó. E., sagði mér athyglisverða sögu 21. desember 1972. Ég hafði þá komið samdægurs til Eyja og urðu það mín síðustu jól þar.

Jón hafði þá fengið kransæðastíflu og gat ekki lengur sinnt járnsmíðum. Notaði hann tímann til að rölta um Heimaey og skoða ýmis náttúruundur. Ég hafði léð honum Jarðfræði Þorleifs Einarssonar og fleiri menntaskólabækur og las hann þær upp til agna.

Jón sagði að eitthvað stórfurðulegt væri að gerast á austanverðri eyjunni. Skammt austan við syðri hafnargarðinn væri að opnast sprunga sem lægi í norðvestur-suðaustur. Virtist honum sem annaðhvort væri að opnast þar berggangur eða að þetta væri undanfari mikilla atburða - til dæmis eldsumbrota. "Ég hef ekki sagt nokkrum manni frá þessu, enda segja allir að Jón Ó. E. sé orðinn vitlaus og nenni ekki lengur að vinna," sagði hann. Ég lagði fast að honum að greina frá þessu en hann sagði mér að gera það.

Ég hef nokkrum sinnum sagt þessa sögu áður, en hún virðist ekki hafa vakið neina athygli.

Ég læt hér fylgja með hlekk á stuttan minningaþátt frá sumrinu 1969, en þar heyrist m.a. í Jóni Ó. e. og fleira fólki sem gengið er á vit feðra vorra og mæðra.


http://hljod.blog.is/blog/hljod/entry/1033435/


Harður dómur um íslenskt samfélag

Allir góðgjarnir menn óska fólki farsældar í nýju starfi. Í aðdraganda nýrrar ríkisstjórnar læðast þó Nokkrar áhyggjur að ýmsum sem hafa fylgst með gangi mála hér á landi.

Í dag hitti ég vel menntaða konu sem fluttist hingað til lands í lok síðustu aldar. Flúði hún spillingu og erfið lífskjör í heimalandi sínu og hefur öðlast íslenskan ríkisborgararétt.

Fellur henni margt vel hér á landi en er ómyrk í máli um spillinguna sem þrífst.
"Hvernig getur það verið," spurði hún, "að maður leyni skjali sem hann heldur að geti haft áhrif á kosningarnar, ljúgi svo um tilurð þess, sé staðinn að verki og biðjist þá afsökunar? Og samt verður hann forsætisráðherra!" Hún sagði að þetta ásamt verðtryggingunni pirraði sig óskaplega og ylli því að henni liði orðið illa hér á landi.
Hún færði rök fyrir því að verðtryggingarákvæði bankanna væru ógegnsæ og engar viðhlítandi skýringar fengjust frá bönkunum og að hækkun lánanna væri í engu samræmi við verðlagshækkanir að undanförnu. Finnst henni merkilegt að Íslendingar sitji hjá aðgerðalausir og reyni ekki einu sinni að kæra verðtrygginguna til mannréttindastóls Evrópu eða EFTA-dómstólsins.
"Ef landar mínir og Íslendingar tækju sig nú til og samræmdu stjórnkerfi landanna kæmi sjálfsagt eitthvað undarlegt út úr þessari blöndu. Hjá þjóð minni er allt í kaldakoli - mikil spilling og hver stelur sem best hann getur. Hér á landi skila menn ekki sköttum, þeir sem eru auðugir stela undan fjármunum og menn ljúga hver um annan þveran. Samt er efnahagsástandið sæmilegt en þó þannig að níðst er á þeim sem minnst eiga, svo sem barnafjölskyldum, fötluðu fólki og öldruðu. Þetta getum við gert og finnst ekkert athugavert við það því að við búum á eyju og enginn getur skipt sér af því hvernig við högum okkur."

Þetta þótti mér býsna sérstök ræða og athyglisvert. Sitthvað sagði konan fleira og þótti mér sem hún greindi prýðilega ýmsa bresti í íslensku samfélagi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband