Helgaslysið við Faxasker 7. janúar 1950

Sjöundi janúar er jafnan minningar- og sorgardagur í fjölskyldu minni. Þann dag árið 1950 fórst vélskipið Helgi VE 333 við Faxasker er það átti skammt eftir ófarið til hafnar í Vestmannaeyjum. Helgi var 119 smálestir og stærsta skip sem Íslendingar höfðu smíðað, þegar því var hleypt af stokkunum árið 1939. Gunnar Marel Jónsson gerði skapalón af skipinu og var yfirsmiður þess. Helgi Benediktsson var eigandi þess og gerði það út til fiskveiða og flutninga. Helgi sigldi m.a. milli Fleetwood og Vestmannaeyja í stríðinu og var áhöfn hans heiðruð fyrir þessar siglingar. Ásmundur Friðriksson var fyrst með Helga, en lengst af stýrði honum Hallgrímur Júlíusson.

Með Helga fórust 10 menn. Tveir þeirra komust upp í Faxasker en létust þar af sárum sínum, vosbúð og kulda. Hvorki fundust lík annarra skipverja né brak úr skipinu við Vestmannaeyjar, en mikið rak úr Helga við Rauðasand hálfum mánuði eftir strandið. Leifarnar af öðrum björgunarbátnum má enn sjá í túnfætinum á Lambavatni.

Ekki varð komist út í Faxasker fyrr en um 40 klst. Eftir að Helgi fórst enda geysaði mikið fárviðri í Vestmannaeyjum.

Til minningar um þessa aturði er hér birt upphaf og endir útvarpsþáttar sem gerður var um Helgaslysið. Þar heyrist rödd móður minnar, Guðrúnar Stefánsdóttur og séra Halldórs E. Johnson.

Sögumaður er Sigrún Björnsdóttir.

Fjölskyldum og ættingjum þeirra, sem fórust með Helga fyrir 60 árum, eru sendar hugheilar kveðjur.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég man enn eins og það hafi gerst í gær þegar útvarpið flutti fréttirnar af þessu hörmulega slysi sem og fárviðrinu sem geysaði um allt sunnanvert landið.

Eftir slysið var reist skýli í Faxaskeri en það var of seint og hefur ekki bjargað neinum síðan.

Ómar Ragnarsson, 7.1.2010 kl. 21:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband