Bylgjuviðtal um íslenskt tal í farsímum

Mánudaginn 19. Ágúst birti Bylgjan við mig símaviðtal þar
sem fjallað var um íslensku í farsímum. Nokkrir einstaklingar hafa haft samband
við mig og beðið um þetta viðtal. Er það því birt hér.http://visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP20431

Bylgjuviðtalið


Bíðviðrisbrúðkaup í Hafnarfirði

Hamingjustund í Fríkirkjunni í HafnarfirðiVið Elín erum nýkomin úr dýrðlegum brúðkaupsfagnaði heiðurshjónanna doktor frú Svövu Pétursdóttur og Gunnars Halldórs Gunnarssonar, framkvæmdastjóra og stýrimanns. Þar var fjöldi manns í blíðviðri sem best getur orðið í Hafnarfirði. Að gömlum sið var þeim hjónum flutt lítið brúðarvers undir laginu Austrið er rautt. Þar sem föðurbróðir brúðarinnar, Jón Skaptason, var viðstaddur, hneigðist ljóðskáldið til að hafa ljóðið í hefðbundnu fari:

Austrið er rautt,
upp rennur sól.
Austur í Kína fæddist Mao Tsetung.
Ykkur sendum við hjónum hól,
því með sanni þið ákváðuð
að sameinast í dag.

Myndina tók Elín í Fríkirkjunni í Hafnarfirði, en þangað leiddi brúðgaumi gesti í ratleik úr garðveislunni, "veislunni okkar".
 

Spjaldtölvutímarit - einangrun eða umbylting?

Í Morgunblaðinu í dag var frétt um nýtt tímarit, Skástrik, sem hefur göngu sína í næsta mánuði. Verður það með fréttaskýringum af erlendum og innlendum vettvangi. Markhópur tímaritsins verða eigendur spjaldtölva og lesbretta. Áður hefur útgáfa Kjarnans verið boðuð, , sem einnig er ætlaður sama markhópi. verði
Verði Kindils- og EPUB-viðmótið valið ættu tímaritið að verða aðgengileg öllum.
Fréttablaðið hefur að undanförnu auglýst smáforrit fyrir spjaldtölvur og farsíma og á mbl.is er slíkt forrit einnig auglýst.
Aðgengi þessara forrita var athugað í dag. Fréttablaðsforritið reyndist óaðgengilegt og hið sama var að mestu leyti upp á teningnum með Morgunblaðsforritið. Unnt reyntist að hala niður blaðinu í dag, en undirritaður fékk lánaða áskrift að Android-hlutanum á meðan á prófunum stóð. Morgunblaðsforritið halar niður pdf-útgáfu blaðsins að sögn Snorra Guðjónssonar, tölvumanns hjá blaðinu og gera má ráð fyrir hinu sama hjá Fréttablaðinu. Gallinn er sá að blindir eða sjónskertir lesendur geta ekki valið hvaða skjálesari er nýttur.
Þau smáforrit, sem gefin hafa verið út fyrir íslenskan markað að undanförnu, valda nokkrum áhyggjum. Svo virðist sem aðgengisþátturinn hafi gleymst. Áður hefur verið minnst á Strætó-forritið á þessum síðum sem er algerlega óaðgengilegt.
Morgunblaðið hefur verið í forystu fjölmiðla um aðgengi í rúman áratug og er vefsíða þess á meðal aðgengilegustu fjölmiðlasíðna heims. Hið sama verður vart sagt um Fréttablaðið. Það er með ólíkindum að þeir 365-miðla menn setji ekki fyrirsagnir eða krækjur á einstaka hluta og greinar blaðsins eins og Morgunblaðið gerir á auðlesna hluta blaðsins, samanber http://www.mbl.is/mm/greinilegur/mogginn/bladid/?dagur=0.
Í þeirri byltingu, sem nú er framundan í fjölmiðlun hér á landi, ríður á að Blindrafélagið og Öryrkjabandalag Íslands haldi vöku sinni. Hið sama á við um útgáfu rafbóka og námsefnis. Verði ekki vakin athygli á þörfum blindra og sjónskertra fyrir aðgengileg smáforrit, getur farið illa og einangrunin aukist að mun.
Íslenskir forritarar eru hugmyndaríkir og snjallir. Hafi þeir aðgengi í huga frá upphafi er betur af stað farið en heima setið.

Yndisstund í Kaldalóni

Í kvöld nutum við hjónin þess að hlusta á söngkonurnar
Hallveigu Rúnarsdóttur og Sigríði Ósk Kristjánsdóttur flytja ýmsar söngperlur
íslenskra tónmenntar í Kaldalóni Hörpu. Með þeim lék Hrönn Þráinsdóttir á
flygil og reyndist einnig góður liðsmaður í þríraddaðri útsetningu Jóns
Ásgeirssonar í síðasta erindi vögguvísunnar, Sofðu unga ástin mín. Á dagskrá
voru auk þess lög eftir Atla Heimi Sveinsson, Tryggva M. Baldvinsson, Sigvalda
Kaldalóns, Emil Thoroddsen, Karl Ó. Runólfsson og Jórunni Viðar auk stórkarlalegrar
útsetningar Jóns Leifs á laginu Ísland farsældarfrón.

Flutningur þessara þriggja kvenna var jöfnum höndum -
fágaður, fagur og skemmtilegur. Þær hrifu áheyrendur með sér. Skýringarnar, sem
voru ætlaðar erlendum áheyrendum. Voru vel samdar og juku áhrif lags og ljóðs.

Bjarni Thor Kristinsson, hinn mikilhæfi bassasöngvari, hefur
staðið fyrir tónleikahaldi handa ferðamönnum í Hörpu undanfarin sumur og er svo
víðsýnn, að hann fær með sér aðra söngvara og veitir þeim tækifæri til að tjá
list sína. Þegar við hugðumst þakka honum fyrir var hann horfinn af vettvangi.

Þessi kvöldstund verður ógleymanleg. Eindregið er mælt með
því að Íslendingar bendi erlendum kunningjum og vinum á fjársjóð íslenskra
sönglaga og njóti sjálfir hins fágaða flutnings. Ekki spillir að brugðið er upp
myndum og hljóðritum. Sem dæmi má nefna að þær stöllur fluttu bæði lag Jóns
Ásgeirssonar við Maístjörnu Halldórs Laxness og finnska tangóinn, sem ljóðið
var upphaflega samið við. Síðasta erindið söng Halldór sjálfur við undirleik
Hrannar, hló síðan og sagði að sennilega hefði maður nú ekki verið lengi að
yrkja þetta.

Söngdagskráin er breytileg frá einu kvöldi til annars og er
því víst að enn verður haldið í Hörpu við tækifæri að njóta íslenskra
söngperlna.


Rökrétt ákvörðun

Það vakti furðu margra þegar undirskriftasöfnun gegn lækkun veiðigjaldsins hófst. Þótt deila megi um þá ákvörðun stjórnvalda að ráðast í að lækka veiðigjaldið og þótt vantrúar gæti í garð LÍÚ vegna málflutnings útgerðarmanna, fer ekki hjá því að menn átti sig á að frumvarpið, sem lagt var fyrir Alþingi í sumar, snerti ekki þann grunn sem fiskveiðistjórnin ætti að standa á, þ.e. að veiðilendur hafsins séu eign þjóðarinnar. Reynt hefur verið að koma þessu ákvæði inn í stjórnarskrá lýðveldisins nokkrum sinnum, en ævinlega hafa þær tilraunir verið í skötulíki. Það var rétt af Ólafi Ragnari að staðfesta lögin. Hann átti ekki annarra kosta völ. Fyrst verður hægt að bera lög um fiskveiðar undir dóm þjóðarinnar þegar þau snerta eignarréttinn á auðlegðinni sem í hafinu býr. Þetta vita flestir og þeir sem tala með öðrum hætti telja sig fylgja meirihlutanum að málum.
mbl.is Forsetinn staðfestir lög um veiðigjald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanþekking auglýsingafólks á íslenskri tungu

Á morgun leggur Húni annar í hringferð um Ísland og er það vel. Safnað verður fé til þarfra mála og leggja listamenn söfnuninni lið.

Auglýsing þessarar ferðar er illa gerð og dapurlegt til þess að hugsa að starfsfólk auglýsingastofunnar, sem gaf e.t.v. vinnu sína, skyldi kasta til hennar höndunum. Sem dæmi má nefna að staðarnöfn eru í nefnifalli og dagsetningarnar einnig. Þennig verða tónleikarnir á eftirtöldum stöðum (ekki bein tilvitnun): "Seyðisfjörður fimmti júlí, Vestmannaeyjar sjöundi júlí o.s. frv., þótt lesa hefði átt Vestmannaeyjum sjöunda júlí o.s.frv.

Eitt sinn vann Þórhallur Guttormsson við að fara yfir auglýsingar í sjónvarpi. Nú virðist sem Ríkisútvarpið hirði ekki lengur um orðfæri auglýsenda. Auglýsingalestur er hluti menningarstarfsemi stofnunarinnar og málfar þeirra hefur mikil áhrif á málskynjun fólks.

Húni annar er varðveittur til þess að bjarga menningarverðmætum og sýna þeim virðingu. Leitt er til þess að hugsa að þeir sem orðuðu auglýsingarnar stuðli með vanþekkingu sinni eða kæruleysi að eyðileggingu annarra verðmæta. Hvers á íslensk tunga að gjalda?


Málskilningur Google lofar góðu

Í þessum pistli er fjallað um einn aðgengisþátt í Android-umhverfinu. Þar er minnst á tvenns konar hugbúnað:

Mobile Accessibility er sérstakur hugbúnaður frá Code Factory, sem er í eigu Spænsku blindrasamtakanna. Hann gerir blindu og sjónskertu fólki kleift að nota snjallsíma með því að tengjast talgervli. Viðmótið hefur verið einfaldað að mun. Blindrafélagið hefur ákveðið að láta þýða Mobile Accessibility á íslensku.

Talkback er aðgengisbúnaður sem er hluti aðgengislausna Android-kerfisins. Sá sími, sem fjallað er um hér, er Samsung Galaxy S3 GT9000 með stýrikerfi 4.1.2. Með útgáfu 4.2 batnar aðgengið að mun.

Talsvert hefur verið fjallað um íslenska leitarvél Google og ekki að ástæðulausu. Það hefur hins vegar vafist fyrir ýmsum hvernig eigi að stilla Android-símana til slíkra nota. Nú skilur Samsung-síminn minn loksins íslenskt, mælt mál.

Í kvöld kom kunningi okkar í heimsókn. Sá er mikill ástríðumaður um tölvur og hefur nýlega keypt sér Android-spjaldtölvu af gerðinni Samsung með stýrikerfi 4.1.2. Í fikti okkar komumst við að því að leiðsagnarforritið Navigation í tölvunni gerði honum kleift að segja íslensk nöfn á götum og húsanúmer, þó með þeim annmörkum að hann varð að hafa fyrstu fjórar tölurnar í nefnifalli, samanber Lindarbrautþrír.

Þegar hann var farinn hófst ég handa við að samhæfa símann hjá mér því sem kallast Scandinavian Keyboard og Icelandic Dictionary eftir Sverri Fannar. En fyrst varð ég að kveikja á Talkback-forritinu og slökkva á Mobile Accessibility. Þá fór ég í Speaksearch og las inn á íslensku nokkur leitarorð. Síminn fann ýmislegt á vefnum og birti niðurstöðurnar á augabragði. Þannig komst ég að því að kunningi minn hafði sett húsið sitt í sölu og auglýst á mbl.is og að svili minn var í framboði til Stjórnlagaráðs.

Fyrst, þegar ég leitaði að sjálfum mér, ruglaðist forritið á mér og Arnóri Fannari, en skildi í annarri tilraun að ég væri að leita að minni auvirðilegu persónu.Ég reyndi síðan aðferðina með Mobile Speak. Það virtist ekki ganga að öllu leyti því að Mobile Accessibility þekkir ekki íslenskt lyklaborð. Þó má vera að hægt sé að hringja í símanúmer með nokkrum tilfæringum með því að lesa númerin inn á íslensku, þegar Mobile Accessibility er notað, en hæpið er að það borgi sig. Niðurstaðan er því þessi:

Leitarvél Google skilur merkilega vel íslensku. Nauðsynlegt er að fara fram á við Code Factory að Mobile Accibility þekki Scandinavian Keyboard og helst ætti að breyta hönnun forritsins þannig að það aðlagaði sig að þeim lyklaborðum sem valin eru hverju sinni. Hjá mér er það Scandinavian Keyboard og Sansung lyklaborð.

Þá virðist Mobile Accessibility breyta sumum skjáskipunum Talkback þannig að endurstilla þurfi kerfið þegar Talkback er notað. Er það ótvíræður ókostur.


Fjarar undan Hellisheiðavirkjun

Stundum kemur upp kvittur í samfélaginu sem fer hljótt, læðist með jörðu eins og dalalæða. fyrir nokkru barst það út um heimsbyggðina hér á landi, en fór hljótt, að jarðhitasvæðið á Hellisheiði stæðist ekki álag. Þeir sem greindu frá þessu, fóru með þennan sannleika eins og mannsmorð. Hægrimenn fussuðu, miðjumenn urðu efins en vinstrimenn trúðu þessu. Nú er komið í ljós að þetta er rétt.

Eitt sinn birtist pistill á þessum síðum um stækkun Hellisheiðarvirkjunar og þá firringu sem væri fólgin í því að nýta jarðhita eingöngu til raforkuframleiðslu, en sagt er að einungis nýtist 10-14% orkunnar í því sambandi. Höfundur pistilsins sætti talsverðu ámæli fyrir vanþekkingu og úrtölur. Þess skal getið að höfundur er hvorki jarðfræðingur né rafeindavirki, en hafði þessar staðreyndir úr ýmsum áttum.

Annað hefur komið á daginn og nú er ekki annað í vændum en blása Helguvíkurálverið endanlega af og hugsa sig tvisvar um áður en ráðist verður í frekari stórvirkjanir. Ívilnunin á Bakka er ekki fordæmisgefandi. Reyndar hneykslast margir á Ragnheiðu Elínu Árnadóttur fyrir að láta sér detta í hug að reyna megi slíkar ívilnanir handa Suðurnesjamönnum, en gleyma því um leið hverra þingmaður hún er og muna ekki heldur hvar fyrrverandi iðnaðarráðherra sat, þegar hann skrifaði undir Bakkasamningana. Eitt er víst. Ríkisstjórnin þarf að hugsa sig vandlega um á næstunni.


Leiðsögnin í strætó og smáforritið

Fyrir tæpum þremur árum var leiðsagnarkerfið tekið í notkun hjá Strætó. Gerð var úttekt á því eftir áramótin og fék talandi leiðsögnin falleinkunn. Ég ferðast talsvert með strætisvögnum og verð þess varla var að neitt hafi breyst til batnaðar.

Ég leit áðan á smáforrit sem Strætó dreifir og gerir fólki kleift að skoða í snjallsímum staðsetningu vagnanna. Það er óaðgengilegt. Lítill vandi hefði verið að koma fyrir aðgengislausn handa blindum eða sjónskertum farþegum. Hefði hún getað falist í því að tilgreina hvar vagninn væri staddur þegar stutt er á númer vagnsins. Mér sýnist að þá séu gefnir upp nokkrir möguleikar. Hefði t.d. verið hægt að samtengja lesturinn staðsetningarbúnaði símans sem fyrirspurnin barst úr. Það er áríðandi að hönnuðir smáforrita, sem ætluð eru til nota í spjaldtölvum og farsímum gleymi ekki aðgenginu. Það verður sífellt þýðingarmeira eftir því sem notkun spjaldtölva og snjallsíma eykst. Eigi blind og sjónskert börn að geta haldið í við sjáandi félaga sína verða hönnuðir að sjá til þess að sem flest smáforritin verði aðgengileg.

Fer ekki að verða tímabært að efna til aðgengisupplýsingaráðstefnu? Það eru 10 ár síðan sú síðasta var haldin.


Ágrip sögu Skaftfellings VE 333 á rafbók

Árið 2002 gáfum við Sigtryggur bróðir út bækling með ágripi af sögu Skaftfellings VE 333, en hann var í eigu fjölskyldunnar í rúma fimm áratugi. Voru safninu að Skógum afhent 1.000 eintök bæklingsins. Víða var leitað fanga. Samgöngusaga Austur-Skaftafellssýslu eftir Pál Þorsteinsson var drjúg heimild, svo og Verslunarsaga Skaftfellinga eftir Kjartan Ólafsson og útvarpsþættir, sem Gísli Helgason gerði.

Nú verður bæklingurinn senn gefinn út sem rafbók. Rafbókin, sem er á EPUB-sniði, er í raun tilbúin til dreifingar og verður dreift endurgjaldslaust á netinu. Í henni er ágrip sögu skipsins á þýsku og ensku. Þeir, sem hafa hug á að skoða bæklinginn, geta snúið sér til undirritaðs, annaðhvort símleiðis eða með því að senda póst á arnthor.helgason@gmail.com


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband