Leiðsögnin í Android-snjallsímum

Meðfylgjandi pistil birti ég á Fasbókinni í gærkvöld.

Í dag fór ég villur vegar og er ástæðulítið að hrósa sér af því. Ég hugðist koma mér heim úr Reykjavíkurakademíunni og nota gönguleiðsögnina í símanum. Hún vísaði mér á Álagranda, en hann liggur að hluta samsíða göngustíg sem liggur að Keilugranda, en þaðan er haldið inn í Frostaskjól. Eitthvað fór úrskeiðis hjá mér og rammvilltist ég. Ég kannaði öðru hverju hvar ég væri og fékk upp götuheitið. Að lokum vék sér að mér kona nokkur og ráðlagði mér að fara út á Meistaravelli. Eftir nokkrar leiðbeiningar og allnokkra villu rambaaði ég á götuna og fann strætisvagnaskýli við Fliðrugranda. Af einhverjum undarlegum ástæðum var mikil umferð mér á hægri hönd og velti ég fyrir mér hvort svona mikil umferð væri eftir Kaplaskjólsveginum. Þá kom strætisvagn og taldi ég að það væri leið 15. Hann stansaði hinum megin við götuna og beið ég dálitla stund. Þá kom það sem ég taldi vera leið 13 og spurði ég til öryggis hvort ekki væri um leið 13 að ræða. Þetta var þá leið 15 og leið 13 þá nýfarin vestur á Nes. Áttaði ég mig þá á heimsku minni og hefði betur hugsað mig nánar um, því að umferðin, sem ég heyrði í fjarska var auðvitað frá Hringbrautinni. Niðurstaðan er þessi eftir ævintýri dagsins: 1. Sennilega er rétt að útvega sér áttavita í tækið, en slíkur áttaviti er á Android-markaðinum. 2. Staðsetningarbúnaður farsímanna mætti vera nákvæmari og tilgreina húsnúmer og götuheiti. Reyndar er gert ráð fyrir því í búnaðinum, en skráningu virðist ábótavant eða rangur gagnagrunnur notaður. 3. Rökhugsunin þarf að vera í lagi. Það er svo sem ekkert óeðlilegt að blindur einstaklingur verði áttavilltur úr því að sjáandi fólk villist í litlu skyggni. Eftir á að hyggja hefði akstursleiðsögnin dugað að sumu leyti betur, því að hún tilgreinir fjarlægð frá áfangastað. Ég hugðist hins vega láta á það reyna hvort göngustígurinn, sem minnst var á hér að framan, væri skráður. Það verður gert innan skamms. Veðrið var hins vegar hlýtt og gott að vita af því að þrátt fyrir aldurinn hafi ég enn gaman af að spreyta mig á tilraunum með nýja tækni.


Réttlætið sigraði

Orðið "níðingsverk" kom mér fyrst í hug þegar ég las fréttina um uppsögn Láru Hönnu Einarsdóttur. Sú ákvörðun framkvæmdastjórnar 365 miðla að afturkalla uppsögnina tafarlaust sýnir hve samtakamáttur fólks getur verið sterkur.

Láru Hönnu er óskað til hamingju og um leið þakkað fyrir að hafa sýnt þann kjark og einurð að greina frá högum sínum.


mbl.is Uppsögn Láru dregin til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

95 ára afmæli Skaftfellings VE 333

Í dag, 6. Maí, eru 95 ár liðin síðan vélskipið Skaftfellingur kom fyrsta sinn til Vestmannaeyja en smíði þess lauk í mars 1918. Jón Högnason, skipstjóri og áhöfn hans sigldu skipinu frá Kaupmannahöfn. Ekki fékkst olía á skipið og var því siglt með seglum.

Hér er krækja á þáttinn „Skaftfellingur aldna skip, aldrei verður sigling háð“, sem útvarpað var árið 1999.

 


Blindraletur á kjörstað nær ólæsilegt

Einhverjum kann að þykja þessi pistill orka tvímælis, en hér er þó um umsögn um hjálpartæki að ræða sem kostaði ótrúlega baráttu fyrir rúmum þremur áratugum að fá í gegn.
Þegar ég kom á kjörstað í morgun fékk ég langan kjörseðil sem stungið var í aflangt spjald, enda voru fjölmargir flokkar í boði.
Í kjörklefanum varð mér ljóst að blindraletrið á spjaldinu var svo dauft að ég átti erfitt með að greina það. Þurfti ég að vanda mig til þess að geta kosið samkvæmt sannfæringu minni. Spurði ég eiginkonu mína á eftir hvort A-listinn hefði ekki verið sýnilegur, því að fyrsti stafurinn, sem ég nam, var B.
Þetta minnti mig á blindraletrið á umslagi plötunnar Í bróðerni, en Steevy Wonder var með jafndauft letur á einni af plötum sínum. Prentararnir hjá Kassagerðinni töldu ekki hægt að hafa það skýrara nema með nokkrum tilkostnaði.
Bróðernisplatan var ekki kosningagagn og því ekki tæknilegt hjálpartæki blindra eins og spjöldin. Hér er eins og enginn vanur blindraleturslesandi hafi vélað um framkvæmd þessa máls. Hvað er á seiði? Hvers eiga blindraletursnotendur að gjalda?

Eru framsóknarmenn lýðskrumarar?



Svo virðist sem nú sé komið bakslag í fylgisaukningu
Framsóknarflokksins og ýmsir teknir að snúa heim aftur. Tillögur
framsóknarmanna um niðurfærslur skulda heimilinna hafa verið talsvert
gagnrýndar að undanförnu. Á eyjunni er m.a. rætt um að Seðlabankinn hafi rústað tillögum
flokksins
. Í viðtali í Bítinu
á Bylgjunni
18. Apríl útskýrði Frosti Sigurjónsson hvernig aflað skyldi
fjár til þessarar aðgerðar. Í grein Vilhjálms Þorsteinssonar, sem vísað er til
hér að framan er á það bent að leið Framsóknarmanna gagnist þeim fimmtungi
fólks best sem hafa hæstar tekjur og skuldi mest. Eru leidd rök að því að sá
fimmtungur hljóti allt að þriðjungi stuðningsins. Þessi gagnrýni er réttmæt.
Frosti bendir á í viðtalinu að menn hafi hengt sig um of í útfærslur tillagna fyrir
kosningarnar árið 2009. Það kann að vera rétt. Vilji menn gæta réttlætis í
þessum málum er nauðsynlegt að huga að einhvers konar tekjutengingum. Þær
þekkjast um allt fjármálakerfið og með þeim er hægt að ná mestum jöfnuði ef
vilji er fyrir hendi. Á þeirri viku, sem eftir er til kosninga, er
lífsnauðsynlegt að flokkarnir greini hvernig þeir ætla að standa að
velferðarmálum. Sjálfstæðisflokkurinn auglýsir nú að hann vilji standa vörð um
kerfið, en hann varð fyrstur til að beita Alþýðuflokknum fyrir sig þegar
Viðeyjarstjórnin var myndu, til þess að ráðast að velferðarkerfinu. Þá var
hafist handa við að klekkja á þeim hópi öryrkja, sem síst mátti við því. Þetta
er geymt en ekki gleymt og fleiri en núverandi ritstjóri Morgunblaðsins eru
langminnugir á misgjörðir annarra.



 


Android og aðgengi blindra

Eins og fram hefur komið virðist Nokia-simbian farsími minn að verða ónothæfur. Eftir að hafa leitað fann ég engan sem mér hentaði og þarf að sérpanta þá.
Eftir að hafa leitað fyrir mér héldum við hjónin í Elkó í Smáralind og fóru leikar þannig að keyptur var Samsung Galaxy SIII ásamt þráðlausu lyklaborði. Þegar tölvufróður maður kom að málinu varð þjónustan til fyrirmyndar og fór ég fram á aðstoð við uppsetningu símans og aðlögum að þörfum blindra.
Eftirfarandi þjónusta var fúslega veitt og sumt var að frumkvæði afgreiðslumannsins, Alexanders:

1. Talkback skjálestrarforritið var sett upp.
2. Náð var í eSpeak og íslenskan sett inn.
3. Þráðlausa lyklaborðið var virkjað.
4. Gmail-pósturinn var virkjaður.
5. Tengiliðir voru fluttir í símann.
6. Síminn var uppfærður í nýjustu útgáfu Jellybean, sem fáanleg er, en símarnir sem Elkó selur eru með þessu kerfi nú þegar.

Heilmikið er framundan við að læra á símann. Má m.a. nefna að ná tökum á snertiskjánum og átta sig á uppbyggingu stýrikerfisins. Það auðveldar sumt að hægt er að tengja símann tölvu með USB-tengi og færa þannig á milli skrár eins og rafbækur, hljóðskrár o.fl.
Ég hef því væntanlega sagt skilið við Mobilespeak (farsímatal) eftir 10 ára notkun. Það er að mörgu leyti þægilegt kerfi. En nýjum aðstæðum fylgja nýjar áskorunarábyrgð.


Sláðu á þráðinn

SLÁÐU Á ÞRÁÐINN -- MEÐ KÆRRI KVEÐJU TIL KULUSUK!

Nú er hægt að taka þátt í söfnun vegna bruna tónlistarhússins í Kulusuk með einu símtali:

Sími 901 5001 -- 1000 krónur
Sími 901 5002 -- 2000 krónur
Sími 901 5003 -- 3000 krónur

SÝNUM VINÁTTU OKKAR OG SAMHUG MEÐ ÍBÚUM KULUSUK Í VERKI. -- DREIFUM ÞESSU SEM VÍÐAST. FRAM TIL SIGURS.


Enn setur Alþingi ofan

Eftir efnahagshrunið haustið 2008 töldu ýmsir að brátt rynni upp nýtt skeið í íslenskum efnahags- og stjórnmálum – kröfur til lífsgæða færu minnkandi, fjármálamenn yrðu varfærnari, þeir sem hafa aðgang að auðlindum hafsins sanngjarnari og þingmenn skynsamari. Þeir, sem efuðust um þessa spádóma voru taldir bölsýnismenn og valin ýmis orð, því að þeir fylgdu ekki straumnum.

Nú hyllir undir lok þessa kjörtímabils og tímamótastjórnin, sem margir bundu miklar vonir við, hverfur brátt af vettvangi. Þótt hún hafi valdið flestum landsmönnum miklum vonbrigðum verður því ekki á móti mælt að hún hefur áorkað ýmsu sem óþarft er að rifja upp. Annað hefur setið á hakanum og má rekja það m.a. til þeirrar umræðuhefðar, sem skapast hefur á Alþingi Íslendinga, sem er orðið sannkallað þrætuþing.

FLUMBRUSTJÓRNMÁL

Í vongleðinni var rokið til og boðaður þjóðfundur. Síðan var efnt til kosninga um stjórnlagaþing sem skyldu fengnir þrír eða fjórir mánuðir til að semja nýja stjórnarskrá. Kosningin var dæmd ólögmæt og var því stjórnlagaráð skipað í staðinn. Engum datt í hug að því tækist að semja heilsteypta stjórnarskrá á þeim skamma tíma sem því var ætlað.

Þótt margt í tillögum ráðsins væri allrar athygli vert var annað sem stóðst ekki. Texti frumvarpsins er á köflum ruglingslegur og ómarkviss og jafnvel má finna í honum mótsagnir. Enginn áhugi virtist á að lagfæra frumvarpið strax í upphafi og var það í raun látið dankast í meðförum þingsins.

OFBELDISSTJORNMÁL

Það fór eins og fyrri daginn að stjórnarandstaðan neytti allra bragða til að hindra framgang mála, sem hún taldi sér óhagstæð. Þannig lögðust framsóknar- og sjálfstæðismenn á kvótafrumvarpið og nú síðast stjórnarskrárfrumvarpið, sem er í raun orðið handónýtt og verður ekki afgreitt á þessu þingi. Formenn þriggja flokka reyndu að bera fram tillögu um aðferð, sem duga mætti til þess að fleyta stjórnarskrárbreytingum fram á næsta kjörtímabil. Það jók enn á glundroðann og var í raun andvana fætt eins og tilraunir þeirra Jóns Sigurðssonar og Halldórs Ásgrímssonar til þess að koma á síðustu stundu fram með breytingartillögur á stjórnarskránni fyrir kosningar árið 2007.

Á undanförnum áratugum hefur hvað eftir annað gerst að stjórnarandstaðan hafi haldið þinginu í gíslingu með málþófi sem hefur ekkert með lýðræði að gera. Oftast er þar um þrætubókarlist af verstu gerð að ræða. Má þar nefna fólk eins og Sverri Hermannsson, Jóhönnu Sigurðardóttur og Bjarna Benediktsson og eru þá fáir einir nefndir. Þar hefur lýðræðisástin ekki ráðið ríkjum, heldur hefur tilgangurinn helgað meðalið.

BBREYTINGA Á ÞINGSKÖPUM ER ÞÖRF

Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar á undanförnum árum til að breyta því ástandi, sem ríkt hefur á Alþingi Íslendinga, einkum þegar þinglausnir nálgast. Þær hafa þó ekki dugað til að hindra endalausar umræður á þinginu, sem tefja mál meira en góðu hófi gegnir.

Alþingi gæti margt lært af fundarsköpum þeim sem tíðkuð eru á meðal þróaðra félaga, sem starfa í landinu. Þar er slík þrætubókalist, sem Alþingismenn iðka, ekki leyfð.

Þá hafa verið kynntar fyrir Alþingismönnum aðferðir, sem eiga að duga til þess að stuðla að málefnalegri umræðu. Forysta þingsins hefur engan gaum gefið að þeim og óbreyttir þingmenn þora ekki að ráðast í neinar breytingar, jafnvel ekki þingmenn Hreyfingarinnar.

Ofbeldið, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt að undanförnu, sýnir því miður að hann er enn sérhagsmunagæsluflokkur fámenns hóps sem ætlar sér ekki að láta af hendi það, sem þróaðist á 9. Áratugnum og hefur gjörsamlega gengið sér til húðar. Áður hefur verið minnst á það á þessum síðum, að Einar Már Jónsson, sagnfræðingur, greindi skemmtilega frá því í bók sinni „Bréf til Maríu“ hvernig íhaldsmenn hafa ævinlega barist á hæl og hnakka gegn öllum breytingum. Þannig er þetta, þannig hefur þetta verið og verður sjálfsagt áfram. En fyrr eða síðar lætur eitthvað undan og íhaldið bíður ósigur.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú hengt raufarstein um háls sér sem eru úrelt sérhagsmunagæsluviðhorf, innihaldslaus kosningaloforð og fortíðin, sem flokkurinn dröslast ennþá með í eftirdragi. Þeir, sem muna valdatíð flokksins árin 1991-2007 hljóta að hugsa sig um tvisvar, áður en haldið verður inn í kjörklefann og merkt við listabókstaf, þrátt fyrir loforð um fyrirgreiðslu til handa heimilunum í landinu.


Sum vefrit Atvinnumálaráðuneytisins óaðgengileg - brot á opinberri aðgengisstefnu

Stöðugt fjölgar þeim bókum sem eru aðgengilegar sem rafbækur. Sum ritverk eru aðgengileg sem pdf-skjöl en önnur sem rafbækur á EPUB-eða MOBI-sniði.
Ég hef að undanförnu kynnt mér ýmislegt sem snertir sögu sjávarútvegsins. Fagnaði ég því að sjá að hið ágæta verk Jóns Þ. Þórs, saga sjávarútvegsins, væri nú heimil öllum til niðurhals. Ekki var þó allt sem sýndist í fyrstu, samanber bréf mitt til Atvinnumálaráðuneytisins, sem hér birtist.
Greinilegt er að frágangur þessa þriggja binda verks er ekki í neinu samræmi við aðgengisstefnu stjórnvalda. Viðleitnin var góð, en betur má ef duga skal.

BRÉFIÐ TIL RÁÐUNEYTISINS

Heiðraði viðtakandi.

Í upphafi skal tekið fram að ég nota skjálesara með talgervli og blindraletri.

Vefsíða Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins er allvel aðgengileg. Þar sem ég hef verið að kynna mér ýmislegt sem snertir sögu sjávarútvegs á Íslandi fagnaði ég því að sjá að Saga sjávarútvegsins eftir Jón Þ. Þór væri nú aðgengileg á vefnum. Halaði ég því niður öllum bindunum á pdf-sniði. Eftirfarandi kom í ljós:

1. Talsvert vantar á að fyrstu tvö bindin séu sómasamlega unnin. Til dæmis skilar bókstafurinn ð sér sjaldan. Það má þó notast við eintakið. Þá hefur engin tilraun verið gerð til að setja krækjur í efnisyfirlit svo að erfitt er að fletta í skjölunum.

2. Þriðja bindið er algerlega óaðgengilegt þeim sem nota skjálesara fyrir blindraletur eða talgervil. Það virðist hafa verið gengið frá síðunum sem hreinum myndum og því geta skjálesarar ekki nýst við lesturinn.

Ég fer þess vinsamlegast á leit við hæstvirt ráðuneyti að ráðin verði bót á þessu með 3. bindið. Síðan þarf ráðuneytið að láta lagfæra 1. og 2. bindi verksins svo að þaað verði sæmilega aðgengilegt þeim sem hyggjast nýta sér verkið til útgáfu.

Ég hef rætt þessi mál við höfundinn og veldur það honum vonbrigðum hversu staðið hefur verið að frágangi þess á vefnum.

Virðingarfyllst,

Arnþór Helgason

---

Arnþór Helgason, vináttusendiherra,

Tjarnarbóli 14,

170 Seltjarnarnesi.

Sími: 5611703

Farsími: 8973766

Netföng: arnthor.helgason@simnet.is

arnthor.helgason@gmail.com

http://arnthorhelgason.blog.is

http://hljodblog.is


Glæsir eftir Ármann Jakobsson - grípandi skáldsaga

Skáldsagan Glæsir eftir Ármann Jakobsson vakti athygli mína þegar hún kom út hjá Forlaginu haustið 2011. Þó varð ekkert úr því að ég læsi hana fyrr en í þessari viku, en þá keypti ég hana sem rafbók.
Sagan byggir á atburðum sem sagt er frá í Eyrbyggju. Þórólfur, sem uppnefndur var bægifótur eftir meini sem hann hlaut í einvígi, gerist illvígur með aldrinum og eftir dauðan marg-gengur hann aftur.
Skáldsagan lýsir hugrenningum draugsins á síðasta skeiði hans og hvernig eðli hans mótaðist af aðstæðum. Ármann, sem er gagnkunnugur íslenskum fornbókmenntum, greinir einnig goðaveldið og miskunnarleysi þess gagnvart þeim, sem þóttu ekki standa jafnfætis ættstórum mönnum.
Sagan er áleitin og einstaklega vel sögð. Orðfærið er auðugt og sagan hrífur lesandann með sér.
Margir höfundar hafa leitað í fornbókmenntirnar og hefur tekist það misvel. Glæsir hlýtur að teljast eitt af meistaraverkum íslenskra bókmennta á þessari öld, jafnvel þótt Íslendingar hætti að skilja tungu sína og Glæsi verði að þýða á ensku.
Til hamingju, Ármann.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband