Óprúttinn söluskálaeigandi, indæl afgreiðslustúlka og konan sem átti gítarinn

Um helgina fórum við hjónin austur í Öræfi. Gistum við á Hótel Skaftafelli og nutum þar góðs atlætis. Laugardaginn 23. febrúar nutum við lífsins í Skaftafelli í einstæðri kyrrð, sem skreytt var með sytrandi lækjum og freyðandi fossum.


Þaðan var haldið að Jökulsárlóninu við Breiðamerkursand. Var þá kominn tími til hádegisverðar.


Heillandi snót og nískur veitingamaður

Á móti okkur tók indæl, ung stúlka, sem átti rætur að rekja til sæmdarhjónanna á Brunnhóli á Mýrum, þeirra sigurjóns og Þorbjargar, en þau heimsótti ég sumarið 1967 og stilltum við bræður gítar heimasætunnar, dóttur Arnórs sonar þeirra hjóna. Meira um það síðar.


Söluskálinn við Breiðamerkurlón er orðinn býsna lúinn og flest sparað í viðhaldi sem hægt er. Ég hugðist færa stól nær borðinu og tók undir arma hans. Varð þá hægri armurinn laus. Virtist þetta sami stóllinn og ég settist á fyrir þremur árum og þá var armurinn laus.


Í boði var prýðileg humarsúpa sem hver gat fengið eins mikið af og hann vildi. Brauðsnúðarnir voru hins vegar komnir til ára sinna og svo seigir að þeir urðu vart tuggðir. Sjálfsagt gengur vel að selja þessar veitingar við lónið, þar sem eigandi söluskálans er einn um hituna og þarf því vart að hafa áhyggjur af að menn fari annað. Er þetta illt afspurnar.


Eftir að hafa gert þessum kræsingum skil og kvatt hina ungu snót, héldum við hjónin niður í fjöru að hljóðrita. Náðust þar tvö hljóðrit af hamförum sjávar og íss. Þaðan var haldið að Þórbergssetrinu á Hala. Hittum við Þorbjörgu Arnórsdóttur og spurði ég eftir hrútnum Þorkatli á Hala, en honum hefur víst verið safnað til feðra sinna. Hann hljóðritaði ég fyrir þremur árum ásamt fósturmóður hans, sem virtist fáar tilfinningar bera til þessa lambhrúts, sem neytt var upp á hana, gamalána sjálfa. Þorbjörg Arnórsdóttir reyndist vera stúlkan, sem átti gítarinn, sem getið var um hér að framan.


Forstjóramálið varð Guðbjarti að falli

Flestir töldu að bitamunur en ekki fjár væri á milli þeirra Guðbjarts Hannessonar og Árna Páls Árnasonar. Þegar ljóst varð að þeir yrðu báðir í framboði til formanns Samfylkingarinnar varð fljótlega ljóst að Guðbjartur ætti undir högg að sækja vegna þess ófremdarástands sem skapaðist á Landsspítalanum eftir að laun forstjórans voru hækkuð í haust. Þótt hækkunin væri afturkölluð hefur það ekki dugað og enn eiga menn eftir að bíta úr nálinni vegna þessara mistaka ráðherrans. Sumir Samfylkingarmenn hafa reyndar talið að Guðbjartur hefði átt að sjá sóma sinn í að segja af sér sem ráðherra - ástæðan væri alvarleg afglöp í starfi.


mbl.is Árni kosinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn Íslendingur tapaði

Úrslitin í Ísbjargarmálinu urðu afdráttarlausari en margur hugði. Nú reynir á þroska Alþingismanna að þeir brigsli ekki hver öðrum um það sem á undan fór. Mestu skiptir að þeir, sem höfðu varann á í þessu máli fengu sínu framgegnt og þar átti forseti vor drúgan hlut að. Það þýðir þó ekki, eins og einhver blaðamaður spurði, að ósigur ESA sé um leið ósigur ríkisstjórnarinnar. Hverjir hefðu tapað, hefði dómurinn fallið á annan veg?

Til hamingju, allir Íslendingar!


mbl.is Eigum ekki að leita sökudólga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yndislega eyjan mín 40 árum síðar

Tónleikarnir, Yndislega eyjan mín 40 árum síðar, sem haldnir voru í Eldborgarsal Hörpu í kvöld, voru vel heppnaðir. Flestir söngvararnir komu ánægjulega á óvart. Nefni ég einkum Sigríði Beinteinsdóttur, Margréti Eir, Magna Ásgeirsson og Þór Breiðfjörð. Enginn vissi hvað kynnirinn hét því að hann var hvorki kynntur í efnisskrá né kynnti hann sig sjálfur. Hann stóð sig þó með prýði.

Margar útsetningar Þorvalds Bjarna Þorvaldssonar voru ágætar og hljóðblöndunin yfirleitt góð. Þó fór styrkurinn nokkrum sinnum yfir þolmörk vinstra eyra á sjötugsaldri.

Það var áberandi hvað textar laganna voru vel ortir. Af yngri textunum skáru sig úr Kvöldsigling, tvö lög Stuðmanna og Þjóðhátíðarlagið 1997. Verstu textar kvöldsins voru Vestmannaeyjar, lag og ljóð eftir Jóhann G. Jóhannsson. Þar er nafnið Vestmannaeyjar haft í eintölu og þótti mér, þegar lagið kom út á hljómplötu 1977 með ólíkindum að Logar skyldu syngja þetta. >Þá hafði verið efnt til ljóðasamkeppni í tilefni tónleikanna og var ljóð valið, sem ort var árið 1977. Þar var ekki fylgt hefðbundnum reglum ríms og ljóðstafa. Auk þess voru ambögur í ljóðinu, sem hefði átt að lagfæra, einkum í ljósi þess að sú sem setti saman ljóðið, var 19 ára árið 1977 og hefur væntanlega farið fram síðan. Ljóðið sýndi í hnotskurn þær hrakfarir sem íslensk textagerð hefur orðið að sæta að undanförnu.

Í lok tónleikanna var sungið lag Brynjúlfs Sigfússonar við kvæði Sigurbjörns Sveinssonar, Yndislega eyjan mín. Lagið var upphaflega ætlað Samkór Vestmannaeyja, en um tíma voru í kórnum miklar sópranraddir. Í kvöld var lagið sungið í B-dúr. Betur hefði farið á að færa það niður í G-dúr. Þá hefðu fleiri getað tekið undir.

Aðstandendum tónleikanna er þökkuð góð skemmtun og flytjendum afbragðs flutningur.


Þögnin eftir Andrés Indriðason - vel heppnað leikrit



Útvarpsleikhúsið 20. jan 2013 | 13:00



Þögnin eftir Andrés Indriðason. Leikendur: Esther Talía
Casey og Ólafur Egill Egilsson. Leikstjóri: Erling Jóhannesson. Hljóðvinnsla:
Einar Sigurðsson.



Andrés Indriðason hefur verið iðinn við kolann í útvarpi undanfarna
5 áratugi. Leikrit hans eru orðin mörg, ærið misjöfn að gæðum eins og gengur.



Frumflutningur Þagnarinnar var vel heppnaður. Ekki var
auðheyrt hvernig leikurinn endaði. Þó var byggð upp ákveðin spenna sem leystist
loks úr læðingi, eins konar sprenging. Leikararnir skiluðu sínum hluta með
aðdáanlegum hætti - blekkingin, hefndarþorsti, auðmýking og heift skinu í gen
þar sem við átti.





Hljóðmynd og leikstjórn



Á þessum síðum hefur nokkrum sinnum verið fjallað um
hljóðmyndirnar í útvarpsleikritum. Yfirleitt eru þær allvel heppnaðar og svo
var að mestu um hljóðmyndina í Þögninni.



Í öðru atriði leiksins var brugðið upp mynd af persónunum
þar sem þær voru á leið yfir fjalllendi í bifreið. Vegurinn ósléttur og
glamraði í bílnum. Greinilegt var að glamrinu var bætt ofaná hljóðmyndina því
að í því var bergmál, sem átti ekki heima þar. Þá var ökumaðurinn til hægri í
myndinni.



Þegar ég hef rætt slík atriði við tæknimenn og áhugamenn um
útvarpshlustun hafa flestir haldið því fram að þeim finnist þeir sjá inn í bifreiðina
inn um framrúðuna. Mér finnst ævinlega að ég sitji í bílnum með sögupersónunum
og þá sé eðlilegt að bílstjórinn sé vinstra megin.



Í 3. Atriði leiksins urðu tæknimanni eða leikstjóra á
afdrifarík mistök. Þá heyrðist bíllinn koma í hlað og ekki var ljóst hvort um
sömu tegund hafi verið að ræða. Út steig bílstjórinn vinstra megin og farþeginn
hægra megin.



Að öðru leyti var hljóðmyndin fremur sannfærandi. Á
veröndinni var hljóðumhverfið næsta eðlilegt. Timburgólf og eins og húsveggur í
nánd.



Atriðin inni í sumarhúsinu voru vel heppnuð og skondið var
að hlusta á aðra sögupersónuna hrapa niður snarbrattan stiga.





Tímaskekkja



Í öðru atriði leiksins hafði bílstjórinn orð á að nú væri
veiðitíminn hafinn, enda var hann eins búinn og haldið skyldi til rjúpna. Því
skaut skökku við að heyra í hrossagauk, lómi og lóu þegar út úr bílnum var
komið.





Veðrið



Í leikritinu var þoka, niðdimm þoka. Ég hafði á
tilfinningunni að í þessari þykku þoku bærðist vart hár á höfði. En viti menn.
Stundum strauk gola blíðlega um hljóðnemann, einkum þann vinstri. Þá hefði
þokan ekki átt að vera svona dimm.





Niðurstaða



Leikritið er vel saminn og söguþráðurinn sannfærandi. Við
framsetningu efnis í útvarpi þurfa tæknimaður og leikstjóri að vera vel á verði
til þess að halda trúverðugleika hljóðmyndarinnar.



Höfundi verksins og Útvarpsleikhúsinu er óskað til hamingju
með afraksturinn.




Rafræn skilríki og vandamál vegna vefvafra

fyrir nokkru fór að bera á vanda við að nota rafræn skilríki á debet-korti til þess að ná sambandi við banka og aðrar stofnanir.
Nú hefur keyrt svo um þverbak að ég næ hvorki sambandi með firefo 18x né Internetexplorer 9. Hins vegar verkar Googlechrome.
Þá kemur upp sá vandi að googleChrome les ekki alla hnappa eða táknmyndir, sem notaðar eru í bönkum og stend ég því uppi ráðafár. Starfsmenn Íslandsbanka kannast við þetta vandamál og starfsmaður Auðkennis, sem hefur umboð fyrir hugbúnaðinn sem notaður er, sagði mér að erfitt væri sænskum framleiðendum að fylgja eftir þróun netvafranna. Fyrir vikið er mér tjáð, tjáð, þegar ég reyni að komast inn, að skilríkið sé útrunnið eða ógilt. sumar stofnanir segja mig ekki hafa leyfi til að skyggnast inn á vfsíður og þurfi að leita samninga við rétthafa þeirra. Þá eru á öðrum heimasíðum gefnar leiðbeiningar um aðgerðir sem hægt er að grípa til í Windows Explorer. Þrátt fyrir ítarlega leit hef ég ekki fundið nein gögn sem eiga við vandamálið.

Ég taldi rafræn skilríki af hinu góða og ætla að halda því áfram um sinn. En þessi vandræði geta vissulega valdið fólki miklum töfum og jafnvel fjárhagstjóni.

Í kvöld sótti ég greiningarforrit frá auðkenni og gangsetti það. Greiningarforritið greindi enga bilun og fullyrti að skilríkið væri gilt. Því á ég enga sök í þessu máli heldur verð ég að leita réttar mínns hjá Auðkenni.


Einelti Ríkissjónvarpsins í garð þroskahefts fólks

Undanfarin ár hefur lýsingarorðið "þroskaheftur" verið notað sem lítilsvirðandi skammaryrði í áramótaskaupi Sjónvarpsins. Í gær keyrði þó um þverbak, þegar þetta orð var notað hvað eftir annað til þess að niðurlægja viðmælendur.

Það hefur verið til siðs að skemmta sér á kostnað þeirra sem bera ýmis sérkenni. Má þar nefna útlit, mállýti og ýmiss konar fötlun. Einhverju sinni var á það bent að slíkt gaman gæti orðið til þess að festa ákveðnar staðalímyndir í sessi. Flestir, sem fyrir þessu verða, geta borið hönd fyrir höfuð sér, enda er yfirleitt um græskulaust gaman að ræða.

Aðstandendur þroskahefts fólks og starfsfólk, sem hefur unnið með því, hafa undanfarna áratugi hrakist frá einu orði til annars þar sem menn hafa viljað forðast lítilsvirðandi notkun. Áður fyrr var fólk vangefið, en það varð að skammaryrði. Síðan fann fagfólkið upp orðið "Þroskaheftur", en nú er það orðið niðurlægjandi lýsingarorð og því var til þess gripið að tala um fólk með þroskahömlun.

Ekkert af þessu hrífur og eiga þar fjölmiðlar nokkra sök. Ríkissjónvarpið hefur gengið á undan með slæmu fordæmi og klifar á þessu niðurlægjandi lýsingarorði, þroskaheftur, sem var ætlað að lýsa tiltekinni fötlun, en umsjónarmenn áramótaskaupsins eru ekki þroskaðri en svo að þeir kjósa að velja það tilteknum persónum skaupsins til háðungar.

Þroskaheft fólk hefur sýnt og sannað að það lætur ekki fötlun sína aftra sér frá því að njóta lífsins og mikið hefur áunnist við að rétta hlut þess. Því hlýtur útvarpsstjóri að taka sér tak og leiðrétta slíka lítilsvirðingu sem ár eftir ár glymur í eyrum sjónvarpsnotenda.

Þótt sumt hafi verið fyndið í skaupinu í gær er niðurstaða pistilshöfundar sú, að aðstandendur skaupsins eigi að skammast sín og biðja afsökunar á þeirri lítilsvirðingu sem skein út úr þankagangi þeirra.


Skemmtilegur þáttur um Vestmannaeyjar sem yljaði hjartarótunum



Að undanförnu hefur verið útvarpað þáttum um íslenska
dægurlagatónlist áranna 1930-1990, en þessa þætti gerði Svavar Gests í tilefni
sextugsafmælis Ríkisútvarpsins árið 1990.



Í kvöld, 29. Desember, var 13. Þættinum útvarpað og fjallaði
hann um Vestmannaeyjar. Oddgeir Kristjánsson og þjóðhátíðarlög hans voru
meginefni þáttarins auk textahöfundanna. Ýmislegt bar þó fleira á góma og mátti
m.a. heyra tvíbura ú Vestmannaeyjum í mútum.



Hægt er að hlusta á þáttinn hér:



http://www.ruv.is/sarpurinn/laugardagskvold-med-svavari-gests/29122012-0



Svavar var margfróður um dægurlagatónlist fyrri ára, en gáði
ekki ævinlega að heimildum. Þannig heldur hann því fram að einungis tvö lög
eftir Oddgeir Kristjánsson hafi verið gefin út á hljómplötum áður en Svavar gaf
út fjögurra laga plötu með lögum eftir Oddgeir árið 1964. Þetta er ekki alls
kostar rétt hjá Svavari. Árið 1962 eða 1963 söng Ragnar Bjarnason Ship ohoj inn
á hljómplötu og áður hafði lagið Gamla gatan verið gefið út ásamt laginu Heima.
Gömlu götuna söng Helena Eyjólfsdóttir og Haukur Morthens Heima. Lögin voru því
a.m.k. fjögur eftir Oddgeir, sem áður höfðu komið út. Þá hafa menn löngum velt
vöngum yfir tilefni þess að Ási í bæ orti ljóðið „Ég veit þú kemur". Í þessum
þætti var birtur viðtalsbútur Árna Johnsen við Ása þar sem hann greindi frá því
að textinn við lagið hefði staðið á sér og hefði orðið til daginn áður en
Hljómsveit Svavars Gests kom til Vestmannaeyja. Þetta stenst ekki hjá Ása.
Fyrir því eru eftirtalin rök:



Svavar Gests kom með hljómsveit sína á þjóðhátíð árin 1961,
63 og 65. Árið 1961 var þjóðhátíðarlagið „Sólbrúnir vangar, sem Ragnar
Bjarnason söng, 1962 Ég veit þú kemur, sem Lúdó og Stefán flutti í skelfilegri
útsetningu, sem Oddgeiri sárnaði mjög, 1963 lag sem nú heitir Þá var ég ungur,
en var þá flutt við bráðabirgðatexta Ása sem kallaður var Steini og Stína og
árið 1965 „Ég vildi geta sungið þér", sem var síðasta þjóðhátíðarlagið sem
Oddgeir samdi. „Þar sem fyrrum" var þjóðhátíðarlag ársins 1964 og flutti
hljómsveitin Logar það með prýði.




Óvenjuleg innbrotstilraun á jóladag

Rétt upp úr kl. hálf eitt á hádegi kvað við þungt högg á stofugluggannn hjá okkur. Vissum við ekki hvaðan á okkur stóð veðrið. Þá kom í ljós að á svalagólfinu stóð valur auðsjáanlega vankaður og horfðist í augu við Elínu. Hún hljóp að ná í myndavél, en á meðan forðaði hann sér.

Ekki vitum við hvað lokkaði hann hingað. Ef til vill hafa það verið smáfuglar eða hann hefur séð eitthvað innan við gluggann, sem vakti athygli hans. Ennþá er örlítill skötuilmur í íbúðinni eftir Þorláksmessuna. Skyldi skötulyktinn hafa lokkað hann að sér?

við


Afbragðs útvarpsleikrit

Ásdís Thoroddsen er snjöll. Hún hefur margsinnis sýnt það sem kvikmynda- og útvarpsleikstjóri. Mörgum er vafalítið í fersku minni leikrit hennar sem flutt var í útvarpi fyrir nokkrum vetrum og fjallaði um ævi Jóns lærða Guðmundssonar, einkum Spánverjavígin á Vestfjörðum árið 1612.

 

Sunnudaginn 2. desember og í dag flutti Útvarpsleikhúsið leikrit hennar, Ástand, sem fjallar um unga stúlku, Guðrúnu, sem varð hrifin af breskum hermanni í upphafi hernáms Breta hér á landi og afskipti yfirvalda af henni. Þessi átakanlega saga snertir strengi í hjörtum þeirra sem á hlýða. Hljóðvinnslan er afbragðs góð, en Einar Sigurðsson hélt þar um taumana væntanlega undir styrkri leikstjórn leikstjóra og höfundar leikverksins.

 

Auðheyrt er að Ásdís hefur nýtt sér reynslu sína af gerð kvikmynda í þessu verki. Skiptingar voru snöggar og sviptu hlustendum úr einni hljóðmynd í aðra. Samhengið var hins vegar svo mikið og vel tengt að alls ekki varð til skaða.

 

Hljóðmyndin var yfirleitt sannfærandi. Hljóðmyndin í upphafi var allvel sviðsett, þegar blaðasöludrengur heyrðist kalla. Þeir hefðu reyndar mátt vera fleiri. Þarna sannaðist að vísu hið fornkveðna, að tímarnir breytist og mennirnir með. Hljóðumhverfið var ekki nægilega sannfærandi. Þar er hvorki við leikstjorann né hljóðritara að sakast heldur hitt, að hverju tímabili fylgir ákveðinn hljóðheimur sem erfitt er að endurskapa. Sem dæmi má nefna að of oft virtust bifreiðar þjóta hjá á malbiki, en þó er eins og leikstjórinn hafi stundum munað eftir þessu og bætt þar úr. Einnig voru bifreiðatengundir meira sannfærandi í seinni þættinum en þeim fyrri.

 

Ástand er á meðal hins besta sem gert hefur verið í íslensku útvarpsleikhúsi á þessari öld. Aðstendum þess er óskað til hamingju með árangurinn og lesendur þessarar færslu eindregið hvattir til að fara inn á vef Ríkisútvarpsins að leita verkið uppi.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband