Hefnd valdhafanna

Áheyrnaraðild Palestínumanna að Sameinuðu þjóðunum hefur verið samþykkt þrátt fyrir harða andstöðu Ísraelsmanna og verndara þeirra, Bandaríkjamanna.

 

Hefnd kúgaranna lét ekki á sér standa. Forsætisráðherra Ísraels burstaði rykið af gömlum tillögum um nýja byggð á Vesturbakkanum, sem verður til þess að byggðir Palestínumanna verði klofnar í tvennt. Bandaríkjamenn mótmæla en forðast að gera nokkuð til þess að afstýra verðandi framkvæmdum.

 

Það er hættulegt að eiga sér volduga andstæðinga. Það þekkist hér á landi sem annars staðar. Þann 19. desember árið 2000 kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm þar sem tengingar örorkubóta við tekjur maka voru dæmdar óheimilar. Þáverandi forsætisráðherra Íslands stóð þá fyrir lagasetningu sem skerti áhrif þessa dóms - hefndaraðgerð í garð öryrjka og andstæðinga þeirra.

 

Baráttan er hörð þegar sumir fara sínu vald í skjóli voldugra valdhafa.

 

 


Rafbækur opna nýjar víddir

 

Þegar Bókatíðendum er flett kemur í ljós að útgáfa rafbóka hefur aukist og koma nú mun fleiri rafbækur út en í fyrra. Allmargar þeirra eru endurútgefnar bækur og er það vel.

Ýmsar leiðir er hægt að fara til þess að lesa rafbækur. Margir velja sér rafbókalesara, en aðrir nota tölvurnar. Hlynur Már Hreinsson vakti athygli á viðbót við Firefox-vefskoðarann, sem nefnist Epubreader. Forritið er sáraeinfalt og dugar til að lesa flestar rafbækur. Það er þó vart sambærilegt við forrit eins og Digital Editions frá Adobe eða EasyReader frá Dolphin Computer Access, sem er sérhannað handa blindum eða sjónskertum lesendum. En Epub-lesarinn á Mozilla er þjáll í notkun og full ástæða til að benda fólki á hann.

 

Frágangur rafbóka

 

Að undanförnu hef ég keypt rafbækur frá Skinnu og Emmu og hafa þær allar verið aðgengilegar þeim tækjum og tólum sem ég nota. Ég hef þó orðið var við að frágangur rafbókanna er mjög misjafn. Nokkrar skáldsögur hef ég keypt eða halað niður þeim sem eru ókeypis. flestar eru vel frá gengnar, auðvelt að blaða í þeim, fletta á milli kafla, greinaskila o.s.frv.

 

Enn er lítið til af hand- og fræðibókum sem gefnar hafa verið út sem rafbækur á íslensku. Lýðræðissetrið virðist einna athafnasamast á þessum vettvangi, en það hefur gefið út 5 rit: Lýðræði með raðvali og sjóðvali á fjölda tungumála, Bókmenntasögur, Hjáríki, Þróun þjóðfélagsins og Sjálfstæði Íslands. Þessar bækur eru allar eftir Björn S. Stefánsson, sem stendur fyrir Lýðræðissetrinu. Það er þeim sammerkt að þær eru vel upp settar og firna vel frá þeim gengið. Frágangur hefur verið í höndum fyrirtækisins Tvístirnis.

 

Eina rafbók, ævisögu þekkts stjórnmála- og fræðimanns keypti ég um daginn. Hún er skemmtileg aflestrar. Nokkuð vantar þó á að hún sé skipulega uppbyggð sem rafbók og virðist ókleift að nota hefðbundnar rafbókaaðferðir til þess að fletta bókinni.

Vafalaust er hér um barnasjúkdóma rafbókanna að ræða. En fyrirtæki eins og http://www.skinna.is/ þarf að leggjametnað sinn í að bækur, sem teknar eru til sölu, standist kröfur sem gerðar eru um gæði og uppbyggingu rafbóka.

 

Nýr heimur

 

Þegar blaðað er í Bókatíðindum verður ljóst að úrval rafbóka er orðið svo mikið hér á landi að það opnar ýmsum, sem geta ekki nýtt sér prentað letur, nýjan heim. Vænta má þess að fræðimenn sjái sér aukinn hag í að gefa út rit sín með þessum hætti. Má nefna sem dæmi eina af fáum fræðibókum, sem komið hafa út að undanförnu, en það er bókin Dr. Valtýr Guðmundsson, ævisaga. Þótt umbroti bókarinnar sem rafbókar sé nokkuð ábótavant er þó mikill fengur að henni. Á höfundurinn, Jón Þ. Þór, sagnfræðingur, heiður skilinn fyrir framtakið.

 


Fullveldið plokkað af þjóðríkjum

 

Margir fylgjast með vaxandi ugg með því hvernig reynt er að soga Ísland inn í Evrópusambandið. Morgunblaðið hefur verið jafneinarður andstæðingur EES-aðildar og það er tryggt útgerðarmönnum. Í dag birtist leiðari í blaðinu þar sem rakin er sjálfvirk afgreiðsla Alþingis á hverju því sem berst frá Evrópusambandinu. Annar ritstjóri blaðsins er gagnkunnugur þessu færibandi og veit því hvað hann syngur.

Rétt þykir að birta þennan leiðara á þessum síðum.

 

 

Lýðræðishalli leynist víða

Föstudagur, 2. nóvember 2012

Breska kosningakerfið tryggir að oftast fer einn flokkur með stjórn landins á hverju kjörtímabili. Þannig sópaði Tony Blair til sín þingsætum og var með mikinn meirihluta í neðri málstofu þingsins eftir kosningar í maí 1997. Blair hafði vissulega unnið mjög góðan sigur og jók fylgið úr um 35 prósentum í rúm 43 prósent. Hann var sem sé fjarri því að hafa náð hreinum meirihluta atkvæða. En kosningakerfið færði honum hins vegar 418 þingmenn af 659 eða um 63 prósent þingsætanna fyrir 43 prósent atkvæðanna.

Þrátt fyrir óvinsældir Gordons Browns tókst Íhaldsflokknum ekki að tryggja sér hreinan meirihluta þingsæta í síðustu kosningum og myndaði flokksleiðtoginn því samsteypustjórn með Frjálslynda flokknum. Það samkrull virðist ekki vera blessunarríkt fyrir flokkana og frjálslyndir virðast mjög særðir. Í stjórnarmyndunarviðræðum fengu þeir þó samþykkt loforð um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Bretar vildu falla frá núverandi kerfi þar sem meirihluti í hverju kjördæmi fær sinn mann og önnur atkvæði „falla dauð" og taka í staðinn upp kerfi hlutfallskosninga. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni hafði hver maður eitt jafngilt atkvæði.

Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn sneru bökum saman um að verja núverandi skipan og höfðu auðveldan sigur. Þjóðin vildi áframhaldandi „óréttlæti" með hreinni kostum á hverju kjörtímabili, fremur en að ýta undir samsteypustjórnir og þar með á stundum óeðlileg ítök smáflokka í landstjórninni, eins og Íslendingar þekkja vel til.

Auðvelt er að halda því fram að þetta kerfi skapi viðvarandi „lýðræðishalla" en um leið er auðveldara að réttlæta hann eftir að hann hefur verið sérstaklega staðfestur með lýðræðislegum hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu.

En lýðræðishallinn er víðar. Fullyrða má að lagafrumvörp, sem lögð eru fyrir íslenska þingið með þeirri forskrift úr ráðuneyti að um „ees-mál" sé að ræða, fái ekki raunverulega lagasetningarmeðferð, nema að formi til. Slík mál eru fyrst lögð fyrir ríkisstjórn og fara þar í gegn umræðulítið og oftast umræðulaust. Og það er ekki aðeins að núverandi forsætisráðherra lesi þau ekki fremur en önnur frumvörp, það gerir enginn ráðherra annar. Raunar er gjarnan sagt að slík lög virðist enginn hafa lesið nema þýðandinn.

Hvernig stendur á þessu? Það er örugglega einkum vegna þess að allir þeir sem koma að málinu vita að þeir geta ekki haft nein áhrif á þessa lagasetningu. En það alvarlega er að hvergi fer fram raunveruleg könnun á því hvort lagasetningin er hverju sinni óhjákvæmileg nauðsyn vegna EES-samningsins. Og nú þegar „samningaviðræður" standa yfir um aðild að ESB hefur ástandið versnað um allan helming.

Allir vita að engar raunverulegar samningaviðræður fara fram. Óheiðarlegir stjórnmálamenn og óheiðarlegir eða meðvirkir embættismenn og svokallaðir „samningamenn" Íslands lúta hverri kröfu embættismanna ESB um aðlögun og hún er send í gegnum þingið á færibandi þess undir þeirri forskrift að „aðeins sé um ees-mál" að ræða. Meira að segja þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa ekki skorist úr þessum ljóta leik. Engin lýðræðisleg skoðun á sér stað. Enginn veltir fyrir sér hvort breytingarnar séu hollar íslenskum hagsmunum.

Sjálfsagt hefur meirihluti núverandi þingmanna enga burði til að leggja sjálfstætt mat á framangreinda hluti. En að auki er við ofurefli að etja og til lítils að lyfta litla fingri.

En svo aftur sé horft til Bretlands þá varð þar töluverður þinglegur atburður í vikunni. Samsteypustjórnin varð undir í máli sem varðaði fjárframlög til Evrópusambandsins. Forsætisráðherrann hefur þóst góður að orða það viðhorf að hann vilji vera á móti því að útgjöld sambandsins hækki á næstunni meir en sem nemur hækkun verðbólgunnar á svæðinu. En útgjöld ESB hafa þanist út á margföldum hraða hennar síðustu árin. En mörgum þingmönnum, þar á meðal „óþægum" þingmönnum Íhaldsflokksins, þótti betur fara á því að útgjöld ESB hækkuðu minna en verðlag á þeim tíma sem sambandið er sérstaklega herskátt að herja á útgjöld í aðildarlöndunum.

Verkamannaflokkurinn, sem hefur verið mjög hallur undir ESB, en ekki þó beinlínis í bandi þess eins og Frjálslyndi flokkurinn, sá sér leik á borði. Hann studdi þá óþægu og ríkisstjórnin varð undir í atkvæðagreiðslu í fyrsta sinn á kjörtímabilinu. Það þótti niðurlæging fyrir forsætisráðherrann. En þá er bent á að forsætisráðherrann sé alls ekki bundinn af niðurstöðu þingsins í þessu máli! Hann geti gegn vilja breska þingsins samþykkt á leiðtogafundi að auka útgjöld ESB, sem sendir stóran hluta þess reiknings til breskra skattborgara. Það er eitt dæmi af mörgum um hvernig ESB-aðild hefur smám saman plokkað fullveldi af þjóðum, án þess að þær hafi gert sér grein fyrir hvernig komið væri.


Hágæða útvarpsefni á Rás eitt

Sunnudaginn 21. þessa mánaðar var fluttur í Útvarpsleikhúsinu fyrsti þátturinn af þremur, sem bera heitið Heimkoma. Þar kannar Jón Hallur Stefánsson eyðibýli ásamt Danskri útvarpskonu, sænskri konu og Argentínumanni. Þau leika sér að hljóðumhverfi eyðibýlanna og flétta sama við eigin vangaveltum og skynjun auk sagna, sem þau verða áskynja um og snerta sögu eyðibýlanna.

Þeir, sem hafa unun af vel gerðum útvarpsþáttum, ættu ekki að láta þá framhjá sér fara og tilvalið er að leita í sarpi Ríkisútvarpsins að fyrsta þættinum. Jón Hallur stóð um síðustu aldamót að athyglisverðum þáttum í ríkisútvarpinu sem gengu undir nafninu Vinkill. Þar leitaði hann ásamt samverkafólki sínu nýrra leiða og margt frumlegt höfðust menn þar að. Greinlegt er að Jóni Halli hefur ekkert farið aftur.

Þá var hlutur dönsku útvarpskonunnar skemmtilegur. Greinilegt er að hún hefur kynnt sér fléttuþáttatækni danska útvarpsins, sem er fyrir margra hluta sakir mjög sérstök og hefur orðið mörgum að fyrirmynd.

Ástæða er til að fagna þessu vandaða efni og mættu menn fá meira af heyra f slíku efni.


Aldahvörf í málefnum blindra Íslendinga

Atkvæðagreiðslan um spurningar vegna breytinga á stjórnarskránni markar tímamót í sögu blindra Íslendinga. Í fyrsta skipti er blindu fólki, sem les blindraletur, gefinn kostur á að fá öll kjörgögn í hendur: kjörseðilinn prentaðan á blindraletri auk spjalds, sem lagt er yfir hinn eiginlega kjörseðil. Spjaldið er svo greinilega merkt að menn velkjast ekki í vafa um hvar setja eigi krossinn.

 

Ég fékk engar sérstakar leiðbeiningar ætlaðar blindu fólki sendar heim. En síðan thjodaratkvaedi.is reyndist með aðgengilegum upplýsingum.

 

Mér varð hugsað til þeirrar baráttu sem við tvíburabræður háðum á árunum 1974-78 til þess að tryggja lýðréttindi blindra einkum við utankjörstaðakosningar. Þegar sá sigur vannst þótti flestum það mikil bót og hið sama varð upp á teningnum, þegar farið var að leggja sérstök spjöld yfir kjörseðla sem gerðu blindu fólki kleift að kjósa í einrúmi.

 

Í morgun var mér tjáð að sækja þyrfti formann kjörstjórnar til þess að úrskurða um heimild mér til handa til þess að fá aðstoð á kjörstað. Ég benti á að þess þyrfti ekki, öll gögn væru fyrir hendi og varð svo að enginn var úrskurðaður aðstoðarmaður minn.

 

til hamingju, allir þeir sem blindir eru og aðrir þeir, sem þurfa á blindraletri að halda.

 


Þjóðremba byggð á minnimáttarkennd

Tortryggni og allt að því fjandskapur einkenndu athugasemdir flestra þeirra, sem báru fram spurningar eftir fyrirlestur Halldórs Jóhannssonar. Var öllu ruglað saman. sumir fyrirspyrjenda virtust ekki átta sig á að það land, sem Huang Nubo hafði hug á að kaupa á Grímsstöðum, stóð til boða og ekkert annað. Þess vegna var kauptilboðið gert.

Þegar allt var komið í óefni og kaupheimildinni hafði verið hafnað, var hafist hand að nýju og þá datt forystumönnum sveitarfélaga á Norðausturlandi og Austfjörðum í hug að kaupa þann hluta jarðarinnar á Grímsstöðum, sem stóðu til boða. skyldi síðan Huang Nubo leigðir um 300 hektarar undir mannvirki, en hitt gert að fólkvangi.

Þá hófust handa menn sem spurðu í forundran, hvernig ætti að koma öllu þessu fyrir á 300 hekturum. virtust þeir hinir sömu ekki gera sér grein fyrir að sumir kaupstaðir landsins ráða ekki yfir stærra landi og má þar nefna Seltjarnarnes sem dæmi.

Þá var leitað loganda ljósi að einhverjum fjársvikamyllum, sem Huang Nubo og fyrirtæki hans væru flækt í. fréttaritari ríkisútvarpsins fór m.a. með dylgjur í Speglinum um Kínversk-íslenska ljóðasjóðinn sem hann sagði að aldrei hefði skilað sér. Að vísu var hægt að leiðrétta þennan misskilning, en engin afsökun birtist í Speglinum heldur á heimasíðu fréttaritarans.

Þegar þetta mál var rætt við forystumenn kínverskra samtaka og stofnana í fyrra og einhverjar sögusagnir viðraðar um meint mistök kínverskra verktaka í Afríku og víðar, var ævinlega sama svarið: "Þið hljótið að ráða því hvað út úr slíkum samningum kemur. Íslendingar hafa svo sterka innviði.

Þótt lítið hafi verið um óskir Íslendinga í garð Kínverja um fjárfestingar hér á landi ffyrst eftir stofnun íslenska sendiráðsins í Beijing, voru nokkrir kínverskir fjárfestar áhugasamir um að fjárfesta hér á landi. En þeir féllu frá áformum sínum vegna ýmissa atriða. Hitt vita margir að ýmsir Íslendingar hafa eftir hrunið leitað eftir þátttöku kínverskra fjárfesta í ýmsum verkefnum, sem þeir hafa á prjónunum og telja jafnvel að það sé forsenda þess að þeir komi hugmyndum sínum í framkvæmd.

Á fundinum í dag var bent á nokkur atriði, sem hugsanlega þyrfti að laga í samningum þeim, sem nú eru í burðarliðnum við Huang Nubo og fyrirtæki hans. Lára Hanna einarsdóttir sagði að þeir væru "eins og gatasigti". Gott og vel. Fari nú lögfræðingar yfir drögin og lagfæri það sem er ábótavant.

Íslendingar verða að hætta að fjandskapast við þá, sem hafa hug á fjárfestingum hér á landi. Án þeirra verður minni von um efnahagslegar framfarir en ella. Þetta snýst ekki um eignarhald heldur sanngjarna nýtingu náttúruauðæfa öllum til hagsældar.

Fyrir skömmu hitti ég fyrrverandi ráðherra og barst þetta mál í tal. Þessi íslenski ráðherra greindi mér frá samræðum við Þjóðverja, sem var að semja um ýmislegt tengt orkumálum í Kína. Var samingamaðurinn með á takteinum upplýsingar um orkuverð í helstu orkusölulöndum heims. Neðstir á blaði voru Íslendingar! "Og við fengum aldrei að vita þetta í ríkisstjórninni", sagði fyrrum ráðherrann.


Harmsaga - nýtt útvarpsleikrit

Dagskrá Rásar eitt var fjölbreytt í dag. Hér verður fjallað um tvennt:

Það er jafnan með nokkurri tilhlökkun að ég sest niður og hlusta á ný útvarpsleikrit. Í dag var Harmsaga eftir Mikael Torfason frumflutt. Leiknum stýrði Sveinbjörn Birgisson, Hallvarður Ásgeirsson samdi tónlist og Ragnar gunnarsson hljóðritaði.

Söguþráðurinn var togstreita milli hjóna, sem vissu vart hvað hitt vildi og voru tvístígandi um þá ákvörðun að slíta hjónabandinu. Í leikritinu komu við sögu börn, en þau voru túlkuð með leikhljóðum með sama hætti og ýmiss konar búnaður er nýttur á leiksviði til þess að túlka margs konar fyrirbæri mannlífsins.

Flest var vel gert í þessu leikriti. Stundum var hljóðmyndin svo þröng, þegar samband hjónanna var náið, að víðómið nýttist ekki. Þarna hefði þurft að skapa umhverfi með einhvers konar þruski svo að menn fengju á tilfinninguna að fólkið væri statt í íbúð.

Í leikritinu koma fyrir samfarir og voru þær leiknar á sannfærandi hátt. Maðurinn svalaði sér á skömmum tíma og konan virtist einnig fá fullnægingu. Þó kann að vera að hún hafi látið sem svo væri. Leikmyndin (hljóðmyndin) var ekki sannfærandi. Ekkert rúmfatahljóð heyrðist og afstaða hjónanna skilaði sér illa.

Það er með ólíkindum hvað íslenskum rithöfundum þykir skemmtilegt að skrifa sóðalegan, enskuskotinn og illa saminn texta, en því miður bar mjög á því í leiknum. Ef til vill er það svo að gömul og gild blótsyrði séu að fara forgörðum í málinu og flest eða allt meiki sens eða sé andskotans fokking ..... Hitt er þó verra að ekki sé lengur hægt að skrifa á kjarnyrtu máli án þess að allt vaði í sóðaskap. Fyrir það fær Mikael Torfason falleinkun og leikritið í heild aðeins þrjár stjörnur.

Kl. 16:05 var þáttur Arndísar Bjarkar Ásgeirsdóttur, Úr tónlistarlífinu, á dagskrá. Birt var hljóðrit af tónleikum Víkings Heiðars Ólafssonar til minningar um kanadíska slaghörpuleikarann Glenn Gould. Efnisskráin var einstaklega vel saman sett og viðtöl við Glenn Gould, sem skotið var inn á milli ásamt hljóðritum af leik hans, gerðu dagskrána stórmerka. Auk þess er jafnan unun að hlusta á kynningar Arndísar, en þær eru fluttar á fága-an hátt og fögru máli.

Víkingur Heiðar túlkar það sem hann leikur einatt með afar sérstæðum hætti. Þannig endaði fyrsta verkið á stuttum samhljómi og var eins og hann hefði rokið frá hljóðfærinu. Auðvitað var ekki svo. Víkingur veldur ekki vonbrigðum.


Elsa á Bítlatónleikum

Um þessar mundir er þess minnst að þekkt Bítlalag kom út í Bretlandi. Á Rás tvö í morgun voru taldir upp nokkrir einstaklingar sem vitað var að sótt hefðu Bítlatónleika.
Elsa Guðmundsdóttir, kennari,  er ein þeirra sem nutu þess að fara á tónleika Bítlanna árið 1964. Hún sagði mér sögu sína fyrir nokkrum árum:
http://hljod.blog.is/blog/hljod/entry/1100086/

 


Hákarlaljóð - nýtt ljóðskáld kveður sér hljóðs

Staksteinar Morgunblaðsins eru stundum skemmtilegir. Í dag birtist þar þetta nútímaljóð. Höfundurinn er ókunnur. Ljóðið er birt á þessum síðum í heimildarleysi.

Hákarlaljóð


Menn muna eftir forsætisráðherranum sem sagði að
á Íslandi brysti á efnahagslegt öngþveiti ef þjóðin
segði ekki já við Icesave.
Hún sagði nei og aftur nei.
Menn muna eftir vitringnum sem stóð fyrir birtingu
hræðsluáróðurs sem sýndi ógnvænlegan hákarl
sem éta myndi hina heimsku þjóð ef hún segði ekki
já við Icesave.
Hún sagði nei og aftur nei.
O g menn muna eftir öllum fyrrverandi ráðherrunum
úr öllum flokkum sem látnir voru fylgja
hákarlaauglýsingunni eftir með þunglyndislegum
áhyggjum og dómsdagsspám ef þjóðin segði ekki já
við Icesave.
Hún sagði nei og aftur nei.
Fullyrt er að hákarlahópurinn hafi komið saman á
dögunum og enn þóst eiga meira erindi við þjóðina
en aðrir.
Augljóst virðist að áróðursherferð sem staðið hefur
í rúman áratug um að nei skuli þýða nei mun seint
og illa ná eyrum hóps, sem hlustar ekki á neitt sem
sagt er utan hans.


Gengur Mogginn af göflunum?

 

Nú fara margir hamförum vegna þess að ófullgerðri skýrslu Ríkisendurskoðunar var komið til fjölmiðla. Málið er þannig vaxið að eðlilegt er að gerðar séu athugasemdir við vinnubrögð stofnunarinnar.

formaður fjárveitinganefndar Alþingis átti vart annarra kosta völ en taka undir gagnrýni þá, sem fram kom í kastljósi í síðustu viku, en sú gagnrýni virtist undirrituðum vel ígrunduð en ekki ruglingsleg, eins og leiðarahöfundur Morgunblaðsins taldi, nema undirritaður sé sjálfur ruglaður.

 

Umræðan um skýrsluna og viðbrögð hafa verið hápólitísk og úr öllu samhengi við mannlega skynsemi. Hún sýnir glögglega í hvert óefni er komið hér á landi. Menn grafa sig í skotgrafir: stjórnarliðar á aðra hönd og stjórnarandstæðingar á hina með Sjálfstæðisflokkinn í fararbroddi. Morgunblaðið hamast sem aldrei fyrr vegna þessa máls og telur leiðarahöfundur í dag, að eitthvað annað kunni að búa undir en áhyggjur af vanhæfni Ríkisendurskoðunar til þess að hafa eftirlit með athöfnum þeirra, sem selja ríkinu þjónustu sína. Grípur hann m.a. til uppnefna eins og „handlangara", sem er notað sem lítilsvirðandi orð um einn af stjórnarþingmönnum. Slíkur götustrákastíll hefur vart tíðkast fyrr í leiðurum Morgunblaðsins, en er að verða eitt helsta einkenni annars ritstjórans.

 

Leiðarahöfundi Morgunblaðsins, sem hrósar sér af því að hafa átt þátt í að Íslendingar greiddu ekki skuldir óreiðumanna, þykir víst að einhverjar duldar kenndir búi undir hjá stjórnarliðum í hinni ógagnsæju stjórnsýslu Jóhönnu Sigurðardóttur, sem honum þykir ónýtur stjórnmálamaður. Hann gleymir því, að sjálfur var hann sakaður um að brugga óvönduð meðul, þegar klekkja þurfti á meintum andstæðingum hans í lok síðustu aldar. Hvernig var til að mynda háttað aðför eins af aðildarfélögum Öryrkjabandalagsins að þáverandi varaformanni þess, sem hermt er að þáverandi forsætisráðherra hafi staðið fyrir? Og hvaða kenndir lágu að baki þeirri ákvörðun þáverandi stjórnarliða að setja hefndarlög til þess að klekkja á Öryrkjum í kjölfar öryrkjadómsins í ársbyrjun 2001? Voru þær hefndaraðgerðir gagnsæjar?

 

Auðvitað eiga menn ekki að lifa stöðugt í fortíðinni og það hyggst undirritaður ekki gera. En hitt dylst honum ekki að enn virðast sömu úrræðin uppi á borðinu hjá Sjálfstæðisflokknum: lægri skattar og meiri álögur á þá sem minnst hafa handa á milli. Þess vegna er rétt að lifa í nútíðinni og horfa til framtíðar um leið og hugað er að hinu liðna, einkum þegar hugsað er til þess að meintur leiðarahöfundur virðist ekki skynja hverjir áttu upptökin af þeim ósköpum, sem nú dynja yfir Ríkisendurskoðun. Eða hverjir voru við stjórnartaumana í upphafi aldarinnar?.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband