Unaðsstund með Kiri Te Kanawa

Í kvöld hélt Kiri Te Kanawa, hinn heimsþekkta óperusöngkona, tónleika i Eldborgarsal Hörpu. Svo til hvert sæti var skipað og andrúmsloftið rafmagnað.

Það var hrein unun að hlýða söng hennar. Þessi 66 ára gamla söngkona heldur ótrúlega vel fegurð raddarinnar, einkum á efri hluta tónsviðsins. Hún hreif áheyrendur með sér í einstakri túlkun sinni á óperuaríum og einsöngslögum. Að lokum tók hún fjögur aukalög og var hið síðasta þeirra úr myndinni "Sveitin mili sanda", hin vinsæla vókalísa Magnúsar Blöndals Jóhannssonar.

Við hjónin sátum á svölunum ofan við sviðið. Söngkonan vék sér einu sinni að okkur áheyrendunum þar og söng sérstaklega fyrir okkur.

Samhæfing söngkonunnar og píanóleikarans var einstök og val tónlistarinnar hæfði þeim vel. Í því efni er vísað á vefsíðu tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu.

Hugurinn fyllist þakklæti og aðdáun yfir hinu einstæða þreki sem þessi mikilhæfa söngkona býr yfir. Megi hún veita tónleikagestum yndi sem lengst.


Íslenskir bókstafir bannaðir í skipanöfnum!

Ólyginn sagði tíðindamanni þessarar síðu nú í kvöld, að eiganda Aðalbjarganna, sem gerðar eru út frá Reykjavík, hafi fyrir skömmu borist bréf frá Siglingastofnun þar sem þess var óskað að nöfnum skipanna yrrði breytt, enda séu hvorki Ð né Ö alþjóðlegir stafir. Það fylgdi sögunni að eigandinn hafi brugðist ókvæða við og spurt hvort hið sama ætti við um rússnesk skip. Fátt varð um svör, eftir því sem sagt var.


Egils saga Skalla-Gríms sonar í Ríkisútvarpinu

Um þessar mundir er flutt á vegum Útvarpsleikhússins norsk leikgerð Egils sögu í þýðingu Ingunnar Ásdísardóttur. Vísur Egils og brot úr kvæðum hefur Þórarinn Eldjárn endurort.

Tæknivinnsla er öll hin besta og hljóðmyndin yfirleitt til fyrirmyndar. Leikurinn er góður. Þó hefði mátt nota yngri leikara í fyrsta þættinum, en þá var fjallað um æsku Egils. En allt sleppur þetta þó fyrir horn.

Eins og við mátti búast er þýðing Ingunnar vel gerð. Þó sakna ég þess að ekki skuli notuð orðatiltæki úr sjómannamáli, sem voru lifandi í málinu til skamms tíma. Hér áður fyrr undu menn upp segl, en hífðu þau ekki upp og felldu seglið.

Vísur Þórarins Eldjárns bera af. Hann hefur endurort þær flestar undir dróttkvæðum hætti og tekst listavel að koma efni þeirra til skila. Sýnir Þórarinn hvað dróttkvæður háttur getur í raun verið lipur bragarháttur, ef vel er með farið. Vísurnar eru sumar reyndar svo vel gerðar, að sá grunur læðist að mér, að vísurnar hljóti jafnvel að hafa verið umortar eftir því er tímar liðu fram og lengra varð frá því að Egill var á dögum. Reyndar voru vísur Egils torráðnar fyrri tíðar mönnum, eða orti annálaritarinn Björn á Skarðsá ekki þannig á 17. öld?

Mín er ekki menntin slyng

mætri að skemmta dróttu.

Eg var að ráða ár um kring

það Egill kvað á nóttu.

Þarna vitnar Björn til Höfuðlausnar. Gaman verður að heyra Höfuðlausn Þórarins á sunnudaginn kemur.

Þórarni eru fluttar einlægar hamingjuóskir og þakklæti fyrir þessa mætu skemmtan.


Enn um Jónas Kaufmann í sjónvarpðinu

Hafa skal það er sannara reynist. Bjarni Rúnar Bjarnason, tónmeistari Ríkisútvarpsins, hefur bent mér á í tölvupósti, að hljóðútsendingin á tónleikum Jónasar Kaufmanns og Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem send var út á nýársdagskvöld, hafi verið í góðu lagi og hafi hann sjálfur unnið að gerð hljómsins. Segir hann í skeyti sínu að einungis sé hægt að reiða sig á gamaldags sjónvarpsloftnet, vilji menn tryggja hljóðgæðin.

Það er því ekki við Ríkisútvarpið að sakast heldur Símann. Með öðrum orðum selur Síminn okkur svikna vöru, þegar um sjónvarpsútsendingu er að ræða.


Jonas Kaufmann án víðóms í sjónvarpi

Þegar vel tekst til getur sjónvarp sameinað hið besta, sem myndmiðill hefur fram að færa og hið svokallaða hljóðvarp. Það var því með nokkurri eftirvæntngu sem við hjónin og gestir okkar settumst til að hlýða á Jonas Kaufmann, sem kom fram í Hörpu á listahátíð í vor. Ég hafði að vísu heyrt hljóðrit Ríkisútvarpsins, en gat vel hugsað mér að njóta listar Kaufmanns enn á ný.

Hvílík vonbrigði. Útsendingin var án víðóms, einóma útsending (mono) eins og gerðist í útvarpi landsmanna allt fram á árið 1980.

Fyrir um tveimur áratugum var því lýst yfir að nú tæki Ríkissjónvarpið að varpa hljóðinu í víðómi (stereo). Eitthvað virtist bera á þessu fyrst í stað, en síðan heyrði það til undantekninga. Nú býður sjónvarpið landsmönnum útsendingar í mónó. Hljómdreifinguna vantar og ánægjan verður einungis hálf. Hvernig stendur á þessu? Er enginn hljóðmetnaður ríkjandi innan Ríkissjónvarpsins?

Útsendingin í kvöld er í raun þess eðlis að hún bætir gráu ofan á svart, ef miðað er við áramótaannál sjónverpsins sem fluttur var í gærkvöld. Eins ágæt samantekt og hann var, þótti ýmsum torkennilegt að flest innskotin voru með einhvers konar dósahljóði. Forvitnilegt væri að fá svör við þeirri spurningu, hvað hafi valdið. Það var hreinlega eins og hljóðnema hefði verið stillt fyrir framan fremur lélegan hátalara og hljóðið fengið þannig við myndirnar.


Batnandi tíð og bættur hagur

Í gær barst sú gleðifrétt um heimsbyggðina að kjararáð hefði ákveðið að hætta við lækkun launa þeirra opinberu starfsmanna, sem heyra undir ráðið og væri ákvörðunin afturvirk. Fengju skjólstæðingar ráðsins hækkur frá 1. október og verður það að teljast nokkur jólaglaðningur í meintu hallæri.

Allir glöddust innilega vegna þessarar ákvörðunar kjararáðs, einkum aldraðir og öryrkjar. Þegar allt hrundi haustið 2008 var ákveðið að hverfa frá þeim kjarabótum sem aldraðir Íslendingar og öryrkjar höfðu fengið, skömmu eftir að ríkisstjórn Geirs H. Haarde tók við völdum sumarið 2007 og hefur ekki verið horfið frá þessum ráðstöfunum. Úr því að hægt verður að hætta við lækkanir hjá opinberum embættismönnum hlýtr senn að líða að því að aldraðir Íslendingar og öryrkjar fái leiðréttingu mála sinna hjá velferðarstjórninni, sem nú er við völd. Geta þeir, sem eru skjólstæðingar ríkisstjórnarinnar, því farið að hlakka til bættra kjara á nýju ári.

Samtök atvinnurekenda hafa þegar fagnað þessum tíðindum og Bandalag háskólamanna hefr lýst því að fleiri eigi að njóta slíkrar góðsemi. Hvorki hefur heyrst hósti né stuna frá samtökum fatlaðra og aldraðra.

Nú hefur iðulega tíðkast að kjaradómur og kjararáð birti úrskurði sína um bætt kjör æðstu embættismanna og annarra, sem hlíta úrskurðum þeirra, á heppilegum tímum, einkum eftir að veist hefur verið að öldruðu fólki og öryrkjum með ráðstöfunum ríkisvaldsins. Undirritaður hefur því iðulega bent á að óskandi væri að kjör öryrkja lytu úrskurði kjaradóms eða kjararáðs. Er sú tillaga því enn og aftur rifjuð upp.


María Sveinka?

Íslenskan breytist nú ört. Ein ástæðan er sú að erlend áhrif hrannast upp, enskan glymur í eyrum, fólk les minna en áður og svo mætti lengi telja. Nú er svo komið að jólasveinar og annað fjallahyski hefur smitast af þeirri óværu sem hrjáir íslenska tungu. Jólasveinar segja ókei og eru að sögn Vestfirðinga á dæjett, hvað sem það nú merkir.

Orðið sveinn hefur verið notað um unga karlmenn eða drengi, en meyjar um stúlkur. Að vísu var rætt um að höfðingjar hefðu með sér sveina hér á árum áður og fór yfirleitt annað orð af þeim að þeir væru "hreinir sveinar". Þá hefur einnig verið rætt um lærisveina og lærimeyjar, námsmeyjar og -sveina, iðnsveina o.s.frv.

Í fréttum undanfarið hefur borið á því að systur jólasveinanna, þær Leiðindaskjóða, bóla og hvað þær heita nú allar, séu kallaðar jólasveinkur. Væri ekki réttara að tala um jólastelpur eða jólameyjar? Skyldi fara svo að María mey yrði Maja sveinka í næstu þýðingu Nýja testamentisins?


Skálholt eftir Guðmund Kamban kvikmyndað?

Í kvöld flutti Útvarpsleikhúsið Skálholt eftir Guðmund Kamban í þýðingu Vilhjálms Þ. Gíslasonar. Hljóðritið var frumflutt á jólum árið 1955. Helstu leikendur voru Herdís Þorvaldsdóttir, Róbert Arnfinnsson, Þorsteinn Ö. Stephensen og Arndís Björnsdóttir. Fleiri kunnir leikarar komu við sögu.

Þessi átakanlegi harmleikur Guðmundar Kambans í frábærri leikstjórn Lárusar Pálssonar, snerti óneitanlega viðkvæma strengi í huga hlustandans. Túlkun þeirra fjögurra leikara, sem nafngreindir voru í upphafi þessa pistils, var með þeim ágætum að vart getur betri leik í útvarpi fyrr eða síðar.

Hljóðrit þetta, sem er farið að nálgast sextugt, er fyrir margra hluta sakir merkilegt. Það gefur góða mynd af þeirri aðstöðu sem fyrir hendi var til hljóðritana og jafnframt þeim tónlistarsmekk og því úrvali sem menn höfðu úr að moða.

Sem millistef var notuð orgelútsetning Páls Ísólfssonar á stefi úr Þorlákstíðum. Í lok leikritsins heyrðist brot úr sálmi Hallgríms Péturssonar, sem almennt gengur undir nafninu "Allt eins og blómstrið eina". Var það við orgelundirleik, en ekki er vitað til þess að Brynjólfur biskup hafi látið setja orgel í dómkirkju þá sem hann lét reisa og rifin var skömmu eftir að Skálholtsstaður laskaðist í jarðskjálftunum árið 1784, enda var þá kirkjan orðin fúin af viðhaldsleysi og gestum og gangandi lífshættuleg.

Þessi harmsaga Ragnheiðar og Daða hefur orðið ýmsum til íhugunar. Skrifaðar hafa verið skáldsögur, ort ljóð og jafnvel hafa miðlar orðið til þess að "sannleikur máls þeirra Daða og Ragnheiðar" hefur litið dagsins ljós svo að vart velkjast menn í vafa um það hvað gerðist. Miðað við hljóðrit, sem birt voru af miðilsfundum á 8. áratugnum, var túlkun Þorsteins Ö. Stephensen á Brynjólfi biskupi fremur sannferðug, en þó hafði hann ekki heyrt þessi hljóðrit. Guðmundur Kamban hefur væntanlega með leikriti sínu hagað orðum persónu biskups þannig að vart varð komist hjá því að beita öllum þeim hroka og yfirlæti sem leikarinn gat látið í té.

Við endurflutning þessa hljóðrit leitar ýmislegt á hugan og skal nú varpað fam þremur tillögum:

Handritshöfundar íslenskir ættu að íhuga hvort ekki væri rétt að endurgera Skálholt. Fara mætti þá leið að hljóðrita leikritið að nýju fyrir útvarp og haga þá tónlistarfvali með öðrum hætti en gert var árið 1955. Nú vita menn gerr um tónlist 17. aldar á Íslandi en menn vissu þá og þara að auki vita menn nú hvernig íslenska þjóðlagið við áður nefndan sálm Hallgríms var afskræmt með þvíað breyta einni nótu laglínunnar, þegar það var undirbúið til útgáfu sálmabókar á sinni tíð. Það hefur Smári Ólafsson sannað, svo að óyggjandi má telja.

Einnig mætti hugsa sér að gera um þessa atburði röð sjónvarpsþátta. Þá fengju handritshöfundar að spreyta sig á sígildu viðfangsefni, sem á rætur að rekja til fortíðar þjóðarinnar. Úr því gæti orðið sígilt meistaraverk, ef vel tækist til.

Þriðja tillagan er sú að saga þeirra Ragnheiðar og Daða yrði kveikjan að nýju leikverki sem samið yrði handa þeim Herdísi Þorvaldsdóttur og Róbert Arnfinnssyni. Söguþráðurinn gæti orðið einhvers onar ævisaga aldraðra einstaklinga sem fengu ekki að njótast fyrr en hausta tók. Þau Róbert og Herdís væru vís til að túlka vel samið handrit með þeim hætti að hverjum manni yrði ógleymanlegt, hvort sem um yrði að ræða flutning í sjónvarpi, útvarpi eða á leiksviði.

Íslendingar hafa um hríð verið of uppteknir af því að endurgera nýlega útgefnar skáldsögur sem sjónvarpsþættii. Mál er að linni.


Jónas Jónasson, útvarpsmaður

Jónas Jónasson er horfinn á braut inn í Sumarlandið. Þangað hafði hann brugðið sér sem ungur maður, en fékk að hverfa aftur til Jarðarinnar.

Jónasi hlotnaðist sú gæfa að starfa sem útvarpsmaður í rúma 6 áratugi, lengur en nokkur annar Íslendingur - þjóðin naut þeirrar gæfu að eignast hlutdeild í honum. Á ferli sínum mótaði hann fjölmargar hugmyndir, sem hann hrinti í framkvæmd, og hann skorti aldrei hugmyndir.

Jónas var þannig útvarpsmaður að viðmælendur hans gleymdu því yfirleitt að þeir væru í viðtali og þjóðin hlustaði. Honum tókst með einlægni sinni að laða fram ýmislegt sem sumir höfðu jafnvel ekki sagt sínum nánustu.

Jónas þroskaðist með árunum, jafnt og þétt birtist aukinn þroski hans í viðtölum þeim sem útvarpað var á föstudagskvöldum um þriggja áratuga skeið á öldum ljósvakans.

Nú er þessi rödd þögnuð. Eftir situr þakklát þjóð.


Ísland er landið mitt

Ég hef nýlokið við að lesa einhverja áhrifamestu frásögn sem rekið hefur á fjörur mínar um langt skeið. Ég heyrði af bók þessari í fjölmiðlum og hlýddi á einn viðmælandann flytja ræðu sem snart hjörtu þeirra sem á hlýddu.

Bókin Ríkisfang: ekkert, sem Sigríður Víðis Jónsdóttir hefur skrifað og byggð er á viðtölum við konur af palestínsku þjóðerni, sem settust að á Akranesi árið 2009, lýkur upp fyrir lesendum glöggri mynd af þeim hryllingi, sem íbúar Íraks urðu að þola, eftir að Bandaríkjamenn réðust inn i landið í mars 2003 í leit að gereyðingarvopnum, sem aldrei fundust. Konurnar greina frá miskunnarleysinu, ofbeldinu og grimmdinni, sem losnaði úr læðingi þegar innviðir samfélagsins brustu. Jafnframt er brugðið ljósi á stöðu palestínskra flóttamanna, sem margir eru án ríkisfangs. Áhrifarík er frásögn Sigríðar af því þegar hún leitaði uppi eydd þorp, sem Ísraelsmenn (gyðingar, Síonistar) eyðilögðu og lögðu undir sig við stofnun Ísraelsríkis árið 1948. Þá þegar virtu þeir enga samninga og hafa haldið því áfram undir öruggri vernd Bandaríkjamanna.

Framan af var fréttaflutningur frá Palestínu mjög litaður af hagsmunum Gyðinga og verndara þeirra, Bandaríkjamanna og Breta, en smám saman snerust vopnin í höndum þeirra. Til þess þurfti að vísu hermdarverk, sem öfluðu Palestínumönnum hatursmanna á meðal Gyðinga og Vesturlandabúa. en þessi hryðjuverk voru þó smámunir einir hjá því sem íbúar Palestínu þurftu að þola af hálfu innrásarafla, sem studd voru af Vesturveldunum.

Íslendingar hafa ekki staðið saklausir hjá í þessum hildarleik. Þeir studdu stofnun Ísraelsríkis og tveir valinkunnir Íslendingar settu þjóðina á lista yfir hinar staðföstu þjóðir, sem studdu innrásina í Írak. En gert er gert og sumt er hægt að bæta, annað ekki. Sú ákvörðun íslensku ríkisstjórnarinnar að veita palestínsku flóttafólki móttöku og landvist, er einungis örlítill plástur á það holundarsár, sem Vesturveldin hafa í raun veitt Palestínumönnum.

Í bókinni lýsa konurnar sambúð ólíkra trúarhópa, sem sundraðist við innrásina í Írak. Þær lýsa einnig afstöðu sinni til annarra trúarhópa en þeirra, sem játa islam, en múslimar hafa jafnan þótt umburðarlyndir þrátt fyrir öfgahópa sem þrífast innan trúarbragðanna eins og á meðal kristinna manna. Bókin birtir mynd af harðduglegum og þrautseigum mæðrum, sem sigrast hafa á erfiðleikum, sem hefðu bugað flesta þá, sem orðið hefðu að þola annað eins og þær hafa reynt. Það fer vart hjá því að lesandinn fái öðru hverju kökk í hálsinn og tárist, þegar lesnar eru látlausar og einlægar frásagnir kvennanna af sorgum þeirra og gleði.

Á meðan ég las bókina samþykkti Alþingi að viðurkenna ríki Palestínumanna. Þótt ef til vill sé nokkuð í land að eiginlegt ríki þeirra verði að veruleika, er þó samþykkt alþingis mikilvægt skref í þá átt að Palestínumenn nái rétti sínum. Vonandi verða hin illu öfl, sem ráða mestu innan Ísraelsríkis, brotin á bak aftur.

Sigríði Víðis Jónsdóttur og viðmælendum hennar eru fluttar einlægar þakkir og árnað heilla.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband