Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Fyrir nokkru birti ríkisútvarpið frétt um misjafnt gengi í efnahagslífi nokkurra Evrópuþjóða. Höfðu flest þeirra orðið fyrir miklum skakkaföllum af völdum Kórónuveirunnar. Ísland var þar á meðal.
Í skýringu fréttamanns Ríkisútvarpsins kom fram að þýska hagkerfið hefði gengið einna best og þar hefði orðið nokkur framleiðniaukning. Var ástæðan sögð sú að Þýskaland og nokkur ríki Evrópu væru gróin hagkerfi sem byggðu á iðnaðarframleiðslu. Hér á landi væri staðan sú að útflutningur Íslendinga væri hálf-unnin framleiðsla og vægi fiskur einna mest.
Ekki verða bornar brigður á þessar niðurstöður, en þær leiddu þó hugann að samræðum, sem við Páll bróðir minn áttum við starfsmenn kínversks útgáfufyrirtækis austur í Beijing árið 1975. Þar kom fram að Kínverjar höguðu verðlagningu bóka og tímarita eftir því á hvaða þróunarstigi ríkin væru stödd.
Mao Zedong hafði þá kynnt skilgreiningu sína á stöðu ríkja, sem hann skipti í þrennt:
1. Í fyrsta heiminum voru iðnvædd ríki sem bjuggu yfir gjöreyðingarvopnum, Bandaríkin, Bretland, Frakkland og Sovétríkin.
Í öðrum heiminum voru nokkur stærstu iðnveldi heims.
Í þriðja heiminum voru fátæk ríki, einkum í Asíu, Afríku og Mið-Austurlöndum auk ríkja sem voru eingöngu hráefnisframleiðendur.
Við bræður töldum að rétt væri að hækka verðið á kínverskum tímaritum sem seld væru hérlendis. Gestgjafar okkar töldu það af og frá, þar sem Ísland tilheyrði þriðja heiminum eins og flest ríki Mið-austurlanda. Tóku þeir sem dæmi olíuríkin við Persaflóa.
Þegar við bræður mótmæltum því og vitnuðum í góð lífskjör hér á landi, svöruðu þeir því til að hvað sem öðru liði væri Ísland fyrst og fremst útflytjandi hráefnis, þar sem mest af okkar útflutningi væru eingöngu hráefni. Því værum við í sama flokki og olíuríkin.
Því skal spurt: Hefur Ísland náð því að komast í tölu fyrsta heims ríkja eða erum við enn fyrst og fremst hráefnisframleiðendur?
Stjórnmál og samfélag | 3.11.2020 | 13:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ríkisútvarpið greindi frá því í hádegisfréttum að sennilega yrði 7 manna fjölskylda frá Senigal flutt úr landi, en Landsréttur hefði staðfest úrskurð útlendingastofnunar þar um.
Í réttinni kom fram að fólkið hefði dvalist hér á landi í 7 ár og börn hjónanna væru fædd hér á landi.
Hverju sæta svona vinnubrögð?
Hér virðist annaðhvort um að ræða skeytingaleysi eða afglöpp yfirvalda.
Fólk, sem hefur búið óáreitt að mestu á Íslandi um 7 ára skeið og alið upp börn sín hér á landi, hlýtur að eignast búseturétt hérlendis.
Þetta má minnir ótæpilega á það hvernig saklausum gyðingum var rutt úr landi í aðdraganda fyrr heimsstyrjöldina.
Ætla íslenskyfirvöld enn að smeygja ser frá því að læra eitthvað?
´
Stjórnmál og samfélag | 1.11.2020 | 15:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er kunnara en frá þurfi að segja að mikill hluti áskrifenda Morgunblaðsins forðast að lesa leiðara þess og eru ýmsar ástæður til þess.
Helga Vala Helgadóttir, þingman Samfylkingarinnar greinir þær ágætlega í pistli á umræðuvettvangi Morgunblaðsins föstudaginn 5. þessa mánaðar.
Fjölmiðlar eru afar mikilvægir í lýðræðislegri umræðu. Vönduð fjölmiðlaumfjöllun er hvort tveggja upplýsandi sem og hugvekjandi en að sama skapi getur óvönduð fjölmiðlaumfjöllun beinlínis verið meiðandi og afvegaleiðandi.
Höfundur einn, sem ítrekað ritar í Morgunblaðið, gerist iðulega sekur um rökþurrð og afvegaleiðslu í skrifum sínum. Slík er ásókn hans í stundarathygli, enda gleymdur mörgum, að hann gerir allt sem hann getur til að kasta fram sora huga síns bara til að vekja umræðu og fá þá athygli sem hann þráir mest af öllu. Sneyptur var hann sendur í útlegð frá opinberum störfum eftir afglöp sín í Seðlabanka Íslands. En sægreifar, sem byggja auð sinn á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar, réðu hann til starfa svo hann fær að rita mola er kallast Staksteinar.
Í steinum gærdagsins opinberast þekkingarleysi höfundar á baráttu svarts fólks í Bandaríkjunum. Vitinu virðist naumt skammtað þar sem gert er lítið úr mótmælum þar í landi sem og á fjölmennum samstöðumótmælum á Austurvelli. Höfundur skilur yfirleitt ekki mótmæli, og alls ekki að þau mótmæli sem nú eiga sér stað vegna morðs lögreglumanns á George Floyd snúast um annað og meira en það einstaka morð. Höfundur hefði betur spurt einhverja af þeim afbragðsblaðamönnum er starfa á Morgunblaðinu svo hann yrði sér ekki til háðungar en því miður valdi hann í staðinn að ausa út fáfræði sinni í steinum blaðsins.
Mótmælin, og samstöðumótmælin sem breiðast nú út um heiminn, eru vegna ofbeldis, rasisma og misréttis gagnvart mörgum kynslóðum svartra íbúa landsins. Ræturnar liggja í margítrekuðu ofbeldi lögreglunnar gagnvart svörtu fólki í Bandaríkjunum. Þannig er svart fólk þrefalt líklegra til að láta lífið af völdum lögreglu en hvítt fólk þrátt fyrir að vera aðeins um 13 prósent íbúa. Þá verður að hafa í huga að umtalsvert fleira svart fólk er drepið af lögreglu þar í landi fyrir það eitt að vera á röngum tíma á vegi lögreglunnar en nærri fimmfalt fleiri eru drepin af lögreglu þar sem þau eru óvopnuð á ferð. Þess vegna er mótmælt.
Staksteinar Morgunblaðsins voru í eina tíð hvöss lína flokkseigendafélags Sjálfstæðisflokksins. Þeir voru ekki endilega sannleikselskandi eða réttsýnir enda fyrst og fremst pólitískur og oft ósvífinn vöndur flokksins og því skemmtiefni þeim sem hafa gaman af pólitískum dansi.
Það er liðin tíð.
Í dag birtast steinarnir okkur sem aumur þráður til að dreifa þröngsýnum, hatursfullum og andstyggilegum skoðunum örvæntingarfulls fyrrverandi valdamanns sem neitar að sætta sig við að hans tími er löngu liðinn. Vonandi nær hann að lifa bjartari tíma en þann sem hann nú lifir. Biturleikinn er aldrei góður ferðafélagi.
helgavala@althingi.is
Höfundur er þingman Samfylkingarinnar.
Stjórnmál og samfélag | 7.6.2020 | 20:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða, var í viðtali á Rás eitt í morgun.
Hún vandaði stjórnvöldum ekki kveðjurnar þegar hún ræddi um fyrirhugaðan brottrekstur fjölskyldna með börn til Grikklands.
Guðrún minnti á það ástand sem komið er upp í veröldinni þar sem fjöldi fólks er á flótta vegna ofsókna eða afleiðingar hlýnandi loftslags. Taldi hún Íslendinga eiga að fagna einstaaklingum af erlendu þjóðerni og vísaði til þess að fjöldi þeirra hefði auðgað íslenskt þjóðlíf og menningu á liðnum árum og lagt sinn mikilvæga skerf til þróunar íslensks þjóðfélags.
Undir þetta skal tekið og því haldið fram að verði börn hrakin úr landi og send til Grikklands séu íslensk stjórnvöld farin að fremja hryðjuverk.
Katrín. Gríptu í taumana!
Stjórnmál og samfélag | 5.3.2020 | 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Í dag, laugardaginn 1. febrúar, birtist athyglisverð athugasemd í Morgunblaðinu.
Hún fylgir hér:
Ein spurning
Eftir Herdísi Kjerulf Þorgeirsdóttur
Herdís Þorgeirsdóttir
Eftir Herdísi Kjerulf Þorgeirsdóttur: "Í níutíu ára sögu ríkisútvarpsins hefur engin kona gegnt stöðu útvarpsstjóra. Ellefti karlinn var ráðinn útvarpsstjóri í vikunni andspænis flóru fremstu fjölmiðlakvenna landsins."
Það er meir en aldarfjórðungur síðan Hæstiréttur kvað jafnréttislög þýðingarlítil nema meginreglur væru skýrðar svo að veita skyldi konu starf ef hún er að minnsta kosti jafnt að því komin hvað varðar menntun og annað sem máli skiptir og karlmaður sem við hana keppir ef á starfssviðinu eru fáar konur. Í níutíu ára sögu ríkisútvarpsins hefur engin kona gegnt stöðu útvarpsstjóra. Ellefti karlinn var ráðinn útvarpsstjóri í vikunni andspænis flóru fremstu fjölmiðlakvenna landsins.
Þegar staðan var auglýst laus til umsóknar var krafan um konu í stól útvarpsstjóra orðin tifandi tímasprengja. Yrði karl tekinn umfram konu í stöðuna þyrfti hann að hafa augljósa yfirburði á þeim sviðum sem gerð voru að skilyrði.
Margar færustu fjölmiðlakonur landsins sóttu um starfið en engin þeirra komst áfram eftir fyrsta viðtal. Þrír karlar og ein kona rötuðu í lokaúrtakið.
Konur sem eiga að baki áratuga reynslu sem ritstjórar, fréttastjórar, útgefendur, dagskrárgerðarmenn, fréttamenn, rithöfundar, fræðimenn og stjórnendur hljóta að spyrja hvað hafi legið til grundvallar valinu í lokaúrtakið því ekki voru það hæfnis- og kynjasjónarmið. Auk þess var krafan um sanngjarnt og gagnsætt ráðningarferli að engu höfð.
Svo virðist sem stjórn ríkisútvarpsins hafi markvisst útilokað þessar konur á lokametrunum til að forðast óhagstæðan samanburð við þann sem ráðinn var í því skyni að hindra jafnréttiskærur.
Eftir stendur ein spurning sem beint er til stjórnar ríkisútvarpsins:
Hvaða umfram-hæfnisþættir og yfirburðir réðu ráðningu ellefta karlsins í stöðu útvarpsstjóra?
Höfundur er mannréttindalögmaður, fyrrverandi ritstjóri og útgefandi.
Stjórnmál og samfélag | 1.2.2020 | 16:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ríkisstjórn Íslands er fjölskipað stjórnvald. Það hefur bæði kosti og ókosti. Boðvald forsætisráðherra er minna en vera skyldi og einatt er útilokað að ráðast gegn ýmsum vandræðum sem þjaka stjórnina.
Nýjustu dæmin eru einleikur fyrrum dómsmálaráðherra vegna skipunar landsréttar og vangeta núverandi forsætisráðherra í máli sjávarútvegsráðherra.
Þessi staða veldur því að erfitt er að taka á ýmsu og mætti nefna mörg dæmi.
öryrkjabandalag Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp fengu að kynnast þessu í upphafi 10. árugar síðustu aldar.
Hin mikilhæfa stjórnmálakona, Jóhanna sigurðardóttir var þá orðin félagsmálaráðherra og stýrði m.a. málefnum fatlaðra af mikilli og stundum óþarflega mikilli röggsemi. Þetta varð til þess að upp úr sauð á milli hennnar og samtakanna.
Ég lagði til að við fengjum Steingrím Hermannsson í hádegissnarl hjá Öryrkjabandalaginu. Á borðum voru meinhollar samlokur og jógúrt. Steingrímur lýsti þegar ánægju sinni með þessi matföng og gladdist yfir því að ekki skyldi þröngvað upp á sig steik.
Við kærðum fyrir honum þau vandræði sem við áttum í vegna skapsmuna félagsmálaráðherrans og taldi hann litlar líkur á því að hann gæti áorkað einhverju í þessu máli. Meginröksemdin var sú að ríkisstjórnin væri fjölskipað stjórnvald.
Ég benti honum á að hann væri í forystu stjórnarinnar og gæti því hlutast til um að samkomulag næðist. Helgi Seljan, fyrrum þingmaður tók undir þessi sjónarmið og urðu málalokin þau að Steingrímur boðaði til fundar í stjórnarráðinu og tókust sættir milli Jóhönnu og samtakanna.
Nú eru menn í miklum vanda. Íhaldið sér um sína og engu hefur tekist að þoka í málefnum fatlaðra og eldri borgara. Þrátt yrir vilja vinstri grænna koma þeir litlu sem engu í gegn í þessum málaflokkum. Kunningsskapurinn ræður.
Um svipað leyti og áður nefndur fundur var haldinn sótti elsti bróðir minn um forstöðumannsstarf á vinnustað fatlaðra í Vestmannaeyjum. Yfirmaður svæðisstjórnar hafði samband við mig og bað mig að gefa umsögn um bróður minn. Ég sagðist ekki vera fær um það vegna skyldleika.
"Þú getur þó að minnsta kosti sagt mér hvort hann kunni eitthvað til verka", svaraði maðurinn.
Ég svaraði því til að hann væri mjög lagtækur, menntaður vélstjóri og hefði lagt drög að ýmsu sem vinnustaðurinn hefði búið til.
Hann fékk ekki starfið þar sem hann væri of skyldur formanni Öryrkjabandalagsins.
Nokkru síðar var mér tjáð að bróðurdóttir mín hefði sótt um starf á vegum svæðisstjórnar og fékk hún það ekki því að hún væri skyld sama formanni.
Þarna bitnuðu venslin á saklausu fólki.
Í máli sjávarútvegsráðherra er svipuð staða að öðru leyti en því að hann efast ekki um hæfni sína til þess að taka á málum vinar síns og skólabróður.
Þetta mál eitrar andrúmsloftið kringum ríkisstjórnina og ýtir undir alþjóðlegt álit annarra þjóða um spillt þjóðfélag á Íslandi. Almenningur ber ekki ábyrgð á spillingunni heldur tapsárir ráðherrar sem þekkja ekki sinn vitjunartíma.
Stjórnmál og samfélag | 6.12.2019 | 19:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Styrmir Gunnarsson skrifar skemmtilega en ekki síst athyglisverða grein um loftslagsmál í Morgunblaðinu í dag.
Loftslagsmál og lífsstíll
Af innlendum vettvangi...
Afturhvarf til lífshátta ömmu og afa að hluta
Um ekkert er nú meira rætt um heim allan en loftslagsmál. Gera má ráð fyrir að þær umræður eigi eftir að aukast enn og þá ekki sízt vegna þess að fólk er að vakna til vitundar um að loftslagsbreytingar kalla á breytingar á daglegum lífsstíl okkar eins og hann hefur þróast smátt og smátt.
Að vísu eru raddir hér og þar eins og við mátti búast sem ganga út á það að þessar umræður séu einhvers konar móðursýki. Slíkar raddir heyrðust m.a. á fundi eldri sjálfstæðismanna í Valhöll sl. miðvikudag í bland við athugasemdir um komur flóttamanna frá öðrum löndum hingað til lands. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra afgreiddi þær með skörungsskap.
Þótt ekki kæmi annað til ber okkur Íslendingum að taka loftslagsmálin alvarlega vegna þess að breytingar á loftslagi hafa áhrif á lífið í sjónum og hafstrauma. Nú þegar má sjá merki þess að þeir fiskistofnar sem skipta okkur mestu máli séu að færa sig norðar sem vekur óhjákvæmilega þá spurningu hvort hugsast geti að þeir syndi einfaldlega út úr lögsögu okkar og hvar stöndum við þá?
En það er vaxandi þungi í umræðum um að loftslagsbreytingar kalli á breytingu á lífsstíl fólksins á jörðinni og þá sérstaklega í okkar heimhluta, þar sem velgengnin hefur verið mest.
Getum við dregið úr daglegri neyzlu í víðum skilningi? Auðvitað getum við það en erum við tilbúin til þess?
Erum við tilbúin til að byggja minni hús, fara sjaldnar til útlanda, aka um á rafknúnum smábílum o.s.frv.?
Kannski þurfum við að byggja inn í samfélagsgerð okkar hvata til þess. Að sumu leyti snýst þetta um að hverfa að vissu marki til baka til lífshátta ömmu og afa minnar kynslóðar, þar sem orðið nýtni var í forgrunni.
Nú á dögum dettur fólki varla í hug að setja tölvuprentara sem bilar heima hjá því í viðgerð. Við segjum við sjálf okkur að það sé ódýrara að kaupa nýjan prentara en láta gera við þann gamla. Og sennilega er það rétt. Buxum sem kemur gat á er einfaldlega hent í stað þess að láta gera við þær. Að einhverju marki eru örlög hefðbundinna heimilistækja svipuð.
En er það ekki raunverulega svo, að loftslagsbreytingarnar kalla á lífsstílsbreytingar, sem eru meira í ætt við lífshætti afa og ömmu? Hvernig getum við stuðlað að því? Og þær breytingar geta leitt til þess að gamalt verklag vakni til lífsins á ný. Það á t.d. við um skósmiði sem kunna að sjá fram á nýja og betri tíma.
Vinur minn einn gaukaði að mér upplýsingum um hvernig Svíar hafa brugðizt við.
Þeir hafa lækkað virðisaukaskatt á viðgerðum, t.d. á hjólum, fötum og skóm, svo að dæmi séu nefnd. Þar voru einnig til umræðu fyrir nokkrum árum breytingar á skattalögum sem geri fólki kleift að draga frá tekjuskatti helming viðgerðarkostnaðar á heimilistækjum á borð við ísskápa, þvottavélar og uppþvottavélar.
Það liggur í augum uppi að slíkar ráðstafanir, hvort sem er lækkun virðisaukaskatts á viðgerðarkostnaði eða frádráttur hluta viðgerðarkostnaðar frá skatti hvetur fólk til að láta gera við í stað þess að kaupa nýtt.
Aðgerðir af þessu tagi hafa ekki verið til umræðu hér, alla vega ekki á opinberum vettvangi. En er ekki ástæða til að ræða þessar aðferðir til að ýta undir nýtni?
Vafalaust munu hagsmunasamtök í verzlun og innflutningi taka slíkum hugmyndum illa og telja að sér þrengt. En með sama hætti og bílaumboð reka verkstæði, sem gera við bíla, sem þau selja, opnast ný tækifæri fyrir innflytjendur alls þess tækjabúnaðar, sem fylgir nútíma lífsháttum, þ.e. að setja upp viðgerðarverkstæði.
Sá gamli fjósamaður, sem hér skrifar, hefur líka spurt sjálfan sig að því, hvenær samtök bænda fari að vekja athygli á þeim augljósa veruleika að við getum dregið verulega úr svonefndum kolefnisfótsporum með því að leggja stóraukna áherzlu á að framleiða nánast öll helztu matvæli okkar hér heima í stað þess að flytja þau inn um langan veg.
Það liggur í augum uppi að við getum aukið matvælaframleiðslu verulega hér heima fyrir. Einhverjir munu segja að því fylgi líka kolefnisfótspor en varla jafn mikil og þegar lambahryggir eru fluttir hingað frá Nýja-Sjálandi! Og það fer ekki lengur á milli mála að við getum aukið verulega grænmetisframleiðslu hér heima fyrir. Slíkar hugmyndir eru reyndar ekki nýjar af nálinni. Gamall vinur minn, Eyjólfur Konráð Jónsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins og síðar þingmaður, sá fyrir sér stórframleiðslu á grænmeti í risastórum gróðurhúsum fyrir u.þ.b. hálfri öld.
Loftslagsmálin verða stærstu mál næstu áratuga. Þess vegna er það ánægjuefni að Landssamband sjálfstæðiskvenna hefur efnt til fundaraðar um þau mál, sem bendir til þess að sjálfstæðisfólk átti sig á mikilvægi málsins. Raunar vakti Óli Björn Kárason alþingismaður athygli á því á einum þeirra funda að fyrsti maðurinn, sem setti umhverfismál á hina pólitísku dagskrá hér á Íslandi, var einn af forystumönnum Sjálfstæðisflokksins á þeirri tíð, Birgir Kjaran.
Það væri vit í því fyrir forystusveit þess flokks að rækta betur tengslin við þá pólitísku arfleifð Birgis Kjarans.
En alla vega er ljóst að þeir stjórnmálaflokkar sem þekkja ekki sinn vitjunartíma í þessum málum eiga heima á annarri öld en þeirri tuttugustu og fyrstu.
Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is
Stjórnmál og samfélag | 26.10.2019 | 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er eins og vanti í þessa frétt að Alþingi eigi síðasta orðið í þessu verkefni. Að vísu hefur því verið haldið fram að Landsvirkjun sé þessu máli hlynnt og bent hefur verið á að sjálfstæðir orkuframleiðendur telji hag sínum jafnvel betur borgið ef ofkusala úr landi verður að veruleika.
Eins og sakir standa framleiðir Ísland einungis brot af þeirri orku sem Evrópa þarfnast og við erum sennilega betur sett án sæstrengs.
Nú þurfa forkólfar meirihlutans á Alþingi að taka af öll tvímæli í þessu máli. Annað væri svik við þjóðina.
Stjórnmál og samfélag | 8.9.2019 | 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsókn varaforseta Bandaríkjanna áréttar betur en orð fá lýst að Bandaríki Norður-ameríku eru grímulaust heimsvaldasinnað stórveldi.
Bandaríkin hugsa ekki um hag annarra en sjálfra sín. Eigingirni, drottnunarárátta, tortryggni í garð annarra þjóða og tortryggni gagnvart öllu því sem forysta þeirra trúir ekki, lýsa af hverju orði sem hrýtur af munni fulltrúa þeirra.
Bandaríkjamenn vara við áleitni rússa á norðurslóðum. Það mætti halda að þeir vissu ekki hversu löng strandlengja Rússlands er á þessu svæði.
Bandaríkin vara við Kínverjum sem hafa áhuga á því sem er að gerast á Norðurslóðum. Trump og félagar virðast ekki vita að kínversk stjórnvöld gera sér nú æ betri grein fyrir áhrifum hlýnunarinnar á veðurfarið í Kína og sjá þess merki að samhengi er á milli ástandsins við norður-heimskautið og aukinnar bráðnunar hálendisjökla Asíu.
Það eru nokkur ár síðan kínverskir vísindamenn settu fram þá kenningu að í raun væru heimskautin þrjú: Suðurskautið, norðurskautið og Himalayjafjallgarðurinn, en þar horfir nú til vandræða vegna bráðnandi jökla.
Varaforseti Bandaríkjanna er varasamur sendiboði. Hann er jafnhættulegur trúarofstækismaður og hryðjuverkamenn sem skipa sér í fylkingar með meintar kenningar spámannsins að vopni. Mörgum þessara hryðjuverkamanna er það sameiginlegt að þeir eru ólæsir á Kóraninn og lepja upp ýmiss konar fullyrðingar sem tuggðar hafa verið ofan í þá.
Hið sama er um fjölda fólks í Bandaríkjunum. Þeir beita trúarbrögðunum til hryðjuverka á heims vísu og fylgja ótrauðir leiðbeiningum trúarleiðtoga sem eiga sér einga stoð í veruleikanum.
Heimsóknin, sem nú er lokið, sýnir betur en flest annað hið raunverulega eðli bandarískra heimsvaldasinna.
Stjórnmál og samfélag | 5.9.2019 | 11:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Góðvinur minn, dr. emil Bóasson, háskólakennari, hefur ásamt kínverskri eiginkonu sinni, Wang Chao, ferðast vítt og breitt um Kína. Hann er glöggskyggn og sendi mér þennan pistil um kínversk bifreiðanúmer. Ég vek sérstaklega athygli á því sem sagt er um rafmagnsbíla í lokin -- sem Íslendingar gætu tekið sér til fyrirmyndar.
Margt lærist á ferðalögum.
Undanfarnar átta vikur höfum við ferðast um víðlendur Kína.
Þrátt fyrir að hafa ferðast um það landsvæði af og til undanfarna fjóra áratugi er alltaf eitthvað nýtt og forvitnilegt.
Ég tók eftir að bílnúmer höfðu nokkur einkenni. Flest skráningarnúmer voru á bláum grunni með hvítum stöfum, svipaðir litir og í hvítblá fána UMFÍ. Þetta hefur verið svo lengi.
Svo tók ég eftir skráningarnúmerum með hvítan grunn og rauðan fyrsta staf. Kom þá í ljós að þetta voru skráningarnúmer Frelsishers alþýðu.
Hið þriðja sem bar fyrir augu voru framsóknargrænn bakgrunnur og hvítir stafir á skráningarspjöldum bifreiða. Þetta eru bifreiðar sem nota rafmagn eingöngu.
Í viðbót við þetta var okkur sagt að í Shanghæ kostaði skráningarnúmerið ¥13.000 alþýðudali eða sem nemur 240.000 krónum.
Gjaldið fellur niður ef skráður er rafmagnsbíll. Það hefur haft mikil áhrif og margir rafmagnsbílar í umferðinni þar.
Dregið hefur úr útblæstri bíla svo eftirtektarvert er í stórborginni.
Sent from my iPhone
Stjórnmál og samfélag | 17.7.2019 | 13:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 319697
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar