Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þjónar græðgi Landsvirkjunar hagsmunum almennings?

Íslendingar þurfa að velta því alvarlega fyrir sér til hvers orkan sem við búum yfir, er notuð.
Er siðferðislega rétt að setja upp gagnaver sem þjónar þeim vafasama tilgangi að stunda Bitcoin-gröft, orkuver sem krefst álíka eða meiri orku en öll heimilin í landinu?

Þetta minnir óþægilega á sjúkdóm sem kallast gróðafíkn og er iðulega af hinu illa.
ætli Íslendingar að jafna búsetu fólks á landinu og gera ýmis landsvæði byggilegri en nú er, verður að meta til hvers eigi að nýta rafmagnið hér á landi.
Það er orkuskortur í Eyjafirði, en úr honum á víst að bæta í náinni framtíð.
Það er orkuskortur á Vestfjörðum sem eru að mestu leyti ótengdir orkukerfi landsins.
Orkukerfið á Norðaustur-landi er veikburða og hamlar eðlilegri orkudreifingu.
Svona mætti lengi telja.

Íslenskum stjórnvöldum ber siðferðileg skylda til þess að nýta orkuna í þágu íslensks almennings og láta þess í stað gróðafíkn fyrir róða með því m.a. að hafna gullgrafarafyrirtækjum sem nýta orku almennings til að auka eigin gróða.


Réttmæt ákvörðun

Þegar fyrstu rafbílarnir frá Nissan komu hingað til lands voru þeir algerlega hljóðlausir. Ýmsir blindir einstaklingar kvörtuðu undan þessum bílum og sögðu m.a. að þeir greindu ekki hljóð frá þeim þegar bílunum var bakkað úr bílastæðum.

Víða í Evrópu hefur þessi umræða verið hávær og núverandi reglugerð um að rafbílar gefi frá sér hljóð þegar þeim er ekið innan við 19 km hraða var sett að kröfu Evrópsku blindrasamtakanna.

Óhætt er að fullyrða að flestir ef ekki allir rafbílar, sem fluttir hafa verið til landsins undanfarin ár séu með hljóðgjafa. Einnig er sérstakt hljóð þegar þeim er ekið aftur á bak.

Þetta hægaksturshljóð greinist vel ef umhverfishávaðinn er ekki mikill. Hið sama má segja um flestar bifreiðar aðrar.

Ef blindur eða sjónskertur vegfarandi ætlar yfir götu þar sem ekki er akrein hlustar hann vandlega eftir umferðinni. Hann greinir hjólbarðahljóðið úr talsverðri fjarlægð og iðulega á undan vélarhljóðinu.

Undirritaður hefur gert á þessu nokkrar tilraunir. Vegahljóð virðist berast úr 50-200 m fjarlægð. Það er þó nokkuð misjafnt eftir tegundum hjólbarða.

Sumar tegundir rafbíla eru með búnaði sem slekkur á vélahljóðinu. Kia Soul hins vegar er með slíkan búnað sem ævinlega er í gangi þegar ekið er hægt. Það er því lítil hætta á að slíkur bíll læðist að vegfarendum.

Taka verður mið af heyrn vegfarenda. Aldrað fólk heyrir iðulega ekki í aðvífandi bílum og af því skapast mikil hætta hvort sem um rabíla eða eiturspúandi hreyfla er að ræða.

.

 


mbl.is Rafbílar verði með vélarhljóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rafhjólabyltingin

Rafmagnið sækir stöðugt á í samgöngum hér á landi Rafbílar líða um stræti og þjóðvegi landsins og rafknúnum reiðhjólum fjölgar.

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins í dag er skemmtileg grein um rafreiðhjól eftir Helga Snæ sigurðsson, blaðamann. Rekur hann þar notagildi rafhjóla sem hann telur vera skemmtileg samgöngutæki auk þess sem létt leikfimi fylgir með. Rafmagnið skilar engri orku nema hjólreiðamaðurinn stígi hjólið.
Helgi nefnir m.a. fjóra styrkleika sem hann getur valið eftir því hversu lítið hann vill leggja á sig.
Helgi segist búa í Vesturbænum og séu frá heimili hans 13 km upp í Hádegismóa. Á rafmagnshjóli fer hann þessa vegalengd á um hálftíma.
Það var tvennt sem ég skemmti mér yfir.
1. Ég þekki móður hans og 2. þegar ég var sumarblaðamaður á Morgunblaðinu 2007 og 2008 hjóluðum við Elín nokkrum sinnum vestan af Seltjarnarnesi upp í Hádegismóa. Sýndi hraðamælir hjólsins að það væru um 14 km.
Vorum við u.þ.b. 40-50 mínútur á leiðinni eftir því hvernig vindar blésu. Brekkurnar voru vissulega áskorun og svitnuðum við talsvert. Þá var gott að skella sér í steypibað á jarðhæð Morgunblaðshússins áður en starfið hófst.
Ég reyndi í tvígang að fara með strætisvagni upp í Hádegismóa og tók það um eina klst og 15 mínútur.


Ríki hins illa?

Sumir sjónvarps- og útvarpsþættir eru þannig að fólk lamast af skelfingu - finnur sig máttvana gagnvart því sem hent hefur aðra einstaklinga og fjölskyldur þeirra.

Í upphafi þessarar aldar komst ræðuritari þáverandi Bandaríkjaforseta að því að tvö af ríkjum heims væru ríki hins illa. Forsetinn flutti þessa ræðu, sem vakti bæði andstyggð og reiði og ræðuritarinn var látinn fjúka.

Ef til vill eru fleiri ríki í þessum hópi og  kunna Bandaríki Norður-Ameríku að vera þar á meðal.

Bandarísk stjórnvöld halda hlífiskildi yfir þeim sem framið hafa óhæfuverk á saklausum borgurum í skjóli meintra mannúðarstyrjalda Bandaríkjanna og þeir, sem hafa verið settir til að rannsaka mál þeirra eru sviptir vegabréfsáritun.

Landsréttur leyfði bandarískum ferðamanni að fara úr landi eftir að hann hafði valdið stórslysi. Með það í huga að Bandaríkin hugsa um sína er það fáheyrð einfeldni að halda því fram að maðurinn skyldi ekki sæta farbanni.
Hvernig ætli samviska dómarranna sé?
Hvað ætla íslensk stjórnvöld að hafast að?



Augljós merki sjaldnast virt

Sama sagan gerist aftur og aftur í íslensku samfélagi án þess að brugðist sé við.

Þegar fyrirtæki fara að safna skuldum og hætta jafnvel að greiða framlag í lífeyrissjóði er eitthvað að - já, eitthvað alvarlegt á seyði.

Óþarft er að taka dæmi af þeim fjölda fyrirtækja hér á landi sem hafa verið úrskurðuð gjaldþrota löngu eftir að staðreyndir blöstu við.

Það er dæmi gert að eigendur róa lífróður til þess að bjarga því sem bjargað verður og enda oftast nær með því að horfa á brunarústir þess sem þeir byggðu upp.

Öryrkjabandalag Íslands þurfti að horfast í augu við að staða fyrirtækisins Glits var miklu verri en lýst var yfir af fyrri eigendum og hið sama blasir nú við að verið hafi hjá wow.

Enginn gleðst yfir því hvernig komið er. Væri ekki réttara að hefjast handa fyrr þega séð er hvert stefnir? Nú verður fjöldi einstaklinga fyrir stórtjóni auk ríkisfyrirtækis.

 

 


Hvað gerir Bankasýsla ríkisins?

Orð Katrínar Jakobsdóttur í fréttum Ríkisútvarpsins áðan eru merkileg, en þar lét hún að því liggja að hugsanlega yrði um trúnaðarbrest að ræða milli stjórnvalda og bankaráðanna.
Hvað ætli bankasýslan hafi verið að sýsla um leið og bankastjórnirnar dunduðu sér við að hækka laun bankastjóranna í stað þess að fara að tilmælum Benedikts Jóhannessonar? Hefði ekki mátt ætlast til þess að bankasýslan fylgdi tilmælunum eftir?

á vefsíðu stofnunarinnar er erfitt að sjá að henni hafi borið skylda til að vara við því sem gerðist í bönkunum enda fátt eða ekkert fjallað um eftirlit hennar með rekstri bankanna.
Bankasýslan er í raun eins og tannlaus maður!
Hvað ætli Bankasýsla ríkisins hafi verið að sýsla um leið og bankastjórnirnar dunduðu sér við að hækka laun bankastjóranna í stað þess að fara að tilmælum Benedikts Jóhannessonar? Hefði ekki mátt ætlast til þess að bankasýslan fylgdi tilmælunum eftir?

á vefsíðu stofnunarinnar er erfitt að sjá að henni hafi borið skylda til að vara við því sem gerðist í bönkunum enda fátt eða ekkert fjallað um eftirlit hennar með rekstri bankanna.
Bankasýslan er í raun eins og tannlaus maður!

Svo er um fleiri stofnanir. Iðulega eru lög þannig úr garði gerð að erfitt er að beita þeim til hagsbóta þeim sem brotið er á.
Þannig var það um síðustu aldamót þegar ljóst var að Reykjavíkurborg ætlaði að leggja niður blindradeild Álftamýraskóla.
Skrifstofustjóri Menntamálaráðuneytisins viðurkenndi fyrir mér að ráðuneytið bæri ábyrgð á menntun blindra barna. En þar sem ekkert stæði í lögunum um það væri ekkert hægt að gera ef sveitarfélögin stæðu ekki í stykkinu.

Er Bankasýslan slík stofnun?
Er ekki kominn tími til að menn fari að kanna skilvirkni opinberra stofnana og bæta hana?
Hugsanlega þarf skynsamt alþýðufólk sem er ekki úr hópi lögfræðinga til að skrifa fyrstu drög að breytingum á lögum sem verða þá skilvirk.


Ómar og Lára stikla um Vopnafjörð - gömul minning

Það er einatt ánægjulegt að fylgjast með stiklum þeirra Ómars Ragnarssonar og láru dóttur hans.
Í kvöld greindi hann frá samskiptum sínum við Stefán Ásbjarnarson á Guðmundarstöðum í Vopnafirði.
Ýmislegt var sagt um Stefán, þar á meðal að hann hefði flutt hey í hlöðu á bróður sínum og sitthvað fleira.

Þann 30. júní 1967, á 59. afmælisdegi móður okkar, sóttum við bræður ásamt mömmu og Magnúsi sigurðssyni, skólastjóra, heim Jón í Möðrudal og spiluðum við Jón hvor fyrir annan á hið sérkennilega falska orgel, sem er í kirkjunni sem Jón byggði til minningar um eiginkonu sína. Þetta hljóðrituðum við og er snældan enn til.
Þegar til Vopnafjarðar kom var farið að undirbúa skemmtun, en við söfnuðum þá fé fyrir Hjálparsjóð æskufólks á vegum Magnúsar.
Að skemmtuninni lokinni hófst dansleikur í félagsheimilinu. Ég kom mér fyrir utan við danssalinn og ræddi þar við ýmsa. Þar kom Stefán Ásbjarnarson og tók mig tali, 15 ára unglinginn. Varð okkur býsna skrafdrjúgt og er mér enn í fersku minni hvað mér þótti maðurinn snjall sagnamaður og lýsingar hans á ýmsu, svo sem skaplyndi Jóns í Möðrudal og lauk hann upp fyrir mér ýmsu úr ævi þessa merka manns.
Fór hann m.a. með kveðskap eftir Jón sem mig minnir að hafi verið í betra lagi og sitthvað fleira sagði hann mér.
Í kvöld rifjaðist þessi stund upp.

Að undanförnu hefur Ríkissjónvarpið sýnt nokkur gömul viðtöl. Þótt myndböndin séu einungis um tveggja áratuga gömul er talið þegar orðið bjagað og svo var um þau fáu brot sem heyrðust úr viðtali Ómars við þau Stefán og konuna sem fóstraði þá bræður megnið af ævi sinni.


Hverjir ógna hverjum?

Nú er talsvert fjaðrafok í fjölmiðlum vegna þess að hin svokallaða 5G-bylting er í nánd, en þessi nýja fjarskiptatækni á eftir að gjörbylta lífi fólks á ýmsum sviðum.
Prófanir á kerfinu hafa staðið yfir víða. Sem dæmi má nefna að Kia Motors létu tilraunabíla aka með 5G leiðsögukerfi um 190 km. leið um það leyti sem vetrarólimtíuleikarnir hófust í fyrra. Reyndist það býsna vel.
Fjaðrafokið stafar að því að kínversk fjarskiptafyrirtæki eins og Huawei hafa nú náð talsverðri forystu í tækninni sem að baki 5Gleynist. Óttast ýmsir að kínversk stjórnvöld geti beitt þessum fjarskiptabúnaði ef til átaka kemur.

Því skal spurt:
Eru bandarísk fjarskiptafyrirtæki eitthvað skárri?
Lét Google ekki bandarískum yfirvöldum í té upplýsingar um kínverska notendur sem notuðu gmail?
Fleiri spurninga mætti spyrja. En niðurstaðan verður ætíð sú að hver og einn hugsar um sinn hag og eigin hagsmuni. Bandaríkin eru þar ekki til neinnar fyrirmyndar.

Fyrst þegar 5G var kynnt til sögunnar sáu menn ýmsar leiðir til að efla margs kyns fjarskipti og horfðu þá m.a. til Afríku. Talið er að kerfið muni m.a. gera ljósleiðaralagnir óþarfar í álfunni og spara þannig mikla fjármuni.
Miklir fjármunir eru í húfi og Bandaríkjamenn ætla sér svo sannarlega að hrifsa sína sneið af kökunni.


Til hvers eru hagfræðingar, spurði Mao formaður árið 1958

Það er eitthvað að í ríkisrekstrinum og enginn virðist vita hvernig á að leysa vandann.
Ýmsir tekjustofnar eru markaðir ákveðnum málaflokkum og hefur svo verið áratugum saman. Nefna má gjöld af eldsneyti bifreiða, flugvéla og skipa, veiðigjöld útgerðarfyrirtækja og áður fyrr lög um framkvæmdasjóð fatlaðra, sem voru numin úr gildi fyrir síðustu aldamót. Er þá fátt eitt talið og mörgu sleppt.
Alþingi notar fjárlögin til að seilast í tekjur ríkisins af áður nefndum málaflokkum og er iðulega minnstum hluta teknanna varið til framkvæmda á þeim sviðum sem gjöldin eru tengd. Afleiðingarnar eru m.a. handónýtt vegakerfi með einbreiðum brúm og fleiri dauðagildrum.
Af þessu hlýst alls konar vandi. Nú á enn að auka á vandann og skerða fé til Hafrannsóknastofnunar um 300 milljónir króna á meðan veiðigjöldin skila nokkrum milljörðum í Ríkissjóð.
Rokið er upp til handa og fóta eftir að fjárlög hafa verið samþykkt og tilkynnt um nauðsynlegan niðurskurð.

Slík hagfræði ber vott um fráleita aðferðafræði sem er engum sæmandi. Hið furðulegasta er að sjávarútvegsráðherra virðist þessi ráðstöfun hafa komið algerlega í opna skjöldu og leitar hann nú logandi ljósi að einhverjum aurum til að draga úr skaðanum sem væntanlega hlýst af fyrirhuguðum samdrætti.

Hvenær skyldu Íslendingar hætta að ráðgast með rekstur ríkisins með því handapati sem oft virðist einkenna hann?
Í lokin skal spurt eins og Mao formaður spurði varaforseta sinn, Wang Chen árið 1958, þegar að honum var þjarmað og hann hvattur til að samþykkja hið skelfilega stóra stökk:
"Ég hef ekkert vit á hagfræði en þið ætlist jafnan til að ég taki lokaákvörðunina. Til hvers eru þessir hagfræðingar?"
Tekið skal fram að Wang Chen greindi undirrituðum ásamt fleiri Íslendingum frá þessu í apríl 1981. Og skal þessari fyrirspurn nú beint að íslenskum stjórnvöldum.
Eru hagfræðingar ef til vill óþarfir?


Fá blindir hljóðsýn?

Ég hef nokkrum sinnum rekist á greinar um rannsóknarfyrirbærið "Blindir fá hljóðsýn". https://www.hi.is/vidburdir/blindir_fa_hljodsyn_nyskopun_i_fremstu_rod
Þar er m.a. greint frá belti með skinjurum sem brugðið er um mitti fólks og titra skinjararnir. Þannig á fólk að geta greint ýmis "áreiti".
Það er sennilega hálfur fimmti áratugur síðan ég heyrði fyrst um slíkar rannsóknir.
Niðurstaðan varð þá sú að áreitið væri gríðarlegt og talsverðan tíma þyrfti til að venjast því.

Í greininni, sem vísað er á hér að ofan kemur fram að búnaðurinn hafi verið prófaður á meðal blinds fólks hér á landi og víðar.

Það er leitt að þátttakendur hafi ekki tjáð sig á vettvangi sem fjallar um málefni blinds fólks.
Sjálfur hef ég ekki hugmynd um hvernig þessi búnaður virkar að öðru leyti en því sem minnst er á í greininni.
Hvað segja þátttakendurnir? Er þetta eitthvað sem ástæða er til að taka mark á?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband