Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Einelti Ríkissjónvarpsins í garð þroskahefts fólks

Undanfarin ár hefur lýsingarorðið "þroskaheftur" verið notað sem lítilsvirðandi skammaryrði í áramótaskaupi Sjónvarpsins. Í gær keyrði þó um þverbak, þegar þetta orð var notað hvað eftir annað til þess að niðurlægja viðmælendur.

Það hefur verið til siðs að skemmta sér á kostnað þeirra sem bera ýmis sérkenni. Má þar nefna útlit, mállýti og ýmiss konar fötlun. Einhverju sinni var á það bent að slíkt gaman gæti orðið til þess að festa ákveðnar staðalímyndir í sessi. Flestir, sem fyrir þessu verða, geta borið hönd fyrir höfuð sér, enda er yfirleitt um græskulaust gaman að ræða.

Aðstandendur þroskahefts fólks og starfsfólk, sem hefur unnið með því, hafa undanfarna áratugi hrakist frá einu orði til annars þar sem menn hafa viljað forðast lítilsvirðandi notkun. Áður fyrr var fólk vangefið, en það varð að skammaryrði. Síðan fann fagfólkið upp orðið "Þroskaheftur", en nú er það orðið niðurlægjandi lýsingarorð og því var til þess gripið að tala um fólk með þroskahömlun.

Ekkert af þessu hrífur og eiga þar fjölmiðlar nokkra sök. Ríkissjónvarpið hefur gengið á undan með slæmu fordæmi og klifar á þessu niðurlægjandi lýsingarorði, þroskaheftur, sem var ætlað að lýsa tiltekinni fötlun, en umsjónarmenn áramótaskaupsins eru ekki þroskaðri en svo að þeir kjósa að velja það tilteknum persónum skaupsins til háðungar.

Þroskaheft fólk hefur sýnt og sannað að það lætur ekki fötlun sína aftra sér frá því að njóta lífsins og mikið hefur áunnist við að rétta hlut þess. Því hlýtur útvarpsstjóri að taka sér tak og leiðrétta slíka lítilsvirðingu sem ár eftir ár glymur í eyrum sjónvarpsnotenda.

Þótt sumt hafi verið fyndið í skaupinu í gær er niðurstaða pistilshöfundar sú, að aðstandendur skaupsins eigi að skammast sín og biðja afsökunar á þeirri lítilsvirðingu sem skein út úr þankagangi þeirra.


Skemmtilegur þáttur um Vestmannaeyjar sem yljaði hjartarótunum



Að undanförnu hefur verið útvarpað þáttum um íslenska
dægurlagatónlist áranna 1930-1990, en þessa þætti gerði Svavar Gests í tilefni
sextugsafmælis Ríkisútvarpsins árið 1990.



Í kvöld, 29. Desember, var 13. Þættinum útvarpað og fjallaði
hann um Vestmannaeyjar. Oddgeir Kristjánsson og þjóðhátíðarlög hans voru
meginefni þáttarins auk textahöfundanna. Ýmislegt bar þó fleira á góma og mátti
m.a. heyra tvíbura ú Vestmannaeyjum í mútum.



Hægt er að hlusta á þáttinn hér:



http://www.ruv.is/sarpurinn/laugardagskvold-med-svavari-gests/29122012-0



Svavar var margfróður um dægurlagatónlist fyrri ára, en gáði
ekki ævinlega að heimildum. Þannig heldur hann því fram að einungis tvö lög
eftir Oddgeir Kristjánsson hafi verið gefin út á hljómplötum áður en Svavar gaf
út fjögurra laga plötu með lögum eftir Oddgeir árið 1964. Þetta er ekki alls
kostar rétt hjá Svavari. Árið 1962 eða 1963 söng Ragnar Bjarnason Ship ohoj inn
á hljómplötu og áður hafði lagið Gamla gatan verið gefið út ásamt laginu Heima.
Gömlu götuna söng Helena Eyjólfsdóttir og Haukur Morthens Heima. Lögin voru því
a.m.k. fjögur eftir Oddgeir, sem áður höfðu komið út. Þá hafa menn löngum velt
vöngum yfir tilefni þess að Ási í bæ orti ljóðið „Ég veit þú kemur". Í þessum
þætti var birtur viðtalsbútur Árna Johnsen við Ása þar sem hann greindi frá því
að textinn við lagið hefði staðið á sér og hefði orðið til daginn áður en
Hljómsveit Svavars Gests kom til Vestmannaeyja. Þetta stenst ekki hjá Ása.
Fyrir því eru eftirtalin rök:



Svavar Gests kom með hljómsveit sína á þjóðhátíð árin 1961,
63 og 65. Árið 1961 var þjóðhátíðarlagið „Sólbrúnir vangar, sem Ragnar
Bjarnason söng, 1962 Ég veit þú kemur, sem Lúdó og Stefán flutti í skelfilegri
útsetningu, sem Oddgeiri sárnaði mjög, 1963 lag sem nú heitir Þá var ég ungur,
en var þá flutt við bráðabirgðatexta Ása sem kallaður var Steini og Stína og
árið 1965 „Ég vildi geta sungið þér", sem var síðasta þjóðhátíðarlagið sem
Oddgeir samdi. „Þar sem fyrrum" var þjóðhátíðarlag ársins 1964 og flutti
hljómsveitin Logar það með prýði.




Óvenjuleg innbrotstilraun á jóladag

Rétt upp úr kl. hálf eitt á hádegi kvað við þungt högg á stofugluggannn hjá okkur. Vissum við ekki hvaðan á okkur stóð veðrið. Þá kom í ljós að á svalagólfinu stóð valur auðsjáanlega vankaður og horfðist í augu við Elínu. Hún hljóp að ná í myndavél, en á meðan forðaði hann sér.

Ekki vitum við hvað lokkaði hann hingað. Ef til vill hafa það verið smáfuglar eða hann hefur séð eitthvað innan við gluggann, sem vakti athygli hans. Ennþá er örlítill skötuilmur í íbúðinni eftir Þorláksmessuna. Skyldi skötulyktinn hafa lokkað hann að sér?

við


Afbragðs útvarpsleikrit

Ásdís Thoroddsen er snjöll. Hún hefur margsinnis sýnt það sem kvikmynda- og útvarpsleikstjóri. Mörgum er vafalítið í fersku minni leikrit hennar sem flutt var í útvarpi fyrir nokkrum vetrum og fjallaði um ævi Jóns lærða Guðmundssonar, einkum Spánverjavígin á Vestfjörðum árið 1612.

 

Sunnudaginn 2. desember og í dag flutti Útvarpsleikhúsið leikrit hennar, Ástand, sem fjallar um unga stúlku, Guðrúnu, sem varð hrifin af breskum hermanni í upphafi hernáms Breta hér á landi og afskipti yfirvalda af henni. Þessi átakanlega saga snertir strengi í hjörtum þeirra sem á hlýða. Hljóðvinnslan er afbragðs góð, en Einar Sigurðsson hélt þar um taumana væntanlega undir styrkri leikstjórn leikstjóra og höfundar leikverksins.

 

Auðheyrt er að Ásdís hefur nýtt sér reynslu sína af gerð kvikmynda í þessu verki. Skiptingar voru snöggar og sviptu hlustendum úr einni hljóðmynd í aðra. Samhengið var hins vegar svo mikið og vel tengt að alls ekki varð til skaða.

 

Hljóðmyndin var yfirleitt sannfærandi. Hljóðmyndin í upphafi var allvel sviðsett, þegar blaðasöludrengur heyrðist kalla. Þeir hefðu reyndar mátt vera fleiri. Þarna sannaðist að vísu hið fornkveðna, að tímarnir breytist og mennirnir með. Hljóðumhverfið var ekki nægilega sannfærandi. Þar er hvorki við leikstjorann né hljóðritara að sakast heldur hitt, að hverju tímabili fylgir ákveðinn hljóðheimur sem erfitt er að endurskapa. Sem dæmi má nefna að of oft virtust bifreiðar þjóta hjá á malbiki, en þó er eins og leikstjórinn hafi stundum munað eftir þessu og bætt þar úr. Einnig voru bifreiðatengundir meira sannfærandi í seinni þættinum en þeim fyrri.

 

Ástand er á meðal hins besta sem gert hefur verið í íslensku útvarpsleikhúsi á þessari öld. Aðstendum þess er óskað til hamingju með árangurinn og lesendur þessarar færslu eindregið hvattir til að fara inn á vef Ríkisútvarpsins að leita verkið uppi.

 

 


Hefnd valdhafanna

Áheyrnaraðild Palestínumanna að Sameinuðu þjóðunum hefur verið samþykkt þrátt fyrir harða andstöðu Ísraelsmanna og verndara þeirra, Bandaríkjamanna.

 

Hefnd kúgaranna lét ekki á sér standa. Forsætisráðherra Ísraels burstaði rykið af gömlum tillögum um nýja byggð á Vesturbakkanum, sem verður til þess að byggðir Palestínumanna verði klofnar í tvennt. Bandaríkjamenn mótmæla en forðast að gera nokkuð til þess að afstýra verðandi framkvæmdum.

 

Það er hættulegt að eiga sér volduga andstæðinga. Það þekkist hér á landi sem annars staðar. Þann 19. desember árið 2000 kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm þar sem tengingar örorkubóta við tekjur maka voru dæmdar óheimilar. Þáverandi forsætisráðherra Íslands stóð þá fyrir lagasetningu sem skerti áhrif þessa dóms - hefndaraðgerð í garð öryrjka og andstæðinga þeirra.

 

Baráttan er hörð þegar sumir fara sínu vald í skjóli voldugra valdhafa.

 

 


Rafbækur opna nýjar víddir

 

Þegar Bókatíðendum er flett kemur í ljós að útgáfa rafbóka hefur aukist og koma nú mun fleiri rafbækur út en í fyrra. Allmargar þeirra eru endurútgefnar bækur og er það vel.

Ýmsar leiðir er hægt að fara til þess að lesa rafbækur. Margir velja sér rafbókalesara, en aðrir nota tölvurnar. Hlynur Már Hreinsson vakti athygli á viðbót við Firefox-vefskoðarann, sem nefnist Epubreader. Forritið er sáraeinfalt og dugar til að lesa flestar rafbækur. Það er þó vart sambærilegt við forrit eins og Digital Editions frá Adobe eða EasyReader frá Dolphin Computer Access, sem er sérhannað handa blindum eða sjónskertum lesendum. En Epub-lesarinn á Mozilla er þjáll í notkun og full ástæða til að benda fólki á hann.

 

Frágangur rafbóka

 

Að undanförnu hef ég keypt rafbækur frá Skinnu og Emmu og hafa þær allar verið aðgengilegar þeim tækjum og tólum sem ég nota. Ég hef þó orðið var við að frágangur rafbókanna er mjög misjafn. Nokkrar skáldsögur hef ég keypt eða halað niður þeim sem eru ókeypis. flestar eru vel frá gengnar, auðvelt að blaða í þeim, fletta á milli kafla, greinaskila o.s.frv.

 

Enn er lítið til af hand- og fræðibókum sem gefnar hafa verið út sem rafbækur á íslensku. Lýðræðissetrið virðist einna athafnasamast á þessum vettvangi, en það hefur gefið út 5 rit: Lýðræði með raðvali og sjóðvali á fjölda tungumála, Bókmenntasögur, Hjáríki, Þróun þjóðfélagsins og Sjálfstæði Íslands. Þessar bækur eru allar eftir Björn S. Stefánsson, sem stendur fyrir Lýðræðissetrinu. Það er þeim sammerkt að þær eru vel upp settar og firna vel frá þeim gengið. Frágangur hefur verið í höndum fyrirtækisins Tvístirnis.

 

Eina rafbók, ævisögu þekkts stjórnmála- og fræðimanns keypti ég um daginn. Hún er skemmtileg aflestrar. Nokkuð vantar þó á að hún sé skipulega uppbyggð sem rafbók og virðist ókleift að nota hefðbundnar rafbókaaðferðir til þess að fletta bókinni.

Vafalaust er hér um barnasjúkdóma rafbókanna að ræða. En fyrirtæki eins og http://www.skinna.is/ þarf að leggjametnað sinn í að bækur, sem teknar eru til sölu, standist kröfur sem gerðar eru um gæði og uppbyggingu rafbóka.

 

Nýr heimur

 

Þegar blaðað er í Bókatíðindum verður ljóst að úrval rafbóka er orðið svo mikið hér á landi að það opnar ýmsum, sem geta ekki nýtt sér prentað letur, nýjan heim. Vænta má þess að fræðimenn sjái sér aukinn hag í að gefa út rit sín með þessum hætti. Má nefna sem dæmi eina af fáum fræðibókum, sem komið hafa út að undanförnu, en það er bókin Dr. Valtýr Guðmundsson, ævisaga. Þótt umbroti bókarinnar sem rafbókar sé nokkuð ábótavant er þó mikill fengur að henni. Á höfundurinn, Jón Þ. Þór, sagnfræðingur, heiður skilinn fyrir framtakið.

 


Fullveldið plokkað af þjóðríkjum

 

Margir fylgjast með vaxandi ugg með því hvernig reynt er að soga Ísland inn í Evrópusambandið. Morgunblaðið hefur verið jafneinarður andstæðingur EES-aðildar og það er tryggt útgerðarmönnum. Í dag birtist leiðari í blaðinu þar sem rakin er sjálfvirk afgreiðsla Alþingis á hverju því sem berst frá Evrópusambandinu. Annar ritstjóri blaðsins er gagnkunnugur þessu færibandi og veit því hvað hann syngur.

Rétt þykir að birta þennan leiðara á þessum síðum.

 

 

Lýðræðishalli leynist víða

Föstudagur, 2. nóvember 2012

Breska kosningakerfið tryggir að oftast fer einn flokkur með stjórn landins á hverju kjörtímabili. Þannig sópaði Tony Blair til sín þingsætum og var með mikinn meirihluta í neðri málstofu þingsins eftir kosningar í maí 1997. Blair hafði vissulega unnið mjög góðan sigur og jók fylgið úr um 35 prósentum í rúm 43 prósent. Hann var sem sé fjarri því að hafa náð hreinum meirihluta atkvæða. En kosningakerfið færði honum hins vegar 418 þingmenn af 659 eða um 63 prósent þingsætanna fyrir 43 prósent atkvæðanna.

Þrátt fyrir óvinsældir Gordons Browns tókst Íhaldsflokknum ekki að tryggja sér hreinan meirihluta þingsæta í síðustu kosningum og myndaði flokksleiðtoginn því samsteypustjórn með Frjálslynda flokknum. Það samkrull virðist ekki vera blessunarríkt fyrir flokkana og frjálslyndir virðast mjög særðir. Í stjórnarmyndunarviðræðum fengu þeir þó samþykkt loforð um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Bretar vildu falla frá núverandi kerfi þar sem meirihluti í hverju kjördæmi fær sinn mann og önnur atkvæði „falla dauð" og taka í staðinn upp kerfi hlutfallskosninga. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni hafði hver maður eitt jafngilt atkvæði.

Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn sneru bökum saman um að verja núverandi skipan og höfðu auðveldan sigur. Þjóðin vildi áframhaldandi „óréttlæti" með hreinni kostum á hverju kjörtímabili, fremur en að ýta undir samsteypustjórnir og þar með á stundum óeðlileg ítök smáflokka í landstjórninni, eins og Íslendingar þekkja vel til.

Auðvelt er að halda því fram að þetta kerfi skapi viðvarandi „lýðræðishalla" en um leið er auðveldara að réttlæta hann eftir að hann hefur verið sérstaklega staðfestur með lýðræðislegum hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu.

En lýðræðishallinn er víðar. Fullyrða má að lagafrumvörp, sem lögð eru fyrir íslenska þingið með þeirri forskrift úr ráðuneyti að um „ees-mál" sé að ræða, fái ekki raunverulega lagasetningarmeðferð, nema að formi til. Slík mál eru fyrst lögð fyrir ríkisstjórn og fara þar í gegn umræðulítið og oftast umræðulaust. Og það er ekki aðeins að núverandi forsætisráðherra lesi þau ekki fremur en önnur frumvörp, það gerir enginn ráðherra annar. Raunar er gjarnan sagt að slík lög virðist enginn hafa lesið nema þýðandinn.

Hvernig stendur á þessu? Það er örugglega einkum vegna þess að allir þeir sem koma að málinu vita að þeir geta ekki haft nein áhrif á þessa lagasetningu. En það alvarlega er að hvergi fer fram raunveruleg könnun á því hvort lagasetningin er hverju sinni óhjákvæmileg nauðsyn vegna EES-samningsins. Og nú þegar „samningaviðræður" standa yfir um aðild að ESB hefur ástandið versnað um allan helming.

Allir vita að engar raunverulegar samningaviðræður fara fram. Óheiðarlegir stjórnmálamenn og óheiðarlegir eða meðvirkir embættismenn og svokallaðir „samningamenn" Íslands lúta hverri kröfu embættismanna ESB um aðlögun og hún er send í gegnum þingið á færibandi þess undir þeirri forskrift að „aðeins sé um ees-mál" að ræða. Meira að segja þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa ekki skorist úr þessum ljóta leik. Engin lýðræðisleg skoðun á sér stað. Enginn veltir fyrir sér hvort breytingarnar séu hollar íslenskum hagsmunum.

Sjálfsagt hefur meirihluti núverandi þingmanna enga burði til að leggja sjálfstætt mat á framangreinda hluti. En að auki er við ofurefli að etja og til lítils að lyfta litla fingri.

En svo aftur sé horft til Bretlands þá varð þar töluverður þinglegur atburður í vikunni. Samsteypustjórnin varð undir í máli sem varðaði fjárframlög til Evrópusambandsins. Forsætisráðherrann hefur þóst góður að orða það viðhorf að hann vilji vera á móti því að útgjöld sambandsins hækki á næstunni meir en sem nemur hækkun verðbólgunnar á svæðinu. En útgjöld ESB hafa þanist út á margföldum hraða hennar síðustu árin. En mörgum þingmönnum, þar á meðal „óþægum" þingmönnum Íhaldsflokksins, þótti betur fara á því að útgjöld ESB hækkuðu minna en verðlag á þeim tíma sem sambandið er sérstaklega herskátt að herja á útgjöld í aðildarlöndunum.

Verkamannaflokkurinn, sem hefur verið mjög hallur undir ESB, en ekki þó beinlínis í bandi þess eins og Frjálslyndi flokkurinn, sá sér leik á borði. Hann studdi þá óþægu og ríkisstjórnin varð undir í atkvæðagreiðslu í fyrsta sinn á kjörtímabilinu. Það þótti niðurlæging fyrir forsætisráðherrann. En þá er bent á að forsætisráðherrann sé alls ekki bundinn af niðurstöðu þingsins í þessu máli! Hann geti gegn vilja breska þingsins samþykkt á leiðtogafundi að auka útgjöld ESB, sem sendir stóran hluta þess reiknings til breskra skattborgara. Það er eitt dæmi af mörgum um hvernig ESB-aðild hefur smám saman plokkað fullveldi af þjóðum, án þess að þær hafi gert sér grein fyrir hvernig komið væri.


Hágæða útvarpsefni á Rás eitt

Sunnudaginn 21. þessa mánaðar var fluttur í Útvarpsleikhúsinu fyrsti þátturinn af þremur, sem bera heitið Heimkoma. Þar kannar Jón Hallur Stefánsson eyðibýli ásamt Danskri útvarpskonu, sænskri konu og Argentínumanni. Þau leika sér að hljóðumhverfi eyðibýlanna og flétta sama við eigin vangaveltum og skynjun auk sagna, sem þau verða áskynja um og snerta sögu eyðibýlanna.

Þeir, sem hafa unun af vel gerðum útvarpsþáttum, ættu ekki að láta þá framhjá sér fara og tilvalið er að leita í sarpi Ríkisútvarpsins að fyrsta þættinum. Jón Hallur stóð um síðustu aldamót að athyglisverðum þáttum í ríkisútvarpinu sem gengu undir nafninu Vinkill. Þar leitaði hann ásamt samverkafólki sínu nýrra leiða og margt frumlegt höfðust menn þar að. Greinlegt er að Jóni Halli hefur ekkert farið aftur.

Þá var hlutur dönsku útvarpskonunnar skemmtilegur. Greinilegt er að hún hefur kynnt sér fléttuþáttatækni danska útvarpsins, sem er fyrir margra hluta sakir mjög sérstök og hefur orðið mörgum að fyrirmynd.

Ástæða er til að fagna þessu vandaða efni og mættu menn fá meira af heyra f slíku efni.


Aldahvörf í málefnum blindra Íslendinga

Atkvæðagreiðslan um spurningar vegna breytinga á stjórnarskránni markar tímamót í sögu blindra Íslendinga. Í fyrsta skipti er blindu fólki, sem les blindraletur, gefinn kostur á að fá öll kjörgögn í hendur: kjörseðilinn prentaðan á blindraletri auk spjalds, sem lagt er yfir hinn eiginlega kjörseðil. Spjaldið er svo greinilega merkt að menn velkjast ekki í vafa um hvar setja eigi krossinn.

 

Ég fékk engar sérstakar leiðbeiningar ætlaðar blindu fólki sendar heim. En síðan thjodaratkvaedi.is reyndist með aðgengilegum upplýsingum.

 

Mér varð hugsað til þeirrar baráttu sem við tvíburabræður háðum á árunum 1974-78 til þess að tryggja lýðréttindi blindra einkum við utankjörstaðakosningar. Þegar sá sigur vannst þótti flestum það mikil bót og hið sama varð upp á teningnum, þegar farið var að leggja sérstök spjöld yfir kjörseðla sem gerðu blindu fólki kleift að kjósa í einrúmi.

 

Í morgun var mér tjáð að sækja þyrfti formann kjörstjórnar til þess að úrskurða um heimild mér til handa til þess að fá aðstoð á kjörstað. Ég benti á að þess þyrfti ekki, öll gögn væru fyrir hendi og varð svo að enginn var úrskurðaður aðstoðarmaður minn.

 

til hamingju, allir þeir sem blindir eru og aðrir þeir, sem þurfa á blindraletri að halda.

 


Þjóðremba byggð á minnimáttarkennd

Tortryggni og allt að því fjandskapur einkenndu athugasemdir flestra þeirra, sem báru fram spurningar eftir fyrirlestur Halldórs Jóhannssonar. Var öllu ruglað saman. sumir fyrirspyrjenda virtust ekki átta sig á að það land, sem Huang Nubo hafði hug á að kaupa á Grímsstöðum, stóð til boða og ekkert annað. Þess vegna var kauptilboðið gert.

Þegar allt var komið í óefni og kaupheimildinni hafði verið hafnað, var hafist hand að nýju og þá datt forystumönnum sveitarfélaga á Norðausturlandi og Austfjörðum í hug að kaupa þann hluta jarðarinnar á Grímsstöðum, sem stóðu til boða. skyldi síðan Huang Nubo leigðir um 300 hektarar undir mannvirki, en hitt gert að fólkvangi.

Þá hófust handa menn sem spurðu í forundran, hvernig ætti að koma öllu þessu fyrir á 300 hekturum. virtust þeir hinir sömu ekki gera sér grein fyrir að sumir kaupstaðir landsins ráða ekki yfir stærra landi og má þar nefna Seltjarnarnes sem dæmi.

Þá var leitað loganda ljósi að einhverjum fjársvikamyllum, sem Huang Nubo og fyrirtæki hans væru flækt í. fréttaritari ríkisútvarpsins fór m.a. með dylgjur í Speglinum um Kínversk-íslenska ljóðasjóðinn sem hann sagði að aldrei hefði skilað sér. Að vísu var hægt að leiðrétta þennan misskilning, en engin afsökun birtist í Speglinum heldur á heimasíðu fréttaritarans.

Þegar þetta mál var rætt við forystumenn kínverskra samtaka og stofnana í fyrra og einhverjar sögusagnir viðraðar um meint mistök kínverskra verktaka í Afríku og víðar, var ævinlega sama svarið: "Þið hljótið að ráða því hvað út úr slíkum samningum kemur. Íslendingar hafa svo sterka innviði.

Þótt lítið hafi verið um óskir Íslendinga í garð Kínverja um fjárfestingar hér á landi ffyrst eftir stofnun íslenska sendiráðsins í Beijing, voru nokkrir kínverskir fjárfestar áhugasamir um að fjárfesta hér á landi. En þeir féllu frá áformum sínum vegna ýmissa atriða. Hitt vita margir að ýmsir Íslendingar hafa eftir hrunið leitað eftir þátttöku kínverskra fjárfesta í ýmsum verkefnum, sem þeir hafa á prjónunum og telja jafnvel að það sé forsenda þess að þeir komi hugmyndum sínum í framkvæmd.

Á fundinum í dag var bent á nokkur atriði, sem hugsanlega þyrfti að laga í samningum þeim, sem nú eru í burðarliðnum við Huang Nubo og fyrirtæki hans. Lára Hanna einarsdóttir sagði að þeir væru "eins og gatasigti". Gott og vel. Fari nú lögfræðingar yfir drögin og lagfæri það sem er ábótavant.

Íslendingar verða að hætta að fjandskapast við þá, sem hafa hug á fjárfestingum hér á landi. Án þeirra verður minni von um efnahagslegar framfarir en ella. Þetta snýst ekki um eignarhald heldur sanngjarna nýtingu náttúruauðæfa öllum til hagsældar.

Fyrir skömmu hitti ég fyrrverandi ráðherra og barst þetta mál í tal. Þessi íslenski ráðherra greindi mér frá samræðum við Þjóðverja, sem var að semja um ýmislegt tengt orkumálum í Kína. Var samingamaðurinn með á takteinum upplýsingar um orkuverð í helstu orkusölulöndum heims. Neðstir á blaði voru Íslendingar! "Og við fengum aldrei að vita þetta í ríkisstjórninni", sagði fyrrum ráðherrann.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband