Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sláðu á þráðinn

SLÁÐU Á ÞRÁÐINN -- MEÐ KÆRRI KVEÐJU TIL KULUSUK!

Nú er hægt að taka þátt í söfnun vegna bruna tónlistarhússins í Kulusuk með einu símtali:

Sími 901 5001 -- 1000 krónur
Sími 901 5002 -- 2000 krónur
Sími 901 5003 -- 3000 krónur

SÝNUM VINÁTTU OKKAR OG SAMHUG MEÐ ÍBÚUM KULUSUK Í VERKI. -- DREIFUM ÞESSU SEM VÍÐAST. FRAM TIL SIGURS.


Enn setur Alþingi ofan

Eftir efnahagshrunið haustið 2008 töldu ýmsir að brátt rynni upp nýtt skeið í íslenskum efnahags- og stjórnmálum – kröfur til lífsgæða færu minnkandi, fjármálamenn yrðu varfærnari, þeir sem hafa aðgang að auðlindum hafsins sanngjarnari og þingmenn skynsamari. Þeir, sem efuðust um þessa spádóma voru taldir bölsýnismenn og valin ýmis orð, því að þeir fylgdu ekki straumnum.

Nú hyllir undir lok þessa kjörtímabils og tímamótastjórnin, sem margir bundu miklar vonir við, hverfur brátt af vettvangi. Þótt hún hafi valdið flestum landsmönnum miklum vonbrigðum verður því ekki á móti mælt að hún hefur áorkað ýmsu sem óþarft er að rifja upp. Annað hefur setið á hakanum og má rekja það m.a. til þeirrar umræðuhefðar, sem skapast hefur á Alþingi Íslendinga, sem er orðið sannkallað þrætuþing.

FLUMBRUSTJÓRNMÁL

Í vongleðinni var rokið til og boðaður þjóðfundur. Síðan var efnt til kosninga um stjórnlagaþing sem skyldu fengnir þrír eða fjórir mánuðir til að semja nýja stjórnarskrá. Kosningin var dæmd ólögmæt og var því stjórnlagaráð skipað í staðinn. Engum datt í hug að því tækist að semja heilsteypta stjórnarskrá á þeim skamma tíma sem því var ætlað.

Þótt margt í tillögum ráðsins væri allrar athygli vert var annað sem stóðst ekki. Texti frumvarpsins er á köflum ruglingslegur og ómarkviss og jafnvel má finna í honum mótsagnir. Enginn áhugi virtist á að lagfæra frumvarpið strax í upphafi og var það í raun látið dankast í meðförum þingsins.

OFBELDISSTJORNMÁL

Það fór eins og fyrri daginn að stjórnarandstaðan neytti allra bragða til að hindra framgang mála, sem hún taldi sér óhagstæð. Þannig lögðust framsóknar- og sjálfstæðismenn á kvótafrumvarpið og nú síðast stjórnarskrárfrumvarpið, sem er í raun orðið handónýtt og verður ekki afgreitt á þessu þingi. Formenn þriggja flokka reyndu að bera fram tillögu um aðferð, sem duga mætti til þess að fleyta stjórnarskrárbreytingum fram á næsta kjörtímabil. Það jók enn á glundroðann og var í raun andvana fætt eins og tilraunir þeirra Jóns Sigurðssonar og Halldórs Ásgrímssonar til þess að koma á síðustu stundu fram með breytingartillögur á stjórnarskránni fyrir kosningar árið 2007.

Á undanförnum áratugum hefur hvað eftir annað gerst að stjórnarandstaðan hafi haldið þinginu í gíslingu með málþófi sem hefur ekkert með lýðræði að gera. Oftast er þar um þrætubókarlist af verstu gerð að ræða. Má þar nefna fólk eins og Sverri Hermannsson, Jóhönnu Sigurðardóttur og Bjarna Benediktsson og eru þá fáir einir nefndir. Þar hefur lýðræðisástin ekki ráðið ríkjum, heldur hefur tilgangurinn helgað meðalið.

BBREYTINGA Á ÞINGSKÖPUM ER ÞÖRF

Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar á undanförnum árum til að breyta því ástandi, sem ríkt hefur á Alþingi Íslendinga, einkum þegar þinglausnir nálgast. Þær hafa þó ekki dugað til að hindra endalausar umræður á þinginu, sem tefja mál meira en góðu hófi gegnir.

Alþingi gæti margt lært af fundarsköpum þeim sem tíðkuð eru á meðal þróaðra félaga, sem starfa í landinu. Þar er slík þrætubókalist, sem Alþingismenn iðka, ekki leyfð.

Þá hafa verið kynntar fyrir Alþingismönnum aðferðir, sem eiga að duga til þess að stuðla að málefnalegri umræðu. Forysta þingsins hefur engan gaum gefið að þeim og óbreyttir þingmenn þora ekki að ráðast í neinar breytingar, jafnvel ekki þingmenn Hreyfingarinnar.

Ofbeldið, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt að undanförnu, sýnir því miður að hann er enn sérhagsmunagæsluflokkur fámenns hóps sem ætlar sér ekki að láta af hendi það, sem þróaðist á 9. Áratugnum og hefur gjörsamlega gengið sér til húðar. Áður hefur verið minnst á það á þessum síðum, að Einar Már Jónsson, sagnfræðingur, greindi skemmtilega frá því í bók sinni „Bréf til Maríu“ hvernig íhaldsmenn hafa ævinlega barist á hæl og hnakka gegn öllum breytingum. Þannig er þetta, þannig hefur þetta verið og verður sjálfsagt áfram. En fyrr eða síðar lætur eitthvað undan og íhaldið bíður ósigur.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú hengt raufarstein um háls sér sem eru úrelt sérhagsmunagæsluviðhorf, innihaldslaus kosningaloforð og fortíðin, sem flokkurinn dröslast ennþá með í eftirdragi. Þeir, sem muna valdatíð flokksins árin 1991-2007 hljóta að hugsa sig um tvisvar, áður en haldið verður inn í kjörklefann og merkt við listabókstaf, þrátt fyrir loforð um fyrirgreiðslu til handa heimilunum í landinu.


Sum vefrit Atvinnumálaráðuneytisins óaðgengileg - brot á opinberri aðgengisstefnu

Stöðugt fjölgar þeim bókum sem eru aðgengilegar sem rafbækur. Sum ritverk eru aðgengileg sem pdf-skjöl en önnur sem rafbækur á EPUB-eða MOBI-sniði.
Ég hef að undanförnu kynnt mér ýmislegt sem snertir sögu sjávarútvegsins. Fagnaði ég því að sjá að hið ágæta verk Jóns Þ. Þórs, saga sjávarútvegsins, væri nú heimil öllum til niðurhals. Ekki var þó allt sem sýndist í fyrstu, samanber bréf mitt til Atvinnumálaráðuneytisins, sem hér birtist.
Greinilegt er að frágangur þessa þriggja binda verks er ekki í neinu samræmi við aðgengisstefnu stjórnvalda. Viðleitnin var góð, en betur má ef duga skal.

BRÉFIÐ TIL RÁÐUNEYTISINS

Heiðraði viðtakandi.

Í upphafi skal tekið fram að ég nota skjálesara með talgervli og blindraletri.

Vefsíða Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins er allvel aðgengileg. Þar sem ég hef verið að kynna mér ýmislegt sem snertir sögu sjávarútvegs á Íslandi fagnaði ég því að sjá að Saga sjávarútvegsins eftir Jón Þ. Þór væri nú aðgengileg á vefnum. Halaði ég því niður öllum bindunum á pdf-sniði. Eftirfarandi kom í ljós:

1. Talsvert vantar á að fyrstu tvö bindin séu sómasamlega unnin. Til dæmis skilar bókstafurinn ð sér sjaldan. Það má þó notast við eintakið. Þá hefur engin tilraun verið gerð til að setja krækjur í efnisyfirlit svo að erfitt er að fletta í skjölunum.

2. Þriðja bindið er algerlega óaðgengilegt þeim sem nota skjálesara fyrir blindraletur eða talgervil. Það virðist hafa verið gengið frá síðunum sem hreinum myndum og því geta skjálesarar ekki nýst við lesturinn.

Ég fer þess vinsamlegast á leit við hæstvirt ráðuneyti að ráðin verði bót á þessu með 3. bindið. Síðan þarf ráðuneytið að láta lagfæra 1. og 2. bindi verksins svo að þaað verði sæmilega aðgengilegt þeim sem hyggjast nýta sér verkið til útgáfu.

Ég hef rætt þessi mál við höfundinn og veldur það honum vonbrigðum hversu staðið hefur verið að frágangi þess á vefnum.

Virðingarfyllst,

Arnþór Helgason

---

Arnþór Helgason, vináttusendiherra,

Tjarnarbóli 14,

170 Seltjarnarnesi.

Sími: 5611703

Farsími: 8973766

Netföng: arnthor.helgason@simnet.is

arnthor.helgason@gmail.com

http://arnthorhelgason.blog.is

http://hljodblog.is


Glæsir eftir Ármann Jakobsson - grípandi skáldsaga

Skáldsagan Glæsir eftir Ármann Jakobsson vakti athygli mína þegar hún kom út hjá Forlaginu haustið 2011. Þó varð ekkert úr því að ég læsi hana fyrr en í þessari viku, en þá keypti ég hana sem rafbók.
Sagan byggir á atburðum sem sagt er frá í Eyrbyggju. Þórólfur, sem uppnefndur var bægifótur eftir meini sem hann hlaut í einvígi, gerist illvígur með aldrinum og eftir dauðan marg-gengur hann aftur.
Skáldsagan lýsir hugrenningum draugsins á síðasta skeiði hans og hvernig eðli hans mótaðist af aðstæðum. Ármann, sem er gagnkunnugur íslenskum fornbókmenntum, greinir einnig goðaveldið og miskunnarleysi þess gagnvart þeim, sem þóttu ekki standa jafnfætis ættstórum mönnum.
Sagan er áleitin og einstaklega vel sögð. Orðfærið er auðugt og sagan hrífur lesandann með sér.
Margir höfundar hafa leitað í fornbókmenntirnar og hefur tekist það misvel. Glæsir hlýtur að teljast eitt af meistaraverkum íslenskra bókmennta á þessari öld, jafnvel þótt Íslendingar hætti að skilja tungu sína og Glæsi verði að þýða á ensku.
Til hamingju, Ármann.


Óprúttinn söluskálaeigandi, indæl afgreiðslustúlka og konan sem átti gítarinn

Um helgina fórum við hjónin austur í Öræfi. Gistum við á Hótel Skaftafelli og nutum þar góðs atlætis. Laugardaginn 23. febrúar nutum við lífsins í Skaftafelli í einstæðri kyrrð, sem skreytt var með sytrandi lækjum og freyðandi fossum.


Þaðan var haldið að Jökulsárlóninu við Breiðamerkursand. Var þá kominn tími til hádegisverðar.


Heillandi snót og nískur veitingamaður

Á móti okkur tók indæl, ung stúlka, sem átti rætur að rekja til sæmdarhjónanna á Brunnhóli á Mýrum, þeirra sigurjóns og Þorbjargar, en þau heimsótti ég sumarið 1967 og stilltum við bræður gítar heimasætunnar, dóttur Arnórs sonar þeirra hjóna. Meira um það síðar.


Söluskálinn við Breiðamerkurlón er orðinn býsna lúinn og flest sparað í viðhaldi sem hægt er. Ég hugðist færa stól nær borðinu og tók undir arma hans. Varð þá hægri armurinn laus. Virtist þetta sami stóllinn og ég settist á fyrir þremur árum og þá var armurinn laus.


Í boði var prýðileg humarsúpa sem hver gat fengið eins mikið af og hann vildi. Brauðsnúðarnir voru hins vegar komnir til ára sinna og svo seigir að þeir urðu vart tuggðir. Sjálfsagt gengur vel að selja þessar veitingar við lónið, þar sem eigandi söluskálans er einn um hituna og þarf því vart að hafa áhyggjur af að menn fari annað. Er þetta illt afspurnar.


Eftir að hafa gert þessum kræsingum skil og kvatt hina ungu snót, héldum við hjónin niður í fjöru að hljóðrita. Náðust þar tvö hljóðrit af hamförum sjávar og íss. Þaðan var haldið að Þórbergssetrinu á Hala. Hittum við Þorbjörgu Arnórsdóttur og spurði ég eftir hrútnum Þorkatli á Hala, en honum hefur víst verið safnað til feðra sinna. Hann hljóðritaði ég fyrir þremur árum ásamt fósturmóður hans, sem virtist fáar tilfinningar bera til þessa lambhrúts, sem neytt var upp á hana, gamalána sjálfa. Þorbjörg Arnórsdóttir reyndist vera stúlkan, sem átti gítarinn, sem getið var um hér að framan.


Forstjóramálið varð Guðbjarti að falli

Flestir töldu að bitamunur en ekki fjár væri á milli þeirra Guðbjarts Hannessonar og Árna Páls Árnasonar. Þegar ljóst varð að þeir yrðu báðir í framboði til formanns Samfylkingarinnar varð fljótlega ljóst að Guðbjartur ætti undir högg að sækja vegna þess ófremdarástands sem skapaðist á Landsspítalanum eftir að laun forstjórans voru hækkuð í haust. Þótt hækkunin væri afturkölluð hefur það ekki dugað og enn eiga menn eftir að bíta úr nálinni vegna þessara mistaka ráðherrans. Sumir Samfylkingarmenn hafa reyndar talið að Guðbjartur hefði átt að sjá sóma sinn í að segja af sér sem ráðherra - ástæðan væri alvarleg afglöp í starfi.


mbl.is Árni kosinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn Íslendingur tapaði

Úrslitin í Ísbjargarmálinu urðu afdráttarlausari en margur hugði. Nú reynir á þroska Alþingismanna að þeir brigsli ekki hver öðrum um það sem á undan fór. Mestu skiptir að þeir, sem höfðu varann á í þessu máli fengu sínu framgegnt og þar átti forseti vor drúgan hlut að. Það þýðir þó ekki, eins og einhver blaðamaður spurði, að ósigur ESA sé um leið ósigur ríkisstjórnarinnar. Hverjir hefðu tapað, hefði dómurinn fallið á annan veg?

Til hamingju, allir Íslendingar!


mbl.is Eigum ekki að leita sökudólga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yndislega eyjan mín 40 árum síðar

Tónleikarnir, Yndislega eyjan mín 40 árum síðar, sem haldnir voru í Eldborgarsal Hörpu í kvöld, voru vel heppnaðir. Flestir söngvararnir komu ánægjulega á óvart. Nefni ég einkum Sigríði Beinteinsdóttur, Margréti Eir, Magna Ásgeirsson og Þór Breiðfjörð. Enginn vissi hvað kynnirinn hét því að hann var hvorki kynntur í efnisskrá né kynnti hann sig sjálfur. Hann stóð sig þó með prýði.

Margar útsetningar Þorvalds Bjarna Þorvaldssonar voru ágætar og hljóðblöndunin yfirleitt góð. Þó fór styrkurinn nokkrum sinnum yfir þolmörk vinstra eyra á sjötugsaldri.

Það var áberandi hvað textar laganna voru vel ortir. Af yngri textunum skáru sig úr Kvöldsigling, tvö lög Stuðmanna og Þjóðhátíðarlagið 1997. Verstu textar kvöldsins voru Vestmannaeyjar, lag og ljóð eftir Jóhann G. Jóhannsson. Þar er nafnið Vestmannaeyjar haft í eintölu og þótti mér, þegar lagið kom út á hljómplötu 1977 með ólíkindum að Logar skyldu syngja þetta. >Þá hafði verið efnt til ljóðasamkeppni í tilefni tónleikanna og var ljóð valið, sem ort var árið 1977. Þar var ekki fylgt hefðbundnum reglum ríms og ljóðstafa. Auk þess voru ambögur í ljóðinu, sem hefði átt að lagfæra, einkum í ljósi þess að sú sem setti saman ljóðið, var 19 ára árið 1977 og hefur væntanlega farið fram síðan. Ljóðið sýndi í hnotskurn þær hrakfarir sem íslensk textagerð hefur orðið að sæta að undanförnu.

Í lok tónleikanna var sungið lag Brynjúlfs Sigfússonar við kvæði Sigurbjörns Sveinssonar, Yndislega eyjan mín. Lagið var upphaflega ætlað Samkór Vestmannaeyja, en um tíma voru í kórnum miklar sópranraddir. Í kvöld var lagið sungið í B-dúr. Betur hefði farið á að færa það niður í G-dúr. Þá hefðu fleiri getað tekið undir.

Aðstandendum tónleikanna er þökkuð góð skemmtun og flytjendum afbragðs flutningur.


Þögnin eftir Andrés Indriðason - vel heppnað leikrit



Útvarpsleikhúsið 20. jan 2013 | 13:00



Þögnin eftir Andrés Indriðason. Leikendur: Esther Talía
Casey og Ólafur Egill Egilsson. Leikstjóri: Erling Jóhannesson. Hljóðvinnsla:
Einar Sigurðsson.



Andrés Indriðason hefur verið iðinn við kolann í útvarpi undanfarna
5 áratugi. Leikrit hans eru orðin mörg, ærið misjöfn að gæðum eins og gengur.



Frumflutningur Þagnarinnar var vel heppnaður. Ekki var
auðheyrt hvernig leikurinn endaði. Þó var byggð upp ákveðin spenna sem leystist
loks úr læðingi, eins konar sprenging. Leikararnir skiluðu sínum hluta með
aðdáanlegum hætti - blekkingin, hefndarþorsti, auðmýking og heift skinu í gen
þar sem við átti.





Hljóðmynd og leikstjórn



Á þessum síðum hefur nokkrum sinnum verið fjallað um
hljóðmyndirnar í útvarpsleikritum. Yfirleitt eru þær allvel heppnaðar og svo
var að mestu um hljóðmyndina í Þögninni.



Í öðru atriði leiksins var brugðið upp mynd af persónunum
þar sem þær voru á leið yfir fjalllendi í bifreið. Vegurinn ósléttur og
glamraði í bílnum. Greinilegt var að glamrinu var bætt ofaná hljóðmyndina því
að í því var bergmál, sem átti ekki heima þar. Þá var ökumaðurinn til hægri í
myndinni.



Þegar ég hef rætt slík atriði við tæknimenn og áhugamenn um
útvarpshlustun hafa flestir haldið því fram að þeim finnist þeir sjá inn í bifreiðina
inn um framrúðuna. Mér finnst ævinlega að ég sitji í bílnum með sögupersónunum
og þá sé eðlilegt að bílstjórinn sé vinstra megin.



Í 3. Atriði leiksins urðu tæknimanni eða leikstjóra á
afdrifarík mistök. Þá heyrðist bíllinn koma í hlað og ekki var ljóst hvort um
sömu tegund hafi verið að ræða. Út steig bílstjórinn vinstra megin og farþeginn
hægra megin.



Að öðru leyti var hljóðmyndin fremur sannfærandi. Á
veröndinni var hljóðumhverfið næsta eðlilegt. Timburgólf og eins og húsveggur í
nánd.



Atriðin inni í sumarhúsinu voru vel heppnuð og skondið var
að hlusta á aðra sögupersónuna hrapa niður snarbrattan stiga.





Tímaskekkja



Í öðru atriði leiksins hafði bílstjórinn orð á að nú væri
veiðitíminn hafinn, enda var hann eins búinn og haldið skyldi til rjúpna. Því
skaut skökku við að heyra í hrossagauk, lómi og lóu þegar út úr bílnum var
komið.





Veðrið



Í leikritinu var þoka, niðdimm þoka. Ég hafði á
tilfinningunni að í þessari þykku þoku bærðist vart hár á höfði. En viti menn.
Stundum strauk gola blíðlega um hljóðnemann, einkum þann vinstri. Þá hefði
þokan ekki átt að vera svona dimm.





Niðurstaða



Leikritið er vel saminn og söguþráðurinn sannfærandi. Við
framsetningu efnis í útvarpi þurfa tæknimaður og leikstjóri að vera vel á verði
til þess að halda trúverðugleika hljóðmyndarinnar.



Höfundi verksins og Útvarpsleikhúsinu er óskað til hamingju
með afraksturinn.




Rafræn skilríki og vandamál vegna vefvafra

fyrir nokkru fór að bera á vanda við að nota rafræn skilríki á debet-korti til þess að ná sambandi við banka og aðrar stofnanir.
Nú hefur keyrt svo um þverbak að ég næ hvorki sambandi með firefo 18x né Internetexplorer 9. Hins vegar verkar Googlechrome.
Þá kemur upp sá vandi að googleChrome les ekki alla hnappa eða táknmyndir, sem notaðar eru í bönkum og stend ég því uppi ráðafár. Starfsmenn Íslandsbanka kannast við þetta vandamál og starfsmaður Auðkennis, sem hefur umboð fyrir hugbúnaðinn sem notaður er, sagði mér að erfitt væri sænskum framleiðendum að fylgja eftir þróun netvafranna. Fyrir vikið er mér tjáð, tjáð, þegar ég reyni að komast inn, að skilríkið sé útrunnið eða ógilt. sumar stofnanir segja mig ekki hafa leyfi til að skyggnast inn á vfsíður og þurfi að leita samninga við rétthafa þeirra. Þá eru á öðrum heimasíðum gefnar leiðbeiningar um aðgerðir sem hægt er að grípa til í Windows Explorer. Þrátt fyrir ítarlega leit hef ég ekki fundið nein gögn sem eiga við vandamálið.

Ég taldi rafræn skilríki af hinu góða og ætla að halda því áfram um sinn. En þessi vandræði geta vissulega valdið fólki miklum töfum og jafnvel fjárhagstjóni.

Í kvöld sótti ég greiningarforrit frá auðkenni og gangsetti það. Greiningarforritið greindi enga bilun og fullyrti að skilríkið væri gilt. Því á ég enga sök í þessu máli heldur verð ég að leita réttar mínns hjá Auðkenni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband