Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Málskilningur Google lofar góðu

Í þessum pistli er fjallað um einn aðgengisþátt í Android-umhverfinu. Þar er minnst á tvenns konar hugbúnað:

Mobile Accessibility er sérstakur hugbúnaður frá Code Factory, sem er í eigu Spænsku blindrasamtakanna. Hann gerir blindu og sjónskertu fólki kleift að nota snjallsíma með því að tengjast talgervli. Viðmótið hefur verið einfaldað að mun. Blindrafélagið hefur ákveðið að láta þýða Mobile Accessibility á íslensku.

Talkback er aðgengisbúnaður sem er hluti aðgengislausna Android-kerfisins. Sá sími, sem fjallað er um hér, er Samsung Galaxy S3 GT9000 með stýrikerfi 4.1.2. Með útgáfu 4.2 batnar aðgengið að mun.

Talsvert hefur verið fjallað um íslenska leitarvél Google og ekki að ástæðulausu. Það hefur hins vegar vafist fyrir ýmsum hvernig eigi að stilla Android-símana til slíkra nota. Nú skilur Samsung-síminn minn loksins íslenskt, mælt mál.

Í kvöld kom kunningi okkar í heimsókn. Sá er mikill ástríðumaður um tölvur og hefur nýlega keypt sér Android-spjaldtölvu af gerðinni Samsung með stýrikerfi 4.1.2. Í fikti okkar komumst við að því að leiðsagnarforritið Navigation í tölvunni gerði honum kleift að segja íslensk nöfn á götum og húsanúmer, þó með þeim annmörkum að hann varð að hafa fyrstu fjórar tölurnar í nefnifalli, samanber Lindarbrautþrír.

Þegar hann var farinn hófst ég handa við að samhæfa símann hjá mér því sem kallast Scandinavian Keyboard og Icelandic Dictionary eftir Sverri Fannar. En fyrst varð ég að kveikja á Talkback-forritinu og slökkva á Mobile Accessibility. Þá fór ég í Speaksearch og las inn á íslensku nokkur leitarorð. Síminn fann ýmislegt á vefnum og birti niðurstöðurnar á augabragði. Þannig komst ég að því að kunningi minn hafði sett húsið sitt í sölu og auglýst á mbl.is og að svili minn var í framboði til Stjórnlagaráðs.

Fyrst, þegar ég leitaði að sjálfum mér, ruglaðist forritið á mér og Arnóri Fannari, en skildi í annarri tilraun að ég væri að leita að minni auvirðilegu persónu.Ég reyndi síðan aðferðina með Mobile Speak. Það virtist ekki ganga að öllu leyti því að Mobile Accessibility þekkir ekki íslenskt lyklaborð. Þó má vera að hægt sé að hringja í símanúmer með nokkrum tilfæringum með því að lesa númerin inn á íslensku, þegar Mobile Accessibility er notað, en hæpið er að það borgi sig. Niðurstaðan er því þessi:

Leitarvél Google skilur merkilega vel íslensku. Nauðsynlegt er að fara fram á við Code Factory að Mobile Accibility þekki Scandinavian Keyboard og helst ætti að breyta hönnun forritsins þannig að það aðlagaði sig að þeim lyklaborðum sem valin eru hverju sinni. Hjá mér er það Scandinavian Keyboard og Sansung lyklaborð.

Þá virðist Mobile Accessibility breyta sumum skjáskipunum Talkback þannig að endurstilla þurfi kerfið þegar Talkback er notað. Er það ótvíræður ókostur.


Fjarar undan Hellisheiðavirkjun

Stundum kemur upp kvittur í samfélaginu sem fer hljótt, læðist með jörðu eins og dalalæða. fyrir nokkru barst það út um heimsbyggðina hér á landi, en fór hljótt, að jarðhitasvæðið á Hellisheiði stæðist ekki álag. Þeir sem greindu frá þessu, fóru með þennan sannleika eins og mannsmorð. Hægrimenn fussuðu, miðjumenn urðu efins en vinstrimenn trúðu þessu. Nú er komið í ljós að þetta er rétt.

Eitt sinn birtist pistill á þessum síðum um stækkun Hellisheiðarvirkjunar og þá firringu sem væri fólgin í því að nýta jarðhita eingöngu til raforkuframleiðslu, en sagt er að einungis nýtist 10-14% orkunnar í því sambandi. Höfundur pistilsins sætti talsverðu ámæli fyrir vanþekkingu og úrtölur. Þess skal getið að höfundur er hvorki jarðfræðingur né rafeindavirki, en hafði þessar staðreyndir úr ýmsum áttum.

Annað hefur komið á daginn og nú er ekki annað í vændum en blása Helguvíkurálverið endanlega af og hugsa sig tvisvar um áður en ráðist verður í frekari stórvirkjanir. Ívilnunin á Bakka er ekki fordæmisgefandi. Reyndar hneykslast margir á Ragnheiðu Elínu Árnadóttur fyrir að láta sér detta í hug að reyna megi slíkar ívilnanir handa Suðurnesjamönnum, en gleyma því um leið hverra þingmaður hún er og muna ekki heldur hvar fyrrverandi iðnaðarráðherra sat, þegar hann skrifaði undir Bakkasamningana. Eitt er víst. Ríkisstjórnin þarf að hugsa sig vandlega um á næstunni.


Leiðsögnin í strætó og smáforritið

Fyrir tæpum þremur árum var leiðsagnarkerfið tekið í notkun hjá Strætó. Gerð var úttekt á því eftir áramótin og fék talandi leiðsögnin falleinkunn. Ég ferðast talsvert með strætisvögnum og verð þess varla var að neitt hafi breyst til batnaðar.

Ég leit áðan á smáforrit sem Strætó dreifir og gerir fólki kleift að skoða í snjallsímum staðsetningu vagnanna. Það er óaðgengilegt. Lítill vandi hefði verið að koma fyrir aðgengislausn handa blindum eða sjónskertum farþegum. Hefði hún getað falist í því að tilgreina hvar vagninn væri staddur þegar stutt er á númer vagnsins. Mér sýnist að þá séu gefnir upp nokkrir möguleikar. Hefði t.d. verið hægt að samtengja lesturinn staðsetningarbúnaði símans sem fyrirspurnin barst úr. Það er áríðandi að hönnuðir smáforrita, sem ætluð eru til nota í spjaldtölvum og farsímum gleymi ekki aðgenginu. Það verður sífellt þýðingarmeira eftir því sem notkun spjaldtölva og snjallsíma eykst. Eigi blind og sjónskert börn að geta haldið í við sjáandi félaga sína verða hönnuðir að sjá til þess að sem flest smáforritin verði aðgengileg.

Fer ekki að verða tímabært að efna til aðgengisupplýsingaráðstefnu? Það eru 10 ár síðan sú síðasta var haldin.


Ágrip sögu Skaftfellings VE 333 á rafbók

Árið 2002 gáfum við Sigtryggur bróðir út bækling með ágripi af sögu Skaftfellings VE 333, en hann var í eigu fjölskyldunnar í rúma fimm áratugi. Voru safninu að Skógum afhent 1.000 eintök bæklingsins. Víða var leitað fanga. Samgöngusaga Austur-Skaftafellssýslu eftir Pál Þorsteinsson var drjúg heimild, svo og Verslunarsaga Skaftfellinga eftir Kjartan Ólafsson og útvarpsþættir, sem Gísli Helgason gerði.

Nú verður bæklingurinn senn gefinn út sem rafbók. Rafbókin, sem er á EPUB-sniði, er í raun tilbúin til dreifingar og verður dreift endurgjaldslaust á netinu. Í henni er ágrip sögu skipsins á þýsku og ensku. Þeir, sem hafa hug á að skoða bæklinginn, geta snúið sér til undirritaðs, annaðhvort símleiðis eða með því að senda póst á arnthor.helgason@gmail.com


Leiðsögnin í Android-snjallsímum

Meðfylgjandi pistil birti ég á Fasbókinni í gærkvöld.

Í dag fór ég villur vegar og er ástæðulítið að hrósa sér af því. Ég hugðist koma mér heim úr Reykjavíkurakademíunni og nota gönguleiðsögnina í símanum. Hún vísaði mér á Álagranda, en hann liggur að hluta samsíða göngustíg sem liggur að Keilugranda, en þaðan er haldið inn í Frostaskjól. Eitthvað fór úrskeiðis hjá mér og rammvilltist ég. Ég kannaði öðru hverju hvar ég væri og fékk upp götuheitið. Að lokum vék sér að mér kona nokkur og ráðlagði mér að fara út á Meistaravelli. Eftir nokkrar leiðbeiningar og allnokkra villu rambaaði ég á götuna og fann strætisvagnaskýli við Fliðrugranda. Af einhverjum undarlegum ástæðum var mikil umferð mér á hægri hönd og velti ég fyrir mér hvort svona mikil umferð væri eftir Kaplaskjólsveginum. Þá kom strætisvagn og taldi ég að það væri leið 15. Hann stansaði hinum megin við götuna og beið ég dálitla stund. Þá kom það sem ég taldi vera leið 13 og spurði ég til öryggis hvort ekki væri um leið 13 að ræða. Þetta var þá leið 15 og leið 13 þá nýfarin vestur á Nes. Áttaði ég mig þá á heimsku minni og hefði betur hugsað mig nánar um, því að umferðin, sem ég heyrði í fjarska var auðvitað frá Hringbrautinni. Niðurstaðan er þessi eftir ævintýri dagsins: 1. Sennilega er rétt að útvega sér áttavita í tækið, en slíkur áttaviti er á Android-markaðinum. 2. Staðsetningarbúnaður farsímanna mætti vera nákvæmari og tilgreina húsnúmer og götuheiti. Reyndar er gert ráð fyrir því í búnaðinum, en skráningu virðist ábótavant eða rangur gagnagrunnur notaður. 3. Rökhugsunin þarf að vera í lagi. Það er svo sem ekkert óeðlilegt að blindur einstaklingur verði áttavilltur úr því að sjáandi fólk villist í litlu skyggni. Eftir á að hyggja hefði akstursleiðsögnin dugað að sumu leyti betur, því að hún tilgreinir fjarlægð frá áfangastað. Ég hugðist hins vega láta á það reyna hvort göngustígurinn, sem minnst var á hér að framan, væri skráður. Það verður gert innan skamms. Veðrið var hins vegar hlýtt og gott að vita af því að þrátt fyrir aldurinn hafi ég enn gaman af að spreyta mig á tilraunum með nýja tækni.


Réttlætið sigraði

Orðið "níðingsverk" kom mér fyrst í hug þegar ég las fréttina um uppsögn Láru Hönnu Einarsdóttur. Sú ákvörðun framkvæmdastjórnar 365 miðla að afturkalla uppsögnina tafarlaust sýnir hve samtakamáttur fólks getur verið sterkur.

Láru Hönnu er óskað til hamingju og um leið þakkað fyrir að hafa sýnt þann kjark og einurð að greina frá högum sínum.


mbl.is Uppsögn Láru dregin til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

95 ára afmæli Skaftfellings VE 333

Í dag, 6. Maí, eru 95 ár liðin síðan vélskipið Skaftfellingur kom fyrsta sinn til Vestmannaeyja en smíði þess lauk í mars 1918. Jón Högnason, skipstjóri og áhöfn hans sigldu skipinu frá Kaupmannahöfn. Ekki fékkst olía á skipið og var því siglt með seglum.

Hér er krækja á þáttinn „Skaftfellingur aldna skip, aldrei verður sigling háð“, sem útvarpað var árið 1999.

 


Blindraletur á kjörstað nær ólæsilegt

Einhverjum kann að þykja þessi pistill orka tvímælis, en hér er þó um umsögn um hjálpartæki að ræða sem kostaði ótrúlega baráttu fyrir rúmum þremur áratugum að fá í gegn.
Þegar ég kom á kjörstað í morgun fékk ég langan kjörseðil sem stungið var í aflangt spjald, enda voru fjölmargir flokkar í boði.
Í kjörklefanum varð mér ljóst að blindraletrið á spjaldinu var svo dauft að ég átti erfitt með að greina það. Þurfti ég að vanda mig til þess að geta kosið samkvæmt sannfæringu minni. Spurði ég eiginkonu mína á eftir hvort A-listinn hefði ekki verið sýnilegur, því að fyrsti stafurinn, sem ég nam, var B.
Þetta minnti mig á blindraletrið á umslagi plötunnar Í bróðerni, en Steevy Wonder var með jafndauft letur á einni af plötum sínum. Prentararnir hjá Kassagerðinni töldu ekki hægt að hafa það skýrara nema með nokkrum tilkostnaði.
Bróðernisplatan var ekki kosningagagn og því ekki tæknilegt hjálpartæki blindra eins og spjöldin. Hér er eins og enginn vanur blindraleturslesandi hafi vélað um framkvæmd þessa máls. Hvað er á seiði? Hvers eiga blindraletursnotendur að gjalda?

Eru framsóknarmenn lýðskrumarar?



Svo virðist sem nú sé komið bakslag í fylgisaukningu
Framsóknarflokksins og ýmsir teknir að snúa heim aftur. Tillögur
framsóknarmanna um niðurfærslur skulda heimilinna hafa verið talsvert
gagnrýndar að undanförnu. Á eyjunni er m.a. rætt um að Seðlabankinn hafi rústað tillögum
flokksins
. Í viðtali í Bítinu
á Bylgjunni
18. Apríl útskýrði Frosti Sigurjónsson hvernig aflað skyldi
fjár til þessarar aðgerðar. Í grein Vilhjálms Þorsteinssonar, sem vísað er til
hér að framan er á það bent að leið Framsóknarmanna gagnist þeim fimmtungi
fólks best sem hafa hæstar tekjur og skuldi mest. Eru leidd rök að því að sá
fimmtungur hljóti allt að þriðjungi stuðningsins. Þessi gagnrýni er réttmæt.
Frosti bendir á í viðtalinu að menn hafi hengt sig um of í útfærslur tillagna fyrir
kosningarnar árið 2009. Það kann að vera rétt. Vilji menn gæta réttlætis í
þessum málum er nauðsynlegt að huga að einhvers konar tekjutengingum. Þær
þekkjast um allt fjármálakerfið og með þeim er hægt að ná mestum jöfnuði ef
vilji er fyrir hendi. Á þeirri viku, sem eftir er til kosninga, er
lífsnauðsynlegt að flokkarnir greini hvernig þeir ætla að standa að
velferðarmálum. Sjálfstæðisflokkurinn auglýsir nú að hann vilji standa vörð um
kerfið, en hann varð fyrstur til að beita Alþýðuflokknum fyrir sig þegar
Viðeyjarstjórnin var myndu, til þess að ráðast að velferðarkerfinu. Þá var
hafist handa við að klekkja á þeim hópi öryrkja, sem síst mátti við því. Þetta
er geymt en ekki gleymt og fleiri en núverandi ritstjóri Morgunblaðsins eru
langminnugir á misgjörðir annarra.



 


Android og aðgengi blindra

Eins og fram hefur komið virðist Nokia-simbian farsími minn að verða ónothæfur. Eftir að hafa leitað fann ég engan sem mér hentaði og þarf að sérpanta þá.
Eftir að hafa leitað fyrir mér héldum við hjónin í Elkó í Smáralind og fóru leikar þannig að keyptur var Samsung Galaxy SIII ásamt þráðlausu lyklaborði. Þegar tölvufróður maður kom að málinu varð þjónustan til fyrirmyndar og fór ég fram á aðstoð við uppsetningu símans og aðlögum að þörfum blindra.
Eftirfarandi þjónusta var fúslega veitt og sumt var að frumkvæði afgreiðslumannsins, Alexanders:

1. Talkback skjálestrarforritið var sett upp.
2. Náð var í eSpeak og íslenskan sett inn.
3. Þráðlausa lyklaborðið var virkjað.
4. Gmail-pósturinn var virkjaður.
5. Tengiliðir voru fluttir í símann.
6. Síminn var uppfærður í nýjustu útgáfu Jellybean, sem fáanleg er, en símarnir sem Elkó selur eru með þessu kerfi nú þegar.

Heilmikið er framundan við að læra á símann. Má m.a. nefna að ná tökum á snertiskjánum og átta sig á uppbyggingu stýrikerfisins. Það auðveldar sumt að hægt er að tengja símann tölvu með USB-tengi og færa þannig á milli skrár eins og rafbækur, hljóðskrár o.fl.
Ég hef því væntanlega sagt skilið við Mobilespeak (farsímatal) eftir 10 ára notkun. Það er að mörgu leyti þægilegt kerfi. En nýjum aðstæðum fylgja nýjar áskorunarábyrgð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband