Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Suðurganga Íslendinga - síðasta útrásin

 

Athyglisþörf Íslendinga verður seint fullnægt. Stundum verður hún hlægileg og velta menn þá fyrir sér tilganginum. Gerast menn jafnvel svo djarfir að fá forseta lýðveldisins í lið með sér til þess að bera á borð fyrir stórmenni heimsins þjóðsögur sem lítill fótur er fyrir.

Í morgun afhenti forseti vor páfanum styttu af Guðríði Þorbjarnardóttur, sem er sögð hafa gengið fyrst íslenskra kvenna suður til Róms. Hafði hún áður farið til Grænlands með föður sínum og þaðan til Vínlands þar sem hún ól fyrsta barnið evrópskrar ættar.

Tvær sögur greina frá Guðríði: Eiríks saga rauða og Grænlendinga saga. Dr. Jónas Kristjánsson, fyrrum forstöðumaður Árnastofnunar, hefur leitt líkur að því að Grænlendinga saga sé yngri heimild og mun síðri en Eiríks saga rauða, enda skýtur persónum upp í sögunni án nokkurs samhengis við það sem áður hafði gerst. Telur Jónas að sagan um suðurgöngu sé skáldskapur sem þjóni þeim tilgangi einum að auka veg afkomenda Guðríðar, þar á meðal Þorláks Runólfssonar, Skálholtsbiskups.

Prestur kaþólsku kirkjunnar á Íslandi fullyrti í fréttum Ríkisútvarpsins áðan að hlutur Íslendinga í kristniboði hefði verið meiri í upphafi 11. aldar en álitið hefði verið. Ætli presturinn hafi lesið sögur þær sem greina frá Guðríði? Þótt Guðríður hafi vissulega verið geðþekkari kona en mágkona hennar, Freydís Eiríksdóttir, samkvæmt fornum bókum, er fátt sem bendir til að Guðríður hafi stundað trúboð í Vesturheimi eins og presturinn lét liggja að. Til þess virðast Íslendingar hafa haft of mikla skömm á skrælingjum, enda höfum vér Íslendingar jafnan verið menn kynhreinastir og öðrum þjóðum fremri.

Í Eiríks sögu rauða er ekki vikið orði að suðurgöngu Guðríðar og virðist við lauslegan samanburð sagnanna ýmislegt í þeirri sögu mun líklegra en það sem ritað er í Grænlendingasögu.

Ef til vill hafa forsetinn og Laugabrekkuhópurinn haft ummæli Jónasar frá Hriflu til viðmiðunar, en hann sagði eitt sinn: „Það gæti hafa verið satt."

 


mbl.is Forsetinn á fundi með páfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný lög um stjórnlagaþing

 

Núverandi ríkisstjórn virðist ætla að hafa aðferðir Davíðs Oddssonar að fyrirmynd með því að óvirða úrskurð Hæstaréttar Íslands um kosningar til stjórnlagaþings. Það kemur vel á vondan.

Í desember 1999 fól Davíð nokkrum heiðursmönnum undir forystu Jóns Steinars Gunnlaugssonar, núverandi hæstaréttardómara, að semja tillögur að breytingum á lögum um almannatryggingar í kjölfar dóms Hæstaréttar, þar sem tenging örorkubóta við tekjur maka var dæmd ógild. Þar var sett inn sérstakt hefndarákvæði sem skildi eftir tekjutengingu eftir sem áður. Þannig svívirti Davíð Oddsson og ríkisstjórnin Hæstarétt jafnvel þótt hann væri að meirihluta skipaður Sjálfstæðismönnum, enda þolir Davíð illa að bíða lægri hlut.

Nú komst meirihluti þingmannanefndar að þeirri niðurstöðu að réttast væri að óvirða dóm Hæstaréttar og skipa þá, sem hlutu ólögmæta kosningu til stjórnlagaþings, í sérstakt stjórnlagaráð, sem einungis verði ráðgefandi. Það er eins og ekkert hafi breyst og Alþingi hafi engu gleymt.

Þessi málatilbúnaður minnir illilega á aðferðir Dana á 19. öld þegar stofnað var til ráðgjafarþings eða þjóðfundar um stöðu landsins og vilji meirihlutans að engu hafður. Í raun má upphaflega kenna Sjálfstæðisflokknum um þessa niðurstöðu. Flokkurinn getur ekki hugsað sér að sett verði ákvæði í stjórnarskrána sem takmarki framsals- og eignarrétt tiltekins hóps fólks að auðlindum landsins.

Stjórnlagaþingsmálið er þannig vaxið að útilokað er að sætta sig við að Alþingi eða meirihluti þess skipi eitthvert stjórnlagaráð, sem kjörið var með ólöglegum hætti. Í stað þess ber að endurskoða núgildandi lög og vanda betur til aðferðarinnar við kjör fulltrúa á þingið. Þá er m.a. rétt að huga að rafrænni kosningu jafnvel þótt landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafi ýtt slíkum hugmyndum út af borðinu í upphafi aldarinnar. Þegar er til hugbúnaður sem getur ráðið við slíkar kosningar og auðveldað úrvinnslu gagna. Þá er lafhægt að haga málum þannig að þeir, sem hafa ekki aðgang að tölvum, geti kosið með hefðbundnum hætti.

Því á að afnema lögin um stjórnlagaþing og hefja málið að nýju. Í nýjum og endurskoðuðum lögum ber að taka fram að tillögur stjórnlaganefndar skuli bera undir þjóðaratkvæði áður en Alþingi fái um þær lokaorðið. Þannig verður tryggt að samþykkt nýrrar stjórnarskrá verði hjá þjóðinni.

 


Hverjum hlífir Hæstiréttur?

 

Ritaðu tölurnar að neðan í boxið og smelltu á hnappinn til að birta heimasíðu Hæstaréttar. Það má komast hjá þessu innskráningarskrefi með því að leyfa "cookies" í vafranum þínum.

 

Þessi tilkynning er enn á heimasíðu Hæstaréttar Íslands. Blindum og sjónskertum tölvunotendum ásamt ýmsum öðrum er þannig meinaður aðgangur að síðunni. Ástæðan er leyndarhyggja Hæstaréttar.

 

Nú verður hafist handa við að vinna í þessu máli. Lesendur bloggsins fá að fylgjast með því sem gerist. Menn geta enn gert athugasemdir við næstu færslu á undan og er fólk eindregið hvatt til þess.

Þá er skorað á þingmenn að taka upp utan dagskrár á Alþingi umræðu um aðgengi blindra, sjónskertra og lesblindra að upplýsingum hér á landi. Hingað til virðast fáir þingmenn hafa sýnt málefnum þessara hópa áhuga. Nú verður það að breytast.

 

 


Aðstoðar óskað

Ég hef hugsað talsvert um aðgengi að heimasíðu Hæstaréttar Íslands að undanförnu og lokaði bloggsíðunni meðan legið var undir feldi. Svo virðist sem síðan sé að flestu leyti óaðgengileg þeim sem nota skjálestrarbúnað. Þó virðist sem einhverjir, sem komust inn á síðu réttarins á meðan hún var aðgengileg mánudaginn 7. þessa mánaðar, komist ennþá inn án þess að þurfa að rita tölur í reiti neðst á síðunni.

Eftir að hafa rætt við allnokra einstaklinga í teimur heimsálfum og beðið þá að prófa aðgengi að síðunni, virðist sem fátt hafi breyst. Því vil ég biðja lesendur þessarar síðu að fara inn á síðuna http://haestirettur.is og athuga hvort þeir geti leitað i dómasafninu og farið inn á aðrar krækjur án þess að slá inn umbeðnar tölur.

Menn skrifi svo athugasemdir við þessa bloggfærslu og fer framhald málsins eftir því hverjar niðurstöðurnar verða.


Hæsti réttur enn við sama heygarðshornið

Í dag leit ég inn á heimasíðu Hæsta réttar Íslands. Aðgengi að síðunni hafði verið afturkallað og allt sett í sama horf. Hvílík vonbrigði!

Ekki skal láta bugast heldur grípa til þeirra ráða sem duga. Morgundagurinn ræður væntanlega úrslitum um frekari aðgerðir.


Heimasíða Hæsta réttar Íslands orðin aðgengileg!

 

Hæsti réttur Íslands hefur í dag gert heimasíðu sína aðgengilega og afnumið þær hindranir sem voru settar á heimasíðuna í þeim tilgangi að verja meinta hagsmuni þeirra sem hlotið höfðu dóma, samanber bréfaskipti mín við Hæsta rétt á þessari síðu.

Í kjölfar bréfs míns til Hæsta réttar sendi aðgengisfulltrúi blindrafélagsins, birkir Rúnar Gunnarsson, réttinum bréf sem birt er hér. Ástæða er til að þakka Hæsta rétti skjót viðbrögð og skilning á málinu.

 

To: "blindlist" <blindlist@ismennt.is>

Sent: Friday, February 04, 2011 5:43 PM

Subject: [Blindlist] Bréf til Hæstaréttar

Sælir listamenn.

Eftirfarandi bréf hefur verið sent til Hæstaréttar vegna vefaðgengis

http://www.haestirettur.is

Bíðum við nú svara.

-Birkir

Kæri viðtakandi

Ég starfa sem aðgengisfulltrúa Blindrafélagsins, Samtaka Blindra og

Sjónskertra á Íslandi (

www.blind.is

) á sviði upplýsingatækni.

Meðal annars starfa ég við að tryggja aðgengi blindra og sjónskertra

að vefsíðum og að rafræna upplýsingasamfélaginu.

Okkur þykir það mjög miður að heimasíða Hæstaréttar hefur verið gerð

þannig úr garði að blindir notendur geta alls ekki nýtt sér þær

upplýsingar sem þar er að finna.

Ástæða þess er að notendum er ekki leyft að skoða síðuna nema með því

að slá inn tölur sem birtast á mynd á síðunni, en myndin er ekki

aðgengileg með þeim skjálestrarforritum sem blindir og sjónskertir

einstaklingar nota til þess að skoða vefinn.

Skjálestrarforrit sem notuð eru til þess að lesa heimasíður (þ.e.a.s.

breyta rituðum texta á síðu í talmál eða punktaletur) geta ekki túlkað

myndir (þar sem myndir eru í raun ekkert nema fylki af lituðum punktum

en ekki eiginlegir stafir), og skjástækkunarforrit eiga erfitt með að

stækka myndir, nema þær séu gerðar með svokallaðri SVG tækni.

Vegna þeirra skilyrða sem sett eru á síðunni, og okkur skilst séu þar

til þess að vernda nöfn þeirra sem koma við skráð dómsmál, geta

blindir og sjónskertir notendur skjálesara ekki flett neinu upp á

síðunni (þmt dagsskrá réttarins og fleiru).

Það hlýtur að vera réttur allra landsmanna að geta verið meðvitaðir um

hvaða lög og reglur gilda í landinu og eiga alir landsmenn því rétt á

að geta nálgast svo mikilvæg gögn sem dómar Hæstaréttar eru.

Auk þess vil ég benda á Upplýsingastefnu íslenskra stjórnvalda um

netríkið Ísland, sem finna má hér:

www.ut.is/media/Skyrslur/Stefnuskjal_2,5.pdf

en stefnuskráin nær yfir stefnu stjórnvalda í rafrænum upplýsingamálum

fram til ársins 2012.

Í fjórða lið um markmið þjónustu í skránni segir:

"Gæði opinberrar þjónustu á netinu verði aukin með því að miða hana

við þarfir og ávinning netborgarans. Hugað verði að aðgengi og þörfum

allra samfélagshópa ss fatlaðra ....."

og einnig

"Opinberir vefir fullnægi skilyrðum um aðgengi fatlaðra (amk kröfur

W3C  um a-vottun).

Reyndar er þessi tilvísun ónákvæm, en eini W3C (Worldwide Web

Consortium) staðallinn sem hér á við er WCAG (Web Content

Accessibility Guidelines) útgáfa 2, vottun (compliance level) a.

http://www.w3.org/TR/WCAG20

í 1.1.1. lið segir:

"Non-text Content: All non-text content that is presented to the user

has a text alternative that serves the equivalent purpose, except for

the situations listed below. (Level A)

CAPTCHA: If the purpose of non-text content is to confirm that content

is being accessed by a person rather than a computer, then text

alternatives that identify and describe the purpose of the non-text

content are provided, and alternative forms of CAPTCHA using output

modes for different types of sensory perception are provided to

accommodate different disabilities.

"

Þetta þýðir að vissulega má setja einhvers konar "CAPTCHA" eða

ritvernd á síðuna en þá verður að bjóða upp á ritvernd sem gagnast

notendum sem skjá ekki á skjáinn. Sem dæmi má sjá bloggvef mbl.is,

eins og Arnþór Helgason hefur þegar bennt á. Einnig eru oft notaðar

hljóðupptökur af talmáli sem spilaðar eru og texti sem slá þarf inn er

lesinn.

Að lokum mætti ímynda sér þjónustu þar sem tölur eru sendar í gegnum

sms skilaboð og notendur geta skráð sig inn, þannig að einungis þurfi

að fara í gegnum svoleiðis feril einu sinni.

Ég tel einnig alveg óþarft að öll síða réttarins sé læst með þessum

hætti þmt dagsskrá og aðrir tenglar sem hafa ekki beint með dómsmál að

gera.

Telja má upp fleiri skuldbindingar sem Ísland hefur tekið á sig og

varða aðgengi fatlaðra að netinu ss. ráðherrayfirlýsingu EES um

rafræna stjórnsýslu, sem nálgast´ má hér:

http://www.ut.is/frettir/nr/4274

en þar segir í 9. lið enskrar útgáfu:

"...We will develop inclusive services that will help to bring down

barriers experienced by digitally or socially excluded groups..."

Að þessu gefnu teljum við alveg augljóst að opinberum stofnunum á

Íslandi beri skylda til þess að tryggja aðgengi allra landsmanna,

þ.á.m. blindra og sjónskertra einstaklinga, að almennum upplýsingum á

vef þeirra. Við vonumst til þess að Hæstiréttur sjái sóma sinn í, og

leggi metnað í, að aðgengi allra að þeim mikilvægu upplýsingum sem þar

er að finna, sé tryggt.

Að sjálfsögðu skiljum við vel að aðgengi blindra notenda er oft ekki

eitthvað sem hugsað er út í almennt og erum við að vinna að betri

uppfræðslu og menntun vefforritara svo þeir viti af þeim sérþörfum sem

sinna þarf fyrir slíka notendur (en þær þarfir eru oft áþekkar þeim

sem farsímanotendur með litla skjái hafa einnig).

Hins vegar vitum við að Hæstiréttur vissi af þessum sérþörfum vegna

samskipta sem áttu sér stað fyrir nær sléttu ári síðan og enduðu með

að tölulæsingu var aflétt af síðunni, amk umtíma.

Það að læsingin hafi verið sett á aftur án samráðs við Blindrafélagið

eða án þess að leiða hafi verið leitað til að finna aðgengilegri

lausnir þykir okkur hins vegar miður.

Við erum alltaf tilbúin að koma að umræðum um hugsanlegar lausnir og

aðstoða við prófanir og rannsaka bestu tækni sem tryggir öryggi

vefsíðu en einnig aðgengi félagsmanna okkar, en þetta er okkur það

mikilvægt mál að við verðum að ganga hart fram í því að aðgengi

félagsmanna okkar sé tryggt.

Ég treysti því að við höfum sömu markmið í þessum málum og að við

finnum farsæla lausn sem bæði tryggir það öryggi sem þið teljið ykkur

þurfa án þess að það skaði rétt félagsmanna okkar til þess að geta

skoðað upplýsingar sem varða daglegt líf, lög og reglur í íslensku

samfélagi.

Virðingarfyllst

-Birkir R. Gunnarsson

_______________________________________________

Blindlist mailing list

Blindlist@listar.ismennt.is

http://listar.ismennt.is/mailman/listinfo/blindlist

 

 


Sjálfur Hæsti réttur Íslands hamlar aðgengi blindra og sjónskertra að heimasíðu sinni

Í umfjöllun sinni um dóm Hæsta réttar vegna stjórnlagaþingkosninganna hefur að engu verið fjallað um þá annmarka sem voru á framkvæmd kosninganna og bitnuðu á blindu og sjónskertu fólki.

Ég hugðist því leita að gögnum á heimasíðu réttarins í gær um þessi mál og komst þá að því að síðan er glóruleysingjum ekki aðgengileg. Ég hef að vísu vakið athygli réttarins á þessu áður en sendi meðfylgjandi bréf:

„Heiðraði móttakandi.

Ég hef orðið var við þann annmarka á heimasíðu réttarins að hún er ekki aðgengileg. Notendur eru beðnir að skrá tölur sem birtast á skjánum. Þeir sem eru blindir eða sjónskertir og nota skjálesara eiga óhægt um vik.

Ég vænti þess að Hæstiréttur leggi áherslu á að gera aðgengi að gögnum réttarins sem best úr garði. Hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að bæta úr þessum annmarka? Sé svo, hvenær má þá vænta úrbóta?

Virðingaryllst,

Arnþór Helgason, fv. formaður og framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands“

Í dag barst svar skrifstofustjóra réttarins:

„Góðan daginn. Á heimasíðu Hæstaréttar eru birtir allir dómar réttarins frá 1. janúar 1999 og meginreglan er sú að þeir séu birtir með nöfnum aðila og jafnvel vitna. Margir aðilar gerðu athugasemdir við að leitarvélar t.d. google, fyndu nöfn þeirra í dómum réttarins, stundum allgömlum og töldu viðkomandi að með því væri vegið gegn persónuvernd sinni. Tæknimenn Hæstaréttar reyndu nokkrar leiðir til að takmarka leit leitarvéla á heimsíðunni, en aðrar en sú sem valin var og þú kvartar yfir reyndust ekki skila fullnægjandi árangri. Af þessari ástæðu eru ekki uppi áform um að breyta gildandi fyrirkomulagi varðandi aðgengi að heimasíðu Hæstaréttar.

Þorsteinn A. Jónsson, skrifstofustjóri.“

Nú sídegis var eftirfarandi svar sent:

„Góðan dag, Þorsteinn.

Það er hægt að ná svipuðum árangri með því að nota spurningar eins og birtast t.d. á Morgunblaðsblogginu þegar athugasemdir eru gerðar. Þá er t.d. spurt:

Hver er summan af 5 og 9

Myndir af tölum, sem ekki er hægt að skynja með skjálesurum, fela í sér ákveðna mismunun, sem er ekki Hæsta rétti samboðin. Hægt er að setja sérstakan búnað á síður sem les upp tölurnar fyrir þá sem þurfa þess með. Einnig væri hægt að nota svipaðar aðferðir og bankarnir, þegar menn fá sendar tölur í farsíma og geta lyklað þær inn.

Ég vænti þess að Hæsti réttur taki þessi mál til úrlausnar.

Virðingarfyllst,

Arnþór Helgason

Arnþór Helgason,

Tjarnarbóli 14,

170 Seltjarnarnesi.

Símar: 5611703, 8973766

Netfang: arnthor.helgason@simnet.is“

Ég hef hugsað mér að fylgja þessu máli eftir. Æskilegt væri að heildarsamtök fatlaðra tækju málið upp á sína arma.

Nú kemur okkur í koll að ekki skyldu sett lög um aðgengi að upplýsingum og er raunalegt til þess að vita að engin alþingismaður, jafnvel ekki þeir, sem hagsmuna eiga að gæta, skuli hafa haft forgöngu um jafnsjálfsögð mannréttindi og aðgengi að upplýsingum.


Til hvers eru sjálvirkir símsvarar?

Ég hef lengi trúað almennum fréttum Morgunblaðsins og jafnvel hrósað blaðinu fyrir ábyrgan fréttaflutning. Í gær átti ég erindi við afgreiðslu Herjólfs. Símanúmerið er 4812800 og þegar ég hafði slegið inn númerið, birtist sjálfirkur símsvari sem sagði: "Í dag siglir Herjólfur til Þorlákshafnar."

Fyrir tveimur mínútum hringdi ég aftur í 4812800 og fékk enn að vita að í dag sigldi Herjólfur til Þorlákshafnar. Hvor segir nú satt, Mogginn eða símsvarinn?


mbl.is Nýtt sanddæluskip á leiðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráða verður bót á mannréttindabrotum

Í haust var vakin athygli á því á þessum síðum að lög um stjórnlagaþing brytu gegn réttindum blindra og sjónskertra kjósenda. Vafalaust hefði verið hægt að sníða af ýmsa agnúa hefði verið tekið mark á ábendingum sem látnar voru í té í aðdraganda málsins.

Hvað sem gert verður, þarf að tryggja að menn geti neytt atkvæðisréttar síns í einrúmi og kjörgögn þurfa að vera þannig úr garði gerð að fólk geti greitt atkvæði óháð öðrum en sjálfum sér.

Væri ekki ráð að skipa sérstaka sveit valinkunnra karla og kvenna til þess að fara yfir leiðir sem færar eru vegna kosninganna? Ef til vill væri rétt að vekja athygli á tillögu, sem ritstjóra þessara síðna barst í haust, þar sem lagt var til að slembiúrtak yrði látið ráða hverjir byðu sig fram.

Eitt er víst. Samtök fatlaðra verða að standa vörð um hagsmuni síns fólks í framhaldi þessa máls. Stjórnvöld og embættismenn gera það trauðla.


mbl.is Kemur ekki til greina að hætta við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húni fjallar um hvítabirni

Í dag, þriðjudag kl. 12, heldur Húni Heiðar Hallsson erindi um lagalega stöðu hvítabjarna við Ísland. Erindið verður haldið í Háskólanum á Akureyri í M102 Sólborg v/Norðurslóð.

„Í erindi sínu fjallar Húni um þær réttarheimildir sem gilda um hvítabirni á Íslandi og hvernig þær hafa þróast,“ segir í frétt Morgunblaðsins í dag. „Hann fjallar einnig um túlkun réttarheimilda um hvítabirni og þær móttökur sem þeir hafa fengið á Íslandi á síðustu árum.“

Þá útskýrir Húni þær ráðstafanir sem stjórnvöld gripu til sumarið 2008 þegar tveir hvítabirnir gengu á land.

Í þessari frétt er fjallað um Húna Heiðar Hallsson, sem fjallar um hvítabirni. Afkvæmi hvítabjarnar er kallað húni. Það á því vel við að Húni Heiðar fjalli um réttarstöðu bjarndýranna hér á landi.

Á undanförnum árum hefur tilviljun ráðið því að nöfn manna hafa með ýmsum hætti tengst starfi þeirra. Nefnamá Sigurjón Bláfeld, loðdýraráðunaut, Eyjólf Ísfeld Eyjólfsson, fyrrum forstjóra Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og Ólaf Dýrmundsson, landbúnaðarráðunaut. Eitt sinn hélt hann fyrirlestur um sauðfjárrækt á Íslandi fyrir dansflokk frá Tíbet og þótti fara vel á því nafnsins vegna.

Í Evrópu eiga ættarnöfn iðulega rætur að rekja til iðngreinar sem ættfaðirinn stundaði. Má sem dæmi nefna orðið smith sem tekur á sig ýmsar myndir eftir því hvaða smíðar forfaðirinn stundaði. Hér á landi kenndu menn sig við ættaróðalið, sveitina eða forföður, þegar ættarnafnatískan náði fótfestu hér á landi. Einnig voru þess dæmi að menn kenndu sig við staði sem þeim þóttu öðrum fegri svo sem Kaldalón ber vitni um.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband