Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Aðgát skal höfð

Birgitta Jónsdóttir svaraði fyrir sig með fáheyrðum hætti á Alþingi og fáheyrðum.

Þegar ýjað er að glæpsamlegu athæfi fólks sem er í viðkvæmri stöðu seytlar orðrómurinn inn um ýmsar gáttir. Þetta máttu fyrrum formaður og Framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands og fjölskylda hans þola fyrir 5 árum. Þessi áburður barst jafnvel inn í atvinnuviðtöl og hefur e.t.v. valdið því að enn hefur þessi einstaklingur ekki fengið fast starf.

Alþingismenn hljóta að gæta tungu sinnar áður en vegið er að mannorði samþingsmanna. Slíkur áburður jaðrar við mannorðsmorð!


mbl.is Birgitta flutti ljóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð konungur, hryðjuverkamaður og sálmaskáld

Ég hlusta á rás eitt á morgnana. Um það leyti sem morgunbænin hefst byrjum við hjónin morgunverð.

Um þessar mundir fer prestur nokkur með bænina. Byggir hann textann á sálmum Davíðs konungs og vangaveltum um speki hans.

Þegar Biblían er lesin og sett í samhengi við þá tíma sem lýst er, lýkst ýmislegt upp fyrir mönnum. Þannig er augljóst að Davíð konungur hefði verið flokkaður með hryðjuverkamönnum á vorum dögum. Hann átti það sameiginlegt mð Ísraelsmönnum nútímans að hann var landtökumaður. Hann beitti öllum brögðum til að sölsa undir sig lönd annarra og hlífði þá engum, enda skákaði hann í skjóli meints vilja Guðs.

Í raun var Davíð samviskulaus óþokki sem iðraðist sjaldan. Það er umhugsunarvert að velta því fyrir sér á hvaða grunni kristin trú er talin standa. Í raun væri boðskapur Krists nægur lærdómur sannkristnum sálum þótt ekki sé bætt við frásögnum og vangaveltum um þann óþjóðalýð sem stýrði Ísraelsmönnum, meintri útvalinni þjóð Guðs.

Kemur þá að merg málsins. Voru spádómarnir um fæðingu Messíasar þess eðlis að kristnir menn geti ímyndað sér að Jesús hafi verið Messías? Voru ekki spádómarnir settir fram þegar Ísraelsmenn voru í mikilli neyð og þurftu á hughreystingu að halda? Var þeim ekki lífsnauðsyn að eignast friðarhöfðingja og mann sem allar þjóðir lytu?

Því betur sem ég kynni mér sögu þeirra feðga, Davíðs og Salómons kviknar meiri andúð á þeim og frændgarðinum öllum. Það er víst þekkt í mannkynssögunni að ýmsir hrottar hafi ort fögur kvæði sem hafa haldið nafni þeirra á lofti. Ætli Davíð konungur sé ekki einn þeirra, sjálfselskur og eigingjarn hrotti sem afsakaði gerðir sínar með orði Guðs

Ætli sé þá ekki best að enda þennan pistil á þeirri bæn að guð verði sálu hans náðugur. Einnig bið ég þess að íslenskir prestar vandi betur val sitt á orðum þeim er þeir veita yfir landslýð á morgnana.


Sjálfsmark Agnesar Bragadóttur

Pirringur sjálfstæðismanna í garð borgarstjóra Reykvíkinga er skiljanlegur, enda hefur hann ofboðið fleira fólki með kjánaskap sínum en flestir aðrir í hans stöðu.

Í Sunnudagsmogganum fer Agnes Bragadóttir hamförum vegna ýmissa skerðinga sem Besti flokkurinn eða Langversti flokkurinn, eins og hún vill kalla hann, hefur staðið fyrir ásamt Samfylkingunni. Hún gleymir því þó að þessir tveir flokkar hafa hækkað framfærsluviðmiðið og komið þannig þeim, sem minnst mega sín, til hjálpar.

Ekki minnist ég þess a fjallað hafi verið um þessi mál í Morgunblaðinu með jafnskeleggum hætti og Agnes ræðst á Jón Gnarr og guðföður Besta flokksins, Dag B. Eggertsson, eins og hún kallar þann síðarnefnda. Það væri hins vegar vel þess virði að jafngreindur blaðamaður og Agnes, sem er vel að sér um ýmsa hluti, tæki sig nú til og rannsakaði þau hryðjuverk sem Sjálfstæðisflokkurinn, fyrst með Alþýðuflokkinn hangandi aftan í sér (Jóhanna spyrnti þó á móti) og síðar Framsóknarflokkinn frömdu á íslenska velferðarkerfinu. Hæg væru heimatökin að ræða við guðföður þeirra skemmdarverka.


Skrifum undir!

Íslendingar hafa enn ekki bitið úr nálinni vegna heimskupara iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins og íslenskra embættismanna sem héldu að einkavæða þyrfti íslensku orkufyrirtækin. Hvar í flokki sem menn finnast átta þeir sig nú á þeim afglöpum sem framin vru.

Alþingi verður að taka í taumana og vinda ofan af þessari vitleysu. Fórnarkostnaðurinn gæti orðið nokkur en hann skilar sér.

Skrifum undir.


mbl.is Tæplega 33.000 áskoranir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andstaða við eðlilega bifreiðaskatta

Nú stendur yfr undirskriftaherferð gegn vegatollum hér á landi og er rætt um að verið sé að múra höfuðborgarbúa inni.

Umræða um vegatolla og bifreiðagjöld, einkum eldsneytisskatta, hefur verið í skötulíki hér á landi. Hún afhjúpar þá ömurlegu staðreynd að Íslendingar hafa í raun eyðilagt vissa innviði almannaþjónustu með því að haga seglum þannig að erfitt sé að nýta sér almenningssamgöngur. Er það einkar bagalegt á höfuðborgarsvæðinu auk þess sem dreifbýlisbúar finna fyrir því.

Þótt ýmsir, sem vinna í Reykjavík og búa utan við höfuðborgina, hafi áttað sig á því að ódýrara sé að nýta sér almenningssamgöngur, er þeim þannig varið að of fáir sjá sér hag í því að ferðast með strætisvögnunum. Það er raunarlegt að verða vitni að því hversu illa vagnarnir eru nýttir á annatímum.

Vegatollar eru tíðkaðir alls staðar í kringum okkur og ekki nema sjálfsagt að þeir séu nýttir til að fjármagna vegaframkvæmdir. Tvöfaldur suðurlandsvegur kostar mun meira en sú leið sem vegagerðin vildi fara og því ekki nema eðlilegt að menn greiði fyrir þægindin. Í raun þarf að endurskoða alla samgöngustefnu Íslendinga og þar á meðal mikinn hluta þeirra flutninga sem stundaðir eru á vegum landsins.


Hver stendur vörð um upplýsýngaaðgengið?

Það hefur færst í vöxt að fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar sendi tölvupóst eða birti efni á heimasíðum sínum þar sem einungis er mynd af texta í stað þess að textinn sé birtur. Síminn hefur verið til sérstakra vandræða, en iðulega berast tölvuskeyti frá starfsmönnum fyrirtækisins sem eru ólæsileg þeim sem geta ekki nýtt sér myndir til lestrar.

Morgunblaðið, sem er enn einhver aðgengilegasti vefmiðill landsins (mbl.is) og þótt víðar væri leitað, hefur einnig fallið í þessa gröf. Á mbl.is birtast nú æ oftar myndir af atvinnuauglýsingum í stað texta.

Hver stendur nú aðgengisvaktina?


Myntbreytingin 1980 - þegar seðlarnir skyldu verða jafnlangir

Um þessar mundir eru 30 ár síðan skorin voru 2 núll aftan af krónunni. Væntu menn þess að verðskyn yrði meira en áður og það hjálpaði ríkisstjórninni í baráttunni við verðbólguna. En eins og Jóhannes Nordal benti á í ársbyrjun 1986 var myntbreytingin engin efnahagsaðgerð, enda hafði þá verðlag hækkað tífalt frá því sem það var í ársbyrjun 1981.

Seðlabankinn hófst handa við myntbreytinguna með góðum fyrirvara. Blindrafélagið var þá lítið félag sem hafði verið lítt áberandi í íslensku þjóðlífi. Nýir tímar voru þó að renna upp og ný kynslóð að taka við sem hafði uppi aðrar baráttuaðferðir en fyrrennararnir, enda var aðstaða einstaklinga af þeirri kynslóð öll önnur.

Blindrafélagið hafði byrjað að gefa út fréttabréf árið 1974 og var útgáfunni haldið áfram um nokkurt skeið. Stýrðum við Elínborg Lárusdóttir, blindraráðgjafi, fyrstu bréfunum. Rötuðu þau inn á ritstjórnir fjölmiðla sem tóku iðulega ýmislegt upp úr þeim.

Það mun hafa verið árið 1977, ef ég man rétt, að fjölmiðlar fjölluðu um myntbreytinguna og að ákveðið hefði verið að hanna nýja seðla. Skyldu þeir vera allir jafnlangir og breiðir, en áður fyrr höfðu seðlarnir verið mislangir eftir verðgildi þeirra. Sá þá blint og sjónskert fólk sína sæng útbreidda og þótti vegið að hagsmunum sínum. Ég ritaði um þetta í Fréttabréf Blindrafélagsins og orðaði víst svo að Seðlabankinn hefði hreykt sér af því að þessi aðgerð myndi auðvelda talningarmönnum bankans störf sín.

Svo fór að flestir fjölmiðlar landsins tóku þessa frétt upp og var talsvert saumað að forystumönnum Seðlabankans. Einna helst varð fyrir svörum Stefán Þórarinsson, aðalféhirðir bankans. Hringdi hann til mín og kvartaði undan orðfærinu í greininni. Svaraði ég því til að stundum þyrfti að hella yfir fólk úr fullri fötu af ísködu vatni til þess að það skyildi um hvað málið snerist. "Það er svo sannarlega rétt hjá þér, Arnþór," svaraði hann og fór svo að samtalinu lauk með því að Stefán sagðist mundi athuga málið.

Ýmsir fleiri komu að þessu máli, þar á meðal Halldór Rafnar, lögfræðingur, en þeir Jóhannes Nordal voru skólafélagar og vinir. Lauk málinu með því að ákvörðunin um seðlana var tekin aftur og urðu þeir mislangir eftir verðgildi eins og verið hafði.

Fróðlegt er að rifja upp rök þeirra seðlabankamanna fyrir því að seðlarnir yrðu gerðir jafnlangir. Þau voru m.a. þau að til væru sérstakar seðlatalningavélar sem ynnu eingöngu með þessa tegund seðla. Önnur rökin voru þau að talningarmönnum yrði gert léttara um vik. Þriðju rökin voru þau að Norðurlandaþjóðirnar auk Breta og Þjóðverja værunú þegar með jafnlanga seðla eða til stæði að taka þá upp.

Það vó þungt þegar starfsmanni Seðlabankans var bent á að Bretar og Norðurlandaþjóðirnar hefðu notað misjafnar stærðir seðla og virtist það ekki torvelda bönkunum starfsemi sína, en meginspurningin var sú hvort taka skyldi tillit til örfárra talningarmanna í stað þess að hugsa um hagsmuni fjölda fólks sem ætti í vandræðum með seðlana.

Um það leyti sem nýja krónan tók gildi hittumst við Stefán Þórarinsson og sagðist hann þá ekki botna í því hvernig nokkrum manni hefði dottið í hug að allir seðlar hérlendis skyldu jafnstórir án tillits til verðgildis. Þótt sigur hefði unnist í þessu máli var hann vart nema hálfur. Lengdarmunur seðlanna var einungis og er hálfur sentimetri, en Seðlabankinn brást við því með sérstökum seðlamátum sem afhent voru blindu og sjónskertu fólki. Ég hef að vísu ekki séð slík mát langalengi og síðast þegar ég rpurði um þau voru þau ekki til. Þá lét bankinn útbúa sérstaka seðlalesara sem lásu upp verðgildi þeirra. Þó vildi brenna við að lesararnir gætu ekki lesið seðlana væru þeir farnir að lýjast.

Saga þessi sýnir að hægt er að ná niðurstöðu í ýmsum málum ef sanngirni er gætt og skilningur á misjöfnum aðstæðum er fyrir hendi. Forystumenn Seðlabankans gerbreyttu um stefnu gagnvart blindu og sjónskertu fólki og kynntu Blindrafélaginu ýmislegt sem snerti hönnun myntar og seðla. Minnist ég þessa samstarfs með mikilli ánægju.


Tækifæri sigmundar og Bjarna

Sáttatónn er í greinum Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í Morgunblaðinu í dag og er það vel. Hinn síðar nefndi leggur til myndun þjóðstjórnar um tiltekin verkefni. Bendir hann m.a. á að þá yrðu þingmenn eingöngu bundnir af sannfæringu sinni en ekki andlegum handjárnum stjórnmálaflokkana - þurfi með öðrum orðum ekki að spila í sama liði.

Þessi tillaga er góðra gjalda verð og fyllsta ástæða fyrir núverandi stjórnarflokka að ræða við stjórnarandstöðuna, a.m.k. Framsóknar- og Sjálfstæðisflokk. Stjórnin gæti þá sýnt þann þroska að gleyma því að tillagan kunni að vera sett fram þar sem þeir sigmundur Davíð og Bjarni þurfa á því að halda að sanna sig sem virkir stjórnmálaforingjar. Þess mætti þá vænta að ástæðulausu málþófi á Alþingi linnti og þingmenn gætu reynt aðrar aðferðir við afgreiðslu mála en þær sem þeir eru nú fastir í. Um leið væri hægt að losna við óhæfa ráðherra úr núverandi ríkisstórn.

Þá vekur athygli að Jóhanna Sigurðardóttir skyldi hafa ákveðið að rita áramótagrein sína í Morgunblaðið þrátt fyrir að ritstjóri blaðsins hafi hagað sér eins og götustrákur í skrifum sínum um hana og stjórn hennar og sýnir það félagslegan þroska forsætisráðherrans. Áreiðanlegar heimildir herma að skrif ritstjórans fari mjög fyrir brjóstið á ýmsum sem teljast til forystu Sjálfstæðisflokksins, en þeir telja a ritstjórinn sé fastur í vef hefndarþorsta og beiskju og skaði beinlínis hagsmuni flokksins og Morgunblaðsins með skrifum sínum.

Lesendum þessara síðna er árnað heilla á nýju ári. Sú ósk er hér með sett fram að menn verði málefnalegri í skrifum en verið hefur og fleira verði um jákvæð skrif og fréttir en að undanförnu.


mbl.is Vill nýja ríkisstjórn um tiltekin verkefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægri öflin komin á kreik

Nú er enn einn flokkurinn í burðarliðnum, norrænn borgaraflokkur, ekki sá fyrsti með því nafni. Á skrifum Guðbjörns Guðbjörnssonar má greinilega sjá að þessi flokkur verður hægra megin við miðju sjálfstæðisflokksins.

Ég lenti einu sinni sem oftar í fjölskylduboði. Þar var fullorðin kona sem fór mikinn um Sjálfstæðis- og Framsóknarflokk. Sagðist hún telja að hægri öflin í Sjálfstæðisflokknum ættu að stofna sérstakan flokk og í raun væri ekki nema sjálfsagt að hægrisinnaðir sjálfstæðismenn og framsóknarmenn sama sinnis gengju til fylgis tvið nýja flokkinn. Frjálslyndir Sjálfstæðismenn, vinstri sinnaðir framsóknarmenn og kratar gætu síðan fyllt miðjuflokk og kommúnistar, eins og hún nefndi ákveðna hjörð Íslendinga, gætu síðan búið til vinstri flokk.

Í ágætri ævisögu Gunnars Thoroddsen eftir Guðna Th. Jóhannesson er nokkuð fjallað um ástandið í Sjálfstæðisflokknum, en brestir komu í flokkinn á 8. áratugnum. Leiddu þeir m.a. til stofnunar Borgaraflokksins sem varð ekki langlífur. Skyldi það hafa stafað af því að hann var ekki norrænn? Þótt merkilegt megi heita tókst Davíð Oddssyni að halda flokknum saman þótt í raun væru sjónarmið flokksmanna tvískipt. Annars vegar voru frjálslyndir einstaklingar og hins vegar öfgasinnaðir frjálshyggjupostular sem tókst að keyra Ísland í kaf eins og frægt er orðið. Velferðarkerfið var nær eyðilagt og þjóðinni komið á vonarvöl. Kannski þessir frjálshyggjupostular fái inni í nýja borgaraflokknum. Eitt er víst. Gunnar Thoroddsen óaði við þeim.

Þótt guðbjörn haldi því fram í pistlum sínum að hann vilji ekki skrifa sem hefðbundinn, íslenskur stjórnmálamaður, virðist hann hafa fallið í þá gryfju að skrifa eins um andstæðinga sína í stjórnmálum sem aðrir landar vorir. Því er bágt að sjá hvaða nýjungar þessi flokkir boði í íslenskum stjórnmálum. Orðbragðið er hið sama og annarra sem skrifa um stjórnmál og andstæðingarnir valdir.

Það er einungis eðlilegt að reynt verði að stofna nýja flokka í því umróti sem dynur nú yfir íslenskt samfélag. Fróðlegt verður að fylgjast með væntanlegum tilraunum.

Minnt skal á snjalla vísu Jóns Ingvars Jónssonar sem hann orti fyrir rúmum tveimur árum:

Meðan okkar þjóðarþing

þarf að halda á lausnum

enginn grætur auðkýfing,

einan sér á hausnum.


mbl.is Segir viðbrögð góð við nýjum flokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlar þegja um málefni Gildis

Jóhann Páll Símonarson, sem á aðild að lífeyrissjóðnum Gildi, hefur kært stjórnendur sjóðsins til ríkissaksóknara. Í bréfi sínu, sem dagsett var 22. september síðastliðinn, telur hann að tap sjóðsins árið 2008 og 2009 sé langt umfram það sem telja megi eðlilegt. Ríkissaksóknari sendi bréfið áfram til ríkislögreglustjóra, en 30. sept. sl. hafði verið ákveðið að taka skyldi málið til rannsóknar.

Hinn 11. nóvember skrifaði lögfræðingur gildis, Þórarinn V. Þórarinsson, embætti ríkislögreglustjóra bréf þar sem hann krafðist þess að rannsókn málsins yrði hætt og hinn 17. nóvember barst ríkislögreglustjóra bréf frá Fjármálaeftirlitinu þar sem því varr lýst að ekki sé ástæða til þess að hefja rannsóknir á málefnum Gildis. Taldi því ríkislögreglustjóri hvorki tilefni né grundvöll til að aðhafast frekar í málinu. Undir bréfið ritaði Alda Hrönn Jóhannsdóttir, settur saksóknari efnahagsbrotadeildar.

„Hugsaðu þér. Settur saksóknari spyr fjármálaeftirlitið hvort ekki sé allt í lagi með Gildi,“ sagði Jóhann Páll í samtali við undirritaðan. „Ég spyr því hvernig efnahagsbrotadeildin ætli að verja sjálfstæði sitt eftir þetta.“

Jóhann hefur ákveðið að kæra þá ákvörðun setts saksóknara efnahagsbrota að hætta rannsókn á háttsemi stjórnar og starfsmanna Gildis, „en sjóðurinn hefur tapað gríðarlegum fjármunum undanfarið og kemur við sögu í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Það var reyndar helsta ástæða kærunnar.

Sérstök athygli er vakin á því að Fjármálaeftirlitið, sem lögum

samkvæmt á að hafa eftirlit með lífeyrissjóðum landsmanna, virðist líka hafa ráðið mestu um að settur saksóknari efnahagsbrota ákvað að hætta þeirri rannsókn, sem stóð til að gera,“ sagði Jóhann Páll.

Jóhann Páll segir að fjölmiðlar hafi ekkert fjallað um rannsókn þessa máls, en þeim hafi verið send öll málsgögn. Telur hann að þeir þjóni hagsmunum atvinnuveitenda og verkalýðsforystunnar, en hinn almenni sjóðsfélagi hafi lítið að segja um málið.

Á síðu Jóhanns Páls, http://jp.blog.is, kemur fram að lífeyrissjóðurinn Gildi hafi tapað 59,6 milljörðum kr árið og árið 2009 hafi tapið numið um 52 milljörðum kr. Samtals nemi því tapið um 110 milljörðum. Jóhann segir að 52 milljarða skorti til þess að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.

Nokkur málsskjöl eru birt sem fylgigögn þessarar færslu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband