Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ennþá gleymist upplýsingaaðgengið

Íslendingar eru iðnir við að búa til smáforrit (öpp) fyrir farsíma sem eiga að létta fólki lísbaráttuna.
Því miður er sjaldan hugað að aðgengi þeirra sem eru blindir eða sjónskertir og þurfa að nota talgervil eða blindraletur. Ég nefni sem dæmi fyrirtækið Stokk, en í flestu forritum fyrirtækisins eru einhverjir aðgengiságallar og sum forritin eru aðlerlega óaðgengileg.
Í Morgunblaðinu í dag var greint frá því að Reiknistofa bankanna sé að senda frá sér smáforritið Kvit sem fólk getut notað til að greiða fyrir vörur og þýðir lægri millifærslugjöld.
Ég hafði samband við Reiknistofu bankanna fyrir ári þegar fjallað var í fyrsta sinn um þessar áætlanir og spurði um aðgengi. Þar á bæ höfðu menn ekki hugsað fyrir því en hétu að athuga það.
Í morgun spurðist Blindrafélagið fyrir um aðgengið í þessu nýja smáforriti.
Í svarinu stóð að áætlanir gerðu ráð fyrir að forritið verði aðgengilegt en það væri "backlog hjá okkur" - samkvæmt ensk-íslenskri orðabók óafgreitt verkefni.
Mér er spurn:
Þetta smáforrit hefur verið í prófun í hálft ár. Hvers vegna var ekki gert ráð fyrir aðgengi fyrr?
Ég legg til að fjölmiðlar kanni málið.


Tvískinnungsháttur Íslenskra stjórnvalda

Tvennt vakti athygli í fréttum BBC í gær. Á sunnudag verður umfjöllun um bankahrunið í tilefni þess að 10 ár eru liðin síðan Guð blessaði Ísland og fréttin frá Brasilíu um að Íslendingar hefðu greitt atkvæði gegn því að stofnað yrði verndarsvæði hvala vvið Suðurskautið.

Íslendingar segjast í orði vera náttúruverndarsinnar, en ætli sú tilheiging nái út fyrir lögsögu landsins?

Hvaða hagsmunir eru í veði sem valda því að íslensk stjórnvöld ákveða að greiða atkvæði gegn tillögunni um verndarsvæðið?

 


mbl.is Tillaga um verndarsvæði felld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítið miðar í kjarabaráttu fatlaðs fólks

Þótt sitthvað sé gott í fjárlagafrumvarpinu vekur athygli að lítið miðar áfram í kjarabaráttu fatlaðs fólks og  aldraðra. Þannig eru tekjuskerðingar enn svo miklar að öryrkjar veigra sér við að fara út á vinnumarkaðinn.

Öryrkjabandalagið vakti athygli stjórnvalda á þessu ástandi m.a. kringum 1990 þegar séð varð að þáverandi ríkisstjórn hygðist þrengja kost öryrkja með auknum skerðingum. Bandalagið færð rök fyrir því að tekjuskerðingar hlytu að draga enn meira úr atvinnuþátttöku fatlaðra en orðið var.

Hvernig væri að samtök fatlaðra, Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp, beittu sér fyrir aðgerðum á næstunni til að vekja athygli á kjörum sínum. Skal nú enn og aftur minnt á hugmynd sem lögð var fram fyrir um þremur áratugum. Hún er sú að stöðva umferð á föstudegi með fjöldagöngu eftir einni af stofnæðum umferðar í Reykjavík. Farið yyrði hægt yfir svo að fólk með hækjur, í hjólastólum og blint fólk með hvítan staf, gæti tekið þátt í göngunni. "Lífið er barátta," sagði Mao formaður. Það vantar hins vegar baráttugugann í forystu fatlaðra.


mbl.is Segir ekkert gert fyrir tekjulága
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mestu heræfingar frá upphafi vega

Nú eru hafnar mestu hernaðaræfingar Rússa á Norðurslóðum frá upphafi vega. Um 300.000 rússneskir hermenn taka þátt í æfingunum auk 3.000 kínverskra hermanna og nokkurra frá Mongólíu. Fjöldi herskipa, flugvéla, skriðdreka og annarra drápstóla hafa verið dregin fram í dagsljósið sem aldrei fyrr.
Pútín og Xi Jinping lögðu áherslu á samstarf ríkja sinna á sviði hernaðar og viðskipta í ræðum sínum þegar ósköpin hófust.
Rússneskur álitsgjafi greindi BBC frá því hvernig samskiptum ríkjanna væri háttað á þessu sviði. Kínverjar kaupa háþróuð vopn af Rússum en sjá þeim um leið fyrir hvers kyns hugbúnaði og tækninýjungum. Hélt hann því fram að þótt kínverska hagkerfið væri margfalt stærra en hið rússneska væru pólitísk áhrif Rússa á alþjóðavettvangi mun meiri.
Í lok samtalsins sagði hann að Bandaríkjaforseti gæti þakkað sér að þessi tvö stórveldi, Rússland og Kína, þjöppuðu sér nú saman vegna þeirrar ógnunar sem þau teldu stafa af Bandaríkjunum.


Ríkið skattlegur sjálft sig - ótrúleg heimska tröllríður íslenska stjórnkerfinu

Heimskan í íslenska stjórnkerfinu ríður ekki við einteyming. Í lok 9. áratugarins átti ég furðulegt samtal við fjármálaráðherra vegna álagningar tolla á blindraletursskjái sem kostuðu álíka og þrjár-fjórar tölvur. Sagðist ég mundi nota hvert tækifæri sem gæfist til að smygla hjálpartækjum inn í landið á meðan þetta ástand varaði.
Svar ráðherrans gleymist mér aldrei: "Ég myndi líka gera það í þínum sporum.
Og enn er vitleysan eins og snýst m.a. um að ríkið skattleggi sjálft sig. Ríkið rýrir fjármagn það sem ætlað er til margs konar útgjalda ríkisstofnana samanber þessa frétt mbl.is kl. 05:30 í morgun:

Varðskipin hafa farið margar ferðir til Færeyja undanfarin ár.
Þór skrapp til Færeyja
Varðskipið Þór, sem var við gæslustörf á Austfjarðamiðum í vikunni, notaði tækifæri og skaust inn til Færeyja til að taka olíu.
Alls tók Þór um 600 þúsund lítra af olíu, en tankar skipsins geta tekið allt að 1.300 þúsund lítra. Þór er kominn á Íslandsmið á nýjan leik. Unnu skipverjar á Þór að því í gær að skipta um dufl við Vestmannaeyjar.
Fram hefur komið í fréttum að Landhelgisgæslan þarf ekki að greiða gjöld og skatta af olíunni í Færeyjum. Því notar Gæslan tækifæri sem gefast til að skjótast þangað til olíukaupa. Hafa varðskipin farið þangað margsinnis á undanförnum árum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.


Meingaða andrúmsloftið í höfuðborginni

Á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í gær, sem stóð í 10 tíma, var meðal annars rætt um loftgæði í Reykjavík.
Fyrir nokkrum árum snerist umræðan um að vindurinn blési vonda loftinu burtu og því þyrftum við engar áhyggjur að hafa. . Þeir sem eitthvað hugsuðu vissu vel að meingunin fór þá eitthvert annað.
Ég minnist þess að á 7. áratugnum fengum við Íslendingar stundum heimsókn frá meingaða andrúmsloftinu í Evrópu og í Vestmannaeyjum bar stundum við að móða kom á bláleitan himininn. Mér er enn minnisstætt þegar ég fór fyrst til Bretlands með Gullfossi árið 1969 hvernig andrúmsloftið gjörbreyttist þegar við sigldum inn í Norðursjó. Að vísu sá ég ekki móðuna sem allir um borð töluðu um en ég fann óþefinn.
Hhugsandi fólk vissi að þótt meingaða loftið í Reykjavík fyki burtu yrði meingunin eftir í andrúmsloftinu.

Þegar farið er um götur Reykjavíkur á reiðhjóli fer ekki framhjá hjólreiðafólki hvað meingun af völdum sprengihreyfla er mikil. Skiptir þá engu hvort um er að ræða dísil eða bensín. Á annatímum verður meingunin slík að hjólreiðafólk forðast tiltekin svæði.
Síðdegis sunnudaginn 2. þessa mánaðar lögðum við hjónin land undir hjól, fórum hring um Seltjarnarnesið og þaðan út í Effersey. Á leiðinni heim, þegar við hjóluðum með goluna í fangið, var meingunin átakanleg. Heldur dró þó úr henni þegar komið var aftur út á Seltjarnarnes, en þar var minni umferð og þó vottaði fyrir bensín- og olíustybbu.
Það verður mikil heilsubót af því þegar sprengihreyfilsbílum fer að fækka og aðrir orkugjafar taka við.

 

Höfundur ferðast um ásamt eiginkonu sinni á rafbíl eða tveggja manna hjóli.


Enn um hegðun meintra hjólreiðagarpa

Ég varð fyrir óþægilegri reynslu í gær, miðvikudaginn 13. ágúst.

Í gær gekk ég meðfram Kaplaskjólsvegi og heyrði að á móti mér kom þjótandi hjólreiðamaður. Ég taldi augljóst að hann hlyti að víkja, en það gerði hann ekki heldur lenti með framhjólið á hvíta stafnum og þeyttist út á götu. Hann datt sem betur fer ekki en sendi mér tóninn og ég svaraði því að hann þyrfti að gæta að hvar hann færi.

Þetta er enn eitt dæmið um makalausa ósvífni hjólreiðamanna á gangstéttum sem fólk hefur einnatt greint frá og ég hef nokkrum sinnum orðið fyrir.
Það virðist vera að gangandi vegfarendum, jafnt blindum sem óblindum, sé lengur varla fritt á gangstéttum og stígum höfuðborgarsvæðisins þar sem allt of margir hjólreiðamenn skeyta engu um merkingar og viðurkenndan rétt gangandi fólks.

Ég geng stundum mér til ánægju um þriggja km leið frá heimili mínu eftir Suðurmýri, norður Grænumýri, um Frostaskjól, meðfram KR-vellinum að Grandavegi út á Meistaravelli og þaðan út á Kaplaskjólsveg. Eftir honum fer ég að gatnamótum Nesvegar og enda svo við heimili mitt um 800 m fyrir vestan gatnamótin.

Þegar ég hætti mér út á Seltjarnarnes og geng hringinn þýtur hjólreiðafólk framhjá án þess að gera vart við sig. Þeir sem nota bjöllu til að gera gangandi fólki viðvart virðast í miklum minnihluta.
Hið sama er um göngu- og hjólreiðastíginn meðfram Ægisíðunni. Þar hjóla margir á göngustígnum og virða engar merkingar.
Þeir sem þannig hegða sér koma óorði á þá sem virða gildandi reglur.


Yfirgangur og skeytingarleysi í hópi hraðhjólamanna

Í fjölmiðlum hefur að undanförnu borið á kvörtunum vegna hegðunar þeirra sem stunda kappreiðar á reiðhjólum. Samkvæmt dagbókum lögreglunnar í Reykjavík berast á hverjum degi ábendingar um yfirgang þeirra gegn gangandi vegfarendum á göngu- og hjólreiðastígum.
Því miður er það reynsla undirritaðs að þessar kvartanir eigi rétt á sér. Sjálfsagt er þetta lítill hópur, en hann setur óneitanlega svartan blett á þá sem vilja njóta þess að bregða sér á bak hjólhesti sínum. Þegar vakin er athygli þeirra á yfirganginum er gjarnan svarað með skætingi og háðsyrðum
Um verslunarmannahelgina höfum við hjónin farið um höfuðborgarsvæðið á tveggja manna hjóli. Sunnudaginn 5. ágúst fóru nokkrir hjólreiðamenn fram úr okkur án þess að vara okkur við með bjöllu.
Í dag vorum við á ferð um hjólreiðastíginn við Ægisíðu og þegar við beygðum inn á suðurgötustíginn brussuðust þrír hraðhjólamenn fram úr okkur, þar af tveir á hægri hönnd. Engin bjalla notuð. Síðan bitu þeir höfuðið af skömminni með því að fara niður á göngustíginn og héldu þar áfram þrátt fyrir merkta hjólreiðaleið.
Auk þessa mættum við fjölda hjólreiðamanna sem þutu áfram á hraðhjólum sínum og enginn þeirra virtist vera með bjöllu.

Í raun er löngu kominn tími til að lögreglan fari að hafa eftirlit með umferð á hjólreiðastígum og reyni með einhverju móti að lægja þennan yfirgang hraðhjólreiðamanna.

Að lokum skal einnig bent á þá hættu sem skapast þegar foreldrar sleppa ungum börnum sínum út á hjólreiðastígana án eftirlits. Eitt sinn gerðist það að á undan okkur fór 8-9 ára drengur á hjóli. Þegar hann var beðinn að víkja svo að við kæmumst framhjá honum hófst hann handa við að hjóla á undan í krákustígum og það var ekki fyrr en eftir hvassa ábendingu að hann lét undan og sveigði til hægri.

Höfundur er áhugasamur um hjólreiðar og aðrar vistvænar samgöngur.

Í lokin skal tekið fram að mikill meirihluti hjólreiðafólks sýnir tillitssemi, en það virðist orðin len ska á meðal hraðhjólara að vaða áfram og gefa aldrei merki með bjöllu. Sagt er að bjallan þingi svo hjólin að hún dragi úr hraða þeirra!


Vandræði stjórnmálahreyfinga

Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, hefur ritað athyglisverða pistla í helgarblað Moggans undanfarna mánuði. Hér er birtur pistillinn frá 21. júlí með leyfi höfundar.

 

Ráðstefna Ögmundar Jónassonar gæti orðið upphafið að endurnýjun vinstri hreyfinga

 

Sl. þriðjudag var haldin ráðstefna fyrir fullu húsi í Norræna húsinu um þá spurningu hvort við þyrftum að endurskapa samfélagið. Vegna erlendra fyrirlesara fór ráðstefnan fram á ensku og á þeirri tungu var spurningin sem leitað var svara við þessi: „Do we have to reinvent society?“

Það var Ögmundur Jónasson, fyrrum þingmaður og ráðherra Vinstri grænna, sem efndi til þessa málþings í tilefni af sjötugs afmæli sínu þann dag. Hann sagði mér að þetta yrði „mjög rauð ráðstefna“, sem vakti áhuga minn á að hlýða á það sem fram mundi fara.

Hvað skyldi vera að gerast á meðal vinstri manna um þessar mundir?

Nú á tímum, þegar lítið er um umræður og skoðanaskipti um meginmál í þjóðfélagsmálum, er slíkt framtak einstaklings til mikillar fyrirmyndar. Á starfsvettvangi stjórnmálaflokkanna er orðið ótrúlega lítið um slíkar umræður.

Á afmælisráðstefnu Ögmundar voru nokkrir erlendir fyrirlesarar og þótt þeir hafi komið víða að má segja að meginþráður í gagnrýni þeirra á það sem liðið er hafi ekki bara snúið að því sem hér er kallað nýfrjálshyggja, heldur líka á þá jafnaðarmenn sem undir merkjum „New Labour“ og Tony Blair, þáverandi leiðtoga brezka Verkamannaflokksins, hafi nánast gengið til liðs við þá sem aðhylltust þá hugmyndafræði.

Allyson Pollock læknir var í hópi fyrirlesara, en hún hefur gengist fyrir lögsókn á hendur brezkum stjórnvöldum vegna einkavæðingar heilbrigðisþjónustunnar. Einn af samstarfsmönnum hennar í því verkefni var hinn heimsþekkti Steven Hawking, sem nú er látinn. Brendan Martin veitir forstöðu hugveitu sem nefnist Public World. Þá var þarna þýzkur járniðnaðarmaður, Jurgen Buxbaum, sem síðar öðlaðist háskólamenntun, og John Holloway, sem er prófessor við háskóla í Mexikó. Kúrdar áttu sinn fulltrúa á ráðstefnu Ögmundar, sem var Havin Guenser, sem kynnti nýjar þjóðfélagshugmyndir í þeirra röðum. Loks var í þessum hópi Vicente Paolo Yu, sem kemur að alþjóðastarfi verkalýðsfélaga.

Eins og sjá má var hér vandað mjög til verka. Í upphafi spilaði Vladimir Stoupel á flygil og jafnframt léku tvær ungar stúlkur, Danielle Angelique og Gabrielle Victoria, á fiðlur.

Á margan hátt má segja að Ögmundur sjálfur hafi flutt athyglisverðustu ræðuna í upphafi. Hann lýsti þeirri skoðun að stjórnmálaheimurinn væri að fjarlægjast grasrótina og jafnvel verkalýðshreyfingin líka. Hann vísaði með skemmtilegum hætti í Sölku Völku og átök hennar við Bogesen, sem átti allt í þorpinu en hann hefði þó vitað hvað þar var að gerast. Bogesenar okkar tíma hafa yfirgefið þorpið, sagði Ögmundur, og vita ekki lengur hvað þar er á ferð.

Getur verið að þetta séu líka örlög stjórnmálamanna okkar tíma, að þeir sjái „þorpið“ ekki lengur og viti þess vegna ekki hvað þar er að gerast?

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, var í hópi fyrirlesara og setti fram athyglisverða gagnrýni á viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar við Hruninu. Hún lýsti þeirri skoðun að í stað þess að nota tækifærið og beita sér fyrir breytingum hefði verkalýðshreyfingin tekið þátt í því eftir Hrun að endurreisa það samfélag sem var. Það var ljóst af viðbrögðum fundarmanna að þetta sjónarmið náði sterklega til þeirra.

Ekki er ólíklegt að þarna hafi talað einn af framtíðarleiðtogum vinstri manna á Íslandi.

Það er alveg ljóst að stjórnmálahreyfingar vinstri manna hafa verið í djúpri tilvistarkreppu síðustu áratugi og alveg sérstaklega frá fjármálakreppunni 2008. Það á við bæði hér og annars staðar. En það er athyglisvert að sú tilvistarkreppa hefur lítið sem ekkert verið til umræðu meðal vinstri manna hér.

Það er ekki fráleitt að halda því fram að þessi ráðstefna Ögmundar Jónassonar hafi verið eins konar byrjun á því að vinstri menn snúi blaðinu við og reyni að finna sér fótfestu á ný. Fyrsta skrefið í þá átt er að sjálfsögðu að skilgreina rétt hver vandinn er.

Auðvitað eru vinstri menn ekki þeir einu sem þurfa að finna sér nýjan farveg. Það þurfa hægri menn líka að gera, eins og ég leitast við að fjalla um í bók minni Uppreisnarmenn frjálshyggjunnar – Byltingin, sem aldrei varð, sem út kom fyrir síðustu jól, þar sem m.a. er fjallað um pólitíska vegferð þeirrar nýju kynslóðar sem kom til skjalanna í Sjálfstæðisflokknum fyrir um fjórum áratugum og brunaði fram undir fánum frjálshyggjunnar. Sjálfstæðisflokkurinn þarf ekki síður en vinstri menn að endurhugsa og endurnýja sína stefnu.

Og þá má velta því fyrir sér hvort raunverulega beri mikið á milli þessara fylkinga í mati á því hvernig eigi að endurskapa samfélagið.

Í fyrrnefndri bók segir:

„Það er hægt að færa sterk rök fyrir því að skiptingin í stjórnmálum á Íslandi sé ekki lengur á milli hægri og vinstri eða á milli einstakra flokka heldur sé hún á milli þeirra fámennu samfélagshópa, sem eru inni í valdahringnum og samanstanda af stjórnmálamönnum, embættismönnum, sérfræðingum innan háskólasamfélagsins og vissum hópum í viðskipta- og atvinnulífi og jafnvel í fjölmiðlun. Utan við þann hring stendur þorri þjóðarinnar.

Þeir sem eru inn í valdahringnum notfæra sér aðstöðu sína út í yztu æsar.“

Það sem er spennandi við samstarf þeirra flokka sem standa að núverandi ríkisstjórn er einmitt það hvort flokkar til hægri og vinstri geti náð saman um að endurskapa samfélag okkar í ljósi fenginnar reynslu.

Það á eftir að koma í ljós hvort það tekst.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is

til baka Til baka


Þing verði hið fyrsta boðað saman

Yfirvinnubanni ljósmæðra hefur verið frestað og á mánudag hefst atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu sáttasemjara.

En ríkisstjórnin er ekki laus allra mála.

Kveðja verður Alþingi hið fyrsta saman og verði metinverk þingsins að vinda ofan af heimskupörum kjararáðs.

Réttast væri að setja sérstök lög um að þeim embættismönnum, sem hygðust höfða mál á hendur ríkinu, verði vikið úr starfi.

Þegar ber að hefjast handa og bæta fyrir heimskupör síðustu ríkisstjórna. Oft var þörf en nú er nauðsyn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband