Færsluflokkur: Tónlist

Harpa - húsið okkar allra

Ég starfa ekki sem blaðamaður og því er ég stundum lengi að ákveða hvað skrifa skuli um.

Þegar hugurinn reikar til fyrstu tónleikanna, sem haldnir voru í Hörpu miðvikudaginn 4. maí, þakka þég fyrir að allt fór saman: frábær stjórnandi, undurgóð hljómsveit og einleikari, áhrifamikill kór og einsöngvarar, áheyrendur sem frá streymdu gleðibylgjur og unaðslegur salur, salurinn sem margir höfðu þráð en fæstir búist við því sem mætti eyrum þeirra.

Í fyrsta sinn skynjaði ég til fulls dýpt og hreinleika strengjanna og hljóðfærin greindu sig hvert frá öðru betur en aldrei fyrr, en mynduðu þó eina órofaheild. Stjórnandinn hafði tvö hljóðfæri í höndum sér: hljómlistarmennina og Hörpu. Hann lék á hvort tveggja af einstakri fágun og kunnáttu. Ég hef oft heyrt 9. sinfóníu Beethovens flutta á tónleikum og píanókonsert Griegs. Aldrei heryði ég fyrr jafnmiklar styrkandstæður sem á þessum tónleikum. Salurinn skilaði þeim öllum. Vladimir Ashkenazy þekkti hann þrátt fyrir stutt kynni og vissi hvað mætti bjóða honum og áheyrendum. Afraksturinn varð ólýsanlegur.

Verk Þorkels Sigurbjörnssonar, Velkomin Harpa, var látlaust og íburðarlítið eins og hæfir auðmjúkri sál sem fyllist þakklæti þegar æðsti draumurinn rætist.


Eftirvæntingin vex

Að undanförnu hafa Ríkisútvarpið, Morgunblaðið og aðrir fjömiðlar byggt upp mikla eftirvæntingu hjá tónlistarunnendum vegna Hörpu, en þar verða fyrstu tónleikarnir haldnir í kvöld. Þeim sem hafa verið áskrifendur árum saman að tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, gefst kostur á að vera viðstaddir tónleikana.

Lísa Pálsdóttir gerði ýmsu skemmtileg skil í þætti sínum Flakki á rás eitt síðastliðinn laugardag. Í gær var skemmtileg grein eftir gísla Baldur Gíslason í Morgunblaðinu og enn kveður við sama tón hjá Karli Blöndal í blaðinu í dag. Það hríslast sælukennd um allan líkamann við lestur viðtalanna og þau orð sem viðmælendur láta falla.

Eftirvæntingin er mikil. Því meira sem ég heyri og les verður tilhlökkunin meiri. Það er unaðsleg tilfinning að geta hlakkað til eins og barn sem hlakkar til jólanna eða afmælis síns.


Jóhannesarpassían og hvissið í Hallgrímskirkju

Í gær, föstudaginn 1. apríl, fluttu Mótettukór Hallgrímskirkju, Alþjóðlega barokksveitin í Den Haag, sem er barokkhljómsveit með upprunalegum hljóðfærum og íslenskir einsöngvarar stórvirki Bachs, Jóhannesarpassíuna. Ungur tenórsöngvari, Benedikt Kristjánsson, fór með hlutverk guðspjallamannsins í fyrsta sinn. Aðrir einsöngvarar voru Þóra Einarsdóttir sópran, Sigríður Ósk Kristjánsdóttir alt, Ágúst Ólafsson bassi/Pílatus og Andri Björn Róbertsson bassi/Jesús. Þessum glæsilega flutningi stýrði Hörður Áskelsson af sinni alkunnu snilld.

Þótt Jóhannesarpassían veiti ef til vill ekki stjórnandanum tækifæri til fjölbreytilegrar túlkunar umfram það sem tíðkast hefur, var samt ljóst að áherslur kórs, söngvara og hljóðfæraleikara fóru talsvert eftir textanum hverju sinni og var því flutningurinn einlægur og lifandi, en ekki vélrænn, eins og stundum hefur borið við, þegar verk Bachs eru flutt. Hverju sem menn trúa um krossfestingu Jesú og það sem á eftir fór, hrífur einlægni Bachs áhorfandann og hann verður snortinn af sögunni sem sögð er.

Hallgrímskirkja hentar að mörgu leyti vel fyrir flutning kórverka þar sem mikið er um hæga kafla, en þegar hraðir kaflar eru leiknir vill ýmislegt fara í graut. Við hjónin sátum á 7. bekk í 4. og 5. sæti hægra megin og var hljómburðurinn þar viðunandi. Eitt truflaði þó talsvert. Þegar tóneyrað hafði aðlagast að barokk-stillingunni, fór að heyrast undarlegt hviss sem virtist berast aftan frá til hægri. Eftir nokkra ígrundun var augljóst hvað var á seyði. Þegar s eða h komu fyrir í textanum hjá kórnum endurköstuðust þessi hljóð frá gafli kirkjunnar u.þ.b hálfri sekúndu síðar. Sá ég eftir að hafa ekki tekið með mér vasahljóðrita til þess að fanga þetta fyrirbæri.

Mótettukór Hallgrímskirkju er á heimsmælikvarða og ekki síður einsöngvararnir og hljómsveitin. Flutningur sá, er kirkjugestir hlýddu í gærkvöld, getur vart orðið betri og er þar hlutur stjórnandans ekki sístur.


Listsigur Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Ríkisútvarpsins

Í kvöld var svo sannarlega boðið til tónlistarveislu hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands í Háskólabíói. Hljómsveitin lék kvikmyndatónlist eftir Erich Korngold, Nino Rota, Bernard Herrmann, Jonny Greenwood og fleiri, m.a. úr Guðföðurnum, Cinema Paradiso, Psycho og Planet of the Apes, ásamt syrpu með vinsælustu James Bond-lögunum.

Hljómsveitarstjóri var Benjamin Shwartz. Hljómsveitarstjóra og hljóðfæraleikurum var innilega fagnað að tónleikum loknum og lék hljómsveitin eitt aukalag.

Útsending Ríkisútvarpsins, sem þeir stjórnuðu, Bjarni Rúnar Bjarnason og Georg Magnússon, var með þeirri prýði að vart getur betra hand- eða á ég að segja hljóðbragð. Hafi leikur hljómsveitarinnar verið óaðfinnanlegur var útsendingin og hljóðdreifing á heims mælikvarða.

Efnisvalið á tónleikunum var afar fjölbreytt og gaf ágæta mynd af því besta sem samið hefur verið fyrir kvikmyndir.

Tónleikarnir hófust á tveimur verkum eftir austurríska tónskáldið Erich Wolfgang Korngold (29. maí 1897 -29 nóvember 1957), en hann helgaði kvikmyndatónlist ævistarf sitt að mestu leyti. Er merkilegt að hugsa til þess að áhrifa hans gætir enn á meðal kvikmyndatónskálda ríflega hálfri öld eftir andlát hans, samanber verk Veigars Margeirssonar.

Ekki verður hér fjallað um einstök verk tónleikanna. Þau voru hvert með sínu sniði og spegluðu vel það sem margir vita að kvikmyndatónlist er ekki óæðra listform eins og sumir hafa haldið fram. Margt af því, sem flutt var í kvöld, verður að teljast á meðal hins besta sem samið hefur verið síðasliðna öld.

Hljómsveitarstjórinn kynnti flest verk tónleikanna sjálfur og komst Arndís Björk Ásgeirsdóttir því sjaldan að. Þess ber að geta að kynningar hennar á sinfóníutónleikum eru einstaklega fágaðar og vel unnar svo að unun er á að hlýða. Undirritaður gat ekki varist hlátri þegar hljómsveitarstjórinn tilkynnti eftir að svítunni um Hróa hött lauk, að Íslendingar hefðu unnið Norðmenn í handbolta.

Tónlistarunnendur eru eindregið hvattir til þess að fara inn á vef Ríkisútvarpsins, www.ruv.is og hlusta á þessa einstæðu tónleika.

Aðstandendum öllum er óskað til hamingju með kvöldið.

Úr því að hljómsveitin nær að hljóma svona vel úr Háskólabíói fyrir tilstilli meistara Ríkisútvarpsins, hvernig skyldi hún þá hljóma úr Hörpu? Væntanlega betur í salnum, en vart verður lengra komist í útvarpi.


Kór Menntaskólans í Hamrahlíð - vænlegur árgangur

Í gær, sunnudaginn 21. nóvember á síðasta degi kirkjuársins, efndi Kór Menntaskólans í Hamrahlíð til tónleika í Aðventkirkjunni við Ingólfsstræti í Reykjavík. Vart þarf að nefna að Þorgerður Ingólfsdóttir stjórnaði kórnum af stakri snilld. Á dagskrá voru íslensk og erlend kórlög, gömul og ný.

Flutningurinn var nær hnökralaus. Þegar Þorgerður sagði frá einu verkanna sem flutt var hafði hún orð á því að kórar Menntaskólans v. Hamrahlíð hefðu verið beðnir að flytja það fyrst hér á landi, en þá hefði verið mjög góður árgangur. Talaði hún eins og víngerðarmaður. Í gær voru á tónleikunum byrjendur í kórnum og reyndir félagar. Auðheyrt var að Þorgerður var með efni í einstaklega góðan árgang í höndunum.

Ef við hugsum okkur þá alúð sem góður vínbóndi leggur við yrkju sína og vitum að árangurinn fer eftir ástundun hans, vitum við einnig að hið sama gildir um ýmislegt fleira, þar á meðal skólastarf. Þorgerður er ein þeirra fjölmörgu Íslendinga sem lagt hafa alúð við að rækta garðinn sinn. Garður Þorgerðar er fjölskrúðugur tónlistargarður. Þar er sáð ungum viðarteinungum sem vaxa og dafna. Sumir ná miklum þroska og breiða laufskrúð sitt um víðan völl - yfir höf og lönd og heilar álfur.

Ef Íslendingum væri jafnlagið að leggja sömu rækt við íslenska menningu og tungu og Þorgerður hefur gert með list sinni væri íslensk menning betur á vegi stödd í stað þess að hrekjast nú á undanhaldi vegna ásælni erlendrar lágmenningar og orðfæris. Ingólfur Guðbrandsson, faðir Þorgerðar og fyrirmynd í listinni, var bæði snillingur orðsins og hljómsins. Sama marki er Þorgerður brennd.

Megi þjóðin njóta krafta hennar og atorku sem lengst.


Hugmyndaríkur sönglagahöfundur

Í gær, föstudaginn 15. október, voru haldnir í Salnum í Kópavogi minningartónleikar um Árna Thorsteinsson, en hann fæddist þennan dag árið 1870. Má geta sér þess til að tónleikarnir hafi einnig verið haldnir í tilefni þess að nýlega fundust áður óþekkt lög eftir Árna.

Jónas Ingimundarson, Gunnar Guðbjörnsson og Ólafur Kjartan Sigurðarson fluttu lög Árna af mikilli innlifun og fágun. Þeir Ólafur og Gunnar eru ólíkir söngvarar um flest. Greinilegt var að þeir höfðu skipt með sér lögunum eftir því hver hentuðu hvorum og fluttu þeir báðir tónsmíðarnar með sínum hætti og af mikilli prýði.

Salurinn var þétt setinn. Mikill hluti áheyrenda var um eða yfir miðjum aldri, sem er ekki óeðlilegt, því að Árni var vinsælt sönglagatónskáld hér á landi langt fram eftir síðustu öld. Lög hans eins og Kirkjuhvoll, Dalavísur, Rósin o.fl. eru hverjum unnanda íslenskra sönglaga kunn.

Ég hef lengi dáðst að því hvað Árni var listfengur í tónsmíðum sínum. Þær skera sig úr flestum íslenskum sönglögum fyrri tíma að því leyti að undirleikurinn er mun þróaðri og fylgir síður laglínunni en hjá flestum tónskáldum. Þá eru útsetningar Árna iðulega fjölþættari en hjá öðrum sönglagahöfundum sem voru á dögum um svipað leyti og hann.

Sérstaka athygli mína vakti lag Árna við Draum hjarðsveinsins. Þar fóru saman einstök kímni og listfeng sköpun. Heyra mátti á Jónasi Ingimundarsyni að lagið væri í miklu uppáhaldi hjá honum.

Lagið Ingjaldr í skinnfeldi var sagt eitt hinna nýfundnu laga. Ég minnist að hafa heyrt það í Ríkisútvarpinu nokkrum sinnum, flutt af Þorsteini Hannessyni eða Sigurði Skagfield. Eigi að síður var gaman að heyra það enn á ný.

Lítt bólar á þjóðlegum áhrifum í tónsköpum Árna Thorsteinssonar, en það rýrir ekki gildi og fegurð laganna. Hann hefur greinilega sótt hugmyndir til Schuberts og annarra rómantískra tónskálda. Rómantíkinni fylgir iðulega angurværð og talsvert bólar á henni í mörgum laganna á meðan önnur eru full af bjartsýni og þrá, einkum þau sem fjalla um vorið og landið.

Árni Thorsteinsson var eitt af ástsælustu tónskáldum Íslendinga og svo sannarlega verður þess að minningu hans sé heiður sýndur.


Óskabarn þjóðarinnar á tónleikum

.

Mikið var um dýrðir á upphafstónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í gær, 10. september. Uppselt var á tónleikana, enda Víkingur Heiðar Ólafsson einleikari, en einn tónleikagesta orðaði það svo að hann væri svo sannarlega „óskabarn þjóðarinnar“. Stjórnandi var Ivan Volkov. Hann hlaut Gramophone-verðlaunin árin 2008 og 2009 og fékk frábærar viðtökur á Proms-tónlistarhátíðinni 2009, enda má með sanni segja að hann sé á

hátindi ferils síns um þessar mundir. Hlustendum BBC World Servic og Ríkisútvarpsins gafst tækifæri til að hlýða á útsendingar þar sem Volkov hélt á sprotanum og í gær var hann í Háskólabíói og Ríkisútvarpinu.

 

Víkingur Heiðar var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2009 fyrir listsköpun sína og hefur á undanförnum árum komið fram með nokkrum fremstu tónlistarmönnum heims, meðal annars Martin Fröst og flautuleikaranum Denis Bouriakov, en þeir munu halda tónleika í Carnegie Hall í desember næstkomandi, eins og lesa má um í efnisskrá tónleikanna.

 

Á dagskrá voru verk eftir ungverska tónskáldið György Ligeti, Franz Liszt, Sergei  Rakmaninoff og Ígor Stravinskíj.

 

Fyrstu tvö verkin   voru fremur hefðbundin, en þó verður að hafa orð á nútímalegri tónsköpun Lizts sem kemur ævinlega á óvart.

 

Samleikur hljómsveitarinnar og Víkings Heiðars var með fádæmum góður. Stjórn Volkovs var þannig að Víkingur virtist hafa í fullu tré við hljómsveitina og ég hef áður vart heyrt betri samhljóm milli flygils og hljómsveitar hér á landi. Jafnvel bryddaði á því að leikur hljómsveitarinnar væri of daufur. Það er hrífandi að fylgjast með því hvað Víkingur Heiðar leikur að því er virðist áreynslulaust og er stundum sem þrjár eða jafnvel fjórar hendur séu á lofti í senn, eins og ég orðaði umsögn mína um Ástríði Öldu sigurðardóttur.

 

Þegar píanóveislunni lauk lék Víkingur Heiðar útsetningu sína á lagi Páls Ísólfssonar „Í dag skein sól“. Þetta var eiginlega hálfgerður sorgarmars hjá Víkingi og ég get vel ímyndað mér að einhverjir vildu láta leika þessa útsetningu sem útgöngulag í jarðarförinni sinni. Það er þó vart á allra færi. Víkingur Heiðar útsetur íslensk sönglög þannig að miklu þarf að kosta til að leika þau. Það spillti dálítið fyrir að sá G-tónn á efra tónsviði flygilsins, sem mest er notaður í laginu, hljómaði örlítið falskur. Hugsanlega er eitthvað farið að gefa sig eða Víkingur er of mikil hamhleypa þessum flygli. Hætti ég mér ekki nánar út í þá sálma en vænti þess að einhver píanóleikari eða stillingarmeistari útskýri þetta.

 

Tónleikunum lauk svo með Eldfuglinum eftir Igor Stravinskíj. Verkið er afar áhrifamikið en sveiflukennt eins og margt sem Stravinskíj samdi. Flutningur hljómsveitarinnar var óaðfinnanlegur og kraftmikill.

 

Þetta voru einstæðir og spennandi tónleikar, svo æsandi á köflum að tónleikagestur nokkur hafði orð á að hann væri þvalur af svita eftir átökin við að hlusta. Urðum við sammála um að nautnin sem fylgdi slíkum tónleikum væri slík að talsverða orku þyrfti til að njóta þeirra. Væri sennilega hverjum manni hollt að sækja slíka tónleika engu síður en að stunda gönguferðir, leikfimi og hljólreiðar.

 

 


Mikil tíðind og góð

Steinunn Birna Ragnarsdóttir, slaghörpuleikari, verður fyrsti tónlistarstjóri Hörpu. Af öllum öðrum ólöstuðum gat valið vart betra verið. Steinunn er mikilhæfur og mikilvirkur tónlistarmaður, góður fræðari og fylgin sér. Telja má víst að þessi ákvörðun verði giftudrjúg.

Hátíðartónleikar í Skálholtsdómkirkju, hrífandi flutningur

Í dag, sunnudaginn 4. júlí 2010, voru haldnir hátíðartónleikar í Skálholtsdómkirkju í tilefni þess að 35 ár voru liðin frá því að sumartónleikar hófu göngu sína. Það var sembalsnilingurinn Helga Ingólfsdóttir sem átti hugmyndina að tónleikahaldi þar á staðnum og veitti tónleikunum forstöðu árum saman ásamt eiginmanni sínum, Þorkatli Helgasyni.

Í dag var flutt eitt af stórvirkjum tónbókmenntanna, Vespro della Beata Vergine frá árinu 1610 eftir Claudio Monteverdi. Flytjendur voru Kammerkórinn Collegium Cantorum frá Uppsölum, Stúlknakór Reykjavíkur – Vox junior, Marta G. Halldórsdóttir og Rannveig Sif Sigurðardóttir, sópranar, Eyjólfur Eyjólfsson og Nils Högman, tenórar, Peter Johnsson og Tryggve Nevéus, bassar. Undirleikur var í höndum Instrumenta Musica. Stjórnandi: Olle Johansson.

Eins og vænta mátti var kirkjan fullsetin og var andrúmsloftið magnað hrifningu og þakklæti fyrir þennan einstæða flutning.

Æði oft, þegar tónlist endurreisnar- eða barokk-tímans er leikin eru hljóðfærin stillt lægra en nú tíðkast og nemur það um hálftóni . Í dag var það ekki gert. Rannveig Sif Sigurðardóttir staðfesti þetta við mig en mér heyrðist ekki betur en hún segði að a.m.k. hluti verksins hefði verið lækkaður um hálfa tóntegund. Truflaði þetta ekki tóneyrað en ég hef þá áráttu að fylgjast gjarnan með þeim tóntegundum sem leikið er í og þurfti ég ekki að stilla eyrað í dag á barokk-stillingu.

Hljóðfæraleikurinn var sérstaklega fágaður og vel heppnaður og á það einnig við um hlut einsöngvara og kóra, en frammistaða þeirra var óaðfinnanleg. Samræmið millum kórs, hljómsveitar og einsöngvara var til fyrirmyndar og áferðin öll hin fegursta. Það var fróðlegt að velta fyrir sér þeim áhrifum sem Claudio Monteverdi hlýtur að hafa haft á þau tónskáld sem á eftir komu. Vissulega ber verkið þess merki að vera undanfari þess að Barokk-stíllinn næði hæðum sínum í pólífónískri snilli J.S. Bachs. Eigi að síður hlýtur þetta verk að teljast eitt af snilldarverkum tónbókmenntanna og fór afar vel á að flytja það á þessum hátíðartónleikum sem verða að teljast meðal hins besta sem flutt hefur verið í Skálholti.

Sem leikmaður og áhugamaður um tónlist flyt ég aðstandendum einlægar hamingjuóskir og þakka hrífandi flutning og ógleymanlega stund.


Lágstéttirnar sviptar hagnaði og leikur ljóssins í Hörpu

Tvær greinar vöktu athygli míkna í Sunnudagsmogganum í dag. Aðra skrifaði Styrmir Gunnarsson og veltir hann þar fyrir sér tilgangi þess að ríkisstjórnin gangi nú í lið með bönkunum í baráttunni við almenning. Eru það athyglisverðar hugleiðingar og innlegg í þá umræðu að með einum eða öðrum hætti virði menn ekki dóm Hæstaréttar. Gerir Styrmir m.a. því skóna að íslenska fjármálakerfið se en of stórt og kostnaðinn við það greiði neytendur eins og hefur gerst með of margar bensínstöðvar olíufélaganna. Það er gömul saga að menn hamist hér gegn of stóru fjármálakerfi og ekki nema rétt að á það sé bent nú eftir að allt fór hér á hliðina. Ég les ævinlega pistla Styrmis því að um margt hefur hann reynst réttsýnn og sanngjarn þeim sem eiga hendur sínar að verja fyrir ofríki þeirra sem meira mega sín.

Þá vakti athygli mína prýðilegt viðtal Einars Fals Ingólfssonar, ljósmyndara og blaðamanns, við Ólaf Elíasson, myndlistarmann, þar sem þeir félagar fjalla um glerhjúpinn utan um Hörpu og sjónarleik þann sem framinn verður allt árið um kring. Var ævintýralegt að lesa lýsingarnar og gera sér í hugarlund hvernig byggingin njóti sín í framtíðinni og setji svip á umhverfi Reykjavíkur. Ólafur er frumkvöðull en apar ekki eftir öðrum. Fleiri frumkvöðlar hefðu þurft að koma að sköpujn Reykjavíkur. Þá væri hún e.t.v. skárri yfirferðar en nú.

Nú vænti ég þess að Sunnudagsmogginn fjalli næst um hljóðfræðina sem tónleikasalurinn í Hörpu byggir á. Til þess var nú leikurinn gerður að við eignuðumst gott tónleikahús. Ljósadýrðin verður síðan kærkomin viðbót sem lýsir upp skammdegið í Reykjavík og ljær því ævintýrablæ.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband