Færsluflokkur: Tónlist

Skemmtilegur orgelleikur í Dómkirkjunni

við hjónin brugðum okur í messu í Dómkirkjunni í Reykjavík á sautjándanum eins og stundum áður. Nú er svo komið að oss óæðri gestum er boðið upp á loft og þar þarf að klöngrast yfir palla og þrep áður en fundin verði sæti. Við létum okkur hafa það að venju og settumst við hlið Mörtu Guðrúnar Halldórsdóttur, söngkonu, sem söng alla sálmana með sinni prýðilegu rödd. Ekki lagði ég í sálmasöng enda kann ég fáa sálma og Lofsöngur Matthíasar, sem getið er í bók Helga Ingólfssonar, Þegar kóngur kom, reyndist of erfiður til söngs nú eins og fyrir 136 árum.

Örn Magnússon, eiginmaður Mörtu Guðrúnar, lék á orgel Dómkirkjunnar og stjórnaði Dómkórnum. Sem forspil notaði hann "Gefðu Guð faðir, faðir minn" eftir Jón Leifs og átti það vel við. Sem eftirspil lék hann úr Rímnadönsum eftir Jón Leifs og fór þá allt á ið innra með mér og ýmsum kirkjugestum öðrum. Ég klappaði tvisvar en Dómkórinn klappaði á táknmáli. Mikið var það vel viðeigandi og skemmtilegt að nota rímnadansana sem eftirspil.

Síðar um daginn sóttum við heim Árbæjarsafn ásamt móður Elínar og vinkonu hennar. Um kvöldið röltum við um í miðborginni að hlusta á ýmsar hljómsveitir. Þótti mér þar Varsjárbandalagið skemmtilegt. Gleðin og kímnin smitaði svo út frá sér að allir, jafnt hægri- sem vinstrisinnaðir - urðu glaðir. Þar var m.a. leikin Þjóðrembusyrpa sem hófst á balkneskri stælingu lagsins Ísland Farsældarfrón. Þá heyrðust vel fjölmenningarleg áhrif sem orðið hafa hér á landi og eiga fátt skylt við þá ensku eða amerísku menningu sem tröllríður þjóðtungunni og öðrum þáttum þjóðlífsins um þessar mundir svo að Sautjándinn hefði vel getað verið amerísk útihátíð í Texas.


Lokahnykkur Listahátíðar

Óperuveisla Kristins Sigmundssonar var fágæti og vel við hæfi að enda listahátíðina að þessu sinni með einhverjum ástsælasta söngvara Íslendinga um þessar mundir.

Mér var boðið í þessa veislu. Gestgjafinn, Sigtryggur bróðir, fékk miða á aftasta bekk og kveið ég því að sitja þar. En viti menn - hljómburðurinn er þar skárri en tveimur röðum framar. Heildaráferð tónlistarinnar skilaði sér prýðilega þótt e.t.v. hafi örfá smáatrið farið fortörðum.

Jafnvægi söngvara og hljómsveitar var með ágætum og flutningur Kristins hreint undursamlegur á köflum. Ég mæli eindregið með því að aðdáendur hans og reyndar allir sem unna sígildum tónverkum hlusti á prýðilegt hljóðrit Ríkisútvarpsins af tónleikunum sem útvarpað var í dag.

http://dagskra.ruv.is/ras1/4528801/2010/06/06/


Eyjalögin endurnýjuð

Í gærkvöld efndi Tríó Blik til tónleika í Seltjarnarneskirkju. Sérstakur gestur tónleikanna var Steinunn Birna Ragnarsdóttir, slaghörpuleikari, en auk hennar fluttu þær Freyja Gunnlaugsdóttir, bæjarlistamaður Seltjarnarness í ár og doktor í klarínettuleik tónlistina og Hanna Dóra Sturludóttir, söngkona, en þær stöllur búa báðar í Berlín. Fyrir hlé voru nokkrar perlur úr tónbókmenntum Mið-Evrópu fluttar auk lags eftir Atla Heimi Sveinsson. Verða þeim hluta tónleikanna ekki gerð skil því að sannast sagt missti ég af fyrri hlutanum af óviðráðanlegum ástæðum. Verk þessi er að finna á geisladisknum Kviðu sem Tríó blik hefur nýlega gefið út.

Eftir hlé voru á dagskrá tónleikanna ljóð eftir Ása í Bæ við eigin lög og Oddgeirs Kristjánssonar. Atli Heimir útsetti þau sérstaklega vegna útgáfu geisladisks sem brátt lítur dagsins ljós. Freyja er barnabarn Ása og setti sér það markmið að gefa út öll ljóð afa síns ásamt lögum hans og annarra er samið hafa lög við þau. Atli Heimir samdi nýtt lag við minningarljóð Ása um vin sinn, Odgeir Kristjánsson og verður það á geisladiskinum.

Flutningur þeirra kvennanna var skemmtilegur, afar lipur og fágaður. Atli Heimir hefur gert skemmtilegar útsetningar fyrir píanó og klarínettu. Undirleikurinn er ekki ofhlaðin of mikilli fingrafimi en hljópípuleikarinn fær að fara á kostum sem Freyja gerði svo sannarlega. Einnig var athyglisvert hversu næm túlkun Hönnu Dóru var á efninu. Henni skeikaði hvergi.

Það hríslaðist um ig sælukennd þegar ég heyrði sum lögin. Sólbrúnir vangar og Ég veit þú kemur auk annarra laga runnu inn í sálina og ollu nokkrum tilfinningaglundroða. Þessi lög og ljóð þeirra félaga eru órjúfanlegur hluti æsku- og unglingsáranna sem er á meðal hins ljúfasta sem hugurinn varðveitir.

Þessi glaðværu en um leið angurværu lög sköpuðu skemmtilega heild. Hún var þó rofin á einum stað. Freyja tilkynnti að skotið yrði inn laginu Fréttaauka sem Ási gerði ljóð við, en tónskáldið væri á staðnum. Flutningurinn var áhrifamikill. Lagið hafði verið útsett í hægum takti og Atli Heimir lét efni ljóðsins njóta sín, en það er sorgarljóð og ádeila á styrjaldir. Hálftónarnir skiluðu sér allir og þetta lag, sem er annars vinsælt í glaðværri útsetningu, var orðið að angurværum tregasöng. Það rifjaðist upp fyrir mér þegar Ási söng kvæðið fyrir okkur tvíburana í júníbyrjun 1967 og sagði að þetta væri enginn gleðisöngur heldur harmþrungið lag. Því miður voru engin tök á að flytja ljóðið á tónleikum sem við Gísli héldum þá um sumarið, en lagið fluttum við undir heitinu Stúlkan frá Víetnam.

Fréttaaukanum ásamt öðrum lögum var vel fagnað. Á eftir spurði einn tónleikagesturinn mig hvort ég vissi hver höfundur Fréttaaukans væri og greindi ég honum frá því. Var það vel að menn vissu það ekki svo gjörla því að höfundurinn þolir orðið illa of mikla athygli.

Væntanlegur geisladiskur með Eyjalögunum verður einhver mesta perla sem gefin hefur verið út með slíku efni og má vænta þess að Vestmannaeyingar ásamt öðrum Íslendingum taki honum fagnandi.


Carmina - Kórtónleikar á heims mæikvarða

Það er ástæðulaust að fjölyrða um tónleika kórsins Carmínu sem Árni Heimir Ingófsson stjórnaði í Dómkirkju Krists konungs í Landakoti í dag. Kórinn flutti nokkur verk helguð Máríu mey sem flest voru eftir meistara endurreisnartímans og tvö úr íslenskum handritum. Flutningurinn var nær hnökralaus, fágaður og andríkur. Kórinn var sem hljóðfæri í höndum meistara er þekkti efniviðinn til hlítar.

Mér varð til þess hugsað hvílíkri arfleifð Ingólfur Guðbrandsson skilaði Íslendingum. Dætur hans eru lista hljóðfæraleikarar og Þorgerður og Árni Heimir frábærir kórstjórar.

Tónninn í kórnum var eftirtektarverður. Samræmi millum raddanna var slíkt að ég hef sennilega aldrei áður heyrt annað eins hér á landi og sennilega hvergi þar sem ég hef verið á tónleikum.


Austurríska grænmetishljómsveitin

Hanna G. Sigurðardóttir sletti skemmtilega úr klaufunum á rás 1 í morgun og fræddi hlustendur um Austurrísku grænmetishljómsveitina. Slóðin er hér:

http://www.gemueseorchester.org/

Límið þessa slóð í vafrann ykkar og njótið þess sem er á síðunni. Öll hljóðfærin eru úr grænmeti. Kokkur er meira að segja hluti hljómsveitarinnar enda er soðin súpa úr hljóðfærunum eftir tónleika og gestum gefið að bragða á góðgætinu. Halda menn svo syngjandi sælir og glaðir heim til sín.

Ég heyrði fyrst um þessa hljómsveit austur í Beijing fyrir 6 árm. Hún hélt þar tónleika og vakti fádæma athygli. Ég trúði vart eigin eyrum þegar ég heyrði fjálglegar lýsingar kínverska fréttamannsins á tónleikunum.

Ef leitað er að orðunum grænmeti, hljómseit og Austurríki (vitanlega á ensku) á netinu kemur í ljós að hljómsveitin, sem var stofnuð árið 1998, hefur orðið ýmsum fyrirmynd slíkra hljómsveita.

Nú ættu íslenskir grænmetisbændur að bjóða þessari hljómsveit hingað til lands og efna til stórtónleika. Í kjölfarið væri hægt að fara í stórátak í sölu grænmetis og kenna Íslendingum að búa til hljóðfæri úr gúrkum og gulrótum. Gulrófur hljóta að hljóma vel séu þær rétt meðhöndlaðar og á sumrin má framleiða hin unaðslegustu hljóð úr hundasúrum, hvönn og njóla. Þar sem notaðir eru hljóðnemar þegar tónlistin er flutt má hafa alls kyns skemmtan í frammi eins og að bryðja gulrófur, smjatta á sölvum, tyggja epli og hvítkál með ýmsum tónbrigðum, smjatta á hreðkum o.s.frv. Hubmyndirnar eru með öðrum orðum óþrjotandi.


Jón Leifs - líf í tónum

Í nótt lauk ég við að lesa ævisögu Jóns Leifs, tónskálds, sem Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarfræðingur, ritaði. Bókin byggir á umfangsmiklum rannsóknum höfundarinis á ævi tónskáldsins og hefur verið leitað víða fanga.

Ævisagan er hlutlæg úttekt á ævi og athöfnum Jóns, skaphöfn hans, samskiptum við ættingja sína, samstarfsmenn og yfiröld á Íslandi, Þýskalandi, Norðurlöndum og jafnvel víðar. Fátt virðist dregið undan og Jóni lítt hlíft.

Þótt Árni Heimir dragi upp allóvægna mynd af tónskáldinu leitast hann við að kynna hinar mýkri hliðar hans. Niðurstaðan er margbreytileg og flókin persóna sem hefur sennilega átt við geðræn vandamál að stríða. Vitnar Árni þar til umsagnar Helga Tómassonar, geðlæknis, en getur þess um leið að dómar Helga hafi stundum þótt orka tvímælis. Jón virðist sjálfur hafa tekið mark á niðurstöðum geðlæknisins og fer Jón ofan í saumana á skilgreiningu hans, en hann hafði haft áhyggjur af geðheilsu sinni á ungaaldri.

Þótt ævisagan sé harmræn stendur Jón þó uppi sem sigurvegari í lokin, sigurvegari er sá aldrei drauma sína rætast, mikils metið tónskáld víða um lönd.

Tvær ævisögur þykist ég hafa lesið að undanförnu sem skara fram úr - ævisögu Lárusar Pálssonar og Jóns Leifs. Bækurnar eru ólíkar enda mennirnir gjörólíkir. Árna Heimi hefur tekist svo vel ritun þessarar ævisögu að hún hlýtur um langan aldur að teljast á meðal hins besta sem ritað hefur verið á íslenska tungu á þessu sviði. Málfarið er vandað, stíllinn ljós og þekking höfundarins með ágætum. Samfélagssýnin er skörp og gagnrýnin á stundum hárbeitt.

Árni Heimir hefur orðið þekktur fyrir skrif sín um tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en hann ritstýrir tónleikaskrá hennar. Lýsingar hans á uppbyggingu tónverkanna er markviss og bætir ævinlega skilning fólks á viðfangsefni hljómsveitarinnar. Hið sama er upp á teningnum í ævisögu Jóns. Hann brýtur tónverkin til mergjar svo að fáir hafa gert það betur.

Ég þekki mörg verka Jóns og sum þeirra finnast mér á meðal hins besta sem samið hefur verið hérá landi. Kantatan Þjóðhvöt, Minni Íslands og hlutar Sögusinfóníunnar eru þar á meðal auk orgelkonsertsins se er magnaður. Ég hlustaði á Minni Íslands eftir að hafa lesið ríflega helming ævisögunnar. Þótt ég nyti tónverksins gat ég ekki annað en varist hlátri þegar ég gerði mér grein fyrir þjóðrembu Jóns og skyldleika hennar við ýmislegt sem aðhafst hefur verið á þessu sviði víða um lönd. Jón tróð alls staðar lögunum Ísland farsældarfrón og Hani, krummi, hundur svín, inn í verk sín þar sem hann kom því við og stíllin leyfði Urðu því sum tónverkin dálítið sérvitringsleg. Þetta gerðu kínversk tónskáld fyrst eftir byltingunna og allt til þess að menningarbyltingunni lauk. Austrið er rautt var hvarvetna ásamt nokkrum byltingarsöngvum öðrum. Lék ég mér stundum að því að leita að stefinu Austrið er rautt í einstökum tónverkum frá þessum tíma og oftast leyndist stefið einhvers staðar.

Þá er með ólíkindum að Jóni skyldi láta sér fljúga í hug að lag sitt við Rís þú unga Íslands merki gæti orðið þjóðsöngur Íslendinga. Hann virðist ekki hafa skynjað að tilranir hans til þess að skapa þjóðlegan stíl voru að mörgu leyti víðs fjærri íslenskum þjóðlögum og þeirri tónlist sem var í hávegum höfð framan af 20. öldinni. Þetta kom gleggst fram í viðtali Þorkels Sigurbjörnssonar, sem útvarpað var í febrúar 1968. Ég minnist þess enn hversu hissa ég varð þegar ég heyrði viðtalið og skynjaði um leið að Ríkisútvarpið væri svo víðsýn stofnun að menn gætu látið skömmunum rigna yfir andstæðinga sína ef þeim byði svo við að horfa.

Ævisaga Jóns Leifs hefði væntanlega orðið öðruvísi hefði hún verð rituð á meðan hann lifði. Ekki verður annað séð en dómur Árna Heimis sé sanngjarn, bæði um Jón sjálfan, tónlistina og samferðamenn hans. fáir hafa fetað í fótspor Jóns og ekkert íslenskt tónskáld hefur samið jafnsérviskuleg tónverk. Jón Ásgeirsson nýtir sér ýmislegt úr stefnu nafna síns en fer allt aðrar brautir. Honum og Jóni Leifs er þó sameiginleg að sömu stefjabrotin birtast í fleira en einu tónverki.

Til hamingju með vel unnið verk, Árni Heimir.


Franskt byltingarskáld birtist íslenskum byltingarsinna í draumi

Á bloggsíðunni http://hljod.blog.is birtist athyglisverð frásögn Þorvalds Þorvaldssonar af því er höfundur Alþjóðasöngs verkalýðsins birtist honum í draumi fyrir skömmu og fann að því að öll 6 erindi ljóðsins væru ekki sungin. Einnig er hljóðrit af frumflutningi þýðingarinnar í Heiðmörk 15. júní síðastliðinn.


Corneliusarkvöld í Norræna húsinu

Það var indælt að eyða föstudagskvöldinu í Norræna húsinu þar sem þau Guðrún Gunnarsdóttir og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson fluttu lög og texta Corneliusar Vreeswijk, en Aðalsteinn hefur þýtt ljóð hans af stakri snilld. Guðrún söng ein flest laganna en Aðalsteinn Ásberg rakti sögu vísnasöngvarans. Undir léku þeir Jón Rafnsson á bassa og Gunnar Gunarsson á flygil. Flutningur þeirra var vel samhæfður, skemmtilegur, fágaður og listrænn.

Það er merkilegt hvað ýmsar fyllibyttur marka djúp spor í menningarsöguna og hlutur þeirra verður einna mestur eftir dauðann, en þá verður líf þeirra og list að einni órofaheild. Aðalsteini og Guðrúnu tókst einkar vel að flétta saman söguþráðinn og textanna og hlustendur fylgdust með lífshlaupi vísnaskáldsins sem endaði þannig að eyðingarhvötin sigraði.

Óhætt er að mæla með þessari ljúfu skemmtun. Þeir, sem voru hrifnir af söng og túlkun Corneliusar heyra allt aðra túlkun laganna og ekki síðri. Í flutningi þeirra fjórmenninganna kemur greinilega fram snilld Corneliusar Vreeswijk, en lög hans og textar þola mætavel að aðrir flytji þau en hann. Sjálfum þótti mér hann afleitur söngvari í flestum lögum sínum en viðurkenni fúslega að lögin stóðu fyrir sínu. Það er reyndar svo að ýmsir vísna- og lagahöfundar hafa sungið lög sín og ljóð illa og jafnvel leikið enn verr undir á gítar. Samt heilluðu þeir áheyrendur og lög þeirra og textar heilla fólk jafnvel enn meir þegar aðrir faraum þau höndum.

Ekki er með neinu móti hægt að segja að þau fjórmenningarnir feti slóð Corneliusar Vreesvijkur í túlkun sinni. Það er reyndar best. Annars hefði orðið um stælingu að ræða.


Víkingur Heiðar og Dan Rank - snilldarflutningur

Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína að Víkingur Heiðar Ólafsson sé einn minna uppáhaldshljóðfæraleikara, pilturinn sem Atli Heimur sagði að hefði aldrei verið efnilegur heldur snillingur.

Í dag sendi Ríkisútvarpið út hljóðritun frá tónleikum píanóleikaranna Víkings Heiðars Ólafssonar og Ran Danks í Tíbrá, tónleikaröð Salarins 9. janúar sl. Á efnisskrá voru: Kontrapunktur nr. 1 úr Fúgulistinni BWV 1080 eftir Johann Sebastian Bach.

Sónata í D-dúr K. 381 eftir Wolfgang Amadeus Mozart.

Lindaraja eftir Claude Debussy.

La Valse eftir Maurice Ravel.

Paganini tilbrigði eftir Witold Lutoslawskíj.

Fjögur lög úr Norður-Múlasýslu eftir Snorra Sigfús Birgisson.

Libertango eftir Astor Piazzolla.

Forleikurinn að Leðurblökunni eftir Johann Strauss.

Umsjón: Una Margrét Jónsdóttir.

Tónleikana má finna á slóðinni

http://dagskra.ruv.is/ras1/4517132/2010/02/14/

Túlkun þeirra félaga á verkunum var einstök og lífsgleðin lýsti sér greinilega. Þetta hljóðrit er eitt hinna miklu meistaraverka sem Ríkisútvarpið hefur skilað hustendum sínum og gott til þess að vita að hægt verði að hlusta á það á vefnum næstu vikurnar.


Skemmtilegt hljóðrit

Ríkisútvarpið, sem verður áttrætt á þessu ári, skartaði sínu fegursta eftir áramótaávarp forsetans og útvarpaði klarinettukonsert Jóns Ásgeirssonar, sem hann samdi handa Einari Jóhannessyni.

Ég hef fylgst með tónlistariðkun Jóns frá því á 7. áratugnum. Þá var hann með þjóðlagaþætti á kvöldvökum útvarpsins og kynnti þá m.a. lagið Krummi krunkar úti sem fór sigurför um landið á örskotshraða.

Klarinettukonsert Jóns Ásgeirssonar á ættir að rekja til þeirrar þróunar sem ég varð fyrst var við í tónverkinu Þjóðvísu sem m.a. var flutt á norrænni tónlistarhátíð árið 1967. Fullmótuð birtist þessi tónnsköpun í óperunni Þrymskviðu sem sýnd var í Þjóðleikhúsinu árið 1974. Skyldust Þrymskviðu eru konsertarhans fyrir trompet, horn og nú síðast klarinett. Þetta gengur jafnvel svo langt að Jón notar heilu stefin sem birtust í Þrymskviðu og fornum dönsum. Má þar m.a. nefna upphaf þriðja þáttar óperunnar þar sem Þrymur syngur glaðhlakkalega og lofar eigið ágæti.

Þótt Jón moði þannig úr eigin stefjum og þjóðlögum verður það einhvern veginn ekki leiðigjarnt. En stíllinn er augljós.

Ríkisútvarpið ætti að gera tónlist íslenskra tónskálda aðgengilega. Með nútíma verslunartækni ætti að vera hægt að selja áhugasömu fólki mp3-afrit tónverka og sönglaga og hjálpa tónelsku fólki að eignast þannig safn íslenskra tónlistar sem ekki hefur verið gefin út á hljómdiskum.

Jón Ásgeirsson er ekki dauður úr öllum æðum og vænta má fleiri konserta úr hendi hans. Ég hlakka til að heyra hvað þeir bera í brunni sér.

Gleðilegt ár.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband